mánudagur, febrúar 28, 2005

Fékk senda könnun í hi-póstinum í dag. Lykilsspurningin var náttúrulega:

"Hefðir þú áhuga á að kaupa rafmagnsdrifinn uppþvottabursta til að gera þér uppvaskið auðveldara?" og í kjölfarið var spurt: "Finnst þér innbyggður sápuskammtari nauðsynlegur?"

Mér er það hulin ráðgáta hvernig ég hef komist af án þessa tækis hingað til.

Ellidýrkun

Clint fær óskarinn fyrir að gera mynd sem löglegt gamalmenni á meðan allir leikarar Þjóðleikhúss Íslands sem ekki eru orðnir nógu gamlir til þess að vera að íhuga lífeyrissjóðsmál alvarlega fá uppsagnarbréf. Ofan á það að ríkisstjórnin virðist hafa það efst á stefnuskránni að gera alla námsmenn gjaldþrota. Enn ein sönnun á gamalmennadýrkun okkar tíma, ég held það sé löngu kominn tími á alvöru uppreisn.

Óskarinn 2005

Þá er það komið, endilega kvabbið í kommentakerfið, hvort sem það er út af röflinu í mér eða misvafasömum ákvörðunum akademíunnar. Og auðvitað er harðbannað að fara að sofa! Vinna hvað? Maður er hvort eð er alltaf jafn ómögulegur á mánudögum.

Besta mynd

The Aviator
Million Dollar Baby
Sideways
Ray
Finding Neverland


Eitt er dálítið merkilegt hér: Þrjár myndanna eru einhverskonar tilraun til ævisagna. Þær eru mjög mistrúar hinu sannsögulega, Ray víkur lítið frá staðfestum atburðum, The Aviator tekur sér ýmis skáldaleyfi og Finding Neverland er réttilega lýst í kreditlistanum þegar sagt er að myndin sé aðeins innblásin af raunverulegum atburðum. Hins vegar er röðin öfug ef litið er á gæðin. Enda sannleikurinn um líf manna miklu betra efni í bíómynd en staðreyndirnar um líf þeirra. Og það er oft tvennt ólíkt þó oft skarist það. Málið er nefnilega að á meðan við vitum ósköp lítið annað um Ray Charles en að hann hafi verið blindur dópisti með tónlistargáfu eftir að hafa séð Ray á meðan við höfum ótrúlega djúpa tilfinningu fyrir því úr hvaða hugarheimi sagan um Pétur Pan spratt þrátt fyrir að flestu sé logið eða hagrætt um raunverulegt líf höfundarins.
Millon Dollar Baby er traust þrátt fyrir ýmsa vankannta framan af en skiptir um gír á lokasprettinum og verður allt önnur og magnaðri mynd. Hún er líklega helsti keppinautur The Aviator - og þær eru fyrir mér þær myndir hér sem koma Finding Neverland næst að gæðum. Sú vinnur þó nær örugglega ekki enda leikstjórinn Forster ekki tilnefndur. Ray er sísta myndin þrátt fyrir frábær tónlistar atriði og glansleik. Það er raunar sameiginlegt öllum myndunum fimm að leikurinn er lítalaus, helst að ég hefði viljað sjá meiri innlifun hjá Kate Beckinsale í hlutverki Ava Gardner í The Aviator. Síðan er Sideways óttalega ofmetinn, fín lítil mynd að mörgu leyti, en þó er eins og það sé eitthvað off við hana sem ég næ ekki að festa fingur á. Þó má nefna það að það er furðulegt hversu aðalleikonur myndarinnar, Virginia Madsen og Sandra Oh, eru illa nýttar og hverfa skyndilega út úr myndinni fyrir lokasprettinn - þar sem þær eru það langbesta við myndina.

Besti leikstjóri

Martin Scorsese, The Aviator
Clint Eastwood, Million Dollar Baby
Alexander Payne, Sideways
Taylor Hackford, Ray
Mike Leigh, Vera Drake

Vera Drake er ekki tilnefnd sem besta mynd og því getum við auðveldlega afskrifað Mike Leigh. En í raun er þetta mjög einfaldlega einvígi á milli gamlingjanna Eastwood og Scorsese. Ólíkt Eastwood hefur Scorsese hefur aldrei unnið áður og þar sem myndirnar virðast hafa ósköp svipað fylgi dettur þetta Scorsese megin.

Besti leikari

Jamie Foxx, Ray
Johnny Depp, Finding Neverland
Leonardo DiCaprio, The Aviator
Don Cheadle, Hotel Rwanda
Clint Eastwood, Million Dollar Baby

Þetta er á milli þeirra Foxx, Depp og DiCaprio. Þeir eru allir verðugir enda álíka góðir - Eastwood er hins vegar ekki alveg í sama klassa þó góður sé og Cheadle enn óséður. Foxx er hins vegar í sístu myndinni - en þar sem mottó akademíunnar hefur lengi verið "You can't beat a blind guy" þá hlýtur hann að vinna þetta, þó vissulega sé hún sömuleiðis afskaplega veik fyrir andlegri vanheilsu - en þar sem það er varla aðalatriðið í persónu Howard Hughes eins og hún birtist í The Aviator þá dugar það varla. En rosalega á Depp styttu inni.

Besta leikkona

Kate Winslet, Eternal Sunshine of the Spotless Mind
Hilary Swank, Million Dollar Baby
Annette Bening, Being Julia
Catalina Sandino Moreno, Maria Full of Grace
Imelda Staunton, Vera Drake

Það er líklega óskhyggja hjá mér að spá Íslandsvininum og smekkkonunni Kate Winslet (sem var auðvitað að lepja öl með mér ofar á Laugarveginum á meðan hún sendi áhættuleikkonuna sína til þess að villa um fyrir fólki á uppastaðnum við Austurstræti) sigri fyrir yndislega frammistöðu sem Clementine, frammistöðu sem var full af hjarta og visku bak við bláa hárlokkana. En til vara vona ég að Hillary Swank vinni frekar en Annette Bening í slag þeirra sigurstranglegustu. Bening er ágætlega sannfærandi hér, eins og hún var í American Beauty (þar sem hún var líka tilnefnd og tapaði fyrir stórleik Swank í Boys Don't Cry). Eða öllu heldur, hún er ágætlega sannfærandi að leika persónur sem virka hálfpartinn sem teiknimyndakarakterar á mann. Það er góðra gjalda vert en Swank er svo sannarlega af holdi og blóði þar sem hún svitnar í boxhringnum. Hef eðlilega ekki enn getað séð Staunton og Moreno, en er mjög spenntur fyrir Maria Full of Grace sem mig grunar að sé tímabær mynd.

