þriðjudagur, mars 08, 2005

Rektorskosningar

Vandamálið við þessar rektorskosningar fyrir okkur nemendurna er klassískt, fæst þekkjum við þessa frambjóðendur neitt fyrir. Nema þeir sem muna eftir Ágústi í pólitíkinni. Utan þess er helst að maður þekki eitthvað til þeirra sem eru við manns eigin deild, hámark einn sem sagt, og ég þekki satt best að segja Jón Torfa ekkert eftir eins og hálfs annar nám í Félagsvísindadeild. Tek samt fram að þar sem ég er í þverfaglegu námi lít ég enn á mig sem heimspekideildarnemanda inn við beinið.

En þá er best að kíkja á stefnumálin, ef við lítum fyrst á þær níu spurningar sem lagðar eru fyrir rektorsefnin á heimasíðu HÍ hérna:

Fyrsta spurningin fjallar um hvað sé brýnast að gera í málefnum HÍ?
Kristín hefur vinninginn hér, hinir gala allir sama söng um það sem allir (nema stjórnvöld landsins) vita.

Næst er vikið af skólagjöldum sem allir eru á móti, mismikið þó, en Kristín er sú eina sem þó tekur fram að það megi skoða innra starf HÍ betur.

Þriðja spurningin snýr að húsnæðismálum nemenda og þar fá Jón Torfi og Kristín prik fyrir að setja Háskólatorg í forgang, vissulega er ástæða til þess að bæta aðstöðu flestra ef ekki allra deilda en þó þykir mér húsnæðisaðstaða til kennslu almennt þokkaleg, það er frekar félagslífið í heild sem er á hrakhólum.

Fjórða spurningin fjallar um nýjungar í kennsluháttum HÍ, Ágúst nefnir í raun engar nýjungar, talar aðeins um meiri gæði – en að því er virðist á sömu gömlu forsendunum. Einar ræðir eflingu aðstoðamannakerfis þar sem framhaldsnemar eru ýmist aðstoðarmenn prófessora eða að hjálpa nýnemum. Þetta þykir mér það jákvæðasta í hans kosningabaráttu og hefur hann því vinningin hér þó Kristín hafi ágætis hugmyndir líka.

Fimmta spurningin fjallar um jafnréttismál og þar eru eins og venjulega allir sammála um að eitthvað þurfi að gera – en ef kosning Kristínar væri þó óneitanlega rökréttasta skrefið að þeim markmiðum (aukning kvenna í stjórnunarstöðum) sem allir eru að mæra.

Sjötta spurningin snýst um hvernig skuli efla framhaldsnám og rannsóknir. Kristín virðist ein um að gera sér grein fyrir því að grunnnámið er grunnurinn undir öllu hinu (sbr. orðið sjálft) – eitthvað sem ætti að vera svo augljóst en hinum virðist öllum sjást yfir, enda nefna þeir helst ekki grunnnámið á nafn neins staðar sem ég hef séð – enda hafa atkvæði akademískra starfsmanna 60 % vægi ...

Sjöunda spurningin snýst um leiðir í alþjóðlegu samstarfi og þar eru allir með áhugaverðar hugmyndir nema Jón Torfi sem segir í raun ekki neitt um málið.

Áttunda spurningin snýst um það hvernig efla skuli samkeppnisstöðu HÍ. Hér eru Ágúst og Einar með áhugaverðar pælingar um að það þurfi að kynna með markvissari hætti mikilvægi háskólanáms.

Að lokum eru þau svo spurð hvernig HÍ verði eftir fimm ár nái þau kjöri. Hér er Kristín sú eina sem fellur ekki í þá gryfju að búa til útópíu en af hinum þá fær Einar prik fyrir að gera útópíuna a.m.k. almennilega og stefna bara beina leið á nóbelinn.

Samkvæmt þessu er Kristín langbesti kosturinn, Einar kemur henni næstur, þá Ágúst og Jón Torfi rekur lestina.

Þegar heimasíður rektorsefnanna voru skoðaðar breyttist skoðun mín á þeim almennt ekki mikið, Kristín er á sömu slóðum og í spurningunum og sömuleiðis Ágúst – þó þegar maður rifjar upp að hann gaf nýlega út Hagræn áhrif tónlistar þá eykur það trú manna á að hann sé ekki alveg fastur í allri viðskiptafræðivitleysunni. Einar er sömuleiðis á sömu slóðum ef eitt stórt atriði er undanskilið; hann virðist fylgjandi styttingu náms í framhaldsskóla og vill styttingu náms í grunnskóla til viðbótar. Það þykir mér bera vott um afar grunnan skilning á menntamálum þjóðarinnar sem verður einfaldlega til þess að ég get ekki hugsað mér að kjósa hann. Það að vera fylgjandi styttingu náms í framhaldsskóla er nefnilega einhver sú bjánalegasta og grunnhygnasta skoðun sem hægt er að hafa í íslenskri pólitík, það að vera fylgjandi skólagjöldum til dæmis er eitthvað sem alveg má færa rök fyrir en þessi vitleysa, hnuss segi ég bara.

Jón Torfi er hins vegar með ýmsar ágætis pælingar um menntun og þá er hann með hugmynd sem ég hef alltaf furðað mig á að sé ekki orðin að raunveruleika fyrir löngu – að sem flest lokaverkefni stúdenta fari beint á netið, væntanlega að fengnu samþykki þeirra, frekar en að rotna í bókhlöðunni. Þá minnist hann aðeins á starfsþjálfun sem og félagsaðstaða stúdenta sem er jákvætt. Hann skorar því töluvert hærra hér en í spurningunum níu – en þó kemur hann ekki til greina í mínum huga, einfaldlega af því ég er búin að heyra mjög misjafnar sögur af honum af fyrstu hendi frá fólki sem ég tek mark á. Leiddist Ágúst þegar hann var í pólitíkinni en þó hann hafi eitthvað hækkað í áliti hjá mér síðan (ágætis kúnni í Bóksölunni sko) þá efast ég um að það væri háskólanum hollt að áhrif Viðskiptafræðideildar aukist enn. Hef eiginlega ekkert heyrt um Einar en ágætis hluti um Kristínu, þegar við það bætist að hún hefur vinningin í stefnumálum og er frá það lítilli deild að það ætti ekki að skekkja stefnu hennar í heildarmálefnum HÍ.

Semsagt, Kristínu Ingólfsdóttur sem rektor!

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Húrra! :D

Og ég held að þú hafir gert mörgum lötum háskólanemanum þjónustu með því að nenna að gera svona úttekt ;)

8:07 e.h.  
Blogger Ásgeir said...

Já, annars hefði ég þurft að eyða kvöldinu í að læra ...

11:57 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home