föstudagur, janúar 31, 2003

Bush hrósaði sérstaklega enskunni hjá Berlusconi í fréttum í gærkvöld. Hann laug engu þar, á mælikvarða Bush er enska Berlusconi framúrskarandi.

miðvikudagur, janúar 29, 2003

p i l l s

Þriðji í ferðasögu

Sef og vakna. Landamærin vekja mig. Fulltrúi þeirra biður um vegabréf.

I've taken all my pills
but I'm still not sleepy
tried to trick myself into thinking
that I'm not awake
that it's only a dream
put that cigarette out
don't ask me no questions


Ég vakna, er að koma inní Slóveníu. Ég ætti kannski að fara að rukka þetta fólk sem er alltaf að koma og skoða passann minn, sérstaklega þar sem það skoðar hann alltaf lengur en nauðsynlegt er af því það hefur aldrei séð íslenskt vegabréf áður. Þar af leiðandi þarf að sýna öllum hinum landamæravörðunum það líka. Hvað um það, spurning að vera skipulagður, ákveða hvað er vert að skoða í Ljubljana áður en ég kem þangað?
Tek punkta um það sem einhverjum ferðabókaskrifurum fannst merkilegt, kannski tekst mér einhverntímann að vera skipulagður ferðalangur. Annars vil ég helst bara þvælast, villast, fara þangað sem nefið leiðir mig. Þar sem ég er krónískt kvefaður þá geta það verið furðulegustu staðir.Skoða hostel, það virðist ekki vera mikið um þau hér og flest lokuð á sumrin. Þó séns með tvö. Fyrir utan að það er eitt hótel hérna nærri því á hostelverði. Áströlsku stelpurnar eru líka í lestinni. Við förum saman að leyta að hosteli þegar til Ljubljana kemur. Ákveðum að finna fyrst hraðbanka. Eftir að hafa fullvissað okkur um að það er engin slíkur í lestarstöðinni ákveð ég að spyrja næsta mann sem ég mæti. Ég er líka farinn að sjá eftir því um leið og ég sleppi orðinu.
Hann er hamingjusamur, það er ekki það. Ég: „Sorry, do you know if there is any autobank close by?” Fyrsti maðurinn sem við hittum í Slóveníu: „Yes, I’ts there, that direction (hin áttin). Look, I’ll show you, I’ll go with you.” Kímir. „I’m so happy.” Alicia: „Why are you happy?” Fyrsti maðurinn sem við hittum í Slóveníu: „Because I’m happy!” Stórt glott, sveiflar flösku. Hann er að drekka af því það eru áramót. Hjá honum. Hann hefur auðvitað ekki hugmynd um hvar hraðbanki er, ratar svona álíka mikið og við. Ég held eiginlega að hann hafi ekkert vitað alveg hvar hann var. En hann var hamingjusamur og það er auðvitað það sem gildir.
Við finnum loks hraðbanka eftir að hafa spurt öllu gæfulegri Slóvena, og svo annan – og annan. En þeir virðast allir eingöngu vera fyrir eitthvað sérslóvenskt sérviskukort. Visa? Nei, þeir eru með frumsamdar vísur. Þó finnum við loksins einn hraðbanka sem vill ræða við okkur, fáum okkur svo pizzusneiðar að ósk þeirra sem voru ekki jafn snjallir og ég að belgja sig út síðastu klukkutímann í Búdapest og förum að leita hostels.
Það eru allir frábærlega næs hérna. Við erum stoppuð og spurð af hverju við erum að leita – ekki öfugt. Við erum hvorki afætur né tækifæri til að græða í þeirra augum, hvað þá ókunnugt fólk til þess að skipta sér ekki af – og það er notaleg tilbreyting. Enda heitir borgin Ástkær, einn stafur til eða frá. Hostelið sem er næst miðbænum, Dijaški Dom Tabor, er kannski lokað á sumrin, Einmana pláneturnar okkar eru frekar óljósar með það. En Slóvenarnir halda að það sé opið. Eftir að hafa labbað einhvern hring þá finnum við hostelið sem við vorum að leita að, lokað. Rétt hjá er hótel, Park Hotel, sem við tékkum á. Það er 6000 tolarar á manninn, hótelvörðurinn fullyrðir að það sé það ódýrasta sem fæst. Ég trúi honum ekki. Þær áströlsku ákveða að taka það, ég ákveð að leita áfram. Söknuður og léttir, ágætt að hafa einhverja með sér að flakka kannski en ég var orðinn þreyttur á þeim áströlsku. Sumt fólk er ágætt í hófi.
Super Li Bellueve ætti að vera á 3000 tolara og svo er eitt hostel sem ætti örugglega að vera opið. Slóvenskur karlskröggur sem talar enga ensku stoppar mig og reynir að leiðbeina mér, bendir í öfuga átt við kortið. Ég laumast til þess að fara eftir kortinu eftir að hafa kvatt hann með virktum. Kem aftur að brautarstöðinni og þykist vita hvert á að fara þaðan en það er farið að síga í bakið, ágætis labb með stóran bakpoka. Þannig að ég næ mér í taxa og fer í hótelleit, spyr fyrst um verð og hvort hann viti um eitthvað hostel. 2000 tolarar bíllinn og hostelið 3-4000. Það er þokkalegt, tvær nætur og þá er ég að græða. En hótelið sem hann kannaðist við er lokað. Líka Super Li Bellueve – þó það sé mikið stuð á diskóinu fyrir neðan. Kannski væri ágætt að hafa nýlegri túristabók en hún hefur nú samt fullkomlega dugað mér hingað til. Endum svo á Dijaški Dom Bežigrad sem er opið en virðist hafa breyst í hótel. Hvað um það, það er örlitlu ódýrara en Park hótelið. Að vísu dáltið lengra í bæinn og allt það, en ég vil fyrir alla muni stoppa meterinn á taxanum og ákveð að crasha þarna. Græddi ég eitthvað á þrjóskunni? Nei, eða öllu heldur, ég eyddi í sparnað. Aldrei taka mark á auglýsingunum krakkar. Svo er miklu skemmtilegri hótelvörður hér heldur en fýlupúkinn á Park, vel að merkja eini fýlupúkinn sem ég hef hitt í landinu. Það eru allir einstaklega almennilegir hérna, verst hvað þeir eru latir við að halda hótelunum sínum opnum!