Besti aukaleikari

Morgan Freeman, Million Dollar Baby
Jamie Foxx, Collateral
Clive Owen, Closer
Thomas Haden Church, Sideways
Alan Alda, The Aviator

Alda er traustur en lítið meira á meðan að þó Church sé ágætur þá á hann líklega sístu frammistöðuna í Sideways. Owen er ansi magnaður en þó er persónan ekki alveg að ganga upp eftir því sem líður á myndina, eitthvað sem gildir um allar persónur Closer að Natalie Portman undanskilinni.
Persónulega þótti mér frammistaða Foxx í Collateral, sem er óneitanlega aðalhlutverk og ekkert annað, í raun ennþá magnaðri en frammistaða hans í Ray. En það verður líklega sú mynd sem hann fær styttuna fyrir. Freeman er traustur í Million Dollar Baby, hefur svo sem oft verið betri og myndin ofnotar kallinn dálítið sem sögumann, en ef einhverntímann var leikari sem á einfaldlega óskar inni þá er það Freeman. Þetta á vel að merkja líka við Blanchett í aukaleikkonuhópnum en hún er ung og á vonandi inni. Þetta gætu hins vegar verið síðustu forvöð að láta Freeman fá styttu. Þó vissulega ætti hún frekar að vera merkt Shawshank Redemption.

Besta aukaleikkona

Virginia Madsen, Sideways
Cate Blanchett, The Aviator
Natalie Portman, Closer
Laura Linney, Kinsey
Sophie Okonedo, Hotel Rwanda

Aldrei þessu vant er þessi flokkur líklega sterkasti leikflokkurinn. Kinsey og Hotel Rwanda eru ekki enn komnar til landsins en Okonedo var reffileg í litlu hlutverki í Dirty Pretty Things á meðan Laura Linney er, rétt eins og Portman og Blanchett, einhver besta leikkona samtímans.
Madsen, Blanchett (sem var rænd af Gwyneth Paltrow fyrir Elizabeth) og Portman eru það besta við myndirnar sem þær leika í. Hepburn, afsakið Blanchett, gæti vel unnið fyrir frábæra túlkun - enda besta leikkona nútímans að túlka bestu leikkonu allra tíma. Portman er vissulega frábær í Closer en ég satt best að segja vona að hún fái sinn óskar fyrir betri mynd. En Virginia Madsen er það langbesta við Sideways, þetta er líklega rulla lífs hennar (þó vissulega væri gaman ef hún fengi fleiri svona rullur) og því tek ég sénsinn á henin.

Besta frumsamda handrit

Charlie Kaufman, Michel Gondry & Pierre Bismuth, Eternal Sunshine of the Spotless Mind
John Logan, The Aviator
Brad Bird, The Incredibles
Terry George & Kair Pearson Hotel Rwanda
Mike Leigh, Vera Drake

Jú, The Aviator á sjálfsagt eftir að vinna þetta - og á það svo sem alveg skilið sem og The Incredibles, eitt skemmtilegasta handrit af teiknimynd í mörg tungl. En ég ætla að leyfa mér að vera óraunsær hérna og spá því að menn verðlauni besta handrit Charlie Kaufman hingað til, meistaraverkið Eternal Sunshine of the Spotless Mind. Hér er vel að merkja rétt að taka fram að þó handritið sé eignað þremur þá á Kaufman vissulega langmest í því, þáttur Bismuth er fyrst og fremst sá að hafa gaukað hugmyndinni að Kaufman í matarboði og Gondry var fyrst og fremst með í ráðum á meðan Kaufman skrifaði handritið.

Besta aðlagaða handrit

Alexander Payne & Jim Taylor, Sideways – byggt á samnefndri skáldsögu Rex Pickett
David Magee, Finding Neverland – byggt á samnefndu leikriti Allan Knee
Paul Haggis, Million Dollar Baby – úr smásögum F.X. Toole (Rope Burns)
Richard Linklater, Kim Krizan, Julie Delpy & Ethan Hawke, Before Sunset – byggt á persónum fyrri myndarinnar
Jose Rivera, Mótorhjóladagbækurnar (Diarios de motocicleta) – byggt á samnefndum æviminningum Che Guevara

Hér hefði ég gerst afskaplega óraunsær og spáð Before Sunset sigri enda ættu þessi óskarsverðlaun með réttu að vera einvígi á milli hennar og Eternal Sunshine of the Spotless Mind. En þar sem myndin er í raun tilnefnd í vitlausum flokki þá ætla ég að geyma það. Hún er nefnilega ekki byggð á neinu öðru en fyrri myndinni - sem þýðir að allar framhaldsmyndir ættu sjálfkrafa að fara í þennan flokk, sem hefur þó ekki endilega verið raunin.
Sideways er hins vegar nokkuð örugg með sigur hér þó margt megi finna að handritinu á meðan Finding Neverland ætti að vinna með sitt listilega handrit. Handritið er hins vegar stundum klaufalegt í Million Dollar Baby framan af (Boxari frá Austur-Þýskalandi?) auk þess sem það ofnotar Morgan Freeman sem narrator.

