mánudagur, september 15, 2003

Auðvitað var fyrsti maðurinn sem ég hitti þegar ég labbaði niður í bæ á laugardagskvöldið samkennari frá Sauðárkróki. Og auðvitað var fyrsta myndin sem ég sá í bíó eftir að ég gerðist kennari um kennara sem missir vinnuna, gerist alkóhólisti og endar á Death Row. En dauðarefsingar eru að ég held aflagðar í Skagafirði nú orðið - að minnsta kosti svona formlega séð. Svo er heyrist mér miklu algengara að fólk verði alkóhólistar af því að vera kennarar - ekki af því að þeir séu reknir.
Laugardagskvöld

Er tóm minnisbók til merkis um tóman eiganda? Samkvæmt nýjustu netprófum hefur sál mín fallið í verði. Enda fátt jafn heilsusamlegt sálinni og að skrifa einsamall í minnisblokkir í erlendum stórborgum. Nú er erlenda stórborgin orðin Akureyri. Ég á ekki heima hérna lengur - en þó á ég hvergi annars staðar heima.

föstudagur, september 05, 2003

Þjóðverjaleikurinn á morgun - enda er ég að fara í mat til þýskukennarans í kvöld til að kanna stöðuna. Svo vorum við að hugsa um að opna flösku og bjóða Völler með, hann gefur sig kallinn á endanum ...
Annars ástæða til að beina fólki hingað; Geirlaugur er loksins mættur og byrjaður að rífa upp menninguna - ég er búinn að lofa honum að vera með. Svo er spurning um að fara að hertaka þetta blessaða óvirka bíó ...
Já, ég er ennþá á lífi - bara að óverdósa á fótboltasprikli (4 sinnum á þrem dögum, var keyptur í lið Nemendafélagsins) og kennsluundirbúningi. Í kvöld er ætlunin að eiga líf.