föstudagur, desember 31, 2004

Bíóuppgjör 1

Best að byrja á þeim sem ég missti af, svo fólk viti af hverju fjarvera þeirra skýrist. Hef ekkert ógurlega trú á Kaldaljósi, Monster, Van Helsing, Troy, Metallica: Some Kind of Monster, Divine Intervention, The Village og Dogville en útiloka ekki að það sé eitthvað varið í þær. Hef ágætis trú á The Bourne Supremacy, The Terminal, Dawn of the Dead, Suddenly 30, Harold & Kumar Go White Castle, King Arthur, Anchorman, Wimbledon, The Manchurian Candidate og Bad Santa og á topp 10 lista flakki mínu um daginn sýndist mér að allar eigi þær sér sína stuðningsmenn. Hver veit með íslenskar myndir eins og Íslenska sveitin og Í takt við tímann - sem ég efast samt stórlega að standi undir nafni. Þær myndir sem mig grunar þó helst að hefðu getað komist á topp 10 listann ef ég hefði ekki trassað að sjá þær eru:

Collateral, enda Michael Mann hörkuleikstjóri og Cruise í ágætisstuði þessi misserin sem leikari, Hellboy þó að sýnishornið hafi lítið heillað, Dodgeball, enda var drengur góður mjög hrifinn af henni á Hostelinu í Edinborg - you had to be there... og Sky Captain and the World of Tomorrow því hún virkar heillandi og furðuleg og annað hvort snilldarleg eða algjört flopp.

Annars er ég að reyna að skera listann niður, það virðast alltaf vera akkúrat 14 myndir á hverju ári sem eiga erindi inn á topp 10 listann. Spurning um að gera bara topp 14 lista? Framhald á morgun, nú er röðin komin að annálum, skaupi, flugeldum og einhverju vafasömu eftir það vonandi.
Bíð eftir að forsætisráðherradulan ljúki sér af og bý mér til aukablogg sem sjá má hér. Gaf sjálfum mér afar merkilega dagbók í jólagjöf, gaf Starra annað eintak, og því fylgir vitanlega blogg. Annars spurning um að fara að henda inn bíóuppgjöri ársins?

fimmtudagur, desember 23, 2004

Gleðileg jól!

Var að klára að kaupa síðustu jólapakkana, síðasti ritdómurinn minn fyrir jól var að birtast á Kistunni og almennt man ég barasta ekki eftir neinu til þess að stressa mig á í bili. Enda er þetta jólastress bara uppfinning fólks sem vinnur í útvarpi. En þar sem ég efast um að reka inn nefið hingað mikið næsta sólahringinn þá er rétt að óska öllum mínum fjölmörgu lesendum (stop giggling, both of you!) gleðilegra jóla!

miðvikudagur, desember 22, 2004

Hugsjónadrusla og afmæli

Afmælið hans pabba gamla og lengsti dagur ársins, enda þarf nógu langt kvöld fyrir góð afmælispartí þegar gestirnir eru fæstir vanir að vaka mikið fram yfir miðnætti. Sem sagt kominn til Akureyrar þar sem ég hef legið í öldinni hans Illuga á milli þess að liggja í leti.

Svo er ég víst að tjá mig um Hugsjónadruslu Eiríks Norðdahl hér, þ-in lentu í svo mikilli tilvistarkreppu við að komast í Kistuna að þau breyttust öll í spurnarmerki, þau ná sér vonandi fljótlega svo þetta endi ekki á ?orláksmessu.

laugardagur, desember 18, 2004

Gaman að blogga í prófi. Löngu búin með allt og bíð bara eftir að einhver annar klári svo maður þurfi ekki að húka einn frammi. Eða vill einhver kíkja í heimsókn í Öskju? Annars bara ástæða til þess að fagna því að vera kominn í JÓLAFRÍ!!!!

Hvað segiði? Náðuð þið þessu ekki?

Ég er sem sagt kominn í
JJJJJJJJJJJJJJJJJJJJJJJJJJJóóóóóóóóóllllll
aaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaafffffffff
rrrrrrrrríííííííííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!!!

fimmtudagur, desember 16, 2004

Það er miklu notalegra að koma í bókhlöðuna eftir að þessi líka bráðgáfaði köttur tók sér bólfestu í andyrinu. Ef það væru kettir á hverri hæð gæti ég hugsanlega tekið í mál að að læra þarna.

