mánudagur, janúar 31, 2005

Skrif annars staðar

eða vikuafmæli síðasta bloggs

Í tilefni þess að það er vika síðan ég skrifaði hérna síðast er ástæða til þess að halda upp á það með því að skrifa aftur. Næsta slíka afmæli verður vonandi ekki þvílíkt stórafmæli. Þó er ekki eins og ég hafi setið auðum höndum, þvert á móti hef ég staðið í framhjáhöldum við þessa ágætu síðu út og suður. Dundaði ég mér við það að búa til bloggsíðu (og undirsíðu fyrir hvern kúrs) fyrir námið – tímabundið þangað til sú endanlega kemst í gagnið – og inná hana er ég búin að skrifa um heimóttaskap íslenskra fréttamanna og æsispennandi ritdeilu leiklistargagnrýnenda Morgunblaðsins og aðstandenda sýningarinnar “Ég er ekki hommi.” Svo var líka ein grein sem ég stal af þessari síðu og flikkaði upp, segið svo að bloggskrif borgi sig ekki.
Að auki eru náttúrulega forvitnilegir pistlar frá Friðriki og Sævari, ég hef það sem eitt af aðaltakmörkum næstu viku að sparka almennilega í aðra samnemendur svo þetta verði nú ekki bara þriggja manna tal. Þarf líklega að útskýra fyrir einhverjum hvernig þetta virkar ...

Þá er vissulega alltaf eitthvað að gerast í dagbókinni þó það hafi verið minna þessa vikuna.

En helstu fréttir vikunnar eru vitanlega þær að ég er kominn á langfallegasta framboðslista sem sögur fara af í Háskóla Íslands – og ef markmið okkar nást, þann síðasta. Mynd af öllu þessu fallega fólki má sjá hér.

Annars er ég að afbyggja Lesbækur ársins fyrir tíma á morgun, fátt skemmtilegra en það.

sunnudagur, janúar 23, 2005

Áfram Eldsmiðjan!

Ég vil þakka Eldsmiðjunni fyrir þetta jafntefli. Eftir 45 mínútur þar sem andlaust Íslenskt lið leyfði Tékkum að rölta þetta í rólegheitum í gegnum vörnina þá bankar pizzasendillinn og haldiði að lyktin af pepperoni og gráðosti hafi ekki æst upp hungrið í okkar mönnum þannig að níu marka forysta hvarf eins og dögg fyrir sólu. Ef ég hefði pantað stóra þá hefðu þeir jafnvel unnið þetta.

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Love is in the air

Eitthvert rómantískasta sjónvarpskvöld í sögunni, J.D. og Elliot virðast hafa náð endanlega saman en það bliknaði þó við hliðina á því að skrifstofurómans Tim og Dawn blómstraði loksins - og það virtist meira að segja eitthvað vera að gerast hjá hinum eina sanna David Brent. Spurning hver er svo gestur hjá Jóni Ólafs ...

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Fékk síðasta jólakortið í dag! Líklega nýtt met - nema þetta hafi ekki verið siðasta kortið náttúrulega ...

mánudagur, janúar 17, 2005

Er að horfa á Gullhnöttin, hitaði upp með Sideways og Finding Neverland í Regnboganum. Óhætt að mæla með báðum. En af hverju í ósköpunum er Eternal Sunshine of the Spotless Mind að keppa sem besta gamanmynd? Greinilegt að þetta lið sá aldrei myndina sem er vissulega skondin á köflum en allt annað en gamanmynd.

sunnudagur, janúar 16, 2005

Var að græða fjögur ár ...

You Are 24 Years Old24

Under 12: You are a kid at heart. You still have an optimistic life view - and you look at the world with awe.

13-19: You are a teenager at heart. You question authority and are still trying to find your place in this world.

20-29: You are a twentysomething at heart. You feel excited about what's to come... love, work, and new experiences.

30-39: You are a thirtysomething at heart. You've had a taste of success and true love, but you want more!

40+: You are a mature adult. You've been through most of the ups and downs of life already. Now you get to sit back and relax.laugardagur, janúar 15, 2005

Leiðinda leiðari og frábæri leiðari

Í dag varð Mogginn sér til skammar á meðan DV blómstraði.
Mogginn á oftast vandaða leiðara, hver sem nú annars skrifar þá (væri stór plús að vita fyrir víst hver skrifar, flesta grunar Styrmi en aðstoðarritstjórarnir tveir taka vafalítið sína spretti og þeir þrír eru talsvert ólíkir karakterar), og stundum innblásna. En seinni hluti leiðarans í dag, „Impreglio og virkjunaframkvæmdirnar“ var þess eðlis að blaðamaður á ekki undir neinum kringumstæðum að láta svona frá sér.

Það skiptir ekki máli hvar þú stendur í málinu. Vandamálið er að Mogginn segir:

Þessar deilur eru farnar að hafa skaðleg áhrif á framkvæmdirnar við Kárahnjúka sem nú eru töluvert á eftir áætlun. Þess vegna er mikilvægt að setja þær niður.


Fyrir ríkisstjórnina sjálfsagt, atvinnulífið hugsanlega ef þú ert á þeirri línu. En ekki fyrir Moggann, ekki fyrir fjölmiðla. Þeirra hlutverk, alltaf, er að gagnrýna, halda uppi aðhaldi. Aðrir eiga að semja um sættir. En sættir eru þó stórlega ofmetnar í nútímasamfélagi. Einu sinni voru þær máski vanmetnar en eru eitt helsta einkenni nútímamans þar sem aðalatriðið er að hafa það gott.Þægilegt. Sást best í forsetakosningum Bandaríkjanna. Þær voru þær hatrömmustu á minni lífstíð en samt var viðkvæðið eftir á að nú væri mikilvægast að sætta þjóðina. Líka frá Kerry. Eigum við semsagt að vera sátt við það að í fjögur ár í viðbót verði löggiltur morðóður fáviti valdamesti maður jarðkringlunnar? Já, því aðalatriðið er að vera sáttur. Ekki glaður, ekki hamingjusamur, bara ekki reiður. Hafa það gott, þægilegt. Fólk drepst útí heimi og við getum haft það þægilegt við sjónvarpsgláp annað kvöld og fundist við vera að bjarga heiminum þannig að allir verði sáttir.

