laugardagur, ágúst 31, 2002

Maður dagsins er að sjálfsögðu dómarinn snjalli Uriah Rennie. Skólabókardæmi um vel dæmdan fótboltaleik er leikur þar sem Roy Keane fær rautt spjald.

föstudagur, ágúst 30, 2002

Gambrinn hefur verið fáorður undanfarna daga enda enginn stórtíðindi gerst í veraldarsögunni nýlega og því ekki ástæða til að styðja fingri á lyklaborð. Þó voru síðustu tveir vinnudagar forvitnilegir, fortíðin ásótti mig í dag og það var bara gaman og í gær fór maður vart niðrí kjallara án þess að verið væri að segja tröllasögur, lygasögur eða hetjusögur - þá sjaldan gafst frí frá fylleríssögum. Best var þó Eysteinn tíu ára á mannhæðarháu stultunum sínum hlaupandi uppi rollur. Annars þakka ég bara Rannveigu kærlega fyrir matinn.

miðvikudagur, ágúst 28, 2002

Minnir mig á að ég hnaut um það í sunnudagsmogganum að Michael Curtiz, leikstjóri Casablanca, væri ungverskur. Lætur mann velta fyrir sér hvort hann sjái sjálfan sig í landa sínum Victor Laszlo, noble but uninteresting. En athugum samt hver endar með Ingrid ...
Það er greinilega ekki málfrelsi í kringum suma. Bíóumfjöllun sem hverfist eingöngu um gæði mynda er leiðinleg bíóumfjöllun. Hér er aftur á móti óvenju skemmtileg bíóumfjöllun fyrir þá sem eru ekki búnir að steikja allar bíósellur á sálarleysinu hér. Annars má geta þess í sambandi við William Someset Maugham og Bill Murray að það eru líka allir góðir söngvarar á fjallstindi og það er nóg að skoða Cradle Will Rock til að verða Bill Murray fan for life. Internasjónalinn nærri því jafn skemmtilegur þarna og Marseillasinn í Casablanca. Virði samt allar óskir um að syngja það ekki fyrir þá sem ekki hafa séð myndina enda hrifnari af söngvaranum en laginu.
Svo virðist sem John Cusack sé skyndilega og upp úr þurru orðinn heitasti leikarinn á Íslandi. Það virðist vera eitthvað réttlæti í þessum heimi eftir allt saman.
Já, hér er skýringin á því hversu hratt Sodomy in Early Modern Europe hefur rokið út. Jói, vona að þú skemmtir þér. Vona að þeir reikni burðarþolið rétt út. Gaman að því að sjá að ég er ekki einn um að stunda þennan ósóma í vinnunni okkar - ekki samt á vinnutíma samt sko enda er ég samviskusamur með eindæmum ef mér er borgað fyrir það - ekki get ég nú samt sagt að bloggið hans Steina standi undir nafni. Merkilegt samt hvað hann á marga aukapersónuleika.

þriðjudagur, ágúst 27, 2002

Gaman að vera dramaQueen stundum, annars ekkert að gerast fyrir utan haustbrjálæðið í vinnunni. Enginn samt búinn að missa hausinn ennþá þó fólk geti verið einkennilega firrt í margmenni. Aðalega verkfræðidýr og HR-dýr ennþá, smá af menntaskóladýrum og raundýrum, eina bókdýrið sem ég sá var að villast innan um læknadýrin sem eru minna koxuð þetta árið en oftast. En ég vinnudýrið frekar skrítið í hausnum og vildi frekar fá að pæla í eigin námi núna en öllum hinum tegundunum. Eða bara vera steinsofandi í móravískum fjallakofa dreymandi um fólk sem ég þekki ekki ennþá. En þangað til dreymir mann helst að það verði til kjötloka í mötuneytinu (maður þarf að vera illa haldinn til að dreyma um kjötlokur) og að tíminn líði nógu hægt til að maður nái að klára allt og nógu hratt til að maður haldi geðheilsunni. Sem ég er ekki alveg viss um að sé að gerast. Best að ræða það nánar við Zebradýrið á svölunum hjá mér sem mig grunar að lumi á afbragðsuppskrift af pönnukökum.
D-Day at work,
further reports later on the end of civilization

sunnudagur, ágúst 25, 2002

Leit í bókasafnskerfi

Hvað eiga bækurnar Dead Ringer, The Ivy Tree og The Other Amanda sameiginlegt? Jú, þær heita allar "Tvífarinn" í íslenskri þýðingu. Semja þýðendur bara bækurnar sjálfir þegar þeir hafa gefist upp við að þýða þær?
Var að rífast við Óla áðan aldrei þessu vant þó að í þetta skiptið höfum við hlíft lesendum okkar við hasarnum. Aldrei þessu vant þá hafði Gneistinn rétt fyrir sér með upphaflegt atriði rifrildisins og ber að taka þann fáheyrða atburð fram. Ég er samt algerlega ósammála honum í öllum útúrdúrunum sem fyrr. Annars er ástæða til þess að fara að gera eitthvað uppbyggilegt

