föstudagur, nóvember 29, 2002

Steakhouse Highlander
Já, þetta stendur stórum stöfum utan á húsi einu á aðaltorginu, mitt á milli KFC og McDonald. Ég geng að sjálfsögðu inn, enda Highlander-nörd fram í fingurgóma. Geng inn langan gang, þaðan niðrí kjallara. Þegar ég kem inn þá er verið að taka upp þarna, kannski hefur ermin á mér sést í tékkneska sjónvarpinu um kvöldið? Eða jafnvel kvikmyndinni Hinir ódauðlegu, gamandrama sem vinnur óskarinn fyrir bestu erlendu mynd 2006? Það eru skildir og sverð, fallexir og spjót á veggjunum, loftið er hulið strigapokum og meðfram veggjunum niður stigann voru keltneskir fánar og hringabrynjur. Svo eru trjágreinar umhverfis neonskilti Starobrno (gamli Brno, aðalbjórinn hér).
Ég fæ mér Kjúklingasteik McLeod, það voru líka réttir kenndir við Connor, Ramirez, Loch Ness og William. Einu mínusarnir kannski þeir að þjónustustúlkurnar voru ekki klæddar eins og Sharon, í svona einfalda miðalda sveitakjóla vitiði, og svo var full mikill fm-bragur á tónlistinni. Ætti staðurinn ekki bara að spila Queen og almennilega keltneska tónlist? Engu að síður algjört nördahimnaríki, manni var eiginlega farið að standa á sama hvernig maturinn yrði. En hann var vissulega mjög góður.
Brunnárferð

Gambrinn skrapp á mánudaginn til Brno (Brunná ef borið fram passlega hratt!), sem er eins og þið náttúrulega öll vitið höfuðborg Móravíu og næststærsta borg Tékklands. Þetta er um það bil tveggja tíma rútuferð frá Zlín, ég þurfti að komast í smá menningu. Eitthvert þar sem ég gat keypt tímarit á ensku, jafnvel farið á bíó og sofið eina eða tvær nætur í mjúku rúmi. Mitt svolítið mikið hart sko. Þegar komið er á rútustöðina þá er fyrst brú yfir umferðina, svo göng niðrí lestarstöðina (en þar var falskasti harmoníkkuleikari Tékklands að reyna að sarga I Just Called to Say I Love You, líklega eilíft blankur), það er mjög einfalt raunar, þú fylgir bara straumnum fyrst þegar þú ert að átta þig. Þegar þú kemur upp úr göngunum blasir Grand Hotel við – og það er rauð slaufa bundin utan um það og jólasveinar að klifra upp um alla veggi. Gleðileg jól, gjöriði svo vel.

Straumurinn heldur svo áfram inn aðalgötuna Masarykovu sem breytist svo í aðaltorgið, námesti Svobody. Það var orðið fullt af tréhúsum, básum fyrir jólasöluna, en þeir voru ekki enn búnir að opna. Svobodytorg skiptist svo í þrjár götur ef þú ferð beint áfram, ein þeirra er Èeska þar sem Hotel Avion var. Merkilega ódýrt, sérstaklega þegar haft er í huga að það er alveg í hjarta miðbæjarins – og miðað við að allir lyklarnir voru í hólfunum sínum þá sýndist mér að það væri einn gestur að mér undanskildum. Sá hann svo sem aldrei. Asnaðist til að sofna fljótlega eftir að ég kom, lítill svefn nóttina á undan og afskaplega heillandi rúm. Vaknaði svo klukkan fjögur og las Roddy Doyle fram á morgun þegar ég ákvað að fara að túristast aðeins svona til tilbreytingar. Það er skemmtilegur gosbrunnur (sem að vísu er núna vatnslaus) á einu hliðartorginu þar sem í miðjunni er maður í úlfsham með þríhöfða hund í keðju, ég kannast rosalega við þetta en er ekki alveg að kveikja samt. Þvælist aðeins neðar í bæinn, lít upp og sé Špilberk-kastalann fræga, geng nokkur skref og lít upp aftur, viðkomandi kastali horfinn. Spurning þetta er ekki ættaróðal brellumeistarans Spielbergs? Annars notuðu Habsborgarar kastalann helst til að kvelja óvini sína. Labba svo fram hjá reðurtákni sem er dulbúið sem, hmm, storkur? Jú, það er nokkuð útpælt listaverk. Sporvagnarnir eru kunnuglegir, nákvæmlega eins og þeir í Prag. Nýt samt miðbæjarlífsins og sleppi þeim alfarið. Mér finnst gott að geta labbað allt, sérstaklega eftir allan þennan tíma útí rassgati.

Fór svo á bíó um kvöldið, Red Dragon. Ekkert meistaraverk svosem en mjög góð samt, betri en Silence sem var vissulega ekkert meistaraverk hvað sem hver segir. Góð þessar tólf mínútur sem Hopkins var á skjánum, þess utan gerðist lítið merkilegt þó Foster væri traust. Hér aftur á móti höfum við Fiennas, jafngóðan ef ekki betri leikara en Hopkins sem illmenni á móti Lecter – og þó Norton hafi oft verið betri þá er atriðið þegar hann kemur frá fyrstu heimsókn sinni í klefa Lecters og svitastorkinn skyrtan hans svíkur yfirvegað yfirborðið. Svo er Emily Watson náttúrulega alltaf góð, þetta er vissulega hálfgert leikarastykki en samt með nógu góðri sögu til að það bjargist. Leikstjórinn kannski aðeins of æstur í að heilla þannig að einstaka sinnum sleppur hann yfir í melódrama en annars fínn, vissir hlutir frekar mikið stolnir úr Psycho náttúrulega. Skemmtilegt líka að sjá yfirkennarann úr Boston Public leika nær eingöngu með útþöndum nasavængjunum.

Talandi um dreka, það á víst einhver dreki að vakta bæinn. Að vísu er þessi dreki uppstoppaður og lítur barasta nákvæmlega eins út og krókódíll, en eins og fólk veit þá eru þeir ekkert sérstaklega hættulegir, enda tilvist þeirra viðurkennd af flestum dýralífsfræðingum. Sniðugur kall samt, hefur verið einhver nobody í Afríku, skreppur til Tékklands og borðar nokkra túrista og verður goðsögn. Jamm, enginn er spákrókódíll í sínu föðurlandi. Og hverjir veita svo verðlaun fyrir aulabrandara ársins?

Daginn eftir þá verslaði ég nokkrar jólagjafir og tók svo rútuna til Zlín. Það var samt eitt sem olli mér áhyggjum í Brno, það er verið að selja hnífa út um allt. Í sölubásunum á lestarstöðinni voru allstaðar hnífar, leikfanga og alvöru, kannski eitthvað með það að gera að Lonely Planet varar sérstaklega við einhverju einu hverfi í miðbænum (sem ég hef sjálfsagt vilst í) sem sérstaklega hættulegu, það var ekkert svona hverfi í Prag. Enda Móravar vissulega barbarískari þjóðflokkur en friðelskandi Bæheimsbúar. En hvað um það, ég á náttúrulega hápunktinn eftir, hann er sérstakrar færslu virði.
Sögukennarinn hennar Eyglóar er ekki mjög kúl: „Stefán Karl kom og hélt fyrirlestur í skólanum í dag og Vilborg heldur því fram að hann hafi ráðist í að berjast gegn einelti vegna þess að hann hafi ekki fengið nóg að gera sem leikari og hann sé bara athyglissjúkur!“ Þetta segir merkilega mikið um hve stóra sök vissir kennarar eiga í þessum efnum, eða jafnvel þeir sem mennta kennarana. Það er stundum þægilegt að horfa í hina áttina.
Sögukennarinn hennar Eyglóar er ekki mjög kúl: „Stefán Karl kom og hélt fyrirlestur í skólanum í dag og Vilborg heldur því fram að hann hafi ráðist í að berjast gegn einelti vegna þess að hann hafi ekki fengið nóg að gera sem leikari og hann sé bara athyglissjúkur!“ Þetta segir merkilega mikið um hve stóra sök vissir kennarar eiga í þessum efnum, eða jafnvel þeir sem mennta kennarana. Það er stundum þægilegt að horfa í hina áttina.
Það er rétt að taka fram til að forðast misskilning að vissulega er ég gáfaðri en Óli. Þær niðurstöður eru aftur á móti fengnar út frá margra ára reynslu og athugunum J Fannst samt Svansson, af öllum mönnum, sálgreina Gneistann best í þetta skiptið. Sumir mættu samt fara sér varlegar í píslarvottshlutverkinu – en stundum eiga sumar manneskjur vissulega skilið að fá blautar tuskur framan í sig.
Óli vinnur mig venjulega í Trivial Pursuit. Það þýðir ekki að hann sé gáfaðri en ég.
Ég er að verða búinn með háskólann á meðan Óli er ennþá að klára menntaskólann. Það þýðir heldur ekki að ég sé gáfaðri en Óli.
Það er samt stórmerkilegt að manneskja sem er kominn í háskóla skuli virkilega halda það að heimurinn sé svona svart-hvítur. Fátt samt sem kemur mér á óvart í þeim efnum eftir fimmtán mánaða vinnu í Bóksölu stúdenta.