Besta teiknimynd

The Incredibles
Shrek 2
Shark Tale


Shark Tale er hérna bara sem uppfylling. Þetta er einvígi á milli græna skrekksins og rauðklæddu ofurhetjanna - og á meðan The Incredibles er lang besta mynd Pixar síðan Toy Story á meðan Shrek 2, þó góðra gjalda sé verð, stendur fyrri myndinni langt að baki. Þannig að The Incredibles hirðir styttuna.

sunnudagur, febrúar 27, 2005

Besta "erlenda" mynd

Hafið í mér (Mar adentro) – Alejandro Amenábar, Spánn
Kórinn (Les Choristes) – Christophe Barratier, Frakkland
Fallið (Der Untergang) – Oliver Hirschbiegel, Þýskaland
Svo sem á himni (Så sam i himmelen) – Kay Pollak, Svíþjóð
Í gær (Yesterday) – Darrell Roodt, Suður-Afríka

Eða öllu heldur mynd á öðru máli en ensku. Alltaf gaman að því þegar íslendingar vonast eftir að okkar myndir verði tilnefndar sem "Besta erlenda mynd" - og segir vissulega ákveðna sögu. En vegur ekki-enskra mynda hefur farið vaxandi hjá akademíunni undanfarin ár, núna er engin mynd í toppbaráttunni eins og Il Postino, La Vita e Belle, Skríðandi tígur ... og Amelíe hafa verið undanfarin ár - hins vegar er mikið af "erlendum" myndum með tilnefningar í hinum flokkunum þó það dreifist óvenju mikið. Þar á meðal er Trúlofunin langa eftir meistarann mikla Jean-Pierre Jeunet sem svo sorglega var dæmd ófrönsk af mönnum sem ættgreina hluti eftir peningum. Því til viðbótar virðast Svíar vera afskaplega illa við sinn meistara, Lukas Moodyson, og því eru slarkfær frönsk mynd og sænsk mynd sem mig grunar að falli í sama flokk tilnefndar á meðan meistararnir sitja heima. Já, ef þú ert ekki spámaður í eigin föðurlandi geturðu ekki heldur verið spámaður í Hollywood. Skrítinn heimur.

En að þeim sem eru tilnefndar. Hin þýska Der Untergang, um síðustu daga Hitlers, er ræma sem maður bíður spenntur eftir. Sérstaklega þar sem Bruno Ganz, sem lék eftirminnilegasta engil kvikmyndasögunnar, leikur hér eftirminnilegasta djöful mannkynssögunnar. Bara þetta öfugsnúna leikaraval sýnir að hér er eittvað einstakt á ferðinni. Tvær myndir er þegar búið að sýna hér. Kórinn er ágæt en blessunarlega hafa Spánverjar það fram yfir Frakka og Svía að kunna að meta sinn meistara. Amenábar átti ágæta ferð til Hollywood með The Others, sú var þó aldrei jafn sterk og meistarastykkið Obre los Ojos - og hér er hann kominn aftur til Spánar og aftur í toppform. Það segir manni mikið um hve mikill talent Amenábar er þegar honum tekst að gera virkilega cinematískt verk úr sögu manns sem liggur rúmfastur alla myndina.
Besta kvikmyndataka

Bruno Delbonnel, Trúlofunin langa (Un long dimanche de finançailles)
Robert Richardson, The Aviator
Caleb Deschanel, The Passion of the Christ
Xiaoding Zhao, Hús hinna fljúgandi rýtinga (Shi mian mai fu)
John Mathieson, The Phantom of the Opera

Þetta er einvígi Trúlofunarinnar og Flugkappans, Aviator er sigurstranglegri en margar senurnar í skotgröfununm í Trúlofuninni löngu eru það listilega gerðar að ég verð að spá henni. Fjöldamörg skot í myndinni eru hreint og klárt listaverk eitt og sér, Jeunet þarf engar langar senur, bara einmana menn rammaðir inn af skotgröfum sem virðast vera að hellast yfir þá.

Besta klipping

Thelma Schoonmaker, The Aviator
Jim Miller & Paul Rubell, Collateral
Joel Cox, Million Dollar Baby
Paul Hirsch, Ray
Matt Chesse, Finding Neverland

Hér gerði óskarinn risastór mistök að fara ekki að fordæmi BAFTA sem lét Eternal Sunshine of the Spotless Mind fá afskaplega verðskulduð verðlaun fyrir frábæra klippingu. Rétt að taka fram að ég var ekki með hugann við þjóðerni klipparans þegar ég horfði - en gat ekki annað en dáðst að henni. Fyrir utan það að svipaða sögu má vissulega segja frá öðrum flokkum, með réttu ætti Eternal Sunshine ... að vera með einhverjar tólf tilnefningar eða svo.
En af þeim sem hér eru þá standa The AViator og Collateral upp úr í mínum huga. En Collateral var frumsýnd í sumar og löngu gleymd flestum gullfiskunum í akademíunni. Fyrir utan það að Thelma Schoonmaker vinnur mjög náið með Scorsese og vegna þess er hún einn af fáum klippurum sem fólk þekkir nafnið á, það telur.

Óskarsmeik, búningar og sviðsmyndir

Besta listræna stjórn

Dante Ferretti & Francesca LoSchiavo, The Aviator
Aline Bonetto, Trúlofunin langa (Un long dimanche de finançailles)
Rick Heinrichs & Cheryl Carasik, Lemony Snicket’s A Series of Unfortunate Events
Anthony Pratt & Celia Bobak, The Phantom of the Opera
Gemma Jackson & Trisha Edwards, Finding Neverland

Settin í The Aviator eru vissulega ansi grand mörg, á erfitt með að sjá neina mynd nema máski Hina löngu trúlofun Jeunet ógna henni.

Besta búningahönnun

Sandy Powell, The Aviator
Bob Ringwood, Troy
Colleen Atwood, Lemony Snicket’s A Series of Unfortunate Events
Alexandra Byrne, Finding Neverland
Sharen Davis, Ray

Er eitthvað sem toppar kjólana á gullöld Hollywood? Held ekki, öruggur sigur til handa konunni sem dressaði Kate Hepburn og Avu Gardner upp.

