mánudagur, janúar 03, 2005

Topp 10

Starsky & Hutch

Yndisleg vitleysa. Alveg unaðsleg. Þessi mynd er einhver mesta klisjusúpa sem ég hef nokkurn tímann séð, en hún er svo yndislega fyndin, það skemmta sér allir svo vel við að gera hana – og svo eru Ben Stiller og Owen Wilson í aðalhlutverkum. Þeir tveir að lesa upp úr símaskránni yrði einfaldlega bíóupplifun og þar sem handritið er klárt þá legg ég til að þeir drífi bara í því.

The Incredibles

Þó Pixarmyndirnar hafi alltaf verið góðar þá hefur mér þær vera farnar að vera hættulega formúlukenndar. Þangað til hinir Ótrúlegu komu og hristu rækilega uppí formúlunni, ferskasta teiknimynd síðan ég veit ekki hvenær, aðeins Toy Story kemst nálægt henni af Pixar-myndunum. Aldrei þessu vant er aðeins einn leikstjóri, Brad Bird, sem gerði The Iron Giant sem ég á því miður óséða, teiknimynd sem var víst á allt öðrum forsendum en árleg útlegg Disney, Pixar og Dreamworks. Þessi mynd hefur alveg sérstaka áferð, þrátt fyrir tölvuteiknunina virkar hún eins skemmtilega og notalega gamaldags á köflum. Svona smá film noir teiknisöguhetju stemmning í upphafi. Svo er hún svo fjandi vel skrifuð og endalaust skemmtileg, húmorísk og uppfinnningarík. Það besta er þó merkilegt nokk móralinn; boðskapur sem enginn hefur hingað til þorað að nefna – það er meðalmennskan sem er að fara með hinn vestræna heim til andskotans. Survival of the fittest hefur verið ranglega þýtt á okkar ylhýra sem hinir hæfustu lifa af – en hér merkir fittest í raun þeir sem passa best inní rammann, meðaljónarnir. Ef hinir hæfustu lifðu af þá væri til dæmis einhver annar í Hvíta húsinu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home