fimmtudagur, nóvember 28, 2002

Rútubílstjórar í sjálfsmorðshugleiðingum

Tveir rútubílstjórar að leika sér í chicken er ekki sniðugt. Ekki fyrir okkur farþegana að minnsta kosti. Það komu tveir busar samtímis sem báðir fóru frá Zlín til Vsétín, bækistöðvar mínar eru þar mitt á milli. Þegar við erum rétt kominn á þjóðveginn sem tekur við af Zlín þá er bílstjórinn eitthvað frústreraður á að vera aftastur í sjö bíla röð, röð sem inniheldur hina rútuna og einn vörubíl, og reynir að komast framúr. Það er bara ein akrein í hvora átt og að meðaltali álíka mikil umferð í sitthvora áttina. Hann var sem betur fer ekki kominn of langt þegar hann sá að hann kæmist ekki einu sinni hálfa leið fram hjá hinum sex bílunum áður en sjö bílaröð úr hinni áttinni kæmi á móti honum. En minn var ekki búinn að gefast upp, þegar umferðin hinum megin hægðist aftur þá ákvað hann að gera aðra tilraun. Og nú ákvað hinn rútubílstjórinn og einn fólksbíllinn að vera með. Þannig að þrír bílar af sjö kljúfa sig samtímis út úr röðinni til að fara fram úr, hin rútan var það framarlega til að vera passlega örugg, fólksbíllinn var ekkert mjög öruggur en þar sem fólksbílar þurfa frekar lítið pláss þá slapp hann. En þá var mín rúta eftir, rútur þurfa náttúrulega andskoti stórt pláss til að beygja inní og það pláss var alls ekki til staðar – og bílarnir á leiðinni úr hinni áttinni. Þannig að það er bara að bíða og vona að bilið á milli fólkbílsins og flutningabílsins stækki nógu mikið á næstu tveim sekúndum og um leið að rútan mín komist fram úr flutningabílnum á þeim tíma. Komst ég á leiðarenda? Jú, en ég efast stórlega um að rútan hafi komist alla leið miðað við brjálæðinginn við stýrið. Hálf feginn að hafa ekki myndað nein tilfinningatengsl við neina farþega …
Þetta verður annars stutt í bili, nánari skýringar á bloggleysi vikunnar á morgun væntanlega. Nema það verði rok og rigning og ég ákveði að hanga heima.

föstudagur, nóvember 22, 2002

Svo er spurning miðað við þetta hvort kisi fari í bókmenntafræði
Kötturinn minn var fimmtán ára í gær! Það er ekki nema tæpt hálft ár þangað til hann / hún (löng saga) þarf að ákveða hvort á að fara í MA eða VMA. En Loppa er skynsamur köttur og dúxar hvert sem hún / hann fer.
Hvað er þetta með Elísabetu og gamla bekkjarfélaga mína? Fyrst eru Arnar og Rói orðnir devilishly handsome og nú virðist Jónsi orðinn augasteinninn hennar. Annars bíð ég ennþá eftir að Jónsi slái nú liðið alveg út af laginu og taki eitt sameiginlegt uppáhaldslag okkar, The Prophet Song, á sviði. All eight bleedin‘ minutes. Þó það jafnist varla á við það þegar ég komst að því um hvern „Nakinn“ fjallar. Annars erum við Nanna upptekin við að þróa nýjar bókmenntafræðikenningar enda löngu kominn tími til.
Ég var farinn þegar Ron Jeremy kom til landsins. Eina sem ég man er að ég var í Háskólabíó tveim dögum áður en ég fór og það var byrjað að auglýsa myndina í hléii – og ég var loksins að fatta hvern Ron Jeremy minnir mig svo mikið á, þar sem hann er þarna með allt sitt hafurtask hálf eymdarlegur en sakleysislegur á svipinn. Paddington auðvitað! Sem varð til þess að maður áttar sig á hversu brilljant sköpunarverk Paddington í raun er, bangsi sem er skýrður eftir brautarstöð í London og tuttugu árum eftir að maður les bækurnar, sér mann í umkomuleysi sínu á einhverri lestarstöð heimsins þá er líkist hann engum meira en Padda litla. Svo er náttúrulega spurning hversu stórt það er undir birninum …
Litla ensk-íslenska orðabókin mín brást mér um daginn. Það er náttúrulega gallinn við þessar orðabækur, ef maður þarf mjög sjaldan að fletta upp enskum orðum þá tímir maður ekki að kaupa stóra hlunkinn – en í þau fáu skipti sem maður er ekki viss um eitthvað orð þá er það líklega bara þar. Eða það hélt ég að væri aðalástæðan. En svo fór ég að skoða mína litlu aðeins betur, jú hún er gefin út 1997, gott ef ég hef ekki fengið hana í stúdentsgjöf það árið. En hún var fyrst gefin út 1952 – og samkvæmt formálanum nokkurn veginn óbreytt. Þá var orð eins og til dæmis colour TV líklega mest notað í framtíðarskáldsögum.
Nú skammast ég mín hreinlega alveg niðrí tær og bið lesendur mína margfaldlega afsökunar, ég var að átta mig á því að ég hef algerlega vanrækt Bókahorn Gambrans! Já, hvar vorum við, tja, gott ef ekki á leiðinni til Prag. Þar var ég í Prag 6 sem fyrr og þar sem tramstöðin mín gamla er ennþá að ná sér eftir síðustu vatnavexti þá er sporvagninn heilan hálftíma á leiðinni. Það er fulllangur tími til þess að skoða stelpur og útsýni sem ég kann utan að þannig að Salman Rushdie var skipaður hirðskáld sporvagns 18 og þannig var Harún og sagnahafið lesin, einn kafla í einu. Þá var passlegur tími afgangs til þess að skoða stelpur sem er vissulega atriði sem ekki má vanrækja í jafn fallegri borg og Prag. En sagan fjallar náttúrulega um baráttu feðganna Harúns og Rashíd við það að endurnýja áskrift pabbans að sagnahafinu og bjarga sagnaheiminum frá sagnaprinsinum Khattam-Shúd. En er kannski samt aðallega að spyrja spurningarinnar: „Hvaða gagn er af sögum sem eru ekki einu sinni sannar?“

Svör óskast, ég ætla hins vegar að bíða aðeins með það að tjá mig um þetta sjálfur.
Það var ótrúlega hressandi að ganga út úr tölvuverinu um daginn, labba fram hjá öllu þessu ókunnuga fólki og fatta að hér skiptir kjaftæðið heima engu máli. Og eins að þar skiptir ströglið hér engu máli. Venjulega fer þetta í taugarnar á mér en þann daginn var ég mjög sáttur við það.

þriðjudagur, nóvember 19, 2002

Hvað hitt varðar þá er margt af því varla svaravert. Ég hef ekkert út á lesendur eins né neins að setja, hitt er annað mál að ein stafsetningarvilla hefur ósköp lítið með innihald heillar greinar að gera. Greinar sem vel að merkja var fyrst og fremst gagnrýni á grein Ágústar og tilhneigingar hans til að að setja mig og aðra undir sama hatt og Betu. Og það eru aðrir en ég sem eru að gera mig út fyrir að vera ægilega menntaður og gáfaður. Gaman að því þó þegar manneskja sem er kynnt sem bloggdrottning Íslands finnur að mikilmennskulátunum og yfirlætinu i mér. Eins og til dæmis með bókina sem ég er jú meðal annara hluta að skrifa hérna en hef held ég einu sinni minnst á hérna a síðunni í framhjáhaldi, enda er það seinni tíma mál. – Eða er kannski mikilmennskubrjálæði að skrifa bók? Tja, þá er annar hver íslendingur með mikilmennskubrjálæði – sem er kannski ekki fjarri lagi. Mér finnst það aftur á móti ekkert sérstaklega merkilegt, hitt er merkilegra ef manni tekst að skrifa eitthvað sem skiptir máli. Annars er ég ennþá að ná mér eftir þann fáheyrða atburð að sjá Gneistann tala vel um mig, fyrr átti ég von á að konan sem vaktar tölvustofuna færi skyndilega að tala reiprennandi íslensku við mig upp úr þurru. Hmm, hún stendur skyndilega bak við mig, kannski skilur hún að ég er að skrifa um hana?
Þykist ég þekkja Betu eitthvað sérstaklega vel? Nei, það geri ég ekki þó það þurfi ekki mikið til að sjá að það sé lítil bæld Elísabet undir Rokkfrontinum. Þetta kemur meira að segja fram í hugleiðingum útgefanda hennar um bókina:

sú Betarokk sem birtist á bloggsíðunni http://www.betarokk.blogspot.com er sérstök sjálfsmynd í
netheimum. Elísabet Ólafsdóttir er síðan enn önnur sjálfsmynd.