föstudagur, ágúst 23, 2002

Fann þann skemmtilega forngrip sem póstkort kallast undir Fréttablaðs-, rusl- og gluggapóstsbunkum vikunnar. Sendandinn var stúlka sem loksins hafði komið því í verk að heimsækja draumaborgina. Heyrðist Lundúnir standa undir væntingum - ég treysti því að hún fari á Arsenal-leik fyrir mig. Annars heyrist mér að það sé að skapast stemmning fyrir því að gera eitthvað skemmtilegt í kvöld
Talandi um Jökulssyni, Illugi kom í Bóksöluna sem oftar snemma í morgun - síðan eins og hálftíma seinna mætti Jón Steinar. Synd að hafa ekki séð þá hittast eftir allar glósurnar sem gengu á milli síðasta vetur.
Fálkaorða? Sá sem mér dettur helst í hug sem fær aldrei það kredit sem hann á skilið er Sigursteinn Másson. Búinn að gera fína hluti með Geðhjálp og allt það en fyrst og fremst á hann heiðurinn að því að vera eini Íslendingurinn sem hefur stundað alvöru rannsóknarblaðamennsku reglulega síðustu tvo áratugina eða svo. Jökulssynir og Gerður Kristný hafa vissulega tekið sínar skorpur á milli annara ritstarfa en Sigursteinn er fréttamaður Íslands númer eitt - íkónagrafían í lagi Rottweilerhundanna segir allt.

fimmtudagur, ágúst 22, 2002

Neonbækur lýsa í myrkri

Ég rak augun í nýja Neonbók í vinnunni í dag þegar ég brá mér niðrá lager. Kannaðist lítið við gripinn, Opinberunarbókin eftir Rupert Thomson, þannig að ég ákvað að kíkja á káputextann:

"Sagan segir frá ungum hæfileikaríkum dansarara í blóma lífsins sem bregður sér frá til að kaupa sígarettur fyrir kærustu sína. Þessi hversdagslega ferð eftir að kollvarpa tilveru hans. Honum er rænt af þremur konum sem beita andstyggilegum kúgunartækjum til að ná vilja sínum fram við hann."

Ég hló mikið og sökum forvitnissviparins á Guðnýju samstarfskonu minni las ég þetta upphátt fyrir hana. Hún hló líka.

Síðan var ég að skoða aðeins meira um þetta á Kistunni og fattaði að ef það hefði staðið "hennar" þar sem stóð "hans" og henni hefði verið rænt af þrem körlum en ekki konum þá hefðum við hvorugt hlegið.
Loksins búinn að finna almennilega slúðursíðu á netinu. Bíð spenntur eftir næstu færslu!

miðvikudagur, ágúst 21, 2002

Veröldin fer í hringi

Er annars einhver sem ég get fengið far með til Ítalíu þann 14 september? Var verið að bjóða mér í giftingu í Udinese. Hinn gullfallega Valentina endanlega gengin út. Það er eins og það hafi gerst í gær, hostelþakherbergi í Kraká, hún að spá fyrir mér (nýbúinn að læra það sko) með vodka í annari og prins póló í hinni. Eða var það ég? Já, þannig endaði dagurinn sem byrjaði í Auswitch. En Vale er jafn góð manneskja og þær manneskjur sem báru ábyrgð á þeim stað voru vondar.

Trölli
Mér finnst til dæmis sumar greinar í háskólanum bölvuð vitleysa svona persónulega - ætti ég kannski bara að fara að fara í kaffi ef einhver af nemendum þaðan ætla að reyna að versla námsbók hjá mér? Tek annars fram í sambandi við rantið hér að framan að það er eingöngu ætlað þessum yfirlækni en ekki öðrum starfsmönnum, það er ekki endalaust hægt að henda yfirvinnu á lækna og hjúkkur - en það er ekki sama hvaða ástæður eru gefnar.
Predikunarfulli hrokagikkslæknirinn sem nennti ekki að vinna vinnuna sína

Og svo Mogginn:

þar er verið að fjalla um ólætin á menningarnótt og endað á að ræða við mann að nafni Jón Baldursson sem ku vera yfirlæknir Landspítalans Í Fossvogi og verður stétt sinni rækilega til skammar. Það komu 63 manns á deildina til þeirra á milli 0 og 8 menningarnóttina og þegar mest var var 4 tíma bið eftir læknisaðstoð. "Jón segir að ekki hafi verið kallaður út aukamannskapur út af "svona vitleysu" eins og hann lýsir þessari hlið næturlífsins sem blasti við starfsfólki slysadeildar." og klikkir svo út með þessu: "Það sem einkennir þetta ástand er algert ábyrgðarleysi af allra hálfu. Fólk má kvarta yfir því að þurfa að bíða á biðstofunni en það er ekkert við því að gera. Við stóðum ekki fyrir þessari menningarhátíð eða djöfulgangi í miðbænum en við horfðum upp á afleiðingarnar sem eru ekki fallegar." Í fyrsta lagi virðist Jón þessi hafa gleymt að í "allir" þá er hann þar innifalinn og ber þar af leiðandi ábyrgð. Auðvitað er engin að segja að sjúkrahúsin beri ábyrgð á því sem gerist niðrí bæ frekar en að þau séu ábyrgð fyrir umferðarslysum á þjóðvegum landsins eða því að fólk verði ófrískt útí bæ. En það er nú samt þeirra að díla við það, það er þeirra vinna. Ekki það að ég vorkenni einhverjum útúrdrukknum áflogahundum neitt en það er nokkuð ljóst að einhverjir af þessum 63 hafa verið blásaklaus fórnarlömb - en það er gott fyrir það fólk að vita að lækninum þeirra finnst þetta bara hafa verið vitleysa.
Á barnauppeldi að vera stjórnað að ofan?