salome dancing on my wall
and the shadows on the floor
look so warm from here
I've seen it all before
just one little lie
but the difference is this
it meant the world to me
don't ask me no questions


Ég er djúpt sokkinn í að upphugsa mögulegar réttlætingar á þrjósku minni sem kostaði 3200 tolara (þúsundkall íslenskur en athuga skal að það er morðfé á A-Evrópskan standard) og aumt bak. Tek svo eftir sjónvarpinu og athuga hvort það geti ekki huggað mig. Og hvað haldiði, guði sé lof fyrir fámennar þjóðir, þær nenna ekki að döbba þannig að ég skil eitthvað hvað er að gerast í kassanum í fyrsta skipti síðan ég yfirgaf klakann. Jafnvel þessi auma Woody Allen-mynd skemmir ekki gleði mína yfir sjónvarpi á ensku. Líka gaman að því að Julia Roberts sé Tintoretto-sérfræðingur. Það er ég líka. Svona í samanburði við aðra listmálara að minnsta kosti þar sem mynd eftir hann er sú eina sem ég hef nokkurn tímann klambrað saman ritgerð um, listasaga hjá Róberti í MA. Mig minnir að það hafi verið allt um jónískar súlur. En hvað um það, fljótlega kemst ég að því að Slóvenar eru snillingar í gerð tónlistarmyndbanda. Ég gerist grænmeti í tvær klukkustundir, fer svo að sofa og sef vel og lengi.

"take the wheel" she said "as I wander"
we could leave this town
I've got all I need: spirit, hope and joe
but no one knows me


Ég fer út, vona að ég rati niðrí miðbæ, ég er nefnilega kominn út úr korti. Það er að segja kortinu sem ég er með, það nær bara yfir miðbæ Ljubljana. Finn svo vegavísa. Einn bendir á miðbæinn. Annar á World Trade Center. Hananú? Ég hélt það hefði verið í New York. Já, við höfum öll verið blekkt. 11 september var sviðsettur í Slóveníu, minnir einmitt töluvert á handverk eins tónlistarmyndandaleikstjórans hvers hæfileikum ég hafði dáðst af kvöldið áður. En ég rölti inní miðbæ, það er jólalegt um að litast. Búdapest og Prag komast ekki með tærnar þar sem Ljubljana hefur hælana í jólagleðinni, jafnvel skreytingagleði Akureyringa fölnar. Þríbreyða brúin er falleg, ómögulegt að ná góðri mynd af henni samt, það tekst á Drekabrúnni enda drekar fyrirtaks fyrirsætur. Svo gerist ég sérstaklega jólalegur og fæ mér kalkún. Skola honum niður með Union-bjórnum slóvenska sem svo sannarlega kemst í herramannadeildina áðurnefndu hjá mér. Fer svo og skoða sölubásana sem eru meðfram árbökkunum. Finn kerti og kaupi súkkulaðihúðað epli. Algjör snilldaruppfinning, minnir helst á kleinuhring. Fer á Þreföldu brúnna, flautuleikarinn frá Hameln lék sitt lag og snérist í hringi. Fínt sándtrakk þannig að ég kveiki á kerti fyrir pabba og hringi í gamla manninn sem varð árinu eldri í ár. Borða súkkulaðihúðaða eplið mitt á meðan ég heyri nýjustu fréttir af klakanum. Finn svo netkaffi, kíki inná sporvagn sem notuð er fyrir minjagripaverslun núna, þeir eru hættir að nota sporvagna. Kaupi nokkur póstkort, jólakortin koma á milli jóla og nýárs þetta árið. Þvælist svo áfram þangað til ég huga að heimferð, hótelið bíður. Það er helst að sjónvarpinu að frétta að það er eitthvað FIFA-gala í gangi og kona syngur á ítölsku með þessu einkennilega viðlagi: „Com’n Nicolas Cage in Leaving Las Vegas.” Hananú enn og aftur.

