sunnudagur, febrúar 29, 2004

Besta mynd:

The Lord Of The Rings: The Return Of The King
Lost In Translation
Master And Commander: The Far Side Of The World
Mystic River
Seabiscuit


Jú, LOTR á verðlaunin skilið - en þó efast ég töluvert um kenningar um að þeir hafi beðið fram að síðustu mynd. Ef eitthvað er þá segir sagan okkur að fyrsta myndin hefði verið líklegri. En það að fyrstu tvær myndirnar hefðu tapað fyrir ekki merkilegri myndum en Chicago og ömurlegu vellunnni A Beautiful Mind er ekki góðs viti - og Mystic River og Master and Commander margfalt betri en þær tvær. En það er erfitt að sjá hvor er líklegri til að ógna LOTR - Mystic River er með mun færri tilnefningar en í stærri flokkum - þannig að ég ætla að taka sénsinn og skjóta á að LOTR hafi þetta loksins.
Besti leikstjóri:

Fernando Mereilles – Borg Guðs / Cidade de Deus
Peter Jackson (2) – The Lord of the Rings: The Return of the King
Sofia Coppola – Lost in Translation
Peter Weir (4) – Master and Commander: The Far Side of the World
Clint Eastwood (2) – Mystic River

Mjög svo opinn flokkur, Mereilles á vissulega engan séns enda myndin ekki tilnefnd en hin fjögur eiga öll einhvern séns. Sérstaklega eru Jackson, Eastwood og Weir sterkir - ég ætla að skjóta á Weir, því hann er líklega besti leikstjóri sem er að vinna í Hollywood í dag og á verðlaunin inni. Þó væri hann vissulega að fá hana fyrir vitlausa mynd en það er víst of seint að leiðrétta yfirsjónir eins og það hvernig akademían gekk fram hjá The Truman Show.
Besti leikari:

Johnny Depp – Pirates of the Caribbean: The Curse of the Black Pearl
Ben Kingsley – House of Sand and Fog
Jude Law – Cold Mountain
Bill Murray – Lost in Translation
Sean Penn – Mystic River

Jude Law á engan séns hér, Ben Kingsley lítinn. Þeir sem eftir eru, Penn, Murray og Depp, eiga allir inni óskar eftir mörg frábær hlutverk - sérstaklega var einhver mesti skandall í sögu akademíunnar þegar Penn vann ekki fyrir Dead Man Walking. En ólíkt því sem margir hafa haldið fram þá eru hvorki Penn né Murray í toppformi í Mystic River eða Lost in Translation - þó góðir séu. Það er Johnny Depp hins vegar í líklega besta hlutverki ársins. Hann ætti að vinna - en þetta verður væntanlega einvígi á milli Penn og Murray sem Murray vinnur.
Besta leikkona:

Keisha Castle-Hughes - Whale Rider
Diane Keaton - Something's Gotta Give
Samantha Morton - In America
Charlize Theron - Monster
Naomi Watts - 21 Grams

Hef enga mynd séð hér og lýst illa á það sem ég hef séð af Monster. En það virðist þó satt best að segja nokkuð öruggt að Theron vinni þetta, helst vona ég að hin frábæra Samantha Morton stoppi hana.
Besti leikari í aukahlutverki:

Alec Baldwin - The Cooler
Benicio Del Toro - 21 Grams
Djimon Hounsou - In America
Tim Robbins - Mystic River
Ken Watanabe - The Last Samurai

Tim Robbins á þessi verðlaun skilið og fær þau væntanlega, Ken Watanabe er góður en ekki stórkostlegur í The Last Samurai. Hef eiginlega helst á tilfinningunni að Alec Baldwin gæti komið á óvart ef Robbins fær þetta ekki.
Besta leikkona í aukahlutverki:

Shohreh Aghdashloo - House of Sand and Fog
Patricia Clarkson - Pieces of April
Marcia Gay Harden - Mystic River
Holly Hunter - Thirteen
Renée Zellweger - Cold Mountain

Renée Zellweger er lang sigurstranglegust og á verðlaunin alveg skilið, Marcia Gay Harden skilar sínu en lítið meira, aðrar hef ég ekki séð en hef á tilfinningunni að Aghdashloo sé líklegust til að ógna Zellwegger, einfaldlega út af því að það er merkilega algengt í þessum flokki að sá ólíklegasti vinni.
Besta erlenda myndin:

Árás villimannana / Les Invasions barbares (Denys Arcand) – Kanada
Illskan / Ondskan (Mikael Håfström) – Svíþjóð
Samúræji í ljósaksiptum / Tasogare Seibei (Yoji Yamada) – Japan
Tvíburasystur / De Tweeling (Ben Sombogaart) Holland
Želary (Ondrej Trojan) – Tékkland

Ekkert af þessum ræmum komið til landsins frekar en venjulega - man þó að á sínum tíma var ég búin að sjá bæði Amélie og No Man's Land en það er undantekningin. Sú erlenda mynd sem mest er í sviðsljósinu þetta árið er Borg Guðs - sem var ekki tilnefnd í fyrra þegar hún var fulltrúi Brasilíu en Kaninn virðist vera búin að melta hana núna. Þannig að það er í raun engin sérstaklega sigurstrangleg, gaman ef Tékkarnir ynnu þetta en mig grunar að þessi verðlaun fari styttra en nokkru sinni áður, nánar tiltekið rétt yfir landamærin. Fyrir það fyrsta er hin Kanadíska Árás villimannana (ég efa ekki að þeir eru að tala um þessa barbara handan landamæranna) sú eina hér til þess að vera með tilnefningar í fleiri flokkum og þar að auki er Denys Arcand náttúrulega snillingurinn sem gerði Jesus de Montreal fyrir hálfum öðrum áratug.

Besta teiknimynd í fullri lengd:

Brother Bear
Finding Nemo
Les Triplettes de Belleville


Ekkert séð af þessu - enda hálf ómögulegt á þessum síðustu og verstu að ná Finding Nemo á frummálinu - en nokkuð ljóst að Bjössi bróðir á ekki séns. Það virðist vera kominn hálfgerð hefð hérna, ein Disneymynd tilnefnd án þess að eiga séns á meðan ein Pixarmynd og ein erlend teiknimynd berjast um sigurinn. Í fyrra vann hin japanska Sen to Chihiro no kamikakushi óvæntan sigur, Bellevilleþríburarnir hafa það með sér að vera með tilnefningu fyrir besta lag líka en ég sé ekki að það verði gengið fram hjá Pixar aftur, sérstaklega í ljósi þess að Finding Nemo er orðin vinsælasta teiknimynd allra tíma.
Besta handrit – aðlagað:

Brian Helgeland – Mystic River (Dennis Lehane)
Braulio Mantovani – Borg Guðs / Cidade de Duis (Paulo Lins)
Robert Pulcini and Shari Springer Berman – American Splendor (Harvey Pekar)
Gary Ross – Seabiscuit (Laura Hillenbrand)
Fran Walsh, Philippa Boyens & Peter Jackson – The Lord of the Rings: The Return of the King (J.R.R. Tolkien)

Þetta er á milli hins mistæka en hæfileikaríka Helgeland og þrenningarinnar sem aðlagaði Tolkien (Philippa Boyens er í raun aðallega í því hlutverki að passa að ekkert fari í gegn sem stangast of mikið á við bækurnar). Hugsa að Helgeland hafi þetta fyrir Mystic River, enda handritið að mörgu leiti veikasti hluti þessa síðasta hluta þríleiksins - hversu margir endar voru aftur á myndinni?

Besta handrit – frumsamið:

Denys Arcand – The Barbarian Invasions (Les Invasions Barbares)
Sofia Coppola – Lost in Translation
Steve Knight – Dirty Pretty Things
Jim Sheridan, Naomi Sheridan & Kirsten Sheridan – In America
Andrew Stanton, Bob Peterson & David Reynolds – Finding Nemo

Hef séð tvær hérna, annars vegar þá sem á örugglega eftir að vinna ósanngjarnt - Sofia Coppola (sem gerði í raun mun betur með The Virgin Suicides) fyrir Lost in Translation og hins vegar eina sem á ekki minnsta séns en á virkilega skilið styttu - og er raunar skandall að sé ekki tilnefnd í fleiri flokkum - Steve Knight með handritið að hinni frábæru Dirty Pretty Things.

laugardagur, febrúar 28, 2004

Bikarinn er loksins kominn heim aftur!

Eftir 8 ára bið var þetta nú bara fjandi létt, varla að púlsinn færi af stað. Þegar við bætist að Arsenal er enn að bæta við í ensku þá er niðurstaðan eintóm gleði, eini gallinn er að vera ekki heima á Akureyri að fagna ...
Jæja þá eru bara stærstu verðlaunin eftir, já auðvitað er ég að tala um verðlaunin fyrir bestu teiknimyndina! Það kemur allt á morgun, en núna er komið að því að fagna stórviðburði dagsins ...
Besta kvikmyndataka:

Russell Boyd – Master and Commander: The Far Side of the World
César Charlone – Borg Guðs / Cidade de Deus
John Schwartzman – Seabiscuit
John Seale – Cold Mountain
Eduardo Serra – Girl with a Pearl Earring

Kemur verulega á óvart að LOTR komist ekki að hér, kannski vísbending um að myndin sjálf vinni ekki? Sjáum til, en af þeim sem eru þá eru hugsa ég að Cold Mountain hafi þetta þó Master and Commander og Borg Guðs séu ekkert síður líklegar.

