miðvikudagur, október 27, 2004

Ferðasjóður stúdenta

Er að skoða reglur Stúdentasjóðs. Þar kemur fram að styrkir til ferðamála skuli miðast við ódýrasta fargjald hjá Ferðaskrifstofu stúdenta - sem hætti starfsemi fyrir 4 árum. Gaman að vita að Stúdentaráð er með puttann á púlsinum.

þriðjudagur, október 26, 2004

Silný kafe

Þá er rétt að geta þess að í Háskólabíó bíður Börkur upp á langbesta kaffi í bænum. Með sama áframhaldi verður talað um aldamótaveturinn í Prag á sama tíma og París in the 20s, sjáiði til.
Skrautleg helgi liðin, af gefnu tilefni mælist ég til þess að Bláa lónið bjóði upp á vatnshelda diktafóna til þess að lána gestum. Myndavél líka. En það er gaman að leika sér, sérstaklega þegar fólk lifir sig svona mikið inní þetta.

laugardagur, október 23, 2004

Til hamingju!

Já, svo er náttúrulega ástæða til að óska snillingunum Særúnu, Þórhildi, Melkorku, Hannesi og
Hrund til hamingju með að hafa lagt lokaritgerðarskrímslið af hólmi, enda síðustu forvöð að fá að taka í spaðann á Páli Skúla - svona formlega ...
Brjálað að gera, lét plata mig í að sjá um fréttapistil fyrir þetta batterí
, gaman en brjáluð vinna enda eru þetta þrjú fréttablöð á 3 dögum. Plús skóli, plús mingla með öllum Sameinuðu Þjóða wannabeunum (sem í þessu tilfelli eru örugglega mun skemmtilegri en the real thing) und so widere. En ég hef náttúrulega Ásrúnu og Kareni með mér í þessu, svo ekki sé minnst á MUNchkin-inn okkar eina. En núna, svefn, semja spurningar, spyrja spurninga, Bláa lónið, útskriftarpartí - í einhverri röð

miðvikudagur, október 20, 2004

Nýorðaleikur

Skemmtilegur nýorðaleikur á bbc-vefnum sem Dúnja linkaði á, reynið að koma eins mörgum af þessu 101 orði sem varð fyrst vinsælt á síðustu öld inní eina 150 orða sögu. Spurning hvað green er að gera þarna samt, kannski er verið að tala um í merkingunni græningi? En ein Lukku Láka-bókin hét Grænjaxlinn og það eru nú einu sinni pottþéttar sagnfræðiheimildir. Satt best að segja hugsa ég að ég hafi fyrst séð orðið þar. En allavega ...

Ég náði 57 orðum, ég hugsa að sagan sé um bangsann í A.I., þó sagnfræðin passi ekki endilega.

Cheerio! My hip teddy bear just dunked his Molotov cocktail into his DNA pool. The realpolitik of Trekkies may have seemed like a sacred cow to him but in his genes boiled the tailspin of Watergate like an U-boat but eggheads brainwashed the punk into using the F-word, detoxing acid cheeseburgers, whizzo celebs and karaoke toyboys in an awsome way. He got pissed off though when the megabucks the hip-hop scene gangstas promised him beatboxed away into the Wonderbras of It-girls cool miniskirted love-ins. Microchips buzzed his brain when Mickey Mouse texted him on his mobile warning him of the axis-of-evil and the cyborgs that might take their place. However being part of Generation X, the avant garde, the hippies, the beatniks and the blues they fought a Blitzkrieg of sexy psychadelic kitch that landed like a cruise missile on the snafus of Big Brother’s fast food virtual reality.
"Mutu notaði kók og missir samningin við Pepsi"

tvímælalaust fyrirsögn vikunnar

þriðjudagur, október 19, 2004

Allt komið á sinn stað, af einhverjum ástæðum var Monu Lisu-færslan skrásett á október 2005 og var þar af leiðandi alltaf efst en hún hefur nú verið send aftur í tímann þar sem hún á heima og fólk ætti að geta séð þessar tvær færslur + þessi sem komu á eftir henni á réttum stað. Og nú er þetta orðið sjálfhverfara en andskotinn þannig að það er best að hætta hið snarasta

Slæm bókmenntagagnrýni

Ekki er ég nógu sáttur við þessa bókmenntarýni á Kistunni hjá gömlum samnemanda mínum. Ég hef ekki lesið bókina og vel má vera að hún sé uppfull af kvenfyrirlitningu - þó að vísu þyki mér það ekki rökstutt nógu vel í dómnum. Sérstaklega virðist gleymast að kvenfyrirlitining hjá persónum sögu þýðir ekki endilega að sagan sjálf standi fyrir það - það getur þó vissulega verið en þyrfti að rökstyðja betur.
Hitt sem er þó sýnu verra er það sem ýjað er að í lok dómsins.