I think I lost my pills
guess I'll take my chances
I'm looking at the telephone
but nothing happens
I am well aware
that the morning is near
put that radio down
don't ask me no questions


Síðasti dagurinn í Ljubljana er runninn upp. Ég er svo heppin að í kæruleysi mínu missi ég af lestinni. Þá hef ég tíma til að kaupa jólagjafir handa liðinu í Sölden. Og að taka myndir og skrifa á póstkortin. Líf mitt færi náttúrulega í eintóma vitleysu ef ég næði einhverntímann þessum lestum! Kaupi spítustrák og spítustelpu handa Aleksandar og Söru, Bangsavín handa Drífu og Zoran. Hvernig vín veit ég ekki en bangsaflaskan er æðisleg, það er það sem gildir. En það er að styttast tíminn minn í Slóveníu og útlit fyrir að ég hitti hvorugan Slóvenan minn. Hvorki Natalije sem var heiðurspólverji ásamt mér í Prag né Sasja sem sá um að skemmta mér í Berlín fyrir hönd Julie. Ég hjólaði á hjólinu hans í neðanjarðarlestarstöð seint á nóttu fyrir þrjátíuogeitthvað tunglum síðan. Það á maður víst ekki að gera. Ég mæli samt með því, að minnsta kosti þangað til það fer að heyrast eitthvað í kallkerfinu. Jamm, alltof margar eyður í adressubókinni minni. Svona er lífið, manni hefnist fyrir að húka ekki heima hjá sér – og vita oft ekki að maður sé að hitta fólk í síðasta sinn. En Ljubljana heillaði mig. Það gerðist ekkert þar samt, þegar maður þvælist svona einn þá snýst það mikið um heppni. Það gerist líka frekar eitthvað ef maður kemst á hostel. Fallegur staður og almennilegasta fólk sem ég hef hitt í öllu mínu flakki. Lítil og mjög falleg, Prag mínus túristar, ljósari, Prag er dökkbrún en Ljubljana ljósbrún, minnti smá á Kraká. Ætti ég að rifja Kraká upp fyrir ykkur? Sjáum til hvort ég treysti mér þangað, ef ekki er það Týrólaalparnir næst. Það er merkilega gaman að nota þetta blogg sem svona löngueftirádagbók. Þetta var helst í fréttum síðasta mánaðar …

föstudagur, janúar 24, 2003

Ég er sem sagt Íradjöfull. Það vissi ég svo sem alltaf. Spurning hvort íslendingabók sé nógu nákvæm til þess að geta staðfest það endanlega? Var annars að fá bréf frá Elk sem var að koma aftur til Ástralíu eftir áralanga fjarveru. Það útskýrir skógareldana.

You%20are%20Irish
What's your Inner European?

brought to you by Quizilla
"I have no problems with inter-species dating, though. It’s fine with me. You know, a nice bunny rabbit would be alright, or maybe even a goat."

Kermit froskur í viðtali við Empire. Svín koma þó ekki til greina.

fimmtudagur, janúar 23, 2003

Kæru lesendur,

ég ætla bara að tilkynna ykkur að ég hef hér með tekið þá ástæðu að hætta að skrifa hér sökum afskiptaleysis Fréttablaðsins sem hefur ekki enn séð sér fært að auglýsa þessa stórkostlegu síðu. Gambrinn er fátækur námsmaður og þarf þar af leiðandi að treysta á fjölmiðla landsins til þess að halda sér gangandi og sökum fálætis þeirra mun þessi síða hér með leggja upp laupana frá og með næsta punkt.

