fimmtudagur, júlí 31, 2003

Börkur er einn af fáum af Íslendingaárgangnum 99-00 sem er ennþá úti í Prag. Eins og þessi frétt sýnir getur Friðrik Þór farið að passa sig.
Megas gamli á mest sannfærandi rök fyrir tilvist almættisins sem ég hef heyrt lengi í Reykjavik Grapevine: "Building the Twin Towers is a far greater insult than the Tower of Babel was. And God is still active."
Get samt engan vegin samþykkt að Batman komi með tærnar þar sem Spider-Man hefur hælana. Batman dýpri? Já, einmitt, greyið billjónamæringurinn sem missti foreldra sína fyrir langa löngu. Well, Spidey er foreldralaus en er ekkert að velta sér upp úr því, hann þarf að borga leiguna. Augljóslega eina rétta ofurhetjan fyrir fátæka námsmenn eins og mig.
Er að fara til Akureyrar á morgun og ætlaði að taka rútuna. Langaði til þess enda ekki tekið rútu á milli í meira en áratug og svo er alltaf meira ferðalag að fara þetta á sálarhraða. En svo kom í ljós að ég gat fengið nettilboð á flugi á 3400 kall en hefði þurft að borga 6200 fyrir rútuna. Hvað í ósköpunum er að gerast í toppstykkinu á yfirmönnum þessara rútufyrirtækja?

mánudagur, júlí 28, 2003

Af hverju er ég búin að vera með Last Christmas á heilanum í allan dag? Er ekki örugglega júlí? Eða hefur það eitthvað með það að gera að frá og með deginum í dag lauk formlega ferli mínum sem verkamaður?
Skemmtilegt þetta blað hjá verðandi 1. deildarstórveldi Fram. Eitt skil ég samt ekki, gátu þeir ekki fundið sér skárri stuðningsmenn til að hampa? Egill Helga, Gunnar Smári og Mörður (nefndir sem dæmi um KR-inga) eru vissulega ekki nærri jafn töff og þeir sjálfir halda - en þeir eru þó ólíkt meira spennandi en mömmustrákarnir Fram-megin; Hreimur, Gísli Marteinn og hæfileikalausi Einarinn ... og Alfreð Þorsteins? Ég neita að trúa öðru en að slíkir menn geti verið neitt annað en Valsarar.

föstudagur, júlí 25, 2003

Svona trúleysingjar fara í taugarnar á mér. Sérstaklega af því flestir mundu setja okkur undir sama hatt því hvorugur trúum við á Guð. Hins vegar kalla ég mig ekki trúleysingja - ég trúi á allan fjandann en bara ekki á almáttugan guð. Enda er í raun ekki hægt að vera trúlaus - þú trúir allaf einhverju. Til dæmis því að himininn sé blár. Þú hefur góða ástæðu til að trúa því vissulega, en síðan hvenær voru skilningarvit okkar fullkomin? Fyrir nokkrum öldum höfðum við álíka miklar sannanir fyrir tilvist baktería, sýkla og annara örvera og við höfum fyrir tilvist drauga og jólasveina í dag. Að útiloka allt yfirnáttúrulegt lýsir heimskulega mikilli trú á alvisku þess takmarkaða dýrs sem mannsskepnan er.

Ásgeir sem trúir til dæmis á drauga, engla og auðvitað jólasveininn

e.s.: nærri búin að gleyma pælingunni um munin á trú og trúarbrögðum:

Gallin við trúarbrögð er fyrst og fremst sú að réttyrði yfir þau væri eiginlega trúarlög. Í trúarbrögðum er trú troðið upp á fólk, hún er fest í kerfi - og þar kafnar hún að lokum og verður aðeins að þægilegri hækju fyrir okkur þegar við erum ekki að skilja allt þetta yfirnáttúrulega og ótrúlega í heiminum. Enda hafa fáir barist harðar gegn margskonar trú fólks en kirkjan - allir draugar, álfar og huldufólk sem ekki passa við hennar heimsmynd eru bannfærðir - á þennan hátt er kirkjan ótrúlega lík þeim sem telja sig trúlausa með öllu - allt sem stangast á við þeirra heimsmynd er merki um heiðingja sem ekkert gott getur komið frá.
Hefur einhver séð lítið notað kommentakerfi á gangi um bæinn? Það hvarf síðasta sunnudagskvöld og hefur ekki sést síðan - það er ekki vant að vera svona lengi að heiman og maður fer að hafa áhyggjur af því að það hafi hreinlega verið ritskoðað af illgjörnum alþjóðlegum tölvufyrirtækjum.

