miðvikudagur, desember 31, 2003

Topp 10 - Bíó 2003:

About Schmidt var svo skemmtilega mannleg, sýndi á skemmtilegan og merkilega lýrískan hátt hvernig það er líka sorglegt þegar maður missir konuna sína þegar maður er kominn á ellilaunaaldurinn og fátt dramatískt að sjá við atburðinn (eða manneskjurnar tvær utan frá) utan að frá. Manni verður eiginlega hugsað til Dalla frænda þegar maður skrifar þetta, mann hefði langað að kynnast honum betur og meira en bara sem frænda ...

Bowling for Columbine var líklega mest viðeigandi mynd ársins – þó hún hafi verið gerð á árinu á undan – og ólíkt innihaldsmeiri en uppgerðarmótmælin hérlendis. Hvar var þetta fólk þegar Kaninn valtaði yfir Júgóslavíu rétt fyrir kosningarnar á undan þessari?


Dirty Pretty Things var um það sem er enn ekki komið að alvöru í umræðuna hérlendis, það hvernig fólk með doktorsgráðu fær í besta falli að hreinsa klósett ef nafnið er ekki nógu ástkært eða ilhýrt, því miður erum við nefnilega engu skárri. Þessi Lundúnasaga er ótrúlega vel gerð, myndmálið frábært og það sem hún nær best er að það eru engir ný-nasistar að angra innflytjendurna, nei, það eru jakkaklæddir menn með Schengen-samninga og Evrópusambandið á heilanum sem hundelta alla sem eru utan landamæra þess sem er móðins í augnablikinu – eða öllu heldur nógu ríkt. Í skjóli þessa geta yfirmenn allra rottuhola borgarinnar níðst á þessu fólki í krafti þess að leyfa þeim þó að vera þar.

Gangs of New York var tæp inn, hefði þurft betri sæti í bíó til að sjá hana almennilega! En þó var stemmningin og bravúraofleikur Day-Lewis alveg þess virði þó ég hafi aldrei verið skráður í aðdáendaklúbb Scorsese.

Lilja 4-Ever. Enn eitt meistarastykkið frá Lukas Moodyson, andlegs barnabarns Astrid Lindgren. Tilsammans var kannski besta dæmið um það en það á þó vel um Lilju líka, það sem mér fannst fara fram hjá flestum var að þessi mynd hefði ekki haft neitt vægi nema kannski pólitíkst ef hún hefði verið endalaust svartnætti. En þessi hefur á einhvern einkennilegan hátt sömu lífsgleðina og hjartahlýjuna og Tilsammans þó það sé dýpra á henni.

Lord of the Rings: The Return of the King var nærri því búin að klúðra þessu með því að enda að minnsta kosti fjórum sinnum en það er ekki hægt að neita því að feilsporin hjá Jackson í þessu tíu tíma verki eru fá. Hálf sorglegt samt að einhver Rósa skyldi koma upp á milli ástarsambands Fróða og Sáms.

Mystic River var merkilegt dæmi um hvernig hægt er að láta heila bíómynd hverfast um eitt byrjunaratriði ef það er nógu vel gert. Minnti mig ótrúlega á Sleepers en var bara svo miklu betur heppnuð.

Nói Albínói og The 25th Hour eiga heima saman, tvö góð dæmi um hvernig harmleikir geta dregið fram það besta í þjóðum – og einnig það versta. Því miður er síðarnefnda myndin eina dæmið sem ég man í augnablikinu um það besta í bandarískum þjóðarkarakter tengt 11. september. En er Nói besta íslenska myndin? Þarf að sjá hana aftur til að geta gert á milli hennar og 101 Reykjavík, að minnsta kosti áhrifamesta Malt-auglýsing sem ég hef séð enda tók Malt-neysla á mínum heimilum stóran kipp á árinu.

X-Men 2. Það varð nú að hafa eina teiknimyndasögu á þessu mikla teiknisöguári. Og stökkbreyttu fríkin kom betur og skynsamlegar inná heimsmálin en flestar “alvarlegri” myndir þetta ár. Sannar enn og aftur að framhaldsmyndir geta verið betri en orginallinn. Hvað hinar varðar þá fannst mér Hulk ansi fróðleg tilraun sem tókst alveg að sumu leiti og Daredevil skemmtileg stundum en í flestu dáðlítil, ólíkt sögunum sjálfum sem eru miklu skemmtilegra dæmi um dökka ofurhetju en Batman nokkurn tímann.

