fimmtudagur, október 31, 2002

Fyrsta sem ég las eftir að ég kom hingað var Fyrirlestur um hamingjuna eftir Guðrúnu Evu.
Þetta sat í mér: “Hún vissi hvað útlend einsemd getur gert fólk undarlegt”

Ég er samt ekki í útlöndum núna. Ég er í stað sem er eingöngu til fyrir sjálfum sér og sjálfum sér nógur, ég er á stað þar sem fólkið lifir fyrir sitt líf, sinn stað og sitt fólk – ég er því ókunnur, ég er á stað þar sem útlönd eru ekki til, eins og vera úr sögubók sem villtist hingað og get ekki tjáð mig á tungu raunveruleikans. Sit hér því aðeins einn og skrifa.
Ég er á stað sem er bæði andstæða mín og örlög mín, stað sem var búin til til að koma upp um mig, halda mér niðri, teygja mig á milli heimsins og sjálfs síns. Teygja mig á milli letinnar og göfginnar, ástarinnar og örlaganna sem láta hvoru tveggja á sér standa, viljans og óttans, heimskunnar og viskunnar, mín og mín.

Já, hún getur gert fólk undarlegt þessi útlenda einsemd.
Ferðasaga með kommum:

Sölden – Vín – Flórens – Róm – Brindisi – Parþos – Aþena – Þessalonikki – Makedónía – Júgóslavía – Makedónía – Þessalónikki – Aþena – Parþos – Brindisi – Róm – Vín – Prag – Berlín- Zürich – Barcelona – París – London – Reykjavík – Akureyri

Brjálæði, puð, matarbakkar, herbergi, Íslendingar, Bosníumenn, snjór, eldhús, skíði, bakkar, fyllerí, ljóshærðir Svíar, Karl, Sarah, José, frænka, fótbolti, martröð, Innsbrück, snjóflóð, mynd, leigubílar, skógarpizzur, sápuópera, ást, lest, ma belle, Slóvakía, bíó, Indland, Lassi, fíll, Bacardi-kók, japanski fáninn, diktafónn, tilviljun, sekt, ljóska, söngkona, hæð, hótel, garður, lest, prestur, rán, hostel, AC Milan, capella sistina, Kólóseum, armband, Nautillus, Þýski bankinn, visa, ganga, Parþeon, ferja, Los Angeles, hún, þau, Malibu, kók, Janis, Jimmy, tónlist, Toscana, vesen, tafir, brjálæðingur, þetta land, fangelsi, passi, vonbrigði, heimska, þreyta, endurkomur, bátur, hungur, lest, lest, nótt, miði, þvottahús, ferðaskrifstofa, McDonalds, hórur, sorg, huggun, Jim Carrol, brautarstöð, Brasilía, múrinn, Bayern, myndavél, byggingasvæði, Dresden, Sláturhús 5, Arsenal, unglingar, klukka, fljót, Pizza Hut hverfur, herbergi, veikindi, herbergi, veikindi, sjálfsmynd, göngugata, Evrópusigur, ljótar hórur, hommar, bekkur, Kólumbus, La Rambla, hliðargötur, heimsendi, sól, brautarstöð, Montpellier, þau, Louvre, stúlka á Sein, Sein, Eifel, hjólaskautar, hallandi gata, næturklúbbur, kaffihús, dýna, leit, þreyta, franska, Jimmy Stewart, einræktun, Shakespeare & co., köttur, kort, rúta, Leicester Square, Piccadilly Circus, Virginia, Sly, Auður, Gatorate, blindgata, æskan, tvöfaldur strætó, ljóð, kleinuhringir, taxi, tube, föt, lok, Herkúles, Flugleiðir, mamma, pabbi, Gígja, Sigga, Hard Rock, sláttur
Danstímar fyrir eldra fólk

Sumir voru að kvarta yfir því á kommentunum (sem lesendur eru alltof latir við að nota) um daginn að það væri vöntun á greinaskilum í einni færslu. Það var svo sem sökum tæknilegra örðugleika. En það væri vissulega freystandi að lána viðkomandi nóvellu Hrabals, Dancing Lessons for the Advanced in Age, sem ég las um helgina. Bókin er ein setning – bara dálítið löng setning, rétt 100 síður. Margar kommur, einstaka spurningamerki en enginn einasti punktur. Þetta er náttúrulega glæsilegt ull-á-ykkur á alla sérskipaða stílista sem fullyrða að stuttar setningar séu forsenda góðs stíls. Og gengur þetta upp? Hrabal er náttúrulega alltaf skemmtilegur, en nei, ekki alveg. Kannski ef þetta væri styttra, kannski ef þetta væri á íslensku – það skiptir mig venjulega ekki miklu máli hvort bók er á íslensku eða ensku en ég hugsa að í tilfelli eins og þessu þá telji þessi aukaprósent sem móðurmálið hefur. Maður heldur frekar athyglinni.
Svo minnti þetta mig á Ferðasögu með kommum sem ég skrifaði þegar ég nennti ómögulega að hlusta á einhvern kennarann í tíma hér um árið, ég er að hugsa um að kalla þetta nýja listform kommuljóð – eða kommuörsögu? Anyways, þetta er merkilega effektív leið til að rifja hluti upp (ætti að prófa að endurtaka hana einhverntímann), þú ert ekkert að velta þér upp úr lýsingarorðunum, bera hluti saman og ákveða hvort þetta var mikið eða lítið, erfitt eða auðvelt o.s.frv., þetta er einfaldlega það sem gerðist án allra málalenginga. Og ég man alla ferðina (sem er sem sagt vinna einn vetur í Austurríki 97-8 og svo flakk um Evrópu eftir það) við að lesa þetta, spurning hvort aðrir fái einhvern botn í þetta? Látum á það reyna með því að birta þetta hérna á eftir (eða fyrir ofan, þetta bloggsystem getur verið frekar öfugsnúið þegar þú gerir eina færslu í beinu framhaldi af annari).
Annars er náttúrulega til skammar að bókmenntafræðinemi eins og ég sé ekki með skárri bókmenntaumfjöllun hérna – það skýrðist í sumar af fádæma lestrarleti en ég hef ekki þá afsökun lengur. Þannig að er ekki spurning um að rifja þetta upp? Ég ætla samt ekki að fara aftur og byrja á Selinum Snorra eða hverju það var sem ég las fyrst (ég man aftur á móti að Doppuhundarnir var fyrsta bíómyndin sem ég sá, næst var það annaðhvort leiðindin Little Lord Fauntlery eða snilldin Black Stallion), ég sleppi Ármanni við samkeppni í minningarbrotunum. Ég fæ nostalgíuköst, (sjá fyrri hluta ágúst) þess á milli er ég ágætur. Tek bara það sem ég hef lesið síðan ég flúði klakann. En fyrst, ferðasaga með kommum.