Það getur nefnilega munað merkilega miklu hvernig sami augljósi sannleikurinn er orðaður.
Ég var farinn þegar Ron Jeremy kom til landsins. Eina sem ég man er að ég var í Háskólabíó tveim dögum áður en ég fór og það var byrjað að auglýsa myndina í hléii – og ég var loksins að fatta hvern Ron Jeremy minnir mig svo mikið á, þar sem hann er þarna með allt sitt hafurtask hálf eymdarlegur en sakleysislegur á svipinn. Paddington auðvitað! Sem varð til þess að maður áttar sig á hversu brilljant sköpunarverk Paddington í raun er, bangsi sem er skýrður eftir brautarstöð í London og tuttugu árum eftir að maður les bækurnar, sér mann í umkomuleysi sínu á einhverri lestarstöð heimsins þá er líkist hann engum meira en Padda litla. Svo er náttúrulega spurning hversu stórt það er undir birninum …
And now the childhood memories come flooding back …

Af hverju gerir engin bíómynd eftir Bróðir minn Ljónshjarta? Það þyrfti samt að vera Hollywood en ekki Svíþjóð. Ekki það að ég hafi neitt út á Sverige eða Bergmanna heimsins að setja, aftur á móti þyrfti þetta náttúrulega að vera mynd upp á nokkrar millur. Ég man nefnilega þegar sjónvarpið sýndi einhverntímann sjónvarpsþætti eftir sögunni en ég gat ekki fengið af mér að horfa á þá. Ég sá aðeins í byrjunina, sá af hversu miklum vanefnum þeir væru gerðir og ég vissi að vonbrigðin við að sjá einhverja Brúðubíls-Kötlu í lokin hefðu gert mig þunglyndan í margar vikur. Spurning hvort Lasse Hallström skelli sér ekki í það svo leikstjórinn sé að minnsta kosti sænskur, myndin mætti alveg vera á sænsku líka ef hann fær samt pening fyrir Kötlu sem er minnsta kosti jafn skerí og T-Rex í fyrstu Jurassic Park.

Í einhverju óljósu framhaldi af ofangreindu; af hverju er Stundin okkar með Bryndísi Schram aldrei endursýnd? Ég man eiginlega ekkert eftir henni, ég man bara þennan sannleik: Stundin okkar = besta sjónvarpsefni í heimi. Svo kom einhver óhemju leiðinleg kelling í eitt ár og svo Brúðubílshyskið sem varð til þess að ég sagði endanlega upp æskunni og gerðist unglingur. Lilli api er vissulega holdgerving djöfulsins hér á jörðu. Svo gafst ég upp á að vera unglingur þegar ég sá fram á að það yrði ekki sýnd önnur syrpa af Parker Lewis Can’t Lose. Ekki svo að skilja að ég þykist vera fullorðin – ég er meira svona að ákveða hvað ég eigi að verða næst!
Igor borðtennisþjálfari er vissulega strangur. En ég er vissulega hræddur um að hann hafi linast fullmikið við að horfa á Karate Kid. Ég reyni einstöku sinnum að spyrja hvort það sé ekki borðtennisborð einhversstaðar hérna eða a.m.k. niðrí Zlín. Hann svarar ekki heldur bendir bara á málningarfötuna og segir mér að halda áfram. Ég er að verða búinn að mála öll grindverkin í minni götu í Želechovice og get bráðum farið að byrja á næstu. Þetta æfir vissulega viðbragðsflýtinn því maður þarf að ná að kippa hendinni í burtu um leið og varðhundarnir koma glefsandi. Ég þarf að ímynda mér að kúlan sé varðhundur. Gatan er þá borðið og pensillinn spaði. Igor hefur greinilega lent í því að þjálfa bókmenntafræðinga áður.
Melurinn er eitthvað að hugsa um að kvikmynda ævi Krists. Slæm hugmynd, verulega slæm hugmynd. Hitt væri miklu sniðugra ef hann fengi M. Night Shyamalan til að leikstýra myndinni. Pæliði í því – væri Nýja testamenntið ekki miklu betri bók ef það kæmi ekki í ljós fyrr en í endann að Guð væri pabbi Jesú og í rauninni væru þeir einn og sami maðurinn (eða guðinn sko).
Nei, bíddu, David Fincher er búinn að gera þessa bíómynd. Hún hét Fight Club. Brad Pitt lék Guð og Ed Norton lék Jesú og lærisveinar hans framkvæmdu tilgangslaus ofbeldisverk í nafni Guðsins – sem er náttúrulega bara hugarfóstur Nortons. Þá er Seven Gamla testamenntið og Fincher sameinar Guð og Ísak í sömu persónunni (fjandi löng skrudda skiljiði) sem biðja Abraham (Brad Pitt aftur) að myrða sig. Hollywood náttúrulega vön að breyta endinum. Svo er Jodie Foster í Panic Room náttúrulega Búdda, situr bara í sínu litla herbergi og íhugar og svona, tekur þetta á þolinmæðinni. Hef ekki séð The Game en get alveg séð fyrir mér Michael Douglas sem Múhammeð og Sean Penn sem Allah.
Jamm, þeim hefur verið legið á hálsi að vera óþolandi sykursæt og hreinlega valdið fólki tannskemmdum við áhorf. En sumar barnastjörnur kunna að leika. Ekki verri hugmynd af topp 5 lista en hvað annað, Christina Ricci var sjötta manneskja inná listann fyrir Addams Family og sérstaklega Ice Storm en þar sem hún er eiginlega eilífðarunglingur einhvernveginn þá verður hún að bíða þess lista, we’re talking kids here.

Top 5 kid actors:

Christian Bale – Empire of the Sun
American Psycho var bara barnaleikur miðað við tilþrifin hjá Bale hérna
Rory Culkin – You Can Count on Me
Þessi mynd virkar ekki spennandi, en ekki láta titilinn eða plakkatið plata ykkur. Culkin-klanið eru fínir leikarar þangað til svona ellefu ára og Laura Linney er fín sem mamma hans og Matthew Broderick skondinn. Snilldin í þessari mynd er samt Mark Ruffallo, minnir helst á Brando áður en hann varð gamall og feitur og fékk sér búðing í kinnarnar. Og merkilegt nokk eina myndin sem kemur upp í hausinn á mér sem fjallar um systkini (og gerir það ótrúlega vel). Bræður, systur, nóg að þannig ræmum – en bróðir og systir – sem aðalþema? Það var sjaldgæfur grís að hafa farið með Auði systur á hana (tveir fyrir einn tilboð sko)
Kirsten Dunst – Interview With the Vampire
Myndin sjálf samt sú slakasta á listanum, ekki vond en Neil Jordan hefur gert miklu betur. Drífið ykkur að taka Butcher Boy – eða horfið á Crying Game og takið eftir öllum pælingunum í sambandi við IRA og hárbeittum húmornum sem þið voruð búinn að gleyma út af einu ákveðnu atriði.
Haley Joel Osment – The Sixth Sense
I see a kid acting! Var það ekki miklu meira sjokk í rauninni, Osment virtist við fyrstu sýn bara vera enn einn sykurpúðinn en svo sýnir hann líklega besta leik sem nokkur krakki hefur sýnt
Natalie Portman – Leon + Beautiful Girls
Leon er náttúrulega augljóst, Beautiful Girls síður enda föttuðu fæstir að kíkja á ræmuna. Enda virkar hún kannski ekki spennandi, Willie fer heim á æskuslóðirnar og hittir gömlu drykkjufélagana og talar við nágrannastelpuna (Portman) yfir grindverkið og allir daðra smá við Umu Thurman. En það virkar. Þetta er eiginlega bíómynd sem virkar eins og virkilega gott dægurlag (flestar bíómyndir eru meira í ætt við óperur), maður er flautandi setningar úr myndinni í hausnum á sér lengi á eftir. „I just want something beautiful.” Jú, og svo á einn vinur Willie hund sem heitir Elle McPherson. Honum finnst líka gaman að fara með heimspekifyrirlestra um gildi súpermódela. Nú er ég búinn að selja ykkur öllum myndina – nema þið gerið eins og Willie og farið og leitið af mannahausum í frystihólfinu hjá mér.

Versti barnaleikarinn

Óþolandi krakkagerpið (ég ætla ekki að gera honum þann heiður að fletta upp á nafninu) í Shane sem öskrar I love you Shane! – og við hötuðum þig öll. Ég er eiginlega viss um að hann hafi orðið nýnasisti þegar hann varð stór. Að minnsta kosti minnti þetta miklu fremur á dreng sem var að þroska í sér takmarkalausa aðdáun á ljóshærðum aríum heldur en dreng sem væri að uppgötva samkynhneigð sína. Þetta gæti að vísu farið saman … Spurning hvort þetta sé ekki bara Árni Johnsen? Þetta útlenda ættarnafn hefur alltaf verið hálf grunsamlegt.
Í framhaldi af því má náttúrulega spyrja hvort Ed Wood sé nokkuð dauður? Flutti hann ekki bara til Íslands og tók upp nafnið Davíð Oddsson? Og tók auðvitað alla aðalleikarana með, Dóra stirða, Össur þverslaufu, Steingrím Joð, Geir H. Kubb, Kolbrúnu símadömu, Jóhönnu „I’ll be back” Tortímanda (þegar þú hefur ekki efni á Arnold …), Palla Pedersen og Sollu Pé til að sjá um leikmyndina. Pæliði aðeins í því og það meikar fullkomin sens – hverjum öðrum hefði dottið í hug að nota pappírslöggur í fullri alvöru?
Hver hvað er ég? Svar mitt: Ég er samanlögð útkoma alls sem var á undan mér, alls sem ég hef verið séð gert, af öllu gert-við-mig. Ég er allir allt sem tilvist-í-veröldinni olli áhrifum sem varð fyrir áhrifum frá mér. Ég er hvað sem gerist eftir að ég er farinn sem hefði ekki gerst hefði ég ekki komið. Né er ég eitthvað sérstakur að þessu leiti, sérhvert „ég”, sérhver af hinum nú-sexhundruð-milljón-plús, inniheldur svipaða mannmergð. Ég endurtek í síðasta skiptið: til að skilja mig, þá þarftu að gleypa veröld.

