“Kynbundið ofbeldi er orsök og afleiðing útbreiðslu HIV/alnæmis” er fyrirsögn greinar Birnu Þórarinsdóttur, framkvæmdastýru UNIFEM á Íslandi.
Hvað í fjandanum er kynbundið ofbeldi? Síðan hvenær er ofbeldi bundið? Nauðganir valda vissulega alnæmi en það er til óþurftar og hættulegur feluleikur að skipta orði eins og nauðgun (sem hefur raunverulega merkingu) út fyrir fínt fræðilegt orð sem þýðir ekki neitt.
En bíddu, svo er farið að tala um heimilisofbeldi. En heimilisofbeldi getur líka beinst gegn börnum, fólk sem er ofbeldisfullt er ekki endilega að binda sig við eina manneskju eða eitt kyn, sumir gera það örugglega en líður konunni þeirra verr ef það er bara hún sem er beitt ofbeldi? Ég efast.
Síðan virðist hún komast að þeirri niðurstöðu útfrá þessu öllu saman að kynbundið ofbeldi (sem hér virðist skilgreint sem nauðganir og heimilisofbeldi) valdi alnæmi. Nauðganir vissulega, heimilisofbeldi án nauðgana hefur hins vegar ekkert með alnæmi að gera – nema það eitt að vera ömurlegt, mannleg eymd sem viðgengst í miklu ríkari mæli en hægt er að sætta sig við. Það er nefnd tölfræði, en tölfræðin skýrist aðallega af því að eymdin helst í hendur við eymd, fátækt, örbirgð, sjúkdóma, ofbeldi, menntunarskort og skort á mannlegri reisn, þetta helst alltof oft í hendur og getur skapað vítahring.
Hins vegar er ábyrgðarleysi að setja samasemmerki á milli tveggja óskyldra hluta, það er virðingarleysi við alla þá Afríkubúa sem hafa fengið alnæmi án þess að ofbeldi hafi neitt með það að gera, það er hættulegt að berjast gegn alvarlegum vandamálum með kjánalegri tölfræði.
En satt best að segja er hættulegast ef vesturlandabúar eru að reyna að hjálpa þróunarlöndunum með vafasamri aðferðafræði byggðri á sundurlausri tölfræði í stað þess að heimta að ríkisstjórnir þeirra geri nú einu sinni alvöru átak til þess að leysa eitthvað af þessum málum sem vesturlönd sjálf bera vissulega alltof mikla ábyrgð á.
Byggja upp þjóðfélög þar sem alið er á mannvirðingu og barist er gegn fáfræði og fordómum almúgans. En þegar maður hugsar til þess hve skammt á veg manni þykir vesturlönd sjálf komin á þessari braut kemur kannski ekki á óvart að þau eigi í erfiðleikum með að hjálpa öðrum með einhverju uppbyggilegra en kjánalegum greinum í dagblöðum. Ef þær björguðu heiminum værum við nefnilega öll löngu hólpin.