föstudagur, apríl 29, 2005

Vísindaferð og lokapartí á eftir. Gott mál, nema af því ég asnaðist til þess að vera í þessum aukakúrsum og er með allt á síðustu stundu á ég alltof mikið eftir. Þannig að fyrst drekk ég til að gleyma. Svo drekk ég til að skemmta mér. Þegar það verður hins vegar komið með karókígræjurnar sem verið er að hóta þá skipti ég beina leið yfir í kakóið.

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Örvæntingarfullar húsmæður

Vildi bara koma réttri þýðingu á Desperate Housewives á framfæri. Veit ekki hvaða töflur þýðandinn hjá Sjónvarpinu hefur verið að bryðja, en það að þýða Desperate sem Aðþrengt er svona svipað og að skipta gott út fyrir sæmilegt. Ennþá verra er svo að þýða housewives sem eiginkonur, sérstaklega þegar aðalpersónan er fráskilin.

Dansið, komið uppá borð og dansið

... sagði Eva Braun á meðan sprengjurnar féllu. Og því ekki að dansa? Dansa yfir því að hafa lagt Evrópu í rúst, dansa yfir því að vera að fara að giftast manninum sem er aðalpersóna sjálfrar mannkynssögunnar. Dansa yfir því að loksins, loksins, séu sprengjurnar að falla á þau sjálf.
Eva dansar ekki lengur. Lengi vel kunnu Þjóðverjar ekki almennilega við að dansa, þeim fannst það óviðeigandi, þeir sáu allir fyrir sér Evu uppá borði á meðan sprengjurnar féllu. Yfir þeim var skuggi vatnsgreiddu hershöfðingjanna sem horfðu á þessa litlu blekkingu um veröld sem var. Sjálfir voru þeir alltaf Eva, héldu áfram að dansa þótt undirspilið yrði sífellt ógeðfelldara.
Það er líklega ómögulegt fyrir okkur hin að gera okkur grein fyrir því hversu erfitt það var fyrir Þjóðverja að gera mynd á borð við Hrunið (Der Untergang) – og hversu mikil dáð það er að ná með jafn áhrifamiklum hætti að kafa þangað sem fæstir eru tilbúnir að kafa – í það minnsta hjá sjálfum sér. Það er engin persóna í myndinni illskiljanlegri en Eva, örfá ómenni eru líka miklu skiljanlegri heldur en það hvernig þeim tókst að fá heila þjóð til að fylgja sér.
Ég var forvitinn að sjá hvernig Bruno Ganz, maðurinn sem ég þekki svo vel sem engill, myndi virka á mig í þessari mynd. En Damiel er hér hvergi nærri, orðið óþekkjanlegur er ofnotað um leikara en það á við hér. Frammistaða hans er svo mögnuð, svo útpæld, að ég fór að velta fyrir mér hvort Hitler hefði verið háður morfíni – sem virðist hafa verið raunin. Hann er vissulega ekki útmálaður sem algjört skrímsli en þó er sú staðreynd hve mörgum verðum umrætt um að hér sé loksins kominn „hinn mennski Hitler“ umhugsunarverð því þótt við fáum að sjá einstaka dæmi um að einhvers staðar þarna inni hafi bærst hjarta sem átti það til að klappa hundum og vera almennilegur við börn og konur þá er hann þó fyrst og fremst illfygli sem óskar eigin fólki ömurlegs dauðdaga, er algjörlega veruleikafirrtur og ofsóknarbrjálaður og fullur af hatri sem engin einasta bíómynd eða mannkynssögubók munu nokkru sinni ná að skýra til fulls. En fyrst þetta er sá Hitler sem birtist í myndinni hvers konar skrímsli bjóst fólk eiginlega við að sjá? Godzillu með yfirvaraskegg?
En aðalhutverk myndarinnar er þó í raun Alexandra Maria Lara sem Traudl Junge, einkaritari Hitlers. Hún er gullfalleg, falleg á þennan tæra, saklausa hátt. Allt í fari hennar, fasið, þær hugsanir hennar sem við fáum að heyra, hvernig hún sinnir börnunum, já, hreinlega allt bendir ekki til neins annars en að þetta sé hin vænsta stúlka, góðmennskan uppmáluð. Allir röntgengeislar sem maður beytir á hana leiða sömu niðurstöðu í ljós, það er ekki til vont bein í henni. En einmitt þess vegna er hún hinn raunverulegi illvirki. Það var hún sem stóð hjá öll þessi ár og gerði ekki neitt. Hún og þýska þjóðin. Það verða alltaf til rotnir litlir menn eins og Hitler og hans næstráðendur voru. En það er fyrst þegar hinir góðu hafa ekki dug í sér til þess að hindra að þeir vaði uppi sem þeir verða hættulegir.
--------------------------
