miðvikudagur, apríl 30, 2003

Rasismi Gyðu

Ólíkt flestum sem hafa kommentað á þetta finn ég samt ekki mest að draumnum um Veru. Reiði í kjölfar nauðgunar er eðlileg og mér finnst nauðgarar ekki eiga neitt gott skilið. Því er hægt að fyrirgefa smá rökvillur, svo sem þá að "Ofbeldisvarnarhópurinn" geti ekki vitað hvort Vera sé að segja satt. Það má fyrirgefa hér, í stofnræðu, ekki hinsvegar ef hugmyndirnar yrðu settar í praksís. Tvennt þykir mér alvarlegra, annars vegar hversu væga meðferð (tiltal eingöngu) yfirmaðurinn sem mismunar eftir kynferði fær í samanburði við hina. Hefði kannski mátt beita þeirri aðferð í hinum dæmunum líka? Hitt sem mér þykir hins vegar ófyrirgefanlegt er rasisminn í draumi Freyju.

Mig dreymdi Freyju. Freyja settist inn á bar og pantaði sér drykk. Við hlið Freyju settist Ferðamaður. Ferðamaður spyr Freyju hvort Ísland hafi ekki átt fyrsta lýðræðisiskjörna kvenkyns forseta í heiminum. Freyja játar því með stolti í röddinni. Ferðamaður spyr hvort Freyja sé ekki til í tuskið. Freyja biður Ferðamann að láta sig í friði. Ferðamaður lætur sér ekki segjast, heldur áfram að áreita Freyju kynferðislega. Enda uppfullur af hugmyndum um meint lauslæti íslenskra kvenna. Hvaðan ætli Ferðamaður hafi þ ær hugmyndir? Freyja stendur á fætur, kemur auga á félaga sinn í FEMÍNISTAFÉLAGINU. FEMÍNISTINN er með fljótandi sápu í fórum sínum. Þær hella sápu í bjór Ferðamanns. Segja honum að drekka; Ferðamanni veiti ekki af að þvo á sér sorakjaftinn. Freyja veltir fyrir sér hvort Ferðamaður hafi hugsað sér útglennta Freyju sem hugsaði um fyrrverandi forseta og fósturjörðina á meðan Ferðamaður fengi loforð Flugfélagsins uppfyllt.