Besta förðun

Keith Van der Laan & Christian Tinsley, The Passion of the Christ
Valli O’Reilly & Bill Corso, Lemony Snicket’s A Series of Unfortunate Events
Jo Allen & Manolo García, Hafið inní mér (Mar adentro)

Þar sem flestir meðlimir akademíunnar eru amatörar þá verða mörg þessi tækniverðlaun spurning um mest áberandi en ekki best. Krambúlerað andlit Krists var vissulega í ansi stóru hlutverki í Píslarsögunni, horfandi á Mar adento hins vegar velti maður aldrei sérstaklega fyrir sér förðuninni - sem vel að merkja er sá effekt sem góð förðun á að hafa.

Óskarsmúsík

Besta tónlist

Jan A.P. Kaczmarek, Finding Neverland
John Williams, Harry Potter and the Prisoner of Azkaban
John Debney, The Passion of the Christ
James Newton Howard, The Village
Thomas Newman, Lemony Snicket’s A Series of Unfortunate Events

Tónlist Kaczmarek við Finding Neverland var fjandi fín og Williams átti einn af sínum betri dögum undanfarið með Harry Potter. En hann er nú búin að fá alveg nógu margar styttur kallinn þannig að ég skýt á Finding Neverland.

Besta lag

Bruno Coulais(lag), Christophe Barratier (texti) “Vois Sur Ton Chemin” – Kórinn (Les Choristes)
David Bryson, Adam Duritz, David Immerglück, Matthew Malley, Jim Bogios, Dan Vickrey & Charles Gillingham, “Accidentally in Love” – Shrek 2
Jorge Drexler, “Al Otro Lado Del Río” – Mótorhjóladagbækurnar (Diarios de motorcicleta)
Andrew Lloyd Webber (lag), Charles Hart (texti), “Learn to be Lonely” – The Phantom of the Opera
Glen Ballard & Alan Silvestri, “Believe” – The Polar Express

Sjálfsagt vinnur Óperudraugurinn þetta fyrir Lloyd Webber, en sýnishornið á þeirri mynd var svo niðurdrepandi vont - enda antíkristurinn Joel Schumacher þar við stjórnvölin - að ég fæ hreinlega ekki af mér að spá henni sigri. Ég hef góða tilfinningu fyrir laginu úr Mótorhjóladagbókunum (sem verður sýnd hér á kvikmyndahátíð í byrjun apríl minnir mig) enda byltingarsöngvar alltaf skemmtilegir. Hef samt á tilfinningunni að hún vinni ekki. Kóratónlist er svo ekki í uppáhaldi hjá mér og því þótti mér einmitt tónlistin sjálf veikleiki þeirrar ágætu frönsku myndar um Kórinn en eitthvað segir mér þó að þangað fari styttan. Tónlistin var líka veikur hlekkur í Shrek 2 en mér heyrðist að þar væru fæstir sammála mér þannig að hún er næstlíklegust.
Besta hljóð

Kevin O’Connell, Greg P. Russell, Jeffrey J. Habousch, Joseph Geisinger, Spider-Man 2
Randy Thom, Gary Rizzo & Doc Kane, The Incredibles
William B. Kaplan, Randy Thom, Tom Johnston & Dennis B. Sands – The Polar Express
Scott Millan, Greg Orloff, Bob Beemer & Steve Cantamessa, Ray
Tom Fleischman & Petur Hliddal, The Aviator

Almenna reglan er sú að þetta fylgi hljóðbrellunum, þannig að Ray og The Aviator eru ólíklegar. Polar Express var hálfgert flopp þannig að best að afskrifa hana líka. Þar með stendur þetta á milli Lóa og hinna ótrúlegu, skýt á Spidey.

Bestu hljóðbrellur

Paul N.J. Ottosson, Spider-Man 2
Michael Silvers & Randy Thom, The Incredibles
Randy Thom & Dennis Leonard, The Polar Express

Köngulóarmaðurinn fær svo þessi verðlaun í kaupbæti ...

Bestu tæknibrellur

John Dykstra, Scott Stokdyk, Anthony LaMolinara & John Frazier, Spider-Man 2
Tim Burke, Roger Guyett, Bill George & John Richardson, Harry Potter and the Prisoner of Azkaban
John Nelson, Andy Jones, Erik Nash & Joe Letteri, I, Robot

I, Robot átti sín móment, snilldin í þriðju og langbestu Harry Potter-myndinni var meira í andrúmslofti heldur en beinlínis brellum þó þær hefðu verið fínar - en stærsta skrefið fram á við hjá Lóa kallinum var einmitt brellurnar, allt önnur sveifla en í númer eitt. Þannig að hér með tryggir Peter Parker sér verðlaun númer þrjú.

Heimildarmyndir og stuttmyndir

Besta heimildarmynd

Born into Brothels: Calcutta’s Red Light Kids – Zana Briski & Ross Kauffman
Sagan um grátandi kameldýrið (Die Geschichte vom weinenden Kamel) – Luigi Falorni & Byambasuren Davaa
Tupac: Resurrection – Karolyn Ali & Lauren Lazin
Twist of Faith – Eddie Schmidt & Kirby Dick
Super Size Me – Morgan Spurlock

Heimildarmyndir hafa sjaldan verið jafn mikið í sviðsljósinu, en þar sem Fahrenheit 9 / 11 var ólögleg (sýnd í sjónvarpi of snemma, einhverjar skrítnar reglur í gangi) og aðrar helstu heimildarmyndir sem við sáum í fyrra voru að keppa á óskarshátíðinni annað hvort í fyrra eða hittifyrra, þá er Super Size Me eina ræman hér sem er eitthvað kunnugleg. Hún á vissulega allt vont skilið enda kvikmyndalegt jafngildi BigMac borgara þó hún haldi að hún sé e-ð annað. Af hinum þá er Sagan um grátandi kameldýrið skemmtilegasti titillinn - en til þess að hugga kameldýr er víst hugljúf tónlist besta trikkið fyrir þá sem ekki vita. Hins vegar lýst mér jafnvel enn betur á Born Into Brothels, mynd sem átti upphaflega að vera um rauða hverfið í Kalkútta en endaði á að leikstjórinn dreifði myndavélum til krakkanna, flest föðurlaus skiljanlega, sem tóku svo upp eigin líf.

