föstudagur, júlí 29, 2005

Belgrad 5

Ef Serbnesk tvíburasystir Angelinu Jolie gefur manni þrisvar undir fótinn sama kvöldið þá ætti maður kannski að gera eitthvað í því? Fjandinn, er eitthvað námskeið fyrir svona aula eins og mig? og það er enginn afsökun að vera með stelpu í öðru landi á heilanum.

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Belgrad 4

Við þvælumst um Kalemegdan-hallargarðana, risastórt og gullfallegt svæði. Þangað til við finnum stríðsminjasafnið. Á þeim tímapunkti er ég alveg að þorna upp þannig að ég næ ómögulega að einbeita mér að manndrápstækjunum, öll þessi stríð renna saman í hausnum á mér á meðan ég ráfa þarna um hálf slojaður. Sest svo niður í smástund í andyrinu á meðan umsjónarmaðurinn ferjar fleiri og fleiri vopn inn.

Belgrad 3

Það er ennþá væg lykt af stríði herna. Svo eru náttúrulega nokkrar áberandi byggingar merktar fingraförum NATO. Davíð og Halldór yrðu örugglega stoltir ef þeir sæu þetta. En það er fyrst og fremst hrikalega heitt. Spánverjanum Pablo og Nikolaj fra e-m fronskum Karabíueyjum, sem þvældust með mér fyrri partinn, var hrikalega heitt þannig að þetta er ekki bara eitthvað Íslendingahitaóþol. Flestir kælar eru orðnir heitir þannig að flestir drykkir eru kaldir í svona tvo sopa.

Belgrad 2

Three Black Catz

Hvað gerir ungt par ef það finnur frábæra risíbúð í miðri Belgrad sem það hefur ómögulega efni á? Opnar hostel þar auðvitað. Mörkin a milli heimilis og hostels eru yndislega óljós þarna, þetta er basically heimili með tveim herbergjum fullum af rúmum í sitt hvorum endanum. Og við notum einfaldlega heimilisgræjurnar, ísskápinn, baðið og þvottavélina á milli þess sem við klöppum heimiliskettinum og horfum a vídeó með familíunni.

Að vísu einhver padda sem ég þurfti að henda af rúminu mínu og stíga ofan á svona svo hún myndi ekki stíga ofan á mig um nóttina - en maður kemur ekki til Belgrad til að leyta ad sterilíseringu vestursins. Svo var svo heitt að ég held ég hafi notað sængina í svona tíu mínútur alla nóttina.

Belgrad 1

Lestin siglir loks inní járnbrautarstöðina í Belgrad, tveim tímum of sein. Sem sagt á eðlilegum tíma. Leiðin á hostelið virkaði ekki löng á pappírnum en hún er öll upp á móti, svona eins og göturnar á Akureyri. En þar fæ ég venjulega einhvern til að sækja mig ef ég er með farangur. Hitti svo Milan sem vísar mér síðasta spölinn, við ákveðum að túra borgina á morgun, hann dauðfeginn að hitta einhvern sem talar ensku skikkanlega - er víst útskrifaður enskustúdent sjálfur en fær fá tækifæri til að tjá sig. En audvitað klúðrum vid símamálunum, löng saga, þannig að líklega verðum við bara að chilla saman í næstu ferð.

Uppgötvaður

Fyrir utan eitt og eitt bit þá hafa moskítóflugurnar verið frekar fálátar í minn garð. Líklega gabbað þær með þessum fola hörundslit. En það er víst kominn einhver litur loksins og í lestinni var sú merka uppgötvun gerð að það var nóg blóð í aftanverðum lærunum á mér. Var. Nú eru þrjár rauðleitar eyjur sitt hvorum megin.

Lest til Belgrad 3

Wrong side of the tracks

Við erum að sigla inn í borgina, Felix er að horfa út um gluggann hjá ganginum, ég er að horfa út um gluggann inní klefa. Við köllum: Sjáðu! á nákvæmlega sama tíma. En ástæðan fyrir því að ég kalla upp eru hreysin og braggarnir mín megin, ástæðan fyrir að hann kallar upp er risabrúin, ljósum böðuð. Ég skiptist á gluggum, ödrum megin er ljósadýrð og ríkidæmi, hinum megin örbirgð og varla ljósastaur til að lýsa upp. Öðrum megin er fólk líklega óðfluga að gleyma ...

