miðvikudagur, júní 23, 2004

why do you sing Hallelujah
if it means nothin’ to ya?
(Damien Rice)

Mig vantar eitthvað sem skiptir máli, ég þarf að kveikja á mér aftur. Erfitt að vera í sumarfríi, sérstaklega þegar maður býr einn og er að bræða alltof margt með sér en þarf að skipta úr þeim gír að þjóna öðrum og fara að gera eitthvað fyrir sjálfan sig. Þetta kennaradjobb tæmir mann að vissu leiti ef maður raunverulega gefur sig í það. Nú er maður hálfgerður draugur í sumarfríi. Ég þarf að fara að drífa mig út, kveikja á mér aftur, fá einhverjar upplifanir beint í æð, nýtt andrúmsloft, nýja heima, eyða öllum úrtöluröddum, mínum og annara, úr harða drifinu, og koma svo heim með nýtt bensín og gera eitthvað að viti áður en skólinn byrjar.

mánudagur, júní 14, 2004

Zidane vs. Beckham

Það sannaðist endanlega í gær munurinn á mönnum sem eru frægir fyrir að vera góðir í fótbolta og mönnum sem eru frægir fyrir hárgreiðsluna.

föstudagur, júní 11, 2004

EM - spá Gambrans 2004

Þar með hafiði það börnin mín, svona fer þetta ... nema náttúrulega Lettar vinni þetta allt saman og stofni í kjölfarið ný Sovétríki með höfuðstöðvar í Riga ...
Lettland - D - riðill

Lið til þess að vera afbrýðisamur út í og taka við hlutverki Slóvena þar. Ástæðan fyrst og fremst sú að ef litið er á leikmannahóp Lettana kemur í ljós að hann er veikari en leikmannahópur til dæmis Íslands. Stærsta stjarna Lettana er meiðslabangsinn Marian Pahars og frægð hans er töluvert minni en Eiðs Smára og jafnvel Hemma Hreiðars. Aðrir eru flestir enn í Lettlandi eða með einhverjum smáliðum Evrópu, nema þeir séu grónir við varamannabekki klúbba á stærðargráðu Fulham. Eitt hefur þó verið talið til sem styrkleiki Lettana, sú staðreynd að kjarninn í liðinu leikur saman með Skonto Riga í heimalandinu og ýmsir aðrir hafa spilað þar áður en þeir fóru í víking. Það er þó reynslan að slíkt hefur aðallega verið styrkur í forkeppninni, samanber þegar Sovéska liðið var Dynamo Kiev plús tveir og þegar Frakkar léku sama leik með firnasterkt Marseille-liðið fyrir áratug. Í forkeppninni hafa landslið nefnilega ekki nema örfáa daga oft til að spila sig saman, þá hjálpar mikið ef einhver kjarni kemur frá sama klúbbnum. Það skiptir þó miklu minna máli þegar út í stóru keppnirnar er komið, þá eru leikmenn saman í einhverjar vikur og landsliðsþjálfararnir fá loksins nógan tíma með menn til að móta lið. Þá er jafnvel hugsanlegt að það að vera alltaf með sömu félögum úr gamla klúbbnum fari að vinna á móti mönnum, hálfgert tilbreytingarleysi bara. Það verður þó ekki af Lettum tekið að þeir slógu út besta lið síðasta heimsmeistaramóts, Tyrki – en þeir eru komnir eins langt og þeir komast. Samt ástæða til að læra af árangri þeirra og vona að Íslendingar nái einhverntímann að jafna hann, þeir hafa nefnilega meira en burði til þess ef þeir eru heppnir með andstæðinga og eiga einn, tvo glansleiki.

Spá: Happy just to be there.

Lykilmenn: Senterarnir Marian Pahars og Tyrkjabaninn Maris Verpakovskis fyrir utan dáleiðslukraftinn í eitíshárgreiðslu nokkurra manna.
Þýskaland - D - riðill

