fimmtudagur, febrúar 27, 2003

Þegar ég var að horfa á auglýsingatöfluna (hálfan meter frá) í Aðalbyggingunni rétt áðan þá duttu skyndilega tvær auglýsingar niður. Ég vissi alltaf að ég hefði yfirnáttúrulega hæfileika. Verst að þetta er allt í undirmeðvitundinni og ég hef þar af leiðandi enga stjórn á þessu. Ef einhver hefur reynslu í að þjálfa ofurhetjur vinsamlegast hafi samband, annars er aldrei að vita hvaða óskunda ég geri óvart næst.

mánudagur, febrúar 24, 2003

Einkunin fyrir BA – ritgerðina hækkaði um hálfan frá því ég spurði að henni á skrifstofu heimspekideildar og þangað til ég fékk mitt formlega blað í hendurnar. Kannski dugar að ljósrita prófskírteinið þrisvar til að fá tíu? En nú getur fólk sem sagt farið að uppnefna mig bókmenntafræðing og ég get eitt því sem eftir er ævinnar í það að horfa á sjónvarp í fræðilegum tilgangi. Annars var mér að detta í hug að setjast niður og rifja upp af hverju maður byrjaði á þessu og bera það saman við ástæðurnar fyrir því að maður lauk þessu. Af undanskilinni blessaðri þrjóskunni.
Jahérna, er Ferguson farinn að vitkast með aldrinum? Fyrst sparkar hann skó í Beckham (hvern hefur ekki langað til þess) og nú er hann farinn að mótmæla stríði við Írak. Já, jafnvel hinum vondu köllunum finnst Bush vondur.
Ég hef verið að nöldra um það síðan ég byrjaði í HÍ að listakosningar hægri og vinstri í litlu samfélagi þegar hagsmunirnir eru keimlíkir væru fáránlegar. Merkilegt nokk eru einhverjir sammála. Enda Röskva og Vaka ekki með nema um 15-20 % fylgi meðal háskólanema, hafa skipt þessum 30-40 % sem hafa kosið tiltölulega jafnt á milli sín undanfarin ár. Af þeim ansi margir væntanlega kosið til að kjósa eitthvað eða lent í einhverri af þessum margfrægu smölun eða þá af því að einhver vinur er á lista. Síðasta ástæðan er vel að merkja ekkert slæm, þú treystir viðkomandi sem sagt fyrir þínum hagsmunum, en er ekki óþarfi að þurfa að kjósa alla vini vina þinna líka. Þetta lýsir svo sem viðhorfi gömlu framboðana ágætlega, eru menn svona sárir að þetta sé ekki klofningsframboð? Það má svo sem alveg setja út á málfarið í kosningabæklingnum en það er algjör hátíð ef borið er saman við andleysuna í röskvu og vökubæklingunum. Enginn með reynslu af stúdentaráði þarna? Fínt, það er ágætt að ekki eru allir búnir að selja sálina, því samdaunaðri sem þú verður kerfinu því erfiðara er að finna fnykinn.
Í sambandi við Evróvisjónfærslu Eyglóar: Ég skammaðist mín vissulega fyrir að vera íslendingur þegar Birta fór. Ég hefði náttúrulega skammast mín ennþá meira fyrir að vera Evrópubúi ef hún hefði fengið eitthvað að ráði að atkvæðum. Og þó lagið hennar Birgittu þyki mér ekkert sérstakt þá er það einhverjum ljósárum á undan þeim viðbjóði í gæðum.
Kópavogsbúar unnu um helgina sinn fyrsta stóra titil í karlaflokki hópíþrótta (nei, að vera betri en hin þrjú liðin í blaki er ekki merkilegur titill). Auðvitað þurfti Akureyring til þess að sýna þeim hvernig ætti að fara af því.
BAFTA

