Ólíkt flestum sem hafa kommentað á þetta finn ég samt ekki mest að draumnum um Veru. Reiði í kjölfar nauðgunar er eðlileg og mér finnst nauðgarar ekki eiga neitt gott skilið. Því er hægt að fyrirgefa smá rökvillur, svo sem þá að "Ofbeldisvarnarhópurinn" geti ekki vitað hvort Vera sé að segja satt. Það má fyrirgefa hér, í stofnræðu, ekki hinsvegar ef hugmyndirnar yrðu settar í praksís. Tvennt þykir mér alvarlegra, annars vegar hversu væga meðferð (tiltal eingöngu) yfirmaðurinn sem mismunar eftir kynferði fær í samanburði við hina. Hefði kannski mátt beita þeirri aðferð í hinum dæmunum líka? Hitt sem mér þykir hins vegar ófyrirgefanlegt er rasisminn í draumi Freyju.
Mig dreymdi Freyju. Freyja settist inn á bar og pantaði sér drykk. Við hlið Freyju settist Ferðamaður. Ferðamaður spyr Freyju hvort Ísland hafi ekki átt fyrsta lýðræðisiskjörna kvenkyns forseta í heiminum. Freyja játar því með stolti í röddinni. Ferðamaður spyr hvort Freyja sé ekki til í tuskið. Freyja biður Ferðamann að láta sig í friði. Ferðamaður lætur sér ekki segjast, heldur áfram að áreita Freyju kynferðislega. Enda uppfullur af hugmyndum um meint lauslæti íslenskra kvenna. Hvaðan ætli Ferðamaður hafi þ ær hugmyndir? Freyja stendur á fætur, kemur auga á félaga sinn í FEMÍNISTAFÉLAGINU. FEMÍNISTINN er með fljótandi sápu í fórum sínum. Þær hella sápu í bjór Ferðamanns. Segja honum að drekka; Ferðamanni veiti ekki af að þvo á sér sorakjaftinn. Freyja veltir fyrir sér hvort Ferðamaður hafi hugsað sér útglennta Freyju sem hugsaði um fyrrverandi forseta og fósturjörðina á meðan Ferðamaður fengi loforð Flugfélagsins uppfyllt.
Hér eru ekki Flugleiðir sem fá á baukinn heldur viðskiptavinur þeirra. Sem viðskiptavinur Flugleiða sjálfur þá þykir mér það flugfélag eiga allt slæmt skilið (verð að muna að skrifa það hatursbréf við tækifæri) - það gildir hins vegar ekki um viðskiptavini þeirra sem í gegnum árin hafa oft ekki haft aðrar leiðir til að komast hingað á klakann. Nei, hér mætir Ferðamaður, með stórum staf, og er ástæða til að hrósa honum fyrir að vera svo vel að sér um árangur kvenna á Íslandi í stjórnmálum. Hins vegar gerist hann svo djarfur að reyna við innfædda. Fyrir það uppsker hann sápu í munninn (ef e-r á skilið sápu í munn fyrir sorakjaft er það kannski Gyða?). Hann á að vera uppfullur af ranghugmyndum og karlrembu. En getur verið að ferðamannsgreyið hafi bara verið graður og máski pínulítið uppáþrengjandi og fundist Freyja sæt? Kannski þykir þessi aðferð ekki fín en hvað eigum við þá að gera? Fara aftur í gamla kerfið þar sem biðillinn sendir kurteislegt bréf til pabbans þar sem hann biður um hönd dótturinnar? Já, það var einmitt gullöld femínismans! En hinsvegar grunar mig að viðbrögðin hefðu verið öðruvísi ef viðreynandi hefði verið innfæddur.
Það var til dæmis ekki ósvipuð sena snemma í bókinni Dís. Það bendir óneitanlega til að þetta viðhorf sé hættulega útbreytt meðal íslenskra kvenna þó sem betur fer sé það væntanlega í miklum minnihluta. Niðurstaða herferðar Flugleiða (og annara hluta) virðist nefnilega vera fyrst og fremst sú að sumt íslenskt kvenfólk er sannfært um að þeir erlendu ferðamenn sem hingað koma séu ekkert annað en hjólgröð karlrembusvín sem ætli að nota þær. Þetta viðhorf heitir rasismi.
Ég eyddi heilu ári í mjög nánu samneiti við útlendinga á Íslandi, sumir stoppuðu stutt og aðrir voru lengur. Þar með taldar voru ófáar barferðir og aldrei varð ég var við þessa tegund ferðamanns sem Gyða lýsir. Auðvitað kom fyrir að þeir reyndu við stelpur en aldrei með þeim yfirgangi og frekju sem gefin er í skyn í þessari martröð Gyðu. Það sá ég hins vegar einstaka íslenska karlmenn gera við útlenska kvenfólkið og þurfti þá að grípa inn í þó aldrei hafi komið til átaka.
Málið er bara því miður það að við íslendingar, bæði karlar og konur, erum ekkert sérstaklega kurteis sem þjóðflokkur. Við höfum sem betur fer bætt okkur en þónokkuð vantar upp á. Einmitt þetta varð til þess að fyrir rúmri hálfri öld þegar erlendir dátar komu til Íslands á stríðstímum þá voru þeir ansi hreint vinsælir hjá kvenþjóðinni. Þær konur höfðu sem betur fer vit á að hlusta ekki á rasismann í sumum íslensku köllunum og deituðu bara þá sem þeim sýndist óháð því hvort viðkomandi karldýr var íslenskur, breskur eða bandarískur. En áralangur áróður, þar sem þetta tímabil hefur verið útmálað sem eitthvað niðurlægingartímabil hjá íslenskum konum og hermennirnir nær allir sem einn gerðir af karlrembusvínum, hefur því miður náð að ala á samviskubiti hjá sumum íslenskum konum og jafnvel gert rasista úr þeim. Þannig að títtnefnd Gyða er varla femínisti. Hún er hins vegar rasisti, búinn til að nokkrum öfundsjúkum bitrum íslenskum körlum.
Það er nefnilega fátt verra en talsmaður undirokaðs hóps sem kemur upp um fordóma gagnvart öðrum hópum sem eiga undir högg að sækja. Svartur karlmaður sem ber konuna sína er ekkert betri en hvít karlremba, rauðsokka sem talar illa um útlendinga er ekkert betri en óbreyttur rasisti. En einmitt keðjuverkunin, að ráðast alltaf á minnimáttar en þora ekki í þann sem undirokar þig, er rótin af þessu öllu.