Tvennt sem fór afskaplega í taugarnar á mér í fréttum dagsins. Byrjum á Fréttablaðinu:

Annar vegar er verið að tala um að foreldrar séu að gera með sér einhvern samning um hvernig uppeldi barna sinna (og hafi meira að segja í sumum tilfellum þegar gert það) skuli háttað og samræma þannig útivistatíma, afmælisveislur o.s.frv. o.s.frv. Nú er örugglega sumt í þessu góðra gjalda vert en annað heimskulegt (að setja reglur um hverjum greyið börnin eiga að bjóða í afmælisveislur? Einelti er enginn greiði gerður með svona heimskulegum reglum - þýðir þetta ekki líka að hinir eineltu þurfa að bjóða ofsækjendunum í sitt afmæli?) En aðallega er konseptið afskaplega dúbíos og ætti best heima í paranojskum - en því miður meir og meir raunsæum -vísindaskáldskap. Eigum við að láta ríkið ala upp börnin okkar? Eru foreldrarnir hér endanlega að varpa þeirri litlu ábyrgð sem ennþá er á þeim um uppeldi barna sinna yfir á ríkisbáknið? Ég hef ekkert á móti Tómasi Inga en það er ekki spennandi að öll börn í framtíðinni verði litlir Olrichar - er ungt fólk í dag ekki alveg nógu mikið eins nú þegar?
Hvaða vitleysa er þetta hérna með 10 ára starfsmenn í afgreiðslustörfum? Þó vissulega séu nú skemmd epli allstaðar. Ég held ég hafi nú heldur betur haldið sjoppurekstri Skautafélags Akureyrar uppi um það leyti. Eða kannski var ég orðinn ellefu ára? Að minnsta kosti voru kassahæfileikar mínir mun þróaðri en nú til dags af því að á þessum árum reiknaði ég allt í huganum og klikkaði aldrei enda var þetta á þeim árum sem ég fékk tíu í öllum stærfðræðiprófum. Svo datt ég á hausinn og þeir fóru allt í einu að tala um einhverja algebru ... Líklega hefur stráksinn umræddi í Bókhlöðunni verið fimmtán ára en bara unglegur miðað við aldur ...
Jamm, afmælisdeginum er að verða lokið, blóm og kransar vinsamlega afþakkaðir - ég vil fá harða pakka! Sem minnir mig á að Belgía og Færeyjar eru skondin lönd ... Ovurnýtsla av alkohol er skaðilig - ætli færeyingurinn sé vanur að lesa aftan á flöskurnar?

mánudagur, ágúst 19, 2002

Free food for the poor!

Roadside Prophets

Lenti á þessari afar óvenjulegu mynd í kassanum í kvöld. Afar óvenjuleg er líklega vægt orðalag - sem sagt, hún hefst á því að tveir vélhjólatöffarar hittast, fara á barinn og annar þeirra fer í tölvuleik sem er þar við einn vegginn. Hann er svo óheppin að það verður skammhlaup í kerfinu og hann drepst við rafstrauminn. Félagi hans sem John Doe leikur ákveður að hann þurfi að finna þennan stað sem sá látni talaði um, El Dorado (spilavíti - ekki áfangastaðurinn í framhaldsteiknimyndaklassíkinni Leyndardómar gullborganna), og dreifa öskunni þar. Það sem á eftir fylgir er einhver alsteiktasta vegamyndarheimspekieinlægni sem nokkurntímann hefur verið fest á filmu. Hann lendir á einhverjum ungpönkara, sem einhver meðlimurinn í Beastie Boys túlkar, sem er munaðarleysingi og gistir á öllum Mótelum í keðjunni Mótel 9 út af því að þangað gistu horfnir foreldrar hans fyrst eftir að þeir stungu af, síðan hitta þeir gestaleikarann John Cusack tvisvar, kauði er með lepp fyrir öðru auganu og á að sjálfsögðu bestu atriðin. Sérstaklega hið fyrra þegar hann virðist ætla að panta svona um það bil allan matseðilinn, kemur þvínæst auga á hetjurnar okkar og heimtar að panta fyrir þá líka. Það sem á eftir fylgir er væntanlega ein eftirminnilegasta átsena kvikmyndanna (hugtakið stuff the food in your face fær nýja merkingu) en þegar þær koma með himinháan reikninginn þá stekkur hann upp á borð, öskrar: "Free food for the poor!" og hleypur út. Næst þegar þeir hitta hann er nýbúið að góma hann, minn er ekki sáttur og lýsir svekktur yfir: "Five more meals and I would have made Guiness" - sem sýnir okkur náttúrulega að jafnvel hugsjónamennirnir hafa sinn hégóma. Svo má auðvitað ekki gleyma indjánastripparanum sem söguhetja okkar á vingott við og á þessa gullvægu setningu: "Stick to the ones that see the truth in your soul. And don’t accept any wooden nickels." Jamm, ef þið hafið misst af þessari þrælskökku snilld þá fáið þið varla annað tækifæri því varla er sú vídjóleiga hér á landi sem býður upp á álíka gullmola, má alltaf reina samt.

laugardagur, ágúst 17, 2002

Til hamingju Ármann og Erla!