Best að horfast í augu við staðreyndir – lið sem er yfirspilað á Laugardalsvelli verður ekki Evrópumeistari innan við ári seinna. Germanir eru með hörkuþjálfara sem Rudi Völler er og óbilandi baráttu þegar í alvöruna er komið en ef för þeirra í úrslitaleik HM fyrir tveimur árum er skoðuð sést að hún var ekki sérstaklega torsótt. Kamerúnar eru að vísu með hörkulið sem komst aldrei í gang á síðasta Heimsmeistaramóti en önnur lið sem Þjóðverjar unnu? Saudi-Arabía, Paraguay, Bandaríkin og Suður-Kórea. Allt lið sem teldist algjört slys að tapa fyrir frá sjónahóli a.m.k. helmings liðanna í EM. Vel að merkja þá var mikið um slík slys á HM fyrir tveimur árum – sem ef eitthvað er eykur líkurnar á að þessi EM verði eftir bókinni, særðir risar eru hættulegir. Kannski verður 5-1 tapið fyrir Rúmenum til að þjappa Þjóðverjum saman eins og jafnstórt tap liðsins fyrir Tjöllum fyrir HM – en þessi kynslóð Þjóðverja er bara ekki nógu sterk. Oliver Kahn var maðurinn sem kom þeim í úrslit HM og er þar af leiðandi ósnertanlegur þó hann sé á niðurleið, eins er Jens Lehmann mistækur. Eiginlega hef ég mesta trú á Timo Hildebrand í markinu en það er nokkuð ljóst að strákur sá er þriðji í goggunarröðinni – en ef hinir tveir fari ekki að hysja upp um sig buxurnar gæti hann verið orðinn númer eitt í HM 2006 í Vaterlandinu góða. Eins er vörnin spurningamerki, Chrisian Wörns er traustur en félagi hans í miðverðinum, Jens Nowotny, er búin að vera meira og minna meiddur síðustu tvö ár. Þá er Christoph Metzelder, sem leysti Nowotny af hólmi með glans í HM, meiddur og verður ekki með. Bakverðirnir ungu frá Stuttgart, Hinkel og Lahm, eru vissulega efnilegir en óvíst að þeir séu orðnir nógu góðir enn. Arne Friedrich er sterkur en er nýbúin að fara í gegnum skelfilegt tímabil með Hertu Berlín. Miðjan er hins vegar sterkasti hluti liðsins. Þeir Dietmar Hamann og sérstaklega Torsten Frings hafa komið mjög sterkir upp seinni hluta tímabilsins eftir erfið meiðsli og það er að auki nóg að mönnum að leysa þá af aftast á miðjunni, Jens Jeremias, og meistararnir tveir frá Bremen, Fabian Ernst og Frank Baumann. Fyrir framan þá er svo kóngurinn sjálfur, Michael Ballack, sem þrátt fyrir misjafnt gengi hjá Bayern á eftir að skila sínu í þessari keppni. Bernd Schneider virðist vera að koma upp úr öldudal og gæti verið sterkur með Ballack, báðir geta skorað mörk á góðum degi – en vandamál þýska liðsins er raunar það að þeir eru öllu líklegri til þess en framherjarnir. Miroslav Klose skorar lítið ef andstæðingarnir eru ekki Saudi-Arabía og hefur að auki verið að ströggla í fallbaráttu síðastliðin tvö tímabil. Það sama má segja um Fredi Bobic, í fyrra var hann bjargvættur en í ár er hann varamaður hjá öðru liði í fallbaráttu. Oliver Neuville hefur sömuleiðis þurft að verma bekkinn og þeirra besti senter, Kevin Kuranyi, á ennþá eftir að sýna fram á að hann sé líklegur til að skora þau mörk sem hæfileikar hans verðskulda. Það jákvæða fyrir þýska er þó að það virðist vera sterk kynslóð að koma upp, í fyrsta skipti síðan Matthaus, Klinsmann og co., fyrst og fremst stráklingar sem Felix Magath hefur alið upp hjá Stuttgart og Matthias Sammer hjá Dortmund. Hvort hún verður tilbúin fyrir gestgjafahlutverkið 2006 er þó óvíst, það þætti hins vegar kraftaverk ef hún kæmi Þjóðverjum eitthvað í þessari keppni.

Spá: Eftir harða baráttu sitja þeir eftir, Völler verður ósanngjarnt látinn taka pokann sinn og fráfarandi Keisari Bæjara, Ottmar Hitzfeld, tekur við.

Lykilmenn: Kahn ef hann kemst í gamla haminn, Ballack og Frings.
Holland - D - riðill

Samanlagðir hæfileikar þessa liðs eru jafnmiklir sjálfsagt og hjá Fransmönnum og Ítölum – en þeim hæfileikum er ansi misskipt á milli vallarhluta. Frammi eru þeir með eintómt stórskotalið, Van Niestelrooy, Roy Makaay, Patrick Kluivert og að auki þykir Pierre van Hoijdoonk einn besti super-sub í heimi, svona ekki ósvipað Solskjær helvítinu, alltaf sterkastur af bekknum. Segir sína sögu að vinur Eiðs Smára, Hasselbaink, situr eftir heima. En þarna eru þó vandamál, menn eru með einhverja komplexa í Niðurlöndum um hverjir þessara manna geti spilað saman og lendingin virðist vera sú að hinn efnilegi miðju/sóknarmaður Ajax Rafael Van Der Vaart spilar aftan við Ruud van sem er þá einn frammi. Það kemur ágætlega út þó vissulega sé sárt að sjá alla þessa hæfileikamenn á tréverkinu. Miðjan er einnig sterk, Edgar Davids genginn í endurnýjun lífdaga hjá Barcelona enda hefur Rijkaard alltaf verið einskonar lærifaðir hans, fyrst sem samherji hjá Ajax og seinna sem aðstoðarþjálfari og seinna aðalþjálfari Hollands. Fyrir framan hann verða svo nokkrir kjúklingar sem flestir hákarlar Evrópu eru á eftir, Arjen Robben sem fer til Chelsea í sumar, Wesley Sneijder hjá Ajax og Andy van Der Meyde sem hefur verið frystur fyrsta tímabilið hjá Inter en verður þrátt fyrir það eftirsóttur í sumar. Þó ætti Advocaat að hafa vit á að fórna einhverjum af þessum strákum á bekkinn til að skapa pláss fyrir Clarence Seedorf sem er nú á hátindi ferils síns og er allt annar og stöðugri leikmaður eftir að hann fór til Milan. Heyrist að vísu að einhver meiðsli gætu komið í veg fyrir það. Markmannshanskarnir eru á van Der Saar sem fyrr, ágætur markmaður sem er almennt talinn besti “fótboltamarkmaður” í heimi, þ.e. sá besti í að koma boltanum í spil og sá öruggasti með boltann á tánum. Þar af leiðandi getur hann oft á tíðum spilað eins og hálfgerður sweeper ef Hollendingar þurfa að fórna öllu í sókn. En það er fátt um fína drætti framan við hann og þar liggur stærsti veikleiki Hollendinga. Jaap Stam er að vísu hörkuvarnarmaður en það sem Philip Cocu, Giovanni van Bronckhorst og Boudewijn Zenden – sem allir eiga ágætis möguleika á að fylla hinar varnarstöðurnar – eiga sameiginlegt er að þeir eru allir miðjumenn að upplagi. Ekki traustvekjandi það og enn verra ef hann fer að veita Frank De Boer möguleika á að byrja inná þó hann sé fyrirliði liðsins, svona rétt áður en hann hverfur á elliheimilið í Katar. Helsta von Hollendinga er því sú að þeir stjórni sínum leikjum þannig að sem minnst reyni á brothætta vörnina, fyrir utan það að eilíf ágreiningsmál sem venjulega koma upp á stórmótum verði í lágmarki.