Besta klipping:

William Goldenberg – Seabiscuit
Walter Murch – Cold Mountain
Daniel Rezende – Borg Guðs / Cidade de Duis
Jamie Selkirk – The Lord of the Rings: The Return of the King
Lee Smith – Master and Commander: The Far Side of the World

Klippingin er væntanlega sterkasti hluti Borgar Guðs þannig að ef hún fær einhver verðlaun eru það þessi.

Besta listræna stjórn:

Lilly Kilvert & Gretchen Rau – The Last Samurai
Grant Major, Dan Hennah & Alan Lee – The Lord of the Rings: The Return of the King
Jeannine Claudia Oppewall & Leslie A. Pope – Seabiscuit
Ban van Os & Cecile Heideman – Girl with a Pearl Earring
William Sandell & Robert Gould – Master and Commander: The Far Side of the World

Hlýtur að vera Master and Commander, því hér er í rauninni að keppa stjarna myndarinnar, skipið sjálft. (fullt nafn verðlaunanna er minnir mig Art Direction, Production Design)

Besta búningahönnun:

Ngila Dickson – The Last Samurai
Ngila Dickson – The Lord of the Rings: The Return of the King
Julianna Makovsky – Seabiscuit
Dien van Straalen – Girl with a Pearl Earring
Wendy Weir – Master and Commander: The Far Side of the World

Ngila í samkeppni við sjálfa sig, full hátíðlegir sumir Samúræjabúningarnir en LOTR keppir væntanlega við Master and Commander. Skýt á LOTR.

Besta förðun:

Eduardo F. Henriques & Yolanda Toussieng – Master and Commander: The Far Side of the World
Ve Neill, Martin Samuel – Pirates of the Caribbean: The Curse of the Black Pearl
Richard Taylor & Peter King – The Lord of the Rings: The Return of the King

Lordarinn hefur þetta, örugglega sjaldgæft að myndir vinni fyrst og fremst fyrir förðun á fótleggjum ... ef maður vissi ekki betur mætti alveg halda að þetta væri keppni um hvaða mynd væri með lengsta nafnið
Besta tónlist:

Danny Elfman – Big Fish
James Horner – House of Sand and Fog
Thomas Newman – Finding Nemo
Howard Shore – The Lord of the Rings: The Return of the King
Gabriel Yared – Cold Mountain

Traustir kompóserar þó enginn sé í sérstöku uppáhaldi þannig séð. Hef á tilfinninguna að Elfman sé virkilega að ná sér á strik með Big Fish eftir ansi mögur ár þar sem hann hefur lifað á fornri frægð, en myndin sjálf virðist ekki fá það fylgi sem maður hefði búist við hjá akademíunni. Besta tónlistin í Cold Mountain var innlegg White Stripes-liðans og það þýðir að Shore ætti að taka þetta fyrir LOTR.

Besta lag:

"Into the West" e. Fran Walsh, Howard Shore & Annie Lennox – úr The Lord of the Rings: The Return of the King
"A Kiss at the End of the Rainbow" e. Michael McKean & Annette O’Toole – úr A Mighty Wind
"The Scarlet Tide" e. T-Bone Burnett & Elvis Costello – úr Cold Mountain
"Les Triplettes de Belleville" e. Benoit Charest & Sylvain Chomet – úr Les Triplettes de Belleville
"You Will Be My Ain True Love" e. Sting – úr Cold Mountain

Þetta eru verðlaun sem maður myndar sér oft ekki skoðun um fyrr en á kvöldinu sjálfu þegar maður nær að heyra þau. Maður fékk ekki tækifæri til þess að njóta lokalagsins í LOTR vegna þess hve allir voru að hlaupa út undir kreditlistanum enda klukkan að ganga fimm, en eitt lag var mjög gott í Cold Mountain, kæmi ekki á óvart að það væri "The Scarlet Tide". En ég skýt á að gamla Evróryþmamixið hafi þetta en samt í raun ekkert eitt lag sérstaklega sigurstranglegt.
Besta hljóð:

Christopher Boyes, Michael Semanick, Michael Hedges & Hammond Peek – The Lord of the Rings: The Return of the King
Christopher Boyes, David Parker, David E. Campbell & Lee Orloff – Pirates of the Caribbean: The Curse of the Black Pearl
Paul Massey, Doug Hemphill & Art Rochester – Master and Commander: The Far Side of the World
Andy Nelson, Anna Behlmer & Jeff Wexler – The Last Samurai
Andy Nelson, Anna Behlmer & Tod A. Maitland – Seabiscuit

Ég man sérstaklega eftir því hvað hljóðið í LOTR var gott - en hins vegar eru þessi verðlaun oftast í takti við hljóðbrellurnar þannig að ég grísa á Master and Commander ...

Bestu hljóðbrellur:

Gary Rydstrom & Michael Silvers – Finding Nemo
Richard King – Master and Commander: The Far Side of the World
Christopher Boyes & George Watters II – Pirates of the Caribbean: The Curse of the Black Pearl

... og reikna sem sagt með að hún vinni þetta líka ...

Bestu tæknibrellur:

John Knoll, Hal T. Hickel, Terry D. Frazee & Charles Gibson – Pirates of the Caribbean: The Curse of the Black PearlJim Rygiel, Joe Letteri, Randall William Cook & Alex Funke – The Lord of the Rings: The Return of the King
Daniel Sudick, Stefen Fangmeier, Nathan McGuiness & Robert Stromberg – Master and Commander: The Far Side of the World

Þessi verðlaun á LOTR, helst að sjóræningjarnir geti strítt henni - en vafalítið áfall fyrir Wachovskibræður að fá ekki inn hér.

föstudagur, febrúar 27, 2004

Þá yfir í heimildamyndirnar ...

Besta heimildarmynd í fullri lengd:

Balseros – Carlos Bosch & José María Doménech
Capturing the Friedmans – Andrew Jarecki
The Fog of War: Eleven Lessons from the Life of Robert S. McNamara – Errol Morris
My Architect: A Son’s Journey – Nathaniel Kahn
The Weather Underground – Sam Green & Bill Siegel

Trendið hér í ár er Víetnam - bæði The Fog of War (McNamara er að sumum talin arkitektinn af stríðinu) og The Weather Underground hafa það sem baksvið. En Capturing the Friedmans hefur vakið ansi sterk viðbrögð og þykir merkileg á margan hátt, lýsingarnar minna að sumu leyti á Dead Man Walking, þannig að ég skýt á hana.

Besta stutta heimildamyndin:

Asylum – Sandy McLeod
Chernobyl Heart – Maryann DeLeo
Ferry Tales – Katja Esson

Tvær fyrri myndirnar taka á heimsmálunum á meðan Ferry Tales er meira á rólegu nótunum - um hóp kvenna sem setur andlitið á sig og trúa vinkonum sínum fyrir hvað er á bak við hvern dag á ferjunni frá Staten Island - vinnur út á það að vera á öðrum nótum en hinar.

Svo eru næst æsispennandi liðir eins og besta hljóð svo ekki sé minnst á klippinguna ...
Besta stuttmynd – teiknuð:

Boundin' – Bud Luckey
Destino – Dominique Monfery
Gone Nutty – Carlos Saldanha
Harvie Krumpet – Adam Elliott
Nibbles – Christopher Hinton

Gone Nutty hefur þetta, íkornamyteiknimyndir eru alltaf sterkar ... segiði svo að þetta verði ekki vísindalegt ...

Besta stuttmynd – leikin:

Rauði jakkinn / Die Rote Jacke – Florian Baxmeyer
Brúin / Most – Bobby Garebedian
Squash – Lionel Bailliu
(A) Toruzija – Stefan Arsenijevic
Two Soldiers – Aaron Schneider

Ég er alltaf viðkvæmur fyrir tékkneskum Brúm – og raunar brúm almennt ... þó forvitnilegt að tvær (Rauði jakkinn og (A) Toruzija) af þessum myndum gerast í Sarajevo og með Most gerast 60 % af myndunum hér austan við gamla járntjald. Það sést hvar gróskan er ...
Óskarinn 2003

Jamm, þá er kominn tími til að koma sér í gírinn. Þarf aldrei þessu vant ekki að treysta á aðra til að horfa þar sem Stöð 2 er á vistinni. En spurning um að byrja á verðlaununum í myndum sem fæstir hafa séð ...
Föstudagslagið

Er búin að vera að vinna með tónlist alla vikuna - en því miður tókst mér ekki að finna neitt R.E.M. lag sem passaði fyrir 503. Full flókin til að vinna mikið með þau. En þess í stað verða tveir R.E.M. slagarar hér - og að auki getraun: Kötturinn með höttinn kemur við sögu í hvaða R.E.M. lagi?