Svo mælir Saleem Sinai, miðnæturbarn Salmans Rushdie. Miðnæturbörnin er vissulega, þó Indira Gandhi, Jawarlah Nehru og fleiri leiki vissulega stórt hlutverk, eftir allt saman skáldsaga um fyrstu þrjátíu árin sem Indland er sjálfstætt ríki – og þessi sannleikur á því jafnt við um að skilja raunverulegt fólk og fólk í bókum. Í ljósi þessa er vissulega spurning hvort bókaát Jakobsson tvíburanna sé ekki heimspekilegri iðja en virðist við fyrstu sýn. Samt bölvuð synd að þeir séu hættir þessu.
Ég gerði mig sekan um smávægilegt framhjáhald og skrifaði pistil á aðra síðu. Vona að Gambrinn fyrirgefi mér og birti linkinn á kistugreinina svona svo tið séuð með á nótunum ef ég fer að ranta eitthvað meira um þetta málefni hér.

föstudagur, nóvember 15, 2002

Sleepless in Zlín

Úff, sýrustigið hefur hækkað allverulega á þessari síðu í dag. Já, og lengdin vissulega. En þetta gerist þegar maður getur ekki sofið eins og hefur loðað við í þessari viku og er í útlöndum með ekkert nema tölvuna fyrir framan sig. Fyrri nóttina kom eitthvað gáfulegt út úr því – og er því geymt upp í fjöllum til betri tíma, seinni nóttina komu þessi rönt hérna fyrir neðan. Best að benda á ímeilið mitt ef einhverjum er sérstaklega mikið niðri fyrir þar sem það virðist hafa dottið út um daginn þegar Gambrinn fékk sér útlitslyftingu: ati@hi.is

Öll ástar- og hatursbréf vel þegin svo lengi sem þið eruð ekki að selja mér neitt. Það merkilega gerðist samt í gær að plúsinn (sem ég samþykkti náttúrulega að fá sent einu sinni í viku því ég er fátækur námsmaður og treysti því að fá 20 þúsund kallinn einhverntímann ef ég held þessu áfram svona að minnsta kosti þangað til ég er búinn að borga námslánin. Jamm, ég ætla að verða 150 ára.) var með þokkalega skemmtilega könnun. Hvort finnst þér rauðvín eða hvítvín betra? og svo var líka hægt að segja bæði eins og krakkinn í Cheerios-auglýsingunni sem ég er af einhverjum ástæðum með á heilanum þessa dagana. Það slæma var að helvítis rauðvínið var með töluvert forskot en ég treysti því að allir aðrir en ég sem hafa einhvern smekk á víni hafi verið timbraðir og ekki kosið fyrr en um kvöldið. Má ég til dæmis benda á að ég vann heilt sumar í ÁTVR (og gæti hvorki nefnt eina einustu hvítvíns eða rauðvínstegund í dag án þess að svindla enda er léttvínsdrykkja snobbiðja en ef ekkert annað er á boðstólnum þá er hvítvín drykkjarhæft).
Verðandi heimsmeistari í júdó

rant tíu

Rakst á dagbók Venna júdókappa um daginn. Nú veit ég auðvitað að íþróttamenn eru almennt vitlausari en annað fólk af því að Gneistanum finnst það. En mér gekk barasta bölvanlega að koma auga á þennan meinta greindarskort Vernharðs. Síðan er ekkert sérstök útlitslega svosum og vantar aðeins upp á að lýsingarnar á æfingunum sjálfum séu nógu spennandi. En það eru bara smáatriði og restin er tær snilld eins og Akureyringum er einum lagið (Áðurnefndir lögfræðingar eru til dæmis allir Akureyringar nema Schlink. Hrabal var frá Prag sem er Akureyri meginlandsins. Matlock gerðist víst á Akureyri – og það var kötturinn minn sem drap Godzillu! Mamma var búinn að elda risaeðlukjöt fjögur kvöld í röð þegar hún sá myndirnar og komst að því að Godzilla hafði orðið svona stór út af kjarnorkuslysi.) Hér eru tvö dæmi um snilld mannsins sem verður heimsmeistari í júdó von bráðar – ef veimiltítan og merkikertið Bjarni Friðriks nær þriðja sætinu þá fer Venni létt með það fyrsta:

Eftir æfingu, á leiðinni heim keyrði lögreglubíll framhjá mér og löggan sem keyrði brosti svo fallega til mín að ég varð alveg hvumsa. Þetta var auðvitað lögreglukona, svona til að forðast allan misskilning. Í huganum var ég auðvitað strax kominn í Djúpu Laugina og fór að spá í hvernig það væri að vera með löggu. Ég held að ég gæti það bara ekki. Allar andvökunæturnar einn í rúminu og endalausu dagarnir hugsandi “kemur hún heim í dag eða ekki” og ”hvað á ég að segja krökkunum þegar sá dagur kemur að hún skilar sér ekki”. Ég mundi alveg fríka út af áhyggjum.
Eins og allir vita sjálfsagt er dánartíðni í starfi hjá Lögreglunni á Akureyri mjög há, þetta er harður bær. Alltaf einhverjir öpp tú nó gúdd Húsvíkingar og Dalvíkingar á kreiki.

----

Ohhh.... það er komin ný kelling í Melrose. Hún er að pirra mig svo geðveikt mikið. Með varirnar stútfullar af sílíkoni og í hvert sinn sem hún er í mynd þá næ ég ekki fókus á það sem sagt er en stari bara á varirnar. Hún er að eyðileggja allt. Ég kalla hana Andrésínu.


Þá er náttúrulega minnst á Snorra Ásmunds fyrrum borgarstjórakandítat og Rögnvald gáfaða.
Svo var ein æskuminning úr Gagganum sem ég fékk hreinlega gæsahúð yfir og ég er ekkert viss um að það hafi nokkurntímann gerst áður þegar ég hef lesið blogg. Ég veit ekki, Venni minnir mig að mörgu leiti á Bjössa slöngu og nokkra aðra – en svona týpur eru einfaldlega ekki til í Reykjavík. Út af því að í Reykjavík er fólk annaðhvort á Astró eða Kaffibarnum eða Sirkus eftir því hvernig týpur það er. Og úrkynjast. Vissulega eru skemmtistaðir á Akureyri afskaplega misjafnir en það er engin sem maður fær svona creepy hroll niður mjóhrygginn og þegar maður labbar fram hjá sumum stöðum í Reykjavík eins og til dæmis Astró. Og það er sjálfsagt eins með Astrólið sem labbar fram hjá Sirkus (þar sem allir eru að reyna alltof mikið að halda sér í týpu) sem mér ætti sjálfsagt að finnast æðislegur bar samkvæmt skilgreiningunni. Fátækur bókmenntafræðinemi og svona.
Það er nefnilega það sem er eitt af því sem er best við Ísland, það sem er best við að hafa puðað í garðyrkjunni eða gatnagerðinni eða fiskinum eða byggingavinnunni eða hverju sem það nú annars var – við höfum öll farið í gegnum þennan pakka áður en við urðum fullorðin, og þá skiptir stundum merkilega litlu þó einn sé enn í pakkanum og hinn orðinn markaðsfulltrúi eða alþingismaður. En Reykjavík er að týna þessu – er raunar á versta skeiðinu núna, það er eins og þetta þurfi að úrkynjast áður en þetta verður normalt aftur. Evrópskar borgir eru til dæmis flestar orðnar normal, fólk er auðvitað í sínum hlutverkum þar en það er orðið vant þeim og hegðar sér bara eins og eðlilegar manneskjur. Rithöfundinum líður bara vel í sínu skinni og viðskiptafræðingnum í sínu og þeir eiga kannski ekkert mikið sameiginlegt en þeir eru ekkert að forðast það að hittast og eru bara í góðum fíling á sama pöbbnum. Í Reykjavík fer mann aftur á móti að klæja óþægilega í skinninu ef maður villist eitthvað, það er eins og þetta séu náttúruleg viðbrögð og það sé einhver óvinveitt dýrategund í grendinni.
Lögfræðingatal