Spá: Komast áfram en á eftir Tékkum sem þýðir að aftur stoppa Ítalir þá, núna í Fjórðungsúrslitunum.

Lykilmenn: Jaap Staam, Davids og Van Niestelrooy
Tékkland D - riðill

Tékkar eru með hörkulið og þjálfarinn Karel Brückner er klassískur Bóhem, hvíthærður og að sögn rammgöldróttur – galdurinn virðist þó fyrst og fremst vera sá að vera mennskari en flestir herstjórarnir kollegar hans. Þeir eru ekki með jafn marga stjörnuleikmenn og Hollendingar en standa þó væntanlega framar því það eru fáir áberandi veikleikar í liðinu. Markmaðurinn Peter Cech er á leiðinni til Chelsea fyrir dágóða summu og þykir fyllilega standa undir því. Vörnin fyrir framan hann er kannski veikasti hluti liðsins en hefur þó verið ágætlega traust. Bakverðirnir, Marek Jankulovski og Zdenek Grygera, eru sterkir en sá síðarnefndi hefur þó lítið fengið að spila með Ajax í vetur. Félagi hans í Amsterdam, Tomas Galasek, er aftastur á miðjunni, vanmetnasti leikmaður liðsins og sá mikilvægasti að því leitinu að það er enginn almennilega tilbúinn að leysa hann af hólmi ef meiðsli eða leikbönn koma upp. Fyrir framan hann er svo gullnáma Tékkana, miðjumenn á borð við Pavel Nedved, Tomas Rosicky og Karel Poborsky. Svo er tröllið Jan Koller frammi – vandamálið er helst hver spilar með honum. Milan Baros er fyrsti kostur en sá stákur er eilíflega meiddur og fyrir utan hann er ekki um auðugan garð að gresja. Það er í raun aðeins einn annar senter Tékka sem eitthvað kveður af, Vratislav Lokvenc, en hann er álíka tröll og Koller og mun aðallega vera notaður til þess að leysa hann af hólmi, ekki til að spila með honum. Hins vegar er miðjumaðurinn Vladimir Smicer jafn vanur því að spila frammi og þó Liverpoolaðdáendum kunni að þykja það ótrúlegt spilar hann ágætlega oft fyrir Tékka. En liðið gæti komist langt, svo framarlega sem allir haldast heilir. Breiddin er mjög takmörkuð og varamennirnir oft tveim klössum fyrir neðan byrjunarliðsmennina.

Spá: Vinna riðilinn eftir harða keppni við Hollendinga og komast í undanúrslit.

Lykilmenn: Nedved vitanlega ásamt Koller og Rosicky.
Búlgaría C - riðill

Slakasta lið riðilsins, enginn Stoichkov lengur. Eftir að sá gamli hætti ásamt flestum félögum sínum hefur Búlgarskur fótbolti verið í öldudal, þeir eru að koma upp úr honum með þokkalegt lið sem er þó ekki að komast í undanúrslit neinna stórmóta eins og forverar þeirra fyrir áratug síðan. Flestir leikmanna liðsins spila í Búlgörsku deildinni og lið þaðan hafa nú ekki verið að gera neinar rósir í Evrópukeppnum undanfarið. Hafa náð að styrkja liðið nokkuð með því að sannfæra nokkra Serba um að þeir væru Búlgarir – ættartengslin eftir sundrun gömlu Júgóslavíu líklega orðin það flókin að þeir ákváðu bara að flýja til Búlgaríu til að móðga engan. Enginn þeirra er þó líklegur til að komast í Serbneska landsliðið sem hefur öllu sterkari mannsskap á hendi en Búlgarir þó þeir sitji heima. Petrovarnir óskyldu á miðjunni eru þó sterkir, Martin traustur og Celtic-maðurinn Stilian Petrov hjartað í liðinu. Frammi er svo vonarstjana Búlgarska boltans, Leverkusenguttinn Dimitar Berbatov. En þessir leikmenn eru umkringdir meðalmönnum að spila í slakri deild sem veldur því að lítið verður dansað í Sofiu þetta sumarið.

Spá: Gætu reitt inn stig en varla sigra. Neðstir.

Lykilmenn: Stilian Petrov, Dimitar Berbatov og Martin Petrov.
Svíþjóð - C - riðill

Sænska liðið verður í harðri baráttu við hið Danska um að fylgja Ítölum áfram – en verður líklega að sætta sig við að horfa á Dani í Fjórðungsúrslitum. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þó liðið sé traust þá vantar alveg þessa Brolin-týpu á miðjuna sem kemur með smá ævintýri til viðbótar við alla verkamennina úr stálverksmiðjunum. Markmaðurinn Andreas Isaksson þykir traustur en gæti verið fullungur en forveri hans, Magnus Hedman, hefur verið í tómu tjóni undanfarin tímabil og er nú orðinn varamaður hins unga Isaksson. Miðvarðaparið er með þeim sterkari í keppninni, Olof Mellberg hefur spilað vel fyrir marga og misjafna stjóra hjá Aston Villa og Michael Svensson hefur komið á óvart hjá Southampton. Bakverðirnir eru ekki í sama klassa en traustir þó og áður en andstæðingarnir komast að þessari vörn þurfa þeir að fara fram hjá Keltanum sterka Johann Mjallby. En fyrir framan hann á miðjunni þá koma helstu veikleikar Svía í ljós. Anders Svensson er fínn í langskotum og berst vel en annars takmarkaður leikmaður og það er svo til marks um leikmannafátækt liðsins á miðjunni að Mikael Nilsson er spáð byrjunarliðssæti. Gimsteinninn á miðjunni er þó ónefndur, snillingurinn frá Arsenal, Fredrik Ljungberg. En því miður fyrir Svía þá á hann ennþá eftir að sýna Arsenal-formið í sænsku treyjunni. Svo er hinn ungi Kim Kallström sem myndi styrkja liðið ef hann byrjar inná en eins og Svía er háttur þá virðast þjálfarateymið ætla að spila þetta öruggt og halda Svensson. Það er líka eitthvað svo sænskt að hafa tvo Svenssona í liðinu. En frammá við verða þeir sterkir, Henrik Larsson náttúrulega kominn til baka og Marcus Allback er andstæða Ljungberg, slappur í ensku deildinni en miklu beittari með landsliðinu. Hann berst um að byrja með Larsson við Zlatan Ibrahamovic, vandræðabarnið í sænskum fótbolta. Ef hann spilar eins og hann best getur þá er hann þeirra besti maður – en það er stórt ef. En eitthvað segir mér að leikur Svía og Dana verði mikilvægasti leikur lokaumferðar riðlakeppninnar, hreinn úrslitaleikur um að komast áfram. Svíarnir verða þar þó væntanlega undir þó naumt verði.