Lest til Belgrad 2

Felix og Benjamin eru bara með skilríki, engan passa. Þeir fullyrða að einhver á ferðaskrifstofunni hafi sagt að það þyrfti ekki hér, Schengen og svona. Ég hef mínar efasemdir, og mikið rétt – landamæravörðurinn í Serbíu er í frekar góðu skapi en þeir þurfa samt að borga 105 evrur hver fyrir bráðabirgðapassa. Spurning hvernig gengur í Sofiu og Istanbúl. Ég vorkenni þeim líklega minna en hinir eftir að hafa lent í því í gamla daga að vera rekinn öfugur út þó ég væri með vegabréf því ég var ekki með vegabréfsáritun. Áttaþúsundkall þá borgaður á staðnum hefði óneitanlega verið meira spennandi kostur heldur en að fara alla leið aftur niður Grikkland og upp Ítalíu og þangað til Prag.

Lest til Belgrad 1

Er með 4 Þjóðverjum í klefa, einn þeirra, Felix, er algjör Íslandsnötter, með þýskan Íslandsguide og er eiginlega niðursokknari í ferðina sem hann ætlar að fara í á klakann næsta sumar en ferðina sem hann er í núna. To paraphrase Obelix: Þjóðverjar eru klikk :)

Vegabref

Kem í lestina í Kosice, sæmilega sveittur eftir að hafa labbað með allt draslið tuttugu mínútna spöl. Um leið og ég legg töskurnar frá mér fer ég að hugsa um passann minn, hvar setti ég hann? Ég tékka á líklegu stöðunum en síðan er ekki um neitt annað að ræða en að rífa allt upp úr töskunum. Konugreyið á móti líklega farinn ad hafa áhyggjur af þessum brjálæðing, ætlaði hann að tjalda þarna? Fann ekkert og hefði fyrir löngu verið búin að fá taugaáfall ef þetta hefði ekki verið svona kunnuglegt en mundi svo skyndilega eftir örlitlu hólfi á minni töskunni sem ég nota nær aldrei - taugaáfalli og heilmiklu röfli við landamæraverði (sem mættu hálftíma síðar) þar með aflýst.

Kosice 3

Seinni dagurinn í Lunik IX, skógarþykkni, hvítvín og gítar og Fram á nótt sungið, sígaunaútgáfan.

þriðjudagur, júlí 26, 2005

Kosice 2

Tungl 9

Sígaunabörn eru frábærar fyrirsætur. Óstýrilát vissulega og slást um að taka mynd af sér, en það er ekkert gaman að myndum þar sem fólki leiðist að láta taka mynd af sér. Hverfið sjálft vissulega í niðurníslu og enginn talaði almennilega ensku, einstaka eitthvað hrafl í þýsku. Hélt aftur til miðborgarinnar, þreyttur en þó aðallega óguðlega sveittur, meira en hundrað myndir af óstýrilátum sígaunabörnum á tunglinu inná myndavélinni minni - og já, svo datt ég ofan í holu. Semsagt bara þetta venjulega.

Kosice 1

Kem til Kosice og leyta að þessa bæjar Hotel Europa. En nú bregður svo við að hótelið finnst hvergi. Er búinn að sjá nákvæmlega út hvar það ætti að vera miðað við kortið en þar er bara banki. Getur virkilega verið að eitthvað hafi breyst á fimm árum? Fjandinn. Prófa þess í stað að rölta aðeins lengra og finn þar Hotel Metropol. Ekki nóg með að það sé ennþá ódýrara en Europa, 750 kall nóttin, heldur er þetta upprunalega einhvers konar ólympíuhótel, veitingahús fyrir utan og kaffihús í garðinum, allt ótrúlega notalegt. Þvælist aðeins, tek strætó út í sveit - að e-i stálverksmiðju - og til baka.

Ósmekkleg sms-samskipti

Ég: Það er skelfilega ljótt fólk að kela í básnum á móti mér. Eru engin lög yfir svona lagað?

Eddie: Jú, væmin ástarlög um að ástin sé blind.

Poprad 2

Götuskilti: Original Second Hand. Jamm, hver hefur ekki pirrað sig á öllum þriðju og fjórðu handar búðunum sem þykjast vera second hand.

