miðvikudagur, september 28, 2005

Pivo

Það var verið að hringja í mig frá New York í þeim tilgangi einum að spyrja mikilvægrar spurningar um tékkneskan bjór. Nú get ég loksins litið á mig sem alþjóðlegan sérfræðing um eitthvað ...

mánudagur, september 26, 2005

Pönnukökur

Ég var að eyða heilli færslu áðan áður en hún fór út á netið því mér fannst hún leiðinleg. Ég hafði sagt þetta allt áður. Í staðinn er ég byrjaður á ennþá leiðinlegri færslu, bara til að halda einhverju lífi í þessari síðu. Vandræði þegar maður er búin að eyða allri andagiftinni í heimaverkefni ... en áður en þetta koðnar allt niður í andleysi kemur zebrinn minn og spyr hinnar frumspekilegu spurningar: "hvort er ég með fleiri svartar eða hvítar rendur?" Ég svara og sendi hann svo í 10-11 í Lágmúla sem er opið allan sólarhringinn til að kaupa það sem vantar upp á til að hann geti bakað pönnukökur fyrir morgundaginn. Vonandi eiga þeir líka til pönnukökupönnu. Annars er zebri í stuttri heimsókn, hann bjó á svölunum hjá mér á Eggertsgötunni á sínum tíma en helst styttra við á Öldugötunni því hann snobbar svo mikið fyrir íbúðum með aðgang að svölum. Þess vegna er pönnukökuneysla mín undanfarið langt undir ráðlögðum ársskammti. Mig dauðlangar náttúrulega til Afríku með zebra þegar hann fer en hann losnar bara ekki við litla svarta Sambó úr gestaherberginu ... ég vil ekki taka sénsinn á að bráðna niðrí smjörlíki ...

föstudagur, september 23, 2005

Gambískir snillingar

Óskarsval

Ég held það væri best fyrir íslenska kvikmyndagerð að sleppa þessu bara í ár - óþarfi að bjóða saklausum útlendingum upp á þetta. Stundum er sársaukaminnst fyrir alla aðila að vera bara ekkert með.

fimmtudagur, september 22, 2005

Klukk fimm

* Mig dauðlangar að fá mér kött aftur en mér finnst það eiginlega of mikil skuldbinding.

* Ég hef hitt músuna mína skelfilega sjaldan undanfarin tvö ár eða svo og er farinn að sakna hennar skelfilega núna. Raunar skelfilega sjaldan síðan kötturinn minn dó sem gæti máski þýtt eitthvað ... en ég veit ég þarf að fara að leita ...

* Undanfarið og algjörlega án nokkurar lógískrar ástæðu finn ég fyrir þörf fyrir að kalla ólíklegasta fólk snúð þessa vikuna. Ég vona að þessu linni áður en ég segi eitthvað sem ég sé eftir ...

* Ég sá tvo uppáhaldsrithöfundana mína í síðustu viku. Því miður var ég oftast of þreyttur til að hugsa í síðustu viku.

* Mér er meinilla við flest orðtök og málshætti enda oftast eitthvað sem fólk notar sem afsakanir fyrir að hugsa ekki raunverulegar hugsanir eða nota raunveruleg rök. Helsta undantekningin er þó sá enski um að velja orusturnar sínar vandlega. Ég fann skyndilega að ég hafði hugsunarlaust valið vitlausa orustu í síðustu viku og hjartað sökk. En ég vann hana þó að minnsta kosti á endanum, ég sé bara svo eftir að hafa ekki þreytt hina ...

Þar sem ég var víst klukkaður af einum mesta aumingjabloggara norðan alpafjalla þá er viðeigandi að klukka Jakob, Auði, Jóa og Ingu sem hafa verið hvort öðru latara við að blogga ... já og Láru líka þó hún hafi reynt að bjarga sér fyrir horn í dag ...
Er nokkur knattspyrnumaður með jafn glæsilegt nafn og Jean-Paul Kamudimba Kalala? Ég efast.

Uppskrift af góðu hjónabandi?

Ég mundi ekki vita það en þetta hljómar betur en aðrar uppskriftir sem ég hef heyrt ...

You find somebody that you would want to be in the foxholes with you and when you're outside the foxhole you keep your dick in your pants.

Dan Foreman (Dennis Quaid) í In Good Company - sem er lunknari satíra á innantóma viðskiptafræði en ýmsar ræmur sem taka sig munar alvarlegar auk þess að vera ágætlega skemmtileg þroskasaga um leið.

Það er Topher Grace sem er að hlusta á Quaid. Miðað við hvað mér fannst sá gaur þreytandi í That 70’s Show þá er merkilegt hvað hann hefur verið fjandi magnaður í þessum tveim bíómyndum sem ég hef séð hann í, þessari og P.S. Á meðan ónefndir samleikarar hans hafa helst náð að sýna sæmileg leiktilþrif í einrúmi með Demi Moore ...

