mánudagur, maí 30, 2005

Þrælakistur Íslendinga

Þegar ég var í unglingavinnunni fyrir fimmtán árum þá fékk ég 7 eða 8 þúsundkall á tveggja vikna fresti fyrir það að reita arfa (eða þykjast reita ímyndaðan arfa) og gera fleira skemmtilegt í 3 tíma á dag. Mér fannst það ekki mikið þá og mér finnst það óskiljanlega lítið núna. En það er eitthvað svipað og fullorðin Kínverji fær á mánuði fyrir að vinna sextíu tíma vinnuviku fyrir alla góðu Íslensku auðjöfrana í Qingdao nú fimmtán árum af verðbólgu síðar.

Formúlan fyrir því að nýta sér alþjóðavæðinguna til að græða pening er einföld. Annað hvort að flytja inn ódýrt vinnuafl frá fátækari löndum sem um leið þýðir að innlendir verkamenn hafa ekki tök á að semja um jafn há laun og annars. Eða hreinlega fara þangað sem þetta ódýra erlenda vinnuafl er og vinna vöruna þar, til þess að bregðast við því þá þurfa væntanlega innlendu verkamennirnir að lækka við sig í launum til þess að vera samkeppnishæfir. Og tryggja að þrátt fyrir allt vinnuaflið í milljarðaríkjunum ríku þá haldist meirihluti fjármagnsins sem fyrr í heimi númer eitt.

Kynþáttafordómar eru almennt taldir mestir meðal lægst launuðu stéttanna. Það eru engir alþingismenn í félagi þjóðernissinna. En í raun er þetta aðeins sýnilegast þarna, rasistar í verkalýðsstétt smellpassa í ímynd okkar af rasistum, þeir básúna um ágæti eigin kynþáttar og tala illa um hina, beita þá jafnvel ofbeldi. En í raun eru þeir aðeins að enduróma raunverulegt álit framámanna þjóðfélagsins. Kynþáttafordómar eru ósköp eðlileg niðurstaða þegar þeir sem hafa völdin sjá útlendinga fyrst og fremst sem markaðstækifæri, ekki sem fólk með sögu og menningu sem mætti læra af. Það sorglega er að sjálfur forseti landsins virðist hafa slegist í lið með þeim.

Alþjóðavæðingin er í raun sem slík mjög jákvætt fyrirbæri, enda eru landamæri einhver ömurlegasta uppfinning mannskepnunar. En það eru ennþá leikreglur til staðar í alþjóðavæddum heimi og það vantar ansi mikið uppá að þær séu sanngjarnar.

Mæli svo með fínni grein Guðna Elíssonar um þetta í síðustu Lesbók (síða 2) sem var vissulega kveikjan af þessu ranti öllu.
Stundum getur tölfræði í fótbolta verið ótrúlega skemmtileg. Dæmi:

Wayne Rooney, Alan Smith, Ruud van Niestelrooij og Louis Saha voru keyptir til Manchester United fyrir um 65 milljónir punda. Þeir skoruðu samtals 24 mörk í vetur. Diego Forlan var seldur frá Manchester United fyrir 2,5 milljónir punda. Hann er búin að skora 24 mörk í vetur.

laugardagur, maí 28, 2005

Note to Self

Passa að lið sem kemur í heimsókn fari ekki að fikta í msn-inu. Annars er hætt við að aldraðir foreldrar hringi í öngum sínum og haldi að ég hafi komið út úr skápnum alveg án þess að láta þau vita. Annars var þetta náttúrulega ekkert annað en óskhyggja í Eddie.

föstudagur, maí 27, 2005

Tímabelti

Grafarvogsbúinn Eddie Spænski ætlaði að kíkja hingað klukkan hálf í bjór. Tekur sérstaklega fram að hann sé venjulega fashionably early. Hringir svo auðvitað klukkan hálf og segist hafa verið að klára að borða og sé á leiðinni. Sem sannar náttúrulega bara að 101 er í allt öðru tímabelti.