Vala Pauline Anderson Ingólfsson - eða Pálína eins og ég kalla hana - fæddist í dag 17. ágúst, hitti að sjálfsögðu á menningarnóttina og verður því vafalítið einstaklega menningarleg stúlka. Svo ekki sé minnst á úthaldsgóð þegar Reykjavíkurmaraþonið bætist við.

Adopt your own useless blob!
Þvottavélarævintýrum þessa föstudagskvöld er hér með lokið - ég á mér svo æsispennandi líf. En annað kvöld er stefnan að gerast menningarlegur - og til þess eru hrein föt að sjálfsögðu bráðnauðsynleg
Ég er að vinna á morgun þannig að einhver annar verður að vinna Reykjavíkurmaraþonið á morgun. Auður systir heldur uppi heiðri fjölskyldunnar á meðan ég reyni að setja nýtt íslandsmet í bókaburði. Efast þó stórlega um að metið mitt frá því í fyrra verði nokkurn tímann slegið, enda hef ég svo marga nýja starfsmenn núna til að bera fyrir mig, þeir fatta vonandi ekki fyrr en ég verð farinn að ég ræð engu þarna
Be Afraid, be Very Afraid

Kannski hljómaði kvennaklósettsmyndin í sjónvarpinu ekki svo illa eftir allt saman?

föstudagur, ágúst 16, 2002

Hmm, ég er bara búinn að tala vel um fólk í kvöld. Best að fara að hætta þessu.
Sá ágæti maður Þór Steinarsson er búinn að komast að því hver ég sé en ég er ekki enn búinn að komast að því hver hann er. Það sem mér þykir þó merkilegast er að hann virðist búinn að lesa óútgefna Vefararitgerðina mína. Ekki er ég svo frægur að það sé eitthvað sjóræningjaeintak þarna úti?

fimmtudagur, ágúst 15, 2002

Auðvitað er bara einn maður sem getur bjargað Bandaríkjunum eftir setu Bush. Hér getur þú komið því til leiðar.
Talandi um 600 kindur þá mun um helgina verða kunngjörð stofnun aðdáendaklúbbs Hákons, enda fáir menn aðdáunarverðari.
Var annars rosalega duglegur við að ímeila útlendingunum mínum í gær, enda hefur tölvupósturinn aðeins verið að vakna í dag. Svo var nýútskrifaður bókmenntafræðingur að byrja í Bóksölunni í dag þannig að bókmenntafræðimafían er svo sannarlega hægt og rólega að taka yfir háskólasamfélagið. Múhahaha. Nei, þetta var ekki alveg að virka, ég sé ekki alveg fyrir mér hinn grimmúðlega bókmenntafræðing enda við öll soddan lömb, hitti meðal annars einn í dag sem er meðlimur í fjöllistahópnum 60 kindur.
In the land of the blind, the one-eyed man is king!

Kíktum á Minority Report, virkilega góð en ég var samt ekki sáttur. Eitt mikilvægt atriði var ekki rétt. En best að eyðileggja ekki fyrir neinum, Krúsi ágætur en Max von Sydow glæsilegur sem og fleiri aukahlutverk - og stelpurnar bak við okkur héldu greinilega ekki vatni yfir Íranum Colin Farrell. Mitt í afar áhrifamiklu atriði heyrist bak við mig "gvööð, hvað hann er með falleg augu". Það var upptaka af morði í bakgrunninum en þær voru ekki að láta smáatriðin trufla sig ...

miðvikudagur, ágúst 14, 2002

Borgin mín gæti verið að fara í kaf, mér finnst asnalegt að vera ekki þar. Asnalegt að vera hér að hafa áhyggjur af ritgerðum, vinnu, fjármálum og öðru húmbúkki. Þeir segja að Karlsbrúin sé í hættu. Yrðu þá einhverjir galdrar eftir í heiminum?
Er búinn að vera voða duglegur að vinna í HÍ - heimasíðunni minni. Þetta er vissulega langt frá því að vera klárað, smá litabrjálæði og allt það og aðallega flokkað blogg - en það þýðir líklega að þú getur forðast öll efni sem þú ekki nennir að skoða en samt tékkað á hinu. Þannig að ef ykkur leiðist getið þið kíkt í heimsókn og skoðað byggingasvæðið

mánudagur, ágúst 12, 2002

Það er ástæða til að benda sumum á að ég er ekki og hef aldrei verið skráður í stjórnmálaflokk enda enn með sjálfstæða hugsun. Annars heyrist mér líka að það verði mikið um sérstök tilefni á næstunni?
Gambrinn hefur hér með yfirgefið sólina fyrir rigninguna. Bölvuð vinnuþrælkunin kallar okkur maurana alltaf aftur. Jæja, ég á tvo daga eftir og fæ kannski eins og tvær sólarstundir sem ég sef svo af mér. En maður þarf að minnsta kosti ekki að bíða í aldir eftir að netið hlaði inn þegar maður er kominn aftur á elsku háskólanetið. Já, tæknin blífur svosum þó það vanti eitthvað upp á náttúruna í þessari borg enda rigningin ekkert annað en aflgjafi fyrir allar þessar tölvur. Trúðuð þið annars öll þessu með ósýnilegu míkrókubbana?