þriðjudagur, september 20, 2005

Pylsa pöntuð á ensku

Lenti á enskumælandi starfsmanni í sjoppu í gærkvöldi. Sem væri ekki í frásögur færandi ef ég hefði ekki áttað mig á því hvað það að panta pylsu er séríslenskt fyrirbæri - pylsur af þýska skólanum í mið-Evrópu eru allt annað fyrirbæri. Þannig að ég þurfti að hugsa mig lengi um áður en ég gat stunið því upp hvað ég vildi á hana, því þó ég viti vel hvernig tómatsósa, sinnep og steiktur leikur er á ensku þá er maður löngu farin að líta á tómatsinnepsteiktur sem sérstakt orð og skrítið að þurfa allt í einu að fara að búta það svona niður.

Fór svo í Laugarásbíó á Wedding Crashers (sem er ennþá betri en allir hafa verið að segja) og labbaði eftir það fram hjá Veitingastaðnum Laugaás sem er skemmtilega fastur í fortíðinni. Í glugganum er límmiðar að halda upp á fimmtán ára afmæli staðarins árið 1994 og 40 ára afmæli Sambands veitinga- og gistihúsa árið 1984.

mánudagur, september 19, 2005

Mánudagsmorgun

Þið vitið öll hvernig þetta er. Mánudagsmorgun. Þú vaknar, finnur fyrir samþjöppuðum massa vinnuvikunnar bíða eftir þér við rúmstokkinn. Þú snýrð þér á hliðina og semur um fimm mínútna vopnahlé.

En þetta hefur ekkert með vesalings mánudagana að gera. Veðrið er jafnmisgott á þeim og alla aðra daga. En við erum einfaldlega búin að semja um að þeir séu ömurlegir. Þessi samningur um hefðbundna vinnuviku og fúnkerandi samfélag sem ekkert okkar beinlínis skrifaði undir er um leið samningur um hvenær okkur líður vel og hvenær illa. Ef þú brýtur þennan samning er voðinn vís – það eru aldrei fleiri sjálfsmorð en á nýársnótt.

En hvað gerist ef þú stígur út fyrir þetta samfélag? Ferð annað þar sem þú ert samningslaus, þekkir ekki smáa letrið? Þar sem dagarnir renna saman því ánauð mánudagsins og frelsun föstudagsins vantar? Ferð hugsanlega eitthvert þar sem helgin er ennþá raunverulega helg? Þar sem allt gengur miklu hægar og flest er lokað þessa daga sem venjulega eru í uppáhaldi. Þá ferðu að þrá mánudagana. Dagana sem strætóarnir byrja loksins að ganga aftur. Dagana þegar heimurinn vaknar. Af þeirri einföldu ástæðu að þú þarft ekki nauðsynlega að vakna með honum.

Þá veltir maður vissulega fyrir sér hvort ekki væri hægt að semja upp á nýtt. Hætta að búa til stundaskrá fyrir skapið í sér. Leyfa sér að hlæja á mánudagsmorgni og gráta að loknum vinnudegi á föstudegi. Gera uppreisn gegn tímanum og finna sér sinn eigin takt í lífið.
Þar sem mér dettur ekkert skárra í hug er ég að hugsa um að henda eins og heimaverkefni hérna inn, ég lofa samt að kvelja ykkur ekki með neinum verkefnum úr hagfræði- og lögfræðikúrsinum sem ég tók síðustu önn ...

laugardagur, september 17, 2005

Hljómsveit kvöldsins

Fjandakornið, nýr íslenskur þáttur í RÚV sem er að virka. Þetta þarf ekkert að vera flókið, bara ekki yfirmáta pínlegt þannig að gestirnir fái að njóta sín án þess að skammast sín.

Auðvitað komu líka stundum fín bönd í Gísla Martein. En aumingjahrollurinn sem fylgdi litla borgarstjórawannabe dvergnum varpaði alltaf skugga á mómentið. Ég man til dæmis ekki hvar ég sá Hljóma fyrst, kannski var það í þættinum hans sem er þá skiljanlega bælt djúpt í undirmeðvitundinni.

En ef það kemur eitthvað nýtt og ferkst band í þáttinn hennar Möggu Stínu sem maður hefur ekki séð áður gæti það orðið eitthvað til að minnast. Maður getur jafnvel plöggað bandið meðal fólks án þess að þurfa að viðurkenna að hafa átt nógu sorglegt laugardagskvöld til að horfa á GM.