Hér eru ekki Flugleiðir sem fá á baukinn heldur viðskiptavinur þeirra. Sem viðskiptavinur Flugleiða sjálfur þá þykir mér það flugfélag eiga allt slæmt skilið (verð að muna að skrifa það hatursbréf við tækifæri) - það gildir hins vegar ekki um viðskiptavini þeirra sem í gegnum árin hafa oft ekki haft aðrar leiðir til að komast hingað á klakann. Nei, hér mætir Ferðamaður, með stórum staf, og er ástæða til að hrósa honum fyrir að vera svo vel að sér um árangur kvenna á Íslandi í stjórnmálum. Hins vegar gerist hann svo djarfur að reyna við innfædda. Fyrir það uppsker hann sápu í munninn (ef e-r á skilið sápu í munn fyrir sorakjaft er það kannski Gyða?). Hann á að vera uppfullur af ranghugmyndum og karlrembu. En getur verið að ferðamannsgreyið hafi bara verið graður og máski pínulítið uppáþrengjandi og fundist Freyja sæt? Kannski þykir þessi aðferð ekki fín en hvað eigum við þá að gera? Fara aftur í gamla kerfið þar sem biðillinn sendir kurteislegt bréf til pabbans þar sem hann biður um hönd dótturinnar? Já, það var einmitt gullöld femínismans! En hinsvegar grunar mig að viðbrögðin hefðu verið öðruvísi ef viðreynandi hefði verið innfæddur.
Það var til dæmis ekki ósvipuð sena snemma í bókinni Dís. Það bendir óneitanlega til að þetta viðhorf sé hættulega útbreytt meðal íslenskra kvenna þó sem betur fer sé það væntanlega í miklum minnihluta. Niðurstaða herferðar Flugleiða (og annara hluta) virðist nefnilega vera fyrst og fremst sú að sumt íslenskt kvenfólk er sannfært um að þeir erlendu ferðamenn sem hingað koma séu ekkert annað en hjólgröð karlrembusvín sem ætli að nota þær. Þetta viðhorf heitir rasismi.
Ég eyddi heilu ári í mjög nánu samneiti við útlendinga á Íslandi, sumir stoppuðu stutt og aðrir voru lengur. Þar með taldar voru ófáar barferðir og aldrei varð ég var við þessa tegund ferðamanns sem Gyða lýsir. Auðvitað kom fyrir að þeir reyndu við stelpur en aldrei með þeim yfirgangi og frekju sem gefin er í skyn í þessari martröð Gyðu. Það sá ég hins vegar einstaka íslenska karlmenn gera við útlenska kvenfólkið og þurfti þá að grípa inn í þó aldrei hafi komið til átaka.
Málið er bara því miður það að við íslendingar, bæði karlar og konur, erum ekkert sérstaklega kurteis sem þjóðflokkur. Við höfum sem betur fer bætt okkur en þónokkuð vantar upp á. Einmitt þetta varð til þess að fyrir rúmri hálfri öld þegar erlendir dátar komu til Íslands á stríðstímum þá voru þeir ansi hreint vinsælir hjá kvenþjóðinni. Þær konur höfðu sem betur fer vit á að hlusta ekki á rasismann í sumum íslensku köllunum og deituðu bara þá sem þeim sýndist óháð því hvort viðkomandi karldýr var íslenskur, breskur eða bandarískur. En áralangur áróður, þar sem þetta tímabil hefur verið útmálað sem eitthvað niðurlægingartímabil hjá íslenskum konum og hermennirnir nær allir sem einn gerðir af karlrembusvínum, hefur því miður náð að ala á samviskubiti hjá sumum íslenskum konum og jafnvel gert rasista úr þeim. Þannig að títtnefnd Gyða er varla femínisti. Hún er hins vegar rasisti, búinn til að nokkrum öfundsjúkum bitrum íslenskum körlum.
Það er nefnilega fátt verra en talsmaður undirokaðs hóps sem kemur upp um fordóma gagnvart öðrum hópum sem eiga undir högg að sækja. Svartur karlmaður sem ber konuna sína er ekkert betri en hvít karlremba, rauðsokka sem talar illa um útlendinga er ekkert betri en óbreyttur rasisti. En einmitt keðjuverkunin, að ráðast alltaf á minnimáttar en þora ekki í þann sem undirokar þig, er rótin af þessu öllu.
"Ég heiti Gyða og ég er FEMÍNISTI. Það er ekki sjúklegt ástand og því engin hætta á að lækning finnist eða hægt sé að ávísa lyfjum til okkar."

Ég verð að mótmæla. Ég ætla ekki að hætta mér í að reyna að skilgreina hvað sé femínismi, þar mætast ansi margar útgáfur, upprunaleg hugsjón, endurbætur á henni en líka afbakanir og afskræmingar. Ég vona femínista vegna að Gyða sé ekki femínisti, ef svo er þá þarf hún lækningu ef miðað er við hvernig áframhald þessa ávarps er.

þriðjudagur, apríl 29, 2003

Peace is Sexy

"Friður er kynæsandi" datt mér í hug fyrir rúmlega viku síðan þegar ég sá stelpu í peace-bol á Kaffi Akureyri. Velti fyrir mér af hverju engum hefði dottið í hug að nota það sem slagorð. Þess getur varla verið langt að bíða núna miðað við þessa fallegu mynd. Spurning um að skrá einkaleyfi þannig að ef símafyrirtækin ætla að nota það þá er eins gott að þau borgi. Vodafone þyrfti til dæmis að segja upp ManU ef þeir vilja tala við mig ...
Samkvæmt ósvífnum persónunjósnum mínum hefur einhver Dani fengið þessa síðu upp þegar hann sló inn leitarorðin "sex i prag." Að auki er ólíklegasta fólk skyndilega farið að tala reiprennandi skandinavísku um leið og það er komið til Rússlands. Þetta er hið dularfyllsta mál og ástæða til að rannsaka það nánar.