DV hefur hins vegar virst vera í krísu eftir að þeir misstu sitt besta efni, leiðara Illuga, úr blaðinu og hefur átt á hættu að breytast í málgagn Hákons Eydal. Leiðurunum hefur verið dreift á milli Mikka, Jónasar og annara starfsmanna með misjöfnum árangri – en í dag tók Páll Baldvin við og skrifaði pistil sem fæstir hefðu haft þor og dug í að skrifa. Hann tekur fyrir barneignir ungra mæðra á Íslandi, eitthvað sem einu sinni var ranglega tabú en er nú orðið, jafn ranglega, eitthvað sem enginn má lasta. Vissulega eru til frábærar mæður sem hafa eignast sín börn sextán ára. En því miður eru þær alltof margar um leið sem hafa nær stoppað í þroska, þær áttu eftir að gera alltof margt þegar barnið kom. Það eru nefnilega foreldrarnir sem ala þig upp fram á unglingsárin. Svo kemur smá flipp, smá gelgja, en þá er komið að þér að ala sjálfan þig upp. Fæstir ráða við að ala sjálfan sig upp um leið og aðra, a.m.k. þegar maður hefur litla eða enga reynslu í því. Sumir virðast halda að barnið ali þig upp, vissulega getur það verið þroskandi að eignast barn – ef þú notar það til að þroska þig. En það kemur enginn þroski af sjálfu sér og satt best að segja eru einu mæðurnar sem ég minnist þess að hafi þroskast við barneignir þær sem aldrei minnast á það einu orði að barneignin hafi þroskað þær en láta þess í stað verkin tala. En gefum Páli Baldvini orðið:

Árið 2003 voru eitt hundrað sextíu og sjö börn í heiminn borinn af mæðrum á aldrinum fimmtán til nítján ára. Í sama aldursflokki voru skráðar um hundrað og fjörutíu fóstureyðingar.

...

Þetta eru ljótar tölur.
Að baki þeim búa sögur af sálarangist, vonbrigðum og basli ungra mæðra, oft flótta og ábyrgðarleysi barnsfeðra þeirra.
Unglingaþunganir eru einkenni á samfélagi sem er afturhaldssamt og frumstætt. Þær koma í veg fyrir eðlilegan og sjálfsagðan þroska einstaklings, hamla menntun hans og skipa honum í hóp þeirra launalægstu. Þær eru helsi á jafnrétti kvenna, valda víða svæðisbundinni stöðnun og eru til marks um lágt menntunarstig.


Það sorglegasta er svo auðvitað þetta; það er svo auðvelt að koma í veg fyrir þetta. Einu sinni þurfti einfaldlega að stunda skírlífi til að hafa allt á hreinu og allar aðgerðir til varnar barneignum voru stórhættulegar lífi konunnar. En svo er ekki núna. Jafnvel þó alltaf geti gerst slys þá er rétt að athuga að slys er eitthvað sem gerist óvart, án nokkurs vilja. Rifinn smokkur, vitlaus pilla. Ekki það að drekka of mikið, gleyma sér. Það er klaufaskapur, ábyrgðarleysi – barnaskapur sem hefði átt að vera búið að kenna krökkunum að passa sig á.

p.s.: Vil þó taka fram að framtak sjónvarpsstöðvanna sem verður annað kvöld er lofsamlegt þó finna megi skuggahliðar. Ég vona líka að fólk þar gleymi því þó ekki að mæla árangurinn ekki bara í krónutölunni sem safnast, þó hún skipti vissulega miklu máli, heldur ekki síður í því hversu vel hlutirnir verði gerðir. Þáttur sem þessi er nefnilega ekkert síður minnisvarði, virðingarvottur, frá okkur til þeirra. Því þarf að tjalda því besta, ekki bara henda gömlum afgöngum í liðið. En ef Villi naglbítur nær að gefa tóninn þarf ekki að hafa áhyggjur.

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Verðbréfaguttarnir sem eru að drepa Ísland

Til hamingju Norðurljós með að hafa drepið það littla rokk sem eftir var í óríkisrekknu útvarpi á Íslandi. Ekki það að það hafi verið mikið að drepa svo sem, aldraðir skallapopparar og útvarpsstöð sem skartar Stjána stuð og Freysa á ekki einu sinni skilin titil aðalrokkstöðvar Liechtenstein. En þetta er óttalega dæmigert fyrir útvarpsdeild Norðurljósa, það er allt mælt í aurum og ekki einu sinni reynt að hafa fyrir því að þykjast hafa gaman að því sem verið er að gera. Sem getur bara ekki verið góður bissness.
Gömlu bissnesskallarnir kunnu þetta, sjálfsagt hafa sumir þeirra ekki hugsað um neitt nema peninga, en þeir höfðu a.m.k. vit á því að láta það ekki skína í gegn, þeir höfðu vit á því að gera sér grein fyrir því að hlustendum er sama um hlutafjárstöðuna ef útvarpið skaffaði þeim almennilegri tónlist og talmáli. Sá eini sem virðist eftir að þeim er Björgólfur, kannski er hann einlægur - og já, ég trúi því - í því að hugsa um eitthvað fleira en peninga, en jafnvel ef svo er ekki þá ber hann samt höfuð og herðar yfir aðra í þessu viðskiptalífi hér á klakanum þó ekki sé nema fyrir það að hann heldur aurapúkanum í sér fyrir sjálfan sig.
Núna lifa blessaðir verðbréfaguttarnir í þeirri villu að okkur sé ekki fjandans sama hversu vel hin og þessi stöðin sé að reka sig á meðan músíkin er almennileg. Það óhugnanlegasta við þetta allt saman er að stundum hefur maður á tilfinningunni að hlustendur séu búnir að láta heilaþvo sig, þeir hlusti í alvöru á útvarp eftir því hvernig hlutafjárstaðan og auglýsingasalan þar sé. Ef svo er þá er líklega best að sprengja skerið í loft upp strax.