Spá: Koma til með að finna lyktina af Fjórðungsúrslitunum fram á síðustu mínútu. En falla út á slakari markatölu en Danir.

Lykilmenn: Olof Mellberg, töffarinn Fredrick Ljungberg og Henrik Larsson.
Danmörk - C - riðill

Baráttan um annað sætið verður hvergi jafn spennandi og í þessum riðli – það er erfitt að sjá hvað skilur Norðurlandaþjóðirnar tvær að. Þó held ég Danirnir hafi það, þeir fara langt með að vera jafn harðir og Svíarnir og eru ólíkt meira skapandi. Leikaðferðin er óvenjuleg en virðist virka, lykillinn að henni er tvímælalaust Thomas Gravesen sem hreinlega á miðjuna oft á tíðum með Dönum (virðist hins vegar ekki vera nærri því jafn ákveðinn hjá Everton). Hann er ekki bara mikill nagli heldur líka fjandi teknískur og afgangurinn af miðjumönnunum eru snöggir og teknískir þó þeir séu stundum full léttvægir. Þá er Jon Dahl Tomasson yfirburðaleikmaður og seta hans á bekknum hjá Milan segir meira um styrk Ítalíumeistaranna en veikleika Tomasson. Já, og hann er Danskur vel að merkja, hvaða krummaskuði sem bölvaður langalangaafi hans kann að hafa komið frá. Þá virðist félagi hans Ebbe Sand vera að koma til eftir erfitt tímabil en þeir gætu lent í vandræðum ef annarhvor þeirra meiðist enda bekkurinn ekkert sérstaklega sterkur þegar kemur að senterum. Vörnin ætti að vera traust, spurningamerki þó við miðvarðaparið. Rene Henriksen tekinn að reskjast og Martin Laursen ætti að vera á hátindi ferilsins en gæti verið aumur í sitjandanum bíðandi eftir að fá tækifæri til að leysa Nesta eða Maldini af hjá Milan. Arftaki Schmeichels, Thomas Sörensen, hefur svo staðið fyrir sínu. Traust lið, það vantar galdrakarla eins og Laudrup-bræðurna en hins vegar er heildarsvipur liðsins sterkari en áður og þjálfarinn er glöggur og hefur vit á því að nota leikkerfi sem hentar akkúrat fyrir þann hóp sem hann er með í höndunum.

Spá: Komast upp úr riðlinum en verða stoppaðir í Fjórðungsúrslitunum.

Lykilmenn: Thomas Helveg, hakkavélin Thomas Gravesen og Jon Dahl Tomasson.
Ítalía - C - riðill

Eitt sigurstranglegasta lið mótsins. Markverðirnir frábærir eins og venjulega, segir allt að hetja liðsins frá síðustu EM, Fransesco Toldo, er á bekknum þrátt fyrir að ferillinn hafi ef eitthvað er verið á uppleið síðan þá. En Buffon er í sama klassa og hefur traust Trappatoni. Þá er miðvarðarparið, fyrirliðinn Cannovaro og Nesta, það besta í keppninni án nokkurs vafa. En þó er vörnin ekki jafn sterk og áður eftir að Paolo Maldini hætti, þeir hafa marga ágætis bakverði en engan í ótvíræðum heimsklassa. Þá er miðjan að sumu leiti spurningamerki, bestu miðjumennirnir, Milanmennirnir Gennaro Gattuso og Andrea Pirlo, virðast ekki passa inní leikskipulag Trap gamla og Cristiano Zanetti þykir mér ofmetinn leikmaður. En hann er þó líklegur til að byrja ásamt Simone Perrotta og Mauro Camoranesi sem báðir hafa átt slök tímabil í Serie A. En miðjan þarf þó ekki að koma mörgum skikkanlegum sendingum nálægt teig andstæðinganna miðað við mannskapinn í framlínunni. Christian Vieri, feginn að fá frí frá rifrildum sínum hjá Inter, og Alessandro Del Piero með Francesco Totti á hátindi ferilsins fyrir aftan sig, með undrabarnið Antonio Cassano á bekknum. Tel mistök að taka ekki Filippo Inzaghi með en það kemur varla til með að breyta miklu. En ef miðjan verður skikkanleg þá þurfa Ítalir ekki að hafa áhyggjur, mennirnir fremst og aftast eru yfirburðamenn og líklega mun leikaðferð Trap ganga út á það að fá sem mest út úr þessum styrkleikum. Að lokum rétt að benda á það er eingöngu leiðitöm þjóðsaga að Ítalir spili leiðinlegan fótbolta.

Spá: Vinna riðilinn og stoppa á sama stað og síðast – gegn Frökkum í úrslitaleiknum.