Hér er rétt að staldra við og minnast annarar myndar um Seinni heimstyrjöldina, þá sem líklega kom fyrst upp í hugann áður en þessi kom til sögunnar. Schindler’s List. Hún var sýnd hérlendis árið 1994. Ég man vel eftir því. Ég man þegar ég labbaði heim úr bíóinu, uppveðraður, sjálfsagt uppfullur af hugmyndum um að breyta heiminum og allt það svo svona nokkuð endurtæki sig ekki. Enda var mikið fjallað um Schindler’s List þetta ár. Hún átti það líka alveg skilið. Mögnuð bíómynd sem er í hugum margra hin endanlega sýn á helförina. Hálfrar aldar gömul hrollvekja öðlaðist nýtt líf, réttilega, því ekki mátti hún gleymast. En á meðan vorum við þegar byrjuð að gleyma annari helför. Á meðan heimurinn var upptekin við að rifja upp hversu grimmir forfeður okkar höfðu verið þá var annar Schindler, Paul Rusesabagina, að reyna að bjarga sínu fólki frá helför á keimlíkan hátt og Oskar kollegi hans hafði gert hálfri öld fyrr. En heiminum stóð á sama og virðist ekki vera að ranka við sér fyrr en núna, tíu árum seinna, þegar það er loksins kominn bíómynd um atburðina. Hotel Rwanda fjallar um hótel sem er vin í eyðimörkinni – svo langt sem það nær – í helför þeirri sem átti sér stað á hundrað dögum í Rúanda fyrir rúmum áratug. Áttahundruðþúsund manns látnir á þetta stuttum tíma sýnir að þessi helför er vel samkeppnisfær við nasistana – en þetta eru jú bara negrar. Ekki einu sinni það, eða eins og fulltrúi Sameinuðu þjóðanna orðar það þegar það er endanlega ljóst að heiminum er sama: „You're dirt. We think you're dirt, Paul ... The West, all the superpowers ... They think you're dirt. They think you're dung ... You're not even a nigger. You're African.“ Þetta er ekki skúrkur sem segir þetta. Aðeins einn af þeim fáu vesturlandabúum sem þorir að segja það sem við hugsum. Og fyrirlítur sjálfan sig fyrir það.
Myndin hlífir okkur ekki. Þá meina ég ekki að það sé mikið sýnt, svo er ekki þó ákveðanar senur séu all hrikalegar þá fer myndin mest fram á hótelinu þar sem aðeins ógnin ríkir en ekki dauðinn sjálfur, hann er á götunni. En hún þorir að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Í staðinn fyrir að segja „þetta fólk“ þá er sagt niggarar. Í staðinn fyrir að tala um að þjóð okkar eigi engra hagsmuna að gæta (Bob Dole fyrir hönd Bandaríkja Norður Ameríku) er þeim sagt að þeir séu ekki merkilegri en skítur og okkur sé slétt sama. Clinton-stjórnin beitti sér fyrir því að í stað þess að talað yrði um „genocide“ væri talað um „acts of genocide“ – sem vel að merkja þýðir ekki neitt. Meira um þetta hér í mögnuðum dómi Salon.
En hvernig virkar Hotel Rwanda sem bíómynd? Hún virkar. Aðalástæðan er Don Cheadle. Blökkumaður átti vissulega að fá óskarinn á síðustu hátíð – en með fullri virðingu fyrir Jamie Foxx sem er frábær leikari þá fékk vitlaus blökkumaður styttuna. Foxx er frábær sem Ray en myndin dregur hann niður, því myndin er í raun ekki annað en billeg en misheppnuð tilraun til þess að komast að einhverju sem máli skiptir um Ray Charles. Don Cheadle hjálpar Hotel Rwanda að komast að einhverju sem öllu máli skiptir um Paul Rusesabagina og örlög þjóðar hans. Hann gerir það á merkilega hljóðlátan en þó áhrifamikinn hátt. Við sjáum hann breytast úr kattþrifnum hótelstjóra ... og þó, nei, í rauninni er lykillinn sá að hann breytist ekki. Hann lifir af með því einfaldlega að halda áfram að vera góður hótelstjóri. Eini munurinn er að gestirnir eru ekki lengur með kreditkort. En áhrifamesta sena myndarinnar er strax á eftir þeirri senu sem maður hefði haldið að væri hápunkturinn, senu sem var einhver sú óhugnanlegasta sem sést hefur í bíó er fylgt eftir með senu af Paul að binda bindishnút. En það segir allt um stórleik Cheadle að honum tekst að gera seinni senuna ennþá átakanlegri en þá fyrri.
En hvað skildi Paul, hinum raunverulega Paul, finnast um myndina? Þegar fréttamenn ná allhrikalegum myndum við upphaf helfararinnar gleðst Paul og segir mikilvægt að heimurinn fái að sjá hvað er að gerast. Fréttamanninum finnst umræðuefnið óþægilegt en viðurkennir að lokum að líklega gerist ekki annað en það að fólk muldri með sér „en hvað þetta er hræðilegt“ og haldi svo áfram að borða kvöldmatinn sinn.
Rétt eins og við höldum áfram að borða poppkornið okkar eftir myndina? Við höldum öll áfram að borða kvöldmatinn, höldum öll áfram að mæta í vinnuna, höldum öll áfram að halda þessu samfélagi gangandi hvað sem það kostar á meðan önnur samfélög hrynja í þægilegri fjarlægð.