laugardagur, ágúst 10, 2002

Svo virðist sem lestur minn á Ísfólkinu fyrir tæpum fimmtán árum hafi komið að stað heljarmikilli rannsókn á þessum merku bókmenntum. Fyrst þetta hefur tekist hlýtur mér að takast að telja einhvern bókmenntafræðinemann á að skrifa lokaritgerð um Ísfólkið. Ég er því miður búinn að ákveða MA - ritgerðina nú þegar. Hmm, best að fara samt að drífa í því að klára þessa BA - ritgerð fyrst ...
Annars var hundrað prósent lesning á Ísfólkinu meðal karlmanna í bókmenntafræðinni í síðustu rannsókn sem ég framkvæmdi - ég, Elmar og Roald stóðum eitt sinn hvorn annan allir af því að hafa lesið Ísfólkið í æsku. Og enduðum allir í bókmenntafræði. I can see a worrying pattern emerging ... ætli ég endi á að verkstýra í unglingavinnunni eins og þeir tveir - eða Elmar að vinna í bókabúð eins og við Rói? Það væri svosum ágætt, hann skuldar mér afslátt nú þegar ég get ekki nýtt aðstöðu mína mikið lengur ... svo gæti ég keypt bækur fyrir krakkana í unglingavinnunni gegn prósentum af afslættinum ... suss, ef ég væri bara jafn spilltur í raunveruleikanum og hérna á netinu þá væri ég ekki svona blankur alltaf heldur barasta nógu ríkur til að stofna mína eigin útivistarbúð í Kringlunni ...

föstudagur, ágúst 09, 2002

Að lokum ber náttúrulega að prenta hér sýnishorn af því hve bréfaskriftir í tímum í MA voru á háu stigi - og endanlega sönnun hversu vel liðin ungur maður ég hef ávallt verið hvaða kjaftasögur sem þið kynnuð að hafa heyrt.

KÆRI ÁSGEIR!
ÞAKKA ÞÉR KÆRLEGA FYRIR TYGGIGÚMMÍIN. ÞÚ ERT GÓÐUR MAÐUR.

KÆRAR KVEÐJUR

NÍNA
STEINI
JÓHANNA.

til minningar færð þú þennan miða.
Einnig fann ég tvær tilraunir til dagbóka sem hafa venjulega ekkert gengið nema ég hafi notað flóknari tækni til, svosem blogger eða diktafón. Sú seinni gerist í skólaferðalagi til Algarve og er helst merkileg fyrir það að hætta um leið og eitthvað spennandi fer að gerast - a.m.k. var ég búinn að gleyma öllu sem ég skrifaði en man daginn eftir síðustu færsluna vel og greinilega, eftir það var sko ekki tími til dagbókaskrifa. En þessar lágtæknitilraunir með penna og blað eru þó vissulega allar athygli verðar. Má nefna hér utanlandsferð til Grænlands sumarið áður en ég var tólf ára, ég hafði nýlokið við allar þá útgefnar bækur um Ísfólkið (41) og ljáði það ritstílnum án efa dulúðlegan blæ. Þar entist ég til að skrásetja fyrri vikuna af tveimur. Áhugamönnum um heimskautamenningu til fróðleiks birti ég hér nokkur dagbókarbrot:

5. júlí:

svo fórum við í búðir og ég keypti ísbjörn, þrykkimyndir og Jolly-Cola.

6. júlí:

þvínæst var danskt völd þar sem var orðaleikur, stólaleikur, leikur sem átti að þekkja hendur aftur og mylla.

7 júlí:

seinna var æðislegur matur og ég borðaði þrjá diska af frönskum, súkkulaðibúðing og safa. 2 klst. seinna var franskt kvöld þar sem var Rómeó og Júlíu-leikur, Hver er morðinginn?-leikur, 2 blikkleikir og leikur þar sem allir þurftu að kyssa einhvern. Svo fórum við í sturtu, og þvínæst að sofa.


8. júlí:

svo fórum við yfir fjallið aftur. Á leiðinni sáum við illa rúnar kindur

9. júlí:

svo var hollenskt kvöldvaka þar sem við fórum í ísjakaleiki, boltaleik og pottaleik. Þvínæst fórum við í sturtu og svo að sofa.

11. júlí:

Kl. sjö fórum við á þyrlu uppá fjall, þar sem við gerðum vörðu. Svo fékk ég mér Coke.
...
Svo var Sutton-kvöld þar sem var Hoky Poky, húfuleikur, látbragðsleikur, radíóleikur, "hvernig flutt var yfir á" dans og krabbafótbolti. Svo var sturta og þvínæst fórum við að sofa.