Eitís

Merkilegt að eitís tónlist virðist vera orðinn sértónlistarstefna, svona eftir á að hyggja. Ætli til dæmis Britney Spears, Damien Rice, Sigurrós og Eminem verði sett undir sama hatt eftir tuttugu ár?

mánudagur, janúar 10, 2005

Göngutúr, gamlir draumar gera vart við sig á meðan snjókornin gæla við mig. Klassískir janúardraumar sem eru oft frosnir í febrúar, vonum að ég nái að halda hita á þessum.

Skondið kommentakerfi ...

... á blog.central.is. Þegar maður er búinn að koma er manni þakkað fyrir að hafa komið skoðun sinni á framfæri. En hvað ef maður er bara að segja hæ eða óska einhverjum til hamingju með afmælið? Er það þá orðin skoðun? Smáatriði, en fer bara í taugarnar á mér þegar tölvukerfi halda að þau geti hugsað fyrir mann. Til dæmis það að eftir að ég fékk þessa tölvu í haust er wordið alltaf að spyrja mig hvort ég vilji ekki hlaða niður spænsku eða frönsku leiðréttingarforriti. Eða kannski er forritið bara á undan mér að fatta að ég sé upprennandi spænsku- og frönskuséní?

sunnudagur, janúar 09, 2005

Sunnudagssjónvarp á RÚV

Óttalegur aumingjahrollur fer um mann við að horfa á þessa myndskreitingu á Njálu. Ef það er búið að fá landslið íslenskra leikara í svona verkefni þá á að gera það almennilega, byrja til dæmis að semja handrit upp úr sögunni en ekki lesa upp valda kafla. En það fyrirgefst allt um leið og You Can Count on Me hefst uppúr tíu, algjör perla eftir alla víkingavitleysuna.

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Það eru allir, réttilega, að mæra Mugison þessa dagana. Brjálæðislega falleg lög og eitthvað svo einstaklega heimilislegt, sveitalegt og heimsborgaralegt í senn. Samt eitt kvabb, þetta helvítis lag sem er í miðjunni skemmir diskinn svo agalega og kemur í veg fyrir að hann verði það masterpís sem hann ætti með réttu að vera. Trukkasorgir eru bara ekki að gera það fyrir mig.
allt að gerast í Bóksölunni en samt ekkert að frétta af bókum fyrir neitt af þessum fimm (eða 7) námskeiðum sem ég verð í. Bölvað svindl. Á ekkert líf núna, of mikil vinna. Vona að ég sleppi við laugardaginn, langar að sofa út, alltof erfitt að vakna snemma fimm daga í röð eftir jólin ...

Svikari

Jamm, yðar einlægur er farinn að hanga miklu meira á hinu blogginu og vanrækja ykkur Íslendingana. Ágætt að breyta um umhverfi fyrst maður hefur ekki efni á að fara neitt, tilbreyting að skrifa á ensku og allt það. En kannski helsti munurinn að þetta er öllu ferskara, þetta er orðið óttalega þreyttur og kaldhæðinn þessi íslenski bloggheimur – og kannski fyrst og fremst fyrirsjáanlegur. Enda þurfum við öll að halda andlitinu, kúlinu. Hinsvegar eru eintómir snillingar á Benrik, stundum þegar maður slysast inná blogg 15-16 ára krakka þá ætlar maður að forða sér en ákveður að kíkja en kemst svo að því að þetta er alls ekkert svo vitlaust. Það yrði ekki alveg tilfellið með flestar íslensku gelgjurnar ... fyrir utan það að það tjáir sig ekki sála hérna orðið ...

þriðjudagur, janúar 04, 2005

Topp 2

Ég klikkaði að mestu á því að vera almennilega ástfanginn síðasta ár. Það var mikill synd enda sá ég tvær af fjórum rómantískustu bíómyndum sem ég hef séð um ævina á árinu. Því er þetta í mínum huga frekar ár ástarsögunnar en heimildarmyndarinnar. Vegna þess að ólíkt því sem margir halda þá eru ástarsögur í bíó ótrúlega sjaldgæfar. Rómantískar gamanmyndir, one per week. Melódrama nokkuð algengt líka. En þar eru annað hvort skoplegir atburðir eða áföll og hörmungar notuð til þess að keyra ástarsöguna áfram. Það getur komið ágætlega út en í raunveruleikanum fara flest ástarævintýri fram án mikilla ytri átaka, flest ástarsambönd snúast um átök eða sættir inná við, á milli elskendanna tveggja. Virkar ekki gott efni í bíómynd, eða öllu heldur; þetta er ofboðslega flókið efni til þess að gefa skil í skáldskap án þess að hafa sprengjur, sniðugar aukapersónur eða krabbamein mánaðarins til þess að stytta stundirnar inná milli. En það er hægt, það er nefnilega allt hægt í bíó. Það sannaðist í ár.

