föstudagur, mars 25, 2005

Ísafjörður II

Er á sæmilegu nostalgíuflippi í kvöld, Ísafjörður / Suðureyri á morgun þannig að það heyrist varla mikið í mér fyrr en á mánudag – ekki segja mér að það séu tölvur þarna? Og er þá ekki ástæða til þess að taka nostalgíuflippið á Ísafjörð? Hef að vísu aðeins einu sinni komið í þennan fæðingarbæ móður minnar og sá mest lítið af honum þá. Þetta var sumarið 1997 og tilefnið var að amma var áttræð og ákvað að halda veisluna fyrir vestan. Ég var auðvitað að vinna um daginn, frá sjö til hádegis, en þá hjólaði ég beint heim og brunaði með familíunni á Ísafjörð. Ekki búinn að borða neitt náttúrulega og þegar ég stakk upp á því að stoppa einhversstaðar til þess þá talaði pabbi um að við þyrftum að ná ferjunni og ég gæti fengið að borða þar. Um borð var svo heil ein ræfilssamloka sem ég lét mig hafa til þess að seðja sárasta hungrið og svo þurfti ég að bíða þangað til að við komumst loksins til Ísafjarðar um kvöldið. Þá var klukkan orðin sæmilega margt og ég hafði ekki hugmynd um hvort það væri nokkursstaðar hægt að fá eitthvað sent. En eins og fólk kannski man þá var þetta á þeim tíma sem Pizza 67 var til á hverju einasta krummaskuði í landinu, ef ekki álfunni. Ég átti bágt með að stökkva ekki á pizzasendilinn og faðma hann. Sem sagt, það er aðallega maginn á mér sem man eftir Ísafirði. Man lítið eftir afmælinu daginn eftir nema að það var á einhverju hóteli væntanlega og pabbi kveikti í jakkanum.
En best að hundskast í bælið svo ég verði sæmilega stemmdur á morgun, varla mikið lífsmark hér fyrr en á mánudag - ekki eins og það hafi verið sérstaklega líflegt undanfarið ...

fimmtudagur, mars 24, 2005

Hvað ætli Fischer segi svo þegar hann kemst að því að ríkisstjórn landsins sé margfalt meiri Runnasleikjur en Japansforseti nokkurn tímann? Mann er eiginlega bara farið að hlakka til.

föstudagur, mars 18, 2005

Vill Röskva breyta kosningakerfinu?

Það er forvitnilegt að sjá viðbrögð Röskvu og Vöku við skipun í Stúdentaráð. Báðar fylkingar einbeita sér af því að kvarta yfir því að Háskólalistinn hafi ekki verið tilbúnir í meirihlutasamstarf en gera sér ekki grein fyrir því ef að þeim er meirihlutinn svona kær þá hefði enginn getað bannað þeim að stofna meirihluta saman.

Merkilegast er þó að Röskva segir í þessum pistli að hún harmi niðurstöðuna "... enda ólýðræðislegt að fylking sem aðeins hefur tvo fulltrúa af tuttugu í ráðinu fái formennsku." Gott og vel, segjum svo að þetta sé ólýðræðislegt - en einmitt það kosningakerfi sem er við lýði bíður uppá þetta. Það eru til fjölmargar tegundir af lýðræði, það kosningakerfi sem er til staðar ræður hvers konar lýðræði er stundað. Nú er Röskva í raun búinn að lýsa því yfir að kosningakerfið eins og það er nú uppbyggt sé ólýðræðislegt. Ég efast ekki um að Háskólalistinn mun glaður hjálpa þeim að breyta því enda höfum við ávallt haldið því fram að þetta kerfi sé meingallað.

Nýtt Stúdentaráð

Það er ástæða til þess að óska stúdentum til hamingju með að hafa fengið jafn vandaðan dreng og Elías sem formann Stúdentaráðs.

Þó verð ég setja út á fréttaflutning vefútgáfu Morgunblaðsins sem birti byggði fréttina sína eingöngu á biturleikanum hérna. Auðvitað er eðlilegt að tala við Vöku en hefði ekki verið ráð að hafa samband við hinar fylkingarnar líka? Fréttatilkynning er nefnilega ekki frétt þó hún geti verið kveikjan af frétt.

miðvikudagur, mars 16, 2005

Zubr

Sá fáheyrði atburður gerðist áðan að ég sá tékkneskan bjór í ríkinu sem ég kunni hreinlega engin deili á, Zubr. Væntanlega einhver afdalabjór?

Og svo ég taki nú framhald á strætóævintýrum þá voru tvífarar parsins í Fucking Amal mættar í strætó, það var vissulega óttalega sætt.

Drög af bílstuldi?