Alvöru bíó í Reykjavík

Þegar ég bjó í Prag var einn uppáhaldsstaðurinn minn Terminal Bar, sem því miður er horfinn núna (eða fluttur) hvort sem það var vegna flóðanna eða einhvers annars. Þar var allt á einum stað. Þarna var minibókabúð sem sérhæfði sig í sérviskulegum bókum, netkaffi þar sem tölvur voru við veggina en borð og stólar í miðju þannig að maður kláraði sitt tölvupóststékk og netráp og endaði svo venjulega á borði við spjall og bjórdrykkju – og svo var videotekið. Maður gat valið úr helling af klassískum eða nýlegum költmyndum, bókað lítið herbergi niðri þar sem var hægt að vera frá einum og uppí átta (í eitt skiptið fengum við að vísu að vera um tuttugu þegar tveir strákar í FAMU voru að frumsýna stuttmyndirnar sínar) og bíómyndum af video var varpað á tjald af skjávarpa. Þarna sá ég fyrst snilldarverk eins og Badlands, Slacker og auðvitað mynd myndanna, Himininn yfir Berlín. Og alltaf hefur mér fundist vanta eitthvað svona hérna, ekki nákvæmlega eins en trútt þessari hugmynd. Bíó sem er ekki rekið á forsendum Jóns Ólafssonar eða Árna Samúelssonar þar sem lúxussalur virðist aðallega þýða stærri popppokar. Þess vegna er svo gleðilegt að sjá þessi orð Ásgríms Sverrissonar, ritstjóra Lands og sona:

Það er kominn tími til að horfast í augu við það að tilraunin í Bæjarbíói er ekki að ganga upp þrátt fyrir góðan ásetning. Alvöru dýnamískt cinematek, sem hefði það að markmiði að bjóða uppá nýtt og spennandi efni með klassík í bland, á auðvitað heima í miðbæ Reykjavíkur. Þetta væri einnig flottur staður og skemmtilega hannaður, þarna væri hægt að kaupa veitingar og ýmislegt kvikmyndatengt, t.d. mynddiska, bækur, tímarit, tónlist og annað. Slíkur staður er svo gjörsamlega nauðsynlegur og eðlilegur hluti af miðju menningarborgar að ég bara skil ekki afhverju ég er þar ekki núna að slá þetta inn! Nema þá að engin orka sé eftir í slík mál þegar plebbismi, stofnbrautir og útþensla upp um allar sveitir eiga hug manna. Getur það verið?

Verð þó að taka fram að ég tel að það megi vel reka Bæjarbíó í Hafnafirði áfram þó það yrði stofna almennilegt cinematek í miðbæ Reykjavíkur. Það mætti jafnvel fara í nánari samvinnu við skóla í Hafnafirði og þá er aldrei að vita nema Hafnafjörður yrði útungunarstöð kvikmyndaleikstjóra ekki síður en handboltamanna.

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Ich bin ein kugelschreiber

Þetta próf virðist vera að ganga aftur, allt gott um það að segja enda fátt hollara en að hvíla sig á hinum prófunum með því að taka eitt þar sem engin námslán eru undir. Þá meina ég samt ekki að þetta skipti minna máli ... en sem sagt, þeir sem eiga eftir að prófa þekkingu sína á eiganda þessarar síðu geta gert það hér.

Í algjörlega óskyldum fréttum heyrist mér að ég sé að fara að leika í þýskri stuttmynd. Helsta takmark mitt verður vitanlega að smygla línunni hér að ofan inní handritið.

Útvarp með upptakara

Bjargaði alveg deginum þegar algjörlega upp úr þurru bankar póstburðarmaður uppá með pakka frá útlöndum þó ég eigi ekki afmæli fyrr en í ágúst og jólin séu löngu búin. Mættu fleiri taka sér þetta til fyrirmyndar, til dæmis ég. Innihaldið algjör snilld, eitthvert svalasta vasaútvarp sem ég hef séð, geisladiskur með að mér heyrist heitasta bandi Baunaveldis, þrjár bjórmottur og auðvitað súkkulaði.

