mánudagur, mars 31, 2003

Geðheilsa

Ég hef talað óvenju mikið við sjálfan mig undanfarið, varla að maður geti sofið orðið fyrir eigin röfli. Þetta er auðvitað afar jákvætt - ekkert er traustara merki um andlegt heilbrigði en að heyra raddir í hausnum.

miðvikudagur, mars 26, 2003

Skilnaðarkettir

Ég fékk smá móral yfir því að þurfa að flytja þegar Sólon nuggaði sig upp við mig á meðan Leó horfði einkennilega á mig úr sófanum. Hvernig get ég útskýrt fyrir þeim að við Áslaug séum bara samleigjendur og að þeir geti ekki klórað gula hægindastólinn eftir að ég er farinn?
Kók vs. kaffi

Einhverjar konur frá Manneldisráði voru með þá hugmynd í Kastljósinu í gær að leggja gjald á gosdrykki svipað og er gert með áfengi og tóbak. Einmitt, á sama tíma og hægt er að fá kaffi með öllu sínu koffíni frítt á næstum hverjum einasta vinnustað landsins. Orðið fyrir svona málflutning er hræsni. Og ég bít hausinn af næsta manni sem reynir að halda því fram að kók sé drykkur kapítalistanna þegar kapítalistarnir sýna svona greinilegan vilja til þess að við þömbum kaffi allan liðlangan daginn að þeir hreinlega splæsa því á fólk.
Martröð bókavarðanna

Ætli Bjartur hafi frétt af því að þessi skötu-hjú séu að byrja / byrjuð í bókasafnsfræði? Ritstjórnarstefnan bendir a.m.k. til þess ...

mánudagur, mars 24, 2003

Sorglegt þegar menn eru að gagnrýna ákveðanar greinar þó allt bendi til þess að þeir hafi ekki lesið þær, aðeins skannað þær yfir til að finna tilvísanir í vefritið sem þeir skrifa á.
Bryndís Hlöðversdóttir reynir á vef sínum að afsaka stuðning samfylkingarinnar við loftárásir Bandaríkjamanna í Kosovo og leggur mikið upp úr því að það stríð hafi verið til að koma í veg fyrir þjóðarmorð. En eru ekki líka þjóðarmorð á Kúrdum í Írak? Í hvorugu tilfellinu var öryggisráð SÞ samþykkt aðgerðunum, í báðum tilfellum eru Bandaríkin að hlutast til um innanlandsmál, í fyrra tilfellinu meira að segja að taka afstöðu í borgarastríði þar sem bróðir barðist gegn bróðir og eftir áratugs kaos ákváðu vestrænir fjölmiðlar að einfalda þetta með því að búa til einn vonda kall - og aðeins einn - þannig að Sámur frændi gæti reddað málunum. Ef eitthvað er var enn erfiðara að réttlæta þá vitleysu en það stríð sem nú er í gangi. En auðvitað fylgir Samfylkingin skoðanakönnunnum ...
Þakkarræða Michael Moore:

Whoa. On behalf of our producers Kathleen Glynn and Michael Donovan from Canada, I'd like to thank the Academy for this. I have invited my fellow documentary nominees on the stage with us, and we would like to — they're here in solidarity with me because we like nonfiction. We like nonfiction and we live in fictitious times. We live in the time where we have fictitious election results that elects a fictitious president. We live in a time where we have a man sending us to war for fictitious reasons. Whether it's the fictition of duct tape or fictition of orange alerts we are against this war, Mr. Bush. Shame on you, Mr. Bush, shame on you. And any time you got the Pope and the Dixie Chicks against you, your time is up. Thank you very much.

sunnudagur, mars 23, 2003

Besta mynd:

Hér er ákveðið vandamál, það er engin til að halda með – eða á móti. Það eru allar myndirnar góðar án þess þó að nein kveiki í manni. The Pianist er mjög hrá og það er bæði styrkur hennar og veikleiki, The Two Towers líður aðeins fyrir að vera miðkaflinn, brilljant sem slíkur en takmörkuð sem stök mynd. Gangs of New York var góð og hefði kannski kveikt í mér ef við hefðum verið í betri sætum, það á að banna að selja í fremstu sætin í þessum litlu sölum. Chicago kom mér á óvart, ekki djúp kannski en það er líka ádeilan í þessu öllu saman, höfðað til lægstu hvata áhorfenda um leið og hún er ádeila á þá. Sem gengur vel upp en gerir myndina ansi hjartalausa ef John C. Reilly er undanskilin – og hann leikur jú ósýnilega manninn. Svo er það The Hours sem er um margt góð, vel leikin og allt það en það er samt eitthvað verulega að bögga mig við hana. Líklega það að vissir karakterar eru að drepast úr sjálfsvorkun. Kidman og að einhverju leiti Streep hafa kannski efni á því, Moore og sérstaklega Harris (sérstaklega sem krakki) eru einfaldlega fyrirsjáanlegir vælukjóar. Það að vera samkynhneigður á röngum tíma eða vera að deyja úr alnæmi er örugglega ekkert auðvelt en það er ekki afsökun fyrir algjörum skorti á manndómi, því miður hefur maður á tilfinningunni að kvikmyndagerðarmönnunum finnist það. Helst að Claire Danes lífgi uppá myndina, sem og ástkonur Woolf og Streep – en því miður eru þær persónur ekki á tjaldinu nema örfáar mínútur.
En hvað um það, styttan fer væntanlega til Chicago, engin myndana finnst mér í raun verðug. Það voru þó nokkrar myndir á þessu ári. Insomnia, sérstaklega synd að Pacino fékk ekki tilnefningu, Minority Report, Adaptation, About Schmidt, The 25th Hour og jafnvel Punch-Drunk Love. Plús Lilja-4-ever og Y tu mama tambien. Þrátt fyrir þessar myndir er niðurstaðan samt sú sama og í fyrra, frekar slappt bíóár. Sem er synd því eftir gott ár 98 fylgdi árgangurinn 99. Að Matrix undanskilinni var árið rólegt framan af en síðan komu Sixth Sense, Fight Club, Magnolia, American Beauty, Being John Malkovich, The Insider, Man on the Moon og Boys Don’t Cry og það virtist eitthvað stórkostlegt og splunkunýtt og spennandi vera að gerast í draumaborginni. Árið eftir gerðist það meira að segja að íslenskar myndir fóru að verða góðar. En það sem maður vonaði að væri bylting var víst bara bóla, einstaka snilld síðan þá vissulega eins og Crouching Tiger, Hidden Dragon, Memento, Donnie Darko, Amelie, You Can Count on Me, Lord of the Rings og fleiri sem ég er að gleyma en heilt yfir öguð meðalmennska. Kannski verður árið í ár betra. Ang Lee með Hulk, Matrix 2 og 3, Lord of the Rings og loksins ný mynd eftir Peter Weir, Master and Commander. En mestu snilldarverkin gera sjaldnast boð á undan sér þannig að ég get lítið annað en beðið færis að skrifa sambærilegar hugleiðingar að ári. En í kvöld verður mulið snakk og barist um veðbankann heima hjá Stöðvar 2 áskrifanda í Grafarvogi ef ekkert klikkar.

Besti leikstjóri:

Hable con Ella er ekki tilnefnd sem besta mynd þannig að við getum afskrifað Almodovar strax. Billy Elliot var frábær frumraun Stephen Daldry, The Hours er mun síðri og þó Rob Marshall eigi góðan séns þá er Chicago mun líklegri fyrir að vinna fyrir bestu mynd. En hér verður baráttan á milli risanna Scorsese og Polanski. Hvorugur hefur unnið og Hollywood finnst henni skulda þeim. Það ræður væntanlega úrslitum að hvert einasta ár er það notað til að sanna ómerkilegheit óskarsins að Martin Scorsese hafi aldrei unnið. Akademían notar tækifærið og hreinsar sig af þeim ásökunum með að gefa Marty gamla styttu. Sjálfum finnst mér kallinn að vísu hrikalega ofmetinn. Goodfellas gerði ekkert fyrir mig, endirinn á Taxi Driver eyðilagði ágæta ræmu og The Age of Innocence eru einhver best leiknu leiðindi allra tíma. Last Temptation of Christ kom mér að vísu á óvart, mjög sterk mynd þrátt fyrir marga galla. En Gangs of New York kom mér á óvart, fyrsta myndin sem ég hef séð þar sem mér þykir Scorsese kallinn standa undir öllu lofinu sem nafnið kallar venjulega á.
Besti leikari:

Hef ekki séð Caine í The Quiet American en hann gæti vel komið á óvart. Brody er mjög traustur sem Píanistinn en samt ekki alveg í sama klassa og Nicolas Cage, Daniel Day-Lewis og Jack Nicholson. Cage rændi verðlaununum af Sean Penn fyrir nokkrum árum, hefur verið ömurlegur (að Face/Off undanskilinni) síðan en ætti alveg skilið að vinna núna fyrir Adaptation. En mér finnst hann samt ólíklegastur þeirra allra. En líklega er þetta einvígi á milli Day-Lewis fyrir Gangs of New York og Nicholson fyrir About Schmidt fyrir að fara á kostum í mjög ólíkum hlutverkum. Akademían er heilt yfir frekar jafnréttissinnuð þegar kemur að leikurum og það vinnur á móti Nicholson að hafa unnið þrisvar nú þegar. Þannig að ég spá Day-Lewis sigri og þögulli þakkarræðu.
Besta leikkona:

Það hefur mikið verið haft á orði að þetta sé eitt besta ár fyrir leikkonur í manna minnum. Ég get því miður ekki sagt að það endurspeglist í tilnefningunum hér. Virginíu Woolf-hlutinn er langsterkastur í hinni þrískiptu The Hours og Nicole Kidman örlitlu sterkari en hinar aðalleikkonurnar tvær. Það eru líka allar líkur á að Nicole vinni þessi verðlaun þó ég voni frekar að hún vinni þau seinna fyrir snilldarframmistöðu eins og í Moulin Rouge (þó vonandi í mynd sem er ekki jafn vond og Rauða myllan) heldur en hér. Helst að Reneé Zellwegger (Chicago) eða Julianne Moore (Far From Heaven) geti stoppað hana. Far From Heaven hef ég ekki séð en Zellwegger sem mér fannst einu sinni vanmetin (Jerry Maguire) er núna að nálgast það að vera ofmetin. Diane Lane á eftir að gjalda fyrir það að engum virtist finnast myndin Unfaithful góð þó öllum finndist hún stórkostleg í henni. Langbesta leikkona ársins er þó Salma Hayek sem Frida. Myndin var köflótt en góð en ástríðan, krafturinn og mannviskan sem geislaði af Sölmu var ósvikinn. Þegar ég má loks vera að því að þiggja öll þessi heimboð sem ég hef í Hollywood þá verða hún og Edward Norton fremst í flokki leikarapara sem ég mundi kíkja í kaffi til – ásamt Paul Newman & Joanne Woodward og Tim Robbins & Susan Sarandon. En óskarstyttan endar á heimili Nicole. Sem er náttúrulega single og það er jákvætt …
Besta aukaleikari:

Það var skandall þegar Ed Harris vann ekki þessi verðlaun fyrir Truman Show. Það væri ennþá meiri skandall ef hann fengi þau nú. Það er helst að Chris Cooper (Adaptation) eða Christopher Walken (Catch Me If You Can) geti skákað honum og þeir eru báðir verðugir. En bestir eru þó Paul Newman í Road to Perdition og John C. Reilly í Chicago. Sérstaklega Reilly sem er hinn hljóðláti ósýnilegi maður innanum allar prímadonnurnar í Chicago. Semsagt, ég vona ekki Harris, held með Reilly og Newman en býst við Cooper.
Besta aukaleikkona:

Það furðulega við aukaleikarakategóríurnar er það að ef aðalleikari villist þangað er hann líklegur til að vinna. Það er ástæðan fyrir að Catherine Zeta-Jones (Chicago) er sigurstrangleg og möguleikar Kathy Bates (About Schmidt) og Queen Latifah (Chicago) eru afar litlir. Þó gæti sú síðarnefnda vissulega stolið atkvæðum frá Zeta-Jones frá óákveðnum Chicago-aðdáendum. Sem gæti hjálpað Julianne Moore (The Hours) og Meryl Streep (Adaptation) sem eru í aukahlutverkum af “eðlilegri” stærð og hafa sömuleiðis báðar fengið mikið lof fyrir aðalhlutverk í öðrum myndum þetta árið. Venjulega leiðist mér madam Meryl en það er eins og hún hafi látið niður hárið þetta árið, engin hreimur eða vesen, bara hrein unun að því að leika skemmtilega karaktera. Hún er fyrir það fyrsta miklu fallegri fyrir vikið og um leið væntanlega einni styttunni ríkari.
Besta handrit byggt á áður birtu efni:

Hér er Chicago varla líkleg þrátt fyrir ágætis vinnu Bill Condon. Heldur ekki handrit Ronald Harwood að Píanistanum. Ég ætla að vona að Peter Hedges og Weitz-bræðurnir fái ekki styttu fyrir að gera hina frábæru bók About a Boy að eingöngu þokkalegri mynd – þó ætti höfuðkostur þeirrar myndar Hugh Grant jafnvel skilið styttu fyrir sinn leik. David Hare samdi handrit við The Hours sem flestir töldu ófilmanlega og það gerir hann líkast til sigurstranglegan. En mig grunar að mínir menn, Kaufman-tvíburarnir, vinni fyrir Adaptation. Ég lofa aftur á móti ekki 100 % mætingu.

Besta frumsamda handrit:

Tvö handritin, Hable con ella eftir Pedro Almodóvar og Y tu mamá también eftir Alfonso Cuarón & Carlos Cuarón eru á spænsku sem gerir líklega út um möguleika þeirra. Sú síðari væri þó verðugasti sigurvegarinn og ekki er handrit Almodovars mikið síðra. Nia Vardalos gæti haldið áfram að koma á óvart með My Big Fat Greek Wedding en þó þykir mér Todd Haynes sigurstranglegastur fyrir Far From Heaven. Flestir spá að vísu Gangs of New York sigri en ég efast um að ég sé sá eini sem læt það trufla mig að hún sé ekki í hinum handritaflokknum. Gleymdu allir bókinni sem kveikti áhuga Scorsese til að byrja með? Þó myndin sé að sögn orðin gjörólík bókinni þá efast ég um að breytingin sé meiri en hjá Adaptation sem er tilnefnd fyrir aðlagað handrit. Eins virkar ótraustvekjandi að handritshöfundarnir séu þrír – þó vissulega sé um hálfgert dream-team að ræða, Zaillian sem á meðal annars heiðurinn af handriti Schindler’s List og Kenneth Lonnergan sem leikstýrði og skrifaði þá alltof sjaldséðu perlu You Can Count on Me. Jay Cocks er minna þekktur en ku víst eiga meiri heiður af.
Besta erlenda mynd:

Þessi flokkur kom langmest á óvart. Það voru nefnilega aldrei þessu vant ansi margar erlendar myndir sem höfðu vakið töluverða athygli áður en tilnefningarnar voru tilkynntar – engin þeirra var á meðal hinna tilnefndu. Almodovar-myndin Hable con Ella var tilnefnd fyrir leikstjórn og handrit og hin yndislega mexíkóska Og móðir þín líka (Y Tu Mama Tambien) eftir Alfonso Cuaron fyrir handrit - en þær voru ekki tilnefndar af eigin löndum, stundum eru það aðeins reglum akademíunnar en ekki vali hennar um að kenna. Hefði til dæmis Ísland ekki átt betri séns með 101 Reykjavík heldur en Englana? Við eigum að minnsta kosti óvenju góðan séns ef við höfum vit á að senda Nóa, ég veit ekki hvort svíar höfðu vit á að senda Lilja-4-ever sem er ekki bara áhrifamikil hryllingssaga um illsku mannsins heldur líka inná milli ferskandi óður til lífsgleði hans. Ég man bara að þeir gengu fram hjá Moodyson fyrir síðustu mynd hans, hina meistaralegu Tilsammans, fyrir hina vissulega ágætu Jalla Jalla. Einnig hefur Gullborgin brasilíska verið hlaðin lofi á hátíðum og samkvæmt bresku akademíunni var Stríðsmaðurinn besta breska mynd síðasta árs og sú er á indversku. En þær sem tilnefndar eru hefur maður lítið heyrt um nema Maður án fortíðar. Sú er ágæt en samt full erkitýpískur Kaurismaki. Kaurismaki er fínn en í Maður án fortíðar eru skrítnir Finnir settir innámilli jafnskrítinna Finna og allir með sama grafalvarlega húmorinn. Sem er fínt en það vantar samt þetta skrítin-fíll-í-postulínsbúð element sem til dæmis Leningrad Cowboys Go To America hafði. Samt held ég að Aki hafi þetta. Verst að hann ætlar að skrópa í mótmælaskyni þannig að vonandi verður einhver Leningradkúreki á staðnum til að ná í styttuna.
Tækniverðlaunin:

Jafnvel verstu bíónördar (ég þar á meðal) hafa afskaplega takmarkað vit á sumum tækniverðlaununum. Þar af leiðir að það sem skiptir máli í tækniverðlaununum er ekki endilega gæðin, heldur frekar hvort klippingin / tónlistin / búningahönnunin etc. sé áberandi í myndinni. Einnig eru stóru verðlaunamyndirnar gjarnar á að sópa nokkrum litlum óskurum með sér. Conrad L. Hall heitin á skilið verðlaunin fyrir Road to Perdition, myndin er gölluð en myndatakan er stórfengleg og frumleg til jafns. Þó eiga Gangs of New York og The Pianist réttilega góðan séns fyrir áhrifamiklar tökur en ég held mig við Conrad. Fyrir listræna stjórn er Frida ólíklegust en um leið verðugust, málaralist Fridu Kahlo er mjög hugvitsamlega blandað inní myndina í stað þess að láta hana endalaust tjá tilfinningar sínar með orðum. Gangs of New York á séns en ég spái Chicago sigri.
Gangs ... ætti aftur á móti að vinna fyrir búningahönnun og samkeppni Fridu fyrir bestu förðun er Tímavélin, mynd sem allir sem sáu hötuðu, enough said, Frida fær verðlaunin þarna sem hún ætti að fá fyrir listræna stjórnun. The Hours hefur þá sérstöðu að klippingin er mjög áberandi, nokkuð sem er frekar óalgengt þegar um drama er að ræða. Ólíkt ýmsu öðru í myndinni gengur klippingin mjög vel upp og skilar sjálfsagt óskar. Chicago fyrir hljóð og The Two Towers fyrir hljóðbrellur, þetta er þó alltaf skot út í loftið enda fæstar stórar Hollywoodmyndir nú til dags með neitt minna en fullkomið hljóð. Ef vissir aðrir þættir væru komnir jafnlangt … Ofurdramatísk tónlist Philip Glass fyrir The Hours er líkleg til sigurs en ég hef einhverja tilfinningu fyrir að Elmer Bernstein vinni fyrir Far From Heaven. The Two Towers ætti að hafa sigur fyrir tæknibrellur. Keppnin um besta lagið er svo óvenju athyglisverð þetta árið, U2, Eminem og Paul Simon meðal annara. Það væri gaman að sjá Eminem taka við verðlaunum en ólíklegt, “The Hands That Built America” er solid U2 lag en ekkert meira en ætti samt að vinna, helst að “I Move On” úr Chicago ógni því, það hjálpar að vera úr söngleik.
Öðruvísi myndir:

Það er að segja heimildarmyndir, stuttmyndir og teiknimyndir. Það er erfitt að spá og enn erfiðara að hafa skoðun því að umtalið og áhorfið um þessar myndir er í lágmarki. Í teiknuðum stuttmyndunum spái ég "Mt. Head" sigri fyrir að vera með sniðugasta nafnið og í leiknum stuttmyndum "Johnny Flynton" fyrir að virðast vera sú eina á ensku. Jamm, þetta er svona vísindalegt – þó ber að geta að til þess að geta kosið um þessi verðlaun þá þarf að vera búinn að sjá allar myndirnar. Spurning hvort að þetta ráðist á atkvæði eins manns eins og íslensku bókmenntaverðlaunin um tíma? Fyrir bestu stuttu heimildamyndina er "Twin Towers" líkleg af augljósum ástæðum og í heimildamynd í fullri lengd er Bowling for Columbine afskaplega ólíkleg til þess að vinna sem besta heimildamynd í fullri lengd. Heimildamyndir sem vekja athygli og fá jafnvel aðsókn eru nefnilega oftast ekki einu sinni tilnefndar, að þessu leiti virkar þessi flokkur öfugt við flesta hina. En ég ætla samt að spá henni sigri því mig grunar að Michael Moore sé lunkin kall og veit að hann mun njóta sín í botn á verðlaunapallinum og mun hneykslast á stefnu Bandaríkjastjórnar í svona þrjá klukkutíma ef honum verður hleypt upp á svið.
Teiknimyndir sé ég miklu minna af en áður eftir að íslenskir bíóstjórar tóku upp á þeim ósið að döbba þær í gríð og erg. Árið var ekki merkilegt í þeim geira heyrist mér og því ætti Ice Age – sem hefði ekki átt séns undanfarin ár – að vera giska örugg. Lilo & Stitch á smáséns sem og sú japanska – hinar tvær eiga enga von.
Írónía kvöldsins:

Undanfarið hefur helsta umræðuefnið verið hryðjuverkin við Persaflóa og því skondið að heiðursverðlaunin að þessu sinni fara til Peter O’Toole – sjálfs Arabíu Lawrence. Fátt yrði meira viðeigandi en ef að hann hefði eitthvað um utanríkisstefnu Bandaríkjanna að segja. Það gæti verið aukaspá um hverjir tjá sig um heimsmálin í verðlaunaræðum sínum, það er ljóst að Daniel Day-Lewis, Kirsten Dunst, Adrien Brody, Dustin Hoffman, Susan Sarandon, Edward Norton, Salma Hayek, Jim Carrey, Ben Affleck (yfirbót fyrir Pearl Harbor reikna ég með), Jake Gyllenhaal, Maggie Gyllenhaal og meðlimir U2 verða með friðarpinna í mótmælaskyni, Will Smith, Aki Kaurismaki, Cate Blanchett og Peter Jackson sitja heima (óvíst með ástæður nema hjá Kaurismaki) og fleiri eiga sjálfsagt eftir að bætast í hópinn. Já, það er ljóst að stríðið skiptir miklu máli. Það gera kjólarnir hins vegar ekki og árvissar yfirlýsingar um að þeir séu það sem allt snýst um eru eitthvert lífseigasta kjaftæði okkar tíma. Jú, jú, einhverju skipta þeir en hver man hvaða kjól Ingrid Bergman var í 1943? Svona einn á móti hverjum þúsund sem vita að Casablanca var valin besta myndin það árið. Það gildir sama um undanfarin ár, helst að kjólarnir eigi séns þegar sigurmyndin er jafn lítt eftirminnileg og sú sem vann í fyrra. Ekkert á móti kjólum, umræða um þá á bara heima annars staðar. Hilmar Karls á DV fær skömm í hattinn í það að eyða mestum hluta óskarsumræðu helgarblaðsins í þá dellu. En yfir í verðlaunin sjálf. Tilnefningarnar eru hér:
Óskarinn er ein helsta skemmtun allra almennilegra bíónörda. Jafnvel þó hún eigi til að vera smekklaus (A Beautiful Mind, Shakespeare in Love) þá eyðileggur það ekki endilega verðlaunin – væri eitthvað gaman af verðlaunum sem maður þyrfti ekki að rífast yfir? Það er auðvitað nauðsynlegt að hafa séð sem mest af myndunum þó ekki nema til að geta hneykslast eða glaðst á réttum stundum. Verðlaun í listum eru nefnilega nauðsynleg til þess að halda lífi í umræðunni, það getur verið að það sé mismikið að marka þau en þá er um að gera að láta það heyrast ef manni þykir smekkurinn slæmur. Því auðvitað verður endalaust rifist um smekk enda fátt skemmtilegra og hollara. Fær mann til þess að spyrja sig spurninga um listina í stað þess að láta mata sig endalaust. Í tilefni dagsins ætlar Gambrinn að gera uppreisn gegn eigin bloggleti undanfarið og dæla út pistlum um eigin smekk – og spá fyrir um smekk annara – til að koma sér í réttu stemmninguna. Lesendur eru eindregið hvattir til að láta skoðanir sínar í ljós í kommentin eða á ati@hi.is
Venjulega er ég frekar að verja blaðamenn en hitt, en það er eins og fréttasnápar CNN og BBC World Service séu heilaþvegnir af blóðþyrstum ríkisstjórnum sínum. Í gær henti Bandarískur hermaður handsprengju inní liðsforingjatjald eigin hers. Fréttamakonan heima í Bretlandi spurði fréttaskýrenda hvort það gæti verið af því hann sé undir svona miklu álagi? Það hvarflaði alls ekki að henni að spyrja hvort hann væri á móti stríðinu eins og 80 % hins vestræna heims, svo maður tali ekki um aðra heimshluta … ég er ekki hlynntur framferði hermannsins en það er blindur maður sem ekki hefur ákveðin skilning á því.

föstudagur, mars 21, 2003

Á stuttum labbitúr mínum niðrí miðbæ og til baka hitti ég skorarformann bókmenntafræðinnar, háskólarektor og forsætisráðherra. Þetta er ótvírætt merki um að heimsyfirráð mín eru yfirvofandi. Ég var að hugsa um að biðja Davíð bara strax um lykilinn af bílnum hans en svo mundi ég að kallinn er með flensu.
Þeir eru ekki allir steiktir ... en flestir

Fréttamaður CNN: Are you anxious to go in?
Hermaður (hristir hausinn þreytulega): We're ready to go in.

