fimmtudagur, apríl 28, 2005

Dansið, komið uppá borð og dansið

... sagði Eva Braun á meðan sprengjurnar féllu. Og því ekki að dansa? Dansa yfir því að hafa lagt Evrópu í rúst, dansa yfir því að vera að fara að giftast manninum sem er aðalpersóna sjálfrar mannkynssögunnar. Dansa yfir því að loksins, loksins, séu sprengjurnar að falla á þau sjálf.
Eva dansar ekki lengur. Lengi vel kunnu Þjóðverjar ekki almennilega við að dansa, þeim fannst það óviðeigandi, þeir sáu allir fyrir sér Evu uppá borði á meðan sprengjurnar féllu. Yfir þeim var skuggi vatnsgreiddu hershöfðingjanna sem horfðu á þessa litlu blekkingu um veröld sem var. Sjálfir voru þeir alltaf Eva, héldu áfram að dansa þótt undirspilið yrði sífellt ógeðfelldara.
Það er líklega ómögulegt fyrir okkur hin að gera okkur grein fyrir því hversu erfitt það var fyrir Þjóðverja að gera mynd á borð við Hrunið (Der Untergang) – og hversu mikil dáð það er að ná með jafn áhrifamiklum hætti að kafa þangað sem fæstir eru tilbúnir að kafa – í það minnsta hjá sjálfum sér. Það er engin persóna í myndinni illskiljanlegri en Eva, örfá ómenni eru líka miklu skiljanlegri heldur en það hvernig þeim tókst að fá heila þjóð til að fylgja sér.
Ég var forvitinn að sjá hvernig Bruno Ganz, maðurinn sem ég þekki svo vel sem engill, myndi virka á mig í þessari mynd. En Damiel er hér hvergi nærri, orðið óþekkjanlegur er ofnotað um leikara en það á við hér. Frammistaða hans er svo mögnuð, svo útpæld, að ég fór að velta fyrir mér hvort Hitler hefði verið háður morfíni – sem virðist hafa verið raunin. Hann er vissulega ekki útmálaður sem algjört skrímsli en þó er sú staðreynd hve mörgum verðum umrætt um að hér sé loksins kominn „hinn mennski Hitler“ umhugsunarverð því þótt við fáum að sjá einstaka dæmi um að einhvers staðar þarna inni hafi bærst hjarta sem átti það til að klappa hundum og vera almennilegur við börn og konur þá er hann þó fyrst og fremst illfygli sem óskar eigin fólki ömurlegs dauðdaga, er algjörlega veruleikafirrtur og ofsóknarbrjálaður og fullur af hatri sem engin einasta bíómynd eða mannkynssögubók munu nokkru sinni ná að skýra til fulls. En fyrst þetta er sá Hitler sem birtist í myndinni hvers konar skrímsli bjóst fólk eiginlega við að sjá? Godzillu með yfirvaraskegg?
En aðalhutverk myndarinnar er þó í raun Alexandra Maria Lara sem Traudl Junge, einkaritari Hitlers. Hún er gullfalleg, falleg á þennan tæra, saklausa hátt. Allt í fari hennar, fasið, þær hugsanir hennar sem við fáum að heyra, hvernig hún sinnir börnunum, já, hreinlega allt bendir ekki til neins annars en að þetta sé hin vænsta stúlka, góðmennskan uppmáluð. Allir röntgengeislar sem maður beytir á hana leiða sömu niðurstöðu í ljós, það er ekki til vont bein í henni. En einmitt þess vegna er hún hinn raunverulegi illvirki. Það var hún sem stóð hjá öll þessi ár og gerði ekki neitt. Hún og þýska þjóðin. Það verða alltaf til rotnir litlir menn eins og Hitler og hans næstráðendur voru. En það er fyrst þegar hinir góðu hafa ekki dug í sér til þess að hindra að þeir vaði uppi sem þeir verða hættulegir.
--------------------------
Hér er rétt að staldra við og minnast annarar myndar um Seinni heimstyrjöldina, þá sem líklega kom fyrst upp í hugann áður en þessi kom til sögunnar. Schindler’s List. Hún var sýnd hérlendis árið 1994. Ég man vel eftir því. Ég man þegar ég labbaði heim úr bíóinu, uppveðraður, sjálfsagt uppfullur af hugmyndum um að breyta heiminum og allt það svo svona nokkuð endurtæki sig ekki. Enda var mikið fjallað um Schindler’s List þetta ár. Hún átti það líka alveg skilið. Mögnuð bíómynd sem er í hugum margra hin endanlega sýn á helförina. Hálfrar aldar gömul hrollvekja öðlaðist nýtt líf, réttilega, því ekki mátti hún gleymast. En á meðan vorum við þegar byrjuð að gleyma annari helför. Á meðan heimurinn var upptekin við að rifja upp hversu grimmir forfeður okkar höfðu verið þá var annar Schindler, Paul Rusesabagina, að reyna að bjarga sínu fólki frá helför á keimlíkan hátt og Oskar kollegi hans hafði gert hálfri öld fyrr. En heiminum stóð á sama og virðist ekki vera að ranka við sér fyrr en núna, tíu árum seinna, þegar það er loksins