Þurfti að bíða óvenju lengi eftir strætó við Bóksöluskýlið. Ein konan sem beið samtímis mér í skýlinu leiddist biðin og fór að leggja nef sitt við rúðurnar í bílstjórasætum allra bílanna sem voru staddir á bílastæðinu við hliðina að því er virtist til þess að sjá hvort þeir væru læstir. Þeir voru það allir þannig að hún neyddist til þess að taka stóra gula bílinn með okkur hinum.

Framtíð RÚV

Nú er komið í ljós að uppsagnirnar í Þjóðleikhúsinu, það annars ágæta herbragð þjóðleikhússtjóra, hafði óheppilegar aukaverkanir. Við erum föst með Spaugstofuna enn eitt árið. Raunar finnst mér það verst fyrir þá sjálfa, Karl Ágúst & co eru færir grínleikarar, mér dettur ekki í hug að taka það af þeim - en konseptið er orðið svo þreytt að þeir eru löngu hættir að nenna þessu. Kannski hafa þeir tíma til að vanda sig meira fyrst þeir eru ekki í leikhúsinu? Má vera, en ég held að það besta sem þeir gætu gert væri að prófa eitthvað nýtt. En Gísli Marteinn er að minnsta kosti að hætta, það má máski eiga von á einhverjum ferskleika á Ríkisbákninu á næstunni. Svo segir náttúrulega gervöll fréttastofan upp og það verður algjört anarkí og litlir Framsóknarstrákar hlaupa um alla ganga, fertug andlit á fimmtán ára herðum, og ákveða að hér eftir verði merki RÚV það sama og hjá flokknum og í stað táknmálsfrétta verður daglega þulið land, flokkurinn og RÚV, þrenning sönn og ein.

föstudagur, mars 11, 2005

Nýtenglar

Hinni árlegu tenglatiltekt er lokið, að vísu innan við hálft ár síðan ég tók til síðast þannig að það er ástæða til að hafa áhyggjur af ofvirkni í þessum efnum.

Annars snýst þessi tenglatiltekt vissulega aðallega um að rusla til, bæta nýju fólki inn, enda hef ég sjaldnast hjarta í mér til að henda einhverjum út þó viðkomandi hafi máski ekki bloggað í nokkra mánuði. Gæðin, fólk, gæðin!

Aðalástæðurnar voru náttúrulega að ég þurfti að bæta við öllu fallega fólkinu af H-listanum, svo ekki sé minnst á devilishly handsome gaurinn sem átti sviðið á síðustu útskrift þar sem hann útskrifaðist með hvorki meira né minna en MA í bókmenntafræði. Lesið allt um ævintýri Roalds hér, þar á meðal ekki-kossinn-ógurlega. Þekki orðið samt mest fólk sem var að útskrifast sem Masterar, eru þetta ellimerki? Svo var rauðhærði djöfullinn Sibbi loksins að klára BA í bókmenntafræði eftir áralanga baráttu við Ameríska brjálæðinginn hans Brett Easton Ellis.

Þá er fólk loksins farinn að uppgötva bloggið í útlöndum, snillingurinn Jim þykist vera að skrifa bók en er aðallega að skrifa hérna. Jim er vel að merkja enskukennari, skeitari og fjölmiðlunarfræðingur auk þess að vera fyrrum drykkjufélagi á Radegast-pöbbnum mánudaga og miðvikudaga eftir tékkneskutíma ásamt Charlie og Elk, auk þess sem Cat, tyrkinn Serdar og skrýtni Svíinn komu stundum með. Svo er Jim líka hetjan mín, það stendur nefnilega á einhverri löngu týndri servíettu.

Fyrir utan þetta allt henti ég Hjartahlýja manninum, Einari Erni, Pullu og Dúddu inn fyrst maður er alltaf að lesa þau þó ég kunni ósköp lítil deili á þeim. En þegar ég fór að skoða þetta þá sé ég að ég er með 84 manns þarna inni, þar af þekki ég 57 mismikið, 10 sem ég þekki of lítið til að kunna við að setja þá inní fyrri töluna og svo 17 sem ég þekki ekkert. Tölfræðinördisma þar með lokið, en þetta gæti náttúrulega verið góð ástæða til þess að skoða Six Degrees of Seperation betur. Linkur á prívatblogg Harrison Ford því væntanlegur innan tíðar.

Stuck in a Moment You Can’t Get Out Of

Líf! Farðu að gerast, núna! Ha, þarf ég að gera eitthvað sjálfur? Fjandakornið. Djöfull er of-mikið-að-gera afsökunin orðinn þreytt. Allt í góðu samt, þannig. Vantar bara smá drama. Melló medium-sized happiness er ekki alveg að gera sig nógu vel fyrir mig. Má ég þá frekar biðja um almennilegt svekkelsi.