Sálgreining og býflugur

Er að spá í leiðbeinendum fyrir MA - verkefnið. MA - verkefnið í minni grein er í eðli sínu þverfaglegt og það er vesen þegar maður ber ábyrgð á því að velja leiðbeinandann sjálfur. Þetta var miklu einfaldara með BA - ritgerðina þegar ég var búin að sálgreina alla sem komu til greina. Fólkið sem ég er að spá í núna hef ég í mesta lagi talað við í tíu mínútur, þá sem ég hef hitt.

En það er náttúrulega bara meira challenge fyrir sálgreiningarhæfileikana ... annars gleymdi ég að segja ykkur að ég drap býflugu í morgun sem villtist hingað inn og vakti mig. Sumarið komið? Hún má þó eiga það að það voru minni læti í henni en nágrönnunum í kjallaranum þegar þeir vekja mig. Enda myndi ég berja þá með Mogganum líka ef þeir laumuðust hingað inn.
Ég var búin að gleyma hvað Sopranos er ótrúlega slappur þáttur. Af hverju halda allir að ódýrar stereotýpur séu djúpar um leið og umfjöllunarefnið er mafían? Það versta var að þátturinn í kvöld var ágætur framan af þangað til að honum var slaufað á ótrúlega billegan hátt.

þriðjudagur, maí 24, 2005

Mig langar að vera borgarstjóraefni

Er maður nokkuð maður með mönnum þessa dagana nema maður lýsi þessu yfir opinberlega?

mánudagur, maí 23, 2005

Helgin

Besta Star Wars-mynd frá upphafi vega, Arsenal bikarmeistari, gervallt uppalið Íslands í sárum eftir Júró og Gísli Marteinn lýsir keppninni aldrei aftur. Svona eiga helgar að vera. Svo fór ég náttúrulega á Krókinn á föstudag, búinn að vera á leiðinni í allan vetur. Þetta var bara mjög fínt þangað til þau byrjuðu að syngja, þökk sé Júdas. En náði að bjarga því fyrir horn með hvítrússnesku bolsévíka rödduninni sem ég uppgötvaði um kvöldið. Því miður var það ekki nóg til að þagga niðrí þessum elskum, en allavega ... Já, og svo benti þýskukennarinn mér á að ég væri að syngja síðasta sigurlag þeirra í Evróvisjón sem "örlítill friður, örlítið sæði" sem mér finnst nú bara fallegt og viðeigandi þegar maður hugsar útí það. Síðan hafa þau öll elst allsvakalega á einu ári, eftir grillveisluna í Fljótunum þá var ég eini maðurinn sem hafði orku í að fara á Kaffi Krók. Lét því miður ekki verða af því að skreppa einn, þó ekki væri nema til þess eins að banka svo uppá hjá vistarverðinum klukkan sex að morgni.

föstudagur, maí 20, 2005

Sauðárkrókur, Akureyri

You want to begin again.
Pretend you're innocent.
If you believe,
you can convince yourself.
I'm sure you can convince yourself.

This town never gave you much back.
Just rumors and a whispering attack.
This town is not your friend.
Never mind the loose ends.

Take me with you when you go now.
Don't leave me alone.


- Morphine

Fer á Krókinn í fyrramálið, hef ekki kíkt í heimsókn síðan síðasta vetri lauk. Vantar örfáa daga uppá árið. Síðan heim til Akureyrar, þaðan hef ég ekki komið síðan um jól. Er sem sagt búin að eyða alltof löngum tíma í þessari ekkisens borg sem sumarið þykist stundum ætla að heimsækja.

Annars ýmislegt forvitnilegt í farvatninu. Er hins vegar alltof hjátrúarfullur til að greina frá því, vil ekki grugga farvatnið með sviknum loforðum. Þangað til, Stjörnustríð, Eurovision og Drangey. "Anakin, I'm your father." Það má alltaf vona. Já, og Kaffi Krókur auðvitað. Það verður dansað en vonandi ekki sungið.