Fyrst:

Eternal Sunshine of the Spotless Mind

Síðasta ástarsaga í heimi fær maður á tilfinninguna á köflum. Hin fullkomna ástarsaga fyrir jafn ófullkomna tíma og okkar tímar eru. Hérna er kafað í höfuð aðalpersónunnar um leið og hann kafar sjálfur – eða öllu heldur, það er kafað fyrir hann. En hann vill á endanum ekki að aðrir kafi fyrir hann. Hann vill ráða sínum minningum sjálfur, sorgin er eitthvað sem hann á, það er ekki hægt að panta fyrirtæki út í bæ til að sjá um ástarlífið fyrir þig. Sorrí Djúpa laug en þetta gerist ekki eftir formúlu. En um leið og við finnum hvernig Joel og Clementine geta sært hvort annað finnum við hversu mikilvæg þau eru hvort öðru. Auðvitað gæti ég haldið langa tölu um hversu plottið er frábært og hugmyndaríkt en þrátt fyrir það er það allt aðeins krydd fyrir þessa ástarsögu sem þrátt fyrir vísindaskáldsögulega umgjörðina virkar hversdagslegri og sannari en flestar aðrar. Þessu til viðbótar má nefna að á einhvern einkennilegan hátt varð myndin til þess að ég lét verða að því að hoppa uppí flugvél og ferðast hringinn um Bretlandseyjar, en það er önnur saga og önnur færsla ef ég kem mér einhvern tímann að því. Ef ekki, bara kafli í ævisögunni.

En ég sagði að þessar tvær bestu myndir ársins væru tvær af fjórum rómantískustu myndum sem ég hefði séð. Hverjar eru þá hinar tvær? Casablanca, augljóslega, og Before Sunrise. Gangandi um Vínarborg, týna sér í borgum heimsins og verða ástfanginn um leið.

Before Sunset

Játning: Before Sunrise er mynd lífs míns. Svo bætist þessi við og örlögin eru ráðin, á einhvern einkennilegan hátt hefur allt mitt flakk tengst þessum myndum órjúfanlegum og illskiljanlegum böndum. Nei, ég hef að vísu ekki ennþá hitt franska stelpu í lest og numið hana á brott – en allt hitt rímar. Franska þokkadísin væntanlega bara tímaspursmál. Shakespeare & co., garðurinn í Vínarborg, lestir sem sigla á sálarhraða, hversu fjarlægar hugsjónirnar, draumarnir, virðast stundum með aldrinum, heimspekin, ástin – allt rímar þetta á einhvern einkennilegan hátt sem ég mun seint geta útskýrt. Ekki frekar en maður getur útskýrt ástina almennilega.
En í sameiningu segja þessar myndir allt sem skiptir máli um ástina og lífið, þangað til að þriðja myndin kemur og maður áttar sig á hvað vantaði. Bjartsýni og stóreyg ungmennin frá fyrstu myndinni eru nú kominn yfir þrítugt, þau hafa lifað. Það er engin fjöður dregin yfir það. En það er tekið á því af virðingu, engin ódýr kaldhæðni, frekar, hvað sú brynja sem kaldhæðnin og rökvísin geta verið þungar að bera. Við erum samt svo ósköp gjörn á að klæðast þeim. Hvers vegna? Því eitt sinn vorum við börn, svo lærðum við að ljúga. Lífið var of erfitt þegar það var satt. Heimurinn vill ekki hlusta á sannleikann um sjálfan sig, ef þú lýgur nógu mikið hækka hlutabréfin í þér og þú meikar það. En sannleikurinn, vissulega er hægt að meika það á honum. En það er bara svo fjári grýtt leið að honum, hindranirnar svo margar, að margir verða úti. Eða flýja. Linklater, Hawke og Delpy flýja aldrei. Ást snýst nefnilega fyrst og fremst um hugrekki. Sannleikurinn sömuleiðis. Það að týna sér í tveimur af mestu galdraborgum Evrópu, borgum með sál aldanna í gangstéttarhellunum, er svo ómetanlegur bónus fyrir þennan flakkara sem geymir sálina ávallt annars staðar.

mánudagur, janúar 03, 2005

Touching the Void

Margir nefndu þetta ár heimildamyndanna og ef þær hefðu allar verið jafn ótrúlega mögnuð og þessi þá væri það réttnefni. Fjallaklifur hefur hingað til átt furðu erfitt uppdráttar í bíó en þessi hrakfallasaga fjallgöngumanns sem klöngrast fótbrotinn niður úr Andesfjöllum gæti breytt því. Hér eru það smáatriðin sem skipta máli, smáatriðin sem verða til þess að okkur verður líka illt í löppinni við að horfa, örvæntinguna, einmanaleikann og ákveðnina fáum við beint í æð. Það er nóg af sögum af fólki að sigrast á nær ofurmannlegum erfiðleikum til, en til að segja þær rétt verður að láta áhorfandann þjást með, finna að hér var engin ómennskir hæfileikar á ferð eða guðleg forsjón heldur óbilandi viljastyrkur sem getur flutt fjöll. Við höfum eitthvað brot af þessu öll, við verðum bara stundum að láta minna okkur á að því erfiðara sem þetta er því meira virði er það.

Sterkt kaffi (Silný kafe)

Besta íslenska myndin sem ég sá var aðallega tékknesk, enda er það náttúrulega langbesta blandan. Ótrúlega heillandi mynd um fólk að reyna að rifja upp fortíðina á meðan sambönd nútímans eru að hrynja. Og hve Markéta Coufalová er falleg með tvö algjörlega gullin augnablik. Íslenskt kvennfólk fallegast hvað?

Dagbókin sem breytir lífi ykkar!

Ég sé mig tilneyddan til þess að mæla sérstaklega með því að þið kaupið þessa bók hérna sem ætti að vera til í Máli og menningu á slikk, ég er búin að nota hana þrjá daga í röð sem er óvenju gott með dagbækur fyrir mig - fyrir utan það að þetta er náttúrulega frábært lesefni jafnvel þó þið notið hana ekki til síns brúks. Nánari upplýsingar á þessari netsíðu þar sem er náttúrulega hellingur af skemmtilegum bloggum. Plögga meira þegar ég kem heim, ég á víst að vera að vinna ...

