föstudagur, júní 11, 2004

Lettland - D - riðill

Lið til þess að vera afbrýðisamur út í og taka við hlutverki Slóvena þar. Ástæðan fyrst og fremst sú að ef litið er á leikmannahóp Lettana kemur í ljós að hann er veikari en leikmannahópur til dæmis Íslands. Stærsta stjarna Lettana er meiðslabangsinn Marian Pahars og frægð hans er töluvert minni en Eiðs Smára og jafnvel Hemma Hreiðars. Aðrir eru flestir enn í Lettlandi eða með einhverjum smáliðum Evrópu, nema þeir séu grónir við varamannabekki klúbba á stærðargráðu Fulham. Eitt hefur þó verið talið til sem styrkleiki Lettana, sú staðreynd að kjarninn í liðinu leikur saman með Skonto Riga í heimalandinu og ýmsir aðrir hafa spilað þar áður en þeir fóru í víking. Það er þó reynslan að slíkt hefur aðallega verið styrkur í forkeppninni, samanber þegar Sovéska liðið var Dynamo Kiev plús tveir og þegar Frakkar léku sama leik með firnasterkt Marseille-liðið fyrir áratug. Í forkeppninni hafa landslið nefnilega ekki nema örfáa daga oft til að spila sig saman, þá hjálpar mikið ef einhver kjarni kemur frá sama klúbbnum. Það skiptir þó miklu minna máli þegar út í stóru keppnirnar er komið, þá eru leikmenn saman í einhverjar vikur og landsliðsþjálfararnir fá loksins nógan tíma með menn til að móta lið. Þá er jafnvel hugsanlegt að það að vera alltaf með sömu félögum úr gamla klúbbnum fari að vinna á móti mönnum, hálfgert tilbreytingarleysi bara. Það verður þó ekki af Lettum tekið að þeir slógu út besta lið síðasta heimsmeistaramóts, Tyrki – en þeir eru komnir eins langt og þeir komast. Samt ástæða til að læra af árangri þeirra og vona að Íslendingar nái einhverntímann að jafna hann, þeir hafa nefnilega meira en burði til þess ef þeir eru heppnir með andstæðinga og eiga einn, tvo glansleiki.

Spá: Happy just to be there.

Lykilmenn: Senterarnir Marian Pahars og Tyrkjabaninn Maris Verpakovskis fyrir utan dáleiðslukraftinn í eitíshárgreiðslu nokkurra manna.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home