Lykilmenn: Nesta heldur vörninni saman á meðan Totti og Vieri sjá um að skora.
Sviss - B - riðill

Lið sem er þegar komið lengra en búast hefði mátt við. Óvæntur árangur Basel í Meistaradeildinni fyrir ári síðan virðist hafa verið Svissneskum fótbolta vítamínssprauta. Yakin bræðurnir eru hjartað í Svissneska liðinu, Murat í vörninni og Hakan í sókninni, en þeir hafa átt við meiðsli að stríða sem gætu veikt liðið mikið. Aðrir menn í vörninni eru miðlungsmenn og markmennirnir hafa verið í óstuði. Johann Vogel frá PSV er gott akkeri á miðjunni bak við leikstjórnandann Hakan Yakin en kantmennirnir eru engir snillingar. Senteraparið gæti hins vegar komið ágætlega út, Alexander Frei verið heitur í frönsku deildinni og Chapusiat var nú einu sinni í heimsklassa. Orðinn gamall og hægur en samt mikilvægur enn.

Spá: Mjög jöfn barátta við Króata um 3 sætið.

Lykilmenn: Yakin-bræðurnir eru hjartað í liðinu, Johann Vogel akkerið og Alexander Frei eina raunhæfa vonin um mörk.
Króatía - B - riðill

Sterk liðsheild en ekki jafn mikið um afburða einstaklinga og undanfarin ár. Í gegnum árin hefur staða leikstjórnanda verið styrkur Króatanna, Boban, Prosinecki og Asanovic börðust um stöðuna – nú er enginn til staðar og og Niko Kovac er í stöðunni þó hann eigi í raun heima aftar á miðjunni. Miðjan er raunar veikleiki liðsins, heilt yfir miðlungsmenn. Markmaðurinn Stipe Pletikosa er hins vegar sterkur og vörnin ágæt með sterkasta mann liðsins, Igor Tudor – sem hefur þó þann galla fjölhæfninnar að enginn virðist vita hvar hann á að spila. Vörnin er líklegri þó að máski þurfi miðjan á honum að halda. Frammi eru þeir svo með einn mesta stemmningskall síðasta tímabils, Dado Prso frá Monaco, sem tók upp á því á 29 ára afmælisdaginn sinn að springa loksins almennilega út. Vantar þó klassamann með honum. Liðið gæti komist langt á stemningunni – en er líklega hreinlega of veikt til nokkurs annars en að berjast við Sviss um að sleppa við botnsætið.

Spá: 3 leikir og búið.

Lykilmenn: Foringinn Igor Tudor, stemmningskallinn Dado Prso og Stipe Pletiklosa í markinu.
England - B - riðill

Það hefði verið fyrirgefanlegt að tapa 6-1 fyrir Frökkum, Spánverjum eða Hollendingum – en ekki fyrir þessu miðlungsliði. Jú, þeir eiga séns á að vinna keppnina ef allt gengur upp – og þá meina ég allt. En þeir eru slakari en bæði Portúgalir og Spánverjar, sem líklega eiga eftir að fella þá í Fjórðungsúrslitunum. Miðjan er að vísu frábær þó það séu ákveðin spurningarmerki hvernig hún verður skipuð. Nicky Butt er traustur leikmaður, ekki í heimsklassa kannski en leysir sitt hlutverk vel og leyfir skapandi mönnunum í kringum sig að njóta sín. Kryddstrákurinn Beckham spilar ólíkt betur með landsliðinu en félagsliðunum í seinni tíð og Gerrard og Lampard áttu einfaldlega báðir frábært tímabil. Scholes kannski ekki gert miklar rósir nýlega en menn vita hvað litli naggurinn getur. Þá er Bæjarinn Owen Hargeaves afskaplega vanmetinn leikmaður, svona rétt eins og Joe Cole er ofmetinn.
En aðrar stöður í liðinu eru vandamál. David James hefur staðið sig þokkalega en áttum okkur samt á því að hann féll í fyrra með West Ham og markmenn 2 og 3, Paul Robinson og Ian Walker (sem á ekki erindi í þessa keppni) féllu í vor. Þetta segir sína sögu. Þá er vörnin, aðalstyrkur liðsins í HM, þunnskipuð. Hún verður í lagi ef enginn meiðsli bætast við, Sol Campbell, John Terry og Ashley Cole eru hörkuleikmenn og Neville greppitrýnið hefur gert merkilega fáar gloríur undanfarið. En á meðan Cole hefur ágætis varamann í Wayne Bridge þá er ekki um auðugan garð að gresja þess utan á bekknum – Ledley King og Jamie Carragher eru menn sem ekki ber að leita til nema í hallæri – sem gæti vel orðið tilfellið. Eins er sóknin vandamál, þrátt fyrir smá þurkatímabil í vetur er Owen frábær framherji – en það vantar alvörumann með honum. Wayne Rooney er efnilegur, ekki meira en það, ofmetinn raunar. Vassell sterkur þá sjaldnan hann er í stuði. Emile Heskey? Varla. Jermain Defoe hefði verið ágætis kostur, finnst hann líklegri en Rooney til þess að festa sig í sessi sem alvöru skorari í framtíðinni. Sem sagt, brothætt enskt lið sem má teljast heppið að Sviss og Króatía séu ekki sterkari en raun ber vitni. Þó er ótalinn einn verulegur styrkur, Eriksson sjálfur, þjálfari sem kann sitt fag hvað sem öllu fjölmiðlafári líður. En er hann nógu snjall til þess að gera heimsklassalið úr landsliði sem er alls ekki með nógu marga heimsklassaleikmenn? Þó er helst ein ástæða fyrir því að ég væri alveg til í að sjá enska liðið renna á rassinn – þessi óþolandi tilhneyging íslenska íþróttafréttamanna að tala um enska liðið – og ensk félagslið raunar yfir höfuð – eins og um sé að ræða okkar lið, strákana okkar. Það er meira segja gengið svo langt að þegar við mætum þeim í fótboltaleik þá leggjumst við kurteislega niður svo þessar elskur fari nú ekki að meiðast. Spurning hvort þjóðin hefði snúið baki við landsliðinu ef Brynjar Björn hefði verið til staðar til að sparka Beckham út úr EM?