Hotel Europa

Miðað við Lonely Planet átti þetta að vera smáspölur en það stóð þarna beint fyrir framan lestarstöðina. Ég gekk inn og Jack Torrance tók á móti mér, ég get svarið að þetta hótel var nákvæmlega staðurinn sem þeir hefðu tekið Shining upp ef hún hefði verið gerð í Slóvakíu. Ekki alveg sami glansinn og í Kubrick en alveg sama stemning. Lýsing LP á hótelinu var rundown - það átti svo sannarlega við. Þetta var örugglega glæsilegasta hótel í landinu 1930. Hafði ekkert breyst síðan nema rykið sem hafði safnast saman ofan á fataskápnum. Hræódýrt vissulega, 800 íslenskar nóttin, hostelverð. En einhvernveginn er hótel sem einu sinni var glæsilegt og er núna niðurnýtt forvitnilegra en hótel sem er og verður ókei. Þá eru einhverjir gamlir draugar á sveimi sem löngu hafa gleymt hversdagslegu hótelunum.

Poprad 1

Fór útaf hótelinu að leyta mér að æti, að því loknu fór ég svo niðrí bæ, skoðaði mig um og furðaði mig á því að aðalgatan var nákvæmlega eins og á Lonely Planet (5 ára gömul bók) kortinu nema að nafninu til. Var hugsanlega búið að skipta um nafn? Ég hélt sá siður hefði dáið með kommúnismanum. Finn svo verslunarmiðstöð og ákveð að kaupa nýtt kort. Sé hvergi kort með Kosice. Samt eru þeir með kort af e-u sem kallast Poprad. Hmm. Skoða málið aðeins betur, jú, fjandakornið, einhvernveginn hafði mér tekist að fara úr lestinni í Poprad. Eins og Kosice var hérna Hotel Europa, aðaltorgið var nokkurn veginn eins í laginu - og ég gat svarið að ég hafði séð nafnið Kosice út um gluggann á lestinni. Fannst við kominn furðu snemma að vísu en við þetta bættist að allir fóru út þarna - og Kosice eini stóri bærinn á leiðinni. En Poprad er víst skiptistöð, allir sem voru að fara til Varsjár eða til fleiri skemmtilegra staða skiptu hér um lest. Samt var þetta ekki svo slæmt, gat alveg notað smá tíma til að safna kröftum þar sem ekkert var að gera, undirbúa mig almennilega og svona ...

mánudagur, júlí 25, 2005

Lest frá Bratislava til Poprad

Slóvakíska stelpan við gluggann er að leysa krossgátur á meðan áströlsku stelpurnar tvær á móti mér skiptast á að lesa Harry Potter og á meðan fær hin að hafa iPodinn. Svona er Evrópa í dag.

Sjálfur klára ég Kveðjuvals Kundera, líklega sú slappasta sem ég hef lesið eftir kallinn enda aðeins i 5 hlutum en ekki 7 eins og allar hinar. Aldrei að klikka á hjátrúnni. Eða kannski fer hann bara aðeins yfir strikið í karlrembunni hér?

Bratislava 3

Hvar eru allir landafræði- og sagnfræðigúrúarnir sem lesa þessa síðu? Bratislava er auðvitað höfuðborg Slóvakíu en var í einhverjar aldir höfuðborg Ungverjalands á meðan Tyrkirnir rændu Búdapest.

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Getraun vikunnar

Í hvaða löndum hefur Bratislava verið höfuðborg?

Bratislava 2

Söngkonan í djassbandinu sem lék á kaffihúsinu í Laurovski ulica tók sig mjög vel út í appelsínugulu pilsi og þvi til viðbótar var gengilbeinan i appelsínugulum buxum. Ekki má gleyma því að farsímafyrirtækið sem birtist á skjánum mínum núna heitir Orange þannig að það er alveg augljóst að Bratislavabúar eru æstir stuðningsmenn H-listans. Elli var strax settur í það að redda þeim öllum skólavist fyrir næsta skólaár.

Bratislava 1

Það eru beljur út um allt hérna. Skýringin er hér.

Brno

Átti eitt aðalerindi í Brno í Bratislavska og þaðan tók ég næstu lest til Bratislava. Hjátrúin í götunöfnum alveg að fara með mig. Gerðist líklega fleira merkilegt í þessari Brunnárferd eins og til dæmis þetta.

