Damien Rice –
ODamien Rice hefur tvisvar komið til Íslands og haldið tónleika. Það rímar ágætlega við mörg lagaheitin á
O, fyrstu geislaplötu hans. „Volcano,“ „Cold Water“ og „Eskimo.“ Sönnun þess að við erum komin af Írum en ekki Norðmönnum? Hann sannfærir mann um það. Damien er það heimilislegur, ekki þó hversdagslegur, að manni þykir alltaf eins og maður hafi loks fundið þetta „heima“ sem aðeins löngu gleymdar minningar rifja upp. En Damien kann þennan galdur tónlistarinnar, maður man eitthvað sem maður hefur aldrei heyrt, þetta er kunnugleg en um leið alveg splunkuný upplifun.
Hér eru rokkaðar vögguvísur og epísk ljóð. Hér er einlægni bernskunnar spunnin við visku hins fullorðna. Söknuður og trú á framtíðina, hlið við hlið. Lögin byggjast ofurhægt upp og eru svo oft við það að springa – en jafnvel þegar það gerist þá er nógu sterkt þyngdarafl í tónlistinni til þess að hún nái alltaf að safna sér saman aftur, hefjast á ný. Tónlistin hefur ótrúlega sterkt jarðsamband, jarðsamband þess sem liggur á bakinu og horfir á stjörnurnar. Jarðsamband þess sem veit að alvöru tónlist hefur vigt. Það er ómögulegt að greina þessa plötu niður í frumeindir, til þess er hún of einlæg. Kaldhæðni og formlegheit lífsþreyttra gagnrýnenda bítur ekki á henni. Þú veist ekki hvort þetta er hans einlægni eða þín, lögin koma til þín og verða þín. Þín sem aldrei gast sungið nógu vel en loks hefur einhver gert það fyrir þig. Þessi plata er það persónuleg að þú getur ekki annað en kallað söngvarann Damien.
Írar eru sagnaþjóð. Ólíkt því sem oftast gerist þá er algerlega ómögulegt að aðskilja tónlistina og sagnalistina, á eyjunni grænu er músan svo sannarlega sönggyðja. Orðin ríma hárfínt við lögin, „Delicate.“ Fyrsta lagið. Það fjallar um gamla ást sem ekki skilst enn. Var einlægnin aðeins hans megin? Why d’ya sing hallelujah / if it means nothin’ to ya. Þetta er söngur einlægni sem hefur misst sakleysið. Lag sem endar í spurn sem verður það leiðarstef sem platan leitar svara við.
Næsta lag er eldfjall, „Volcano.“ Nú hafa hlutverkin snúist við, nú hefur hann vit á að vera sá sem elskar minna. Nú er það hún sem færir honum heiminn. Þarna kemur Lisa Hannigan fyrst við sögu og syngur kafla í seinni hlutanum. Hún er vatnadís, einhver írsk þjóðsagnavera sem Damien hefur galdrað upp. Öruggar heimildar herma að hún sé mennsk en röddin kemur upp um upprunan.
Fallegasta lagið á disknum er næst. „The Blower’s Daughter.“ Get ekki tekið augun af þér syngur hann og þú getur það ekki heldur. Þessi einfalda lína, Can’t take my eyes off you, er margtugginn og hefði verið dauðadæmd hjá flestum – en með nógu mikilli einlægni og sannfæringu þá heyrirðu þessi orð í fyrsta skipti hjá Damien og svo enduróma þau í hausnum á þér í heila eilífð, líklega með minningu af stúlkunni sem þú getur ekki gleymt. En ef fyrsta lagið var um stúlkuna sem þú misstir er þetta um stúlkuna sem þú aldrei færð.
Næsta lag, „Cannonball,“ er um stúlkuna þína, núna. There’s still a little bit of your taste in my mouth / there’s still a little bit of you laced with my doubt. Þetta er nýtt, ferskt. Lífsreynsla sem enn er verið að melta.
