föstudagur, október 31, 2003

Sólargeislar í vetrarsvefnleysi

Búin að sofa 15 tíma, samtals, síðustu fimm sólarhringa. Reikniði nú. Fara yfir ritgerðir, æfa leikritið, undirbúa tíma og kenna - en sofa? Nei. Var fyrst orðinn verulega skrýtinn í hausnum í dag og fyrsti alvörusnjórinn kom og allt fennti - fallegt en kalt og ég þreyttur, þreyttur, þreyttur og tuttugu sinnum það - en eftir að hafa lifað af morgun með álíka þreyttum nemendum þá komu þessir stórkostlegu sólargeislar og björguðu mér alveg ... stundum er svo algerlega þess virði að kenna þessum krökkum ... þrátt fyrir öll hin skiptin sem þau eru upptekin við að vera þjáðir unglingar :)

föstudagur, október 24, 2003

Playlisti í ensku 503:

China – Tori Amos
something else – Gary Jules
Seven Years – Norah Jones
Fifteen Feet of Pure White Snow – Nick Cave
Miss Misery – Elliott Smith
life in a fishbowl - maus
Running to Stand Still – U2
Cure for Pain – Morphine
Miss Sarajevo – George Michael

og Violent Femmes með Blister in the Sun var föstudagslagið. Mann hefði helst langað að koma með kassa af bjór með í tíma en það má víst ekki ...

það er nefnilega hægt að gera þetta skemmtilegt stundum. Og eftir áramót fæ ég að ráða bókunum líka ...

fimmtudagur, október 16, 2003

Hrós dagsins fá að sjálfsögðu Bára, Marvin og aðrir sem eiga heiðurinn af því að endurvekja þessa gullfallegu síðu Torfhildar. En annars er ég kominn í helgarfrí, langt helgarfrí. Væntanlega suðurferð og bíó, bjór og bækur - ég kemst venjulega ekki lengra í stafrófinu :)

miðvikudagur, október 15, 2003

"My way of joking is to tell the truth; it's the funniest joke in the world"

George Bernard Shaw

Heimapróf í Pygmalion eftir viku, nú fer þetta að verða skemmtilegt ...

mánudagur, október 13, 2003

HKL+HHG

Voðalegt fjaðrafok með Kiljan greyið þessa dagana. Annars hugsa ég að ég sé einn af þeim fáu sem lýst alveg ágætlega á þessar bækur hans Hannesar. Ekki það að ég nenni að lesa þær enda efast ég ekki um að þær verði neitt annað en þrautleiðinlegar. Hins vegar hafa fáir jafn gott af því og heilagur Kiljan að vera tekinn ofan af stallinum og fá smá drullubað. Það fékk ég endanlega staðfest þegar ég var að leita að heimildum fyrir BA - ritgerðina í fyrra þar sem Vefarinn mikli var eitt viðfangið. En heimildir um Laxness eru því miður flest allar nær vitagagnslausar fyrir nokkurn mann sem ekki er í Guðfræði, virðulegir bókmenntafræðingar æsast uppí lýsingarorðaflaumsoflofstílinn hennar Kolbrúnar Bergþórs og stundum virðist flest sem um kallin er ritað vera fórnir á stall þjóðardýrlings - með heiðarlegum undantekningum, vissulega. Þannig mega bókmenntafræðingar ekki haga sér, þeir eiga náttúrulega að vera kaldhæðnir, bernskir, krítískir, einlægir, póetískir og með passlegt magn af bröndurum sem engir skilja nema aðrir bókmenntafræðingar (þetta síðasta gildir vissulega fyrir allar greinar Háskólans). En jákvæðir? Ekki nema í ítrustu neyð, höfundum á að vera það nægilegt lof að við látum svo mikið að skrifa um bækurnar þeirra!
Giggijoch, Sölden, Österreich, Europa, Die Welt usw.