þriðjudagur, október 29, 2002

Já, svo er að sjálfsögðu rétt að minnast á að ég hundskaðist loksins til að setja slatta af póstkortum í póst. Sem þýðir að ég get farið að væla í vinum og vandamönnum um að skrifa mér með góða samvisku. Og ef þú ætlar þér að sleppa með því að þykjast ekki vita heimilisfangið þá ertu búinn að lesa of langt!

Ásgeir H Ingólfsson
c/o Zuzaníkova
Želechovice 596
763 11
Czech Republic
Kiljan vann kannski nóbelinn – en ólíkt honum hefur mér tekist að bjóða upp á eðaldrykkinn Beckerovka á Íslandi. Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég fann loks þann merka grip Becherovkubjórmottu – sem mun ásamt fleirum verða bætt í stórglæsilegt bjórmottusafn mitt þegar heim kemur. Og svo er náttúrulega nægur tími enn fyrir nóbela, ég er ekki alveg búinn að ákveða hvort ég einbeiti mér að frið eða bókmenntum – eða kannski skrái ég mig bara í eðlisfræði þegar ég kem heim?

Úr heimsókn HKL til Tékkóslóvakíu þáverandi – ég man því miður ekki úr hvaða skruddu ég stal þessum texta og Þjóðarbókhlaðan ansi langt í burtu …

Tékknesk ætt hefur í hundrað og fimtíu ár tilbúið einhvern mesta drykk sem sögur fara af, og nefnist bekkerófka, grænn eins og meðal. Þetta er lífdrykkur. Hann er kryddaður með barkarsafa og kjarna ýmisra villijurta og rennur gegnum tuttugu og níu keröld, og sérstakur keimur í hverju keraldi, uns hann er fullsoðinn.

… og annan eins drykk hef ég aldrei vitað, hann var eins og sambland af apóteki og vínkjallara, sólheitri lýngbrekku og jarðhúsi; og á eftir voru okkur sýnd öll keröldin. Síðan gáfu þeir okkur gestum sína flöskuna hverjum í nestið. Ég hlakkaði til að verða fyrstur manna að innleiða drykk þenna á Íslandi og skildi ekki flöskuna við mig, brottfararmorguninn hafði ég hana í regnkápunni sem ég bar á handleggnum. En þegar ég var að kveðja vini mína fyrir utan flugstöðina í Pröhu datt flaskan úr regnkápuvasanum og heyrðist brothljóð, og ég leit niður og sá hvar metallinn græni flóði útfyrir steinstéttina.
Handbók um lífið

Keypti nokkrar bækur til að hafa með mér til Zlín. Þar á meðal Life: A Users Manual. Þá fer ég kannski loksins að læra eitthvað á þetta helvíti.
Fór á Slavia kaffihúsið síðasta kvöldið í Prag. Eitt sinn sá staður sem almúginn fór til að sjá fræga fólkið og fræga fólkið fór til að mingla við almúgann. Já, þetta er líklega sögufrægasta kaffihús Prag. Núna? Glæsilegt kaffihús svosem en lítil Pragstemmning, eiginlega er hálfgerður Habsborgarafílingur á þessu (t.d. er matseðilinn á tékknesku og þýsku frekar en tékknesku og ensku). Varla neitt fyrirfólk hérna, mest miðstétt sýnist mér, vænsta fólk á að líta ef undanskilinn er háværi náunginn með Hitler-hárgreiðsluna.
En eitt sinn borðuðu Masaryk og Èapek hér og gvuðmávita hverjir aðrir. En sú stemmning er löngu horfin, draugarnir skemmta annars staðar nú.
Jæja, þá er loksins komin þriðjudagur. Svona þriggja daga helgar eru pirrandi þegar maður er hvort eð er ekki að vinna 9-5, þá er einfaldlega allt lokað aðeins lengur. Ekki það að það skipti miklu máli í Prag þar sem alltaf er hægt að finna búð / pöbb / veitingastað sem er opinn alla daga, en snillingurinn ég ákvað að koma sér aftur til Zlín akkúrat á föstudeginum. Svo var náttúrulega frídagur á mánudeginum því það var verið að fagna stofnun Tékkóslóvakíu – ekki það að þeir nenni að púkka mikið upp á það land lengur! En hér koma smá færslur sem voru punktaðar niður í Prag, lítið gerst hjá mér síðan, helst fréttir af klakanum, Monika búinn að eignast fugl og Auður systir bíl. Lítinn grænan Nissan micra – bíllinn ef einhver var ekki viss – sem er víst ósköp sætur – bíllinn aftur. Já, og hann heitir Charlie – fuglinn sko. Og bíllinn líka, en bara annar bíll. Svo má ekki gleyma góðvini mínum Charlie Carter, Karli mikla, Kalla Bjarna (Ástralanum félaga mínum úr Týrólaölpunum, ekki Snoopy-eigandanum nafna hans), hmm, er þetta orðið svolítið flókin nafnfræði? Best að láta gott heita í bili, henda síðustu Prag-færslunum í bili í ykkur og fara svo og finna mér eitthvað gott að borða.