sunnudagur, apríl 24, 2005

La mala educación

Opnunartitlarnir, þessir ýktu litir, allt í einu áttaði ég á mig hvað Almodóvar er ótrúlega líkur Hitchcock. Því til viðbótar hefur maður oft á tilfinningunni með þá báða að þeir séu að vinna úr sínum eigin óuppfylltu perversjónum, sem er auðvitað hið besta mál - og ef eitthvað er þá er þessi mynd Vertigo Almodóvars. Næ samt líklega betur að tengja mig við perversjónir Hitchcocks en það eru frábærar senur hérna og sagan merkilega margbrotin, en samt er eins og eitthvað vanti. Kannski ákveðna samúð með aðalpersónunum? Bernal er hins vegar hreint út sagt stórkostlegur.

laugardagur, apríl 23, 2005

Verkefnaskil

Það er ekkert nýtt að maður sé að skila verkefni á síðustu stundu. Það sem er nýtt að síðasta stundin var miðnætti á föstudegi. En þar með hef ég lokið endanlega þeim alleiðinlegasta kúrsi sem ég hef tekið síðan Almennur kressismi skildi eftir sig ólæknandi ör á sálinni fyrir margt löngu. Að vísu var lögfræðihlutinn ekkert svo slæmur en viðskiptahlutinn, ja það sannaðist bara að sú staðreynd að viðskiptafræði er langvinsælasta háskólagrein á Íslandi sýnir það eitt að þjóðin er miklu verr haldin af masókisma en talið var. Annars opnaði ég ísskápinn áðan og sá þar einn bjór, ég ætla að fagna áfanganum með því að drekka hann og fara svo að sofa og læra áfram á morgun. Nei, heyrðu, það er annar bjór þarna í ísskápshurðinni. Þetta endar með ósköpum ...

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Útvarp Prag

Set link hér á fyrstu heiðarlegu tilraun mína til útvarpsþáttargerðar. Plataði Kafka, Kundera, Mozart og Damien Rice til að hjálpa mér aðeins, eitthvað verður maður að nota þessa vini sína ... merkilegast fannst mér samt að komast að því að tvö glös að skála hljómar engan veginn eins og tvö glös að skála. Þeir svindla greinilega svo rosalega á þessum sándeffektum í bíó að raunveruleg skálun hljómar eins og lestarslys.

Annars var ég sem sagt að hugsa um að gera þátt um ferðalög en rambaði á endanum á sama stað og svo oft áður. Staðurinn var Prag, borgin sem ég rambaði á þegar ég flakkaði um Evrópu fyrir einum sex árum síðan og varð umsvifalaust borgin mín. Það var eitthvað í loftinu ... Hvað þetta eitthvað var nákvæmlega er ég ekki ennþá fyllilega komin til botns í þrátt fyrir vetrarsetu við nám og nokkrar stuttar heimsóknir síðan. Því er þessi útvarpsþáttur líklega enn ein tilraunin til þess að komast til botns í því. En hér er sem sagt þátturinn (smellið á neðri linkinn), þakka Starra fyrir hýsinguna.

annars fékk ég meðal annars þá athugasemd að ég hljómaði eins og prestur. Sem er mjög heppilegt enda starf páfa laust. Eitthvað er verið að tala um að fá svartan mann eða konu, er ekki spurning um að vera raunverulega radical og fá heiðarlegan heiðingja eins og mig?

Taxi

Hitti pabba vinar míns í dag þegar ég tók leigubíl (á kostnað greiðanda afnotagjalda náttúrulega enda að leika mér hjá útvarpinu). Spjölluðum eitthvað um soninn enda erum við sameiginlegir áhugamenn um það hvenær hann fer nú að klára BA-ritgerðina. Svo fór ég að spá hvað mér þótti svona einkennilegt við þetta. Jú, eftir að maður flutti suður þá hittir maður nánast aldrei foreldra vina og kunningja. Sem er vissulega mikil synd.

mánudagur, apríl 18, 2005

Mean Creek & I Heart Huckabees

Mean Creek er einhvers staðar mitt á milli Stand by Me og Deliverance. Nokkrir krakkar að fara út í óbyggðir, takmarkið í upphafi að ná sér niður á hrekkjusvíni skólans sem hefur verið teymdur með en hægt og rólega fara að renna á alla tvær grímur, er strákurinn örugglega svo slæmur? Myndin er afskaplega hæg og einmitt það þrælvirkar, tíminn leið jú miklu hægar á þessum aldri. Þegar flest var ennþá nýtt. Andlitin á krökkunum fá að segja söguna mestan partinn. Efnið virkar óneitanlega meira sjokkerandi þegar um börn og unglinga er að ræða en ætti samt ekki að gera það, við horfumst ósköp sjaldan í augu við það að fáir geta verið jafn grimmir og börn. Samt eru þetta allt í grunnin góðir krakkar. En gott og vont eru miklu meiri og sterkari andstæður þá en nú þegar allir eru komnir með sínar grímur til að lifa af. Það sem kom kannski helst á óvart var að sá ágæti leikari Rory Culkin, sem var reglulega góður í You Can Count on Me og Igby Goes Down, er eiginlega veikasti hlekkur leikhópsins. Hann stendur sig ágætlega en ekkert meira. En ólíkt því sem fyrst virðist þá er hann ekki í mikið stærra hlutverki en hinir krakkarnir. Josh Peck nær að gera heilmikið með feita hrekkjusvínið George, karakter sem er blessunarlega úr takti við flestar klisjur. En það er Scott Mechlowicz, elsti en um leið óreyndasti leikarinn, sem er áhrifamestur. Við vitum mest lítið um hans persónu en hann nær einhvern veginn að dansa í gegnum hlutverkið, takturinn í myndinni ákvarðast af honum.