þriðjudagur, júlí 22, 2003

Atheist
Threat rating: extremely low. You may think you can
subvert the government, but if you should try
you will be smited mightily because God likes
us best.


What threat to the Bush administration are you?
brought to you by Quizilla
Pervez er búin að vera duglegur að syngja Open Your Heart - og Farinn - í vinnunni þessa vikuna. Fyrir utan að hann er náttúrulega farinn að hafa sívaxandi áhyggjur af kvennmannsleysinu hjá mér. Ekki nóg með að ég hafi verið ógiftur í gær heldur var ég ennþá ógiftur í dag!

sunnudagur, júlí 20, 2003

Húsdraugurinn notaði tækifærið þegar ég skrapp út í körfu og tjáði sig hérna. Ég vona að þetta dugi til að særa þennan ósóma út - hann verður alltaf svo dónalegur á sunnudagskvöldum, enda helgardrykkjudraugur og þar af leiðandi þunnur og gegnsær.

fimmtudagur, júlí 17, 2003

Can’t stop lying

Dettur alltaf reglulega í hug unglingabók sem ég las fyrir löngu um strák sem er óstöðvandi lygari. Stráksi var með íkorna eða eitthvað álíka kvikindi á öxlinni og laug ósjálfrátt hvort sem það hagnaðist honum eða ekki. Óvenju miklar sálfræðipælingar í gangi af unglingabók að vera. Ekkert masterpís en mjög athyglisverð samt.
En þó mér detti bókin reglulega í hug þá get ég ómögulega munað hvað hún hét eða hver skrifaði hana. Oftar er það öfugt, ég man nafnið, höfundin og búið. Myndi til dæmis ekki geta rakið plottið í einni einustu Fimmbók, kannski Ævintýrabókunum samt. En er ekki einhver vel lesin lesandi sem getur upplýst mig um ætterni skruddunar?

miðvikudagur, júlí 16, 2003

Til hvers að vera grænmetisæta?

Ókei, það góða fólk sem borðaði matinn frá Grænum kosti með mér í gær var að vísu aðallega að þessu út af e-u heilsuflippi en fyrst maður lendir í þeirri fáránlegu lífsreynslu að borða fjögurra rétta máltíð þar sem réttur eitt, tvö, þrjú og fjögur er grænmeti – hvaða speking datt til dæmis grænmetislasagna í hug? – þá er vissulega ástæða til að velta þessu fyrir sér. Mögulegar ástæður?

Bregðast við mannfjölgunarvandamálum og þeim matarskorti sem af því getur stafað (grænmeti tekur minna pláss en beljur)

Ágætis rök en gengur ekki alveg hér á klakanum, það er frekar hægt að tala um rollufjölgunarvandamál hérna.

Hollusturökin þú ert það sem þú borðar.

Jamm, hvern langar ekki að verða grænmeti? En það eru til mun fljótlegri leiðir.

Get ekki fengið af mér að borða dýr eftir að ég fékk mér gæludýr.

Kötturinn minn er stolt kjötæta og myndi missa alla virðingu fyrir mér ef ég hætti að borða kjöt. Enda virðast flest skemmtileg gæludýr vera kjötætur – þessar grænmetisætur eru sjaldnast mjög skemmtilegar nema með réttri sósu – beljurnar á Öxará undanskildar.

Órökréttar tilfinningaástæður (get ekki borðað nautakjöt af því kálfarnir í sveitinni voru svo sætir etc.)