Sakna vina sem eru úti núna. Langar til útlanda skútlanda. Vill einhver gefa mér hellings pening svo ég komist um páskana til Danmerkur Tékklands Englands Króatíu Rússlands Finnlands plús lærdómsvélmenni sem getur gert öll verkefnin sem ég þarf sjálfsagt að klára þá? Björgólfur, ég veit þú lest þetta. Óþarfi að vera nískur svona þegar páskafríið er alveg að skella á.

fimmtudagur, mars 10, 2005

My Sharona

Var að sjá myndbandið af Knack flytja þetta lag í fyrsta skipti, er vanari að sjá fyrir mér Ethan Hawke, dansandi annað hvort við strákúst á bensínstöð eða Winonu Ryder undir þessu snilldarlagi í fyrsta leikstjóraverkefni Ben Stiller, skrítið að tengja hann Reality Bites í dag ... já, raunveruleikinn bítur fjandakornið ... en allavega þá er alveg ljóst að maðurinn sem syngur My Sharona er eldri bróðir John Cusack. Talandi um það, ætli maður eigi batterí í útvarpið ef maður þarf að taka Say Anything atriði í einhverjum breima? Eða kannski ætti maður bara að vera módern á þessu og kaupa mér ipod? Er ekki alveg að virka í mynd samt ... eða kannski á bara eftir að gera bíómyndina sem kemur þessu í tísku? Matrix tókst nú að láta síma líta út fyrir að vera svala, svo kom Reloaded og Revelutions og Star Wars 1 og 2 og ekki einu sinni geimskip eru almennilega svöl ennþá ...

þriðjudagur, mars 08, 2005

Rektorskosningar

Vandamálið við þessar rektorskosningar fyrir okkur nemendurna er klassískt, fæst þekkjum við þessa frambjóðendur neitt fyrir. Nema þeir sem muna eftir Ágústi í pólitíkinni. Utan þess er helst að maður þekki eitthvað til þeirra sem eru við manns eigin deild, hámark einn sem sagt, og ég þekki satt best að segja Jón Torfa ekkert eftir eins og hálfs annar nám í Félagsvísindadeild. Tek samt fram að þar sem ég er í þverfaglegu námi lít ég enn á mig sem heimspekideildarnemanda inn við beinið.

En þá er best að kíkja á stefnumálin, ef við lítum fyrst á þær níu spurningar sem lagðar eru fyrir rektorsefnin á heimasíðu HÍ hérna:

Fyrsta spurningin fjallar um hvað sé brýnast að gera í málefnum HÍ?
Kristín hefur vinninginn hér, hinir gala allir sama söng um það sem allir (nema stjórnvöld landsins) vita.

Næst er vikið af skólagjöldum sem allir eru á móti, mismikið þó, en Kristín er sú eina sem þó tekur fram að það megi skoða innra starf HÍ betur.

Þriðja spurningin snýr að húsnæðismálum nemenda og þar fá Jón Torfi og Kristín prik fyrir að setja Háskólatorg í forgang, vissulega er ástæða til þess að bæta aðstöðu flestra ef ekki allra deilda en þó þykir mér húsnæðisaðstaða til kennslu almennt þokkaleg, það er frekar félagslífið í heild sem er á hrakhólum.

Fjórða spurningin fjallar um nýjungar í kennsluháttum HÍ, Ágúst nefnir í raun engar nýjungar, talar aðeins um meiri gæði – en að því er virðist á sömu gömlu forsendunum. Einar ræðir eflingu aðstoðamannakerfis þar sem framhaldsnemar eru ýmist aðstoðarmenn prófessora eða að hjálpa nýnemum. Þetta þykir mér það jákvæðasta í hans kosningabaráttu og hefur hann því vinningin hér þó Kristín hafi ágætis hugmyndir líka.

Fimmta spurningin fjallar um jafnréttismál og þar eru eins og venjulega allir sammála um að eitthvað þurfi að gera – en ef kosning Kristínar væri þó óneitanlega rökréttasta skrefið að þeim markmiðum (aukning kvenna í stjórnunarstöðum) sem allir eru að mæra.

Sjötta spurningin snýst um hvernig skuli efla framhaldsnám og rannsóknir. Kristín virðist ein um að gera sér grein fyrir því að grunnnámið er grunnurinn undir öllu hinu (sbr. orðið sjálft) – eitthvað sem ætti að vera svo augljóst en hinum virðist öllum sjást yfir, enda nefna þeir helst ekki grunnnámið á nafn neins staðar sem ég hef séð – enda hafa atkvæði akademískra starfsmanna 60 % vægi ...