Pedro Almodovar og sérstaklega Saul Saentz skutu föstum skotum að Bush og eru menn að meiri. Sérstaklega var þó ánægjulegt að sjá Conrad L. Hall fá sýn verðlaun þó látinn væri, það eru því miður örlög flestra meistara að deyja eftir eitthvert floppið en Road to Perdition er merkileg fyrir þær sakir að þó hún sé í mörgu gölluð þá er kvikmyndatakan fyrst og fremst sem tryggir það að hún kemst í hóp listaverka. Meryl Streep las bestu þakkarræðu kvöldsins en ekki samdi hún hana sjálf, kannski upphaf að tísku. Góðir pennar þurfa ekki endilega að vera góðir ræðumenn og því ágætt ef þeir geta fengið atvinnuleikara til að túlka ræðurnar í staðinn fyrir að tafsa á þeim sjálfir. Ég þykist sleppa fyrir horn sjálfur en ég er nú samt að hugsa um að ráða Tony Hopkins fyrir næsta fyrirlestur. Það er bara búið að taka svo langan tíma að kenna kallinum íslensku …
Hvatning til lögbrota

Þessi blessuð íslensku þýðingarlög um myndefni hafa nú sjaldnast önnur áhrif en þau að íslenskar fréttastofur geta búið til frétt einu sinni á ári um það að íslensk kvikmyndahús hafi venjulega vit á að fara ekki eftir þeim og að nördar þessa lands geta farið í sjónvarpsdagskránna ef þeim leiðist og grafið upp misvitrar þýðingar fólks sem ég efast um að fái mikið meira en hundraðkall borgað á tímann. Jákvæðu áhrifin eru vissulega til líka en með þeim neikvæðari er sá leiði siður að þurfa að tala ofan í allt efni sem er sýnt beint og þar af leiðandi ekki mögulegt að texta. Óskarsverðlaunin eru dæmi um það og ég hef oft furðað mig á því að Stöð 2 hefur aldrei að minnsta kosti getað fengið einhvern með hundsvit á kvikmyndum til að sjá um málið. En miðað við BAFTA-verðlaunin í RÚV í gær þá er stefna Stöðvar 2 líklega rétt. Ólafur H. Torfason átti svosem sínar gloríur en hann hafði greinilega vit á því sem hann var að tala um. Sem orsakaði óstöðvandi munnræpu. Og hann sagði svosem lítið gáfulegt þó heimskulegum kommentum væri haldið í lágmarki. Aularnir sem hafa kynnt óskarinn hafa þó að minnsta kosti haft vit á að eyða ekki jafnmörgum orðum í vanþekkingu sína og aðallega talað í auglýsingahléum. Á BAFTA-verðlaununum voru engin auglýsingahlé enda útsendingin ekki bein – eru menn svona voðalega seinir á textavélinni hjá RÚV?
----------------
Stærsta synd þýðingarlagana er þó sú að samkvæmt þeim eru nítíuogeitthvað prósent allra þeirra mynda á íslenskum myndbandaleigum sem eru gerðar fyrir 1980 eða eru að öðrum ástæðum illfáanlegar ófáanlegar. Ef myndbandaleigurnar færu eftir þessum lögum að texta verði allar erlendar myndir á íslensku (sem sumar þeirra gera því miður að einhverju leiti) þá væri ekki bara erfitt heldur ómögulegt að sjá margar helstu perlur kvikmyndasögunnar, það er engin bissnesskallinn á leiðinni að endurútgefa þessar myndir í stórum stíl. Aftur á móti er sorglegt að annars ágætir kvikmyndagagnrýnendur Morgunblaðsins hafa eilíft skammað leigurnar fyrir að brjóta þessar reglur og bjóða þannig um leið fólki upp á almennilegar bíómyndir eldri en tvævetra.