Það ótrúlega var að fréttamaðurinn var alls ekki að skilja muninn. Enda ekki nógu mikið stuð á hermanninum fyrir beina útsendingu.

miðvikudagur, mars 19, 2003

Í auglýsingunni Ungt fólk í samfylkingunni taldi ég þrjá bókmenntafræðinema. Þetta er náttúrulega afskaplega varhugaverð þróun - er atvinnuástandið orðið það slæmt að bókmenntafræðinemar sjá ekki skárri möguleika en að sækja um störf í pólitík?
Ef einhverja kvenkyns lesendur vantar vinnu þá er rétt að benda á þessa auglýsingu.

föstudagur, mars 14, 2003

Fílamaðurinn hefur fengið samkeppni - þökk sé einhverjum óþekktarjaxli er kjálkinn á mér orðinn tvöfaldur. Mér heyrist á Benna tannsa að ég ætti að geta tekið pokann af hausnum á sunnudaginn - þangað til er mér skipað að vera uppdópaður þannig að ef þið hittið mig ráfandi eitthvað um bæinn ekki vera hrædd
Ég var afskaplega hneykslaður á MA og MR að þekkja hvorugt Kötlu Maríu, manneskjuna sem gerði líklega mest til að forða okkur frá orðskrípinu Mexíkói.

sunnudagur, mars 09, 2003

Nói Albíói hefur eins og menn kunna að hafa heyrt fengið fjölda verðlauna, mjög góða umfjöllun bæði gagnrýnanda og áhorfanda og á það skilið ofan í kaupið. En samt heyrir maður að aðsóknin sé með minna móti. Hvað nákvæmlega segir það um bíómenningu okkar Íslendinga?
Einn af ókostum bókmenntanáms og öllu sem því fylgir er að stundum er hætta á að maður verði kaldhæðinn úr hófi fram. En sem betur fer hittir maður stundum á gullmola eins og Nóa Albínóa sem skjóta alla manns kaldhæðni í kaf. Sem er hollt og líka viðeigandi því kaldhæðnin okkar á upptök sín í snjósköflum.
Árshátíðin endaði fyrir framan Grand Rokk þar sem sérlegur farandgítarleikari greinarinnar stóð fyrir götuspilamennsku. Það var falleg leið til að enda kvöldið, ágóðin af spilamennskunni var svo nægur til þess að við hinir allra hörðustu gætum deilt einni pizzu fyrir peninginn. Ein manneskja var algerlega í sínum heimi og fær prik fyrir það. Ýmsir aðrir fá prik fyrir að vera skemmtilegir en af ótta við að gleyma einhverjum sleppi ég upptalningu. Einn var meira að segja skemmtilegur þó hann væri þarna bara í anda eins og vera ber í bókmenntafræðigleðskap. En nú er þetta vonandi orðið óljósara en jafnvel minningar ölvuðustu þátttakenda og því ástæða til að láta staðar numið.

fimmtudagur, mars 06, 2003

Gærdeginum eyddi ég í framtíðarplön. Því miður gleymdi ég deginum í dag.
Láttu þér líða vel
þetta líf er til þess gert
trúðu mér ...


Fékk þetta lag (söng Helga Möller það?) á heilann í Staðleysubókmenntum þegar við vorum að tala um Brave New World, enda hefði þetta lag allt eins getað verið vögguvísa barnanna þar. Eru kannski allar dystópíubækur viðbrögð við íslenskri dægurlagatónlist? Spurning hvort hið endanlega íslenska staðleysuverk eigi eftir að heita Norðurljós?
Hvað er þetta með Hringadróttinssögu og íslenska pólitík? Fyrst var árás þessara talandi trjáa orðin tákngerving fyrir alla Kárahnjúkavitleysuna og nú er varla talað um annað en Tveggja turna tal og bráðum verða Frammarar og VG farnir að líkja sjálfum sér við hobbita – litlir en ætla samt að bjarga heiminum. Karlálftin Tolkien neyðist þá væntanlega til þess að snúa sér enn einn hringin í gröfinni. En dettur þessu liði ekkert frumlegt í hug? Eða eru þau öll innst inni lærisveinar Reagans og hans Stjörnustríðs?