fimmtudagur, október 24, 2002

Perla Prag og andvaka Pacino

Sunnudagskvöldið var svo matur og bíó með sjálfum mér. Tveim dögum áður hafði ég borðað góðan mat á dýrasta veitingahúsi Prag. Það jafnast þó engan vegin á við himnasæluna sem hægt er að kaupa sér á Uglunni (U Savoy), hinni sönnu perlu Prag. Kjúklingamixtúra Alfredos í uppáhaldi (kjúlli vafin pönnukökustrimlum og rjómasósu) en þeir gætu gert þriggja ára gamla brauðsneið að sælkeramat með öllum sínum galdrasósum. Lítill staður, 5 mínútur frá aðalgötunni, ennþá blessunarlega óuppgötvaður. En miðað að maður heyrir orðið íslenskar raddir á götunni hér upp á hvern dag er ég kannski að skemma það. Ætlaði svosem alltaf að kynna FS-liðið fyrir þessum stað en það varð aldrei neitt úr því.

Þá var haldið á andvöku meistara Nolans. Insomnia er líklega einhver albest tekna bíómynd sem ég hef séð. Ég hef séð fjölmarga staði sem ég hef heimsótt, galdrastaði marga, verða að hversdagslegum leiðindum í meðförum mishæfileikamikilla kvikmyndatökumanna. En Alaska Nolans hafði sömu áhrif á mig og Vín Linklaters fyrir margt löngu – þangað langar mig. (Kannski kaldhæðni örlaganna að sjá svo Ethan Hawke í Gattaca þrem dögum seinna á DVD hjá Leos). Jú, og þó sir Al sé oftast traustur þá eru áratugir síðan hann var síðast jafn stórkostlegur og hér. En þrátt fyrir stórskotahríðina frá Pacino, Robin Williams og Hillary Swank þá er það gengilbeinan Maura Tierney (Abby úr Bráðavaktinni) sem á setningu myndarinnar: "There are two kinds of people in Alaska: those who were born here and those who come here to escape something. I wasn't born here." Eitthvað sem á alveg jafn vel við í Prag, Akureyri, Reykjavík og Zlín sem og Alaska.
Heimsókn Bóksölugengis

- og fleiri góðs fólks

Hitti Nönnu, Hörpu, Maríu, Auði, Kalla og Döggu fyrir framan klukkuna, tók þau með mér á steikhús skammt frá áður en við kíktum á brúðuleikhúsútgáfuna af Don Giovanni, domestic violence a la Mozart.

Daginn eftir var svo árshátíðin mikla, Perle de la Prague, aka Ginger & Fred, skitsófrenisk nýbygging í ævafornri húsalengju. Eftir smá fjölskylduerjur um hver skyldi sitja hvar þá fengum við rándýran mat sem við þurftum ekki að borga fyrir – og Harpa skuldar mér súkkulaði þegar ég kem heim! Miðað við hvað ég er venjulega blankur þegar ég kem heim að loknum utanförum verð ég líklega að treina það út maí …
Dró svo helstu snillingana á kjallaraknæpu rétt hjá Vaclavska namnestí áður en haldið var heim.