föstudagur, febrúar 21, 2003

Á morgun verð ég fullorðin. Eða hvað? Tja, maður þarf nú allavega að reyna að dramatísera þessa útskrift aðeins til að koma sér í gírinn. En fyrst er vísindaferð í Eddu, maður þarf nú að skemmta sér á meðan maður er enn ungur! Vona svo að það komist enginn að því næstu tuttuguogfjóra tímana að ég lét pakistanska húsamús skrifa allar ritgerðirnar mínar gegn fríu fæði og húsnæði. Blessuð sé minning hennar. Það eru aftur á móti heimiliskettirnir sem sjá um að skrifa þetta, enda þessi færsla í boði Whiskas.
Ansi er þetta að ganga vel hjá Hrafni, meira að segja ég byrjaður að tefla. Að vísu bara eina skák. Mér fannst mér ganga ágætlega, drap að minnsta kosti slatta og er það ekki alltaf tilgangurinn þegar allt kemur til alls? Ólíkt þessum stórmeisturum fer ég hins vegar ekki í manngreiningarálit í morðum mínum.
Hmm, þessi netkosning hér fyrir neðan verður ekkert meira spennandi þó ég hafi hana lengur efst. En það er náttúrulega jafn mikið að marka þessar netkosningar og símakosningar, allir að kjósa þann frægasta …

þriðjudagur, febrúar 11, 2003

Er að reyna að ákveða efni fyrir rannsóknarverkefni (5 einingar). Þær 3 hugmyndir sem komust í úrslitin eru kvikmyndir Richards Linklater, Karel Čapek og Ferðaminni í Tinna. Atkvæði lesenda gilda 25 % í lokaákvörðun!
Kíktum á Celtic Cross og Alþjóðahúsið um helgina. Á Celtic Cross sem er venjulega mjög fínn staður voru háværustu Ameríkanar sem ég hef séð – and that’s saying something. Stemmningin var aftur á móti fín í Alþjóðahúsinu, þar var hávaðinn í tónlistinni en ekki skrækróma miðríkjaskvettu. Bjórúrvalið leit að vísu ekki vel út þegar ég leit á kranana, Tuborg og Gull, en síðan sá ég gamlan félaga kúrast undir borði. Jú, fyrsti barinn á Íslandi sem ég hef fundið með Nastro Azzuro. Sýndist vera athyglisverður japanskur bjór þarna í kælinum líka, þannig að það er ástæða til þess að panta bjór í flösku á Alþjóðahúsinu – og það er heldur ekki hlutfallslega dýrara eins og á mörgum öðrum stöðum. Ef ykkur leiðist getið þið svo alltaf æft ykkur í arabískunni!
Særún stingur upp á Björk sem forseta. Þar má benda á að Björk á það sameiginlegt með forseta lýðveldisins að dissa Emilíönu Torrini. Þau eiga það líka sameiginlegt að ég mundi ekki nenna að spjalla við þau nema þau splæstu bjórnum.

En semsagt, Grísinn var í bíó með mér um daginn á Two Towers. Þegar kreditlistinn rennur upp þá er kallinn svo horfinn og er ekki mikið að gefa sér tíma til að hlusta á Gollum’s Song. Líklega engin sagt honum að Björk er ekki eina íslenska söngkonan. Björk aftur á móti, þó mér hafi fundist hún leiðinleg þá hélt ég einhvernveginn alltaf að hún vildi engum illt blessunin. En nei, þegar einhver önnur íslensk söngkona er hugsanlega að meika það þá var lagið „samið fyrir hana upphaflega.“ Ef Emilíana var ekki fyrir löngu búinn að fá nóg af því að vera líkt við sér miklu síðri söngkonu endalaust út af því að þær syngja báðar á ensku með íslenskum hreim þá er hún það örugglega núna. Björk fellur aftur á móti mjög illa að vera með dívutakta. Annars má við þetta bæta að fyrir áhugasama um kviksetningu þá er þessi smásaga alltaf skemmtileg.
Sálfræðingurinn minn í Oxford spurði hvernig gengi. Svarið sem ég sendi lýsir ástandinu ágætlega:

"Þokkalega nema ég er andlaus, atvinnulaus og kalt."

Skýrir líklega rólegheitin hér undanfarið, það og skortur á nettengingu. Tekst annars einhverjum öðrum en mér að fara til útlanda yfir hálfan veturinn og fá í staðinn tvöfaldan skammt af vetri? Ég hefði eiginlega átt að setja myndina af mér í húfu og með stakk og ofninn á fullu innanhúss á forsíðuna á BA-ritgerðinni, tekin mínútu eftir að ég kláraði. Það kynda ekki allir húsinn upp í sólstrandarhita eins og Íslendingar.