I Heart Huckabees á það sameiginlegt með Mean Creek að leikframmistaðan kom á óvart – í þetta skiptið þó á öfugan hátt. Jason Schwartzman, Dustin Hoffman, Lily Tomlin, Naomi Watts, Isabelle Huppert og Jude Law eru öll fín en senuþjófurinn er ótrúlegt en satt Mark Wahlberg. Það er rétt að taka það fram að ég hef megna óbeit á þessum mesta vælukjóa Hollywood, en einhvern veginn nær David O. Russell alltaf að draga fram það besta í honum. Hann var einmitt síðast almennilegur í síðustu mynd Russell, Three Kings, og hér endurtekur hann leikinn og er ótrúlegt en satt virkilega góður, hið sanna hjarta myndarinnar þó Schwartzman sé í aðalhlutverkinu. Myndin sjálf snýst um að gera grín að tilgerð og það litar hana í rauninni, langoftast virkar grínið, stundum leyfa þeir persónunum að segja eitthvað sem er í alvörunni djúpt og einstaka sinnum fellur myndin vissulega í það að hætta að gera grín að tilgerðinni og verða tilgerðarleg sjálf. En hún dansar allan tímann á mörkunum þannig að mig grunar að það komi ekki margir út af henni sammála um það hvernig tókst til.

laugardagur, apríl 16, 2005

Garden State

I woke up near Rittenhouse Square
There was noise in the hall; snow was flowing in the air
And I could see just then the flashing spark
Of the match to my first smoke


Fyrir ekki löngu síðan langaði mig að sjá helling af myndum á kvikmyndahátíðinni. Núna langar mig bara að sjá eina, Garden State, aftur og aftur og aftur.

Annars var gærdagurinn fyrir margra hluta sakir skemmtilegur. Í fyrsta lagi ætlaði ég að vera í vinnunni til hálffjögur en endaði á að vera klukkutíma lengur út af því ég var farinn að skemmta mér svo vel við að gera auglýsingaspjöld fyrir útsöluna. Einstein, Elvis og aðrir sem ég kann að hafa móðgað eru hér með beðnir afsökunar.

Kíkti svo í Kringluna í skókaupaleiðangur. Strætóferðirnar óvenju skemmtilegar í báðar áttir, af hverju er ekki alltaf svona sætar stelpur í strætó? Fann skó sem allir voru sammála um kvöldið að væru hreint rosalega nýjir. Hreinlega nýjastir. Kannski orðnir gamlir núna samt enda rigning úti.

Þá var það næstsíðasta Snápapartí annarinnar, fámennt en góðmennt og við Ingveldur vorum þau einu sem entumst niðrí bæ. Vorum samt ekki alveg að fíla neinn stað nógu vel þannig að við erum búin að ákveða að fara að stofna kaffihús. Ef einhver veit um ókeypis húsnæði á Laugarveginum má láta mig vita. Svo þurfum við líklega einhvern sem er ekki bókmenntafræðingur til að sjá um reikningana og svoleiðis.

Hitti svo báða uppáhalds Kristjánana mína. Það var raunar eitt það besta við gærdaginn, Reykjavík er þannig borg að maður hittir sjaldnast neinn óvart. Nema í gær. Núna er ég svo bara að bíða eftir að Söngvakeppnin sé búin svo ég geti horft á upptökuna. Ekki nema ár síðan ég var virðulegur framhaldsskólakennari að sjá til þess að litlu dýrin mín úr FNV færu sér ekki að voða í stórborgarferð sinni til að sjá þessa sömu keppni. Ókei, virðulegur er alveg örugglega ekki rétta orðið ... en endum þetta á laginu sem við byrjuðum þetta á, þrátt fyrir veðrið er ég í alvörunni farinn að halda að vorið sé alveg að koma ...

I see your feet at the edge of the bed
While an old Love song is creeping into your head
And as your eyes just closed I could only guess
If you were dreaming of me again

mánudagur, apríl 11, 2005

Stalking

Furðulegt fólk ásækir mig í ennþá meira mæli í dag en venjulega og hefur gert síðan klukkan kortér yfir sjö í morgun. Maður að muldra ástarjátningar innum bréfalúgu nágrannans, kona sem var brjáluð út af dauðum ketti og húsvörðum ... og þið hin vitið hver þið eruð ;)

Where is my spring?