Á laugardaginn var svo haldið á sýningu Svartljósaleikhússins á Faust, algjört brill og orðið lovebirds fékk nýja og bókstaflega merkingu. Þá má ekki gleyma djöfullegu og sprenghlægilegu mörgæsunum og gullfallegu stúlkunni sem frelsar Faust. Eftir það voru kokteilar á Don Giovanni, ég hélt mig við klassíkina og pantaði Casablanca, svo bjór. Þá var haldið á Skandalinn (eftir viðkomu á Radegastinum eina sanna sem var að loka), þar var meiri bjór og ég varð náttúrulega að sýna smá lit og sjússa eitt Absint-skot. Sirkabát mínútu seinna finnurðu fyrir smá bruna í maganum.
Eftir þetta var haldið á hótelbarinn þar sem ætlunin var að fá sér Grashopper. En það var greinilega vinsæl hugmynd þetta kvöldið og þegar kemur að mér er piparmyntulíkjörinn nýbúinn. Þannig að minn ákveður að föndra smá og út úr misskilningi okkar bardömunnar varð til eðaldrykkurinn Súkkulaðikaka (© Ásgeir H Ingólfsson) – Kakólíkjör, Baileys og Sambucca – í jölnum hlutföllum. Bardaman dáðist svo að mér að hún gaf mér annan stuttu seinna. Fljótlega fóru svo Nanna og María að hugsa sér til svefns og ég kvaddi þær við lyftuna.
Ég aftur á móti nennti varla að dröslast heim strax – enda gisti ég hinum megin í Prag. Þar að auki var ég gripinn skyndilegri nostalgíu eftir gamla neighbourhoodinu mínu, Žižkov. Nostalgíu eftir dansandi Slóvökum, Pakistönskum barþjónum, ísjakahlaupi til að forðast hundaskít, trúðnum og skáldinu, hinni einu sönnu Borijova-götu, tegötunni minni, sjónvarpsturninum … og Palac Akropolis. Einhvernvegin æxlaðist það þannig að ég dró Pálma, Völu dóttir Oddu heitinnar Lundarskólakennara og einhvern hrekklausan Ísraela í þetta vafasama mekka Pragverskrar jaðarmenningar. Eftir að einhver Íradjöfull dreifði takmarkaðri athygli minni frá hössli sem var að ganga alveg ágætlega (hjá henni sko, ég var orðinn alltof skakkur til að hössla mikið) þá var mig eiginlega farið að langa heim í bælið - en bölvuð ábyrgðartilfinningin er alltaf söm við sig hversu skakkur sem ég verð þannig að ég bíð eftir að Palms, Vals og Ísraels séu búinn að dansa nægju sína. Enda ekki alveg staðurinn til að skilja grunlausa græningja eftir í Prag. Eignast góðan vin meðan ég bíð, góðan mann úr Jesseníkí-fjöllunum sem er mjög glaður að heyra að ég hafi eitt þremur ljúfum dögum og einum óendanlega súrealískum degi á þeim slóðum.
Undir morgun var svo loks kominn tími á heimferð, ég uppfyllti loforð eimitt við mann sem ég kann ekki að nefna og skilaði þríeykinu heim, svo skilaði ég sjálfum mér heim þó ég hefði engu lofað þar um.

föstudagur, október 18, 2002

Heyrst hefur að stór angi skæruliðahópsins FS hafi hernumið stóran hluta Prag. Tékkneska lögreglan er í viðbragðsstöðu og hefur lokað flestum neðanjarðarlestum til að tefja fyrir innrásarhernum. Ýmislegt er á huldu um starfsemi þessa FS hóps en staðfestar fréttir herma þó að meðal skuggaverka sem hann hefur staðið fyrir sé sala áróðursrita, kaffisölu og "atvinnumidstöð." Einnig ku þau standa fyrir búðum þar sem framtíðarmeðlimir eru aldir upp. Talið er víst að hópurinn hafi haft útsendara í Tékklandi til að undirbúa innrásina. Annars er nú bara gaman ad fá þessar elskur!

miðvikudagur, október 16, 2002

Komst að því að diskóið sem nafnlausi lesandinn spurði um heitir Karlovy Lazne og undir stendur að þetta sé stærsti tónlistarklúbbur í Mið-Evrópu. Þjóðverjar varla sáttir við það. En þegar ég var hálfnaður að hripa nafnið niður þá fór rafmagnið af ljósaskiltinu sem og öllu nágrenni Karlsbrúar. Jamm, það er eitthvað mjög dularfullt samband á milli mín, Karlsbrúarinnar og rafmagns.

þriðjudagur, október 15, 2002

Var að komast að því að ég sé svo frægur að skrifa dálk á annarri heimasíðu en minni. Spurning hvort maður fari að vanda sig núna þegar maður sendir sms? Annars finnst mér eiginlega að ég ætti að heimta greiðslu fyrir þessa birtingu ... Annars er ég enn að velta fyrir mér hvernig Gneistinn hefur farið að því að misskilja Bróðir minn Ljónshjarta svona, sjáum til hvort hann tjái sig eitthvað um það ...

p.s. já og er einhver spurning að það ber að reka Atla sem landsliðsþjálfara? Fá Guðjón aftur helst, að minnsta kosti einhvern sem velur ekki menn að því að virðist því þeir séu synir síðasta þjálfara.

föstudagur, október 11, 2002

Uppáhaldsorð Kristjáns Ólafssonar, neytendafrömuðar, porno dog, hefur svo sannarlega gengið í endurnýjun lífdaga í litlu fjallaíbúðinni minni. Ekki nóg með að einu ummerkin um fyrrverandi leigjendur séu tvö dagatöl af fáklæddum konum (1999 og 2002 fyrir þá sem hafa áhuga) heldur komst ég af óvæntum tengslum þessara dagatala kennd við hot girls og mat þeim sem kallast á ensku hot dog. Ég komst ekki í búð og það eina ætilega í kotinu voru þrjár pylsur og eitthvað af brauði. Ég lýt á merkimiðann á pylsunum og mér til furðu kallast þessar pylsur stripptís. Jú, það er líka mynd af fagurleggjuðum, þrýstnum og afar fáklæddum kvenmönnum utan á hverri einustu pylsu. Fyrst tekur þú þær úr pakkningunum og svo þarftu að taka glært plastið með kvenmyndunum utan af pylsunum. Ég er varla búinn að vera hérna nógu lengi til að fara að fá ofskynjanir, best samt að vera ekkert að rifja Shining neitt upp …
Skógarferð