Léttlestir RÚV

Hvað á að þýða að kalla sporvagna léttlestir? Þegar þeir voru loksins farnir að hætta að kalla innflytjendur nýbúa ...

sunnudagur, desember 12, 2004

Á dauða mínum átti ég von - en ekki því að fara yfir ritgerð á MA-stigi í verkfræði. Spurning hvort þeir fatti allar háspekilegu brandarana sem ég smyglaði inn?

fimmtudagur, desember 09, 2004

Alltof langt síðan ég hef sett heimskulegt próf hérna, þannig að gjöriði svo vel - hér getiði séð hversu vel þið þekkið ritara þessarar síðu:

Take my Quiz! and then Check out the Scoreboard!

spurning svo hvort ég noti ekki pabba gamla sem tilraunadýr fyrst hann er í heimsókn?
Hef lítið að segja í augnablikinu en pezkallinn hefur nóg að segja. Mæli með þessu.

miðvikudagur, desember 08, 2004

Í dag er ég einn af þeim óþolandi einstaklingum sem er í góðu skapi á morgnana. Sem betur fer gerist þetta ekki oft.

þriðjudagur, desember 07, 2004

og legg ég til að ESB verði lagt í eyði ...

ég er búin í prófinu í Alþjóðasamvinnu, tuttugu kassar af jibbí kóla fyrir því og tíu haugafullir broskallar :) :) :) :) :) :) :) :) :) :), nú mun ég formlega ganga úr EES, ESB, NATO og SÞ just for the heck of it, enda var þetta blogg orðið alltof málefnalegt ...
Ísland er eina landið í OECD þar sem stærðfræðiárangur stúlkna er áberandi betri en drengja. Getur það hugsanlega haft eitthvað með það að gera hve stór hluti grunnskólakennara séu konur, enda kennslustarfið orðið láglaunastarf? Dæmi sem jafnvel verstu þverhausar menntunarhatarana í ríkisstjórn Íslands ættu að fatta, kynjamisrétti kemur líka niður á körlum – það virðist því miður ekki skipta þá miklu máli að það komi niður á konum.

Minnir mig á þetta rant
Ástæðan fyrir því að fæstir tala um Rússneska kosningu lengur er sú að einhver byrjaði að nota orðið fullkomin einhugur.

Ábyrgðarlaus forsætisráðherra í Kastljósi

Já, Halldór, þú berð ábyrgð á því sem er að gerast í Írak í dag. Danir líka. Það er engin rök að eitthvað sé í lagi af því Dönum finnst það vera í lagi. Það merkilega er samt það að maður kippir sér minna upp við að æðsti maður þjóðarinnar segi svona vitleysu heldur en ef lélegir söngvarar segja einhverja steypu, enda er maður orðinn svo vanur því fyrra.
sex og hálfur tími í próf, alþjóðavæðing heilastöðvanna gengur ágætlega - en ég veit hins vegar ekki hvort óhappasögur úr flestöllum aðildarríkjum Evrópusambandsins hjálpa mér mikið á eftir ...

mánudagur, desember 06, 2004

Helvítis bókmenntaverðlaun

Gagnrýnendurnir sem rætt var við í Kastljósi hvöttu til umræða – en á milli hverrra? Þeirra tveggja?

Ég ætla nefnilega ekki að nöldra yfir tilnefningunum. Ástæðan er einfaldlega sú að ég hef ekki lesið neitt af þessu – frekar en flestir. Jú, einhverjir nokkrir gagnrýnendur, starfsmenn forlaganna, höfundarnir sjálfir og eitthvað starfsfólk bókabúða máski. Það ástand mun vissulega batna mikið uppúr aðfangadegi – en einmitt þá líkur nær allri bókaumræðu á Íslandi þangað til næsta nóvember. Þá, um leið og nítíuogeitthvað prósent lesenda byrjar að lesa.
Háskólanemar, m.a. bókmenntafræðinemar, eru í prófum þannig að þeir hafa lítinn tíma frekar en aðrir þó þeir væru ein þeirra hópa sem væri hvað líklegastur til þess að vilja taka þátt í umræðunni. Þess vegna furða ég mig á því af hverju bókaforlögin stígi ekki nauðsynlegt skref í að berjast aðeins gegn þessu skrímsli sem jólabókaflóðið er með því að tilkynna tilnefningarnar eftir áramót, febrúar helst svo fólk geti náð sér eftir mestu vertíðina. Þá gæti orðið alvöru umræða með þáttöku fjölda fólks sem hefði lesið allar eða stóran hluta bókanna, umræða sem gæti glætt lífið í bókasölu einmitt á öðrum tíma en jólunum.
Þetta mundi samt örugglega ekki draga neitt úr sölu um jólin, verðlaunin hafa aðallega þau áhrif í dag að þau hvetja til sölu á tilnefndu bókunum á kostnað hinna – þetta mundi jafnast út en svo kæmi kippur í sölu á þessum tíu bókum sem voru tilnefndar eftir áramót, það yrðu þá væntanlega bækur sem fólk keypti sér sjálft svona einu sinni. Þá væru verðlaunin líka marktækari, ég efast ekki um að fólkið sem situr í dómnefndum les bækurnar en ég efast um að það lesi þær jafn vel og æskilegt væri.