Þarna lauk skrifum og ber mannfræðingum ekki saman um hvort ástæðan hafi verið ofþreyta sökum leikjaálags eða ofneysla á Jolly-Cola.
MIAMI-FRÉTTIR

ÁRMANN INGÓLFSSON. fréttaritari MICKEY í BANDARÍKJUNUM.
Hala-stjarna Halleys: Hala-stjarna Halleys er nú á leið kringum sólu.
Með fylgja myndir frá sædýra-safni í Miami. ekki reyndist unnt að fá hástökkvarann í viðtal, en myndirnar tala sínu máli.
Að lokum smá viðtal við nemanda hér í skólanum sem ekki vildi nafns síns getið.
F: Finnst þér gaman í skólanum?
N: Gaman í skólanum. Hvað meinarðu? Ég er hér til að auðga andann en ekki til að taka þátt í andlausu gríni og gamni.
F: Verður þú stundum fyrir aðkasti af þessum sökum?
N: Aðka-blaðka-hvað? Ertu að gefa í skyn að ég sé önd?
F: (andstuttur) Nei, þú misskilur mig. það sem ég vildi spurt hafa var hvort þú hefðir orðið var við andstreimi vegna andríkis þíns sem er óneitanlega meira en normalt.
N: Ég veit nú ekkert um það. En andlega séð er ég á öndverðum meiði við flesta skólafélaga mína.
F: Víkjum að öðru. Hefur þú heyrt mánaðarritsins Mickey getið?
N: Nei. er það eitthvað andófsrit?
F: Það held ég ekki. Nema þú eigir við andóf gegn fáfræði, iðjuleysi og andleysi.
N: Já þú átt við það. Hvaða andans maður gefur þetta rit út?
F: Hann heitir Ásgeir Tryggvi oger Ingólfsson.
N: Nú þetta er þá bara einhver útlendingur með hottintottanafn. Og er væntanlega allt á útlensku. Blaðið altso. Ég fæ nú ekki séð hvernig hægt er að vera andríkur á útlensku.
(þegar viðtalinu lauk stóð fréttaritari á öndinni).
Mickey

Jólin 1985 gerðist það að mér var gefin minnismiðablokk skreytt meindýrinu snjalla Mikka mús eða Mickey eins og nagdýrið ku heita á frummálinu. Óskipulagt barn sem ég var sá ég ekkert annað notagildi með minnismiðablokk heldur en að búa til tímarit úr henni. Tímaritið var í fyrstu A6 blað (eða einn minnismiði) prentað báðum megin og var gefið út alla daga milli jóla og nýárs það ár, uppfullt af bröndurum og gátum stolnum úr hinum og þessum jólabókum. En fljótlega stækkaði blaðið, ráðinn var fréttaritari í Bandaríkjunum og áskrifendum safnað. Nafnið Mickey og viðeigandi haus hélt sér og vona ég að forssvarsmenn Disney-samsteypunnar fyrirgefi mér að hafa láðst að biðja um afnot af vörumerki þeirra en lögfræði og viðskiptasiðfræði var barasta ekki meðal námsgreina í Lundarskóla. Markmið blaðsins var frá upphafi að lesendur tækju sem virkastan þátt í efni blaðsins, hugmyndin var nokkurs konar gagnvirkni langt fyrir tíma alnetsins. Einnig var reglulega efnt til vinsældarlistakannana á meðal lesanda og er skemst frá því að segja að engin leikari hafði neitt í Shogöninn Richard Chamberlain að gera og enginn sjónvarpsþáttur var frægari en Fame. Þá mætti Stekkjastaur í viðtal í jólablaðið og myndasería birtist af ketti ritstjóra. Ekki má svo gleyma framhaldssögunni um ljónsungann Leó, lesendahorninu (þar sem ónafngreindur notandi Eimote sjampós fékk útrás) og verðlaunagetrauninni. Blaðið lognaðist vissulega út eftir glæsilegt jólablað 1986 enda augljóslega langt á undan sinni samtíð. En áðurnefndur fréttaritari er væntanlega á leið í barneignafrí og mun því ekki verða ráðinn fréttaritari þessarar síðu strax (orlofsgreiðslur til fólks í barneignafríi eru nefnilega ekki inní kostnaðaráætluninni) og er ástæða til þess að stytta biðina löngu eftir barninu (sem nú er orðið tíu dögum á eftir áætlun og virðist ætla að bíða a.m.k. viku í viðbót) með því að birta einn pistil umrædds fréttaritara.

p.s.: “Ritstýrði skammlífu blaði 10 ára gamall” vekur ávallt aðdáun á atvinnuumsókninni og er vafalaust helsta ástæðan fyrir að fólk hafi yfirhöfuð verið að ráða undirritaðan í vinnu
Nostalgíukast

Eins og eðlilegt má teljast með lengri heimsóknir í föðurhús þá er vissulega aðeins tímaspursmál hvenær alvarleg einkenni sjúkdóms þess er nostalgía nefnist gera vart við sig. Sjúkdómseinkenni lýsa sér helst í áráttu til að opna kassa, skápa, skúffur og fleira sem ástæða er til að ætla að hafa ekki verið opnuð lengi og rýna í innihaldið. Netbyltingin hefur valdið því að sjúkdómur þessi er líklegri til að dreifa sér á milli landsfjórðunga en áður en ekki er talið að sjúkdómurinn sé bannvænn, eingöngu tímafrekur. En hér á eftir mun ég hósta upp úr mér nokkrum skjalfestum æviminningum sem ég efast ekki um að ykkur þykja stórmerkilegar, svo ekki sé minnst á sagnfræðilegt gildi. Þó mun ég reyna að halda handskrifuðum vinsældarlistum Rásar 2 frá árinu 1986 í lágmarki. Ég reikna svo að heyra frá þjóðminjaverði og landsbókaverði hvað á hverju um að setja þessi merku gögn í varðveislu.
Heimsyfirráð eða dauði

Hvaða minnimáttarkennd er þetta?