100 atriða listar tröllríða öllu um þessar mundir en Birgir hefur einn manna haft vit á því að þetta eru upphaflega 101 hluta listar. Fæstir vita væntanlega hvar uppruni þessara lista liggur en fróðum mönnum þykir nokkurð ljóst að hann megi rekja til þess ódauðlega meistaraverks "101 things to do in Giggijoch when you're bored" sem ritað var í Týrólsku ölpunum á jólaföstu 1997. Nóbelsverðlaunaakademían var albúin að veita listanum réttmæta viðurkenningu þegar deilur um höfundarétt hófust sem ollu svo miklu uppnámi að bæði Laxness og Falco hrukku upp af í öllum hamaganginum. En allavega, listinn hékk síðast þegar vitað var uppá vegg í herbergi í Surrey hjá lafði Söruh Garton, einum meðhöfunda, en auk hennar ber að geta kengúrunnar Karl Brown aka Charlie Brown, aka Kalli Bjarna, aka verðandi ólympíumeistari í siglingum. Aðalhöfundur var vissulega ykkar einlægur enda sérfróður um að finna upp á einkennilegum hlutum til að gera í þunnu fjallalofti. En ætti maður að klambra saman eins og einum lista svona til að vera með, loka hringnum? Eða kannski ég bíði færis og laumist í dagbókina hans Erik? Maður ætti að koma honum upp á að blogga, ég er orðinn skelfilega forvitinn að vita hvernig maður sem gerir ekkert annað en að lesa og kenna getur haldið úti dagbók með fjórum þéttskrifuðum síðum á dag. Að vísu spurning hvort dagbókin sé ekki á flæmsku til að hindra njósnastarfsemi?
Cows will fly ...

Það ótrúlega gerðist að húsmóðirin átti ágætis punkta í bakþönkum fréttablaðsins. Ætli auteurinn sem gerði Nýtt líf sé loks að snúa aftur og vælukjóinn sem gerði Einkalíf og Vestmanneyjavelluna með Steinunni Ólínu sé farinn í frí?

sunnudagur, október 12, 2003

Komment gærdagsins:

"Æ, þeir áttu þetta nú kannski skilið greyin. Þeir töpuðu nú einu sinni tveim heimstyrjöldum"

Kommentið um krúttlega nasistann, aka smaladreng Adolfs var hins vegar að öllum líkindum full gróft.
Skagfirðingar tala ekki nógu mikið saman. Þeir eru nefnilega of uppteknir við að syngja.

föstudagur, október 10, 2003

Mig langar í bíó. Reykjavík eftir viku, kannski verður eitthvað eftir af kvikmyndahátíð. Ekki það að ég hafi samt tíma til þess, alltaf að láta plata mig í einhverja vitleysu hérna á króknum. En kennaraþingið var mjög skrautlegt, einkennilegt að hitta gamla Menntaskólaslekktið aftur. Maður var ekkert viss um að þau myndu muna eftir mér en svo kemur í ljós að sum þeirra virðast þekkja mann furðuvel. Kannski er hægt að þekkja mann svona vel út frá ritgerðunum manns?

miðvikudagur, október 01, 2003

Fékk rétt svar í fyrsta - hefði vissulega svindlað ef ég hefði ekki fengið Matrix, Say Anything eða þessa ... fyrst að ekki var boðið upp á Donnie Darko náttúrulega

CWINDOWSDesktopFightclub.jpg
Fight Club!


What movie Do you Belong in?(many different outcomes!)
brought to you by Quizilla
Workaholic ... eða er það teachaholic? Anyways, búinn að kenna eins og vitleysingur, afleysingar og ves, 145 % vinna - og það er verulega vanreiknað hjá hæstvirtum menntamálayfirvöldum, sérstaklega þegar maður er að fara í gegnum prógrammið í fyrsta sinn. Hef það samt fínt, bara ekki tími til að blogga (enda síðan líklega orðin ein sú óvirkasta í netheimum næst á eftir þessari gullfallegu síðu - Marvin, þú reddar þessu) né eiga líf. Enda líf ofmetinn óþarfi þegar maður getur unnið. Ókei, ég er byrjaður að hugsa um sumarfríið langa :) - it has some perks ...
Þó er bráðnauðsynlegt að taka það fram að þýskukennarinn gaf mér límmiða með Goethe að spjalla við Leningrad Cowboys - ef það er ekki tilefni frumspekilegs bloggs þá veit ég ekki hvað er það. Ég er eiginlega að hugsa um að ráða Goethe kallinn í afleysingar við að skrifa á þessa síðu í vetur, hann hefur skrifað svo afskaplega lítið upp á síðkastið og er farinn að klæja í fingurnar, sérstaklega út af því sumir eru farnir að saka hann um að vera gamaldags og halda að hann geti bara skrifað á þýsku ...