kominn bíómynd um atburðina. Hotel Rwanda fjallar um hótel sem er vin í eyðimörkinni – svo langt sem það nær – í helför þeirri sem átti sér stað á hundrað dögum í Rúanda fyrir rúmum áratug. Áttahundruðþúsund manns látnir á þetta stuttum tíma sýnir að þessi helför er vel samkeppnisfær við nasistana – en þetta eru jú bara negrar. Ekki einu sinni það, eða eins og fulltrúi Sameinuðu þjóðanna orðar það þegar það er endanlega ljóst að heiminum er sama: „You're dirt. We think you're dirt, Paul ... The West, all the superpowers ... They think you're dirt. They think you're dung ... You're not even a nigger. You're African.“ Þetta er ekki skúrkur sem segir þetta. Aðeins einn af þeim fáu vesturlandabúum sem þorir að segja það sem við hugsum. Og fyrirlítur sjálfan sig fyrir það.
Myndin hlífir okkur ekki. Þá meina ég ekki að það sé mikið sýnt, svo er ekki þó ákveðanar senur séu all hrikalegar þá fer myndin mest fram á hótelinu þar sem aðeins ógnin ríkir en ekki dauðinn sjálfur, hann er á götunni. En hún þorir að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Í staðinn fyrir að segja „þetta fólk“ þá er sagt niggarar. Í staðinn fyrir að tala um að þjóð okkar eigi engra hagsmuna að gæta (Bob Dole fyrir hönd Bandaríkja Norður Ameríku) er þeim sagt að þeir séu ekki merkilegri en skítur og okkur sé slétt sama. Clinton-stjórnin beitti sér fyrir því að í stað þess að talað yrði um „genocide“ væri talað um „acts of genocide“ – sem vel að merkja þýðir ekki neitt. Meira um þetta hér í mögnuðum dómi Salon.
En hvernig virkar Hotel Rwanda sem bíómynd? Hún virkar. Aðalástæðan er Don Cheadle. Blökkumaður átti vissulega að fá óskarinn á síðustu hátíð – en með fullri virðingu fyrir Jamie Foxx sem er frábær leikari þá fékk vitlaus blökkumaður styttuna. Foxx er frábær sem Ray en myndin dregur hann niður, því myndin er í raun ekki annað en billeg en misheppnuð tilraun til þess að komast að einhverju sem máli skiptir um Ray Charles. Don Cheadle hjálpar Hotel Rwanda að komast að einhverju sem öllu máli skiptir um Paul Rusesabagina og örlög þjóðar hans. Hann gerir það á merkilega hljóðlátan en þó áhrifamikinn hátt. Við sjáum hann breytast úr kattþrifnum hótelstjóra ... og þó, nei, í rauninni er lykillinn sá að hann breytist ekki. Hann lifir af með því einfaldlega að halda áfram að vera góður hótelstjóri. Eini munurinn er að gestirnir eru ekki lengur með kreditkort. En áhrifamesta sena myndarinnar er strax á eftir þeirri senu sem maður hefði haldið að væri hápunkturinn, senu sem var einhver sú óhugnanlegasta sem sést hefur í bíó er fylgt eftir með senu af Paul að binda bindishnút. En það segir allt um stórleik Cheadle að honum tekst að gera seinni senuna ennþá átakanlegri en þá fyrri.
En hvað skildi Paul, hinum raunverulega Paul, finnast um myndina? Þegar fréttamenn ná allhrikalegum myndum við upphaf helfararinnar gleðst Paul og segir mikilvægt að heimurinn fái að sjá hvað er að gerast. Fréttamanninum finnst umræðuefnið óþægilegt en viðurkennir að lokum að líklega gerist ekki annað en það að fólk muldri með sér „en hvað þetta er hræðilegt“ og haldi svo áfram að borða kvöldmatinn sinn.
Rétt eins og við höldum áfram að borða poppkornið okkar eftir myndina? Við höldum öll áfram að borða kvöldmatinn, höldum öll áfram að mæta í vinnuna, höldum öll áfram að halda þessu samfélagi gangandi hvað sem það kostar á meðan önnur samfélög hrynja í þægilegri fjarlægð.

1 Comments:

Blogger Siggi said...

Varðandi Traudl Junge. Pabbi er afskaplega mikill áhugamaður um stríð og hefur séð þær ófáar kvikmyndir og heimildamyndir um þau. Þegar við komum út úr bíóinu þá sagði hann í kaldhæðni að alltaf fyndist einkaritaranum þetta allt svo skrítið, eins og hún hafi ekki verið á staðnum og ekki skilið neitt. Hún sagði þetta út í rauðan dauðann. Eins og þú sagðir þá var hún engu betri en aðrir í kringum hana, í vissum skilningi. -- En úff maður, rosalega er leikkonan falleg! Hún var reyndar með brún augu, sem mér sýndust Junge nú ekki hafa.

Ég kýs að kalla blökkumenn "þeldökka" :-) Mér finnst það einhvernveginn meira viðeigandi.

12:53 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home