sunnudagur, febrúar 27, 2005

Besta "erlenda" mynd

Hafið í mér (Mar adentro) – Alejandro Amenábar, Spánn
Kórinn (Les Choristes) – Christophe Barratier, Frakkland
Fallið (Der Untergang) – Oliver Hirschbiegel, Þýskaland
Svo sem á himni (Så sam i himmelen) – Kay Pollak, Svíþjóð
Í gær (Yesterday) – Darrell Roodt, Suður-Afríka

Eða öllu heldur mynd á öðru máli en ensku. Alltaf gaman að því þegar íslendingar vonast eftir að okkar myndir verði tilnefndar sem "Besta erlenda mynd" - og segir vissulega ákveðna sögu. En vegur ekki-enskra mynda hefur farið vaxandi hjá akademíunni undanfarin ár, núna er engin mynd í toppbaráttunni eins og Il Postino, La Vita e Belle, Skríðandi tígur ... og Amelíe hafa verið undanfarin ár - hins vegar er mikið af "erlendum" myndum með tilnefningar í hinum flokkunum þó það dreifist óvenju mikið. Þar á meðal er Trúlofunin langa eftir meistarann mikla Jean-Pierre Jeunet sem svo sorglega var dæmd ófrönsk af mönnum sem ættgreina hluti eftir peningum. Því til viðbótar virðast Svíar vera afskaplega illa við sinn meistara, Lukas Moodyson, og því eru slarkfær frönsk mynd og sænsk mynd sem mig grunar að falli í sama flokk tilnefndar á meðan meistararnir sitja heima. Já, ef þú ert ekki spámaður í eigin föðurlandi geturðu ekki heldur verið spámaður í Hollywood. Skrítinn heimur.

En að þeim sem eru tilnefndar. Hin þýska Der Untergang, um síðustu daga Hitlers, er ræma sem maður bíður spenntur eftir. Sérstaklega þar sem Bruno Ganz, sem lék eftirminnilegasta engil kvikmyndasögunnar, leikur hér eftirminnilegasta djöful mannkynssögunnar. Bara þetta öfugsnúna leikaraval sýnir að hér er eittvað einstakt á ferðinni. Tvær myndir er þegar búið að sýna hér. Kórinn er ágæt en blessunarlega hafa Spánverjar það fram yfir Frakka og Svía að kunna að meta sinn meistara. Amenábar átti ágæta ferð til Hollywood með The Others, sú var þó aldrei jafn sterk og meistarastykkið Obre los Ojos - og hér er hann kominn aftur til Spánar og aftur í toppform. Það segir manni mikið um hve mikill talent Amenábar er þegar honum tekst að gera virkilega cinematískt verk úr sögu manns sem liggur rúmfastur alla myndina.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home