fimmtudagur, maí 12, 2005

Siðaskrá DV

Siðaskrá DV var kynnt um daginn. Mest er þetta óttalegt miðjumoð en sérstaklega fór það í taugarnar á mér hvernig þeir misnota orðið ritskoðun, orð sem fjölmiðlar ættu fyrstir allra að tryggja að glati ekki gildi sínu. Ritskoðun: „Enginn fær sent afrit af óbirtum fréttum.“ Lesist: Það fær enginn að lesa yfir viðtal við sjálfan sig. Það er ekki ritskoðun að láta lesa yfir fyrir sig. Það er ekki ritskoðun ef ég sendi einhverjum ritgerð sem ég hef klárað útúrsyfjaður eftir vökunótt, það eru vönduð vinnubrögð. Það sama gildir á dagblaði, blaðamaður hefur einfaldlega oftast minna vit á efninu heldur en viðmældandinn enda blaðamenn einatt að hafa samband við meinta sérfræðinga. Ætti ég kannski að taka viðtal við kjarneðlisfræðing og þykjast vita allt um kjarneðlisfræði eftir það þannig að engin ástæða væri til þess að láta hann fara yfir það til að koma í veg fyrir hugsanlegar rangfærslur?
Ég hef tekið þónokkur viðtöl, þegar ég hef sent þau á viðmælanda hefur niðurstaðan einatt orðið sú sama – (ef einhverju er breytt, oftast koma viðtölin óbreytt til baka) yfirlesturinn er báðum til hags, þær breytingar – ef einhverjar eru – sem viðmælendur gera eru iðulega til þess að gera viðtalið mun betra. Fólk sér eitthvað sem það hefði getað orðað betur en blaðamaður treysti sér ekki til að breyta til að forðast þar rangfærslur. Enda líklegt að viðmælandinn sé betur að sér í efninu, það er viðkvæmara ef ég fer að krukka í annarra manna hugsun en mína eigin. Vissulega getur komið fyrir að einhver vilji ekki kannast við eitthvað sem hann sagði eftir á, stjórnmálamaður missi eitthvað út úr sér eða sérfræðingur vilji halda orðfærinu sem tyrfnustu o.s.frv. Þá er vissulega fullkomlega eðlilegt að blaðamaður áskilji sér rétt til þess að ráða endanlegri gerð viðtalsins, enda er viðmælandinn vissulega ábyrgur orða sinna – orða sem eru iðullega á segulbandi skv. öðru ákvæði í siðaskránni.
En þeir taka þó fram að óheimilt sé að misnota bréfsefni blaðsins. Sem er gott.

2 Comments:

Blogger Björninn said...

Ég sé það einhvernvegin ekki fyrir mér að DV taki viðtal við kjarneðlisfræðing.. a.m.k. ekki til að tala við hann um kjarneðlisfræði.

-Nema þeir geti á einhvern hátt tengt það við morð, spillingu, fuglaflensu og sifjaspell. Maður veit sosum aldrei.

9:58 f.h.  
Blogger Ásgeir said...

Kjarneðlisfræðingar eru náttúrulega með eindæmum spillt fólk. Svo eru kvenkyns brjóstgóðir kjarneðlisfræðingar vinsælir í Bond-myndum, það gæti gefið DV hugmyndir.

10:49 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home