Topp 10

Big Fish

Elsku Tim, Apaplánetan er fyrigefin. Eftir langslöppustu mynd sína gerir Burton eitthvað sem er að minnsta kosti besta mynd hans í ansi langan tíma (Sleepy Hollow var óttalega ofmetinn). Aldrei þessu vant er hinn venjulegi veikleiki Burtons, handritið, styrkur hér. Leikurinn og handbragðið vissulega til fyrirmyndar líka. En sagan er bara svo góð. Hún gengur út á tröllasögur sem faðirinn (Albert Finney og Ewan McGregor í flashback) segir syninum (Billy Crudup) – og skyggnist um leið bak við tröllasögurnar, án þess þó nokkurn tímann að gera lítið úr gildi þeirra. Hér er svipuð viska og í sögu Ivo Andric um Brúna yfir Drínu, leitað er að ævintýrinu á bak við ævintýrið.

Innrás villimannana (Les Invasions Barbares)

Villimennirnir sem vísað er í tengjast 11. september og öllu því hafaríi – en pólitíkin, athyglisverð sem hún er, gleymist fljótlega. Ástæðan er einfaldlega sú hve persónurnar eru magnaðar og sannfærandi, sérhver aukapersóna skiptir máli. Frásagnarstíll Arcand minnir stundum á sænska meistarann Moodyson, hið mannlega er ávallt í forgrunni. Samband fjölskyldunnar er heillandi og hér sjáum við í fyrsta skipti leiksigur unnin í tölvupósti – eitthvað sem þarf að sjá til að skilja.

Topp 10

Starsky & Hutch

Yndisleg vitleysa. Alveg unaðsleg. Þessi mynd er einhver mesta klisjusúpa sem ég hef nokkurn tímann séð, en hún er svo yndislega fyndin, það skemmta sér allir svo vel við að gera hana – og svo eru Ben Stiller og Owen Wilson í aðalhlutverkum. Þeir tveir að lesa upp úr símaskránni yrði einfaldlega bíóupplifun og þar sem handritið er klárt þá legg ég til að þeir drífi bara í því.

The Incredibles

Þó Pixarmyndirnar hafi alltaf verið góðar þá hefur mér þær vera farnar að vera hættulega formúlukenndar. Þangað til hinir Ótrúlegu komu og hristu rækilega uppí formúlunni, ferskasta teiknimynd síðan ég veit ekki hvenær, aðeins Toy Story kemst nálægt henni af Pixar-myndunum. Aldrei þessu vant er aðeins einn leikstjóri, Brad Bird, sem gerði The Iron Giant sem ég á því miður óséða, teiknimynd sem var víst á allt öðrum forsendum en árleg útlegg Disney, Pixar og Dreamworks. Þessi mynd hefur alveg sérstaka áferð, þrátt fyrir tölvuteiknunina virkar hún eins skemmtilega og notalega gamaldags á köflum. Svona smá film noir teiknisöguhetju stemmning í upphafi. Svo er hún svo fjandi vel skrifuð og endalaust skemmtileg, húmorísk og uppfinnningarík. Það besta er þó merkilegt nokk móralinn; boðskapur sem enginn hefur hingað til þorað að nefna – það er meðalmennskan sem er að fara með hinn vestræna heim til andskotans. Survival of the fittest hefur verið ranglega þýtt á okkar ylhýra sem hinir hæfustu lifa af – en hér merkir fittest í raun þeir sem passa best inní rammann, meðaljónarnir. Ef hinir hæfustu lifðu af þá væri til dæmis einhver annar í Hvíta húsinu.

sunnudagur, janúar 02, 2005

Topp 10:

Myndirnar eru í tilviljunarkenndri röð, nema að af þessum fannst mér tvær bera af. Þannig að inná topp tíu listanum er topp tvö listi. En ekki hvað? Dröslast bara til að númera þetta? Nei, nenni því ómögulega, nógu sársaukafullt að skera þetta niður í tíu. Byrjum svo á þessum tveim ...

Harry Potter and the Prisoner of Azkaban

Ég sá fyrstu tvær út af þessari. Hef ekki lesið bækurnar en hafði aldrei áhuga á fyrstu tveimur af því að Chris Columbus leikstýrði þeim. Hann gerir ekki beint vondar myndir, meira svona paint-by-numbers. Og fyrstu tvær eru svosem ágætar – en þar hefur maður sterklega á tilfinningunni að það sé allt sögunum sjálfum að þakka. En sú þriðja er virkilega að virka sem bíómynd. Alfonso Cuarón tekst að skapa þann töfraheim sem svona saga þarf, töfraheim sem er í einkennilega sterkum tengslum við veruleikann. Brellurnar virka ekta, David Thewlis er hreint stórfenglegur í hlutverki eins kennarans og flækjan heillandi. Og þó Rowling eigi vissulega mikinn heiður skilin hér sem og fyrir annað tengt Harry Potter þá sést vel hér hve leikstjórinn er ávallt mikilvægur sérhverri bíómynd. Númer fjögur er leikstýrð af Mike Newell, mjög fínum leikstjóra þó hann sé ekki sá meistari sem Cuarón er – en miklu betri kostur þó en iðnaðarmaðurinn Columbus.