Búinn með leiðinlega heimaverkefnið og get farið að sofa og vonast til þess að ég verði í stuði til þess að gera eitthvað af skemmtilegu heimaverkefnunum annað kvöld, dagurinn sjálfur er fullbókaður. Hvenær á maður eiginlega að komast á bíó aftur? Svo vil ég fara að fá vinnu. Einmitt núna er þetta óþolandi tímabil að bresta á þar sem maður er að stressa sig á hvar maður fái vinnu í sumar, bankabókin er komin á gjörgærslu og heilt fjall af verkefnum bíða eftir manni og mann langar bara að eiga líf með góðri samvisku og fá smá gott veður svona einu sinni. Líf íslenskra námsmanna í hnotskurn líklega.

Ákvað þó að eiga mér smá líf á föstudaginn og gaf samviskunni frí sökum þess. Sveik lit og fór í bókmenntafræðiparti hjá Davíð. Þó ekki, enda bókmenntafræðinemi að þriðjungi og bókmenntafræðingur fyrir utan að vera afsakplega bókmenntafræðilegur á litinn. Fölur sem sagt. Mjög gaman, enda kominn með alvarleg fráhvarfseinkenni, tvö ár síðan ég hef stundað þessar göfugu samkomur. Síðan þá er búið að þjálfa upp sirkusmeistara sem þagði í einbeittri íhugun fyrsta klukkutíma partísins áður en hann hófst handa við stórhættuleg og vafasöm sýningaratriði sem ekki mun verða upplýst nánar um hér. Annars einstaklega fallegt og djúpviturt fólk á staðnum þó vissulega hafi afbyggingar á OC og Nágrönnum farið eitthvað fram hjá mér enda í sjónvarpssvelti ef RÚV er undanskilið. Svo dreymdi mig vel á eftir en get ómögulega munað hvað.

föstudagur, apríl 08, 2005

egósentrísk færsla

Hinn geðveikt svali lúðinn hefur loksins gengist við mér! Allir skápaaðdáendur Gambrans geta nú séð mynd af nötternum sem hérna skrifar sem og ítarlega sálfræðigreiningu hérna.

Mótórhjóladagbækurnar

Skemmtilegar svona galasýningar. 5 fríir bjórar og maður kemur út í hagnað þrátt fyrir að hafa þurft að borga fyrir miðann. Þessar hugleiðingar þykja mér einkar viðeigandi þegar myndin fjallar jú um unga menn sem hafa ekki mikið milli handana og þarf að beita brögðum til að verða sér úti um áfengi og mat.

Spjallaði stuttlega við Walter Salles. Hann minnir mig nokkuð á öðling mikinn sem ég hef ekki séð í þónokkurn tíma. Báðir eiga það auðvitað sameiginlegt að sætta sig ekki við neitt minna en að bjarga heiminum enda er það algjör lágmarkskrafa.

Það er vel að merkja misskilningur að þetta sé mynd um Che. Þetta er mynd um Ernesto og það hvernig Che fæðist. Stundum velti ég því fyrir mér hvað maður þarf að fæðast oft til þess að verða maður sjálfur.

Að lokum;

lifi byltingin!

Eftir lokin;

obrigado.

takk fyrir að minna okkur á það sem skiptir máli, í raun er það eitt sem skiptir máli, að minna heiminn á hann sjálfan, minna hann á að hann er okkar allra. Mennirnir sem stjórna heiminum vita ekki hver hann er, þeir þekkja ekki andlit hans. Til þess þarf kjark og dug ... og eins og eitt mótorhjól.

fimmtudagur, apríl 07, 2005

Sin City

Flestir munu líklega tala mest um tæknina og myndatökuna í myndinni, það sem greip mig fyrst voru orðin. Texti Millers er magnaður og leikararnir fara vel með hann, opnunaratriðið minnti helst á ljóð Pablo Neruda og stundum gengur vofa Shakespeares um götur borgarinnar. Guðfeður rökkurmyndanna þeir Raymond Chandler og Dashiel Hammett eru þó mestu áhrifavaldarnir og sagan sjálf er kokteill af öllum bestu Sódómusögnum frá upphafi vega. Nema að það má vissulega finna nokkra hjartahreina menn í þessari borg. Með ýmislegt á samviskunni vissulega en það þarf að gera ýmislegt til að lifa af á svona stað.
Í raun eru þetta fyrst og fremst þrjár aðalsögur sem tengjast mislauslega, tvær þeirra eru heillandi stórborgarstef við Fríðu og dýrið og sú í miðið meinfynin ofbeldisorgía með talandi hausum og fleiru skemmtilegu. Sjónræna hliðin er auðvitað stórkostleg, eitthvað sem maður gæti ýmindað sér að Orson Welles hefði gert í Citizen Kane ef hann hefði haft nútíma tækni. Og þó hún sé vissulega ótrúlega groddaleg þá er þetta ein ljóðrænasta bíómynd sem ég hef séð.
Jú, og hún er stranglega bönnuð innan sextán ára, það eru mjög góðar ástæður fyrir því. Eða eins og Hartigan segir við litlu stúlkuna sem hann bjargar: "Cover your eyes, Nancy! I don't want you to see this." En auðvitað á hún eftir að sjá meira en nóg áður en yfir lýkur.