Spá: Fara upp úr riðlinum en verða stoppaðir strax eftir það.

Lykilmenn: Sol Campbell, foringi varnarinnar, Michael Owen – eini alvöru senterinn, Steven Gerrard og Frank Lampard ef hann verður í byrjunarliðinu.
Frakkland - B - riðill

Frakkar eru með besta lið í heimi, svo einfalt er það. Hafa verið það í níu ár af undanskildum nokkrum vikum í Kóreu. Voru með besta liðið í EM 96 þar sem tapliðin í vítakeppni undanúrslitanna (Frakkar og Englendingar) hefðu verið verðugri úrslitaleikur en litlaus lið Þjóðverja og Tékka. Unnu HM 98 og 2000 sanngjarnt og hafa verið besta liðið á milli móta að auki. En um leið og slysið í Kóreu hvetur þá áfram þá getur það líka grafið undan sjálfstrausti ef eitthvað klikkar – menn byrja að spyrja sig hvort sagan sé að endurtaka sig – og einmitt slíkar spurningar eru kveikjan að því. En það voru ástæður fyrir því að Frakkar klikkuðu í síðustu HM, í mínum huga fyrst og fremst þrjár ástæður – aðeins einni þeirri þarf að hafa áhyggjur af núna. Sú fyrsta var einfaldlega meiðsli – tveir bestu skapandi miðjumenn Frakka, Zidane og Pires, voru meiddir og það vantaði einhvern í staðinn og einmitt þarna á vellinum sá maður mestan mun á gömlu frönsku mulningsvélinni og því taugaveiklaða liði sem sást í keppninni. Þar gerði Lemerre þó mistök með því að velja ekki bestu kostinn þá til þess að leysa þá af, Eric Carriere. Micoud var hreinlega ekki nógu góður og einn minn uppáhaldsleikmaður, Djorkaeff, því miður kominn yfir hátindinn. Þessi vandræði verða varla til staðar nú, bæði Zidane og Pires eru heilir og eins er frábær leikmaður eins og Jerome Rothen frá Monaco til taks á bekknum – Ludovic Guily félagi hans á hinum kantinum því miður meiddur. Eins eru varnarsinnaðri miðjumennirnir sterkari en fyrr, Vieira orðinn leiðtogi í liðinu og Makelele orðinn óumdeildur með honum – Pedretti og Dacourt svo mjög sterkir á bekknum. Miðjan því í raun án veikleika, 7 yfirburðamenn til taks.
Annað vandamál á HM var þráhyggja Lemerre að leika aðeins með einn framherja. Það var í raun arfleifð frá EM 96 og HM 98 þar sem helsti veikleiki Frakka var að þá vantaði almennilega sentera, Henry, Trezeguet og Anelka voru enn bara efnilegir og þeir reyndari handónýtir – senterinn sem byrjaði inná í úrslitaleik HM 98 fyrir Frakka var til dæmis einhver ónýtasti leikmaður keppninnar. En nú eru Frakkar með Henry og Trezeguet, eitthvert besta framherjapar keppninar. Að vísu er breiddin ekki alveg nóg þarna, helst að Saha geti leyst þá af hólmi en Anelka ekki í náðinni og Cisse í banni.
Markvarslan ætti varla að vera vandamál án þess þó að vera sérstakur styrkur, það skemmtilega við Fabian Barthez er nefnilega að hann gerir helst bara gloríur með Manchester United eða gegn Íslandi. Annars er hann oftast traustur. En eitt vandamál er þó enn til staðar – hjarta varnarinnar. Þó hinn vitavonlausi Lebouf sé blessunarlega farinn þá eru spurningamerki við Marcel Desailly. Einn minn uppáhaldsleikmaður síðan hann tætti Barcelona í sig í einhverju mesta bursti í sögu Meistaradeildarinnar fyrir tíu árum – en það er spurning hvort þetta sé einu stórmóti of mikið. Þeir eru með menn í stöðuna, félagi hans hjá Chelsea, William Gallas, og Mickael Silvestre eru báðir tilbúnir þó hvorugur sé sá leiðtogi sem Desailly er. Það er Lilian Thuram hins vegar og miðvörður er hans besta staða þó oftast hafi hann spilað á kantinum fyrir Frakka. Bæjarinn Willy Sagnol getur þó leyst hann af þar og fráfarndi félagi hans hjá Münchenarveldinu, Bixante Lizarazu, er sterkur á hinum kantinum.
Sem sagt, ákveðin spurningamerki í vörninni en að öðru leiti lið með heimsklassamenn í öllum stöðum, þar með talið á bekknum. Gæti þó verið tvíbennt hvernig áhrif ákvörðun Santini þjálfara að fara til Tottenham eftir mótið hefur á liðið. En þeir fara langt, líklega alla leið.

Spá: Vinna riðilinn – og mótið.