Þegar Majka keyrir mig í íbúðina sem hún var búinn að útvega mér þá villist hún aðeins og mér verður ekki um sel. Ef hún villist hvað um mig? Eftir að hafa eytt kvöldinu í að koma mér fyrir og morgninum í langþráðan svefn þá ákveð ég að kynna mér svæðið. Þetta er giska þétt fjallabyggð þar sem kræklóttir vegirnir liggja út um alla hlíð innan um óteljandi tré. Ég vanda mig mikið við að leggja leiðina til baka á minnið og enda á að fara eina þrjá til fjóra kílómetra frá nýju heimkynunum. Ég geng fram hjá öldruðum manni í bláum vinnugalla sem leiðir hjól með vinstri hendi. Í þeirri hægri heldur hann á vandlega brýndum ljá. Þegar ég geng svo fram hjá ketti sem liggur í vegarkantinum, blóðugur og höfuðlaus, ákveð ég að það væri réttast að snúa við. Og ég er kominn nærri því alla leið þegar ég tek loks vitlausa beygju. Efst í götunni sé ég að húsið sem ég bý nú í er hinum megin við húsið sem ég stend fyrir framan. En það er tennisvöllur á milli, þar fyrir ofan rammgirtur garður með einhverjum nytjajurtum. Þannig að ég ákveð að í stað þess að bakka, sem hefði skilað mér nokkuð örugglega heim, þá sé spurning að stytta sér leið gegnum runnastóðið fyrir ofan áðurnefnda girðingu. Eftir að hafa komist lítillega áleiðis þar í gegn þá sá ég að ég komist ekki mikið lengra óskaddaður því mest eru þetta þyrnirunnar sem þarna eru í vegi mínum. Fer aðeins ofar þar sem meira er um tré og minna um þyrnirunna og reyni að komast þar. Og asnast auðvitað lengra og lengra inní skóginn í von um að finna útgönguleið. Ég kemst loksins út eftir ansi langt labb en kannast þá náttúrulega ekkert við mig. Þessi skógur svíkur öll eðlisfræðilögmál, það virðist sem ég hafi farið fram hjá húsinu og sé kominn eitthvert langt fyrir neðan það. Ég ákveð að það sé best að leita að aðalbrautinni sem er ansi stór, breið og áberandi og legg af stað í vitlausa átt. Eftir svona klukkutíma labb þá er ég orðinn sannfærður um að sú braut sé hvergi nærri og sný því við. Geng sömu leið til baka með örlitlum útúrdúrum og vissulega reynist fyrsti afleggjarinn upp að húsinu mínu vera aðeins um 200 metra frá þeim stað sem ég kom út úr skóginum – í hina áttina. Þramma svo upp þessa bröttu brekku sem gefur Spítalastígnum heima á Akureyri ekkert eftir og kemst loksins í öruggt skjól, húsbóndinn spyr mig þegar ég kem heim hvort ég hafi verið í labbitúr. Ég jánka en kann ekki orðin fyrir nánari lýsingu enn.