Íslendingar

Íslendingar þegar þeir vinna ekki eitthvað:

Við skiljum bara ekkert í þessu, af hverju elska ekki allir okkur? Af hverju eru Austur-Evrópa full af öllu þessu vonda fólki sem kýs okkur aldrei heldur kjósa bara hvort annað? Ekki gera Norðurlöndin svona ... Já, og svo er þetta bara helvítis sirkus. Nema að í sirkus er hellingur af ljónum og fleiri skynsömum skepnum sem bíta hausinn af þér ef þú stendur þig ekki eða ert í asnalegum fötum.

Fyrir utan það að fáir hafa jafnmikinn áhuga á þessum sirkus og einmitt Íslendingar.

Sem dæmi:

Hvað eru margir fjölmiðlamenn héðan á Eurovision?

og hvað eru margir fjölmiðlamenn héðan á Cannes?

Og hvort mun fólk frekar muna eftir Selmu eða Degi Kára eftir hundrað ár? Æ, ég veit það ekki. Eins og stemningin á þessu skeri er stundum þá hef ég mestar áhyggjur af því að við eigum bara eftir að muna eftir Gísla Marteini.

miðvikudagur, maí 18, 2005

Star Wars í réttri röð

Starf á videoleigum er væntanlega ekkert brjálæðislega vel borgað þannig að það er líklega óþarfi að gera óþarflega miklar kröfur til starfsmanna, til dæmis er ekki óalgengt að þurfa að stafa nöfn mynda ofan í starfsmennina. En þegar viðkomandi starfsmaður er ekki alveg að átta sig á hvaða mynd þessi Phantom Menace er þá er fokið í flest skjól. En myndin fannst þó þannig að nú er kominn tími á að horfa á Stjörnustríð loksins í réttri röð. Þá er bara að vona að 3 kafli verði jafn góður og af er látið. Núna er ég hins vegar að vona að ég hafi misskilið Krukku Krukku á sínum tíma.

laugardagur, maí 14, 2005

Öfugsnúin þróunaraðstoð

Ég hreinlega næ ekki uppí nef mér yfir þessum bjánalega flugvélarskatti sem Evrópusambandið ætlar að setja á til þess afla fés til aðstoðar vanþróaðri ríkjum (Skv. fréttum Stöðvar 2 áðan). Ég tek fram að ég sé ekkert af því að einhver skattur sé lagður á okkur í velferðarríkjunum til þróunarmála, sérstaklega í ljósi þess hve stór hluti ástandsins þar er okkar sök. Þetta er bara einhver öfugsnúnasti staður sem hugsast getur til þess að taka peninginn. Ef verð á flugferðum hækkar þá verður fólk ólíklegra til þess að ferðast, þ.á.m. til vanþróaðra ríkja. Fólk sem hefur ekki komið til vanþróaðra ríkja er almennt skeytingarlausara um hlutskipti þeirra en þeir sem hafa komið, þannig fúnkerar nú einu sinni bara mannsskepnan oftast. Þessu til viðbótar þá er þetta kostnaður sem fellur að einhverju leyti á vanþróuðu ríkin sjálf, íbúar þeirra þurfa að hafa enn rýmri fjárráð en áður til þess að eiga þess einhvern kost að ferðast eða flytja til annarra landa. Þannig að í staðinn fyrir þessar krónur sem vanþróaðar þjóðir fá fyrir þennan fyrirhugaða skatt þá eykst aðskilnaður á milli fyrsta heimsins og þess þriðja enn meir.

fimmtudagur, maí 12, 2005

Popularity Slut

Þetta er það sem ég man fyrst úr útvarpi: Vinsældarlisti Rásar 2. Ég taldi niður og skrifaði nöfn laga og flytjanda og hvar þau voru þá og hvar núna. Ekki á einfalt stílabókarblað, ó nei. Þess í stað tók ég hvítt A4 blað, braut það nokkrum sinnum saman þangað til ég var kominn með sextán reiti hvorum meginn, 32 alls, og hver reitur var fyrir eitt lag. Topplagið fékk svo heila þrjá reiti.