At My Most Beautiful

I've found a way to make you
I've found a way
A way to make you smile

I read bad poetry
Into your machine.
I save your messages
Just to hear your voice
You always listen carefully
To awkward rhymes.
You always say your name,
Like I wouldn't know it's you,
At your most beautiful.

I've found a way to make you
I've found a way
A way to make you smile

At my most beautiful
I count your eyelashes, secretly.
With every one, whisper I love you.
I let you sleep.
I know you're closed eye watching me,
Listening.
I thought I saw a smile.

I've found a way to make you
I've found a way
A way to make you smile.

Why Not Smile?

The concrete broke your fall
To hear you speak of it
I'd have done anything
I would do anything
I feel like a cartoon brick wall
To hear you speak of it
You've been so sad
If makes me worry
Why not smile?
You've been sad for a while.
Why not smile?

I would do anything
To heard you speak of it.
Why not smile?
You've been sad for a while.
You've been sad for a while.

þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Þriðjudagsbíó

Fór á bíó um helgina í fyrsta skipti í ár, og annað og þriðja líka. Jamm, maður verður að nota bæjarferðirnar – og svo var aldrei þessu vant eitthvað með viti sem ég átti eftir að sjá í Sauðárkróksbíó þegar ég kom til baka.

Það er erfitt að segja ástarsögur. Rómantískar gamanmyndir eru vel að merkja nokkuð annað, það er svona smá ást en þess á milli er hægt að halda myndinni uppi á bröndurum. Eða hasar eða melódrama, einhver að deyja og svona. En það að hafa ástina eina og sér í forgrunni er reglulega erfitt – og raunar mjög sjaldan reynt. Lost in Translation reynir, tekst einstöku sinnum – sum atriðin eru hjartnæm og frábær – en myndin sjálf vinnur meira á stigum frekar heldur en að vinna mann alveg yfir. Til þess er margt við sögupersónurnar alltof tilgangslaust – þau eru oft asnalega vitlaus, ekki nóg með að vera í erlendri stórborg þá virðast þau líka eiga næg fjárráð og tíma hafa þar af leiðandi enga afsökun fyrir því að fá ekki allt það út úr Tókýó sem hægt er. En nei, best að hanga uppá hótelherbergi á bömmer yfir engu sérstöku. Fyrir utan hálf kjánalega brandara oft sem ganga út á það að, jeremías! – það tala ekki allir ensku hérna. Góð útlistun á þeim þætti myndarinnar hjá æsifréttablaðamanninum hér. En myndin er oft mjög fín þegar þau tvö eru ein saman, sambandið sem slíkt unnið af skemmtilegri hlýju og næmni. En það hefðu mátt vera skemmtilegri einstaklingar í þessum samböndum. Það besta við myndina er þó vissulega leikararnir tvö, þá sérstaklega Scarlett Johanson. Bill Murray er góður enda búin að vera frábær undanfarið eftir að hafa sagt að mestu skilið við vinsældabíóið en það er vitleysa að þetta sé hans stærsti leiksigur eins og maður hefur heyrt út um allt – baráttan um þann heiður er á milli minni hlutverka sem Herman Blume í Rushmore og búktalarans óborganlega í The Cradle Will Rock. En það var ein mynd sem þessi minnti mig alltaf á, aðallega fyrir það að Lost in Translation nær aldrei sömu hæðum og sú mynd – Before Sunrise. Gerist sömuleiðis í erlendri stórborg sem verður einskonar eyja fyrir tvo elskendur (í mjög víðri merkingu) en karakterarnir í Before Sunrise og hlýjan og húmorinn sem skín í gegn, svo ekki sé talað um hvernig Vínarborg er gædd lífi, gerir Before Sunrise að svo miklu betri mynd. Eitt til þess að velta fyrir sér að lokum – hvern ætli Bill Murray sé að leika? Því ef þetta er ekki sjálfsævisögulegt þá veit ég ekki hvað. Sofia litla inná hótelherbergi á meðan pabbi er að vinna, gamall lífsþreyttur leikari sem nær einhverju einkennilegu kontakti við stelpuna ... Martin Sheen, Marlon Brando eða Al Pacino jafnvel? Erfitt að segja. Svo ungi eiginmaðurinn, hot shot ljósmyndarinn. Karakterinn ekkert mjög ólíkur því sem maður gæti ímyndað sér Spike Jonze sem hún er rétt nýskilin við.

Svo var það Cold Mountain, þar er það ástarsagan sem er að klikka. Þau Jude Law (þó Law sé í vitlausu hlutverki, það er bara ómögulegt að ímynda sér hann sem bældan – þetta var nú einu sinni eini maðurinn sem gat leikið Ástarvélmennið Gigalo Joe) og Nicole Kidman leika ágætlega en aðalpersónurnar tvær eru alltof flatar til að sú saga virki almennilega. En þrátt fyrir það er myndin merkilega góð, einfaldlega af því að hver einasta aukapersóna er frábær. Hvort sem þær eru kómískar eða tragískar, í stóru eða litlu hlutverki. Það er eiginlega best að njóta myndarinnar með því að nota aðalpersónurnar sem sögumenn um allt þetta skrautlega persónugallerí. Það fer að vísu lítið fyrir aukapersónunum í upphafi ef undan er skilin Donald Sutherland sem pabbi Kidman, en svo bætist við Renee Zellwegger í líklegri óskarsrullu, Brendan Gleeson sem pabbi hennar, Natalie Portman – sem ég ætlaði ekki að þekkja fyrst – sem einmana ekkja, Philip Seymour Hoffman sem óendanlega breyskur prestur og Giovanni Ribisi – sem fékk lítið að gera í Lost in Translation – sem hillibilli dauðans eru öll að brillera. Að auki einhver kella að leika góða og skemmtilega norn og eitt illmennið er yndislega sadískur. Aðalillmennið á aftur á móti eitt besta atriði myndarinnar þegar hann gleymir eigin illsku í augnablik og syngur með sorgaróð flækinganna (einn þeirra einmitt leikin af söngvaranum í White Stripes).

Að lokum var það svo önnur epík, The Last Samurai, í Sauðárkróksbíói. Traust en eiginlega ekki mikið meir. Áhugaverð saga að mörgu leyti, þeim tekst að gera þráðinn þannig úr garði að það er ekki alveg út úr kú heldur bara hreinlega alveg rökrétt að Tom Cruise sé að væbblast þarna í Japan 19 aldar. En sagan sjálf gengur að sumu leyti ekki alveg upp – fyrir hverju í fjandanum eru samúræjarnir að berjast? Fortíðinni? Hefðunum? Líklega gæti þetta verið uppáhaldsmynd Tryggva skólameistara. En skemmtileg írónía þó í því að tæpri öld seinna var þessari nútíma hertækni sem Kaninn seldi Japönum beitt á Kanann sjálfan. En málið með The Last Samurai er raunar það að athyglisverðastu söguna fáum við aldrei að sjá, aðeins heyra um. Fortíð Algrens, þar sem hann virðist hafa fengið álíka ást á indjánum en leitt þá svo til slátrunar. Þar er mun áhugaverðari saga sem því miður er að mestu ósögð. Það einkennilega við báðar þessar myndir, Cold Mountain og The Last Samurai, er svo það hvernig það er sterk ádeila á það hvernig hvíti maðurinn undirokaði svarta og rauða – en auðvitað er þessi sami hvíti maður í aðalhlutverki.

En semsagt, 3 myndir, frábær móment í öllum en eitthvað sem vantar alls staðar. Það sem situr eftir er einfaldlega það að þær hefðu allar getað verið frábærar – því miður er enginn þeirra það – allar ná þó því að vera góðar.

Þó einhver sameiginlegur þráður sem rennur í gegnum þær, sérstaklega forvitnilegt að bæði Ed Zwick og Anthony Minghella eru að vissu leiti að setja út á stríðsbrölt Bush í myndum sínum - en það segir sitt um stöðu mála þar að þeir geti ekki komist upp með að gera það nema með því að láta myndir sínar gerast á þarsíðustu öld.
Það er allt að fara til andskotans. Menntunar- og menningarstig þjóðarinnar hríðfellur og mikilvægustu gildi siðmenningarinnar eru að hruni komin. Ástæða þess er vissulega sú sorglega staðreynd að fyrir áratug borðuðu íslendingar samtals eina milljón bollur á bolludeginum en eru núna komnir niður í hálfa milljón. Hvers konar ládeyða og aumingjaskapur er þetta í þjóðinni. Það veit ég að ættfeður okkar hafa allir snúið sér marga hringi í gröfinni í gær.

En ykkur til huggunar get ég greint frá því að ég er búin að semja öll miðannarprófin og get chillað við að sitja yfir á morgun á meðan greyin svitna ...

mánudagur, febrúar 23, 2004

Survivor All-Stars

iv

Ansi dramatískt síðast, Jenna aldrei verið mér sérstaklega eftirminnileg fyrr en þarna. Væntanlega dregur þetta kjark úr hennar ættbálk – það gerðist að minnsta kosti síðast þegar einhver fór heim án þess að vera kosinn burt. En ansi var nú rifrildið á milli Jerri og Rupert saklausara en leit út fyrir í trailernum í þættinum á undan, ég bíð spenntur eftir að þau eigi nú smá fling saman. Spurning svo hvort gamlir neistar komi ekki upp á milli Jerri og Colby.