Jargo

Hér var um nokkuð sérstakan ástarferhyrning að ræða – tveir strákar kynnast í Þýskalandi og verða vinir. Jargo er þýskur en hefur búið í Saudi Arabíu mest sitt líf, Kamil er af tyrkneskum ættum en hefur ávallt búið í Þýskalandi. En þrátt fyrir þetta samhengi þá er hér fyrst og fremst um klassíska og ofboðslega vel gerða þroskasögu að ræða, minnir töluvert á Fucking Amal í þeim efnum, tvær sannanir þess að unglingar eiga skildar fleiri góðar myndir um sig – það er nefnilega gaman fyrir okkur eilífðarunglingana að horfa á þær líka. Hér má líka finna frumlegustu og fallegustu kynlífssenu ársins, látum nægja að segja að litir komi þar við sögu í skemmtilega bókstaflegum skilningi. En Jargo verður að manni í myndinni, ekki endilega þannig að hann þroskist, aðeins það að hann missi sakleysið. Það að missa sakleysið er vel að merkja engu sársaukaminna en að missa handlegg, missa þessa óbifandi trú á að heimurinn sé eftir allt saman góður. Einhverjir hafa sakað myndina um að ala á stereótýpum, það hvernig Kamil svíkur Jargo og virðist vera nálægt því að breytast í brjálæðing undir lokin. En það er ákveðinn misskilningur þar á ferð í raun. Það er nefnilega oft einhver fótur fyrir steríótýpum. Ekki að þær séu sannar, alls ekki, en sumir Tyrkir eru vondir og allir breyskir, rétt eins og aðrir þjóðflokkar. Einhverjir láta þá staðreynd að steríótýpan á við suma telja sér trú um að hún eigi við alla, það er einhvern veginn einfaldara, sársaukaminna. Stimpla bara fólk frekar en að vera alltaf að meta það að verðleikum. Þetta virðist pabbi Kamils því miður hafa gert. Undir lokin stendur Kamil í sömu sporum en hefur hann styrk til þess að verða ekki eins og pabbinn?

Bíóuppgjör 3

Bestu myndir:

Já, bestar segirðu?

Nokkrar sem voru fínar án þess þó að komast á topp tíu listann;

I, Robot, Bless Lenín, The Saddest Music in the World og Along Came Polly (Ben Stiller fór á kostum þetta árið sem aldrei fyrr) voru allar góðra gjalda verðar.

21 Grams og Igby Goes Down finnst mér ég þurfa að sjá aftur til að hafa á tilfinningunni hvort þær séu jafn frábær og mig grunar. Var eitthvað utan við mig þegar ég tók þær af ástæðum sem komu myndunum ekkert við.

Capturing the Friedmans var betri en flestar þær heimildarmyndir sem skoluðu á fjörur okkar í ár, enda ljóst að heimildarmyndir voru aðallega vinsælli í ár, ég er ekki alveg jafn sannfærður um að þær hafi almennt endilega verið miklu betri. En svona á að gera þetta, láta áhorfandann sjá sannleikann og efast um hvað sé satt og hvað ekki um leið, þannig er þetta í lífinu, ólíkt því sem áróðursmeistarar reyna að telja okkur trú um. Var þetta skot á Michael Moore? Já og nei, hann kann þetta nefnilega og gerði frábarlega í Columbine, hann gleymdi því bara í öllum hasarnum í sumar. Kannski værum við laus við Bush ef hann hefði munað þetta, hver veit?

My First Mister

Yndislega ljúf og skemmtileg mynd um samband eldri manns, búðarloku sem hinn óendanlega vanmetni Albert Brooks leikur, við táningstúlku leikna af Lelee Sobieski. Alveg í byrjun hafði maður áhyggjur af að Sobieski væri full ýkt gothstelpa en svo kom blessunarlega í ljós að það var verið að spila með það hversu ýktar aðalpersónurnar tvær voru í upphafi. Talandi um Sobieski, hún lék eins og einhverjir muna í Eyes Wide Shut, þegar maður hugsar um það, hefði Kubrick ekki átt að einbeita sér af henni, Slavanum í búningaleigunni og sambandi þeirra og Krúsa og Kidman. Mig grunar að þar væri betri saga en sú sem á endanum var sögð. Tek samt fram að EWS er vanmetinn þó hún verði seint hápunktur á ferli karls.

Saved!

Fáar komu meira skemmtilega á óvart, góðlátlegt grín gert af ofsatrúahópum kristinna í BNA. Í raun dæmigerð unglingamynd með öllum klisjunum en þegar þær eru settar í nýtt samhengi þá öðlast þær nýtt líf – fyrir utan hvað allir hafa bara gaman að því að gera myndina, það sést nefnilega.

Coffee and Cigarettes

Frábærar smásögur hér á ferð, grunar raunar að hún virki jafnvel betur í videó, ein og ein í einu. Spurning hvort Jarmusch selji þetta ekki bara sem sjónvarpsþátt?

Blindsker

Nær ágætlega hversu þversagnakenndur karakter Bubbi er, líka hversu óþolandi persóna hann er oft á tíðum þó tónlistin sé í algeru ósamræmi við það. Við höfum náttúrulega öll óverdósað af Bubba – um leið og hann verður horfinn úr sviðsljósinu að mestu þá verður loksins hægt að meta hann af einhverri alvöru sem tónlistarmann. Hálf misheppnað samt að láta spýtukarla eins og Boga Ágústsson og Ólaf fréttamenn vera með innslög, hvað koma þeir Bubba við?

Wooden Camera

Algjör perla sem ég slysaðist á á kvikmynahátíð í þeim stórkostlega bæ Galway. Tveir ungir vinir í S-Afríku, rétt að skríða á táningsaldurinn, finna lík í upphafi myndar. Sá frakkari tekur tvo dýrgripi af líkinu – byssu og kvikmyndatökuvél. Heldur byssunni fyrir sjálfan sig og lætur aðalpersónu okkar fá kvikmyndatökuvélina. Og í þessum dýrgripum eru örlög þeirra beggja ráðin. Myndin er um S-Afríku en kvikmyndalistina um leið, hvernig stráksi uppgötvar möguleika myndanna – ekki ólíkt Gullborginni Brasilísku raunar, sú var mun myrkari en þessi er bjartsýnni, báðar gera myndirnar sitt vel. Ljós þessarar myndar er vel að merkja músa kvikmyndaleikstjórans verðandi, Dana de Agrella. Þar er stjarna fædd, kvikmyndatökuvélin leikur við hana.

