Sunnudagsgöngutúr
Hlusta á tónlist sem ýfir upp gömul sár og gamla drauma.
Mér finnst vera orðið svo langt síðan ég hef átt alvöru samtal, samtal þar sem maður setti varnirnar allar niður, ég veit ekki, finna gamla Ásgeir aftur. Óska eftir einhverjum úr fortíðinni eða einhverjum úr framtíðinni. Engum úr nútíðinni. Því það er enginn úr nútíðinni sem er hér núna, ekki þannig.
Allir aðrir eru með einhverjum. Sigurrós glymur í tækinu og Afmælisstúlkan minnti mig á dagana í Jesseníkifjöllunum. Skrítin nótt. Nótt sem ég hef að mestu gleymt en kemur alltaf við og við upp á yfirborðið. Ég hélt í hendina á henni. Einhversstaðar þarna, inní þessum djúpa skógi, þá var sungið. Það var eins og maður væri kominn á fund með frumstæðum þjóðflokk sem maður átti að þekkja, það er svo stutt síðan við vorum frumstæður þjóðflokkur, skítug upp fyrir haus. Í þessum torfkofum sem minna mig ekki á neitt annað en þurrar kennslubækur. En mannsskepnan er söm við sig. Stundum hefur maður trú á henni, stundum fá einhverjir mann til þess að glata þeirri trú og stundum fá einhverjir mann til þess að endurheimta hana. Merkilega oft eru þetta sömu manneskjur eða jafnvel tvö augnablik með örstuttu millibili, svo nálægt að maður veit ekki hverju skal trúa, hvort sannleikurinn er fallegur eða ljótur.
Stundum er það ég sjálfur.
Stundum megna orðin ekki neins. Stundum koma gamlar minningar upp, minningar sem maður mun aldrei segja neinum frá. Því þá brotna glös. Það er önnur minning. Undradrengirnir nýbúnir í bíó. Kringlukráin eins skondið og það er. Ástin er skrýtið dýr og afskaplega fjarlæg þessa dagana. Eina sem minnir mig á hana er lítið tréhjarta sem ég er alltaf að týna. En hvað um það, það er aðeins örlítið bros, aðeins örfá orð, aðeins örfáar minningar.
-----
Eins og dádýr í háu ljósunum. Eina stúlkan sem ég mun alltaf elska án þess að elska nokkurn tímann þannig. Líklega gagnkvæmt. Þó við séum bæði gullfalleg, vissulega, bara einhver einkennilegur samningur skrifaðan á ósýnilegan pappír, línur á landakorti. Örlög okkar ráðast á flugvöllum, vegabréfsskoðunum, hvar við fæðumst og hvert við förum. Kannski ráðast þau strax í byrjun. Þegar við fæðumst á réttum stað verðum við þar áfram, eilíft. Ef við fæðumst á vitlausum stað erum við dæmd til þess að flakka að eilífu, því að enginn staður er réttur. Og í þau fáu skipti sem einhver staður er réttur þá erum við ekki rétt. Ég fæddist til dæmis á réttum stað, en einhvernveginn var ég ekki réttur, ekki þá. En ég vil ekki fara þangað aftur fyrr en ég er orðinn réttur. Réttur hvernig? Erfitt að útskýra, þetta er ekki jafn einfalt og í fjöldaframleiddum unglingamyndum þar sem þú ert annað hvort úti eða inni. Það er ekki það, það eru örlögin, örlögin sem leiða hinn rétta þig á réttan stað á réttum tíma. En örlögin eru vanstillt fyrirbæri, fölsk. Það gengur sjaldnast allt upp í einu, hvað þá líka allt það sem ég er að gleyma, öll hin lykilatriðin til þess að lífið gangi upp, til þess að lífið rætist. (Takk Hlín). Já, en einn góðan veðurdag … og allt þetta byrjaði þar sem ég hélt í höndina á henni við aðstæður sem fæst ykkar getið ímyndað ykkur. Sigurrós spilaði undir, þá eins og nú. Þá eins og á Karlsbrúnni nokkrum mánuðum fyrr. Orsakasamhengi hlutanna er skrýtið dýr. Þegar maður lítur til baka, eitt leiðir af öðru, ár eftir ár, getur hugmynd hér, örlítil hugdetta, breytt örlögum þínum? Orðið hluti af þeim. Núna er ég hér á Króknum. Næsta ár, hef ekki hugmynd. Höfuðborgin er líklegust en það er margt inní myndinni.
-------
Ég veit ekki alveg hvenær ég varð þessi sígauni sem ég er. Líklega þegar ég reyndi að vera sígauni og mistókst og eftir það verð ég alltaf að reyna aftur og aftur. Landlaust helvíti að reyna að skilja heiminn. Ferðast, máta mig við allskonar hluti. Reyna að finna minn stað, mitt hlutverk. Ekki það að ég hafi ekki vitað í mörg ár hvert mitt hlutverk er, ég er bara meira á þessum árum þar sem maður er að æfa sig fyrir aðalhlutverkið, læra línurnar, koma sér inní hugarheiminn. Þess á milli, vinna fyrir salti í grautinn, það er nefnilega borgað eftir á hjá þessu leikfélagi.
Stundum langar mann þó að hætta að leika, sitja bara og horfast í augu. Tala saman. Rifja upp hver við erum. Hvaðan við komum. Minningarnar, brotakenndar, manstu eftir … manstu eftir hverju?
Samhengisleysið ætlar mig lifandi að drepa þessa dagana. Svona er það þegar lífið rímar ekki alveg. Eins get ég fullyrt að allt ykkar rím við þessa sögu er bæði satt og logið, rétt og rangt, góð saga er sönn saga, góð túlkun rétt túlkun. Það er fínt hérna á Króknum, í þessu starfi, það er gamall blús sem ég er að spila fyrir ykkur, samansettur úr gömlu Evrópu, íslenskum snjósköflum, því að verða kalt og …
Kannski ætti ég bara að vera, einu sinni.
Vera hér, vera fyrir sunnan, vera á Akureyri. Bara vera, ekki fara.
Finna sér stað í tilverunni, búa sér til hreiður, skjóta rótum. En þú ert ekki tré.
Þú ert flakkari (sem er rétt að byrja að flakka), heimurinn er allur eftir. Lífið sömuleiðis. Það er núna og þá, stundum ekki samt, stundum veit maður ekki af því, stundum læðist það aftan að manni, stekkur fram fyrir mann.
Stundum er rétt að doka við, geyma orðin og láta hugsanirnar flakka.