En annars ætla ég að spá Chapera þingi í kvöld, spurning um að halda spennu í þessu. Ef það gerist þá treysti ég því að trökkdræver dauðans verði hent út áður en hún fær meiri meltingartruflanir – þó vissulega sé Alicia í hættu.
Sunnudagsgöngutúr

Fyrir einu ári og einum degi síðan var ég nýkominn úr vísindaferð í Edduna þar sem við Björgólfur reyndum að komast að niðurstöðu um það hvað gerði bók góða. Síðan tók ég, Kiddi, Valur og Rúnar smákrók á leiðinni í partí og komum heim á Framnesvegi að sjússa Slivovice, Absint og Bekkerovku – ég var í skrítnu hugarástandi því þetta var að verða búið.
Jamm, í dag á ég nefnilega eins árs útskriftarafmæli. Ekkert partí, enda erum við öll fjögur sjálfsagt dreifð um víðan völl. En ég er búin að vera bókmenntafræðingur í eitt ár. Fyrir ári síðan var ég nýlega kominn heim, búin að leggja eitt skrímsli en annað var um það bil að fara að stækka út fyrir allan þjófabálk. Jamm, um leið og ritgerðarskrímslið hætti að stækka þá fór yfirdrátturinn að hækka.
Lengst af var prófskírteinið ódrepandi vörn gegn öllum atvinnutilboðum, sannkallað kryptonít. En veturinn hér á Króknum hefur vissulega leyst úr því í bili. En ég man að ég lofaði því hér fyrir ári að setjast niður og rifja upp af hverju ég hefði nú verið að þessu. Kominn tími til að standa við loforð?
Skáldadraumar? Já, vissulega. Ískyggilega algengt, svo algengt að eftir smá tíma fer maður að hafa hljótt um það. Það er sjálfsagt ennþá aðaldrifkrafturinn – en draumar eiga það til að flækjast. Síðan undir lokin, þegar ég var að berjast við blessaða ritgerðina, þá fór ég virkilega að fara að hafa áhyggjur á greininni sjálfrar hennar vegna. Þegar ég þóttist vera búin að sía út allt kjaftæðið, finna leiðir fram hjá sprengisvæði Almenns kressisma og hinni eilífu minnimáttarkennd hugvísinda gagnvart raunvísindum. Þá fór ég að sjá þetta sem eitthvað miklu meira en bara undirbúning fyrir skriftir – biðtíma sem ég skammtaði mér út af því mér fannst ég ekki vera tilbúin strax til þess að loka mig aleinn inní herbergi að skrifa. Sá draumur er vissulega enn til staðar og er vissulega miklu meira en draumur. En bókmenntafræðin, hún er viss aðferð til þess að skilja heiminn. Setja hlutina í samhengi. Finna dramatískt samhengi í hlutunum, tengja. Tengingarnar eru kannski það mikilvægasta, hvernig bækurnar og listirnar gegnsýra lífið og eru gegnsýrðar á móti. Sumt af þessu hefði kannski líka verið hægt að læra í sálfræði eða heimspeki – en í sálfræði er alltof oft verið að gera hluti sem eru ekki annað en eðlileg viðbrögð að sjúkdómum og í heimspeki eru fræðin að vissu leyti of tær – hún á það til að gleyma þessum mannlegu breyskleikum sem listin snýst alltaf um á endanum, er alltof upptekin af frummyndunum í stað eftirmyndanna – því sem upphaflega kveikti þó hugmynd Platons.
Fordómar? Örugglega. En mér finnst sálfræði og heimspeki spennandi greinar, sagnfræðin dregur endalaust meira í mig – en þetta er kannski það sem ég sé helst af þeim. Það eru jafnvel verri hlutir en þessir sem ég sé að bókmenntafræðinni – en ég er búin að finna leiðir fram hjá þeim, a way to cut the crap. Þær leiðir eru örugglega líka til í heimspeki og sálfræði eins og þeir sem eru að skrifa af viti um þær greinar geta örugglega vitnað um.



laugardagur, febrúar 21, 2004

Norður þýðir vitanlega Akureyri ef einhver var að velta því fyrir sér, systir mín var einmitt að spyrja mig um þetta í gær, ég búandi annars staðar á Norðurlandi þennan veturinn - en þó ég væri á heimleið frá Norðurpólnum þá yrði norður ávallt og eilíft heima á Akureyri. Logic has nothing to do with it of course ...
Laugardagsljóð

Kominn norður og var að rifja upp menntaskólaminningar, var svo seinna að grúska og fann þetta ljóð með einhverju blýantskroti í, minnti mig á að ég hafði lesið þetta í tjáningu og á tveim stöðum var ég búin að skrifa við “andakt” og á einum stað “dimmt” auk þess sem ég var búin að undirstrika nokkra kafla þar sem ég ætlaði að hafa áherslur. Lék mér líka einhvern tímann með þetta ljóð í grafísku námskeiði og splæsti saman við Errómálverk, þetta var áður en ég fór í bókmenntafræði og þurfti að fara greina helvítin. Kom mér nú svo sem oftast undan því, svona þannig séð ... en það er eitthvað við þetta ljóð, myndrænt, leikrænt – og svo eru svo furðu mörg ljóð í því, allt eftir skapi ...

Á föstudaginn langa 1954

Lengi, lengi hef ég staðið í fjörunni
við hið mikla haf sannleikans.

Og nú er ég faðir drengjanna,
sem veiða síli á litla öngla
föstudaginn langa.

Gegnum píslarhjarta frelsara vors,
sem dó á krossi,
svo að við mættum lifa,
synda inn í ljóð mitt
geislavirkir fiskar
hina löngu leið frá ströndum Japans,
og breyta andakt minni í ótta:

Mun ekki óvinur frelsara míns
varpa þúsund örsmáum helsprengjum
í djúpið,
og börn mín
veiða banvæna
geislafiska?
- Ó, hversu ljóðfagurt orð –

Lengi, lengi hef ég staðið í fjörunni
við hið mikla haf sannleikans
þar sem vísur mínar og spurningar falla
grunnt,
eins og steinar
og mynda fallega hringa.

föstudagur, febrúar 20, 2004

Föstudagslagið

Það er gaman að uppgötva hluti. Með aldrinum hefur maður orðið meiri og meiri obscuristi - Þekktar og vinsælar bækur, bíómyndir og lög eru vissulega mörg frábær og allt það - en maður á ekki jafn mikið í þeim og þessum minna þekktu, þetta er eins og lítið og skemmtilegt leyndarmál, fjársjóðsleit er miklu skemmtilegri þegar maður þarf virkilega að leita. Það er líklega um eitt og hálft ár síðan ég uppgötvaði Gary Jules. "Mad World" í Donnie Darko var upphafið. Síðan pantaði ég diskinn Trading Snakeoil for Wolftickets í jólagjöf og einhvernveginn er sá diskur eiginlega sándtrakkið við allan þann vetur í minningunni. En svo gerist það ótrúlega, Bretar urðu fyrsta þjóðin til að uppgötva fyrir alvöru hversu mikil snilld Donnie Darko var (ég endurtek enn og aftur að annað hvort Árna Sam eða Jóni Ólafs verður seint fyrirgefið fyrir að sýna hana ekki í bíó hér) og í kjölfarið þá virðist Jules vera að slá í gegn þar og miðað við það litla sem ég heyri af útvarpi hér heyrist mér að það sé eitthvað byrjað að spila Mad World hér. Einhverntímann heyrði ég líka DTLA - það væri synd ef það er næsti singull því það er lang slakasta lagið á disknum. En allavega, blendnar tilfinningar, heimurinn er ríkari en ég á einhvern hátt fátækari, bölvuð eigingirni - á vissan hátt vill maður eiga sumt fyrir sjálfan sig en um leið að það nái þeirri útbreiðslu sem það á skilið. En föstudagslagið, gjöriði svo vel:

Mad World

All around me are familiar faces
Worn out places
Worn out faces
Bright and early for the daily races
Going no where
Going no where

Their tears are filling up their glasses
No expression
No expression
Hide my head I wanna drown my sorrow
No tomorrow
No tomorrow
And I find I kind of funny
I find it kind of sad
The dreams in which I’m dying are the best I’ve ever had

I find it hard to tell you
I find it hard to take
When people run in circles its a very very
Mad world
Mad world

Children waiting for the day they feel good
Happy birthday
Happy birthday
And I feel the way that every child should
Sit and listen
Sit and listen
Went to school and I was very nervous
No one knew me
No one new me

Hello teacher tell me what’s my lesson
Look right through me
Look right through me
And I find I kind of funny
I find it kind of sad
The dreams in which I’m dying are the best I’ve ever had

I find it hard to tell you
I find it hard to take
When people run in circles its a very very
Mad world
Mad world
Enlarging your world
Mad world


- Gary Jules, upphaflega samið af Tears for Fears - en sú útgáfa kemst ekki í hálfkvisti. Já, stundum eru coverlögin betri.