Matur með mömmu

Ég mæti loks til Zlín klukkan sjö um morgunin og Majka nær í mig á brautarstöðina. Hún segist vera á leiðinni í mat til móður sinnar, ég væri vissulega boðinn með en gæti sofið til hádegis fyrst. Eftir að hafa eldað ofan í mig eitthvað grunsamlegt og hrikalega gott eggja- og beikongums þá flýtir hún för sinni til tíu þannig að ég stekk í bað, kasta kveðju á Klöru dóttur Majku sem var að vakna og reyni að sofna sem fyrst til að ná mínum tveim tímum.Vakna svo korter í tíu, út í bíl og þaðan til Otrekovice. Þegar við komum er neyðarástand, elsti strákurinn af þremur á aldrinum 7-12 er með stærðarinnar gat á hausnum og þarf til læknis. Ég villist inní eldhús, er þar umkringdur konum sem skipa mér að setjast þegar ég leita mér að einhverju til að hjálpa til með við eldamennskuna. Kíki stuttu seinna út fyrir eldhúsið þar sem kamarinn er. Þar eru hundur, köttur, hænsn og svanir í góðu samlæti. Kisi einn sá liðugasti sem ég hef lengi séð og klifrar eins og óður sé. Klósettið er eins og áður segir þarna en baðherbergið og vaskurinn þar með talinn er hinum megin í húsinu. Þetta virðist sértékkneskur siður og þó hann sé skiljanlegur frá frumspekilegum forsendum, saur í einu herbergi og hreinsun í öðru, þá er þetta ekki alveg að virka í praksís. Hver þarf að þvo hendurnar í vask þegar maður er á leiðinni úr eða í bað? Fólk tekur að streyma að, húsmóðirinn er sannkölluð Babitschka, amma aftan úr fornöld og frammí fingurgóma í lopasokkunum sínum, blómakjólnum, tannlausa brosinu og skeggtægjunum í andlitinu. Svo getur hún líka dansað og eldað eins og vindurinn. Majka er eina dóttirinn en synirnir eru sex, þar við bætast svo afkvæmi og eiginkonur. Majka talar ryðgaða íslensku og X, strákur um tvítugt ensku, þess utan þarf ég að bjarga mér á þessum fáu orðum sem ég kann í tékknesku. Sjaldan eða aldrei hafa jafnmargir brandarar verið sagðir um vitlausan Íslending heldur en þennan haustdag í Móravíu.
Um hádegi er komið að matnum en fyrst spyr Jirka hvort ég sé ekki örugglega 21 árs. Fyrst verð ég afar glaður að hann dragi fimm ár frá í ágiskun sinni en átta mig svo á að hann er að fullvissa sig um að það sé óhætt að bjóða mér í glas. Slavneski elddrykkurinn Slivovice, heimabruggaður að sjálfsögðu er svo skenkt í tvö glös og við Jirka skálum. Ég kemst fljótlega af því að það þýðir lítið að neita og nokkrum heimatilbúnum bjórum og slivovicum síðar, svo ekki sé minnst á ósköpin öll af mistorkennilegum mat förum við nokkur út og tökum þátt í skrúðgöngu. Ég er svona rétt að átta mig á því að það er hátíðisdagur í þorpinu og því er slegið saman við nýliðið fertugsafmæli Jirka. Sem þýðir að fullorðnir karlmenn fá útrás til að skrýðast litskrúðugum klæðum, blása í lúðra og reka upp mórövsk jóðl þess á milli. Það gengur fólk á milli og bíður manni upp á sælgæti og slivovice og manni verður óneitanlega hugsað til þess að það sé eitthvað sem vanti á 17. júní hér heima. Þegar heim er komið þá gef ég Jakubi litla sýnikennslu í kitli áður en ég fæ mér hænublund við undirleik gamlingjanna sem syngja sama tékkneska þjóðlagið svona um það bil þrjátíu sinnum í röð og losna þar með við öll sín afkvæmi úr borðsalnum. Eftir klukkustundarkríu sé ég að það er farið að svífa á mannskapinn, ég fer með X í bjórherbergið, við skenkjum bjór (sem er seinlegt því það er engin súrefnisdæla á kútnum og froðan því mikil). Hann er einlægur aðdáandi Azerbædjanna í System of a Down og segir mér frá einni útihátíð í héraðinu sem stendur í þrjá daga og dregur að sér 100 þúsund manns þar sem bjórdrykkja per haus er 100 bjórar yfir hátíðina. Og það eru náttúrulega börn meðferðis sem lækka meðaltalið. Mér íslendingnum finnst eiginlega merkilegt að fólk sé að draga börnin sín með sér á svona hátíðir en það er svo sem ekki eins og börnin séu ekki að njóta sín ágætlega hér á meðan við fullorðna fólkið sötrum bjór, léttvín og slivovice. Síðan er meira etið, eftir kvöldmatinn hamast ég með stráklingunum þremur smávegis og horfi með þeim á tékkneskan fótbolta í sjónvarpinu en fer svo inní matsalinn þar sem gamlingjarnir bíða. Þau segjast glöð að sjá mig. Svo hefst yfirheyrslan. “Hvað ertu að gera í Tékklandi?” Ég muldra eitthvað um lágt verðlag og fallegt land, S hjálpar mér með að minnast á fallegt kvenfólk en samt sýnist mér þau skilja lítið í vitleysunni í mér. Svo kemur öllu erfiðari spurning: “Um hvað er bókin þín?” Ég hafði að mestu sloppið við þessa spurningu heima á klakanum, nóg að segjast bara vera að fara að skrifa eitthvað, stundum lét ég uppi að þar á meðal væri skáldsaga en það dugði oftast. En hérna skiptir víst einhverju máli um hvað blessuð sagan skuli vera. Fjandinn. Ég reyni að útskýra grunnhugmyndina og pælinguna þar á bak við í gegnum túlkinn minn en amman er harður gagnrýnandi og sleppir mér ekki fyrr en hún er búinn að fullvissa sig um það hvernig ég hafi forsendur og reynslu til að skrifa um hitt og þetta, græningi eins og ég náttúrulega er. Tekst þó loks að sannfæra kelluna um að ég viti eitthvað hvað ég er að gera og við tekur meiri tékknesk þjóðlagatónlist um það leiti sem síðasti bróðirinn, prestur í anda Rowan Atkinson, kemur í hús. Nokkrir þjóðdansar eru stignir og íturvaxnasti bróðirinn og amman sýnu flinkust þar. Síðan um ellefuleytið fer Majka að hugsa sér til heimferðar að mér sýnist, hún dregur okkur Klöru með sér en ekki í átt að bílnum heldur að næsta húsi sem er einmitt samkvæmissalur bæjarbúa og nú skal dansað. Ég er yfirheyrður nokkrum sinnum í viðbót og nú er líkast til hálf Otrokovice að bíða spennt eftir að dularfulli Íslendingurinn fari nú að klára bókina sína. En heimasæturnar eru fríðar og kvöldið ungt, það endar um þrjú og fólk sefur á beddum víðsvegar um húsið. Jakubi vekur mig um morguninn og fyrsta sem ég heyri þegar ég kem fram í eldhús er einn bróðirinn að bjóða mér bjór eða slivovice. Ég er ekki alveg að höndla það í morgunsárið og fljótlega er liðið komið í kaffi þannig að ég sé fram á að lifa daginn af, ég var farinn að hafa áhyggjur af því hvort ég hefði úthald í þetta allt saman. Um þrjúleytið kveðjum við, strákarnir þrír fylgja okkur úr hlaði og veifa á meðan ég er að gera mér grein fyrir því að veturinn minn í Prag hafði takmarkað með hið raunverulega Tékkland að gera. Spurning hvort höfuðborgir ríkja séu ekki oft aðallega sparihliðin, öfgarnar, raunveruleikinn er einhversstaðar á bak við – og þar talar engin ensku.