"Við þurfum ekki að vera hissa á því að lítið miði áfram í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna þegar bækur á borð við þessa, þýddar eða íslenskar, eiga greiðan aðgang í útgáfu."

... og aðeins seinna ...

Að lokum ber þess að geta að íslensk útgáfa bókarinnar Hr. Ibrahim og blóm Kóransins var styrkt af menningaráætlun Evrópusambandsins, Culture 2000, í samvinnu við bókaútgáfuna Bjart sem aftur fékk konu til að þýða söguna. Á heimasíðu Bjarts, undir dálkinum höfundar, sést að útgáfan hefur gefið út bækur eftir 20 íslenska karlmenn og 5 konur. Bjartur hefur fengið 24 karlkyns þýðendur til þess að vinna fyrir sig, en aðeins 3 konur. Erlendir höfundar eru um 40 talsins og þar af eru kvenkyns höfundar innan við 10.

Bíddu, hvað er þetta annað en ákall á ritskoðun? Eiga þýðendasjóðir og útgefendur fyrst og fremst að standa vörð um siðferði en ekki gæði? Þetta minnir mig ansi mikið á andmæli þingmanns við því að bók sem kennd var við guðlast fékk þýðingastyrk - en um það má lesa meira hér. Þar var helsti andmælandi þeirrar firru einn besti málsvari femínista sem og rithöfunda hérlendis, Svava Jakobsdóttir. Enda ljóst að ef öllum viðhorfum sem óæskileg teljast á hverjum tíma er ýtt út í horn þá fá þau að grassera þar sem síst skildi. Sérstaklega þar sem ávallt er fín lína á milli skoðanna höfunda og efnis bókar, stundum fer það vissulega saman en það er eitthvað sem lesendur ættu frekar að dæma um en þýðingasjóðir. Annað er uppskrift af pólitískri rétthugsun á þeim stað sem hún á allra síst heima, enda bókmenntirnar algerlega gagnslausar ef þær hafa ekki leyfi til þess að vera óþekkar þegar við á.
Eins er einkennileg sneiðin til Bjarts. Vel má vera að hlutur kvenna sé þar ekki nægur en á umræða um útgáfuna almennt heima í ritdómi um staka bók? Miklu eðlilegra væri að gera sérstaka grein um hlut kvenna hjá útgáfufyrirtækjum landsins, frekar heldur en að taka eitt út að því er virðist aðallega út af einni bók. Það minnir nefnilega helst á einelti.

Kommentakerfi

Nýja kommentakerfið er frekar leiðinlegt að því leyti að þeir sem eru ekki með blogger account koma út sem nafnlausir. Þess vegna er ástæða til þess að hvetja þá sem svo er ástatt um að kvitta einfaldlega undir til að ég viti hvaða skemmtilega fólk er að tjá sig á síðunni. Velkomið er að setja tölvupóst og / eða heimasíðu þar undir ef áhugi er fyrir hendi. Annars er náttúrulega svo fyrir öllu að fólk verði duglegra að tjá sig svo síðan verði líflegri.

mánudagur, október 18, 2004

Hver hefur séð Monu Lisu?