rant níu

Særún nær að sálgreina Gneistann snilldarlega í einni setningu. Svo tekst henni að láta mig fá samviskubit yfir öllum vinum mínum á Íslandi sem hafa hugsanlega notað tímann á meðan ég var úti og dottið í sturtu og legið þar síðan bjargarlausir af því ég kom ekki í heimsókn. Það gæti til dæmis alveg átt við um Gneistann, einmitt þegar hann lét verða af því að fá sér aukatölvu til að hafa í baðherberginu. Mér er samt illa við að viðurkenna það að aldrei þessu vant er ég sammála Óla með það að Særún sé með skemmtilegustu bloggurum klakans – þó að gestabókin hennar hafi týnt því sem ég skrifaði í hana. Kannski verður bráðum að fara að endurskoða lögfræðingamýturnar þegar stelpan útskrifast, sérstaklega í ljósi þess að Hrabal var lögfræðingur (fyndnasti höfundur Tékklands) sem og Bernard Schlink höfundur áðurnefnds Lesara. Jú, og svo er snillingurinn læðan líka í lögfræði. Svo ekki sé talað um Matlock með öll sín gráu jakkaföt. Skyndilega er ég gripinn sterkri löngun til að sjá Matlock aftur – en eins og þið vitið barðist Matlock við Godzilla áður en hann fór í lögfræði. Eða var það Raymond Burr? Anyway, lögfræðingar eru hetjur enda fara illmenni heimsins í viðskiptafræði þessi misserinn og er löngu kominn tími á að skipta viðskiptafræðibröndurum út fyrir lögfræðingabrandarana. Þá er líka í raun hægt að sameina viðskiptafræðibrandarana ljóskubröndurunum því engir eru meiri ljóskur en viðskiptafræðinemar. „Hvar er bókin? Ha, er þetta eftir stafrófsröð? Stafrófsröð höfunda? (Rennur upp fyrir viðskiptafræðinemanum / ljóskunni að einhver hefur væntanlega skrifað bókina. Sumir spyrja samt hvað ég meini með höfundur) Já, er G ekki á eftir B? Ha, C, en íslenskukennarinn minn sagði að C væri ekki í íslensku. Nei, E og F þarna líka, enn sætt. (Tekur upp veskið þar sem við stöndum tvö þarna lengst inní búð) Ha, á ég að borga þér á kassanum? (Förum að kassanum, á leiðinni sér hún tveggja metra hátt fjall af bókinni sem hún var með í höndunum.) Nei, svo er hún hérna líka! Ég bara sá hana ekki þegar ég var að leita áðan.”
Oprah kann að lesa!

rant átta

Ása veltir fyrir sér hvort það sé eitthvað að því að kaupa bækur sem hafa verið í bókaklúbbi Opruh. Nú lýst mér svosem ekki á megnið af því sem virðist vera í þessum klúbbi og hef ekki gerst svo frægur að hafa horft á þennan vinsælasta sjónvarpsþátt í heimi. Gerði raunar einu sinni tilraun en skipti strax um stað þegar ég sá að mesta karlremba í heimi og mesta kvenremba í heimi væri í viðtali. Það er vel að merkja sama manneskjan. Hann skrifaði einhverja leiðinda bókaröð þar sem þær ágætu stjörnur Mars og Venus eru ekki enn búnar að ná sér eftir. En aftur á móti er það mikið til Opruh að þakka að meistaraverkið Lesarinn varð alltíeinu og uppúr þurru metsölubók þannig að ekki er hún alslæm. Kannski hefur hún höfðað til sjálfshjálparbókaþrár minnar innst inni? Kannski en ég veit ekki alveg hvernig saga af ungum þýskum dreng á eftirstríðsárunum sem rekkjar hjá eldri konu sem áður var fangavörður í Auswitsch telst sjálfshjálparbók. Jú annars, ég veit það en þá væri ég að skemma endinn fyrir ykkur.
Samskipti fyrrverandi menningarmálafulltrúar og bóksala

rant sjö

Það virðast flestir nema hæstvirtur Múzakinn vera eitthvað á móti Jakobi Frímanni. Mér fannst hann ekkert spes sjálfum án þess að hafa pælt mikið í því. Svo afgreiddi ég hann tvisvar í Bóksölunni og hann var tvímælalaust með skemmtilegri kúnnum. Það að sýna bóksölum tilhlýðilega virðingu og skilning er að sjálfsögðu það sem ber að lýta á þegar vegnir og metnir eru mannkostir viðkomandi. Það er að segja næst því að vera menningarfulltrúi – en það var Jakob líka einu sinni. Samkvæmt Múzaknum rökstyðja þó einhverjir andúð sína á Jakobi með því að segja að „… það sé það sama að vinna fyrir ríkið sem menningarfulltrúi og að sjúga úr sjóðum.” Það veit ég að ég þyrfti líklega að eyða langri kvöldstund til þess að útskýra hugtökin fjárdrátt og baktjaldamakk fyrir föður mínum, fyrrverandi menningarfulltrúanum, til þess að hann mundi eitthvað skilja hvað ég væri að tala um. En hann var að vísu menningarmálafulltrúi Akureyrarbæjar sem er vissulega miklu merkilegra en að vera menningarmálafulltrúi fyrir Ísland. En starfsstéttin er vissulega merkileg og Jakob fær prik fyrir bumbudansinn fræga. Jú, svo var hann í prófkjöri sem hann vann ekki og einhverjum finnst sjálfsagt að ég ætti að minnast eitthvað á pólitísku hlið málsins. En slíkan ósóma mun ég sem fyrr forðast í lengstu lög að setja á þessa síðu, bendi aðeins á nánari útlistun mína á þeirri tík hér.
Þverstæðukennd náttúrulögmál

rant sex

Sverrir Jak virðist hneykslaður á að Dorrit hafi fengið að afhenda verðlaun. Eða kannski bara ekki alveg viss, erfitt að vita hvað þessi spurningarmerki þýða nú á þessum síðustu og verstu. Persónulega finnst mér ekki nema sjálfsagt að veita konugreyinu einstaka tækifæri til að losna aðeins við freðýsuna sem hún er venjulega með upp á arminn. Enda sannaðist á Guðrúnu Katrínu sú einkennilega þversögn að Ólafur Ragnar er miklu betri að velja sér konur en íslenska þjóðin er við að velja sér forseta. Hitt, að að meirihluti kvenna – og það á jafnt við skynsamar og aðrar – kunni ekki að velja sér karla er vel þekkt náttúrulögmál.
Einlægt pipr

rant fimm

Sumir bloggarar eru einlægari en aðrir. En ég held að enginn þeirra hafi gefið síðunni sinni jafn einlægan titil og þessi: Pipraðar pælingar. Nöldur aldraðrar piparjúnku sem hefur engan heima til að þusa yfir. Og ekki voru piparjúnkurnar sem kenndu mér í grunnskóla svona skemmtilegar. Minnir mig á þann eðla kokteil Piparsveinn (©Gunnlaugur Starri Gylfason & Ásgeir H Ingólfsson).
Sálfræðiskýrslur um hunda og ketti (kallað dagbók en þetta eru vissulega sálfræðiskýrslur, rétt eins og þessi rönt hérna verða notuð í framtíðinni um Íslendinga með fráhvarfseinkenni af klakanum)

rant fjögur

Hér er svo Björn nokkur að etja saman hundum og köttum – já, það er hættulegur frumskógurinn sem íslenskir netheimar eru. Það er svo sem einsýnt hvernig það stríðið fer, hélduð þið virkilega að það væru ekki notaðir alvöru hundar í hot dogs?
Gambrinn gerist borðtennishetja og Robbie Williams talsmaður öreiganna

rant þrjú

Er það rétt að borðtennis sé orðin fastur liður í uppáhaldsþættinum hans Á Jakobsson? Best að drösla upp einni starfsumsókn á popptíví (passa að hafa nógu margar stafsetningarvillur), finna gamlan kaldastríðsíþróttaþjálfara hérna í Tékkó til að koma mér í gamla tischtennisformið á mettíma og fara svo heim og ganga frá „Sjónvarpsmanni Íslands” í beinni útsendingu.

Annars ætti Ármann ekki að vera svona grimmur við Robbie Williams og reyna að setja sig í hans spor. Kannski langaði Robbie alltaf að verða íslenskufræðingur eins og Ármann en lét glepjast af peningum og gjálífi. Auðvitað er miklu betra að vera íslenskufræðingur – eða ætti að minnsta kosti almennilegur vinstri maður að telja það, benda á hvað grey Robbie sé nú sorrí án þess að gera grín að greyinu, bjóðast til að taka allar millurnar hans og dreifa þeim meðal öreigana og bjóða honum að skipulegja fyrir hann fyrirlestra í sjávarplássum Íslands þar sem hann tjáir fólki hvernig hann sigraðist á ofurvaldi Mammons og gekk í lið með byltingunni.
Útrýmum ljótum bókakápum!

rant tvö

Fröken Rokk hefur áhyggjur af því að hún verði tætt í sig eins og „Mikki í úlfhildargæru.” Jú, jú það eru einhver smávægileg líkindi.
Vissulega er lítill bældur Mikki bak við Torfasonfrontið, rétt eins og það er lítil bæld Beta bak við Rokkfrontið, munurinn er bara sá að Mikki litli hefur fundið sér eitthvað að segja og hann er búinn að þjálfa Torfasonbrjálæðinginn í því að segja það vel. Beta hefur aftur á móti því miður ekkert að segja þannig að fronturinn er bara frontur – smá skel í kringum þetta sakleysislega Elísabet Ólafsdóttir sem fæstir könnuðust við fyrr en þeir rákust á kápuna. Sem vel að merkja er ferlega ljót en það er allt í lagi svo framarlega sem bókin stendur undir væntingum. Mér finnst aftur á móti verra ef að góðar bækur eru með ljótum kápum, eiginlega bara mjög sorglegt. Kannski ætti bara að láta Bjart gefa út allar góðar bækur, þá getum við loksins farið að dæma bækurnar eftir kápunni með góða samvisku.
Sleepless in Reykjavik

rant eitt

Verður maður ekki að byrja á Mikka ref? Eiginlega er það merkilegasta við þetta meinta rifrildi þeirra að þau eru bæði fjarstödd. Mikki minntist, þegar hann er aðallega að tala um áhrif ritdóma á sig, í sakleysi sínu á að Úlfhildur væri vitleysingur og kjáni og kallar hana hálf ástúðlega „sitt fífl”. En Kistan ritskoðaði strákinn þannig að núna eru væntanlega flestir búnir að ímynda sér hinar svæsnustu svívirðingar (sem Mikki væri vissulega fær um) en er meira svona eins og ég þegar ég var ekki sáttur við að mamma hefði fisk í matinn – og þótti nú ekki orðljótt barn þó matvandur væri ég. Hér er það sem öllum úlfaþytnum olli, fundið eftir nokkra leit á heimasíðu Mikaels; (undir dagbok)

- Hvað með gagnrýni?