… en auðvitað lætur fíknin á sér kræla aftur. Eða er það kannski bara það að þegar ég hætti verður það annað hvort út af því ég nenni þessu ekki lengur eða af því ég hef góða ástæðu. Í rauninni er ekkert af því að hætta. Þú hættir í einni vinnu og byrjar í nýrri, hættir að gera eitt og ferð að gera annað, það er ekkert að því. Það er aftur á móti spurning um ástæðuna. Það er til dæmis sorglegt ef fólk fer að hætta út af því að einhvert lið út í bæ segir eitthvað misjafnt um það eða vitnar einkennilega í það. Fólk hefur skoðanir hvort á öðru, réttar og rangar – en það er ástæða til þess að hafa áhyggjur fyrir hönd þessa bloggfyrirbæris ef nýjasta tískan er að hætta um leið og einhver segir eitthvað misjafnt um það. Þá á náttúrulega bara að bíta saman tönnum, sýna löngutöngina þeim sem eiga hana skilið og halda ótrauð áfram. Þetta er allt spurning um attitude.
Liverpool og Manchester United spila til úrslita um deildarbikarinn. Það verður nú örugglega gaman fyrir þau. Á meðan geta alvöru lið barist um alvöru bikara. Annars er íþróttaiðkun Gambrans öll á uppleið, félagsvist í kvöld (Torfhildur að búa til spilafíkla úr okkur bókafíklunum) og pílukast á þriðjudaginn. Fyrir utan að maður er byrjaður að hlaupa einhvern hluta af leiðinni í skólann í þeirri veiku von að fá einhverntímann borð. Hvað endar þetta eiginlega? Ætli mín fallega bjórvömb sé í hættu? Hún hefur svo sem aldrei verið sérstaklega stór en ávallt fögur með eindæmum svo spurst hefur langt út fyrir konungsríkið. En auðvitað skiptir það ekki máli, fegurðin kemur innan frá og þó bjórinn sjáist ekki utan á manni þá skiptir það ekki máli svo lengi sem maður hefur bjór í maga þó lítill sé orðinn. Sem hefur að vísu ekki gerst síðan Tékkland var yfirgefið, maginn á mér er ekki alveg að höndla íslenskt bjórverð ennþá og tékknesku bjórarnir tveir í ísskápnum eru lofaðir ónefndum drykkjufélaga.

föstudagur, janúar 17, 2003

Slysaðist á að horfa á Kastljósið í gær þar sem var verið að rífast um spilakassa. Fulltrúi andstæðinga þeirra talaði um að Ríkisstjórnin væri algerlega undir hælnum á Björgunarsveitunum, SÁÁ, Rauða Krossinum og Háskólanum. Trúverðugleikinn gufaði mjög snögglega upp.

miðvikudagur, janúar 15, 2003

Fréttir að andláti Gambrans eru stórlega ýktar, hann er bara búinn að vera á haus. Eða kannski bara latur. Það fer eftir því um hvaða dag er að ræða, maður verður frekar þreyttur eitthvað á því að standa á haus sko. En það er helst að frétta að útlegðinni er lokið, ég slapp heim á klakann við illan leik og er núna orðinn algjör vesturbæingur, Eggertsgatan var náttúrulega á mörkunum. Ekki röndóttur enn þó, að vísu býr leikmaður KR fyrir ofan mig rétt eins og það bjó leikmaður KR við hliðina á mér í vesturgötunni. Það er eitthvað plott í gangi, ég býst við að mér verði boðinn samningur hvað á hverju. En hvað á maður að röfla í ykkur? Tja, ég þarf náttúrulega að klára þessa æsispennandi ferðasögu þó ég sé náttúrulega búinn að kjafta endanum núna, svo eyk ég kannski á almennt þunglyndi fólks og segji frá ævintýrum í atvinnuleit – eða kannski byrja ég í nýrri vinnu í kvöld. Kannski fer ég bara í framboð? Sleppi öllu væli um hugsjónir og vitleysu, verð bara heiðarlegur og segi fólki að ég sé að leyta mér að vinnu og hafi heyrt að þetta sé alveg þokkalega borgað og maður fái að hitta frægt fólk stundum. Ég yrði líklega fyrsti maðurinn til að komast inná þing útá einlægni. En auðvitað gengur það aldrei, þá þyrfti ég líka að segja þeim að ég ætli ekkert að vera öll fjögur árin þó ég sé kosinn fyrir fjögur ár. Ég meina, hafiði hlustað á þetta lið halda ræður? Hafiði hlustað á það tala í sjónvarpinu? Þegar það er að reyna að höfða til fólks by the way – þetta er fólkið sem hinir pólitíkusakrakkarnir velja til að koma fram fyrir sína hönd. Hefur þetta fólk einhverntímann heyrt um ímyndunarafl? Að tala í fleiri en einni tóntegund? Að hafa eitthvað að segja? Nei, og þó … Það borgar sig bara ekki. Því í pólitík þykir það bera vott um óstöðugleika. Eða draumóra. Eða lýðskrum. Fólk með eitthvað að segja gæti hugsanlega verið hættulegt ekki satt, við viljum vera örugg. Seif. Pökkuð inní bómull. Þar með talið landið okkar. Af hverju talar enginn um Kárahnjúka nema í sambandi við virkjanir? Af hverju bendir þetta lið ekki á einhverjar aðrar náttúruperlur núna áður en þær verða virkjaðar? Og af hverju er verið að virka? Hvað er svona spennandi við virkjanir? Ekki nota orðið hagvöxt takk fyrir, annars segi ég hókus pókus. Virkjanir eru svona álíka heillandi og landslag sem heitir Kárahnjúkar, tvær mismunandi útópíur, í annarri eru allir á svifbílum með aulabros eins og Goggi Bush, í hinni eru allir með blóm í hárinu á sauðskinsskóm með aulabros eins og Kolbrún Halldórs – það er sama hverjir vinna, við erum dæmd hvort eð er. Fólk í pólitík vill flest hafa jól allt árið, allstaðar. Það er bara ekki sömu trúar.