miðvikudagur, apríl 06, 2005

Margfaldur bíómiði

Þar sem það var ekki nóg að gera fyrir þá freistaðist ég til þess að fá mér kvikmyndahátíðarpassa. Enda Garden State, La Mala Education, Ett Hål i mitt hjärta, Der Untergang, Hotel Rwanda, I Heart Huckabees og Maria Full of Grace allar skylduáhorf, fyrir utan náttúrulega Móturhjóladagbækurnar sem er frumsýnd á sérsýningu með Salles á morgun. Þá á ég þrjár myndir eftir, Kinsey, Napoleon Dynamite, The Woodsman, Melinda & Melinda, 9 Songs og allar sem ég er að gleyma koma ágætlega til greina, svo er lýsingin á Beautiful Boxer forvitnileg: "Sönn saga um tælenskan kikkboxara sem barðist til sigurs alla leið á toppinn, til að eiga fyrir kynskiptiaðgerð." Aldrei vissi ég að Mike Tyson væri Tælenskur, en allavega ...

Svo er það Sin City í kvöld, gúrúarnir í Nexus verða væntanlega allir þar, var að gera stutta sjónvarpsfrétt um Myndasögumessuna sem lítur mjög vel út ef klippingin á morgun gengur upp. En sem sagt, það sem eftir er aprílmánaðar er mjög einfald: læra, bíó, læra, sofa ... and repeat. Spurning um að borða líka? Sjáum til, vona að þessi síða drepist ekki endanlega á meðan.

mánudagur, apríl 04, 2005

Gagnvirk skáldsaga

Byrjaði á Bókinni um hlátur og gleymsku rétt áður en ég fór á Ísafjörð og kláraði hana rétt eftir að ég kom. Hún rímaði merkilega vel við atburði viðkomandi daga.

Á fimmtudegi kom Bobby Fischer til landsins, það næsta sem ég las í bókinni var uppveðruð sögupersóna sem hrópar upp yfir sig: "Ég er Bobby Fischer, ég er Bobby Fischer." Vissulega algjör nötter, en það er náttúrulega bara viðeigandi.

Síðan er Guðný frænka að tala um að hún viti ekki í hvaða húsi pabbi hennar - og mömmu og þar af leiðandi afi minn - hafí búið áður en hann kynntist ömmu. Hún hafi ekki haft vit á að spyrja hann að því - og svo mörgu öðru - fyrr en of seint. Svo flytur hún til Suðureyrar, rétt hjá Ísafirði, bænum sem foreldrar hennar kynntust. Bænum sem mamma fæddist í. Las svo þetta um kvöldið:

"Við hugsum um óendanleika stjarnanna en skeytum engu um óendanleikann sem er fólgin í feðrum okkar."

Já, góðar bækur koma til manns á réttum tíma. Skil samt ekki af hverju Kundera gleymdi að minnast á Ísafjörð í bókinni.

föstudagur, apríl 01, 2005

Aprílgabb RÚV

Það hefur komið í ljós að ráðning Auðuns Georgs í starf útvarpsstjóra var á endanum aðeins eitt útsmognasta og best undirbúna aprílgabb sem RÚV hefur staðið fyrir. Hið sanna í málinu er að Finnur Ingólfsson hefur verið ráðinn í starfið, enda Auðun ekki einu sinni með flokkskírteini. Í sárabætur verður Auðun þó væntanlega gerður að Seðlabankastjóra eða sendiherra.

Ævintýri ósýnilega mannsins

Bara til að friða áhyggjufulla lesendur - ég er kominn aftur frá Ísafirði. Mikið rokk og algjörlega frábær hátíð, tjái mig betur um það seinna annars staðar þar sem ég er búinn að lofa pistli um það fyrir annan vettvang.

En það var eitt sem var þó sérstakt við þessa páska og það var hversu sterkir ofurmennishæfileikar mínir til þess að vera ósýnilegur voru, sérstaklega þegar ég var að panta mér einhverjar veitingar.