„Ég reyni að taka henni persónulega nema þegar hún kemur frá Úlfhildi Dagsdóttur því hún er vitleysingur. Allir höfundar verða að hafa svona einn kjána til að láta fara í taugarnar á sér og hún er mitt fífl. Verst að ég á ekki mynd af henni til að hengja fyrir ofan skrifborðið mitt. Vonandi gefur hún mér aldrei góða dóma því ég nærist alltaf á þessum eina sem gefur mér slæma. Síðast, þegar Heimsins heimskasti pabbi kom út, var það hún og einhver á Mogganum (man ekki hvað hann heitir) en það er þetta fólk sem heldur mér á jörðinni. Dómarnir frá þeim gera mig einbeittan og hörkulegan á svipinn en hinir fá mig til að brosa eins og einhver kjáni. Enda er ég bara mannlegur og vill leyfa þessu að snerta mig og hafa áhrif á mig, rétt eins og allt annað.”


Á meðan gerði Úlfhildur svo sem ekkert af sér nema að finnast bókin hans Mikaels ekkert sérstaklega vel skrifuð. Það er svo aftur á móti Ágúst Borgþór sem ýjar að því að Úlfhildur og RÚV hefðu verið ófagmannleg og Soffía Auður Birgisdóttir sem svarar því réttilega svo að ef þetta siðferði væri haft að leiðarljósi þá gætu rithöfundar auðveldlega dæmt gagnrýnendur sem þeim þóknast ekki úr leik. Þetta tókst samt því miður flestum að túlka þannig að Mikki hefði verið að gera þetta sérstaklega til að dæma Úlfhildi úr leik (nokkuð sem ekki eru þekkt dæmi svo ég viti úr ísl. bókmenntasögu) sem gagnrýnandi þegar Mikki talar um að hann nærist á slæmu dómunum hennar. Er þetta að dæma ritdæmanda úr leik? Spurning hvort Úlfhildur birti ekki góðan dóm um næstu bók og valdi Mikka greyinu áralangri ritstýflu. Vona ekki en merkilega öflug ritdeila miðað við að báðir aðilar hafa verið fjarverandi frá því í upphafsatriðinu á meðan aðrir hafa rifist um hvort hafi rétt fyrir sér. Spurning hvort þetta sé ekki efni í skáldsögu? Eða jafnvel kvikmynd, Sleepless in Reykjavik þar sem Úlla og Mikki fallast í faðma í Hallgrímskirkjuturni.

Hvað persónur þessar ástarævintýris varðar þá finnst mér bæði ágæt. Úlla að vísu dálítil kvenremba miðað við grein hennar um íslenskar bókmenntir árið 2000 þar sem ég rakst ekki á eina bók eftir konu sem neitt slæmt var sagt um og einhvernveginn tókst henni að finnast Myndin af heiminum full af kvenrembu og sakaði ýmsar aðrar bókmenntir eftir karla um að þar vantaði hið kvenlæga. Einum karli hrósaði hún jú (fyrir utan Gyrði sem er svona mestmegnis hvorugkyns) og það fyrir að skrifa bók þar sem hann sjálfur var kona, karl og hvorugkyn. Sem er fínt og vissulega mjög athyglisvert og spennandi hjá Sigurði en það geta nú varla allir karlarnir endalaust verið að skrifa skitsófrenískar bækur þar sem kven-hann talar við karl-hann um það sem hvorugkyns-honu fannst. Þá hættir það nefnilega að vera frumlegt og ferskt. Og þó þessi bók Péturs illi mér vonbrigðum – miðað við allt umtalið og miðað við hvað Pétur er góður höfundur – þá man ég ekki eftir slíku og get vart ímyndað mér annað en að maður sem nennir að þýða Madame Bovary sé neitt annað en algjör rauðsokka inn við beinið. Svona svipað og Úlfhildur að nenna endalaust að kenna kúrsa um Jane Austen.
Svo er það Mikki brjálæðingur. Ég á það sameiginlegt sumum að haft lítið álit á Mikka eftir auglýsingaherferð hans með Falskan fugl. Svona er Ísland í dag var inntakið. Sem það er náttúrulega ekki. Ísland er ekki Manhattan með skotbardögum og eiturlyfjasölum á hverju horni – þó það séu vissulega brot af Manhattan og fleiri borgum hér og þar. Efast sjálfsag um að sjálf Manhattan standi alltaf undir eigin ímynd, að minnsta kosti sá ég engar byssur og engin seldi mér dóp. En kannski voru bara allir í sumarfríi. En svo las ég bókina í samtímabókmenntum árið eftir, hún er ágæt. Einfaldlega saga um geðveikan strák sem lendir í dópi og gerir allan fjandann af heimskulegum hlutum. Í raun hálfgerð hryllingssaga úr firrtu þjóðfélagi. Þegar maður er búinn að ná suðinu úr eyrunum um að þetta sé eitthvað voða raunsætt þá fer maður að hafa gaman að kraftinum og látunum og stundum verður hún jafnvel barasta rómantísk eins og Ástráður benti okkur kímandi á þegar við í bekknum vorum að reyna að koma orðum að hvað hefði helst komið okkur á óvart. Svo kom Saga af stúlku sem er ekki alveg jafn vel skrifuð en samt miklu betra verk. Það er byggingin og hugmyndirnar sem eru að þrælvirka, það er miklu minna brjálæði í henni en einhver einkennilega sorgleg lýrík. Gæti alveg verið Nick Cave-lag. Hef ekki enn nennt að lesa Heimsins heimskasta pabba en langar að lesa Samúel þegar ég kemst í það. Smásagan HKL sem var held ég ritskoðuð einhverntímann eins og kistugreinin er líka með því besta sem hann hefur skrifað, ekkert í því til að ritskoða svo sem (Halldór var út úr heiminum og það vissu allir, það er á engan hátt verið að gera lítið úr honum) en það er frekar eins Falskur fugl sé ennþá að fylgja honum, það hefði enginn ritskoðað þessa smásögu frekar en umrædda grein nema af því þetta er Mikael Torfason. Það fyndna við Mikka er samt að flestar þær greinar, viðtöl og pistlar frá honum eða um hann er alls ekkert svo gróft. En það eru alltaf góðar fyrirsagnir þarna einhversstaðar. Sem eru stuðandi þegar þær eru teknar úr samhengi.
Það er líka merkilegt að bækurnar hans hafa ollið miklu minna fjaðrafoki en það sem hefur birst á netinu og í dagblöðum. Þó hafa bækurnar selst þokkalega og ef oft miklu meira sjokkerandi en það sem birtist á netinu og í blöðum – því Mikael skrifar um karaktera sem eru töluvert meira sjokkerandi en hann sjálfur. En fólk les sem betur fer bækur held ég nokkuð vel ennþá. Gallinn við það sem birtist á netinu og í dagblöðum er að þar rennir fólk yfir greinarnar. Hættan er að eitthvað eitt orð eða setning sem Mikki lét út úr sér verður svo til þess að því svelgist á morgunmatnum og verður eftir atvikum reitt. Auðvitað svelgist þessu fólki ekki á morgunmatnum þegar það er verið að tala um innrásir í Írak eða fjöldamorð í Palestínu eða hungursneið í Afríku. En að kalla einhvern kjána? Gvuðminngóður!
En örvæntið ekki, Mikki og Úlla eru uppí Hallgrímskirkjuturni núna. Ég var búinn að lofa að kjafta ekki en finnst bara svo sæt tilhugsunin um Mikki að spyrja Úllu hvort hann megi ekki skoða þetta piercing aðeins betur að ég varð bara að deila því með ykkur.
Rant í tíu þrepum

lesist upp á við

Jæja, ætli maður sé ekki orðinn passlega frústreraður á allri vitleysunni heima til þess að taka einn rantrúnt? (sbr. bloggrúnt). Allir að rífast og mig langar náttúrulega að vera með. Það má náttúrulega ekki láta allt fara í vitleysu þarna á klakanum þó ég bregði mér aðeins frá … Þó nauðsynlegt að tala vel um einhverja líka. Byrjaði þetta raunar á að senda Kistunni smá svar við annari greininni hans Ágústs, birti það líklega hér uppúr helginni eða set link á það, eftir því hvernig viðbrögðin verða.
G. K.Chesterton (liklega gestapenni) fullyrdir a heimasidu Gneistans i dag
"Poets have been mysteriously silent on the subject of cheese." Hefur madurinn aldrei lesid neitt af tessum aragrua ljoda sem eru til um tunglid?