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Praha 5

Svarið við getraun helgarinnar var auðvitað sígauninn sem vann nýjasta tékkneska idolið, Eddie fann mynd af honum til að setja í kommentin fyrir neðan síðustu færslu. Ég hef staðfestar heimildir fyrir því að allar tólf ára stelpur hérna séu ástfangnar af honum. En idoldiskurinn var semsagt númer tíu á topp tíu listanum hérna, ég ákvað að hlusta eitthvað á allar tíu í plötubúð hérna rétt hjá og velja eina - og það eina sem virkaði spennandi var þessi diskur með Ivu Fruhlingovu. Tékknesk stelpa sem syngur aðallega á frönsku en þó e-r lög á tékknesku og ensku. Ég skil vel fólk sem getur ekki ákveðið sig í svona hlutum. Og eitt af því fáa sem er meira sexí en falleg tékknesk stelpa er falleg tékknesk stelpa að syngja á frönsku.

Annars eru þetta síðustu klukkutímarnir í Prag í bili, örstutt stopp i Brno næst og svo Slóvakía.

laugardagur, júlí 16, 2005

Getraun helgarinnar

Hver er Vlastimil Horváth? Googlun leyfileg.

Praha 4

Það besta vid hostelið sem ég gisti á er orðað svona í bæklingnum þeirra: Two friendly cats to cuddle. Að vísu var annar frekar hvumpinn í dag en hver er það ekki á laugardsmorgnum?

Praha 3

Ég hélt að uppáhaldstékkinn minn væri löngu farin heim til sín í Oxford. En fæ svo auðvitað skilaboð um kveðjupartí Ilonu fyrsta daginn minn i Prag. Að vísu finn ég ekki götuna á kortinu enda kom í ljós að hún er ekkert til, frekar en barinn sem var talað um í sms-inu - en samt fundu allir staðinn. Ég aðallega út af því ég rakst óvænt á Ilonu og Kostas á KFC þar sem ég ætlaði að fá mér snöggan snarl fyrir partíið. Staðurinn var svo alveg brilljant, útikaffihús sem hefði verið með frábæru útsýni ef það væri ekki fyrir öll þessi 40 metra háu tré sem gnæfðu yfir okkur. Tóndæmi:

Þegar Tékkar eru óvirkir alkóhólistar þá vilja þeir ekki hafa það of áberandi þannig að þeir panta 5 alkóhólfría bjóra og klára 2 af þeim á meðan ég er að ná í minn. Eða kannski var Eugen bara á bíl?

Leos flutti einþáttungin "Tékkneski barþjónninn" við mikinn fögnuð viðstaddra. Method acting at its finest. But you had to be there.

Jana sýndi fyrirmyndartækni í því að fá mig til að kaupa handa henni bjór. "Hmm, must taste it first." Klárar úr glasinu mínu. "Very good, should we get some more?" Ilona stakk upp á því að við giftumst þegar ég kom með nýjan umgang, við lofuðum að íhuga málið. Jana fær tveggja daga frí í vinnunni ef hún giftir sig, veit ekki alveg hvað ég græði á því.

Sannaðist enn og aftur að Tékkar eru frábærir fyrrverandi. Ilona var þarna með Kostas sínum og báðir fyrrverandi hennar, Leos og Karel, komu báðir með nýjar kærustur - og þetta var aldrei nokkurn tímann þvingað.

Ég sannfærði Ilonu um að hún væri nítján ára svo hún fengist með á annan bar. Sem gerir hana sjálfsagt að einhverjum yngsta doktorsnema í heimi.

Við pöntuðum Nachos á Radost. Síðan kom heilt fjall af öllum mögulegum og ómögulegum tegundum af grænmeti, kjöti og öðru gumsi - og jú, það voru nokkrar nachos undir. Fyrirtaks matur á fimmta bjór.

Praha 2

hezky holka

Mætti stelpu a Starometska í bol med árituninni "Most Beautiful Woman in the World". Stuttu seinna sá ég ennþá fallegri stelpu. Stelpur. Þessu til viðbótar er gott veður, þannig að það er engin ástæða til að kvarta.