Besta stutta heimildarmynd

“Sister Rose’s Passion” – Oren Jacoby & Steve Kalafer
“Mighty Times: The Children's March” – Robert Hudson & Robert Houston
“The Children of Leningradsky” – Hanna Polak & Andrzej Celinski
“Autism Is a World” – Gerardine Wurzburg
“Hardwood” – Erin Faith Young & Hubert Davis

The Children of Leningradsky virkar forvitnileg, um líf munaðarlausra barna í neðanjarðarlestum Moskvu. Jamm, ég er lestarómantíker. Hins vegar grunar mig að myndin um nunnuna sem reis gegn andgyðinglegri stefnu kaþólsku kirkjunnar sé ágætlega tímasett eftir allt hafaríið um Píslarsögu Gibsons.

Besta stuttmynd – teiknuð

“Lorenzo” – Mike Gabriel & Baker Bloodworth
“Guard Dog” – Bill Plympton
“Birthday Boy” – Sejong Park & Andrew Gregory
“Gopher Broke” – Jeff Fowler & Tim Miller
“Ryan” – Chris Landreth

Nú vandast málið. Sálgreining á hundi (Guard Dog) eða köttur sem lendir í vandræðum þegar rófan á honum öðlast sjálfstætt líf (Lorenzo)? Ég verð náttúrulega að standa með kisa ...

Besta stuttmynd

“Little Terrorist” – Ashvin Kumar
“7:35 de la mañana” – Nacho Vigalondo
“Two Cars, One Night” – Taika Cohen & Ainsley Gardiner
“Everything in This Country Must” – Gary McKendry
“Wasp” – Andrea Arnold

Litli hryðjuverkamaðurinn hefur þetta, en umræddur terroristi er sem sagt Pakistanskur strákur sem óvart missir boltann sinn yfir landamærin til Indlands. Hver man ekki eftir brjáluðu konunni sem bjó alltaf í öllum húsum sem höfðu garð nálægt fótboltavelli? Auðvelt að lifa sig inní það, svo eru jarðsprengjurnar bara bónus.

Óskarspá Gambrans

Jæja, þá er hátíð okkar bíónördanna að fara að hefjast. Til þess að sýna það og sanna að Gambrinn er aðalnördinn þá verður hérna spáin mín birt í beinni á meðan ég bíð eftir verðlaunahátíðinni sjálfri, ef þetta gengur sæmilega þá erum við að tala um bjór frá Starra og Eddie. Ég byrja náttúrulega á aðalverðlaununum, heimildarmyndum og stuttmyndum og förðun og öðru skemmtilegu ...

rétt að taka fram að ég raða myndunum eftir því hvernig spáin raðast ...

föstudagur, febrúar 25, 2005

Hvers vegna í ósköpunum eyðir fólk heilli bíósýningu í það að senda sms? Pirraði mig ekkert að ráði enda sat ég nógu langt í burtu - en fjandakornið, what's the point? Það er örugglega hægt að finna sér ódýrari stað til þess að senda sms. Eina réttmæta afsökunin sem mér dettur í hug er að hann hafi verið að senda skilaboðin bíóþyrstum vini sínum í Síberíu sem er einhver hundruð kílómetra frá næsta bíói. En einhvern veginn grunar mig samt frekar að maðurinn hafi verið fáviti.

mánudagur, febrúar 21, 2005

Innan hringsins

Damien Rice – O

Damien Rice hefur tvisvar komið til Íslands og haldið tónleika. Það rímar ágætlega við mörg lagaheitin á O, fyrstu geislaplötu hans. „Volcano,“ „Cold Water“ og „Eskimo.“ Sönnun þess að við erum komin af Írum en ekki Norðmönnum? Hann sannfærir mann um það. Damien er það heimilislegur, ekki þó hversdagslegur, að manni þykir alltaf eins og maður hafi loks fundið þetta „heima“ sem aðeins löngu gleymdar minningar rifja upp. En Damien kann þennan galdur tónlistarinnar, maður man eitthvað sem maður hefur aldrei heyrt, þetta er kunnugleg en um leið alveg splunkuný upplifun.

Hér eru rokkaðar vögguvísur og epísk ljóð. Hér er einlægni bernskunnar spunnin við visku hins fullorðna. Söknuður og trú á framtíðina, hlið við hlið. Lögin byggjast ofurhægt upp og eru svo oft við það að springa – en jafnvel þegar það gerist þá er nógu sterkt þyngdarafl í tónlistinni til þess að hún nái alltaf að safna sér saman aftur, hefjast á ný. Tónlistin hefur ótrúlega sterkt jarðsamband, jarðsamband þess sem liggur á bakinu og horfir á stjörnurnar. Jarðsamband þess sem veit að alvöru tónlist hefur vigt. Það er ómögulegt að greina þessa plötu niður í frumeindir, til þess er hún of einlæg. Kaldhæðni og formlegheit lífsþreyttra gagnrýnenda bítur ekki á henni. Þú veist ekki hvort þetta er hans einlægni eða þín, lögin koma til þín og verða þín. Þín sem aldrei gast sungið nógu vel en loks hefur einhver gert það fyrir þig. Þessi plata er það persónuleg að þú getur ekki annað en kallað söngvarann Damien.

Írar eru sagnaþjóð. Ólíkt því sem oftast gerist þá er algerlega ómögulegt að aðskilja tónlistina og sagnalistina, á eyjunni grænu er músan svo sannarlega sönggyðja. Orðin ríma hárfínt við lögin, „Delicate.“ Fyrsta lagið. Það fjallar um gamla ást sem ekki skilst enn. Var einlægnin aðeins hans megin? Why d’ya sing hallelujah / if it means nothin’ to ya. Þetta er söngur einlægni sem hefur misst sakleysið. Lag sem endar í spurn sem verður það leiðarstef sem platan leitar svara við.