sunnudagur, janúar 05, 2003

no poetry

Nóbelsverðlaunin? Átti ekki fyrir löngu að vera búið að afhenda þau? Hugsa ég þar sem ég stend og bíð eftir lestini frá Želechovice til Otrokovice. Ég hef ekki hugmynd af hverju þessu skýtur upp í kollinn á mér núna en ég sendi mömmu sms þar sem ég veit ekki hvenær ég kemst á netið sjálfur næst. Af einhverjum ástæðum er mér skyndilega mikið í mun að vita þetta.

“there’s no poetry between us”
said the paper to the pen


Fyrsti snjórinn er orðinn þriggja daga gamall. Það er krakki á hjóli í sjálfsmorðshugleiðingum. Sömuleiðis gömul kona sem fer þó ólíkt varlegar. En ég hef aldrei séð neinn á hjóli hérna. Fyrr en núna allt í einu. Ætli þau taki hjólin ekki út fyrr en þau sjá snjó?

Lestin kemur loks, of sein og þegar ég kem til Otrokovice þá borða ég einhvern dularfullan mat í svona um það bil þrem munnbitum, það er ekki langt í lestina til Breclav. Þangað kem ég, nógur tími enda búinn að missa af lestinni sem ég ætlaði að taka til Búdapest. Það er alltaf lestin á undan sem er of sein. Breclav virðist vera skondinn staður, en ég fer ekki of langt af ótta við að finna ekki lestarstöðina tímanlega. Lestin kemur, við erum þrjú í klefa – þar af einn sofandi. Ég og stelpan í gluggasætinu á móti erum hvorug syfjuð en bæði of tillittssöm til að kveikja ljósið.
Það er skondið að ferðast með farsíma með lest. Landamæraverðirnir koma til þín á næstu stöð á undan eða næstu stöð á eftir landamærunum, lítið á þeim að græða. En þegar farsíminn þinn pípir til að gefa til kynna nýtt farsímafyrirtæki veistu að þú ert kominn á nýja grund. Slóvakíska farsímafyrirtækið talar meira að segja íslensku, eðlilega stoppa ég ekkert þar. En þetta verður væntanlega ferðasaga þumalputtakynslóðarinnar; ég fór frá Eurotel til Orange, eyddi jólunum í A. Max og snéri svo aftur til Eurotel. Eða Paegas. Flest lönd bera fleira en eitt nafn. Tékkland, Tékkía og einu sinni Tékkóslóvakía.
Mamma svarar loks – eða pabbi? Þau eru með sameiginlegan farsíma, mamma er skráð fyrir honum í adressubókinni minni sem upphaflegur eigandi en pabbi notar hann meira núorðið. Þannig að ég er alveg hættur að þekkja á milli foreldra minna. Allavega, Imre Kertesz vann nóbelinn. Hver það er hef ég ekki hugmynd um en hann býr víst í Búdapest. Forlagatrúin sprettur upp í mér. Hvað sem það nú annars var sem karluglan skrifaði þá hlýtur það að vera eitthvað sem mun breyta lífi mínu, ekki satt? En núna rennur lestin í fletið sitt, hún hefur fundið svefnstað og nú er komið að mér. Yellow Submarine verður fyrir valinu, það er stutt að labba og þeir eiga laust rúm.

something’s burning in the attic
that her tongue will not defend
through the arc of conversation
past the teeth behind the smile