Sjöunda spurningin snýst um leiðir í alþjóðlegu samstarfi og þar eru allir með áhugaverðar hugmyndir nema Jón Torfi sem segir í raun ekki neitt um málið.

Áttunda spurningin snýst um það hvernig efla skuli samkeppnisstöðu HÍ. Hér eru Ágúst og Einar með áhugaverðar pælingar um að það þurfi að kynna með markvissari hætti mikilvægi háskólanáms.

Að lokum eru þau svo spurð hvernig HÍ verði eftir fimm ár nái þau kjöri. Hér er Kristín sú eina sem fellur ekki í þá gryfju að búa til útópíu en af hinum þá fær Einar prik fyrir að gera útópíuna a.m.k. almennilega og stefna bara beina leið á nóbelinn.

Samkvæmt þessu er Kristín langbesti kosturinn, Einar kemur henni næstur, þá Ágúst og Jón Torfi rekur lestina.

Þegar heimasíður rektorsefnanna voru skoðaðar breyttist skoðun mín á þeim almennt ekki mikið, Kristín er á sömu slóðum og í spurningunum og sömuleiðis Ágúst – þó þegar maður rifjar upp að hann gaf nýlega út Hagræn áhrif tónlistar þá eykur það trú manna á að hann sé ekki alveg fastur í allri viðskiptafræðivitleysunni. Einar er sömuleiðis á sömu slóðum ef eitt stórt atriði er undanskilið; hann virðist fylgjandi styttingu náms í framhaldsskóla og vill styttingu náms í grunnskóla til viðbótar. Það þykir mér bera vott um afar grunnan skilning á menntamálum þjóðarinnar sem verður einfaldlega til þess að ég get ekki hugsað mér að kjósa hann. Það að vera fylgjandi styttingu náms í framhaldsskóla er nefnilega einhver sú bjánalegasta og grunnhygnasta skoðun sem hægt er að hafa í íslenskri pólitík, það að vera fylgjandi skólagjöldum til dæmis er eitthvað sem alveg má færa rök fyrir en þessi vitleysa, hnuss segi ég bara.

Jón Torfi er hins vegar með ýmsar ágætis pælingar um menntun og þá er hann með hugmynd sem ég hef alltaf furðað mig á að sé ekki orðin að raunveruleika fyrir löngu – að sem flest lokaverkefni stúdenta fari beint á netið, væntanlega að fengnu samþykki þeirra, frekar en að rotna í bókhlöðunni. Þá minnist hann aðeins á starfsþjálfun sem og félagsaðstaða stúdenta sem er jákvætt. Hann skorar því töluvert hærra hér en í spurningunum níu – en þó kemur hann ekki til greina í mínum huga, einfaldlega af því ég er búin að heyra mjög misjafnar sögur af honum af fyrstu hendi frá fólki sem ég tek mark á. Leiddist Ágúst þegar hann var í pólitíkinni en þó hann hafi eitthvað hækkað í áliti hjá mér síðan (ágætis kúnni í Bóksölunni sko) þá efast ég um að það væri háskólanum hollt að áhrif Viðskiptafræðideildar aukist enn. Hef eiginlega ekkert heyrt um Einar en ágætis hluti um Kristínu, þegar við það bætist að hún hefur vinningin í stefnumálum og er frá það lítilli deild að það ætti ekki að skekkja stefnu hennar í heildarmálefnum HÍ.

Semsagt, Kristínu Ingólfsdóttur sem rektor!

fimmtudagur, mars 03, 2005

Andlaus og krambúleraður

Var að vonast til þess að losna úr andleysi undanfarinnar viku, en var svo skyndilega að drepast í öxlinni án nokkurar sýnilegrar ástæðu. Var svo að fara með ruslið út í tunnu, sem er stödd í niðamyrkri bak við hús, sé ég að það eru skyndilega komnir einhverjir leigjendur í kjallaraíbúðina og verður svo mikið um að ég hryn niður þrepin og er þar með enn krambúleraðri en fyrr. Aðallega samt þannig að ég næ ekki að einbeita mér að neinu sem orsakar almennan pirring. Til viðbótar við því að einmitt núna er ég með óttalega leið á sjálfum mér. En ég treysti því að árshátíð á morgun með fullt af skemmtilegu fólki komi manni í rétta gírinn aftur.

miðvikudagur, mars 02, 2005

Pivo

Elsku bjór!

Fyrirgefðu að ég gleymdi afmælinu þínu ... ég lofa að vera góður við þig um helgina í staðinn. Já og Eygló, til hamingju með afmælið.

Annars er ég bara að hanga hérna í Odda af því netið datt út heima svona fimm mínútum áður en ég fékk póst um að morguntíminn félli niður. Ég hafði þó í það minnsta vit á að sofa yfir mig í fyrri tímann ...