föstudagur, júní 11, 2004

Þýskaland - D - riðill

Best að horfast í augu við staðreyndir – lið sem er yfirspilað á Laugardalsvelli verður ekki Evrópumeistari innan við ári seinna. Germanir eru með hörkuþjálfara sem Rudi Völler er og óbilandi baráttu þegar í alvöruna er komið en ef för þeirra í úrslitaleik HM fyrir tveimur árum er skoðuð sést að hún var ekki sérstaklega torsótt. Kamerúnar eru að vísu með hörkulið sem komst aldrei í gang á síðasta Heimsmeistaramóti en önnur lið sem Þjóðverjar unnu? Saudi-Arabía, Paraguay, Bandaríkin og Suður-Kórea. Allt lið sem teldist algjört slys að tapa fyrir frá sjónahóli a.m.k. helmings liðanna í EM. Vel að merkja þá var mikið um slík slys á HM fyrir tveimur árum – sem ef eitthvað er eykur líkurnar á að þessi EM verði eftir bókinni, særðir risar eru hættulegir. Kannski verður 5-1 tapið fyrir Rúmenum til að þjappa Þjóðverjum saman eins og jafnstórt tap liðsins fyrir Tjöllum fyrir HM – en þessi kynslóð Þjóðverja er bara ekki nógu sterk. Oliver Kahn var maðurinn sem kom þeim í úrslit HM og er þar af leiðandi ósnertanlegur þó hann sé á niðurleið, eins er Jens Lehmann mistækur. Eiginlega hef ég mesta trú á Timo Hildebrand í markinu en það er nokkuð ljóst að strákur sá er þriðji í goggunarröðinni – en ef hinir tveir fari ekki að hysja upp um sig buxurnar gæti hann verið orðinn númer eitt í HM 2006 í Vaterlandinu góða. Eins er vörnin spurningamerki, Chrisian Wörns er traustur en félagi hans í miðverðinum, Jens Nowotny, er búin að vera meira og minna meiddur síðustu tvö ár. Þá er Christoph Metzelder, sem leysti Nowotny af hólmi með glans í HM, meiddur og verður ekki með. Bakverðirnir ungu frá Stuttgart, Hinkel og Lahm, eru vissulega efnilegir en óvíst að þeir séu orðnir nógu góðir enn. Arne Friedrich er sterkur en er nýbúin að fara í gegnum skelfilegt tímabil með Hertu Berlín. Miðjan er hins vegar sterkasti hluti liðsins. Þeir Dietmar Hamann og sérstaklega Torsten Frings hafa komið mjög sterkir upp seinni hluta tímabilsins eftir erfið meiðsli og það er að auki nóg að mönnum að leysa þá af aftast á miðjunni, Jens Jeremias, og meistararnir tveir frá Bremen, Fabian Ernst og Frank Baumann. Fyrir framan þá er svo kóngurinn sjálfur, Michael Ballack, sem þrátt fyrir misjafnt gengi hjá Bayern á eftir að skila sínu í þessari keppni. Bernd Schneider virðist vera að koma upp úr öldudal og gæti verið sterkur með Ballack, báðir geta skorað mörk á góðum degi – en vandamál þýska liðsins er raunar það að þeir eru öllu líklegri til þess en framherjarnir. Miroslav Klose skorar lítið ef andstæðingarnir eru ekki Saudi-Arabía og hefur að auki verið að ströggla í fallbaráttu síðastliðin tvö tímabil. Það sama má segja um Fredi Bobic, í fyrra var hann bjargvættur en í ár er hann varamaður hjá öðru liði í fallbaráttu. Oliver Neuville hefur sömuleiðis þurft að verma bekkinn og þeirra besti senter, Kevin Kuranyi, á ennþá eftir að sýna fram á að hann sé líklegur til að skora þau mörk sem hæfileikar hans verðskulda. Það jákvæða fyrir þýska er þó að það virðist vera sterk kynslóð að koma upp, í fyrsta skipti síðan Matthaus, Klinsmann og co., fyrst og fremst stráklingar sem Felix Magath hefur alið upp hjá Stuttgart og Matthias Sammer hjá Dortmund. Hvort hún verður tilbúin fyrir gestgjafahlutverkið 2006 er þó óvíst, það þætti hins vegar kraftaverk ef hún kæmi Þjóðverjum eitthvað í þessari keppni.

Spá: Eftir harða baráttu sitja þeir eftir, Völler verður ósanngjarnt látinn taka pokann sinn og fráfarandi Keisari Bæjara, Ottmar Hitzfeld, tekur við.

Lykilmenn: Kahn ef hann kemst í gamla haminn, Ballack og Frings.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home