Ég hendi inn farangrinum, fer út og tek út forintur, finn mér eitthvað til að svala þorstanum. Kem aftur inn, ég er ekki orðinn syfjaður en klukkan er orðin margt. Best að kíkja aðeins á netið á þessari fornfálegu tölvu þeirra, fara á klósett og svo upp í koju.
Kojan hristist þegar ég klifra upp. Hún hristist líka þegar ég, eða stelpan í neðri kojunni, byltum okkur. Kínverjinn á móti mér hrýtur. Ég þarf að fara fáránlega oft á klósettið. Alltaf næ ég bara nokkrum dropum og þarf því fljótlega aftur. Stelpan í kojunni á vinstri hönd vaknar reglulega, sest upp, ringluð og spyr hvað klukkan sé. What time is it? Ég reyni að hvísla. Hún heyrir ekki í mér. Ég hvísla hærra. Hvenær hættir maður að hvísla? Kínverjinn heldur áfram að hrjóta. Fer á klóstið, hrýtur aðeins meir. Ég og kojunautur minn hristum hvort annað reglulega. Ég get ekki sofið og er reglulega spurður hvað klukkan sé. Djöfull var maður farinn að sakna þess að gista á Hosteli!

could we go downtown
to the middle of the world?


Mitt á milli Búda og Pest. Dóná svo blá. Keðjubrúin. Um daginn þvælist ég um Pest. Kemst að því að Imre Kertesz samdi skáldsögur – ævisögulegar – um helförina. Ja, ekki ætlar hugljómunin að verða uppörvandi. En svo kemst ég að því að það eru bara tvær bækur eftir hann til á ensku. Önnur heitir Fateless, eitt af þrem uppáhaldsorðunum mínum í ensku, þökk sé Vladimir Holan. En þýðingarnar eru vondar, það á að koma nýjar og betri þýðingar á þessum tveim bókum á næsta ári. Hugljómun er hér með frestað um óákveðin tíma.
Upphaflega ástæðan fyrir því að listamenn sóttu kaffihús var kuldi. Það er einmitt ástæðan fyrir því að ég kíkti inná Múvész, það er skítakuldi í Búdapest. Hananú, búinn að sanna að ég sé listamaður með útsmoginni aðferðafræði, það er gott því það tekur svo langan tíma að skapa ódauðleg listaverk, sérstaklega að sanna ódauðleikann. En þetta er fallegt kaffihús og fólkið hérna virðist ekta, það er fyrir öllu. Hverjir eru hérna? Jú, einn minnir mig á og Franz Liszt (hef ekki hugmynd um hvernig Franz Liszt leit út en svona leit hann út í hausnum á mér), ein eins og Michelle Pfeiffer þegar hún var ennþá með attitjúd og ein er einhversstaðar mitt á milli Bodil og Elsu í effinu. Það eru vissulega meðmæli. Ég skoða matseðilinn, kemst að því að bjór heitir sörök á ungversku, eða sör. Sör Dreher I presume? Jamm, um kvöldið þá fékk ég mér bæði Sör Dreher og Sör Azzuro (eða Nastro eins og ég kalla hann), tvo af uppáhaldsherramönnunum mínum. Kannski ástæða til að kynna ykkur fyrir minni persónulegu League of Extraordinary Gentleman; Sör Dreher hinn ungverski, ítalski sjarmörinn Sör Nastro Azzuro, Tékknesku sjentilmennin Sör Gambrinus, Sör Radegast, Sör Staropramen, Sör Krusovice og Hollenskur herramaður sem ég kynntist í París en náði ekki nafninu á. Og enn á ég þegar hér er komið sögu eftir að hitta Sör Union.
Prag og Búdapest. Prag er fallegri utanhúss, Búdapest fallegri innanhúss. McDonalds og Burger King í Búdapest eru í höllum. Prag er ævintýraborg, Búdapest ber vott um heimsveldi sem eitt sinn var. Búdapest er epík og Prag er ljóð. Samt eru þær á einhvern hátt eins. Ég hugsa þetta um leið og ég fer yfir Keðjubrúna, upp að Kastalahæð, upp í Búda. Ég fer upp með kláfnum, Budavári Sikló, hleyp aftur niður. Labba aftur upp. Þetta minnir mig á stígin neðan við Spítalavegin. Ég þvælist aðeins um Kastalahæð, leita að matsölustað en þetta eru allt okurbúllur. Enda allir staðirnir tómir, nema einn, þar er spennandi matseðill á eðlilegu verði – og auðvitað öll borð upptekin. Ég fer aftur niðrí Pest, borða eitthvað skítsæmilegt pasta og fer upp á hostel þar sem ég enda á að fara út með tveim Áströlskum stelpum, einum Nýsjálenskum og tveim hollenskum strákum. Ég prófa einn Unicum, jamm, it’s an aquired taste. Framan af var þetta fínt en snérist svo upp í hollensk-ástralska sápuóperu. Og þær áströlsku voru farnar að fara nett í taugarnar á mér, Patrick hinum nýsjálenska höfðum við aftur á móti týnt. Áströlsku stelpurnar tvær, Jackie og Alicia, voru líka að fara til Ljubljana um morgunin. Okkur tókst öllum þremur að sofa yfir okkur. Ég var samt heppnari, þær rétt mistu af lestinni, þegar ég vaknaði um níuleitið þá vissi ég að hún væri þegar farin og gat því farið í sturtu og fengið mér morgunmat í mesta næði. Seinni lestin færi ekki fyrr en um þrjúleitið. En það var ágætt að missa af lestinni, annars hefði ég aldrei hitt Kanadann.