„Older Chests“ er hins vegar lífsreynt, sjóað og veraldarvant. Papa went to other lands / and found someone who understands / the ticking and the western man's need to cry. Sögustund, faðirinn kominn heim og segir sögur frá fjarlægum löndum.
„Amie“ er hins vegar hérna og fjallar um það að lífið sé annars staðar. Um það hvernig ekkert breytist og allt virðist ávallt vera við hið sama. Fastur í sama farinu, aðrir fara en þú varðst eftir. the same old scenario the same old rain / and there's no explosions here. Stríðið er annars staðar. Þetta gerist allt í hausnum á þér.
Þá kemur gamli flagarinn upp í honum. „Cheers, darlin’“ – skál, elskan. Maður heyrir hann sveifla glasinu, skála fyrir sorginni. Sorgin er nefnilega fjandi skemmtileg hjá Damien, melankólía með líflegum blús.
„Cold Water.“ Umlukinn, týndur í heiminum. Aleinn en samt ná tónarnir til okkar. Einhvern veginn framkallast lokaatriðið í Einskismannslandi þar sem hermaður liggur og bíður dauða síns og starir til himins á meðan myndavélin fjarlægist hann. Þrátt fyrir einsemdina er vatnadísin Lisa hér, seiðir hann til sín.
Lisa á einmitt óvenju stóran þátt í næsta lagi, „I Remember.“ Þetta er ástardúett, þau muna hvort annað, þrá hvort annað. Um leið ákallar hann alla hina, þetta er herkvaðning í stríði hvers manns. „Come all ye lost.“
Lokalagið er hápunktur plötunnar, réttara væri þó að tala um lokatrakk plötunnar því þar eru þrjú lög á einu númeri með þögn á milli. 15 mínútna lagasyrpa sem tengist þó á einhvern einkennilegan hátt. Fyrst er „Eskimo,“ aría plötunnar. Melódískt rokkið leysist upp í óperu um leið og sungið er um ímyndaða vininn sem allt veit, eskimóann. I look to my eskimo friend when i’m down down down.
Millilendingin er „Prague,“ drungalegt ævintýri um þann sem fer til ævintýralandsins að slægja drekann. Ferðalagið er órökrétt, áfangastaðurinn borgin handan fjarskans. Þetta er holóttur vegur, lagið byrjað ofurhægt en springur út, lækkar og hækkar. Hér er samankomið lognið á undan storminum, stormurinn sjálfur – og sjálf miðja fellibylsins.
Lokalagið syngur Lisa ein. „Silent Night,“ undurfagur útúrsnúningur á samnefndu lagi. Þessi nótt er drungalegri en „Heims um ból“ en um leið jafnvel enn fegurri. Eins og Nick Cave hefði sungið það ef hann hefði álfkonurödd. Silent night, broken night.
Ég hef notað orðin hann og hún og þú, en ég er ekki endilega að eigna Damien Rice og Lisu Hannigan sjálfum þessar upplifanir. Né taka þær frá þeim. Galdurinn er sá að þetta getur verið hver sem er. Damien, Lisa, þú. Það má finna ótal sögur í þessari tónlist. Hún er í eilífri mótsögn við sjálfa sig en nær þó algjörum samhljómi. Titillinn er O, hringur, og innan hans er veröld þín. Á umslaginu er tvær manneskjur, merktar ég og þú. Tónlistin er full af ástríðu, sorg, gleði, yfirvegun, brjálæði og hreinlega öllu því sem maður getur hugsanlega leitað af í list. Þannig að; takk Damien fyrir að segja söguna okkar. Takk Lisa, vatnadís, fyrir að fljóta með. Skál bæði, skál fyrir að gera hlutina af hugsjón, gleði og ástríðu. Skál fyrir því að skapa tónlist sem mun lifa okkur öll og engum getur verið sama um.