Sunnudagsgöngutúr
Maður þarf að passa sig að svíkja ekki æskuhugsjónir sínar. Né vanrækja. Jú, jú, stundum þroskast maður frá þeim en oftar þá gefst maður upp á þeim þó maður viti betur. Nei, ég er ekki að tala um að bjarga heiminum – þó vissulega sé þetta allt hluti af stóra planinu. Ein af mínum æskuhugsjónum var sú að það ætti að banna fólki að fá sér göngutúr í joggingalla (nema ef um algera tilviljun væri að ræða) því að fólk má aldrei gleyma því að aðalmarkmiðin með því að fá sér göngutúr er að hugleiða lífið og tilveruna, hugsa / tala (eftir því hvort maður er einsamall eður ei) um stelpur, framtíðina, minningarnar og allt annað sem maður hugsar aldrei skýrar um en á 5 km. hraða á klukkustund. Sálarhraða. Líklega geng ég hraðar, en þetta er meðaltalssál. Það er nefnilega heimspekileg og stórmerkileg athöfn að ganga, sérstaklega þegar ferðinni er ekki heitið á neinn sérstakan stað, og álíka mikill skandall að vera í jogginggalla við þá iðju og að mæta í sama galla á árshátíð.
En vissulega hef ég vanrækt þessa hugsjón óþarflega mikið undanfarin ár. Sú tíð er liðin að við Starri löbbuðum nokkra hringi um gervalla Akureyri sumar næturnar, svo ekki sé minnst á gamla góða Kjarna. Tek þó fram að jogginggallinn tengist enn sem fyrr íþróttaiðkunum. En það að búa ýmist í Reykjavík eða Sauðárkróki þegar ég er ekki í útlöndum er stórhættulegt þessari iðju, þetta endalausa rok sem staðirnir eiga sameiginlegt, maður heyrir ekki nógu vel í sjálfum sér hugsa. Bílaniður truflar mig lítið, enda yndislegt að rölta um margar erlendar stórborgir. Er einmitt að velta því fyrir mér að fara út um páskana – eða í sumar – eða bæði. Mikið að gerjast í þeim efnum enda verð ég náttúrulega kennari í sumarfríi í júní og júlí – nema mér bjóðist eitthvað rosalega skemmtilegt starf. En allavega, til þess að rífa sjálfan mig nú upp í göngutúra æskunnar þá held ég sé ástæða til að búa til þetta vikulega horn hérna – sem og til að mótmæla öllum joggingallalöbburum landsins :-)
Sem sagt, ýmist loginn eða sannur labbitúr, sé til hvort það verður persónulegt eða ekki, fer eftir því hvort eitthvað verður að segja frá, en núna?
Var í Reykjavík um helgina, maður upplifir smá firringu þegar maður rifjar upp hvað það er mikill troðningur bara á venjulegu föstudagskvöldi í borginni – en kemst fljótt yfir það og kemst í gamla gírinn. Var með Kidda bókmenntalöggu og félögum hans, hitti Elísu sem var ógurlega ánægð með mig, Kötu G. sem var búin að eignast barn og Þór sem var
glaður
. Einhverjir gamlir draumar létu á sér kræla, ekki út af neinu sérstöku öðru en nostalgíu, þetta verður eins þegar ég yfirgef Krókinn, þetta verður alltaf eins. Stundum er þetta þó miklu sterkara, þegar staðir eru beintengdir sálinni á manni eins og tilfellið er með Akureyri og Prag. Ég veit ekki af hverju en ég held samt að það sé af því ég þekki draugana þar og langar að skilja þá betur. Svo ekki sé minnst á englana. Hvenær er réttur himinn fyrir ofan þig?
-------------------------
Hversdagurinn er óþolandi þegar hann er ekki viðeigandi. Ég man ennþá þegar turnarnir féllu og maður varð að halda áfram að afgreiða viðskiptabækur. Eftir á að hyggja var það að vísu viðeigandi – en maður vorkenndi samt Kananum þá. Í fyrra dó Dalli frændi og kötturinn minn með stuttu millibili. Ég var hér, aðeins klukkutíma akstur í burtu en langt upp fyrir haus í vinnubrjálæði. Vinnu sem skiptir mann of miklu til að hunsa hana. Þannig að hvorugt fékk minningargreinina sem þau áttu skilið frá mér. En hvað er betra en góður labbitúr til að koma hlutunum á hreint:
Dalli, ég vildi að ég hefði þekkt þig betur og ég vildi að ég hefði borið kistuna þína. En ég veit þú ert skautandi þarna einhversstaðar á ísilögðum himninum.
Loppa kisa, ég heyri þig stundum enn koma tiplandi niður stigann. Þú átt öll mín leyndarmál í gulum glyrnunum, ég næ ekki réttum takti í sálina stundum án þess að hafa malið þitt sem undirspil.
Já, væntanlega þarf sálin að finna réttu undirleikarana til að virka rétt. En stundum þarf líka að breyta til í bandinu svo maður fari ekki að framleiða lyftutónlist. Svo er einnig nauðsynlegt að gefa reglulega út sólóplötur.