Þær sem hefðu verið inni á góðum degi:

Punch-Drunk Love og Catch Me If You Can voru skemmtilega kolsvartar og skjannabjartar til skiptis án þess að litasamsetningin klikkaði nokkurntímann, Kill Bill verður skoðuð betur þegar hún er kláruð, Adaptation klúðraði þessu á afkáralegum endi og Master and Commander hefði væntanlega komist inn ef einhver annar hefði leikstýrt henni en snillingurinn Peter Weir, hann verður að þola það að ég geri meiri kröfur til hans en að myndir hans séu bara mjög góðar.

Pirates of the Caribean, Confessions of a Dangerous Mind, The Quiet American, Borg Guðs og Sweet Sixteen eru þær myndir sem ég á óséðar sem ég hef einhverja trú á að hefðu getað komist inná listann – þær eru nú samt merkilega fáar miðað við alla dvölina í bíólausum Skagafirðinum!

Femínisminn kemur upp í hugann þegar ég hugsa um ofmetnustu og vanmetnustu myndir ársins, The Hours bað mann um að sýna einhvern samúðarvott yfir húsmæðrum sem áttu litla samúð skylda út frá einhverjum vælukjóa femínisma á meðan hin stórskemmtilega og litríka Frida hins vegar sýndi ótal myndir af því hvað konur geta verið frábærar án þess þó að þurfa nema eina konu til þess.

Vonbrigði ársins voru hins vegar Matrix-framhöldin, ég er að reyna að stilla mig inná að líta á þær eins og framhöldin við Psycho og Jaws til dæmis, myndir sem koma frummyndinni nákvæmlega ekkert við. Hin eina sanna Matrix á nefnilega heima á lista yfir áhrifamestu og merkilegustu bíómyndir mannkynssögunar, framhöldin voru bara einhver leiðinda aukaverkanir.

Vona svo að lesendur verði duglegir að vera mér ósammála áður en þetta kommentakerfi fer að ryðga - og Gleðilegt ár dúllurnar mínar!
Ár hins illa

Nafnið á síðasta leiðara ársins hjá DV á sérlega vel við, árið byrjaði á því að maður þurfti að gera upp á milli þess hvort maður ætti að halda með Saddam eða Bush og endaði á því að maður þurfti að ákveða hvort maður þyrfti að halda með Hannesi eða Kressinu. Þar hitti skrattinn ömmu sína svo rækilega að það þarf eiginlega að semja nýtt orðtak því þetta verður hér með frátekið fyrir þessa fundi.

Annars skil ég ekki alveg hvers vegna í ósköpunum jólasveinarnir á sjónvarpsstöðvum landsins halda að manni langi ekkert frekar heldur en að hlusta á pólitíkusa karpa þennan síðasta dag ársins. Er að hugsa um að skrifa um eitthvað skemmtilegra á meðan ég bíð eftir matnum – eins og til dæmis topp 10 lista yfir bestu myndir ársins svona til að vera til höfuðs Mogganum.

miðvikudagur, desember 24, 2003

Jólasagan í ár

Jólakeðjusagan í ár er rituð af ónefndum kennurum við ónefndan framhaldsskóla og er náttúrulega samhengislaus og ölvuð eftir því. En eftirtaldar reglur voru hafðir í heiðri við samningu sögunnar:

Reglur:

1. Skrifa 1-3 línur hver

2. Sögupersóna úr einu af eftirfarandi verður að koma fyrir:

a. Dýrin í Hálsaskógi
b. Kardimommubærinn
c. Grettissaga
d. Njála
e. Prúðuleikararnir

... að öðru leyti var hvaða ósómi sem er leyfilegur. Er mál manna að önnur eins mót heimsbókmennta hafi sjaldan átt sér stað.