Svona er þegar ég er ekki í borginni til að peppa menn upp, óþarfi samt að taka það út á lesblindum, athyglissjúkum gelgjum. Annars finnst mér mín síða mun skemmtilegri en þær annars ágætu síður sem Gneistinn linkar á, enda lítillátur að eðlisfari. Fyrir utan að vera mun alþjóðlegri – síðan er meðal annars lesinn í Oxford og virtum háskólabæjum í Kanada. Fyrir utan að ég hef held ég aldrei nokkurn tímann vitnað í neitt af þessu ágæta fólki enda frekar latur við að tengja. Svo er náttúrulega bara tímaspursmál hvenær Gambrinn mun hefja skæða markaðssókn enda ómögulegt að ætlast til þess að maður standi endalaust í þessu í frítíma sínum. Leit að styrktaraðilum er að vísu ekki hafinn sökum anna en áhugasömum auglýsendum er gvuðvelkomið að leggja inn umsókn. Vissulega er maður glaður ef einhver skreytir síðuna sína fallega með link yfir til mín enda efast ég ekki um að það gerir heiminn margfalt betri en ég hef fyrir sið að gleðjast helst ekki á almannafæri enda passar það ekki nógu vel við drungalegan bakgrunninn.

fimmtudagur, ágúst 08, 2002

Another One Bites the Dust

Það gæti verið forvitnilegt að kíkja á breska jarðarför. Einkennilegt samt hvað allt er nýlegt þarna, deyja bretar svona ungir þessa dagana? Ég hefði haldið að Elvis kyrjaði flesta ofan í gröfina þessi árin ... Return to Sender ómar á meðan presturinn talar um að moldu sértu kominn og að moldu skulirðu aftur verða ...

þriðjudagur, ágúst 06, 2002

Maðurinn sagðist vera atvinnuleysingi að atvinnu.

Ítalir virðast vera búnir að finna hina einu sönnu leið til að útrýma atvinnuleysi - að viðurkenna atvinnuleysi bara sem fullgilda atvinnu. Eða kannski eru ítölskuþýðendurnir hjá Mogganum bara eitthvað timbraðir eftir helgina.
Bjór með kisa

Verslunarmannahelginni er þá opinberlega lokið. Hún var einstaklega róleg á þessum bænum en þó var ástæða til að deila einum bjór með kisa gamla. Kisi er nefnilega hinn fullkomni drykkjufélagi. Spyr engra heimskulega spurninga og gul augun tala af reynslu. Kisi veit allt, það þarf ekkert að tala of mikið, hann man og malar, mjálmar eða þegir eftir atvikum. Vináttan er engu háð, hún einfaldlega er.

Það væri gott að taka kisu með suður í sollinn. En kisi vill hvergi fara. Rétt eins og véfréttin var í Delfí og hvergi annars staðar þá er kisi á Akureyri og hvergi annars staðar. Man allt og ekkert, hokinn af elli (fimmtán sinnum sjö = 105 kattaár) en þó yngri en ég. Skrítið að einhver sem ég man eftir nýfæddum skuli vera orðinn gamall á undan mér. Skrítið að heimspekingar telji dýr vera sálarlaus þó þau hafi sérstakt hljóð til að tákna hamingju sem kemur frá óþekktum stað einhversstaðar innanúr þeim. Malið er eins og besti blús, djúpt innúr sálinni, alla leið úr kvikunni, fallegt með passlegum skammti af sorg og visku.

mánudagur, ágúst 05, 2002

Fjölskyldufréttir

enda eru fjölskylduhátíðir komnar í tísku

Fór í mat á fjölskylduóðalið í Aðalstræti í gær, sýnist Balli frændi ætla að halda uppi heiðri okkar karlmannanna í fjölskyldunni í eldhúsinu, strákurinn orðinn úrvalskokkur. Svo hefur mamma alveg verið að spila út á farsímanum í útilegunni. "Varstu að hringja í mig?" "Er einhver búinn að hringja?" "Er einhver póstur kominn?" Svo er ég farinn að hafa áhyggjur af heyrninni hjá öldruðum heimiliskettinum, hún / hann (löng saga) virðist ekkert taka eftir þó tugir flugna suði í gluggakistunni (þær hefðu aldrei orðið svona margar lifandi samtímis í gamla daga) en um leið og maður er búinn að banda þeim í sjónmál er ennþá stutt í veiðieðlið. Að vísu þarf maður venjulega líka að lyfta henni upp í gluggakistuna með tilheyrandi klóri þegar gluggakistan er í baðherberginu og kötturinn sannfærður um að maður sé nú að fara að setja hana í bað. Þessir táningar nú til dags ...
Ég er farinn að hafa áhyggjur af Gneistanum einum og yfirgefnum í Reykjavík. Fyrst er hann byrjaður að tala um "male-bonding" og svo virðist hann vera kominn á fremsta hlunn að tilbiðja nýja stýrikerfið sitt sem nýjan Messías. Það hlaut svo sem að koma að því ...

sunnudagur, ágúst 04, 2002

Já, litla barnið okkar er vaxið upp! Umkringdur lögreglumönnum, er einhver undirokaðri í þessu þjóðfélagi en Gneistinn ógurlegi?
Hverjum klukkan glymur

Um pistilinn sem var ekki skrifaður til að Óli kæmi með misgáfuleg svör við honum (þó hann sé næsta sannfærður um það).