Tad vantar einhver nofn, teim verdur baett vid sidar
Leiðin til Zlín

– eða margfalt déjà vu raðferðalangs

i

Byrja föstudaginn á því að vakna klukkan tíu og ákveða eftir svefnlausar nætur fram að þeirri sem var að líða geti ég nú sofið korteri lengur. Átta korterum seinna fer ég svo á lappir. Leos gestgjafi minn kemur heim stuttu seinna og við skoðum lestarferðir til Zlín. Mér lýst best á að fara kl. 17:05, sú fer beint til Zlín milliliðalaust auk þess að gefa mér tíma til að skoða mig aðeins um í borginni minni. Þannig að ég hringi á leigubíl (aldrei taka taxa í Prag nema að hringja til að forðast ótímabær gjaldþrot) til að dröslast með dótið mitt í geymslu á Hlavní nadrazí (aðallestarstöðinni). Ég er eins og lög gera ráð fyrir með mjög mikinn farangur enda búslóð næstu 4 mánuða meðferðis. Fer svo og borða bestu franskar lífs míns. Var búinn með fjórar þegar í ljós kom að þetta var ekki minn skammtur enda höfðu franskarnar komið skemmtilega á óvart – hitt hafði þó passað alveg við minningu mína af matseðlinum. Maturinn sem ég fékk loks var svo einhver sá besti sem ég hef fengið í marga mánuði en vissulega voru vonbrigði að sjá eftir frönskunum góðu. Svo heimsótti ég gamlar minningar eins og Karlsbrúna, skólann minn og internetkaffið mitt sem var illu heilli horfið.
Metro-kerfið er enn lamað eftir flóðin en ég sé ekki betur en að trammarnir séu í góðu standi – þangað til ég kem að stoppistöðinni þar sem ég ætla að taka tram til Hlavní nadrazí – þar er allt niðri. Þannig að þá eru bara tveir jafnfljótir á lestarstöðina, næ í dótið mitt í geymslu og fer eins hratt og annars er hægt með 40-50 kíló af farangri að brautarpallinum. Kem þangað 17:06, lestin farin. En það ætti ekki að vera ástæða til að örvænta, það er önnur lest klukkutíma síðar sem er ekki nema rúma fjóra tíma á leiðinni þó ég þurfi að skipta um lest í Olomouc. Klefinn minn er fullur, þar á meðal er lítill jakkafatakall sem reynist síðan vera algjör hetja. Kem loks til Olomouc um tíuleytið, það er ekki hægt að taka dótið í einni umferð eftir lestargöngunum sökum þrengsla (það er að vísu varla hægt án þeirra) þannig að ég fer með hina pokana út og svo kemur áðurnefndur jakkafatakarl og biðst til að hjálpa mér. Hann kemur svo með hlunkinn minn rauða rétt eftir að ég er búinn að setja restina á brautarpallinn – ef hans hefði ekki notið við hefði ég orðið eftir annaðhvort á brautarpallinum eða í lestinni – og helmingurinn af farangrinum mínum á hinum staðnum – því að lestarstjóranum lá mikið á að fara af stað.
Fer svo og spyr næsta lestarvörð á hvaða brautarpalli lestin til Zlín fari. Hann hleypur með mig að næsta brottfararspjaldi og útskýrir fyrir mér á blöndu af tékknesku og þýsku að hún fari klukkan 22:30 frá brautarpalli 2. Ég fer þangað en einum tíu mínútum síðar kemur sami lestarvörður með útprentun og útskýrir fyrir mér óðamála að lestin til Zlín fari víst ekki alveg svona snemma. Við dröslum farangrinum í biðsalinn, ég skoða útprentunina betur. Jú, fyrst er það lest til Pøerov sem leggur af stað 2:07 og kemur þangað 2:23. Þar þarf ég að taka lest til Otrokovice sem fer klukkan 3:43 og kemur 4:07. Þá þarf ég að bíða til 4:56 en þá get ég loks tekið lest til Zlín sem ætti að verða komin 5:09. Þetta er ekki nema 61 km. En þökk sé tékkneska eimreiðarfélaginu mun ég þurfa að bíða 7 tíma með að komast þangað. Ég fer að eina opna afgreiðslubásnum en græði lítið á því þar sem konan þar talar hvorki staf í ensku né þýsku eins og viðeigandi er í hennar starfsgrein. Hér sit ég því biðstofunni í Olomouc og hripa þetta niður milli þess sem ég dáist af veggjaskreytingunum, gluggunum og loftinu. Lofthæðin er rétt yfir tíu metrum sýnist mér og allt sem er þrjá metra fyrir ofan jörðu eða meira er hreinræktað listaverk. Fyrir neðan lifir kommúnisminn enn mjög góðu lífi.

ii

Þetta er það sem ég er umkringdur núna:

Á vinstri hönd er hermaður í brúnum og grænum felubúningi. Á hægri hönd er gömul kona með grænnan innkaupapoka sem styður hendi við höfuð á milli þess sem hún talar reglulega við sjálfa sig. Hendin sem höfuðið hvílir á skelfur. Fyrir framan mig er svíalegur maður að berjast vonlausri baráttu við kaffisjálfsala. Bak við mig er eldri maður sofandi í málningargalla úr plasti og með alpahúfu á höfði. Í fjarska öskrar einhver.