mánudagur, apríl 28, 2003

Og ef einhver þykist ætla að lesa einhvern listabókstaf út úr þessu þá er rétt að taka fram að engin flokkur búinn að sannfæra mig um að kjósa sig. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa allir verið sekir um að leggja alltof mikla áherslu á eitt mál (Samfylkingin kvenréttindin á dubios forsendum, VG á bölvaða Kárahnjúkana og Frjálslyndir á slorið) og stjórnarflokkarnir, well, fyrir utan að vera svona hrifnir af því að ganga þvert á samþykktir alþjóðasamfélagsins og fara í ástæðulaust stríð þá hefur Framsókn náttúrulega eyðilagt miðjuna fyrir íslenskum kjósendum með að breyta henni í sveitalega hentistefnu og Sjálfstæðismenn virðast vera að eipa í því að auglýsa það að ef við kjósum þá ekki verði ekki sama stjórn og síðustu 12 árin. Ekki breyta neinu, ala á ótta við óvissuna. Hvað á maður svo að gera? Úllendúllendoff? Auður seðill? Bíða eftir að einhver sjái sóma sinn í að kaupa atkvæði mitt á sanngjörnu verði?
Í sambandi við þetta að neðan þá tek ég fram að það sem skiptir langmestu máli við námið er námið sjálft. Það sem þú lærir og hvernig þú getur nýtt þér það og fengið eitthvað út úr því. Þú átt ekki að eyða þrem árum í skóla út af ákvæðum í kjarasamningum. En það er slæmt ef kerfið sjálft er fullt af hindrunum fyrir slíkum metnaði, ef það bíður fólki ekki möguleika á að gera það sem það langar til eins vel og það getur án þess að þurfa að sætta sig við sultarlaun í staðinn. Því hvað sem mýtan segir þá er lítil andagift í fátæktinni sjálfri. Eða öllu heldur strögglinu, fátækt er vissulega orð sem á sjaldnast við á Íslandi. Einn labbitúr í gegnum erlenda stórborg sýnir þér hversu holt það er að tala um fátækt á þessu landi. En það þýðir ekki að það sé ekki ýmislegt að.
Í jafnréttisumræðunni undanfarið er oft bent á það að konur séu orðnar í meirihluta í Háskólanum. Kannski er það góðs viti, kannski er það vísir að því að launamunur á milli kynjanna verði í framtíðinni öfugur við það sem nú er. En athugum aðeins betur stöðu fólks með háskólamenntun á Íslandi. Er það fólk almennt að fá laun í samræmi við menntun hérna á Íslandi? Nei - það eru vissulega einhver örfá prósent í einhverjum kjarasamningum en ekki nema dropi í hafið miðað við alla vinnuna og fjárfestinguna sem liggur að baki. Athugum að þetta fólk þarf að borga aftur námslán plús það að það hefur orðið af tekjum í x mörg ár til þess að verða hæfari starfskraftar í framtíðinni. Það mætti líklega færa rök fyrir því að háskólanemar séu orðinn einskonar láglaunastétt hérlendis. Það hefur einmitt fylgt flestöllum kvennastéttum að vera láglaunastéttir. Tilviljun?
Annars skil ég ekki hvernig þessi Hans með sorgarbindið um hendina dettur í hug að halda því fram að með því að styðja stríðið án umboðs Sameinuðu þjóðanna sé einhver stefnubreyting af hálfu Íslands. Davíð og Halldór gerðu nákvæmlega sama fyrir fjórum árum þegar Kaninn réðist inní Júgóslavíu án umboðs SÞ. Munurinn var bara sá að þær aðgerðir voru ekki jafn óvinsælar og árásin á Írak. Þær voru aftur á móti ekkert skárri. En væntanlega sýnir þetta best skammtímaminni fólks, það verða sjálfsagt flestir búnir að gleyma öllu um Írak 10. maí.
Langt síðan ég hef horft á Silfrið að einhverju viti. Gaman að sjá hann loksins fá beib úr röðum stjórnmálafræðinga. (Þó vissulega finnist mér Svanur alltof svoldið sætur líka enda með skemmtilegri kúnnum í Bóksölunni) Gott ef hún var ekki með norðlenskan framburð líka. Svo hef ég sjaldan séð neitt jafn persónulegt og LÍÚ-gaurinn og Frjálslynda frambjóðandann. Framan af virtist þetta vera um málefni en svo kom náttúrulega í ljós að þeir einfaldlega hötuðu hvorn annan. Sem er vissulega prýðilegt sjónvarpsefni.
Eddie spænski, rokkstjarna, nemi, fangavörður og frændi Ásu og Himma á afmæli í dag. Grafarvogurinn þar af leiðandi að líkindum á öðrum endanum á morgun.
Paranoja

