föstudagur, júní 11, 2004

Holland - D - riðill

Samanlagðir hæfileikar þessa liðs eru jafnmiklir sjálfsagt og hjá Fransmönnum og Ítölum – en þeim hæfileikum er ansi misskipt á milli vallarhluta. Frammi eru þeir með eintómt stórskotalið, Van Niestelrooy, Roy Makaay, Patrick Kluivert og að auki þykir Pierre van Hoijdoonk einn besti super-sub í heimi, svona ekki ósvipað Solskjær helvítinu, alltaf sterkastur af bekknum. Segir sína sögu að vinur Eiðs Smára, Hasselbaink, situr eftir heima. En þarna eru þó vandamál, menn eru með einhverja komplexa í Niðurlöndum um hverjir þessara manna geti spilað saman og lendingin virðist vera sú að hinn efnilegi miðju/sóknarmaður Ajax Rafael Van Der Vaart spilar aftan við Ruud van sem er þá einn frammi. Það kemur ágætlega út þó vissulega sé sárt að sjá alla þessa hæfileikamenn á tréverkinu. Miðjan er einnig sterk, Edgar Davids genginn í endurnýjun lífdaga hjá Barcelona enda hefur Rijkaard alltaf verið einskonar lærifaðir hans, fyrst sem samherji hjá Ajax og seinna sem aðstoðarþjálfari og seinna aðalþjálfari Hollands. Fyrir framan hann verða svo nokkrir kjúklingar sem flestir hákarlar Evrópu eru á eftir, Arjen Robben sem fer til Chelsea í sumar, Wesley Sneijder hjá Ajax og Andy van Der Meyde sem hefur verið frystur fyrsta tímabilið hjá Inter en verður þrátt fyrir það eftirsóttur í sumar. Þó ætti Advocaat að hafa vit á að fórna einhverjum af þessum strákum á bekkinn til að skapa pláss fyrir Clarence Seedorf sem er nú á hátindi ferils síns og er allt annar og stöðugri leikmaður eftir að hann fór til Milan. Heyrist að vísu að einhver meiðsli gætu komið í veg fyrir það. Markmannshanskarnir eru á van Der Saar sem fyrr, ágætur markmaður sem er almennt talinn besti “fótboltamarkmaður” í heimi, þ.e. sá besti í að koma boltanum í spil og sá öruggasti með boltann á tánum. Þar af leiðandi getur hann oft á tíðum spilað eins og hálfgerður sweeper ef Hollendingar þurfa að fórna öllu í sókn. En það er fátt um fína drætti framan við hann og þar liggur stærsti veikleiki Hollendinga. Jaap Stam er að vísu hörkuvarnarmaður en það sem Philip Cocu, Giovanni van Bronckhorst og Boudewijn Zenden – sem allir eiga ágætis möguleika á að fylla hinar varnarstöðurnar – eiga sameiginlegt er að þeir eru allir miðjumenn að upplagi. Ekki traustvekjandi það og enn verra ef hann fer að veita Frank De Boer möguleika á að byrja inná þó hann sé fyrirliði liðsins, svona rétt áður en hann hverfur á elliheimilið í Katar. Helsta von Hollendinga er því sú að þeir stjórni sínum leikjum þannig að sem minnst reyni á brothætta vörnina, fyrir utan það að eilíf ágreiningsmál sem venjulega koma upp á stórmótum verði í lágmarki.

Spá: Komast áfram en á eftir Tékkum sem þýðir að aftur stoppa Ítalir þá, núna í Fjórðungsúrslitunum.

Lykilmenn: Jaap Staam, Davids og Van Niestelrooy

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home