þriðjudagur, janúar 04, 2005

Topp 2

Ég klikkaði að mestu á því að vera almennilega ástfanginn síðasta ár. Það var mikill synd enda sá ég tvær af fjórum rómantískustu bíómyndum sem ég hef séð um ævina á árinu. Því er þetta í mínum huga frekar ár ástarsögunnar en heimildarmyndarinnar. Vegna þess að ólíkt því sem margir halda þá eru ástarsögur í bíó ótrúlega sjaldgæfar. Rómantískar gamanmyndir, one per week. Melódrama nokkuð algengt líka. En þar eru annað hvort skoplegir atburðir eða áföll og hörmungar notuð til þess að keyra ástarsöguna áfram. Það getur komið ágætlega út en í raunveruleikanum fara flest ástarævintýri fram án mikilla ytri átaka, flest ástarsambönd snúast um átök eða sættir inná við, á milli elskendanna tveggja. Virkar ekki gott efni í bíómynd, eða öllu heldur; þetta er ofboðslega flókið efni til þess að gefa skil í skáldskap án þess að hafa sprengjur, sniðugar aukapersónur eða krabbamein mánaðarins til þess að stytta stundirnar inná milli. En það er hægt, það er nefnilega allt hægt í bíó. Það sannaðist í ár.

Fyrst:

Eternal Sunshine of the Spotless Mind

Síðasta ástarsaga í heimi fær maður á tilfinninguna á köflum. Hin fullkomna ástarsaga fyrir jafn ófullkomna tíma og okkar tímar eru. Hérna er kafað í höfuð aðalpersónunnar um leið og hann kafar sjálfur – eða öllu heldur, það er kafað fyrir hann. En hann vill á endanum ekki að aðrir kafi fyrir hann. Hann vill ráða sínum minningum sjálfur, sorgin er eitthvað sem hann á, það er ekki hægt að panta fyrirtæki út í bæ til að sjá um ástarlífið fyrir þig. Sorrí Djúpa laug en þetta gerist ekki eftir formúlu. En um leið og við finnum hvernig Joel og Clementine geta sært hvort annað finnum við hversu mikilvæg þau eru hvort öðru. Auðvitað gæti ég haldið langa tölu um hversu plottið er frábært og hugmyndaríkt en þrátt fyrir það er það allt aðeins krydd fyrir þessa ástarsögu sem þrátt fyrir vísindaskáldsögulega umgjörðina virkar hversdagslegri og sannari en flestar aðrar. Þessu til viðbótar má nefna að á einhvern einkennilegan hátt varð myndin til þess að ég lét verða að því að hoppa uppí flugvél og ferðast hringinn um Bretlandseyjar, en það er önnur saga og önnur færsla ef ég kem mér einhvern tímann að því. Ef ekki, bara kafli í ævisögunni.

En ég sagði að þessar tvær bestu myndir ársins væru tvær af fjórum rómantískustu myndum sem ég hefði séð. Hverjar eru þá hinar tvær? Casablanca, augljóslega, og Before Sunrise. Gangandi um Vínarborg, týna sér í borgum heimsins og verða ástfanginn um leið.

Before Sunset

Játning: Before Sunrise er mynd lífs míns. Svo bætist þessi við og örlögin eru ráðin, á einhvern einkennilegan hátt hefur allt mitt flakk tengst þessum myndum órjúfanlegum og illskiljanlegum böndum. Nei, ég hef að vísu ekki ennþá hitt franska stelpu í lest og numið hana á brott – en allt hitt rímar. Franska þokkadísin væntanlega bara tímaspursmál. Shakespeare & co., garðurinn í Vínarborg, lestir sem sigla á sálarhraða, hversu fjarlægar hugsjónirnar, draumarnir, virðast stundum með aldrinum, heimspekin, ástin – allt rímar þetta á einhvern einkennilegan hátt sem ég mun seint geta útskýrt. Ekki frekar en maður getur útskýrt ástina almennilega.
En í sameiningu segja þessar myndir allt sem skiptir máli um ástina og lífið, þangað til að þriðja myndin kemur og maður áttar sig á hvað vantaði. Bjartsýni og stóreyg ungmennin frá fyrstu myndinni eru nú kominn yfir þrítugt, þau hafa lifað. Það er engin fjöður dregin yfir það. En það er tekið á því af virðingu, engin ódýr kaldhæðni, frekar, hvað sú brynja sem kaldhæðnin og rökvísin geta verið þungar að bera. Við erum samt svo ósköp gjörn á að klæðast þeim. Hvers vegna? Því eitt sinn vorum við börn, svo lærðum við að ljúga. Lífið var of erfitt þegar það var satt. Heimurinn vill ekki hlusta á sannleikann um sjálfan sig, ef þú lýgur nógu mikið hækka hlutabréfin í þér og þú meikar það. En sannleikurinn, vissulega er hægt að meika það á honum. En það er bara svo fjári grýtt leið að honum, hindranirnar svo margar, að margir verða úti. Eða flýja. Linklater, Hawke og Delpy flýja aldrei. Ást snýst nefnilega fyrst og fremst um hugrekki. Sannleikurinn sömuleiðis. Það að týna sér í tveimur af mestu galdraborgum Evrópu, borgum með sál aldanna í gangstéttarhellunum, er svo ómetanlegur bónus fyrir þennan flakkara sem geymir sálina ávallt annars staðar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home