Lestarstöð í Olomouc, eitt að nóttu.

iii

Áðurnefnd kona með grænan innkaupapoka er vissulega að stalka mig. Sest alltaf niður við hliðina á mér öðrum hvorum megin á milli þess að hún hverfur eitthvað. Þess ber að geta að sjalið hennar og inniskórnir eru grænir í stíl við innkaupapokann. Kannski átti hún vestur-Evrópskan kærasta sem svipaði til mín fyrir 35 árum. Hann ætlaði að sækja hana hingað á lestarstöðina og fara með hana í alsnægtirnar hinum megin járntjalds. En vorið varð að hausti og hann varð frá að hverfa þegar skriðdrekar Brézhnevs réðust inn. Síðan hefur hún eilíft gengið um lestarstöðina og beðið eftir honum.

iv

Ég fór auðvitað í vitlausa lest. Hún var eina lestin á brautarpalli 2, það var engin önnur lest samkvæmt upplýsingaskjánum í biðsalnum fyrr en eftir 3 (þetta er skömmu eftir tvö) og hún heitir nákvæmlega það sama. En nei, auðvitað er hún að fara í hina áttina. Sem betur fer var Hollendingur sem gat talað ensku og tékknesku í klefa með mér þegar lestarvörðurinn upplýsti mig um þetta. Ég hefði svosem skilið lestarvörðin án hans og leiðbeiningarnar sem hann gaf mér var ekkert sem ég ekki vissi. En það var ótrúlega róandi að skilja fullkomlega það sem einhver var að segja. Auðvitað er næsta stoppistöð, Ceske Trebelne, í rúmlega klukkutíma fjarlægð þannig að ég fjarlægist áfangastað minn hratt og örugglega. Þegar þangað er komið bendir lestarvörðurinn mér á lestina til baka til Olomouc. Ég rétt næ í hana og sá að það var maður í anddyrinu, sofandi á bakpokanum sínum. Það voru fleiri á ganginum þannig að annaðhvort var var allt fullt eða svona agalega vond lykt í klefunum? Þannig að ég tek mér stöðu við hliðina á Þyrnirós, enda ágætt með allt mitt hafurtask að geta verið snöggur út. Nokkru seinna vaknar kauði og virðist þurfa á klósett. Það er við hliðina á honum en harðlæst. Hann reynir að komast í næsta vagn en eftir baráttu við þær dyr endar minn á að fara hinum megin í vagninn, kemur svo og nær í töskuna sína og fær sér blund við hlið félaga síns. Ég þakka þvagblöðrunni á mér innilega fyrir að vera til friðs. Ég stend þarna svo næsta klukkutímann, kemst að því mér til ómældrar ánægju að þessi lest tekur mig alla leið til Pøerov. Þar hleyp ég í afgreiðslunna, töskurnar í vörslu manns sem ég skildi ekkert í frekar en hann í mér, og fæ upplýsingar um stystu leið til Zlín. Sem er klukkan 6:04 og kemur til Otrokovice klukkan 6:42 – þaðan tek ég lest til Zlín klukkan 6:45 – sem þýðir að ég mun hafa 3 mínútur til að finna hvaðan sú lest fer. Ég næ í dótið sem ég þarf að færa um þrjá brautarpalla, ég kúgast á leiðinni því ég er allur að þorna upp en sem betur fer er vatnskrani úti á pallinum. Vatnið er hreinn viðbjóður en bjargar engu að síður lífi mínu. Auk þess sem ég næ að halda öllum miðdegisverðinum niðri. Nú er ég í lest til Okronouc og það er byrjað að daga, ég lifði a.m.k. þessa nótt af.

v

Það hefur engin reynt að ræna mig ennþá þó að með fötunum sem ég er í þá er ég lágmark 200 þúsund kalls virði. Þetta er eitt af því sem ég hef eytt tímanum í að reikna út þessa nóttina því af honum hef ég haft nóg. Það er líka gott að vita að maður er einhvers virði þó maður upplifi sig vissulega sem algjöran hálfvita í svona aðstöðu. Einnig hef ég eytt töluverðum tíma í að stara á skóna mína því þeir eru í hrópandi ósamræmi við niðurnísluna sem þeir eru umkringdir. Líka sem lukkugrip, svona góðir skór hljóta að lokum að komast til skóbæjarins mikla Zlín. Vona að ég verði í þeim ennþá þá.
Nei, nei, fann almennilegt pleis loksins þegar ég labbaði inní tölvubúð sem er víst líka netkaffi. Og hér er diskettudrif í lagi þannig að gjöriði svo vel, þetta verður langt ...

miðvikudagur, október 02, 2002

Netkaffið mitt í Prag virðist vera horfið, af þeim sökum var tveggja vikna þögn. Eða kannski af því að þessar tölvur hérna í Zlín eru að gera mig gráhærðan. Önnur er inná kaffihúsi, einsömul og ekkert word í henni, svo er tölvustofa sem hægt er að borga sig inná hér við fótboltavöllinn sem er full af skrækjandi krökkum í Counterstrike og það er diskettudrif hér, það virðist bara vera lokað eða einhvern fjandann. Þannig að öll vitleysan sem ég var búinn að skrifa á tölvuna heima fær að bíða aðeins, fer til Praha í næstu viku, vonandi þá.