Hvorki þá né nú hef ég trúað þeirri firru að vinsældir segi neitt til um hvort lag sé gott eða ekki (þó vonandi ekki fallið í þá gryfju að halda að vinsældir geri hlutina eitthvað endilega vonda), ég hafði einfaldlega einhverja skrítna þráhyggju gagnvart listum sem mér fannst afskaplega heillandi. Fann einhverja fróun í því að setja heiminn í eitthvað þægilegt samhengi – og bíða í ofvæni hvort það væri það samhengi sem ég vonaðist til? Eða einhver undarleg föndurárátta? Veit það ekki, allavega man ég að seinna meir þegar ég var orðinn eldri og þóttist vera orðinn aðeins svalari var High Fidelity með öllum sínum topp fimm listum aðeins tækifæri fyrir mig til þess að koma út úr skápnum með þetta.

Skiptir fjöldinn máli?

Var að frétta að Indlandsforesti, Dr. A.P.J. Abdul Kalam, kemur í heimsókn til Íslands fljótlega. Eins og sjálfsagt flestir Íslendingar hafði ég ekki hugmynd um hvað Indlandsforseti, með sinn rúmlega milljarð af þegnum, hét. Er hins vegar endalaust að óskapast yfir Bandaríkjaforsetum með sínar 300 milljónir. Segir manni ýmislegt.

Siðaskrá DV

Siðaskrá DV var kynnt um daginn. Mest er þetta óttalegt miðjumoð en sérstaklega fór það í taugarnar á mér hvernig þeir misnota orðið ritskoðun, orð sem fjölmiðlar ættu fyrstir allra að tryggja að glati ekki gildi sínu. Ritskoðun: „Enginn fær sent afrit af óbirtum fréttum.“ Lesist: Það fær enginn að lesa yfir viðtal við sjálfan sig. Það er ekki ritskoðun að láta lesa yfir fyrir sig. Það er ekki ritskoðun ef ég sendi einhverjum ritgerð sem ég hef klárað útúrsyfjaður eftir vökunótt, það eru vönduð vinnubrögð. Það sama gildir á dagblaði, blaðamaður hefur einfaldlega oftast minna vit á efninu heldur en viðmældandinn enda blaðamenn einatt að hafa samband við meinta sérfræðinga. Ætti ég kannski að taka viðtal við kjarneðlisfræðing og þykjast vita allt um kjarneðlisfræði eftir það þannig að engin ástæða væri til þess að láta hann fara yfir það til að koma í veg fyrir hugsanlegar rangfærslur?
Ég hef tekið þónokkur viðtöl, þegar ég hef sent þau á viðmælanda hefur niðurstaðan einatt orðið sú sama – (ef einhverju er breytt, oftast koma viðtölin óbreytt til baka) yfirlesturinn er báðum til hags, þær breytingar – ef einhverjar eru – sem viðmælendur gera eru iðulega til þess að gera viðtalið mun betra. Fólk sér eitthvað sem það hefði getað orðað betur en blaðamaður treysti sér ekki til að breyta til að forðast þar rangfærslur. Enda líklegt að viðmælandinn sé betur að sér í efninu, það er viðkvæmara ef ég fer að krukka í annarra manna hugsun en mína eigin. Vissulega getur komið fyrir að einhver vilji ekki kannast við eitthvað sem hann sagði eftir á, stjórnmálamaður missi eitthvað út úr sér eða sérfræðingur vilji halda orðfærinu sem tyrfnustu o.s.frv. Þá er vissulega fullkomlega eðlilegt að blaðamaður áskilji sér rétt til þess að ráða endanlegri gerð viðtalsins, enda er viðmælandinn vissulega ábyrgur orða sinna – orða sem eru iðullega á segulbandi skv. öðru ákvæði í siðaskránni.
En þeir taka þó fram að óheimilt sé að misnota bréfsefni blaðsins. Sem er gott.