Af hverju er Ögmundur alltaf að sniglast í kringum Árnagarð? Er hann að reyna að fá mig í Vinstri-Græna? Eða BSRB kannski? Eða er hann orðinn svartsýnn og farinn að athuga hvort hann geti ekki farið í bókmenntafræði eftir kosningar? Svo lengi sem við sitjum ekki uppi með Halldór ...

laugardagur, apríl 26, 2003

Knattspyrnuvertíðin hófst hjá Gambranum í dag, að sjálfsögðu var gamli maðurinn markahæstur auk þess sem ég sló dvalarmet mitt í Garðabæ um nokkra klukkutíma. Ef þeir klukkutímar hefðu verið mikið fleiri hefði væntanlega þurft sjúkraþjálfara

föstudagur, apríl 25, 2003

Stundum held ég að kommentakerfið mitt sé ósýnilegt

miðvikudagur, apríl 23, 2003

Fékk atvinnutilboð um leið og ég settist í baðkarið sem við vorum að kaupa fyrir konuna sem stakk af til Rússlands. Annað hvort er baðkarið göldrótt eða ég hef ekki fattað það trikk að setjast í baðkar í fötunum áður. Jamm, ég er vissulega skrýtinn.
Þurfti að kíkja í Húsasmiðjuna í dag. Þar var meðal annars hægt að kaupa sturtu fyrir tvo með gufu, útvarpi, lituðum blikkljósum, blöndunartækjum og geislaspilara. Kostar ekki nema um 650 þúsund kall sem er náttúrulega ekki neitt þar sem þú getur auðveldlega búið í sturtunni með örlitlum lagfæringum.
London, Öxnadalur eða símaskráin? Lífið er fullt af erfiðum ákvörðunum.
Hnuss, ég lýsi frati á þetta persónuleikapróf enda er myndin sem kom upp of ljót til þess að ég skemmi síðuna með henni. Svo skemmir þetta náttúrulega fyrir öllum hinum hávísindalegu persónuleikaprófum á netinu ...
Samfylkingar-Björgvinin er farinn að fara hrikalega í taugarnar á mér. Er hann prógrammeraður af kosningastjóranum á hverjum morgni? Jafnvel Sigurður Kári sýndi meiri merki sjálfstæðra skoðanna í þessum Kastljósþætti. Og í fyrsta skipti í einhverjar aldir kom Frammari vel út úr umræðuþætti.

sunnudagur, apríl 20, 2003

"Syngur hver með sínu nefi" - ætli ég hafi óvart fengið páskaegg Halldórs Ásgrímssonar?

laugardagur, apríl 19, 2003

Föstudagurinn langi stóð sannarlega undir nafni. Annars nauðsynlegt að bæta við link á þennan kveðskap og íhuga svo hvort ég rati ekki örugglega ennþá á barina á Akureyri.

fimmtudagur, apríl 17, 2003

Það er lúxus að geta farið á inniskónum út í búð. Og rúmenski kjötrétturinn var ekki jafn grunsamlegur og ætla mætti