Næsta lag er eldfjall, „Volcano.“ Nú hafa hlutverkin snúist við, nú hefur hann vit á að vera sá sem elskar minna. Nú er það hún sem færir honum heiminn. Þarna kemur Lisa Hannigan fyrst við sögu og syngur kafla í seinni hlutanum. Hún er vatnadís, einhver írsk þjóðsagnavera sem Damien hefur galdrað upp. Öruggar heimildar herma að hún sé mennsk en röddin kemur upp um upprunan.

Fallegasta lagið á disknum er næst. „The Blower’s Daughter.“ Get ekki tekið augun af þér syngur hann og þú getur það ekki heldur. Þessi einfalda lína, Can’t take my eyes off you, er margtugginn og hefði verið dauðadæmd hjá flestum – en með nógu mikilli einlægni og sannfæringu þá heyrirðu þessi orð í fyrsta skipti hjá Damien og svo enduróma þau í hausnum á þér í heila eilífð, líklega með minningu af stúlkunni sem þú getur ekki gleymt. En ef fyrsta lagið var um stúlkuna sem þú misstir er þetta um stúlkuna sem þú aldrei færð.

Næsta lag, „Cannonball,“ er um stúlkuna þína, núna. There’s still a little bit of your taste in my mouth / there’s still a little bit of you laced with my doubt. Þetta er nýtt, ferskt. Lífsreynsla sem enn er verið að melta.

„Older Chests“ er hins vegar lífsreynt, sjóað og veraldarvant. Papa went to other lands / and found someone who understands / the ticking and the western man's need to cry. Sögustund, faðirinn kominn heim og segir sögur frá fjarlægum löndum.
„Amie“ er hins vegar hérna og fjallar um það að lífið sé annars staðar. Um það hvernig ekkert breytist og allt virðist ávallt vera við hið sama. Fastur í sama farinu, aðrir fara en þú varðst eftir. the same old scenario the same old rain / and there's no explosions here. Stríðið er annars staðar. Þetta gerist allt í hausnum á þér.

Þá kemur gamli flagarinn upp í honum. „Cheers, darlin’“ – skál, elskan. Maður heyrir hann sveifla glasinu, skála fyrir sorginni. Sorgin er nefnilega fjandi skemmtileg hjá Damien, melankólía með líflegum blús.

„Cold Water.“ Umlukinn, týndur í heiminum. Aleinn en samt ná tónarnir til okkar. Einhvern veginn framkallast lokaatriðið í Einskismannslandi þar sem hermaður liggur og bíður dauða síns og starir til himins á meðan myndavélin fjarlægist hann. Þrátt fyrir einsemdina er vatnadísin Lisa hér, seiðir hann til sín.
Lisa á einmitt óvenju stóran þátt í næsta lagi, „I Remember.“ Þetta er ástardúett, þau muna hvort annað, þrá hvort annað. Um leið ákallar hann alla hina, þetta er herkvaðning í stríði hvers manns. „Come all ye lost.“

Lokalagið er hápunktur plötunnar, réttara væri þó að tala um lokatrakk plötunnar því þar eru þrjú lög á einu númeri með þögn á milli. 15 mínútna lagasyrpa sem tengist þó á einhvern einkennilegan hátt. Fyrst er „Eskimo,“ aría plötunnar. Melódískt rokkið leysist upp í óperu um leið og sungið er um ímyndaða vininn sem allt veit, eskimóann. I look to my eskimo friend when i’m down down down.

Millilendingin er „Prague,“ drungalegt ævintýri um þann sem fer til ævintýralandsins að slægja drekann. Ferðalagið er órökrétt, áfangastaðurinn borgin handan fjarskans. Þetta er holóttur vegur, lagið byrjað ofurhægt en springur út, lækkar og hækkar. Hér er samankomið lognið á undan storminum, stormurinn sjálfur – og sjálf miðja fellibylsins.

Lokalagið syngur Lisa ein. „Silent Night,“ undurfagur útúrsnúningur á samnefndu lagi. Þessi nótt er drungalegri en „Heims um ból“ en um leið jafnvel enn fegurri. Eins og Nick Cave hefði sungið það ef hann hefði álfkonurödd. Silent night, broken night.

Ég hef notað orðin hann og hún og þú, en ég er ekki endilega að eigna Damien Rice og Lisu Hannigan sjálfum þessar upplifanir. Né taka þær frá þeim. Galdurinn er sá að þetta getur verið hver sem er. Damien, Lisa, þú. Það má finna ótal sögur í þessari tónlist. Hún er í eilífri mótsögn við sjálfa sig en nær þó algjörum samhljómi. Titillinn er O, hringur, og innan hans er veröld þín. Á umslaginu er tvær manneskjur, merktar ég og þú. Tónlistin er full af ástríðu, sorg, gleði, yfirvegun, brjálæði og hreinlega öllu því sem maður getur hugsanlega leitað af í list. Þannig að; takk Damien fyrir að segja söguna okkar. Takk Lisa, vatnadís, fyrir að fljóta með. Skál bæði, skál fyrir að gera hlutina af hugsjón, gleði og ástríðu. Skál fyrir því að skapa tónlist sem mun lifa okkur öll og engum getur verið sama um.
Það var verið að tala um hve vonlaust væri að skrifa ritdóm um tónlist í Gagnrýni og ritdóma-kúrsinum um daginn. Þannig að auðvitað stóðst ég ekki mátið. Hið ómögulega er alltaf skemmtilegt. Var að skila þessu til Ástráðs og Auðar, of seint enda átti Mogginn mig alla síðustu viku og RÚV á morgun og hinn, jamm, það er lítill tími til að læra með - og ef einhver minnist á ömurlegu hagfræðina sem ég þarf að fara í próf í á miðvikudaginn þá bít ég hausinn af viðkomandi. Til hvers í fjandanum að læra hagfræði í Blaða- og fréttamennsku? Það er leiðinda misskilningur að viðskiptafréttir séu fréttir, þær eru fyrst og fremst húmbúkk. Hnuss og aftur hnuss yfir því, langar að gera eitthvað skemmtilegt. Langar að ráða mér sjálfur. Auðvitað er það þannig að um leið og maður fær eitthvað alvöru frí þá koðnar maður niðurí eitthvað andleysi, veit ekki af hverju maður er svona vanstilltur? Æ, bara eitt af þeim augnablikum sem það er svo margt sem mann langar til þess að hugsa um en þarf að hugsa um annað fyrst - sem maður fær sig ómögulega til að hugsa um. Nóg af þessu, bara blúsaður á sunnudagskvöldi af því ég sé að næsta vikan verður sama ómennska brjálæðið og sú síðasta, er ágætlega bjartsýnn á að á fimmtudaginn eftir viku verði þetta orðið sæmilega eðlilegt - en sú dagsetning virðist alltaf færast aftur. Annars er fínt að hafa nóg að gera ef það væru ekki einstaka verkefni að bögga mann sem ég hef engan áhuga á að gera, mig langar að sökkva mér frekar í allt hitt. Sem ég þarf að gera líka. Hananú, væll búinn. Best að skila dómnum um O hérna líka.