Ævintýri ósýnilega mannsins, fyrsti hluti:

Föstudagurinn langi. Ósýnilegi maðurinn niðrá Lækjartorg með það markmið að ná fimmuni sem fer út á flugvöll en þar bíður hans bílaleigubíll. En strætó er mínútu á undan Ósýnilega manninum og þar sem hann er ónærður fer hann að leyta sér ætis. Upphafleg áætlun er sú að láta pylsu duga en þar sem enginn sölustaður slíks fæðis er opinn þá endar Ósýnilegi maðurinn á Kebabhúsinu og bíður þar í langan tíma eftir matnum. Fyrst telur Ósýnilegi maðurinn þetta eðlilegan páskaseinleika en þegar grunsamlega margir eru að fá matinn sinn á undan honum þó hann hafi verið pantaður á eftir fer Ósýnilegi maðurinn að fá á tilfinninguna að ofurmenniskraftar hans séu hér að verki. Jú, auðvitað hafði afgreiðslustúlkan bara steingleymt borgara Ósýnilega mannsins. Sem kemur loksins en þá var Ósýnilegi maðurinn auðvitað löngu búinn að missa af strætó og þurfti að taka næsta.

Ævintýri ósýnilega mannsins, annar hluti:

Daginn eftir var Ósýnilegi maðurinn svo staddur á Langa Manga á Ísafirði. Var ekki nógu vel vaknaður og sökum gistingar á Suðureyri var hann bílandi og gat þar af leiðandi ekki fengið sér neitt sterkara en kaffi (sökum takmarkaðrar vöknunar) og kók (til að losna við kaffibragðið). Satt best að segja fannst Ósýnilega manninum það ekkert taka neitt ógurlegan tíma en Manga* virtist finnast það og gaf Ósýnilega manninum þ.a.l. bæði. Vitanlega hugsanlegt að tímaskyn mitt hafi brenglast sökum ósýnilleika. Mikill heiðursmaður Mangi og heitir Ósýnilegi maðurinn því í staðinn að koma þarna við tækifæri og fá sér stóra súkkulaðiköku. Eða bjór. Eða bæði.

*Rétt er að taka fram að Ósýnilegi maðurinn hefur engar öruggar heimildir fyrir að afgreiðslumaðurinn hafi heitið Mangi en hann var þó afskaplega Mangalegur og þetta fallega nafn því afar viðeigandi þessum góða afgreiðslumanni.

Ævintýri ósýnilega mannsins, þriðji hluti:

Síðar um kvöldið fer Ósýnilegi maðurinn á Pizza 67. Pantar ostaveislu og eftir rúman klukkutíma og ófáar ferðir til þess að spyrjast fyrir um örlög pizzunar kemur hún loksins. Ósýnilegi maðurinn þurfti sem betur fer ekki að borga fyrir hana, en honum er hulin ráðgáta hvernig þessir staðir á Ísafirði bera sig. Gunnhildur og Fabri af Stúdentakjallaranum komu líka við og svo virðist sem ofurmennishæfileikar Ósýnilega mannsins hafi smitast að einhverju leyti yfir á þau enda þurftu þau að bíða nærri jafn lengi, aðrir fengu hins vegar matinn sinn mun fyrr.

Ævintýri ósýnilega mannsins, fjórði hluti:

Ósýnilegi maðurinn ákveður seinnipartinn á Páskadegi að kominn sé tími á heimför. Hann leggur af stað um kaffileytið á tómann maga ef frá er talinn hluti af páskaeggi. Hungrið er þó ekki byrjað að láta á sér kræla þegar keyrt er fram hjá Hólmavík og ákveðið er að borða á Brú. Þangað er komið tuttugu mínútur yfir átta. Veitingastaðnum á Brú er lokað klukkan átta. Þá er það Hyrnan í Borgarnesi - og þó þangað sé komið vel fyrir tíu er búið að loka. Þegar til höfuðborgarinnar er komið er það svo loks BSÍ sem bjargar Ósýnilega manninum frá því að verða endanlega ósýnilegur af hungri.

Undantekningin frá þessu um helgina var þó Guðný frænka sem eldaði ítrekað ljúffengt burritos á mettíma.

En Ísafjörður er merkilega fallegur bær. Það er að vísu slatti af ljótum nýjum húsum sem skyggja á gamla bæinn meðfram pollgötu en þegar maður er kominn þar bak við þá er hellingur að skemmtilegum húsum. Raunar ásamt gamla bænum í Hafnafirði og Akureyri auðvitað líklega mest sjarmerandi bæjarstæði á landinu sem ég hef komið til. Miðbær Reykjavíkur er dæmdur úr leik út af því það er alltaf rok þar, eins og í restinni af Reykjavík. Fyrir utan það að miðbærinn fær svo mörg mínusstig fyrir restina af Reykjavík. Hmm, líklega hefði ég átt að fylgja einkunnarorðum hátíðarinnar og aldrei fara suður? Of seint núna, en Reykjavík verður náttúrulega aldrei annað en stoppistöð.