"there's no poetry between us"
said the paper to the pen
"and I get nothing for my trouble
but the ink beneath my skin"


Ég er nýkominn úr sturtu. Varla vaknaður. Ég sit við morgunverðarborðið og Patrick er við hliðina á mér. Hann hafði endað á einhverjum írskum pöbb nóttina áður. Á móti okkur er ekki ólagleg bandarísk stelpa öðrum megin, hinum megin er Kanadi sem er ekki ósvipaður Aragorn í LOTR. Hann segir okkur frá því þegar hann ferðaðist um Afríku, þar sem maðurinn er uppruninn. Þegar hann fékk sníkjudýr í lappirnar, undir húðina (don’t flyfish in Africa) og skar burt orm sem hafði aðsetur í bakinu á honum. Sníkjudýrin voru erfiðari. Hann reyndi að brenna þau í burtu. Skottulækna og töfralækna þar til einhver dularfull pilla tók ár af lífi hans og fældi sníkjudýrin í burt. Survivor my ass. Hann er atvinnumaður, við hin erum öll amatörar. Ég hefði viljað þvælast með honum í vikur, heyra fleiri sögur, læra. Hann heldur ferðadagbók og ef hún er jafn vel skrifuð og hann segir frá þá ætla ég að vona að hún komi einhverntímann á prent. Já, stundum hittir maður stórkostlegt fólk – en það er oftast á leiðinni í hina áttina. Áströlsku ljóskurnar eru aftur á móti á leiðinni til Ljubljana.
Sé smá bút úr Star Trek í hostelsjónvarpinu. Það meikar ólíkt meiri sens á ungversku. Geimverurnar eru nefnilega merkilega sannfærandi þegar þær tala gjörsamlega óskiljanlegt tungumál. Maður tekur miklu minna eftir því hvað meiköppið er fáránlega lélegt og hversu fáránlegar samræðurnar eru. Svo á lestarstöðina. Kaupi miða, set dótið í geymslu og leita mér ætis.

you were always such a pretty girl
and you told me I was beautiful


Enda á Donna Bella Pizzeria. Veit ekki hvort hún var Donna en hún var sannarlega Bella. Og hún brosti alltaf sérstaklega til mín þegar hún gekk fram hjá, auli ég að vera að fara til Ljubljana eftir klukkutíma. Hún er dökkhærð, minnir mig á M. Ég borða og borga, fer inná lestarstöð og leita að stöðum til að klára klinkið mitt. Stelpan sem selur mér kók á minnir mig líka á M. – ég sendi henni skilaboð hvort hún hafi hugsanlega fæðst í Deli lestarstöðinni í Búdapest. En lestin bíður ekki lengur. Ég hef klefan út af fyrir mig, sef hálfa leiðina.

if your clothes are getting weary
and your soul's gone out of style
blame the miracle mile
and the bottom of the ladder
paint your eyes and hide the tatters
what's the matter baby?

. . . I'm coming too.
broke window

loaded tounge and dirty fingers
queen of her mother’s house
come step outside feeling full moon high
let’s see what we can do without


Það er desember í Zlín. Ég er að lesa Prag og fara til Búdapest. Það er fullkomlega rökrétt. Enda gerist Prag í Búdapest. Villta austrinu, þegar kaninn kom, kommúnistabaninn, og ætlaði að siðvæða litlu Ungverjana. Hver er ekki að hlæja núna?
Enda framdi kommúnisminn sjálfsmorð, börnin átu byltinguna. Það sem eftir var af henni, varla magafylli. Svo komu önnur börn, börn sem höfðu ekki haft neina byltingu, enga harðstjórn, ekkert stríð. Hraustleg að sjá en þó vannærð. Leitandi að fyrirheitna landinu. Prag. En enduðu í Búdapest. Lífið er alltaf annars staðar.