You're Siddhartha!

by Hermann Hesse

You simply don't know what to believe, but you're willing to try
anything once. Western values, Eastern values, hedonism and minimalism, you've spent
some time in every camp. But you still don't have any idea what camp you belong in.
This makes you an individualist of the highest order, but also really lonely. It's
time to chill out under a tree. And realize that at least you believe in
ferries.



Take the Book Quiz
at the Blue Pyramid.

Bókahorn Gambrans gengur aftur í barndóm

Ég man eftir bókinni, hún eldist betur en myndin. Sagan endalausa eftir Michael Ende. Ef ég væri skikkanlegri í þýsku myndi ég vilja þýða allt eftir kallinn, þessar tvær sem út komu orðnar gjörsamlega ófáanlegar, mig langar að lesa Mómó (fullu nafni Mómó: eða Skrítin saga um tímaþjófana og barnið sem frelsaði tímann úr klóm þeirra og færði hann mannfólkinu á ný) aftur, man eitthvað lítið eftir henni enda langt síðan hún var lesin. En Söguna endalausu las ég bæði sem krakki og svo aftur á menntaskólaárunum – eða rétt eftir þau. Ég man að ég hef ekki fengið jafn mikla vitrun við að lesa neina af gömlu barnabókunum aftur nema þessari og Elsku Míó minn. Það er svo margt í manni sem er þarna út af þessum tveimur bókum. Sagan endalausa tengist einna helst því trúarlega, barnslega keisaraynjan er eina guðshugmyndin sem gengur út á einn alvaldan guð sem gæti gengið upp í mínum huga. Því hún er í raun siðlaus – eða öllu heldur, þykir jafn vænt um allar verur, hvort sem þær eru góðar eða vondar – og það er gagnkvæmt. Seinni hlutinn sem mér fannst mun síðri þegar ég las hann sem krakki er aftur á móti sá sem vinnur meira á og stendur algjörlega jafnfætis núna. Þessar hugleiðingar um óskirnar, það hvernig þær eru orsök allrar okkar ógæfu ekki síður en allrar okkar hamingju eru ólíkt áhrifameiri þegar þær eru ekki meltar í gegnum barnslegt sakleysi.
En mig langar að eiga þessar bækur hans Ende, þannig að ef einhver skransali les þetta og langar að losna við þær er honum bent á að hafa samband.

miðvikudagur, febrúar 18, 2004

Landafræðikunnátta Jay Leno

það var nóg að stoppa í tíu sekúndur á Skjá einum í gær til að vita allt um hana

"In the mountains of Czechoslovakia ..."

þriðjudagur, febrúar 17, 2004

Þriðjudagsbíó

Samkvæmt óáreiðanlegu minni var fyrsta myndin sem ég sá Doppuhundarnir, 101 Dalmatians eins og ég lærði löngu seinna að hún héti. Man ekkert eftir henni, man hins vegar að mér fannst Little Lord Fauntlorey afspyrnu leiðinleg en systir mín og frænkur sem fóru með sáu fyrir vökva fyrir heilann músaættbálk á meðan á sýningu stóð. En fyrsta myndin sem ég man eitthvað eftir að ráði var The Black Stallion - og svo The Black Stallion Returns sem mig minnir að ég hafi séð í Tónabíó sáluga. En fyrsta uppáhaldsmyndin var náttúrulega The Never Ending Story. Risaskjaldbökur og fljúgandi hundar, what more do you need? Þó Cristopher Lambert hafi vissulega verið svalur í Greystoke ... En það fyndna er að maður man aðallega eftir bíói úr Mogganum frá þessum árum, maður var ekki enn komin með fjárráð til að fara neitt af viti í bíó en þess í stað mundi ég held ég hvenær hver einasta mynd var frumsýnd og í hvaða bíói og þegar ég var hvað verstur klippti ég alltaf miniplakkötin í Mogganum út. Það besta var svo þegar maður komst í gamla Mogga með dularfullum og spennandi myndum sem maður hafði aldrei heyrt um áður. Komst svo seinna að því að það var hægt að fá gömul blöð lánuð á Amtsbókasafninu, nýtti mér það einstöku sinnum en þó ekki svo oft, aðallega af því ég upplifði mig alltaf sem harðvsíraðan glæpamann þegar ég fékk þau lánuð - ég meina til hvers í ósköpunum var níu ára gutti að biðja um DV / Moggann frá 83? Afgreiðslufólkið leit grunsamlega á mig, spurði hvað í ósköpunum ég ætlaði að gera með þetta. Hnýsni er þetta endalaust. En ef það er ennþá að velta fyrir sér var það upphaflega eitthvað að bíónördast, svo seinna meir var ég obsessed af vinsældalistum Rásar 2 sem hægt var að sjá aftur í tímann í föstudagsDV. Bölvuð vinsældahóra endalaust ...

mánudagur, febrúar 16, 2004

Survivor All-Stars

iii

Var óvenju latur í gær og fór barasta ekki í neinn labbitúr og klikkaði svo á bókahorninu á fimmtudaginn. Engin frammistaða en Survivor má náttúrulega ekki klikka.
Mitt lið búið að klikka tvisvar í röð en mínir menn þó ennþá inni þó maður hefði verið kominn með miklar áhyggjur af Ethan síðast. En Rupert er a.m.k. greinilega ekki undir hælnum á Jennu eins og maður hafði áhyggjur af þannig að eftir að Rudy er farinn treysti ég að hann og Ethan standi saman. Vona nú samt að ættbálkurinn sleppi í kvöld, jafnvel þó mig langi mikið til að sjá Jennu ganga plankann.
En ég vona að í staðinn fái ég að sjá Rob yfirkríp yfirgefa svæðið, gæti samt orðið Alicia, Rob er illa við fólk sem sér svona augljóslega í gegn um hann – sem ætti reyndar ekki að vera erfitt. En Big Tom virðist blessunarlega vera öruggur í bili.
Svo er spennandi að sjá hversu lengi Richard hangir inni – ég reikna með að tæknimennirnir séu allir að berjast fyrir því að hann fari – það kostar örugglega eftirvinnu á hverju kvöldi orðið að blörra vininn endalaust.
Svo veit maður ekkert hvenær verður sameinað eða hrist upp í eða hvað – reikna þó með að þeir geri eitthvað drastískt ef Saboga tapar aftur til að halda spennu í þessu.

laugardagur, febrúar 14, 2004

Laugardagsljóð

Einhvern tímann á Menntaskólaárunum ákvað ég að prófa að þýða nokkur ljóð. Jim Carroll varð fyrir valinu, meira fyrir tilviljun en nokkuð annað - og þetta var niðurstaðan:

Umferð

ég var ungur flugmaður í fyrri heimstyrjöldinni, mannstu?
kannastu við tilfinninguna þegar flugvél skellur í vatnið?

Við höfum ferðast 600 mílur, og eina manneskjan
sem við þekkjum sefur undir votu möndlutrénu.

það er ekkert eftir nema þetta engi sem lyktar af blóði.
munaðarleysingi hefur sloppið af munaðarleysingjahælinu rétt nógu lengi til að vera kraminn
ýmsustu fuglar játa leynt hatur sitt á okkur
og kanóinn ferðast gegnum hellinn til hins yfirgefna norðurs.

Fallegir vellirnir blasa við ...
og mjúk blómin eru geislavirk að innan




Að yfirgefa New York-borg
(Að fara að heiman)

Ég eyddi yndislegum degi
með tveim ekta hollenskum frúm
í fötum eins og á póstkortunum
fyrir framan skondið hús
með brúnu tígulsteinaþaki
og múrsteinsveggjum með bláum gluggum
hvorki að hugsa um ljóð, tónlist,
kvikmyndir, málverk, presta né nunnur,

né þig.




Brot

Þegar ég sé kanínu
kramda af bíl á ferð
þá dreymir mig um geðveikar tölvur
sem reikna skakkt mikilvæg gögn
mikilvæg fyrir líf okkar
Svínasúpa, minningargreinar og Luxus

Svínasúpan hans Óskars náði hæðum í gær, hingað til hefur verið skets og skets sem hafa verið virkilega góðir (enda svona sketsaþættir langoftast mikið hit and miss) en hlutfallið var ótrúlega gott í gær, kennarinn að lesa upp er náttúrulega öllum ógleymanlegum sem hafa reynt þetta sjálfir - hef að vísu aldrei verið með svona fámennan hóp - og Súperman í flugvél ekki síðri.
Eftir að hafa fengið nokkuð góðar hláturkviður þá fór ég að lesa Moggann og fékk gæsahúð ansi oft. Ef einhver hefur efast um gildi minningargreina sem bókmennta þá bendi ég þeim hinum sama að lesa það sem skrifað er eftir Matthías Viðar. Alveg óháð því hvort viðkomandi hefur þekkt mannin eða ekki þá er þessi lesning stórfengleg, það er ekkert reynt að fegra manninn enda þarf þess í raun ekki ef jafn vel er gert og hér.
Að lokum þá átti ég víst alltaf eftir að gefa upp svarið í vikugamalli getraun sem enginn gat - söngvarinn í eðalbandinu Luxus var vitanlega enginn annar en Björn Jörundur Friðbjörnsson.

föstudagur, febrúar 13, 2004

Föstudagslagið

Stelpuskottið er víst að gefa út nýjan disk, ekkert heyrt af honum en það er jafn gott tilefni og hvað annað til þess að leyfa henni að eiga lag dagsins. Annars minnir þetta lag mig alltaf á þegar Ethan Hawke talar um látna ömmu sína í Before Sunrise, skrítin tenging kannski en allavega ...