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Það er merkilegt að konan frá Útlendingastöð vísi endalaust til Danmerkur til þess að verja það sem er vafasamt í útlendingalögunum. Þetta er land það sem þjóðernisöfgaflokkur - sem styður ríkisstjórnina - er að fá hreint ágætis fylgi, auk þess sem skoðanabræður þeirra í Berlinske Tiderne virðast hafa ágætis dreifingu. Það má örugglega taka Dani til fyrirmyndar í einhverju, áfengisverði til dæmis, en það er erfitt að finna verri fyrirmyndir í Evrópu í útlendingamálum.

laugardagur, febrúar 19, 2005

Perubloggarinn ógurlegi snýr aftur

föstudagur, febrúar 18, 2005

Af mennsku

Var að kommenta áðan á bloggfærslu og var beðinn um að staðfesta að ég væri mannlegur. Tókst blessunarlega að feika það, þessar vanþróuðu tölvur trúa öllu ...

Strætóferð

Leikskólahópurinn í strætó áðan sungu ljóð eftir Sigurð Nordal og Vísur Vatnsenda-Rósu af miklum móð á milli þess sem þau kepptust við að kyssa hvort annað. Aldrei þessu vant er ég ekki frá því að heimurinn sé barasta alls ekkert að fara til til fjandans.

Bók dagsins

Regnhlífarnar í New York

Eftir fjóra þætti þá á ég ennþá í bölvuðum vandræðum með þátt Þorsteins Joð, Regnhlífarnar í New York. Þorsteinn er klár, hugmyndaríkur og hefur alveg sans fyrir skáldskap. Þættirnir fljóta vel og viðmælendurnir koma almennt vel frá sínu, einn og einn í fyrstu tveim þáttunum voru að vísu að segja lítið áhugavert en það hefur lagast. Hápunktarnir fyrir mér hingað til er heimsókn Rásar tvö manna að ræða rokkbækur, ferðasöguspjall Þóru og Einars Fals og sérstaklega þó uppáhaldsbækur Guðrúnar Helgadóttur. Þátturinn er ótvírætt skemmtilegur. En það er eitthvað að trufla mig, eins og þátturinn vinni frekar á stigum en rothöggi.

lesa meira

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Upptekið kvöld

Rosalega eru allir uppteknir í kvöld. MSN-ið eitt biðskyldumerki. Ég er vel að merkja afskaplega upptekinn sjálfur, en ég fer ekki að merkja mig þannig enda einmitt þegar maður er hvað uppteknastur sem maður vill helst vera truflaður ...

mánudagur, febrúar 14, 2005

Starfsreynsla á Mogga

Er að leika mér á Mogganum, tískuheimur Lundúnaborga verður aldrei samur. Ég vek athygli fólks að það er bráðnauðsynlegt að skoða myndatextann við ...

föstudagur, febrúar 11, 2005

Kerfið er hrunið!

4-4-1. Enginn meirihluti, Stúdentaráð er komið til stúdenta aftur. Nú getum við loksins hafist handa við að búa til alvöru Háskóla sem kemur barnaskapnum í landsmálapólitíkinni ekki skapaðan hlut við. Og kvöldið var aldrei fegurra ...

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Snjókast

Ég hvet hér með alla að koma við hjá Melaskóla ef þeir eiga þar leið hjá og stunda snjókast. Enda er það að banna börnum að stunda snjókast ekki bara argasta forræðishyggja heldur hreinlega brot á sjálfsögðum mannréttindum.

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Einstaklega kjánalegur Röskvupistill

Í mánudagsmogganum var pistill tveggja Röskvuliða sem virtist hafa það markmið helst að berjast gegn því að tekjuskerðing námslána minnki. Jú, þau vilja líka að grunnframfærslan hækki, eitthvað sem ég er vissulega algjörlega sammála. En þetta með tekjuskerðinguna, er þetta í alvörunni skrifað af fólki sem veit eitthvað um málefni nemenda við Háskóla Íslands? það er eins og þau haldi að þeir sem verða fyrir tekjuskerðingunni séu bara ríkir forstjórar sem séu bara í Háskólanum á veturna að chilla á námslánum.