Þá erum við kominn að niðurskurðinum, næstu myndir hefðu alveg eins getað endað á topp tíu ef ég væri í þannig skapi:

Spider-Man 2

Frábært framhald hörkufínnar myndar. Doc Ock Molinas er frábær og Tobey Maguire og Kirsten Dunst smellpassa í hlutverk Peter Parker og Mary Jane sem fyrr. Það eina sem klikkaði var hvernig hann missti kraftana tímabundið, ekki nógu sannfærandi. En Raimi skemmtir sér konunglega, frábært bardagaatriði í lestinni og í fyrsta skipti hasar eins og maður minnist þeirra í blöðunum. Fyrir utan að maður ólst upp með Köngulóarmanninn frá Sigla og fannst hann alltaf miklu betri en Súpi og Blakan, þar af leiðandi náttúrulega bara blautur draumur fyrir okkur gömlu myndasögunördana þegar vel er gert.

Kill Bill Volume 2

Margt hörkufínt hér, líkkistuatriðið er eitthvað sem ég hef oft ímyndað mér áður en ekki verið gert jafnvel í bíó áður. Svipað atriði í Vanishing að vísu en engan veginn jafn flott þó sú ræma sé góðra gjalda verð. Á eftir að sjá báðar myndirnar í einu, þá fyrst getur maður dæmt um hversu gott verk Tarantino hefur í raun unnið.

School of Rock

Jack Black í hlutverki lífs síns, algjört rokk frá upphafi til enda og skemmtilegir krakkar. Þessi var nálægt því að koma inn en til þess að gera valið auðveldara þá var hver leikstjóri takmarkaður við eina mynd – og Linklater er þegar með eina á topp tíu listanum. Til viðbótar við það sá ég Tape á árinu, gamla mynd sem bíóin hér klikkuðu á og ég þurfti að panta að utan. Þær sönnuðu aðeins eitt, Linklater er endanlega að stimpla sig inn sem einhver besti leikstjóri samtímans.

Control Room

Gerði það sem Fahrenheit 9 / 11 þorði ekki að gera, ef hún hefði náð viðlíka vinsældum lifðum við máski í betri heimi, hver veit?

In America

Yndisleg saga um írska innflytjendafjölskyldu og svo gjörólík fyrri myndum Jim Sheridans, þó hún sé að sumu leiti um það sama. Málið var að þær voru sprengjur (In the Name of the Father, My Left Foot) og frábærar sem slíkar en þessi er meira svona slow burner (sem The Boxer var raunar líka þegar ég hugsa um það en hún gekk ekki alveg jafn vel upp, góð en ekki í úrvalshópnum sem áðurnefndar myndir ná í). Raunar hafði ég heyrt heilmikið um frammistöðu systranna tveggja og Samönthu Morton sem móðurinnar fyrirfram en hafði ekkert heyrt um stórleik Paddy Constantine í hlutverki heimilisföðursins. Þess vegna var ég lengi framan af sannfærður um að hann mundi deyja eða halda fram hjá en fór svo að átta mig á að hann væri í aðalhlutverki, eitthvað sem á einkennilegan hátt gaf myndinni heilmikið. Og atriði á spítala undir lokin er eitthvert það áhrifamesta sem ég sá í bíó í ár, tárakirtlarnir hefðu ekki þurft neitt mikið meir.

... þá er það bara topp tíu listinn, byrja á honum þegar ég kem suður í kvöld. En núna, rúta.

Bíóuppgjör 2

Verstu myndir ársins:

Ekkert svo margar myndir beinlínis virkilega vondar, ef maður sér nógu mikið af bíómyndum um ævina lærir maður að forðast þær. Þó nokkrar, þessar standa upp úr. Fjallaði áður um fyrstu tvær á Kistunni. Allar sá ég þær raunar á kvikmyndahátíð, það skýrist líklega helst af tvennu: Bæði því að ég var með frípassa á báðar hátíðirnar og hinu að oft hefur maður heyrt minna um þessar kvikmyndahátíðamyndir og er því ólíklegri til þess að vara sig á draslinu.

Múrinn

Illa unnið úr þokkalegri sögu, bara mynd af gömlum miðaldrauppgjafarpönkurum klipptir saman við gamlar ljósmyndir sem lítið er á að græða. Ekkert einasta bíó.

Undir Stjörnuhimni

Fékk víst ágæta dóma hérna, enda virðist bannað að tala illa um mynd með góðan ásetning, en þetta er einfaldlega skelfilega illa gerð mynd sem spilar inná samviskubit Vesturheims gagnvart þriðja heiminum án þess að segja neitt sem skiptir máli og er um leið með snert af nýlendustefnukomplex sjálf. Jafngildi þess að setja tíkall í styrktarbauk Rauða krossins þegar fimmþúsundkallinn er jafn auðgefanlegur.

SuperSize Me

Preaching to the converted. McDonalds óhollt? Telst þetta sem sagt uppgötvun til þess að byggja heila bíómynd á? Gallinn við myndina er í raun fyrst og fremst þessi: Næringargildi hennar er svona álíka mikið og í einum Big Mac og þú ert álíka tómur að innan eftir áhorfið.

Vonbrigði ársins:

Hellingur af myndum sem ollu vonbrigðum, sumar voru kannski góðar en ekki þau meistaraverk sem reynt hafði verið að telja manni trú um.

Whale Rider

Óttalega dáðlaus nýsjálensk mynd, sagan klisja og verður það áfram þó henni sé komið fyrir hjá frumbyggjum eyjálfu. Og hvaða steypa var þetta með hvalina? Var alls ekki að virka nema helst rétt í restina. Það sem bjargar henni frá vondumyndaflokknum var leikur Keishu Castle-Hughes sem átti óskarstilnefninguna alveg skylda – en á þó sérstaklega skilið hlutverk í almennilegri mynd fljótlega.

Ken Park

Sumar sögurnar voru ágætar, en aðrar afleitar. Alltof upptekinn við að sjokkera til þess að takast það almennilega, þegar fæstir karakterarnir eru svona ósannfærandi verður maður bara dofinn frekar, nokk sama.