Örfáir listfræðingar kannski. Auðvitað getur hver sem er farið í Louvre – en þá sérðu einungis málverkið í einhverra metra fjarlægð í gegnum gler sem glampar á. Þú getur talið þér trú um að þú hafir séð málverkið en í raun þá sástu ekki nokkurn skapaðan hlut. Eingöngu útlínur sem minntu þig á það sem flestir hafa séð; Monu Lisu í eftirprentunum. Það sama gildir raunar um flestöll málverk, við þekkjum þau af eftirprentunum þeirra. Hvort sem það er plakkat, mynd í bók eða hrein endurgerð. Persónulega finnst mér það allt í lagi.
Þetta er lögmálið með flestalla list, bækur eru lesnar í fjöldaprentuðum eintökum, rithöfundar sem ekki þekktu prentverkið eru nú lesnir á prenti. En ef að stafirnir eru þeir sömu þá er gildi verksins fólgið í því, ekki einhverjum pergamentrúllum af því þær eru upprunalegar. Vissulega geta frumeintök bóka og uppkast höfundar verið merkilegir gripir – en það er þá afleiðing þess að bókin sjálf, í hvaða útgáfu sem er, er merkileg og skiptir fólk einhverju máli. Hitt er fyrst og fremst auka. Þegar kemur svo að kvikmyndum skiptir svo ósköp litlu máli hvort um frumeintak sé að ræða – þar skiptir hins vegar meiru máli að eintakið sé í góðu standi og sé sú útgáfa sem leikstjórinn ætlaði.
En af einhverjum ástæðum er þetta gjörólíkt í myndlistinni. Þar er frummyndin það eina sem virkilega skiptir máli og litið er niður á eftirprentanir svo ekki sé talað um falsanir. Og falsanir eru vissulega svik við viðskiptavininn, hvernig sem þau eru. En ef verkið er nákvæmlega eins hver er þá nákvæmlega skaðinn frá listrænum sjónarhóli?
Mörg list var í gegnum aldirnar fyrst og fremst eitthvað sem konungar og aðalsmenn gátu notið – eða náðarsamlegast leyft almúganum að njóta með sér. Fyrir utan það að það voru aðallega þeir sem voru lesandi og skrifandi. Þetta hefur blessunarlega breyst á okkar tímum þar sem nær hvaða list sem er er auðfenginn í hinum vestræna heimi. En af einhverjum sökum þá er samband listamanna við auðmenn furðu líkt og áður þegar kemur að myndlist. Kannski er það eina módelið sem gengur upp fjárhagslega fyrir listamennina? Ég veit það ekki, hef ekki sett mig sérstaklega inní það. En það hlýtur að teljast sorglegt ef merkileg listaverk lokast inní hýbýlum einhverra banka eða auðmanna þar sem fá augu geta litið verkin. Sérstaklega kannski því um leið kemur ákveðinn andi snobbs inní listaheiminn, andóf verður máttlaust ef það er svo lokað inní villu þess sem andófið beindist gegn.
Kannski rétt að taka fram að ég hef aldrei talið mig hafa sérstakt vit á myndlist, ólíkt þeim listum sem ég hef einmitt notað sem samanburð – en getur verið að ástæðan fyrir því sé einmitt sú að það sé sú list sem minnst hefur komið til fólksins sjálfs? Á meðan flestar listgreinar eru að ná til fjöldans þá er hin klassíska myndlist lokuð inni að rífast um hvað kom á undan, eggið eða hænan?

sunnudagur, október 17, 2004

Skrítið. Rekst alltaf á gamla drauga, þó fortíð mín teljist vart skrautleg (A.m.k. ekki ennþá). Enda gerist þetta allt í hausnum á mér. Gaman samt að taka gott, gamaldags bókmenntafræðidjamm með Kidda og Ingveldi.

laugardagur, október 16, 2004

Hér sannast að Spider-Man 2 er um bloggara. Spurning hvað Hulk sé þá um?

fimmtudagur, október 14, 2004

Það er móðgun við Scrubs að hafa þennan skelfilega ljóskuþátt á undan

mánudagur, október 11, 2004

Hetjur dagsins

Hetjur dagsins eru hins vegar Greta og Gyða fyrir að endurvekja hið merka
rit Torf-i. Jafn gaman (og frústrerandi á köflum vissulega) og það var að ritstýra Torfinu fyrir 3 árum þá fannst manni það aldrei nema hálfklárað verk nema einhver héldi áfram með það. Sem hefur loksins gerst. Gott að vita að bókmenntafræðin blómstrar enn þó maður hafi tímabundið svikið lit í MA-náminu.

Aumingjar dagsins

Aumingjar dagsins eru brjóstumkennanlegir karlfauskar sem hafa ekkert
skárra við lífið að gera heldur en að angra saklaust fólk með óljósum
hótunum. Því miður virðist þeim vera að fjölga í samfélaginu.

Hvíti markaðurinn

Heyrði endann á einhverri frétt þar sem talað var um að "skattleggja svarta starfsemi í landinu." Sem er náttúrulega setning sem gengur ekki upp, um leið og eitthvað er skattlagt þá er það ekki svart. "Að uppræta svarta markaðinn" eða eitthvað slíkt hefði getað gengið. Fyrir utan að ég efa það að sú ríkisstjórn finnist sem er sérlega hamingjusöm með það að fólk út í bæ sé að hafa af sér tekjur - þó þær geri sjálfsagt mismikið í að stoppa það.