þriðjudagur, apríl 15, 2003

Mættur í sólina til gömlu hjónanna og kisu gömlu. Nú væri góður tími til að vera áhyggjulaus.

laugardagur, apríl 12, 2003

Sem sjá má er ég loksins búin að hunskast til þess að koma þessum linkum í lag með góðri hjálp. Braut meira að segja öll gömul heit og setti teljara líka. Einhverntímann ætla ég að gefa mér tíma til þess að læra svona html-dót almennilega, þangað til verður síðan jafnljót og hún er núna. Ef einhver fjarverandi telur sig hafa tilverurétt á síðunni en er ekki með link endilega hafa samband – líka ef þið teljið ykkur vitlaust skilgreind. Og ég veit að það er ein stafsetningavilla þarna – en mér fannst hún of viðeigandi til að leiðrétta hana :)
Var að hlusta á maus … (fer ekki að fara að koma ný plata?)

“lýgur þá fréttablaðið af einskærum sið eða til hugsunaruppeldis?”

hvar ætli höfundur þessarar laglínu sé að vinna núna?
Fyrst Live Aid, svo Survivor. Skondnir hlutir sem maður kemst að í ritgerðarvinnu. Það var víst enginn annar en Bob Geldof sem á heiðurinn að Survivor. Hann talaði sænska sjónvarpið inná hugmynd af þættinum Expedition Robinson sem var nokkurn vegin eins og Survivor nema að svíarnir voru náttúrulega meira í félagsfræðinni eins og venjulega:

The original Swedish "Expedition Robinson," conceived by noted idea man Bob Geldof, was a serious game, designed to foster group cooperation and to serve as a miniature laboratory for democracy.

Þetta sýnir ágætlega muninn á Svíum og Könum eða hvað?
Annars er ég bara heima að reyna að klára ritgerð svo ég geti stungið af til Akureyrar í páskafrí með góða samvisku. Kannski ætti ég að labba út í BSÍ að kaupa franskar? Kannski ætti ég að hringja millilandasímtal? Eða kannski ætti ég bara að hundskast til að klára þetta sem fyrst?
Karlmennska Jackass-liða hvarf endanlega þegar þeir skiluðu þorramatnum aftur á diskinn. Það ætti líka einhver að benda þeim á að það getur alveg gengið að vera með sorakjaft í gegnum heilan sjónvarpsþátt - en þá er líka nauðsynlegt að kunna fleiri en þrjú blótsyrði.

föstudagur, apríl 11, 2003

Millisafnalánsdeild Landsbókasafnsins hefur greinilega óbilandi trú á mér og pantaði Krakatit fyrir mig á frummálinu, tékknesku. Ég held ég verði að viðurkenna að þar kom vel á vondan.

miðvikudagur, apríl 09, 2003

101 kvikmyndahátíð

Líst alveg þokkalega á kvikmyndahátíðina sem er að byrja á morgun – þó það sé búið að ofnota það dálítið að klína 101 fyrir framan allt til að láta það líta út fyrir að vera hip. Það er kostur að það eru passlega margar myndir, það er náttúrulega bara eintóm illmennska að troða 50 myndum á eina viku og maður getur ekki með nokkru móti séð allt sem mann langar nema maður sé atvinnulaus og samt ekki á kúpunni. Ég er hins vegar námsmaður á kúpunni sem þýðir að ég þarf einstöku sinnum að skrifa ritgerðir. Ég er nefnilega búinn með bananauppskeruna og apinn minn skrifar ekki nema hann fái að borða. En 13 myndir er passlegt, ég ætti að geta ráðið við að sjá a.m.k. þær 3 sem ég er viss um að ég vilji sjá. Sem eru:

Bowling for Columbine – því Michael Moore átti óskarinn

The Good Girl – því Miguel Arteta er held ég efni í afbragðsleikstjóra

Rabbit-Proof Fence – því Philip Noyce virðist hafa ákveðið skyndilega að hætta að vera hakkleikstjóri og fara frekar að gera það sem hann langaði til. Svo er ég líka viðkvæmur fyrir áströlskum frumbyggjum mate

hugsanlega:

Klassfesten – því þeir virðast stela plottinu úr Gross Pointe Blank. En fylgir andagiftin?