Seven Years - Norah Jones

Spinning, laughing, dancing to
her favorite song
A little girl with nothing wrong
Is all alone

Eyes wide open
Always hoping for the sun
And she'll sing her song to anyone
that comes along

Fragile as a leaf in autumn
Just fallin' to the ground
Without a sound

Crooked little smile on her face
Tells a tale of grace
That's all her own

Spinning, laughing, dancing to
her favorite song
A little girl with nothing wrong
And she's all alone
Dröslaðist loksins til þess að fá mér nýtt kommentakerfi, þökk sé verðandi enskukennaranum Kollý. Samt hálf leiðinlegt að nú er eins og enginn hafi nokkru sinni kommentað á neitt hérna, ég treysti því að þið bætið úr því

þriðjudagur, febrúar 10, 2004

Þriðjudagsbíó

Leiktjöld hugans

Confessions of a Dangerous Mind

Það skiptir svo sem litlu máli hvort þessi saga Chuck Barris er sönn (sem hún er líklega ekki) – því hún er merkilega sönn lýsing á Bandarísku þjóðinni – þ.e. þeirri hlið sem hún hefur einna helst snúið að okkur undanfarna áratugi. Annars vegar að leggja línurnar í afþreyingu, einföld hugmynd sem virkar í fjöldann, restin látin mæta afgangi, cheap high concepts. Og hins vegar þetta heilaga stríð þar sem Kaninn er alltaf góði gæinn í stríði sem fer að mestu fram í skuggum. Raunar táknrænt að hann hafi barist bókstaflega fyrir CIA en í raun var Amerískur afþreyingariðnaður talinn af mörgum hafa átt frekari þátt í að járntjaldið féll heldur en allar her- og leyniþjónustustofnanir Bandaríkjastjórnar. Sem er satt svo langt sem það nær, en múrinn hrundi þó fyrst og fremst innan frá.
Þetta er líklega besta mynd handritahöundarins frábæra Charlie Kaufman síðan Being John Malkovich. Human Nature og Adaptation gengu aldrei alveg upp þrátt fyrir góð fyrirheit. Frumraun George Clooney sem leikstjóra, hann hefur merkilega gott auga, betra og agaðra en Soderbergh og Coenbræður sem verða sjálfsagt fyrst nefndir sem áhrifavaldar í ljósi fyrra samstarfs. Annars er þetta mynd sem ég hugsa að hafi þurft leikara til þess að leikstýra (og hann leikur raunar í ákveðnum skilningi leikstjóra í myndinni), Chuck er nefnilega alltaf svo mikið að leika. Bæði þáttastjórnandann og njósnarann, hvoru tveggja snýst um það að allir trúi performansinu.

mánudagur, febrúar 09, 2004

Survivor All-Stars

ii

Jæja, fyrsti þátturinn búin og einn sigurvegari úr leik. Kemur svo sem ekki á óvart, bölvaður aumingjamórall. Tina svo sem hálf vemmileg og allt það en hefði nú samt ekki átt að vera fyrsta manneskjan til að fara. Jenna, sem mér hafði alveg tekist að gleyma, er afskaplega pirrandi og biturt skass. Hún og Rob Mariano hafa forskot í keppninni um hvern ég myndi reka heim næst, Rob er vissulega mesta kríp sögunnar, það má hafa gaman af Lex og Richard þrátt fyrir allt. það væri nú samt gaman að sjá Richard fara í kvöld, Lex hins vegar þyrfti væntanlega að halda því hann verður vætanlega aftur ill nauðsyn í kompaníi Ethan, Big Tom og vonandi Rupert. Hálf svekktur með Rupert samt, hann virtist eitthvað hvekktur ennþá enda nýbúin að upplifa það að vera hent út og lét plata sig út í að hlusta á vitleysinga eins og Jennu. En ef Saboga nær friðhelgi í kvöld þá trúi ég ekki öðru en að mesta stressið fari úr Rupert og hann hætti að hlusta á Jennuvitleysinginn. Ef Saboga fer aftur á þing hins vegar er Ethan í hættu og það yrði vitanlega skandall. Svo er spurning hverjir eru í hættu í hinum ættbálkunum, Richard er sá eini í sjáanlegri hættu í Moga Moga, sýnist kallinn vera orðinn full kærulaus og vera farinn að rugla kæruleysinu saman við gamla undirferlið. Í Chapera fer Alicia í taugarnar á sumum letingjunum en það virkar óneitanlega rökréttast að henda trökkdrævernum út næst áður en hún drepur sig á óþverra.

sunnudagur, febrúar 08, 2004

Sunnudagsgöngutúr

Frelsið er yndislegt ...

Sígaunar og gyðingar

Ætlaði í sunnudagsletinni að horfa á leik Manchester City og Birmingham City. Leikurinn var markalaus en það gerði lítið til vegna þess að ég þvældist yfir á rúv og sá forvitnilegan þátt um Eli Wiesel og svo í kjölfarið á því lokin á mynd um Nürnberg réttarhöldin. Forvitnilegt vissulega en það er alltaf skrítið að horfa á / lesa um helförina þessi misserin, hugurinn reikar alltaf til skilgetins afkvæmis hennar sem nú á sér stað í Palestínu. En einmitt þeir hlutir eru samt ástæða til þess að skoða helförina betur. Því að rétt eins og Fyrri heimstyrjöldin bjó til jarðveginn fyrir þá síðari þá er Helförin sá jarðvegur sem helförin gegn Palestínumönnum nú er sprottin úr. Einhver furðuleg og sorgleg blanda af hatri, sektarkennd og aðgerðaleysi, þekkingarleysi og sinnuleysi.

Þekking manna á örlögum Palestínumanna er þó hátíð miðað við þekkingu á málefnum sígauna. Það er helst að menn tali um hvað tónlistin þeirra sé skemmtileg og svona ... hérlendis þekkja menn aðallega björtu hliðina á sígaunum, annars staðar er algengt að fólk njóti björtu hliðarinnar og ali á dökku hliðinni. Það er grein sem ég ætla einhvern tímann að skrifa, ég er ekki tilbúinn til þess núna, en tilefni þessara hugleiðinga er grein í sunnudagsmogganum, forvitnileg grein eftir ítalska stúlku sem hefur dvalist langdvölum í sígaunabúðum í Róm að vinna að mannfræðiritgerð. Eitt fannst mér merkilegt í greininni, það er það að grundvöllur lífs sígauna er sagður sveigjanleiki. Ef maður hugsar út í það er kannski merkilegast hvaða orð er ekki notað.

Orðið frelsi.

Orðið frelsi er nefnilega orðið tískuorð á vesturlöndum undanfarin ár, töfraorð. Símafrelsi, viðskiptafrelsi og svo framvegis og svo framvegis. En sú staðreynd hversu illa sígaunar virðast þrífast á vesturlöndum segir sína sögu um hversu lítið þetta frelsi er í raun. Það eru nefnilega fáar manneskjur sem hafa í gegnum aldirnar þurft að berjast jafn hatrammlega fyrir sínu einstaklingsfrelsi og sígaunar, í raun má segja að meðferð sú sem sígaunar hafa fengið í gervallri Evrópu sé skólabókardæmi um hversu mikið tómahljóð er í öllum hægri- og vinstristefnum sem hafa tröllriðið Evrópu undanfarin ár. Endalausar kenningar sem ávallt fara í baklás þegar einhver raunverulega lifir eftir eigin hugsjónum.
Nýtilkomin dugnaður minn hérna hefur ekki náð yfir til tæknilegri hliða, svo sem fríska upp á lúkkið, finna mér nýtt kommentakerfi eða að uppfæra tenglana að neinu ráði. En það er náttúrulega ófyrirgefanlegt að hafa gleymt að linka á gamlan COMA-félaga og er hér með bætt úr því. Sú manneskja er vel að merkja ein sú líklegasta til þess að hafa svar við föstudagsgetrauninni um hver söngvari Luxus var.
Laugardagsljóðin

Jamm, alltaf seinn, aðallega af því kom ekki nálægt tölvu á laugardaginn, þetta er þó skrifað á þeim sólarhring, aðfaranóttinni, þannig að nafnið er réttlætanlegt. Svona vitleysu stunda nördar eins og ég þegar maður er innligsa í vondu veðri í staðinn fyrir að vera á Þorrablóti. Og svona til þess að geta heimilda þá er rétt að taka fram að ég var að hlusta á Morphine þegar ég skrifaði fyrsta ljóðið.