Bakarísljóð

Skrifa ljóð í bakaríi, finna mér bók sem tekur þrjú kortér að lesa eða senda súkkulaði til Danmerkur voru tillögurnar við hugmyndaleysi mínu í gær. Það bendir allt til þess að lesendur mínir séu upp til hópa stórhættulegir sérvitringar. Takes one to know one. Og ekki halda að bakarísljóð séu meinlaus. Við vitum öll að nokkur atómljóð geta lagt heimsbyggðina í eyði. ímyndið ykkur þá bara hverslags usla bakarísljóð gætu valdið. Annars endaði ég á því að horfa á fyrstu þrjá þættina á Lost í endursýningu þar sem þeir höfðu algjörlega farið fram hjá mér hingað til. Ef maður kemst ekki til suðurhafseyja sjálfur sökum blankheita þá getur kassinn alltaf reddað manni.

Var annars að skrifa bréf sem ég er búinn að vera með í maganum, harðort bréf. Af hverju er maður svona skilyrtur til þess að svara ekki fyrir sig þegar einhverjir sem gætu hugsanlega ráðið mann í vinnu misbjóða manni með þeim vinnubrögðum sem einatt eru höfð við mannaráðningar hér á þessu skeri?

miðvikudagur, maí 11, 2005

Búinn með öll verkefni og veit barasta ekkert hvað ég á að mér að gera. Hugmyndir?

þriðjudagur, maí 10, 2005

Handrukkarana á launaskrá!

Var að sjá mánudags DV. Þar er frétt um að Lalli Johns hafi ekki fengið krónu fyrir myndina um sig. Svo virðist sem blaðinu lýtist ágætlega á það að viðföng heimildarmynda fari nú að fá borgað fyrir viðvikið. Væri þá í framhaldi af því ekki eðlilegt að allt þetta fólk sem kemur í viðtal til DV fari að fá borgað fyrir það? Hestariðillinn og fleira góðu fólki veitir örugglega ekkert af peningunum og kattakonan hefði nú eiginlega átt að vera á launaskrá síðasta sumar. Þá er nokkuð ljóst að allir þessir krimmar sem DV er að fjalla um getur nú snúið af glæpabrautinni þegar þeir eru komnir í fullt starf við að vera í viðtölum við DV.

Broadcast News

Horfði á þessa ágætu mynd í fyrsta skipti í langan tíma um daginn. Vakti sérstaka athygli hvað Holly Hunter hefur fríkkað með árunum, þarna er hún eingöngu í meðallagi sæt en er hins vegar margfalt fallegri nú í dag, 47 ára. Hugsanlega má kenna tísku níunda áratugarins um.

En það sem stakk mig var þó hve Tom (William Hurt) óx í áliti á kostnað Aaron (Albert Brooks). Vissulega er Tom dæmi um eitthvað sem ég hef engu síðri óbeit á en þau Jane (Hunter) og Aaron, fréttamanni sem hefur komist langt út af öllu öðru en hæfileikum (þó virðist það hafa eitthvað með útlit að gera þarna, hérna á klakanum snýst þetta meira um klíkuskap). En málið er bara það að fréttin sem Tom gerir alveg einn – og á að vera dæmi um hversu ómerkilegur hann er – er ekki alveg að virka. Í fyrsta lagi þá lætur Aaron að því liggja að þetta sé ekki alvöru frétt. Þetta er vel að merkja um þolendur kunningjanauðgana, alls ekki léttvæg kynlífsfrétt eins og Aaron gefur í skyn og algjörlega valid sem slík. Við þetta bætist hins vegar að undir lokin fer Jane að skoða upprunalega útgáfu fréttarinnar og þá kemur í ljós að tár Toms voru tekin eftir á – þó í sömu töku – enda aðeins ein myndavél á staðnum. Verður kella bálreið og talar um svik við fréttamannastéttina og algjöran skort á siðgæði o.s.frv. En þó vissulega megi setja spurningamerki við þetta þá er þetta ekki sú hrikalega fölsun sem Jane vill vera láta, frétt er jú aldrei algjörlega raunveruleikinn sjálfur. Það breytir á engan hátt inntaki fréttarinnar þó Tom gráti né sannleiksgildi hennar. Það er eins og Jane haldi að þau séu að gera Dogma-mynd. Þetta er hugsanlega yfirsjón, en hún er smávægileg enda skiptir hún í raun engu máli – nema hún gæti jafnvel vakið einhvern til umhugsunar um mikilvægt málefni.