Heaven – því Cate Blanchett er besta leikkona samtímans. Sorrí Susan. Svo er Giovanni Ribisi fínn ef hann er ekki að leika þroskaheft fólk. Spurning hvort Tykwater nái smá krafti í handritið hjá Kieslowski, þótti hann alltaf hálfgeldur kallinn þó það væru sætar franskar stelpur að leika í myndunum hans.

Spider – því Ralph Fiennas er einn af kandítötum sem besti leikari samtímans. En þar eru bara kandídatar ennþá á meðan Paul Newman er enn að. Spurning samt hvort ég-er-sækó-af-því-mamma-var-vond-við-mig konspetið sé ekki orðið frekar þreytt?

28 Days Later – því kannski er Danny Boyle og co. búið að ná touchinu aftur

Naqoyqatsi – því þessar myndir ku víst vera afar dularfull meistaraverk. Klór í haus eða upplifun? Sjáum til, allavega mynd sem þarf að sjá í bíó.

El Crimen del Padre Amaro – því helsti tsjokkó Mexíkó í dag, Gael García Bernal, virðist hafa ágætis nef fyrir góðum myndum (Amores Perros, Y Tu Mama Tambíen)

Elsker dig for evigt – mjög mikið kannski, kannski á videó ef allir tala vel um hana eins og Den Eneste Ene. Maður þarf að hafa allan varann á þegar að dansknum kemur …

ekki séns:

Gamle mænd i nye biler – af því I Kina spiser der hunde var ekki að gera það fyrir mig. Góður titill samt.

Pinocchio – því ólíkt aðalleikara myndarinnar þá var Gosi ekki miðaldra

Comedian – því ég er ekki að fara að borga fyrir að sjá Ray Romano. Þó hann sé líklega bara í einhverju míkróhlutverki.
Penninn virðist vera að fara að kaupa bókabúðir Máls og menningar. Ef samkeppnisráð samþykkir það umyrðalaust er líklega kominn tími til að leggja þá stofnun niður. Svo er það bara Bóksalan vs. the evil empire. Verður bíóstjarnan Fangor í hlutverki Luke eða Han Solo?
Who's watching who?

Mér sýnist nú að það sé frekar að hér séu lesendur ansi ítarlega vaktaðir. Saklausir ritarar í fjármálaráðuneytinu geta ekki sörfað aðeins án þess að Gneistinn kjafti því í Geir ;)
Tónlistin hjá Philip Glass og leikurinn hjá Ed Harris – eitt það besta við Truman Show en fjórum árum seinna eitt það versta við The Hours. Ætli þeir séu svona samstilltir?
Manchester United og Haukar töpuðu í gær, ég held mér hafi þótt það hvoru tveggja verið sætara en sigur KA. Er ég svona neikvæður?

þriðjudagur, apríl 08, 2003

Ég horfði á Survivor í kvöld enda er það næsta ritgerðarefni. Plús Truman Show og kannski The Tempest.

Annars er ástæða til þess að benda á þessa snilldardagskrárkynningu á sjonvarp.is:

Allt iðar af lífi í frumskóginum við ána mikilfenglegu. Þar lifa stærstu kyrkislöngur heims sælar í grasinu, mannætufiskatorfur synda kátar um djúpin og fuglarnir syngja á hverjum morgni nýjum degi til dýrðar. En sá paradísarfriður er skyndilega rofinn er Adam mætir og meira að segja Eva líka og há þar mikla baráttu um milljón dali. Hvorir skyldu nú sigra, Adamssynir eða Evudætur? Hvernig taka dýrin þessari innrás? Verður Jeff Probst enn á lausu?

Spurning hvort þetta verður fyrsta ritgerðin til þess að vitna í þessa síðu?

mánudagur, apríl 07, 2003

"We have to do what's right. If we let a stupid law stand in our way, then we aren't worth anything."