Lost in Translation

Ókei, einstaka atriði eru hjartnæm og frábær og leikurinn mjög góður – en sögupersónurnar eru bara alltof tilgangslausar eitthvað, asnalega vitlaus. Í erlendri stórborg, með næg fjárráð og enga sjáanlega ástæðu fyrir að njóta ekki alls þess sem Tókýó hefur upp á að bjóða, en nei, best að hanga heima á hótelherbergi á bömmer yfir engu sérstöku. Fyrir utan óttalega kjánalega brandara um að, jeremías! – það tala ekki allir ensku hérna! Ástarsagan vissulega góð þegar hún fær að njóta sín – en búningurinn um hana því miður alltof illa gerður.

Hetja

Rétt að taka fram að Hero er ágætismynd – en ekkert meira. Dálítið svona útþynnt útgáfa af Skríðandi tígri. Stundum hálfgervileg, jafnvel tilgerðarleg. Og plottið? Hvar? Kannski var ég ekki rétt stemmdur en hún engan vegin náði mér.

Shrek 2

Rétt að taka fram að þetta er hörkufínt framhald, bara alls ekki jafn góð og fyrri myndin þó það væri margtuggið í flestum dómum um myndina. Kom þá tvennt til, Skrekkur sjálfur var óttalega litlaus miðað við fyrri myndina og þurfti því enn frekar á asnanum að halda til að bera myndina uppi, stígvélaði kötturinn kom sterkur inn til viðbótar og Gosi átti frábært atriði. Svo voru söngatriðin óttalega slöpp, átti að vera paródía, já, já, en stundum keypti maður það bara ekki. Shrek var klassísk, þessi var bara góð en ekkert umfram það.

Þá er komið af þeim tveim myndum sem ársins verður líklega minnst fyrir. Leikstjórarnir lögðu allt undir, á tíma leit út fyrir að myndirnar fengju enga dreifingu. En viti menn, þetta urðu umtöluðustu myndir ársins og nutu vinsælda sem ekki hafa áður þekkst (önnur var vinsælasta myndin á öðru máli en en ensku í sögu Bandaríkjanna og hin vinsælasta heimildarmynd frá upphafi) og virðast því vera stærsti sigur sem óháð kvikmyndagerð hefur nokkru sinni unnið. En gallinn er einfaldlega þessi; báðar voru klisjukenndar, manipúlerandi og árið hefði sjálfsagt orðið betra án þeirra. The Passion vantaði einmitt þetta, ástríðu. Jesú virtist vera að sofna út allra myndina og margumtalaðar limlestingar fengu lítið á mann. Gibson gerði hörkumynd á undan með nóg af ástríðu, Braveheart, og það sama má raunar segja um Michael Moore. Bowling for Columbine var myndin sem hefði átt að fella Bush, Fahrenheit 9 / 11 fór oft niðrá hans level. Talaði niður til áhorfandans. Ekki vond mynd beinlínis, en það voru ákveðnir hlutir að henni. Moore var of reiður til þess að gera góða bíómynd, náði ekki að channella rétt – það vantaði að leggja áherslu á aðalatriðin, ná réttum fókus.

Svo er það topp 10 listinn, væntanlegur annað kvöld þegar ég varð kominn heim á Öldugötuna. Þangað til getið þið alltaf skemmt ykkur hérna:

Dagbókin sem breytir lífi ykkar árið 2005

laugardagur, janúar 01, 2005

Áramótaannáll

Áramótin fyrir ’97 renna saman, alltaf á Akureyri, sömu skólar og mikið til sama fólk. En eftir það man maður eitthvað smáræði ...

1997:

Fór í Sjallann, hitti samnemendur – uppgötvuðum: Við útskrifumst í ár! Þetta er okkar ár, árið sem við verðum fullorðin! Urðum að vísu full en erum varla orðin ennþá. En fjandi gaman á meðan við trúðum því.

1998:

Týról í Austurríki, gaman og allt það en kom mitt í brjálaðri vinnutörn, vakna snemma morgnunin eftir, rétt eins og öll jólin, til þess að abrauhmast, rennur saman við matarbakka og fulla þýska túrista.

1999:

Sjallinn, man af e-m ástæðum að ég hitti Eddie H en lítið meir.

2000:

Kaldur og hrakinn eftir undanfarnar hrakningar – að komast frá Týról til Prag í brjáluðu Evrópuveðri þegar allar lestaráætlanir voru í skralli og vegabréfið mitt vafasamt – var með Úkraínufélögum Önju?, Connor & co., allraþjóðakokteill frá Írlandi, Póllandi, Frans o.fl. Hálfnaður með kokteilana á barnum, var grand á því og splæsti á tíu manna hóp – verðlag í Prag hentaði vel til þess :) og þvínæst á galdrastað allra galdrastaða, Karlsbrúnna, brúnna mína. Þar sem stytturnar gráta tárunum mínum og geyma draumana mína fyrir mig. Var að kvefast en kvef er ekki til í ævintýrum.

2001:

Heima á Akureyri, stórhríð og læti og bara Trivial í Stekkjagerði.

2002:

Reykjavík, þreyttur og nýbúin að sættast eftir eitt af fátíðum alvarlegum rifrildum svona í seinni tíð, lítil stemmning í íbúð einhvers staðar í Austurbænum.

2003:

Með Ilonu, Leos og þotuliðinu í Prag, enduðum í einkasamkvæmi hjá norksum auðkýfing sem átti skemmtistað á eyju í Moldá. Líf sem maður gæti alveg vanist ...

2004:

Kaffi Akureyri, þekkti svo depressingly fáa að leiðinlegt fólk fór að verða skemmtilegt bara af því maður þekkti það. Samt minnir mig að kvöldið hafi alveg bjargast.

2005:

Deja vú frá næsta ári á undan, hitti samt enga leiðinlega núna. Held að Akureyri um áramót sé að komast á síðasta séns hjá mér, samt nóg af sætum stelpum til að horfa á. Spurning um að fara að taka upp á því að reyna við kvenfólk nú á gamals aldri ;)