Fyrir utan þennan veikleika – og eitístískuna náttúrulega – þá er myndin mjög fín sýn á mismunandi starsmenn á fréttastofu og þá pólitík sem þar viðgengst. Ekkert ósvipuð The Insider en kannski hversdagslegri, það er ekkert eitt stórmál sem allt velltur á.

„Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig / ef þú meinar ekki neitt með því“

Eitt forvitnilegt, með áherslu á forvitninilegt, þegar ég var uppá Mogga fyrir nokkru. Fólk horfir á mann. Maður er vanur því, sérstaklega hér í borginni, að fólk sem þekkir mann ekki horfi í gegnum mann, maður er rétt eins og ljósastaurarnir, bara viðbót við umhverfið. Við gerum þetta öll til að komast af í fjölmenninu, flestir sem þú hittir fara í einhvern stóran flokk „ókunnugra“ – fólk sem situr í sömu strætóum, keyrir um sömu götur og verslar í sömu búðum – en er samt ekkert nema draugar sem óvart búa í sömu borg og þú. Einstaka sinnum hins vegar þá hittir maður fólk sem er með radarinn uppi, fólk sem maður skynjar að taki eftir manni. Stundum er maður með radarinn uppi sjálfur, tekur eftir öðrum. Kjarni málsins er einfaldlega þessi, fólk er misforvitið um annað fólk. Sumt fólk er langoftast með kveikt á radarnum, flest fólk er sjaldnast með kveikt á honum. En sjaldan hef ég skynjað jafn mikinn fjölda fólks sem hafði áhuga á öðru fólki og uppi á Mogga, einmitt það hvernig horft var á mig þótti mér jákvæðustu merkin um heilsu blaðsins. Þau meina nefnilega eitthvað með þessu öllu saman.

Er sem sagt að slaufa lausum endum með nám vetrarins þegar þessi minning kom upp. Get vissulega sagt ýmislegt neikvætt um Moggann líka en sjáum til hvað við gerum með það ;)

Er enginn að hlusta?

Í samræðum við Snilling nokkurn þá áttaði ég mig loksins á efni hins skothelda fyrirlesturs. Fyrirlestur um erfiðleika þess að halda fyrirlestur þegar enginn hlustar á mann. Þetta getur ekki klikkað hvernig sem þú lítur á það.

Annars eru ágætis líkur á að það fari að lifna aðeins yfir þessari síðu. Jafnvel möguleiki að það fari að lifna aðeins yfir mér. Bjartsýnustu menn telja jafnvel að hugsanlega sé vorið komið.

föstudagur, maí 06, 2005

Náðarkraftur

Var að lesa Náðarkraft og skrifa um hana fyrir skólann, nenni ekki að gera það hérna. Læt bara þessar tilvitnanir fylgja, báðar mjög kunnuglegar:

"... enda væri alþingi svosem ekki annað en málfundafélag fólks sem væri fast í eilífðarmenntaskóla með tilheyrandi fundaskapavitleysu, þrasi og tildragelsi."

"Og nú þegar þá langaði til þess að hjala áttu þeir erfitt með að brjótast í gegnum þagnarmúra hins algjöra gagnkvæma skilnings bestu vina."

fimmtudagur, maí 05, 2005

Það er furðulegt stílbragð að hefja grein á tilvitnun, góðri tilvitnun, sem sýnir betur en nokkuð annað hvílík endemis della afgangurinn af greininni er. Svo veit maður ómögulega hvort um er að ræða innsmyglun algjörrar snilldar eða hrapalegan misskilning greinahöfundar.
Sex dagar liðnir og loksins sér einhver ástæðu til þess að kvarta við mig yfir bloggleysi. Ég treysti því að þetta sé út af því að fólk sé svona dannað.