miðvikudagur, nóvember 13, 2002

Pizza 67 og Jurrasic Park

Einu sinni samt, believe it or not, var Pizza 67 toppurinn. Það var árið 1993 og við Starri vorum búnir að kaupa okkur miða á Jurassic Park í einni Reykjavíkurferðinni, fórum með pabba og mömmu á 67 sem einhverjir Reykvíkingar sem við höfðum hitt dauðadrukkna niðrí miðbæ Akureyrar höfðu mælt með (Þá var 67 ekki enn komið norður, gott ef Greifinn var ekki eini pizzastaðurinn). Pizzan var dáltið lengi á leiðinni þannig að við þurftum að borða eldheita pizzuna (óvenjuheit því við vorum búnir að segja þjóninum að flýta sér sökum bíósýningarinnar og pizzan var beint úr ofninum) í bílnum þessar fimm mínútur sem það tók pabba að skutla okkur í Bíóborgina sálugu á meðan mamma passaði borðið. Besta pizza sem ég hafði smakkað fram að því og sú eina sem ég hef nokkurn tímann brennt mig á með troðfullan munninn. En eins og með Jurrasic Park þá voru framhöldin ekki nálægt því að vera í sama gæðaflokki og ferð I. Þó var ákveðin ferð á 67 í Dalvík að vísu sérlega eftirminnileg þó ekki muni ég hvernig pizzan sjálf bragðaðist. Og jú, pizzan sem bjargaði mér frá hungurmorði á Ísafirði út af því að pabbi hafði ranglega fullyrt að það væri hægt að kaupa mat á ferjunni – sem varð til þess að við stoppuðum ekki neins staðar á leiðinni, ég hjólað í vinnuna morgunmatslaus klukkan sjö um morguninn, unnið á fullu (eða verið í fótbolta á fullu, þetta var nú einu sinni hæstvirt Umhverfisdeild Akureyrarbæjar – sem vel að merkja hljómaði ótrúlega important þegar ég þurfti að þýða cv-ið mitt yfir á ensku. The Enviromental Center of Akureyri. Verst að þá var ég ekki enn komin með Tobbacco and Licquer Store of the State of Iceland) til hádegis og farið þá heim án þess að borða og beðið eftir þessari helvítis ferju í ofvæni sem faðir minn fullyrti að væri hægt að fá heitan mat á. Jú, það var ein afskaplega ræfilsleg samloka sem ég gleypti í einum bita, komum svo til Ísafjarðar seint um kvöld og allir veitingastaðir lokaðir. Ég blaða örvæntingarfullur í símaskránni á hótelherberginu, prófa að hringja, þeir eru með heimsendingu, ég þurfti að beita mig hörku til að faðma ekki saklausan pizzasendilinn. Merkilegt að ekki merkilegri veitingastaður geymi svona margar skondnar minningar ... og þó kannski ekki nema von þegar þeir eru með stað í hverju einasta krummaskuði á landinu, eða voru að minnsta kosti þegar veldið stóð sem hæst – og líka í Prag og Köben minnir mig.
Ég er svangur! Af því tilefni;

Topp 5 heitur matur:

Salami Gorgonzola-pizza hjá Waldklause Infang í Längenfeld, Austurríki

Kjúklingamixtúra Alfredo hjá Uglunni í Prag, Tékklandi

Tagliatelle Gorgonzola hjá Arena í Prag

Hvaðsemþaðnúvarsemégfékkmér (man helst eftir gómsætum hrísgrjónunum – í eina skiptið sem ég minnist þess að hafa notað orðin gómsætt og hrísgrjón í sömu setningu) í eina skiptið sem ég fór á La Vita e Belle á Akureyri (Hann opnaði eftir að ég flutti og er vissulega ansi dýr. Líklega eins gott, ég gat varla hreyft mig um kvöldið eftir að ég var búinn að troða mig út þar)

Hamborgari í Lindinni, Akureyri. The memories, the memories ...

Hmm, ég er nú með móral yfir að koma Greifanum og Eldsmiðjunni ekki að ... en jæja:

Og topp 5 fyrir mat eftir fyllerí:

Devitos

Bagettu- og Pizzustandurinn rétt hjá Jungmanovagötu í Prag, sérstaklega með Villa Finnska

Pylsa í Nætursölunni á Akureyri (nestin eru of langt í burtu, þú þyrftir að vera á bíl – og þá þyrftirðu náttúrulega að vera edrú)

Hlöllabátar

Pylsurnar hjá vini mínum hjá barnum með sundlauginni (hey, it’s been seven years!) í Albu Feira, Portúgal. Pik-nik snakk með pylsum er náttúrulega eitthvert stórkostlegasta framlag Portúgals til matagerðarlistar heimsins
Bagobones

Norah Jones er alltof sexí. Og það mundi ég líka segja þó ég hefði ekki myndirnar á umslaginu. Önnur eins rödd hefur ekki heyrst síðan Emelíana. Sem er náttúrulega enn að, maður heyrir bara svo sjaldan í henni núna eitthvað. Var hún ekki nógu kúl út af því hún meikaði það ekki jafn mikið og leiðindakjóinn hún Björk þó hún væri með miklu betri texta, tíu sinnum betri rödd og sé án minnsta vafa svona hundrað sinnum betri leikkona? En það var Nóru Jones að þakka að ég var með orðið vagabound í hausnum því hún syngur það svo stórkostlega, las svo loksins textann og þá er þetta víst bag of bones. Sem hún ber fram einhvernveginn bagabones og mér heyrðist einhvernveginn vera flakkari. Sem er svo sem ekki svo fjarri lagi þó stemmningin sé önnur þá er merkingin furðu lík. Það var svo Kim Novak í Vertigo að þakka að orð sömu merkingar, wanderer, varð uppáhaldsorðið mitt í ensku. „Only one is a wanderer, two together are always going somewhere.“ Og það fallegasta við orðið er það að ef þú breytir a-inu í o þá er framburðurinn eins, og merkingin eiginlega líka þrátt fyrir allt. Það væri sjálfsagt hægt að lesa einhverja heilmikla sálfræði út úr þessu en ég held það sé frekar hugmynd að fara í puttaferðalag í US of A og vona að einhver Nóran stoppi fyrir þessum bagabones.
Eygló er sú eina sem er eitthvað að standa sig á kommentakerfinu hérna og hún sér náttúrulega alveg í gegnum bókmenntafræðivitleysingjan mig. Það væri nú munur ef kallinn hennar hefði þetta innsæi. Hvað hef ég á móti raunsæi? Ekki neitt (Eygló búinn að sannfæra mig sem sagt ;) ), en frekar á móti því sem raunsæisstefnan stóð fyrir – þ.e. að lýsa veruleikanum eins og hann er og í því augnamiði bannfæra alla fantasíu og ímyndunarafl, sýna gráan hversdagsleikann í allri sinni mynd og hætta að hanga þetta uppi í skýjunum. En það er auðvitað ekki raunsæi, þó lífið geti stundum virst grátt þá gerist alltaf stundum eitthvað ótrúlegt, jafnvel þó maður sé að vinna í einhverju grámóðsku skítadjobbi eða einhverjum fjandanum – og skýin eru þarna vissulega þó þau séu stundum fjarlæg. Þó fantasían og ímyndunaraflið sé máski ekki jafn ríkt í veruleikanum og í bókum þá er það samt þar. Þannig að í raun er ég að úthúða þeirri hugmynd um raunsæi sem ímyndunaraflsskert fólk auglýsti sem hið eina sanna raunsæi – en asnaðist í leiðinni til að gefa þeim eftir orðið. Líklega af því það er búið að nota það þannig svo lengi. Enda eru fæst orð neitt slæm, við erum bara ansi gjörn á að afskræma þau – þangað til að einhverjir snillingar sjá loks orðið eins og það í rauninni er. Samt óþarfi að setja okkur bókmenntafræðiliðið í hóp með íslenskukennurum ;) Annars með póstkortið, mér datt náttúrulega ekki í hug að smekkkonu eins og þér myndi langa í kort með mynd af Woodyho framaná. En engar áhyggjur, það er kort með hetjunum þínum á leiðinni!
Ég þoli ekki þegar talvan ætlar að reyna að hugsa fyrir mig. Heldur Bill Gates að við séum öll að vinna við sömu andlausu skrifstofuvinnuna að skrifa nákvæmlega sama andlausa bréfið?