Paul Auster, In the Country of Last Things

sunnudagur, apríl 06, 2003

Tékkneskt kvöld hjá RÚV (bæði sunnudagsmyndin og silfurmynd stuttmyndadaga) og tiltektardagur hjá mér. Því er ástæða til þess að taka fram að nú er bjórmottusafnið allt komið á sama stað og telur nú 109 mismunandi mottur. Það eru líklega u.þ.b. 100 tegundum fleira en hægt er að finna á öllum íslenskum börum til samans

laugardagur, apríl 05, 2003

Jæja, þá er komið á hreint hvar ég bý næsta vetur – svo framarlega sem ég enda ekki á að kenna handavinnu á Fáskrúðsfirði sem verður sífellt líklegra. En íbúðin er víst mjög skammt frá Hversdagshöllinni. Ég á enn eftir að finna nafn á höllina þar sem ég mun búa.
Ég er búinn að komast af því af hverju ég á allan matinn í eldhúsinu. Meðleigjandi minn lifir á Dominos pizzum. Ég þarf að koma honum upp á einhverja aðra pizzastaði svo það verði einhverjir ætir afgangar fyrir mig að hnupla.
Átti annars kombakk í badmintoni eftir að hafa hætt fyrir fimmtán árum. Þessi íþrótt bíður náttúrulega uppá athyglisverðar blótssamsetningar.
Jahérna, Særún á útsmogna tvíburasystur sem þóttist þekkja mig og notfærði sér hávaðann á Hverfisbarnum. Þetta er afar grunsamlegt
En vissulega ástæða til að benda á myndir af fallegu fólki
Vikugömul partísaga
- brot
(áður en kjaftakellingar útí bæ eru búnar að snúa út úr henni)

Ákveðnir einstaklingar skilja ekki mannamál. Þess vegna hefur maður vit á að segja þeim engar kjaftasögur - en eins og sést er það hreinlega ekki nóg. Annars var Beta afskaplega umhyggjusöm að vara mig við of miklu áfengi of snemma. Ég hlustaði á hana eftir 21 staup þannig að ég endaði ekki eins og V heldur bara glaður á Kaffibarnum með R og svo með K á Hverfisbarnum af öllum stöðum. Komst að því að ákveðnir lögfræðinemar hafa lært útsmognar aðferðir til að láta bjóða sér í glas. En þú ferð einfaldlega ekki á barinn þegar það er verið að spila Blister in the Sun. Sumt er einfaldlega bannað og skal stöðvað þó grípa verði til róttækra aðgerða ;)

fimmtudagur, apríl 03, 2003

Eins og tímasetning þessarar færslu bendir til þá er ég aftur orðinn sítengdur við netið, já, það hefur stundum sína kosti að vera skítblankur háskólanemi. Netfíkillinn er ekki kominn upp í mér ennþá en hann gerir það fljótlega - eða um leið og ég fer að reyna að skrifa ritgerðir hérna ...

þriðjudagur, apríl 01, 2003

"Fréttamennska"

Var að horfa á spólu núna áðan og þegar hún var búin og sjónvarpið tók við af myndbandinu þá var venjulegri dagskrá lokið á RÚV. Það tók mig töluverðan tíma að taka eitthvað eftir því að það væri verið að fjalla um stríð það sem stendur yfir nú við Persaflóan. Þetta er maður orðinn ónæmur eftir rétt rúma viku – en ég held þetta segi líka ansi mikið um fréttaflutning BBC World Service. Stríðið er ýmist gert að einkennilegri grænleitri flugeldasýningu, amatörslegum tölvuleik eða myndum sem manni finnst vera þurr sagnfræði frekar en okkar eigin nútími út af fjarlægðinni í rödd fréttamannana. Ætli sé kannski til góð þýsk eða frönsk fréttastöð þar sem fréttamennska þýðir eitthvað annað en að hrófla ekkert við þeirri heimsmynd sem viðtekin er? Það er nefnilega fátt göfugra en vandaður stríðsfréttamaður. Og fátt ómerkilegra en áhugalaus kollegi hans.