Lykilmenn: Margir leiðtogar hér, Thuram í vörninni, Vieira og Zidane á miðjunni og Henry frammi.
Grikkland - A - riðill

Grikkir eru með óvæntari liðum til þess að komast til Portúgal, þeir hitta hér fyrir Spánverja aftur sem hafa væntanlega lært sína lexíu og eru líklegir til þess að ná fram hefndum. Það merkilega er þó að vandamál Gríska liðsins í gegnum tíðina hefur verið það sama og hjá Spánverjum, ólíkt flestum öðrum þjóðum þá hafa leikmenn oft meiri metnað fyrir hönd félagsliða sinna en landsliðsins. Það hefur þó mikið skánað undanfarið á Spáni eftir því sem erjur veldistíma Franco verða fjarlægari og það er loksins að breytast í Grikklandi, mikið til fyrir tilstuðlan þýska þjálfarans Rehagel – en munurinn á þeim og Spánverjum er þó sá að þeir eru ekki með nándar nærri eins sterka leikmenn. Vörnin er þó traust þó þar séu engir heimsklassaleikmenn frekar en annars staðar í liðinu, þeir fóru í gegnum síðustu sex leiki forkeppninnar án þess að fá á sig mark og hafa verið illsigranlegir í vináttuleikjum undanfarið. En vandamálið er hinsvegar það að þeir skoruðu einungis 8 mörk í jafnmörgum leikjum.

Spá: Neðstir í riðlinum en sleppa líklega við þá martröð sem þeir lentu í síðast þegar þeir komust á stórmót (HM 94) þar sem þeir fengu ekkert stig og markatalan var 0-10 – meira að segja Maradona, kominn á grafarbakkann sem hann hefur verið á síðan, með mark gegn þeim. Núna líklegri til þess að gera markalaust jafntefli eða tapa 1-0.

Lykilmenn: Stelios Giannakopoulos stórstjarna frá Bolton verður mikilvægur, senterinn Demis Nikolaidis frá Atletico er svo eina von þeirra um að setja mark. Varnarjaxlinn frá Roma, Traianos Dellas, þó aðalmaðurinn, bæði bindur hann vörnina saman og eins þá lítur hann alveg eins út og Grísk myndastytta.
Rússland - A - riðill

Rússar koma til með að berjast við Grikki um 3. sætið. Fyrir ári síðan töldust þeir líklegir til að sitja heima, nýbúnir að þola niðurlægingu í Albaníu og Georgíu. Já, fyrir rétt rúmu ári síðan voru Rússar að tapa í smáríki sem taldist til veigaminni eininga í hinu mikla heimsveldi þeirra fyrir ekki nema einum og hálfum áratug síðan. En þegar þjálfarinn fauk þá fékk einhver þá snilldarhugmynd að ráða einhvern sem var ekki upptekinn við að þjálfa eitt af stóru Moskvuliðunum. Þannig að eftir að þjálfarar Spartak og Lokomotiv höfðu skipst á að þjálfa landsliðið í frítímanum þá var loksins ráðinn maður sem gat einbeitt sér algerlega að landsliðinu, Georgi Yartsev, sem náði að sameina sundurleitan leikmannahóp og koma þeim til Portúgals fjallabaksleiðina. Þó voru andstæðingarnir vissulega engin stórskotalið, traust en veigalítil lið á borð við Írland, Sviss og Wales. En Rússneski björninn er að rumska, hann er varla orðinn nógu vel vaknaður til þess að komast fram hjá Íberíuliðunum tveimur, besti maður liðsins er Alexander Mostovoi – sem er að verða 36 ára í sumarlok og er nýfallinn með Celta Vigo á Spáni. Aðrir spila flestir í Rússnesku deildinni. Sú deild er þó heilmikið að styrkjast enda miklir peningar að koma þangað inn, sterkir Austur-Evrópskir leikmenn frá t.d. Tékklandi eða gömlu Júgóslavíuríkjunum sem áður hefðu farið til Vestur-Evrópu eru í ríkari mæli að taka gylliboðum frá Moskvu og Rússarnir sjálfir eru tregari til þess að yfirgefa heimahagana en áður. Það gæti verið tvíbennt, sterk Rússnesk deild ætti að styrkja liðið en ekki þó ef bestu leikmenn Rússa staðna þar.

Spá: Rétt merja Grikki í baráttunni um þriðja sætið.

Lykilmenn: Mostovoi þrátt fyrir aldurinn, Marat Izmailov er mesta efni Rússa og svo er Dmitri Alenichev líklega með tíu sinnum meira sjálftraust en aðrir í liðinu eftir að hafa skorað í úrslitaleik meistaradeildarinnar – fyrir utan það að hann er á heimavelli.
Spánn - A - riðill