Frestað vegna veðurs

Valda þér sársauka
Kasta perlum fyrir svín
Flytja hinum trúuðu orðið

Samhengislausar hugsanir
Nótt sem var frestað vegna veðurs

Orðin leita þín,
Þín sem ég þekki ekki núna

Svart hárið
eins og hrafnar sem læðast um axlir þínar

Nóttin
Lilja Nótt

Ófætt stúlkubarn

Óuppfyllt loforð

Ávextir skýrðir af ástinni

En fyrst þarf ég að leita þín á heimsenda

Og senda póstkort
með mynd af því sem er fyrir handan




Morgunstund númer 10.956

Hryðjuverkamenn hugans
Sækja feng sinn

Undirmeðvitundin flýgur á skýjaborgirnar

Sjálfstraustið stundar sjálfsmorðsárásir

Á meðan minnimáttarkenndin plantar jarðsprengjum
Þar sem draumar þínir voru áður

Á meðan á öllu þessu stendur
Blæst þú á kerti
og óskar þess eins að þú ættir einhverja ósk





Dancing lessons for the imperfect

Dönsum

Þessa einu nótt

Hendum staurfótunum

Svífum

Segjum réttu orðin

Og búum til minningu til að komast í gegnum
Alla þá daga sem við erum ekki fullkomin

föstudagur, febrúar 06, 2004

Föstudagslagið

... er tileinkað öllum vantrúarseggjunum enda átti einn þeirra aldarfjórðungs afmæli í vikunni.

Hljómsveitin er Luxus og eru vissulega tilvalið efni í getraun. Hver söng og samdi fyrir þá ágætu hljómsveit? Fróðir lesendur verða víst að nota sér fornaldartækið tölvupóst til að tryggja sér verðlaun - en sá fyrsti með rétt svar fær náttúrulega að ráða næsta föstudagslagi. Segið svo ekki að ég sé nískur ...

The Speaker” með Luxus

I am the speaker
I am the faith tweaker
I represent the Lord

And for the right prize
I can set you free
I can free your soul

I am the speaker
I am the moral tweaker
Miracle production is our trade

So you give me your tenthearn
Give me your children
I promise you happiness from this day on

We are using you
We are abusing you

We specialize in simple souls
In the poor and the weak
In the sick and the old

Be sure to lose your sanity
You’re reborn to christianity

I am the speaker
I am the faith tweaker
I represent the Lord

And for the right prize
I can set you free
I can free your soul

I am the speaker
I am the moral tweaker
Miracle production is our trade

So you give me your tenthearn
Give me your children
I promise you happiness from this day on

We are using you
We are abusing you

We specialize in simple souls
In the poor and the weak
In the sick and the old

Be sure to lose your sanity
Before you’re reborn to christianity

Halleluja!
Bókahorn Gambrans á í stríði og hugleiðir fjöldasjálfsmorð

Er að bíða eftir að næsti tími byrji, afskaplega syfjaður eitthvað í dag. En í tilefni þess að ég er búin að myrða fjöldan allan af trjám í dag með köldu blóði er tilvalið að skella eins og einu bókahorni í loftið.

Jólalesningin þetta árið voru tvær nýlegar bækur sem ég átti fyrir - fyrstu jólin mín sem löggiltur bókmenntafræðingur datt náttúrulega ekki einum einasta manni í hug að gefa mér bækur í jólagjöf. En á Þorláksmessu og Ingólfsmessu (22. des.) þá las ég Af stríði þeirra nýhilista, Haukur byrjar með skemmtilegum formála sem meðal annars gagnrýnir mikið af þeim málverndunarfasisma sem ég hef lengi verið að röfla yfir. Einhver Stefán Snævarr var víst að nöldra yfir formálanum á kistunni - að því er virtist án þess að lesa hann almennilega. Svar Hauks hafði að geyma þessa óborganlegu útleggingu á Bogart: "Ég er ekki góður í svona göfgi en það er ekki erfitt að sjá að pervisin ástarsaga einnar forntungu og einnar smáþjóðar er ekki baunadósar virði í þessum klikkaða heimi. Einhvern daginn muntu skilja það ... here's looking at you, kid."

Hvað aðrar greinar varðar þá eru þær allavega, grein Arundhati Roy um Instant-Mix heimsveldislýðræði er mjög sterk og snjöll á meðan slóvenski heimspekingurinn Slavoj Žizek er með mjög góða punkta sem eiga það til að týnast í orðaflaum. Full algengt með heimspekinga. Einþáttungur Vanessu Badham er svona gróteskt og frekar stefnulaust og minnir mig afskaplega mikið á eitthvað leikrit eftir Sam Shepard – en endirinn er snjall. Hápunktur bókarinnar er svo “Draumar um Bin Laden” þar sem nýjustu heimsatburðir eru settar í bókmenntalega hrærivél með 1001 nótt, Ódyseifskviðu og fleiri skemmtilegum hlutum. Steinar nær sér ekki alveg jafn vel á strik í “Möguleikar skálda” sem er engu að síður fínn texti, fer bara dálítið út um víðan völl. Undantekningar Viðars Þorsteinssonar er vel skrifaðar og kemur beint að efninu í stuttu máli. Kveðskapur Donald Rumsfeld gefur svo náttúrulega algjörlega nýja sýn á misskilin snilling sem vissulega er brjálaður eins og þeir allir.
Svo var skrítið að lesa örsögur Vals Hlyns Antonssonar. Þær voru nefnilega með sama tregann, sömu stemninguna og sömu pælinguna og ein smásaga sem ég skrifaði einhverntímann í menntaskóla. Eða svipaða að minnsta kosti. Tek fram að hún hefur aldrei byrst þannig að ég er ekki að saka Val um ritstuld heldur að bjóða hann velkominn í hóp háfleygra manna :) Bókin er hins vegar því miður frekar endaslepp, kaflar Reto Pulfer og Eiríks Arnar Norðdahl virkuðu því miður meira sem attidjúd en innihald á mig.
En næst á dagskrá var svo Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð. Þar sem þessi bók er finnsk þá er náttúrulega um gamansögu að ræða. Sagan er oft skemmtileg en ég fékk dálítið sömu tilfinningu og þegar ég las Fight Club, þetta væri frábært handrit af bíómynd. Ekki alveg jafn sterkt sem bók. Komst svo náttúrulega að því að Finnar eru auðvitað búnir að mynda skrudduna, þá sá ég líka að sorgarspillirinn Seppo Sorjanen virðist vera í flestum sögum hans í mismunandi hlutverkum – og það gefur vissulega hans hlut mun áhrifameiri. En nóg um það, það er kominn helgi, það er kominn föstudagur – og þá er kominn tími á föstudagslagið!
Nemendur voru mættir með sófa í tíma hjá mér áðan. Jamm, it's one of those days
In memoriam

Minn ágæti gamli kennari Matthías Viðar er látinn. Hann kenndi mér einmitt Stefnur í bókmenntafræði og var skemmtilega ábúðamikill og spekingslegur í útliti, ekki ólíkt öðrum höfuðsnilling, Alan Rickman. En nú fær hann loksins að ræða við Blanchot undir fjögur ... Blanchot veit ekki hverju hann hefur verið að missa af hingað til.
Einar náttúruhamfarir, eitt slys, 22 látnir í báðum. Að minnsta kosti. Moskva rímar óhugnanlega við Indónesíu á foríðu mbl.is í dag.

miðvikudagur, febrúar 04, 2004

Þriðjudagsbíó

... á miðvikudegi. Óttalegt kæruleysi er þetta. Annars er bíóáhorf aðallega vinnutengt þessa vikuna, kláruðum 12 Monkeys og Zero Effect í dag, merkilegt hvernig 12 Monkeys er alltaf ný. Nú var ég aðallega með hugann við gagnrýnina á sálfræðina sem er í myndinni - síðast var það ástarsagan og þar á undan heimsendaógnin og ég er örugglega að gleyma einhverju. Zero Effect, það væri frábært að sjá framhald af þeirri mynd. En það er víst ekki mjög algengt að það séu gerðar framhaldsmyndir af myndum sem ca. 40 manns sáu. En hápunktur vikunnar var náttúrulega að sjá loksins The Breakfast Club - skelfileg mynd á köflum en yndislega eitís samt einhvernveginn - og svo eru merkilega margir sannleikspunktar innan um allar klisjurnar. Svo kom franska skápamyndin á sunnudaginn á óvart en þar sem andleysið er að drepa mig núna þá er ég að hugsa um að fara heim að borða og skakklappast svo til þess að sjá eitthvað almennilegt fyrir næsta þriðjudag til þess að þessi liður verði jafn menningarlegur og efni standa til.

mánudagur, febrúar 02, 2004

Þar sem kommentakerfið mitt er í skralli sem og teljarinn þá er rétt að benda á að ég er búinn að öppdeita ímeilið mitt - háskólameilið er lokað núna sko - og setja msn-fangið mitt inn ef einhver vill angra mig þar. Auk þess náttúrulega að bæta við tveim afar mikilvægum manneskjum efst á linkalistann, jafnvel þó önnur hafi ekki bloggað síðan í nóvember. En við aumingjabloggararnir verðum að standa saman - maður gleymir ekki vinum sínum þó maður hafi tekið smá ofvirkniskipp!
Survivor All-Stars

i

Mánudagar verða náttúrulega Survivordagar á næstunni, maður er búinn að vera latur að fylgjast með síðustu þrem seríum (sá Tæland ekkert og eitthvað takmarkað af síðustu tveimur) en nú er náttúrulega nauðsynlegt að taka sig á. Annars virðist ég ekki hafa misst af miklu miðað við það að það eru ekki nema 4 úr síðustu 3 seríum í þessum All-Star þætti.