Sagan endalausa

Tekið var að hvessa þegar Ásgeir og fleiri kennarar komu saman til jólahlaðborðs. Tunglið óð í skýjum og ræningjarnir svipuðust um eftir Soffíu frænku.
... ekki sáu þeir Soffíu en hins vegar Hérastubb bakara sem var að tala um afa sinn ...
Þá birtist skyndilega Mikki refur með Soffíu í fanginu en hún var ansi fáklædd ...
Bangsapabbi las reglur skógarins. Fyrsta grein: Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. En Gunnar og Sámur voru ekki ánægðir með lögin. Bangsapabbi áminti Gunnar og Sám.
Hver býr í þessari svínastíu? spyr Soffía frænka.
Dvel ég í draumaheim og dagana lofa, kennararnir drekka nú dilla sér og ....
Birtist nú allt í einu Svínka með Kermit í eftirdragi. Hvað er um að vera hér?
Er verið að baka piparkökur? Mikki refur sagði ....
Héraðsstubbur færði Soffíu frænku jólabaksturinn þar sem hún hafði ekki tíma til þeirra hluta þar sem hún stundaði veiðiþjófnað alla daga. Hann vantaði rjúpur í matinn fyrir jólin handa Kasperi, Jesperi og Jónatani.
Hvar er Gunnar á Hlíðarenda? spurði Svínka. Mig langar til að dansa við hann.
Gunnar á Hlíðarenda er að eltast við Soffíu frænku, svaraði Kermit. Gunnar þolir ekki veiðiþjófa.
“Og þó ég elski þig ekki fannst mér svínakjötið sem Eiður eldaði í kvöld alveg ágætt,” sagði Kermit svo smjattandi við Svínku.
Og sífrandi kennarar á sultarlaunum tóku til matar síns eins og um síðustu kvöldmáltíðina væri að ræða. Kjarabætur felast ekki í þöndum maga heldur feitum starfslokasamningum – æ, hafið þá ekki hvetjandi fram í andlátið, borgið frekar vel fyrir það að hætta fyrir elliglöp.
Mikki mús sagði: “Nú er komið nóg.”
Ég er farinn í frí til frænda minna í Drangey þarf ég allavega nóg að borða án þess að nöldrandi mær en Hallgerður brást hin versta við og sagðist ekki nein hornkerling vera. “Sýndu nú hetjuskap þinn, Gunnar á Hlíðarenda.” Víkur nú sögunni að Bastían bæjarfógeta sem var í miðri kosningabaráttu í Kardimommubæ.
Hún var drengur góður en ekki er gott að eiga þræl fyrir vin. Eldklerkurinn fór á kostum þetta kvöld því kertum ringdi ofan á hyskið eins og ís í tunnu, kenndi hann hnyðjunni jólin aftur því hann hafði ýmugust á henni. Rak hnyðjuna aftur að landi og heldur nær stiganum en áður. Fór á sama veg.
Það er alveg sama Soffía frænka segir, ég ætla samt á hátíðina á morgun.
Kardimommubærinn er frægur, Soffía er víst að strippa í kvöld, en hvað með Tóbías í turninum? Er hann með fulle fem? Ef hann og Glámur legðu saman, yrði hér svaka partí. Þar sem allir femínistarnir, Rauðhetta, Mjallhvít og Bergþóra fengju að njóta sín.
Þá flissuðu griðkonurnar um stund og vöktu Gretti. Nokkru síðar flissuðu þær ei meir.

þriðjudagur, desember 23, 2003

Búinn að kaupa jólagjafirnar og senda kortin. Þau koma kannski einhver fyrir áramót. Annars eru bestu fréttirnar að ég sá um það þessi jólin að saga niður og jólatré og þar af leiðir að í fyrsta skipti í áratugi erum við með jólatré sem uppfyllir eðlilegar stærðarkröfur, þ.e. er stærra en ég.

föstudagur, desember 19, 2003

Átti alltaf eftir að benda á að umhverfis- og alþjóðagúrúinn í Laugardalnum, sem er líka svo heppin að vera systir mín, er farin að taka upp ósiði af bróður sínum. Spurning hvort ég breyti nafninu á þessari síðu í "Litli stóri ljónsunginn?". Sjáum til, en í dag yfirskyggir ein staðreynd allt annað. Nefnilega sú að:

Ég er kominn í jólafrí!!!!!

... og svo það sé alveg á hreinu:

ÉÉÉÉÉÉÉÉgggggggg eeeeeeeeeeerrrrrrrrr
kkkkkkkkkooooooommmmmmiiiiiiiinnnnnnnnnnnnn íííííííííííííí
jjjjjjjjjjjjjóóóóóóóóóllllllllllllllllllaaaaaaaaaaaafffffffffffffrrrrrrrrrrrííííííííííííí!!!!!!!!!!!!!!!

Já, og að lokum er rétt að geta þess að ég er kominn í jólafrí.

mánudagur, desember 15, 2003

Jæja, búinn að skrifa flest jólakortin sem fara út fyrir landsteinana - nú fer maður að reyna að muna eftir einhverjum Íslendingum sem maður þekkir! Þeir sem vilja minna á sig geta kommentað með heimilisfangi hér fyrir neðan - og svo getið þið sent jólakortin - svo ég tali nú ekki um pakkana! - á þetta heimilisfang:

Ásgeir H Ingólfsson
Vanabyggð 2b
600 Akureyri

laugardagur, desember 06, 2003

Master Weir

Peter Weir á ennþá eftir að gera vonda bíómynd - og sem betur fer þurfum við að bíða lengur eftir því. Í Master and Commander tekst honum meira að segja að gera líffræði heillandi! Annars bara gaman að vera kominn aftur í menninguna, þó það endist ekki lengi í bili. En það styttist í jólafríið ...

fimmtudagur, desember 04, 2003

Er að baka smákökur fyrir yfirsetufólk á enskuprófinu. Þar með sannast endanlega að ég myndarlegastur í kennaraliðinu hvernig sem hugtakið er skilið. Fyrir utan lítillætið náttúrulega ...

miðvikudagur, desember 03, 2003

Viggo for the Oscar!