Ógæfuvöllur

Laugardalsvöllurinn er ekki alveg að blífa þessa dagana, Þróttur, Fram og íslenska landsliðið geta vitnað um það. Getur verið að stærra er betra mottóið sem íslendingar eru svo hrifnir af sé ekki alveg að virka? Virkar kannski betur fyrir fallbaráttulið og landslið smáþjóða að spila á velli sem er ekki tómlegur á að litast nema á allra stærstu leikjunum? KA byrjaði til dæmis ekki að geta neitt að ráði í handbolta fyrr en þeir fluttu sig úr þessari risastóru íþróttahöll sem var sjaldnast full í litla notalega KA - húsið sem var lengi alltaf fullt.

föstudagur, september 16, 2005

Orð vikunnar

Orð mánudagsins var pakki – enda fékk ég loksins pakkann sem ég sendi sjálfum mér frá Búdapest. Jakkinn minn er annars fjandi krumpaður – getur einhver lánað mér straujárn?

Orð þriðjudagsins var klink – enda uppgötvaði ég þegar ég vaknaði að ég hafði sofið á samanlagt 145 krónum. Svefnráðningar óskað.

Orð miðvikudagsins voru blogg sunnudagsins sinnum tíu.

Orð gærdagsins var antíklæmax (or “my script but without the special effects” for you foreign readers). Nei, ég trúi ekki á bókstafsþýðingar.

Orð dagsins í dag er ófundið enn. Er að fara í æsispennandi tíma rétt bráðum, aðallega æsispennandi því við bíðum spennt eftir að sjá hvort kennarinn lætur loksins sjá sig.

Svo vil ég að vinir mínir fari að hundskast í Bóksöluna að kaupa bækur af mér (a very special price for you my friend), ég er orðinn hundleiður á að afgreiða ókunnugt fólk endalaust. Verð hér frá eitt að fráskildu eftirmiðdegisspjalli sem ég þarf að kíkja á með Paul Auster. Hann sagði vel að merkja þennan líka fína prumbrandara í gær.

Pikköpplína

Áralangri leit af verstu pikköpplínunni er formlega lokið – þessi var notuð á heimildarkonu mína á ónefndum bar um síðustu helgi:

"I’ve been flyfishing with Halldór Ásgrímsson, you know."

mánudagur, september 12, 2005

Davíð, New Orleans, Baugur ... mér er eitthvað svo innilega sama þessa dagana. Þjáist af því að meika alls ekki fréttirnar, óttalega fáfengilegar og ómerkilegar flestar. New Orleans að vísu ekki en einhvern veginn rennur það samt saman við hitt. Og ég er víst að hefja nýja önn í Blaða- og fréttamennsku. Oh well. Hugurinn er svo sem ekki ennþá úti en hann er samt ekki beint kominn heim ennþá, eintóm vinna og kvöldin fara í aukaverkefni eða að hugsa um öll verkefnin sem ég ætti að vera að klára. Orkan eftir einn bóksölutarnardag er mjög mismikil, sérstaklega þegar ég þarf oft að eyða hádegi og kaffitímum í að taka viðtöl eða redda einhverju. Og þessi tímapunktur sem ég get farið að eiga líf aftur frestast alltaf ...

föstudagur, september 09, 2005

By the Power of Greyskull

Fyrsta H-listadjamm vetrarins var fínt og Hraunarar fá tonn af rokkprikum fyrir að taka He-Man lagið. Nú þurfa þeir bara að semja lag um öryggismyndavélar ...

fimmtudagur, september 08, 2005

Kæri Viktor ...

... svona fyrst þú ert byrjaður á þessu, geturðu ekki rekið nokkra sendiráðsstarfsmenn fyrir mig í leiðinni?

Fyrirmyndarríkið Byelorussia

Lestirnar í Hvíta-Rússlandi eru margfalt fljótari en nokkrar aðrar í Austur-Evrópu og þar að auki hreinni og nútímalegri að öllu leyti. Ég meina ekki getur verið að sviðsmennirnir í Alias hafi ekki unnið nákvæma rannsóknarvinnu fyrir þáttinn í kvöld?

mánudagur, september 05, 2005

Kennir eggið hænunum?

Fyrsti tíminn á morgun og engar upplýsingar ennþá neins staðar hver kennir viðkomandi kúrs, þetta verður æsispennandi, jafnvel nógu spennandi til þess að ég fari að vakna fyrir átta til þess að komast að þessu. Grunar helst að einhver ofvirkur fyrsta árs nemi hafi ákveðið að taka aukakúrs og sökum þess að ekkert okkar þekkir greyið verður hann gerður að kennara fyrir misskilning.

Annars vil ég bara taka það fram að ég hef fengið það staðfest hjá sérfræðingi að súkkulaðikaka er holl.

laugardagur, september 03, 2005

Ég vil bara votta borðtennisliði Víkings samúð mína eftir þessar hrakningar. Spurning um að stofna stuðningshóp ...