Praha 1

Ósýnilega hostelið

Sms fyrsta kvöldsins i Prag var: Dæmigert að sálin í manni búi a stað þar sem maður skilur ekki neitt og gerir fátt annað en að villast. Sjálfur á ég að vísu eftir að villast alvarlega ennþá, leigubílstjórinn sem keyrði mig á hostelið daginn eftir sá alveg um það. Ég hef aldrei verið meira en klukkutíma í leigubíl áður, enda vorum við búnir að keyra marga hringi um hverfið sem hostelið átti að vera í. Brjálæðislega brattar götur sem maður fékk nærri því lofthræðslu við að vera í bíl í. En eftir að hafa grafið upp símanúmerið fannst hostelið loksins, leigubílstjóranum var vissulega vorkunn enda var það umkringt trjám sem gerði það ósýnilegt frá götunni, en helst leit út fyrir að það væru alls engin hús við þessa götu. Skrýtið annars að vera í Prag 4, eina hverfið af 1-7 sem ég kannast nær ekkert við.

Leifsstöð, Stansted og dauði Schengen

Note to self: aldrei borða mat á flugvöllum aftur. Er bannað ad ráða fólk a flugvelli sem getur eldað mat? Það eina sem var verra en maturinn á Stansted var maturinn í Leifsstöð. Já, og hvað varð svo um Schengen? Aðalpointið í því var jú að maður þyrfti ekki að sýna vegabréf, samt gerði ég lítið annað á leiðinni frá Íslandi til Englands. Svo er starfsfólkið þarna með sína vélrænu stofnanaensku þannig að ég skil það ómögulega - eða öllu heldur held ég skilji það ekki fyrr en það kemur að pointinu i setningu nr. tíu. Eftir að hafa farið með rulluna: To ensure safety aboard the aircraft in accordance to the pact of Genieva, confirmed at the second international meeting in Basel and reviewed at the summit of Brussel by the leaders of twelve international leaders ... could you please put your jacket in the overhead compartment?

miðvikudagur, júlí 13, 2005

Au revoir, Na shledanou og Bless

Flugrúta eftir fjóra tíma, spurning um smá svefn? Tókst að framleigja kotið á allra síðustu stundu, skondin saga það, en sannar bara að stundum er eitthvað gagn að þessu interneti. Annars kveð ég ykkur bara lömbin mín, lít samt sjálfsagt við í einhverjum sjúskuðum vafasömum netkaffihúsum í Slavalandi einstöku sinnum og læt vita af mér. Ef söknuðurinn verður orðinn óbærilegur getið þið sent sms í 690 1827 (ekki hringja nema allt sé að fara til andskotans nema þið viljið setja mig endanlega á hausinn, hmm, ætli ég sé að gefa einhverjum hugmyndir?), sent ímeil á asgeiri@hi.is eða bara notað kommentakerfið. Svo getið þið notað áðurnefnda staði til að leggja inn pöntun á póstkortum. Með heimilisfangi því ég man ekki svoleiðis þegar ég er í útlöndum. Og ef einhvern langar að spila sjóorustu á Stansteadflugvelli á milli ellefu og sjö á morgun þá verð ég á staðnum.

sunnudagur, júlí 10, 2005

Shooting Hoops in the Rain ...

Hver þarf gott veður? Fór sem sagt í körfu áðan með Baunverjanum og bræðrum / frændum hans. Eyþór gerði sitt til þess að koma í veg fyrir aukna fjölgun í Breiðholtinu.

fimmtudagur, júlí 07, 2005

Samanburður á gildi mannslífa

7. júní: 45 manns drepnir í Írak

7. júlí: 38 manns drepnir í London

Það sem er ólíkt: Júnídagurinn var hversdagslegur, júlídagurinn ekki.

Það sem er eins: Árásarmennirnir voru aldir upp af George W. í samvinnu við Tony með stuðningi Davíðs og Halldórs.

Niðurstaðan gæti orðið sú að við höldum áfram að framleiða hryðjuverkamenn sem gera fátt annað en að styrkja ógnarstjórnir og/eða valdníðslustjórnir á Vesturlöndum sem og í Austurlöndum. Sem á endanum gæti þess vegna orðið til þess að þessir atburðir í London verði jafn hversdagslegir og í Írak.