Spánverjar eru líklegir til þess að stefna á undanúrslitin, Fjórðungsúrslitin eru þeirra grýla og þar hafa þeir stoppað á 4 af síðustu 5 mótum. Þeir hafa með sér að vera nærri því á heimavelli – lausir við pressuna sem heimamenn í Portúgal mega þola en í kunnuglegu loftslagi Íberíuskagans og örugglega með marga stuðningsmenn með sér.
Og liðið er firnasterkt, líklega vanmetið í öllu tali um líklega sigurvegara. Markvarslan var lengi vandamál Spánverja eftir að Zubizareta gamli fór að dala, nú eru þeir hins vegar með tvo afburða markverði í Casillas og Canizares, að mínu mati 2 af 4 bestu markmönnum keppninar – hinir tveir eru báðir ítalskir. Vörnin fyrir framan þá er hins vegar veikasti hlekkur liðsins, væntanlega tveir þar úr gatasigtinu sem vörn Real Madrid var síðasta tímabil og Marchena, sem var varla sterkasti hlekkurinn í sterkri vörn Valencia. Besti varnarmaður Spánar er án vafa Carles Puyol, leikmaður sem er bestur í miðri vörninni en Spánverjar neyðast til þess að nota hann í vinstri bakverðinum því það er enginn annar til þess að leysa þá stöðu.
Miðjan er hins vegar stórkostleg, David Albelda og Ruben Baraja frá Spánarmeisturum Valencia einhverjir mestu harðjaxlar Evrópu og Xabi Alonso er með einhverjar nákvæmustu sendingar í álfunni. Eina vandamálið er hvaða tveir af þessum byrja inná. Kantmennirnir eru ekki síðri, Vicente hjá Valencia besti leikmaður Spánar undanfarna mánuði, Joseba Etxeberria það traustur að hann heldur Joaquin (líklegur super-sub) út úr byrjunarliðinu og Jose Antonio Reyes komst ekki einu sinni í hópinn – það segir í raun allt um styrkinn þarna.
Það sem gæti svo ráðið úrslitum er svo hver spilar með Raúl frammi. Flest bendir til þess að það verði Juan Carlos Valeron – sem væru mistök. Ekki nóg með að Valeron sé ofmetinn þá er myndi það þýða að hann yrði djúpur og Raúl fremstur – en Raúl nýtur sín ekkert sérstaklega vel fremstur, hann þarf að hafa ekta senter með sér uppi til að gefa á eða draga athyglina frá sér þegar hann sólar sig í gegnum vörnina. Þar væri held ég Morientes vænlegasti kosturinn en af einhverjum ástæðum virðast Spánverjar aldrei almennilega kunna að meta þann leikmann – spurning hvort það breytist eftir að hann kvittaði fyrir sig í vetur gegn sínum gömlu félögum í Real? Ungstirnið Fernando Torres væri líka góður kostur.
Að öllu eðlilegu ættu Spánverjar að geta náð langt, þeir lentu í vandræðum í riðlakeppninni og þurftu aldrei þessu vant að fara í umspil til þess að komast áfram – en það á væntanlega eftir að vera kostur frekar en hitt. Umspilið virðist nefnilega vera fínasti undirbúningur fyrir stórmót, t.d. fóru bæði Þjóðverjar, Tyrkir og Írar í gegnum umspil fyrir HM og náðu miklu betri árangri en liðin sem urðu fyrir ofan þau í forkeppninni. Lykilinn af því að komast í undanúrslitin fyrir Spánverja er þó fyrst og fremst sá að forðast Frakkana í fjórðungsúrslitum, í síðustu EM voru þeir tvímælalaust sterkasta liðið sem datt út í Fjórðungsúrslitum, einmitt út af því að þeir mættu Frökkum. Gæti gerst aftur, sé þá hins vegar ekki lenda í vandræðum með Englendinga.

Spá: Komast áfram en stoppa í Fjórðungsúrslitum.

Lykilmenn: Raúl vitanlega, Casillas í markinu og miðjan eins og hún leggur sig, einfaldlega spurning hver verður í stuði þar.
Portúgal A-riðill

Portúgalir eru á heimavelli, hafa þjálfarann sem gerði Brasilíu að heimsmeisturum og gamla snillinga á borð við Luis Figo og Rui Costa auk efnilegra stráka á borð við Cristiano Ronaldo, Queresma og ýmsa leikmenn Evrópumeistara Porto. En vandamál liðsins er fyrst og fremst aldurinn; það eru mjög fáir leikmenn í þessu liði á besta aldri. Figo er enn mjög sterkur þó hann sé kominn yfir sitt besta, Rui Costa og Fernando Couto eru á síðustu metrunum – þessir þrír eru í raun þeir síðustu sem eftir eru af þessari frægu gullkynslóð sem vann öll unglingamót á sínum tíma og kom Portúgölum í undanúrslitin á EM fyrir 4 árum. Menn eins og Juao Pinto og Vitor Baia eru ekki í náðinni og aðrir jafnvel hættir. En það virðist vera að koma upp nýir, sterkir árgangar – en það er varla að þeir strákar verði tilbúnir fyrir EM. Það vantar fleiri leikmenn á þessum toppaldri fótboltamanna, 25-30, þú vinnur sjaldnast mikið með stráklingum og gamalmennum. Þó gætu Portúgalar verið ein af undantekningunum, þjálfarinn sannaði sig með Brasilíulið sem sjaldan hafa verið ólíklegri sigurvegarar og hæfileikarnir eru til staðar, ef þeir eru orðnir nógu þroskaðir hjá þeim yngri og ef þeir gömlu ná að kreysta síðustu galdrana úr skónum þá er aldrei að vita. Einnig gæti sigur Porto í meistaradeildinni haft mikið að segja, það lið verður kjarninn í liðinu sem verður svo skreytt nokkrum stjörnum öðrum. Portoliðið er raunar ekki dæmigert Portúgalskt lið, aðalsmerki þess var aginn frekar en einstaklingsframtakið sem venjulega einkennir Portúgalska landsliðið. Eins er ákveðið vandamál hvort þrír sterkustu leikmenn liðsins, Figo, Costa og Deco, séu ekki of svipaðir leikmenn til þess að vera allir inná í einu, framliggjandi miðjumenn vantar aldrei hjá Portúgal en hins vegar er aftari hluti liðsins meira spurningamerki, traustir leikmenn en fæstir í heimsklassa.
Þá er óvíst hvaða áhrif heimavöllurinn hefur, verður hann óþarfa byrði eða hvatning? Sjálfsagt blanda af báðu, eftir því hvernig gengur. Hvað sem öllu líður ætti liðið að komast örugglega áfram úr riðlinum, líklega stoppa þeir í undanúrslitunum eins og flestir gestgjafar undanfarinna stórmóta – eitthvað sem enginn getur kvartað yfir en enginn yrði neitt sérstaklega ánægður með heldur.

Spá:

Vinna riðilinn, komast í undanúrslit.

Lykilmenn:

Figo auðvitað, Deco (eina stjarna þeirra á besta aldri) og Pauleta, markaskorarinn sem Portúgala hefur svo oft vantað.
Mættur aftur, netleysi hrjáð mig í Reykjavíkinni sökum stirðleika Háskólaskriffinskubáknsins. En það er komið í lag og þess vegna er rétt að gleðja alla anti-sportistana sem lesa þessa síðu með ýtarlegri umfjöllun um EM.