Ekki af því ég sé svona illa haldin LOTR-nörd, þó hann eigi allt gott skilið fyrir leik sinn í fyrstu tveimur. Nei, svo hann geti haldið óskarsræðu sem væri eitthvað í ætt við þetta viðtal:


[Vice President Dick] Cheney was speaking to a bunch of Republicans the other day, and he said that the U.S. taxpayer would not pay a single cent for the Iraq reconstruction. He said Iraqis would have to do that themselves. I think this is not only a lie -- one that he is quite conscious of telling -- but the statement itself, true or not, displays the horribly arrogant attitude of the current administration. We went into Iraq and made a friggin' mess for no reason at all -- well, for economic reasons that will benefit a lucky few -- and we've seriously undermined any kind of global community.
As many problems as the U.N. has had and as much hypocrisy as it has displayed, I would rather have them taking care of business over there as opposed to our government's piecemeal, self-serving efforts. To see the president of the United States and his administration admonish the U.N. and individual wealthy nations to pitch in with reconstruction now that such a mess has been made by the U.S. government -- which, as everyone knows, chose to deride and completely ignore the grave concerns expressed by the community of nations when invading Iraq in the first place -- displays a degree of arrogance that's as frightening as it is ridiculous. For the American citizen, real dialogue and balanced information about these matters has been largely choked off. In some way, I think that small companies or individuals that are willing to help draw a broader picture, offer more information and contrasting views, are especially valuable at this time. They're worth their weight in oil! [Laughs.]


Ef ég á eftir að blogga grunsamlega mikið næstu klukkutíma er það útaf því að ég á að vera að semja próf.
Var að lesa dóm um Landslag er aldrei asnalegt í Mogganum í dag og annars ágætur dómur Steinunnar Ingu endar á þennan veg: "Yfirleitt eru bókakápur frá Bjarti sérlega smekklegar en þessi er undantekning; landslag teiknað eins og konubrjóst ER asnalegt." Hefur manneskjan aldrei heyrt um móður jörð? Hitt er annað mál að landslag getur verið ferlega asnalegt - hverjum datt til dæmis þúfur í hug?

þriðjudagur, desember 02, 2003

Átti alltaf eftir að tjá ykkur það að uppáhalds Þýðverjann mín er kominn með einstaklega óvirka bloggsíðu (við aumingjabloggararnir þurfum að standa saman) og öllu líflegari háskólasíðu.
Jibbí Kóla!

Hef hér með lokið kennslu þessa önn! Nú á ég bara eftir að búa til próf. Tja, og fara yfir nokkrar ritgerðir. Kannski ætti ég svo að fara yfir prófin þegar þar af kemur? Nei, það er nú væntanlega óþarfi, ég fer bara eftir því á hvaða tölu kennitalan þeirra byrjar á. Eða endar á. Nei, þá allir 9 sem er náttúrulega ekki nógu gott. Jæja, ætli maður neyðist ekki til að fara yfir þetta þó mig langi í JÓLAFRÍ! En það lagast allt þegar ég sé alla þá ódauðlegu snilld sem verður skrifuð á þessi prófblöð.

mánudagur, desember 01, 2003

Jæja, ef þessi dagur var ekki orðinn nógu furðulegur fyrir ... ekki nóg með að ég hafi hent metafórískum kartöflum í börnin og klætt mig svo uppí jólasveinabúning og hent mandarínum í þau heldur fékk ég líka dularfyllsta tölvupóst sem ég hef fengið í langan tíma:

Hr Ásgeir

Yður er boðið í obinbera heimsókn í Verknámshús FNV kl 16 02. 2 12 annó
dominó 2003. Stundvíslega.


Undir þetta skrifar svo iðnsveinn meistarans.

Segið svo að það gerist ekkert á Sauðárkróki!
Í dag er ég jólasveinninn sem set kartöflur í skóinn og hendi mandarínum í börnin. Ég er að hugsa um að kalla mig Ritgerðaskellir eða Fallkrókur.