Verð að svekkja Óla með því að skrifa þetta sem þýðir að ég er ekki glaður í Vaglaskógi eins og hann var svona sannfærður um. Nema mér hefði áskotnast fartölva sem væri vissulega mjög skemmtilegt. En hann ætlar sem sagt að svara pistlinum mínum og fer svo að tala um allt annað eins og hvernig ég er fullur (sem hann þekkir ekki) eða hvernig er að drekka (sem hann þekkir ekki heldur). Pistillinn aftur á móti var um hræsnina í íslensku þjóðfélagi og áhrif þess á drykkju”menningu” okkar, ekki óður til áfengis og fæ ég illskilið hvernig má skilja hann þannig – en sá pistill kemur máski seinna. En ég misskildi náttúrulega Mikka Torfa með því að lesa allan pistilinn – en sá hluti pistilsins sem enginn annar hafði kommenterað mikið á var aðeins skrifaður til að blekkja mig – og auðvitað var allur þessi pistill skrifaður til að blekkja Óla. Annars var ég náttúrulega eyðilagður yfir því að einhverjum ónafngreindum vini Óla finnist ég leiðinlegur fullur en gladdist fljótt aftur þegar ég var sjúkdómsgreindur með eitthvað sem heitir Hemingwayduld. Hef aldrei heyrt um þennan kvilla áður en er bara ósköp sáttur við hann enda maðurinn snillingur. Það hefði verið verra ef ég hefði verið með til dæmis Woody Allen-duld.
Kom til Akureyrar síðustu nótt, kíktum á Hamra áðan, skemmtilegt svæði og við erum strax farnir að plana að tala við Mark Burnett um að fá híuenukonunginn Jeff Probst hingað til að sjá um Survivor 6: Lost in Iceland.

föstudagur, ágúst 02, 2002

Annars sakna ég þess að það er ekki meira talað um fortíð Arnalds hjá Mogganum í allri umfjölluninni um hann. Ég hef ekki ennþá komið í að lesa neina af bókunum hans en samt sjálfsagt lesið meira eftir kall en margir lesendur þeirra, hann og Snæbjörn eru kvikmyndagagnrýnendurnir sem ég ólst upp við áður en ég byrjaði að kaupa ensku blöðin. Síðan þegar bækurnar fóru að koma út byrjuðu þeir að nota nýja mynd og skyndilega eltist kall um eins og tuttugu ár frá myndinni sem ég var orðinn svo vanur í Mogganum. Þarf að drífa í að fá vinnu þar á meðan ég er enn ungur - og aldrei breyta um mynd!
Hetjan í sumarbókaflóðinu

Ég var aðeins að laga til samhliða því að pakka og rakst á þessa fyrirsögn á gömlu Fréttablaði í umfjöllun um góða sölu á kiljum Arnalds Indriðasonar fyrrum Moggakrítikera. Þessi grein er skrifuð án allrar íroníu þannig að mér er spurn: Hvaða flóð eru þeir að tala um? Ég vinn í bókabúð og í dag kom ný íslensk bók í búðina, sú fyrsta síðan einhverntímann fyrripart júní. Réttara að kalla þetta sumarbókaúða heldur en flóð.
Er kominn í seinni hluta sumarfrísins og að sjálfsögðu á leiðinni heim til Akureyrar þaðan sem blómi íslenskrar æsku er uppruninn eins og sannast best á þessu ranti hérna. En miðað við rannsóknina hér að neðan er kannski spurning um að kíkja í Vaglaskóg einhvern morgunin?

Tölfræði lýgur aldrei!

10% kvenna hafa haft samfarir áður en klukkustund var liðin af fyrsta stefnumótinu
20% karla hafa haft samfarir á óvenjulegum stöðum
36% kvenna finnst nekt vera í lagi
45% kvenna vilja dökkhærða karlmenn með blá augu
46% kvenna hafa prófað endaþarmsmök
70% kvenna vilja frekar hafa samfarir á morgnana
80% karla hafa aldrei upplifað samkynhneigð sambönd
90% kvenna myndu vilja hafa samfarir úti í skógi
99% kvenna hafa aldrei upplifað kynlíf á skrifstofunni

Niðurstaða:

Tölfræðilega séð áttu betri möguleika á endaþarmsmökum að morgni til með ókunnugri konu úti í skógi, heldur en á skrifstofunni í lok dags. Hvað má læra af þessu?

Hættu að vinna frameftir, þú græðir ekkert á því
Captain America gerist búðarloka

"fighting communism doesn't exactly pay the rent"
Samsæriskenning dagsins

Zoolander

Sjaldan hefur jafn heimskuleg mynd verið jafn vel skrifuð. Maður var búinn að gleyma því hvað svona aulamyndir geta verið æðislegar þegar áherslan er á húmor, söguþráð og kostulegar persónur - ekki bara að ganga aðeins meira fram að fólki heldur en síðast. Og samsæriskenningar hafa ekki verið jafn spennandi síðan í JFK ...

The fashion industry has been behind every major political assasination over the last 200 years.

That’s impossible.

Yeah? Listen and learn, sweetness.

Abe Lincoln wanted to abolish slavery, right? But who do you think made the parade wigs and light sockets worn by our country’s early leaders?