föstudagur, júní 11, 2004

Tékkland D - riðill

Tékkar eru með hörkulið og þjálfarinn Karel Brückner er klassískur Bóhem, hvíthærður og að sögn rammgöldróttur – galdurinn virðist þó fyrst og fremst vera sá að vera mennskari en flestir herstjórarnir kollegar hans. Þeir eru ekki með jafn marga stjörnuleikmenn og Hollendingar en standa þó væntanlega framar því það eru fáir áberandi veikleikar í liðinu. Markmaðurinn Peter Cech er á leiðinni til Chelsea fyrir dágóða summu og þykir fyllilega standa undir því. Vörnin fyrir framan hann er kannski veikasti hluti liðsins en hefur þó verið ágætlega traust. Bakverðirnir, Marek Jankulovski og Zdenek Grygera, eru sterkir en sá síðarnefndi hefur þó lítið fengið að spila með Ajax í vetur. Félagi hans í Amsterdam, Tomas Galasek, er aftastur á miðjunni, vanmetnasti leikmaður liðsins og sá mikilvægasti að því leitinu að það er enginn almennilega tilbúinn að leysa hann af hólmi ef meiðsli eða leikbönn koma upp. Fyrir framan hann er svo gullnáma Tékkana, miðjumenn á borð við Pavel Nedved, Tomas Rosicky og Karel Poborsky. Svo er tröllið Jan Koller frammi – vandamálið er helst hver spilar með honum. Milan Baros er fyrsti kostur en sá stákur er eilíflega meiddur og fyrir utan hann er ekki um auðugan garð að gresja. Það er í raun aðeins einn annar senter Tékka sem eitthvað kveður af, Vratislav Lokvenc, en hann er álíka tröll og Koller og mun aðallega vera notaður til þess að leysa hann af hólmi, ekki til að spila með honum. Hins vegar er miðjumaðurinn Vladimir Smicer jafn vanur því að spila frammi og þó Liverpoolaðdáendum kunni að þykja það ótrúlegt spilar hann ágætlega oft fyrir Tékka. En liðið gæti komist langt, svo framarlega sem allir haldast heilir. Breiddin er mjög takmörkuð og varamennirnir oft tveim klössum fyrir neðan byrjunarliðsmennina.

Spá: Vinna riðilinn eftir harða keppni við Hollendinga og komast í undanúrslit.

Lykilmenn: Nedved vitanlega ásamt Koller og Rosicky.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home