Einu almennilegu ástæðurnar sem mér dettur í hug, tilfinningaástæður eiga misvel við en vissulega eiga þær ágætlega vel við í tilfelli þegar jafn sterk rök og lyktin af hlutnum skiptir öllu máli.
Mjög glaður í gær þegar ég komst að því að mér yrði boðið í mat tvö kvöld í röð, enda fátt sem gleður bláfátæk námsmannahjörtu meir en frír matur. En hvað haldiði, fyrst lendi ég í fisk (að vísu vel elduðum) og svo er pantað frá einhverjum grænmetisveitingastað sem á víst að vera voðalega hip. Hvers eigum við kjötæturnar að gjalda?
Spooks

Venjulega er skemmtilegra að byrja á byrjuninni með framhaldsþætti í sjónvarpi. Allt í lagi að koma inní þátt 2 eða 3 í 25 þátta seríu svosem - en slæmt að koma inn í 4 þátt af 6. En það kom fyrir mig í gær þegar ég var í sakleysi mínu að fara að starta videóinu. Það skiptir náttúrulega ekki öllu nema ef þættirnir séu virkilega góðir - og njósnaþættirnir Spooks eru það sannarlega. Hingað til hef ég aldrei heillast mikið af breskum spennuþáttum og það er væntanlega ástæðan fyrir því að þeir fóru svona algerlega framhjá mér - mér sýnist á sjónvarpsdagskránni að það sé meira að segja verið að endursýna þetta. Njósnarar eiga það sameiginlegt með skyggnu fólki að hafa sjaldnast fengið sanngjarna útreið í skáldskap - í báðum tilfellum er vaninn að nota þetta aðeins sem story trick án þess að kafa neitt dýpra. En þegar maður sér myndir eins og The Gift og Sixth Sense þá sér maður hve dulrænir hæfileikar geta verið fínt efni ef vel er með farið, sömuleiðis Mother Night (mynd & bók) og New York Trilogy þegar kemur að njósnurum. En ef einhver hefur öppdeit á þáttum 1-3 þá væri það vel þegið. En ekki kjafta frá 5 og 6 náttúrulega, ég bíð spenntur hvort Bush verði sprengdur í loft upp í næsta þætti! Eiginlega vona ég ekki þar sem það er fátt betra fyrir ímynd forseta og að verða drepinn, sbr. Kennedy og Lincoln.

miðvikudagur, júlí 09, 2003

Terminators & old crushes

Við Starri förum orðið varla í bíó nema fyrir a.m.k. tvær myndir í einu. Síðast Matrix 1+2, núna Terminator 2+3. Saknaði vissulega eitt samt en rassinn á mér hefur varla saknað hennar. Maður var vissulega skeptískur þegar kom í ljós að hvorki Cameron, Hamilton, Furlong eða Fiedel yrðu með í 3 en merkilegt nokk er hún alveg í sama klassa. Þó engin komi náttúrulega í stað tónsnillingsins Brad Fiedel en á móti kemur að hún er mun fyndnari en hinar tvær - fyrri klukkutímann að minnsta kosti. Svo þarf víst að fara að reyna að bjarga heiminum og það þykir væntanlega frekar alvarlegt. Mostow skilar góðri keyrslu og Nick Stahl (sem ólíkt Edward Furlong virðist ekki hafa lent í rugli við að verða barnastjarna) er mjög traustur. Svo er náttúrulega Claire Danes - ef þetta hefði verið fyrir áratug þegar T2 kom út hefði ég sjálfsagt ekki haft hugann við mikið annað - núna er það alveg marktækt þegar ég segi að hún leiki þetta ágætlega. Smá pæling samt með 2 - hefðu þeir ekki þurft að klippa út alla terrorista-rómantíkina í henni núna?

þriðjudagur, júlí 08, 2003

Það tók síðustu færslu bara einn og hálfan sólarhring að birtast. Spurning um að fara að koma bréfdúfunni í form.

sunnudagur, júlí 06, 2003

Það var reynt að hertaka þessa síðu af illgjörnum bókstafstrúarmönnum en ég sparkaði þeim út í hafsauga. Hvort þið sjáið nokkurn tímann þessa færslu er hins vegar annað mál enda blogger bölvaður í dag.
Það var verið að minna mig á að ég bæri einhverja ábyrgð á þessari síðu. Mér fannst einmitt svo einkennilegt að það kæmi aldrei neitt nýtt hérna.