sunnudagur, janúar 02, 2005

Topp 10:

Myndirnar eru í tilviljunarkenndri röð, nema að af þessum fannst mér tvær bera af. Þannig að inná topp tíu listanum er topp tvö listi. En ekki hvað? Dröslast bara til að númera þetta? Nei, nenni því ómögulega, nógu sársaukafullt að skera þetta niður í tíu. Byrjum svo á þessum tveim ...

Harry Potter and the Prisoner of Azkaban

Ég sá fyrstu tvær út af þessari. Hef ekki lesið bækurnar en hafði aldrei áhuga á fyrstu tveimur af því að Chris Columbus leikstýrði þeim. Hann gerir ekki beint vondar myndir, meira svona paint-by-numbers. Og fyrstu tvær eru svosem ágætar – en þar hefur maður sterklega á tilfinningunni að það sé allt sögunum sjálfum að þakka. En sú þriðja er virkilega að virka sem bíómynd. Alfonso Cuarón tekst að skapa þann töfraheim sem svona saga þarf, töfraheim sem er í einkennilega sterkum tengslum við veruleikann. Brellurnar virka ekta, David Thewlis er hreint stórfenglegur í hlutverki eins kennarans og flækjan heillandi. Og þó Rowling eigi vissulega mikinn heiður skilin hér sem og fyrir annað tengt Harry Potter þá sést vel hér hve leikstjórinn er ávallt mikilvægur sérhverri bíómynd. Númer fjögur er leikstýrð af Mike Newell, mjög fínum leikstjóra þó hann sé ekki sá meistari sem Cuarón er – en miklu betri kostur þó en iðnaðarmaðurinn Columbus.

Jargo

Hér var um nokkuð sérstakan ástarferhyrning að ræða – tveir strákar kynnast í Þýskalandi og verða vinir. Jargo er þýskur en hefur búið í Saudi Arabíu mest sitt líf, Kamil er af tyrkneskum ættum en hefur ávallt búið í Þýskalandi. En þrátt fyrir þetta samhengi þá er hér fyrst og fremst um klassíska og ofboðslega vel gerða þroskasögu að ræða, minnir töluvert á Fucking Amal í þeim efnum, tvær sannanir þess að unglingar eiga skildar fleiri góðar myndir um sig – það er nefnilega gaman fyrir okkur eilífðarunglingana að horfa á þær líka. Hér má líka finna frumlegustu og fallegustu kynlífssenu ársins, látum nægja að segja að litir komi þar við sögu í skemmtilega bókstaflegum skilningi. En Jargo verður að manni í myndinni, ekki endilega þannig að hann þroskist, aðeins það að hann missi sakleysið. Það að missa sakleysið er vel að merkja engu sársaukaminna en að missa handlegg, missa þessa óbifandi trú á að heimurinn sé eftir allt saman góður. Einhverjir hafa sakað myndina um að ala á stereótýpum, það hvernig Kamil svíkur Jargo og virðist vera nálægt því að breytast í brjálæðing undir lokin. En það er ákveðinn misskilningur þar á ferð í raun. Það er nefnilega oft einhver fótur fyrir steríótýpum. Ekki að þær séu sannar, alls ekki, en sumir Tyrkir eru vondir og allir breyskir, rétt eins og aðrir þjóðflokkar. Einhverjir láta þá staðreynd að steríótýpan á við suma telja sér trú um að hún eigi við alla, það er einhvern veginn einfaldara, sársaukaminna. Stimpla bara fólk frekar en að vera alltaf að meta það að verðleikum. Þetta virðist pabbi Kamils því miður hafa gert. Undir lokin stendur Kamil í sömu sporum en hefur hann styrk til þess að verða ekki eins og pabbinn?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home