Þess ber vitanlega að geta að það er list að horfa á Survivor svo vel sé - það þarf að nota þá þekkingu sem viðkomandi hefur í mannfræði, félagsfræði, sálfræði, bókmenntafræði eða fjölmiðlafræði eftir atvikum - annars er eins víst að einhver misskilningur eigi sér stað og þátturinn verði bendlaður við lágmenningu (sem er vissulega rétta skilgreiningin á öllum misheppnuðu eftirlíkingunum). Verð að muna að troða Survivor / Truman Show ritgerðinni minni á netið við tækifæri.

En að keppninni, 3 ættbálkar í þetta skiptið, mér sýnist vera óttalegir kettlingar í Moga Moga ættbálknum, Lex var næst því að eiga Heart of Darkness móment hingað til í þáttunum en gugnaði á því og varð ósköp meirt óféti, Kathy man ég ekkert eftir, Jenna var aumur sigurvegari og bjórvömbin á Richard bar af sér óvenju lítin þokka. Sá ekki þáttinn með Shii Ann Huang þannig að hún gæti kannski bjargað einhverju en annars er Colby eini maðurinn með viti í hópnum.

Chaperaliðið er mjög misjafnt, Rob Mariano er mesta kríp seríunnar, já, verri en Johnnie Fairplay meira að segja, mig minnir að hinnir Robbinn hafi verið lítið skárri en mig gæti verið að misminna - og Susan stóð undir nafni sem Hvítt rusl dauðans. Amber er sæt og litlaus og dettur örugglega út í miðri seríu eins og síðast, en Alicia og Big Tom standa upp úr. Alicia hörkunagli og Big Tom er einfaldlega yndislegur sveitavargur af bestu gerð. Vitlaus að sjá kannski en með sitt brjóstvit sem kemur honum langt.

Í Saboga ættflokknum er óbermið Rudy sem kanavitleysingarnir héldu af hefðu þetta brjóstvit en hann var nú ekkert annað en rasistasvín af verstu gerð ef ég man rétt. En þetta er samt úrvalshópurinn, man að vísu lítið eftir Jennu og fannst Tina frekar litlaus sigurvegari, hálfvæmin eitthvað, en Jerri er náttúrulega yndislega mikil tík (samt ekki jafnmikil tík og allir töluðu um held ég) - og Ethan og Rupert eru mínir menn í keppninni.
Sunnudagsgöngutúr

Hlusta á tónlist sem ýfir upp gömul sár og gamla drauma.

Mér finnst vera orðið svo langt síðan ég hef átt alvöru samtal, samtal þar sem maður setti varnirnar allar niður, ég veit ekki, finna gamla Ásgeir aftur. Óska eftir einhverjum úr fortíðinni eða einhverjum úr framtíðinni. Engum úr nútíðinni. Því það er enginn úr nútíðinni sem er hér núna, ekki þannig.
Allir aðrir eru með einhverjum. Sigurrós glymur í tækinu og Afmælisstúlkan minnti mig á dagana í Jesseníkifjöllunum. Skrítin nótt. Nótt sem ég hef að mestu gleymt en kemur alltaf við og við upp á yfirborðið. Ég hélt í hendina á henni. Einhversstaðar þarna, inní þessum djúpa skógi, þá var sungið. Það var eins og maður væri kominn á fund með frumstæðum þjóðflokk sem maður átti að þekkja, það er svo stutt síðan við vorum frumstæður þjóðflokkur, skítug upp fyrir haus. Í þessum torfkofum sem minna mig ekki á neitt annað en þurrar kennslubækur. En mannsskepnan er söm við sig. Stundum hefur maður trú á henni, stundum fá einhverjir mann til þess að glata þeirri trú og stundum fá einhverjir mann til þess að endurheimta hana. Merkilega oft eru þetta sömu manneskjur eða jafnvel tvö augnablik með örstuttu millibili, svo nálægt að maður veit ekki hverju skal trúa, hvort sannleikurinn er fallegur eða ljótur.
Stundum er það ég sjálfur.
Stundum megna orðin ekki neins. Stundum koma gamlar minningar upp, minningar sem maður mun aldrei segja neinum frá. Því þá brotna glös. Það er önnur minning. Undradrengirnir nýbúnir í bíó. Kringlukráin eins skondið og það er. Ástin er skrýtið dýr og afskaplega fjarlæg þessa dagana. Eina sem minnir mig á hana er lítið tréhjarta sem ég er alltaf að týna. En hvað um það, það er aðeins örlítið bros, aðeins örfá orð, aðeins örfáar minningar.

-----

Eins og dádýr í háu ljósunum. Eina stúlkan sem ég mun alltaf elska án þess að elska nokkurn tímann þannig. Líklega gagnkvæmt. Þó við séum bæði gullfalleg, vissulega, bara einhver einkennilegur samningur skrifaðan á ósýnilegan pappír, línur á landakorti. Örlög okkar ráðast á flugvöllum, vegabréfsskoðunum, hvar við fæðumst og hvert við förum. Kannski ráðast þau strax í byrjun. Þegar við fæðumst á réttum stað verðum við þar áfram, eilíft. Ef við fæðumst á vitlausum stað erum við dæmd til þess að flakka að eilífu, því að enginn staður er réttur. Og í þau fáu skipti sem einhver staður er réttur þá erum við ekki rétt. Ég fæddist til dæmis á réttum stað, en einhvernveginn var ég ekki réttur, ekki þá. En ég vil ekki fara þangað aftur fyrr en ég er orðinn réttur. Réttur hvernig? Erfitt að útskýra, þetta er ekki jafn einfalt og í fjöldaframleiddum unglingamyndum þar sem þú ert annað hvort úti eða inni. Það er ekki það, það eru örlögin, örlögin sem leiða hinn rétta þig á réttan stað á réttum tíma. En örlögin eru vanstillt fyrirbæri, fölsk. Það gengur sjaldnast allt upp í einu, hvað þá líka allt það sem ég er að gleyma, öll hin lykilatriðin til þess að lífið gangi upp, til þess að lífið rætist. (Takk Hlín). Já, en einn góðan veðurdag … og allt þetta byrjaði þar sem ég hélt í höndina á henni við aðstæður sem fæst ykkar getið ímyndað ykkur. Sigurrós spilaði undir, þá eins og nú. Þá eins og á Karlsbrúnni nokkrum mánuðum fyrr. Orsakasamhengi hlutanna er skrýtið dýr. Þegar maður lítur til baka, eitt leiðir af öðru, ár eftir ár, getur hugmynd hér, örlítil hugdetta, breytt örlögum þínum? Orðið hluti af þeim. Núna er ég hér á Króknum. Næsta ár, hef ekki hugmynd. Höfuðborgin er líklegust en það er margt inní myndinni.

-------

Ég veit ekki alveg hvenær ég varð þessi sígauni sem ég er. Líklega þegar ég reyndi að vera sígauni og mistókst og eftir það verð ég alltaf að reyna aftur og aftur. Landlaust helvíti að reyna að skilja heiminn. Ferðast, máta mig við allskonar hluti. Reyna að finna minn stað, mitt hlutverk. Ekki það að ég hafi ekki vitað í mörg ár hvert mitt hlutverk er, ég er bara meira á þessum árum þar sem maður er að æfa sig fyrir aðalhlutverkið, læra línurnar, koma sér inní hugarheiminn. Þess á milli, vinna fyrir salti í grautinn, það er nefnilega borgað eftir á hjá þessu leikfélagi.

Stundum langar mann þó að hætta að leika, sitja bara og horfast í augu. Tala saman. Rifja upp hver við erum. Hvaðan við komum. Minningarnar, brotakenndar, manstu eftir … manstu eftir hverju?

Samhengisleysið ætlar mig lifandi að drepa þessa dagana. Svona er það þegar lífið rímar ekki alveg. Eins get ég fullyrt að allt ykkar rím við þessa sögu er bæði satt og logið, rétt og rangt, góð saga er sönn saga, góð túlkun rétt túlkun. Það er fínt hérna á Króknum, í þessu starfi, það er gamall blús sem ég er að spila fyrir ykkur, samansettur úr gömlu Evrópu, íslenskum snjósköflum, því að verða kalt og …

Kannski ætti ég bara að vera, einu sinni.
Vera hér, vera fyrir sunnan, vera á Akureyri. Bara vera, ekki fara.
Finna sér stað í tilverunni, búa sér til hreiður, skjóta rótum. En þú ert ekki tré.
Þú ert flakkari (sem er rétt að byrja að flakka), heimurinn er allur eftir. Lífið sömuleiðis. Það er núna og þá, stundum ekki samt, stundum veit maður ekki af því, stundum læðist það aftan að manni, stekkur fram fyrir mann.
Stundum er rétt að doka við, geyma orðin og láta hugsanirnar flakka.