laugardagur, desember 04, 2004

Plebbaleg kvikmyndagagnrýni …

… þar sem gagnrýnandi stenst ekki mátið og gefur stjörnur auk þess að linka á umsagnir. Umsögnin á kannski ekki enn við Saddest Music enda hefur hún hækkað í áliti hjá mér síðan ég skrifaði dóminn, sjálfsagt að taka fram þegar slíkt gerist. Rétt að taka fram að fyrstu tvær umsagnirnar eru eftir Jón Ólafsson

Control Room ****
(umsögn JÓ á Kistu)
Jargo *****
(umsögn JÓ á Kistu)
Við gluggan hennar **
Undir stjörnuhimni *

The Saddest Music in the World ****

Múrinn *

Gerrie & Louise ***
Such a Long Journey ****
Rare Birds ****

Rithöfundur með myndavél ***

Konunglegt bros ***

föstudagur, desember 03, 2004

Hvernig dettur Bubba Morthens í hug að Halleluja sé auðvelt lag? Sérstaklega eftir að allir eru bornir saman við Jeff Buckley sem reyna það, as the saying goes: You can't beat a dead guy. Spurning um að mana skallapopparann að taka bara lagið sjálfur fyrst það er svona auðvelt?

fimmtudagur, desember 02, 2004

Eskimóaforseti

Það er verið að tala um Ólöfu eskimóa í Kastljósinu, en hún mun hafa haft lifibrauð sitt á að ljúga að fólki. Í dag hefði hún líklega orðið forseti.

Kyndbundið ofbeldi

“Kynbundið ofbeldi er orsök og afleiðing útbreiðslu HIV/alnæmis” er fyrirsögn greinar Birnu Þórarinsdóttur, framkvæmdastýru UNIFEM á Íslandi.

Hvað í fjandanum er kynbundið ofbeldi? Síðan hvenær er ofbeldi bundið? Nauðganir valda vissulega alnæmi en það er til óþurftar og hættulegur feluleikur að skipta orði eins og nauðgun (sem hefur raunverulega merkingu) út fyrir fínt fræðilegt orð sem þýðir ekki neitt.

En bíddu, svo er farið að tala um heimilisofbeldi. En heimilisofbeldi getur líka beinst gegn börnum, fólk sem er ofbeldisfullt er ekki endilega að binda sig við eina manneskju eða eitt kyn, sumir gera það örugglega en líður konunni þeirra verr ef það er bara hún sem er beitt ofbeldi? Ég efast.

Síðan virðist hún komast að þeirri niðurstöðu útfrá þessu öllu saman að kynbundið ofbeldi (sem hér virðist skilgreint sem nauðganir og heimilisofbeldi) valdi alnæmi. Nauðganir vissulega, heimilisofbeldi án nauðgana hefur hins vegar ekkert með alnæmi að gera – nema það eitt að vera ömurlegt, mannleg eymd sem viðgengst í miklu ríkari mæli en hægt er að sætta sig við. Það er nefnd tölfræði, en tölfræðin skýrist aðallega af því að eymdin helst í hendur við eymd, fátækt, örbirgð, sjúkdóma, ofbeldi, menntunarskort og skort á mannlegri reisn, þetta helst alltof oft í hendur og getur skapað vítahring.

Hins vegar er ábyrgðarleysi að setja samasemmerki á milli tveggja óskyldra hluta, það er virðingarleysi við alla þá Afríkubúa sem hafa fengið alnæmi án þess að ofbeldi hafi neitt með það að gera, það er hættulegt að berjast gegn alvarlegum vandamálum með kjánalegri tölfræði.

En satt best að segja er hættulegast ef vesturlandabúar eru að reyna að hjálpa þróunarlöndunum með vafasamri aðferðafræði byggðri á sundurlausri tölfræði í stað þess að heimta að ríkisstjórnir þeirra geri nú einu sinni alvöru átak til þess að leysa eitthvað af þessum málum sem vesturlönd sjálf bera vissulega alltof mikla ábyrgð á.

Byggja upp þjóðfélög þar sem alið er á mannvirðingu og barist er gegn fáfræði og fordómum almúgans. En þegar maður hugsar til þess hve skammt á veg manni þykir vesturlönd sjálf komin á þessari braut kemur kannski ekki á óvart að þau eigi í erfiðleikum með að hjálpa öðrum með einhverju uppbyggilegra en kjánalegum greinum í dagblöðum. Ef þær björguðu heiminum værum við nefnilega öll löngu hólpin.

miðvikudagur, desember 01, 2004

Það verður vonandi að Kastljós kvöldsins verði til þess að Íslendingar hætti að snobba fyrir þeim miðlungssöngvara sem Kristján Jóhannsson var einu sinni. Núna er hann bara dónalegur leiðindadurgur sem er með einhver alvarleg issue gagnvart kvenfólki. Þá er rétt að hrósa Eyrúnu fyrir að halda andlitinu gagnvart þessum ófögnuði.