fix an eye to the dimestore villain
waiting for the wine to pour
it comes strong and thin and it tastes like sin
the love we’ve all been in before


Þegar einlægni er orðinn leikur. En þau voru fyrst, the expat class of 1990. Þýðir það eitthvað? Líklega, mannkynssagan hjálpaði til. Austur-Evrópa gamla var ennþá til, nú eru Prag og Búdapest við það að verða aftur það sem landafræðin reiknar út – Mið-Evrópa. Ekki mikið öðruvísi en hvert annað velmegunarríki. Lífið er annars staðar – eða kannski fyrr? Þessi ár fyrst eftir að múrin féll, svo ekki sé minnst á árin á undan – eru goðsagnakennd hérna. Það er einhver óljós söknuður eftir þeim, þegar ennþá átti eftir að drepa drekann, þegar ævintýrið var ennþá til staðar. En auðvitað var það ekkert ævintýri – nema kannski þessar fáu vikur sem að múrinn féll. Núna erum við í Happily ever after-skeiðinu. Já, í raunveruleikanum þá er ekki hægt að afgreiða endalokin með einni setningu, drekinn hverfur ekki heldur verður hann bara óljósari, skuggalegri. Við, vesalingarnir að vestan, komum hingað - í drekaleit, í leit af ódýrari skáldamjöð eða í leit að prinsessum til að bjarga. En auðvitað vorum við of sein. Málaliðarnir voru á undan okkur að prinsessunum, hæpið að þær vilji láta bjarga sér mikið lengur. Drekarnir eru full kunnuglegir til þess að við komum höggi á þá. Skáldamjöðurinn er aldrei nema bara mótefni gegn kínversku bölvuninni. Sá sem eyðir viku í Kína skrifar bók, sá sem eyðir mánuði smásögu, sá sem er í hálft ár ljóð og sá sem er í ár nákvæmlega ekki neitt. Drekarnir verða óljósari eftir því sem þú kemst nær, þeir verða kunnuglegri en samt talarðu ekki enn þeirra mál, þú þekkir ekki gott frá illu, þú verður þitt innra dýr, mállaust, einsamalt, reynir að lifa af.

John Price er í borginni sem ég er að fara til, dreymir um borgina sem mig dreymdi einu sinni um. Dreymir stundum enn. Draumurinn samt löngu orðinn raunverulegur. En þó maður sé staddur í ævintýraborginni þá er maður oftast statisti, þú kemst eistöku sinnum í prufu fyrir stærra hlutverk. John Price er svo heppin að vera aðalpersóna. Aðalpersóna Prag án þess að vera í Prag. Prague - the novel. En jafnvel aðalpersónan finnur engan dreka. Einn drekaunga jú, Charles Gabor, sem kennir honum einlægni að drekasið. En svo kemst hann að því að hann er drekinn sjálfur, ókunnugt dýr að reyna að finna sér tilgang í landi mannanna. Tilgangurinn verður að lygum, hreystrið er kaldhæðnin.

a million ways to burn …
I’m just looking out this old broke window
and she’s taking a turn


Horfi á hana út um gluggan. Á barnum, trammnum, restaurantnum. Hún veit vel að galdraþulurnar okkar virka ekki lengur, nú er hún búinn að læra okkar mál þó við kunnum ekki ennþá hennar. Ég njósna um þetta fólk en ég er ekki á vegum neinnar ríkisstjórnar. Bara sjálfs míns með óljósa utanríkisstefnu. Á meðan reiknum við út nostalgíuna – hver saknaði hvers fyrst?

her body lies like a landscape before you
you’re selling your soul by the pound
got snakeoil in spades for the wolftickets trade
you look but you don’t see me around


Við söknum fortíðarinnar, okkar og annara, okkar og heimsins. Framtíðin, gæti virkað en eiginlega of örugg. Fortíðin er öruggari draumur í ósnertanleik sínum. Því það er varasamt að dreyma eitthvað sem gæti hugsanlega gerst. En svo, búmm, gerist það samt. Ég mæti kannski John Price á leiðinni ef hann er einhversstaðar til. Núna leggjum við á brattann, niðrámóti. Enda er heimurinn hnöttur þar sem suðrið snýr niður. Þar er Búdapest, aðeins sunnar. Eitt land á milli eða svo.
Spurning um að maður eigi að skella ferðasögu í loftið? Gjöriði svo vel, tónlistin er í boði Gary Jules sé annað ekki tekið fram. Þetta verður í nokkrum brotum, sjáum til hvort þetta nokkurn tímann klárast.