Ég skal taka sjálfan mig sem dæmi. Ég var að vinna við kennslu síðasta vetur. Af ýmsum ástæðum, en ein ástæðan var sú að eftir að ég kláraði BA gráðuna hafði ég einfaldlega ekki efni á að vera í skóla þann veturinn ef ég ætlaði ekki endanlega að drukkna í yfirdrætti. Þennan vetur náði ég umræddum yfirdrætti niður og var um það bil á sléttu þegar ég hóf nám í HÍ í haust. Rétt er að taka fram að tekjurnar voru þó ekki meiri en svo að þær voru töluvert fyrir neðan meðaltekjur á Íslandi. Síðan þegar ég hóf MA-nám í HÍ þá er ljóst að sökum þessa ná námslánin varla 50 þúsund krónum, sem þýddi að ég hef þurft að vinna meira, sem þýðir að námslánin skerðast enn meir – um leið og skatturinn er farinn að taka sitt og því áhrifin í raun ekki ósvipuð og um tvísköttun sé að ræða. Um leið þarf maður eðlilega að passa sig að klúðra ekki önninni með því að vinna ekki of mikið því það þýðir einfaldlega engin námslán. Ef einhver er farinn að hafa áhyggjur af mér er rétt að taka fram að önnin kom svo sem mjög vel út árangurslega, þó ekki sé það á neinn hátt LÍN að þakka, en ef það hefði ekki gerst hefði það einfaldlega þýtt að ég hefði einfaldlega þurft að vinna ennþá meira. Ég held ég þurfi ekki að halda lengi áfram til þess að sýna hvaða vítahring nákvæmlega þessi rakalausa tekjuskerðing getur leitt til.

Svo ég nefni eitt annað atriði í greininni:

„Því miður hafa ekki allir kost á því að vinna samhliða námi eða fá aðstoð frá vinum og vandamönnum.“

Hér er reginmisskilningur á ferðinni, og ekki bara einn heldur tveir. Í fyrsta lagi þá er orðalagið “að eiga kost á því að vinna samhliða námi” afskaplega hæpið, persónulega myndi ég vilja eiga þess kost að vinna ekki samhliða námi. Svo er því miður ekki, við erum flest að vinna meðfram námi af því við þurfum þess, ekki af því okkur finnist svo æðislegt að vera alltaf í vinnunni þau skipti sem við erum ekki að læra. Seinna atriðið kemur málinu einfaldlega ekkert við, það er enginn niðurskurður á námslánum vegna þess að þú hafir fengið aðstoð frá vinum og ættingjum, hins vegar er tekjuskerðingin ekki ólíkleg til þess að setja nemendur í þá stöðu að þurfa að fá aðstoð, og ég held að þeir séu fáir háskólastúdentarnir sem njóta þess eitthvað sérstaklega að vera í þeirri stöðu að vera upp á aðra komna. Þeir háskólastúdentar sem eru hins vegar í góðu yfirlæti á framfærslu foreldra þurfa hins vegar síður að vinna eitthvað að ráði og sleppa því að mestu við skerðingu vegna tekna. *

Heilt yfir þá er aumingjalykt af þessari baráttu. Dettur engum í hug að berjast fyrir því að hækka grunnframfærsluna og lækka frádráttinn? Er Röskva ekki nógu dugmikill til þess að leggja það til að breyta námslánum að hluta til – og í fyllingu tímans alveg – í styrki? Eigum við háskólanemar að vera á horriminni til eilífðarnóns?

Læt þetta rant duga í bili, að undanskilinni neðanmálsgrein hér fyrir neðan sem tileinkuð er Vöku. Svo birtist væntanlega fljótlega hugleiðing um svipað efni á síðu H-listans.

* En fá hins vegar ekki full námslán ef þeir búa í foreldrahúsum – fjárhagsleg aðstoð vandamanna kemur hins vegar hvergi inní dæmið. Hugleiðingar Vöku um einmitt þetta mál í þriðjudagsmogganum eru einfaldlega of ruglingslegar til að hægt sé að svara þeim, hugtakaruglingurinn allsráðandi þar sem skipt er í hópana “fjölskyldufólk”, “þá sem búa heima” og “þá sem búa einir” – búa þeir sem búa einir þá ekki heima hjá sér? Er „heima“ bara og eingöngu pabbi og mamma eða eru þau að tala um eitthvað „heima“ sem ég hef aldrei heyrt um? Allavega finnst mér einkennilegt ef þeir eru hlynntir því að námsmenn sem ekki þurfa að greiða húsaleigu og fá að auki reglulegar fríar máltíðir eigi þar af leiðandi rétt af jafnháum lánum og aðrir, þar á niðurskurður alveg rétt á sér. En þeir virðast að vísu alls ekki vissir um það sjálfir.

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Það gerist reglulega að stórskrítið fólk tekur mann tali þegar maður bíður eftir strætó. Sá síðasti af þessum snillingum var einmitt í Mósaík núna rétt áðan.

Gefin loforð

Háskólalistinn rúlar!

Alltof latur að pikka hérna, en hér má sjá grein um það hvernig Háskólapólitíkin er ennþá föst í kalda stríðinu og hér má sjá uppgjör frústreraðs bókmenntafræðings við Joseph Conrad og vini hans.

Að lokum vil ég svo bara mælast til þess að á næsta ári bjóði fleiri mér í bollukaffi. Ég get ennþá hneppt efstu tölunni sem eru vissulega vonbrigði enda þarf ég að samnýta bolludaginn með sprengideginum því ekki fer ég að borða þennan ömurlega túkallamat sem honum tilheyrir.

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Hluti af mér er núna að spyrja sjálfan mig, grútsyfjaðann eftir lítin svefn sökum verkefnaskila og lesturs, hvort þetta með að taka 20 einingar á þessari önn hafi verið góð hugmynd. En svo er satt best að segja jafnstór hluti sem er að fíla þetta í tætlur, fá smá almennilegt brjálæði inní lífið. Líklega er einhver dularfull þörf í hverjum Íslendingi að fá smá skammt af vinnubrjálæðinu sem þjakað hefur þjóðina lengi - en um leið nauðsynlegt að passa sig að vera ekki þessi gaur til langframa. Þá endar maður bara útúrdópaður á einhverri stofnun eða upptjúnaður á einhverjum vinnustað sem maður var fyrir löngu búinn að gleyma af hverju maður byrjaði á til að byrja með. En ég er að hugsa um að leggja mig núna svo verkefnin sem ég þarf að klára fyrir morgundaginn verði ekki jafn samhengislaus og þessi færsla.