Svo getum við líka horfst í augu við ástæðurnar og gert eitthvað í hlutunum annað en að drepa fleiri.

miðvikudagur, júlí 06, 2005

Flug bókað

Sem þýðir víst að ég yfirgef skerið eftir viku. Tékkland, Slóvakía, Ungverjaland og vonandi Rúmenía eru á dagskrá - svo eru Balkanlöndin, Búlgaría og Úkraína til skoðunar líka - það gengur ekki að vera alltof skipulagður. Enda borgar það sig náttúrulega ekki, þá fokkast allt upp um leið og þú missir af einni lest. Og ef maður missir ekki af neinni lest telst þetta náttúrulega ekki alvöru ferðalag, það væri alltof þægilegt.

þriðjudagur, júlí 05, 2005

RunnaKarma

Þá hafa gömlu kúgararnir okkar loksins fengið makleg málagjöld. Getum við ekki sent þeim Halldór líka?

Hamingja

Hitti einstaklega hamingjusaman kisa sem lá í sólbaði á grasbletti rétt hjá KR-vellinum. Malaði eins og jarðýta, hærra en nokkur köttur sem ég hef hitt síðan Loppa kisi fékk sér lokablundinn.

mánudagur, júlí 04, 2005

Gerið bíómynd með Dolph Lundgren!

Hvern hefur ekki dreymt um að gera bíómynd með Dolph Lundgren? Hér er tækifærið, nákvæmar leiðbeiningar um hvernig á að fara að – ég kynni hér með fyrir ykkur The Dolph Lundgren Movie Making Menu.

Til varnar Tom Cruise

Það virðist mjög í tísku að tala illa um Krúsa gamla þessa dagana, ekki að það hafi ekki alltaf verið vinsælt. Sannar líklega bara það að ískyggilega margir Íslendingar eru dyggir áhorfendur af Opruh þó allir segist „bara hafa horft á þennan eina þátt af því allir voru að tala um hann sko.“ Það má vel vera að hann hafi verið ömurlegur í þessum þætti, kannski var hann bara svona upptjúnaður af ást og kannski var hann bara að leika svona illa. Mér er nokk sama, ef menn ætla að leika illa þá er fínt að þeir geri það í þætti sem ég sé aldrei. En hversu heimskulegur sem Cruise kann að hafa verið þá segir þetta eiginlega meira um samfélagið en hann. Leikarar eru dæmdir fyrir hvernig þeir standa sig í spjallþáttum eða slúðursíðum eða hvaða heimskulegu trúarbrögð þeir ástunda, ekki hvernig þeir standa sig uppi á tjaldinu. Persónulega er mér sama ef hann hoppar uppá stóla, rústar hótelherbergjum eða borgar tvítugum stelpum fyrir að deita sig ef hann leikur skikkanlega.

Framan af gerði hann það vissulega ekki. Ég man vel að ég þoldi Tom Cruise ekki enda Top Gun viðurstyggilega leiðinleg bíómynd sem og flest annað sem hann gerði framan af ferlinum – og oftast voru aðrir leikarar en hann það skásta við myndirnar. Síðan gerðist eitthvað. Eftir að einstaka góð frammistaða (t.d. Rain Man) og hellingur af rusli hafði gert hann að einhverri stærstu stjörnu Hollywood þá virtist hann skyndilega taka þá ákvörðun að fara að leika í almennilegum bíómyndum og reyna að leika almennilega líka.

Af síðustu ellefu myndum sem hann hefur gert höfum við sjö - Collateral, Minority Report, Jerry Maguire, Magnolia, Interview With the Vampire, Vanilla Sky og Eyes Wide Shut – sem eru afbragðsmyndir þó flestir eigi ennþá eftir að fatta tvær þær síðastnefndu. Svo eru fjórar til viðbótar (War of the Worlds, The Last Samurai og Mission: Impossible myndirnar tvær) góðra gjalda verðar, stórmyndir sem virka ágætlega með poppkorninu þó þær hafi kannski ekki verið merkilegar. Þó vissulega hafi öll close-upin af Thandie Newton í M:I 2 gert myndina rúmlega bíómiðans virði. Það er sko manneskja til að hoppa uppá stóla út af.