Hvíti markaðurinn

Heyrði endann á einhverri frétt þar sem talað var um að "skattleggja svarta starfsemi í landinu." Sem er náttúrulega setning sem gengur ekki upp, um leið og eitthvað er skattlagt þá er það ekki svart. "Að uppræta svarta markaðinn" eða eitthvað slíkt hefði getað gengið. Fyrir utan að ég efa það að sú ríkisstjórn finnist sem er sérlega hamingjusöm með það að fólk út í bæ sé að hafa af sér tekjur - þó þær geri sjálfsagt mismikið í að stoppa það.

fimmtudagur, október 07, 2004

Big in Japan

Við mína árlegu tenglatiltekt - sem snýst aðallega um að bæta fólki við enda fer ég ekki að henda fólki út bara fyrir að hafa ekki bloggað í einhverja mánuði, persónuleg uppreisn gegn þeim viðteknu viðhorfum að taka magn blogga fram yfir gæði - þá yfirsást mér sjálfur fangavörðurinn, Eddie Spænski (sem sumir kalla af einhverjum ástæðum Sigga). Það er hér með leiðrétt enda alltaf öruggara að hafa vinveittan mann innan veggja, just in case.

þriðjudagur, október 05, 2004

Það er fiðrildi að dansa á skjánum mínum. Ef maður grípur fiðrildi getur maður óskað sér - kannski er þetta nóg?

mánudagur, október 04, 2004

Fleiri börn, minna nám!

Einstaklingur sem er búin að vera út á vinnumarkaðnum í nokkurn tíma (meira en eitt sumar a.m.k.) og ákveður annað hvort að fjölga mannkyninu eða bæta við sig námi er í skondinni stöðu.

Ef hann kýs að fjölga mannkyninu fær hann fæðingarorlof, ef hann kýs að mennta sig námslán.

Ef hann kýs að fjölga mannkyninu þá fær hann 80 % af laununum sem hann hafði á meðan hann er í fæðingarorlofi, hann getur því viðhaldið þeim lífsstíl sem hann hefur tamið sér að mestu og græðir í raun á því að hafa haft sem hæst laun.
Ef hann kýs að mennta sig þá hins vegar er honum refsað fyrir að hafa haft þó ekki væri sæmileg laun með því að skerða mánaðartekjur (sem ofan á allt saman þarf að borga til baka ólíkt fæðingarorlofi) hans úr öllu hófi þannig að einstaklingur með um 180 þúsund í laun (ekki langt frá meðallaunum) og 130 þúsund útborgað þarf skyndilega að lifa á innan við 40 % af fyrri tekjum.

Það að mennta lýðinn er lítils metið í krónum talið.

Sífellt oftar er talað um grunnskóla (og jafnvel framhaldsskóla), jafnvel af kennurum sjálfum, sem geymslur fyrir börn frekar en menntastofnanir.

Þá skal gefa framhaldsskólunum minni og minni tíma til að mennta sína nemendur.

Viskan skal sífellt verða almennari og almennari þannig að allir verði nú örugglega eins. Allt skal samræma.

Í stuttu máli hvetur núverandi kerfi til þess að við verðum sífellt fleiri - og sífellt vitlausari. Við búum ekki til betri börn, aðeins fleiri, því sem minnst viljum við fyrir þeim hafa.

laugardagur, október 02, 2004

Að auki er rétt að koma á framfæri að stelpan sem ég keypti hamborgara af á leiðinni heim af Bóksöluskralli er einstaklega falleg.

Var ég hálshöggvinn / hengdur í fyrra lífi?

Hugleiðingar sem hafa lengi leitað á mig. Ég þoli til dæmis hvaða limlestingar sem er í bíómyndum án þess að blikka auga - en ef það kemur nærmynd af gamalli konu með æðaberan háls eða eitthvað sambærilegt þá fer ég alveg í kerfi. Eins þá er merkilegt að ef ég er með verk í bakinu eða löppunum eða á einhverjum öðrum stað þá get ég alltaf rakið það til þess að það hafi verið mikið að gera eða það hafi reynt óvenju mikið á þann líkamshluta - en ef mér er illt í hálsinum þá er alltaf eitthvað að bögga mig, eins og hann sé beintengdur við sálina.

föstudagur, október 01, 2004

Nýr svefnsófi, nýr skrifborðsstóll og nýr prentari - það þýðir náttúrulega að maður þarf að hressa upp á þetta heimili hér líka. Styttist í að Öldugatan verði eins og ég vil hafa hana, nema íbúðin mætti náttúrulega alveg vera stærri ...En kommentin eru líka ný þannig að það er um að gera að vera með þeim fyrstu til að prófa þau.