Nornin Indira

Af hverju í ósköpunum eru skyndilega allir fjölmiðlar að æsa sig yfir því að Nixon og Kissinger hafi kallað Indiru Gandhi norn? Í hinni svokölluðu neyðarstjórn hennar 1975-7 (sem var tilkomin sökum þess að dómstólar höfðu dæmt hana fyrir kosningasvindl) voru milljón karlmenn (aðallega fátæklingar og múslimar) geldir án þeirra samþykkis, hundrað þúsund manns voru handteknir án dóms og laga og þar að auki stóð hún fyrir svokölluðu fegrunarátaki. Það átak lýsti sér sem svo að stórborgir Indlands skyldu hreinsaðar af öllum fátækrahverfum svo góðborgarar þyrftu ekki að horfa uppá eymdina. Ekkert var hins vegar gert til þess að hjálpa fátæklingunum að koma sér fyrir annars staðar eða á einhvern hátt brjótast út úr fátæktinni. Líklega hefur norn verið alltof jákvætt orð fyrir hana.

laugardagur, júlí 02, 2005

Árni Bergmann, Gneistinn og staffið á Bláa kaffinu

Hrós dagsins fá Árni Bergmann fyrir frábæra grein í Lesbókinni sem segir í raun allt sem segja þarf um stríð á tveim blaðsíðum, Gneistinn og aðrir sem eyða deginum í að bjarga heiminum og staffið á Bláa kaffinu í Kringlunni sem óumbeðið elti börn gesta út um alla Kringlu.

War of the Worlds

Þegar allt er hægt er nauðsynlegt að passa sig á að gera ekki of mikið. Ógnin læðist, vofir yfir. Það var langt liðið á Jurassic Park þegar risaeðlurnar fóru að æsa sig, sama gilti um hákarlinn í Jaws. En hér vantaði að byggja upp, allt í einu mæta geimverur og við vorum ekki búin að koma okkur almennilega fyrir í sætinu.

En hvað hefur breyst frá upphaflegu sögunni?

Geimverurnar hafa lítið breyst, þá voru þær frá Mars en nú eru þær frá „somewhere in space”.

En mennirnir?

Mórallinn í upphaflegu sögunni mátti útleggja sem svo; þegar í harðbakkann slær eru allir menn bræður. Núna? Krúsa er vissulega nógu annt um börnin sín en hún er á móti öllum öðrum, eigingirnin gildir þegar þú ert að flýja. Í mesta lagi að þú takir börnin þín fram yfir sjálfan þig. Flestar línur sem koma best úr upprunalegu sögunni eru sagðar af persónu Tim Robbins. Auðvitað kemur í ljós að sá er heimsklassa nötter.

Semsagt, fyrir öld var einhver von til staðar – við erum öll bræður og systur þegar á reynir. Í lokin á þessari er stemmningin frekar sú að við munum á endanum klára verkið sem kvefuðu geimverurnar náðu ekki að ljúka.

Ég kaupi þó engan veginn að þetta sé óvart hjá Spielberg, frekar að hann sé, skiljanlega, orðinn svona fjandi svartsýnn á viðbrögðum landa sinna við mótlæti.

Crash

Við rekumst öll á. Líkingarlega og bókstaflega. Í snilldarmynd Paul Haggis, Crash, er niðurstaðan rasismi. Í öðrum kringumstæðum hefði hún getað orðið kynjamisrétti, stéttarfordómar eða eitthvað annað. Er auðveldara að hata hóp manna en einstakling? Er auðveldara að hata einhvern sem þú getur á einhvern hátt framandgert – sem surt, konu eða yfirmann? Til þess að blinda þig fyrir því sem þið eigið sameiginlegt.

Líklega er lykillinn að geta dregið skynsamlega ályktun af heimsku annarra – en venjulega leiða heimskulegar gjörðir að heimskulegum ályktunum.

Napoleon Dynamite

Ótrúlega var Napoleon Dynamite vond bíómynd. Ókei, fyrst við erum að tala um nördamyndir þá er hægt að minnast á snilld á borð við Rushmore en það er í rauninni nóg að minnast á Revenge of the Nerds. Mynd sem er tæknilega séð ótvírætt vond en engu að síður skemmtileg. Ef þú ert með ofurnörda í bíómynd þá á einfaldlega ekki að vera hægt að klúðra því jafnvel þó þú dettir í allar klisjusúpurnar. Gallinn við Napoleon Dynamite er hins vegar sá að þú skilur alltof vel af hverju Napoleon er barinn – og maður er sjálfur miklu líklegri til þess að berja hann heldur en nokkurn tímann að hlæja að honum.

Byrjun

And so it is ...