mánudagur, nóvember 11, 2002

Hverfispöbbin Kozel

- Èesky roman

Á borðinu við hliðina á mér eru faðir, tveir synir og bróðir pabbans. Gamlingjarnir eru að reyna að sannfæra þann eldri, sem er útvötnuð fótboltastjarna hjá FK Zlín, að leggja bokkuna á hilluna svo hann geti nú bjargað Zlínmönnum frá falli. Best að byrja á að vinna sér aftur sæti í liðinu samt. Á borðinu fyrir framan mig er eldri maður, hálfur Grænlendingur, afleiðing örlítils hliðarspors hjá Ljudmilu móður hans í Kulusuq ’52 þar sem hún var á vegum KGB að setja upp sérlega njósnastöð til að fylgjast með þessum stórhættulegu villimönnum sem tilheyrðu víst Ameríku og voru þar af leiðandi vafalítið á mála hjá þeim – eða sem verra er, Danska baunaveldinu sem Rússar sem og aðrir höfðu öruggar heimildir fyrir að væri helsta ógn við siðmenningu heimsins. Afleiðingarnar sitja fyrir framan mig, sötrar bjór og sýgur rettu.
Á langborðinu er fjölskylda nokkur að fylgjast með skákeinvígi Miroslavs frænda og bardömunnar. Orðrómurinn í hverfinu er að bardaman hafi heitið hverjum sem vinni sig einni kvöldstund í hliðarherberginu. Hún er vitanlega enn hrein mey en bíður í ofvæni eftir að ungi sjarmerandi Kasparovinn komi á hvítum Ladillac á barinn – en vill samt helst ómögulega tapa. Grænlendingstékkinn lítur til mín, hristir hausinn eins og eðlilegt er, helvítis Íslendingar, aldrei friður!
Dúkarnir eru grænir, tónlistin skelfileg. Landslagsmyndir skreyta veggina og innanstokksmunir eru flestir keyptir af íslensku sveitasetri. Svo klárast bjórinn og ég hætti að ljúga sögum af saklausu fólkinu þarna inni og legg í brekkuna heim til mín.
Bókahorn Gambrans

Næstu tvær bækur sem voru lesnar hér í fjallakofanum voru Fight Club eftir Chuck Palahniuk og Hvíldardagar Braga Ólafssonar. Það passar merkilega vel að fjalla um þær saman í hinum sívinsæla dagskrárlið Bókahorn Gambrans – og á óvenju vel við á mánudegi. Báðar fjalla í raun um þetta kvalatæki andskotans, hversdaginn, og viðbrögð okkar við honum. Sögumaður Fight Club gerir uppreisn gegn honum, sögumaður Hvíldardaga virðist hægt og rólega yfirbugast af hversdagsleika dagana. Eða kannski frekar þeim fáu atvikum sem trufla hversdagsleikann þó takmarkað sé. Þessi yfirþyrmandi hversdagsleiki sem Bragi lýsir er örugglega tímabil sem við höfum öll upplifað, tímabil sem maður hatar fátt meira en spurninguna „er eitthvað að frétta?” Hvernig hann bugast yfir þessu öllu saman var samt ekki alveg sannfærandi. En hversdagnum, honum nær Bragi ótrúlega vel. Fight Club aftur á móti, brilljant kvikmyndahandrit, ekki alveg að virka sem bók. Enda vildi svo skemmtilega til að David Fincher kvikmynduði verkið eins og flestir þekkja og er myndin vissulega miklu betri en bókin – þó vissulega beri að nefna það bókinni til varnar að hún varpar á margan hátt skýrara ljósi á myndina. Hvíldardagar aftur á móti, nei, ég sé Brad Pitt ekki alveg fyrir mér í því hlutverkinu. Sumt er líklega dæmt til að vera bara á bók.
Loksins mánudagur! Jibbí!

Það er skrítið þegar maður er ekki í fastri vinnu (eða sem sagt í vinnu fyrir sjálfan sig sem maður fær borgað fyrir einhvern tímann í óljósri framtíð, Insjallah!) – þá leiðist manni oft helgar alveg bölvanlega. Sérstaklega hérna, allt lokað, ekki hægt að skoða tölvupóstinn og almenningssamgöngur til Zlín of strjálar til að ég nenni að vera að fara þangað bara til að fá mér matarbita. Jamm, þannig að mann hlakkar mikið til mánudagsins! Auðvitað kemur maður samt mestu í verk um helgar …

föstudagur, nóvember 08, 2002

Já, og núna er loks komið að bókahorninu sem féll niður í þarsíðustu færslu vegna útúrdúrs. Næst er komið af tvöföldum Auster. Ég ætlaði raunar að klára Auster hérna í Tékkó, átti þrjár bækur eftir, en svo varð Mr. Vertigo fórnarlamb grimmilegs niðurskurðar við niðurpökkun áður en haldið var til Keflavíkur og svo þarf kallinn náttúrulega að gefa út nýja bók rétt áður en ég fer. Book of Illusions sem ég efast ekki um að sé góð fyrst Orri bókavörður og bókmenntafræðinemi segir það. Að vísu finnst Orra Taxi Driver góð bíómynd en að öðru leiti er hann einn af þeim mönnum sem vert er að taka mark á þegar að menningarafurðum kemur.
Þannig var að ég kláraði flestar hinar bækurnar í Sölden Týrólaveturinn 97-8, New York Trilogy í skólanum árið eftir og Hand to Mouth í París vorið 2000. En hinar þrjár lágu í bókaskáp og voru einhvernveginn ekki jafn spennandi og hinar. En The Music of Chance og Timbuktu komust sem sagt til Zlín. Það er satt að hvorug er Auster í toppformi, þó The Music of Chance komist oft nálægt. Það besta við hana er hvernig hún breytist hægt og rólega úr enn einni sögunni um stefnulausan mann yfir í hálfgildingis þriller, og það er merkilega mikið af áhugaverðum samtölum í henni, venjulega er Auster ekkert mikið að nota samtöl þannig að ég var helst farinn að fá á tilfinninguna að hann vissi að samtöl væri veikleiki hjá sér og hafi þar af leiðandi sneitt hjá þeim. Sem er raunar ekkert ólíklegt, svo allt í einu finnur maður lykilinn af því hvernig á að skrifa eitthvað og þá er þetta minnsta mál í heimi. Margt sem minnir á Moon Palace en hún er samt ekki jafn seiðandi og hún, ætli hún sé ekki næst á eftir masterpísunum þremur (Moon Palace, In the Country of Last Things og The New York Trilogy), kannski aðeins á eftir The Invention of Solitude og á svipuðum stað og Leviathan. Sú var með öllu skemmtilegri anarkíu en hefði mátt vera aðeins agaðri, þessi er aftur á móti eitthvað agaðasta verk Austers hingað til og það hefur bæði kosti og galla.
Svo er það Timbuktu, saga fyrir fullorðna sem gerist í hausnum á hundi. Ekki beint dæmigert Auster-viðfangsefni og það er kannski vandamálið, hann leyfir sér ekki að vera jafn Austerískur (hmm, nú er ég farinn að sjá af hverju ég varð Auster-fan í Austurríki!) og hann er vanur en fer ekki heldur nógu langt í burtu. Þetta er samt bók sem mig grunar að gæti verið skemmtilegri aflestrar fyrir óinnvígða. En hann hefði mátt leyfa Willie G. Christmas að lifa aðeins lengur, gert hann að meira skáldi, leyft honum að dansa meira þrátt fyrir alla eymdina.

Merkilegt samt hvað sagan rímaði við Bróðir minn Ljónshjarta, ætli norsk eiginkonan sé orðin svona dugleg að kynna hann fyrir norrænum literatur? Fínar bækur vissulega, ekki það, en maður þarf að bera hlutina saman í samhengi. Þegar þú ert búinn að lesa nógu fjandi margar bækur eftir einhvern borgar sig oft frekar að bera þær saman innbyrðis frekar en að bera þær saman við aðra höfunda, a.m.k. ef þú vilt að einhver taki mark á þér. Ég mundi til dæmis aldrei spyrja Gneistann einfaldlega hvort eitthvað Queenlag sé gott (ég veit hvort eð er að svarið yrði jákvætt með svona 0,01 % skekkjumörkum) heldur frekar reyna að halda spurningunni í samhengi þannig að ég fái einhverja tilfinningu fyrir hversu gott þetta lag er miðað við önnur Queen-lög. Ekki það að ég spyrji hann mikið, enda það mikið Queen-fan sjálfur, eða var öllu heldur, er orðinn frekar latur að spila snilldina. En þetta kemur í skömmtum oft, ég á sjálfsagt eftir að kyrja Bohemian Rhapsody með gamlingjunum á elliheimilinu einn daginn. Þori því ekki núna enda staddur í Móravíu, aldrei að vita með hrepparíginn. Þeir drekka sko Slivovice hérna en ekkert Becherovkusull frá Bóhemíu. Ég alveg eins og ræfilskrakkinn í Cheeriosauglýsingunni finnst bara bæði betra. En sumt borgar sig ekki að láta út úr sér í fjölskylduboðum.
Hmm, ég er alveg að missa mig hérna í raunsæinu. Kannski er aðalatriðið þetta – ef þú skrifar bók eða gerir bíómynd þá ertu náttúrulega að skapa heim. Ef það eina sem þú reynir að gera er að ljósrita eitthvað, hversu nákvæmlega er að verki staðið, þá verður niðurstaðan bara flatt ljósrit. Þú sérð ekki á bak við hlutina, þetta verður heimur í einni vídd, þú gætir þessvegna ráðið pappalöggur Sólveigar Pé í öll hlutverkin. Hitt, að nota eitthvað sem jarðsamband, hvort sem það er sjávarþorp eða glamúrvilla, er allt annað. En þá þarftu að nota sjálfan þig (sem ert að öllum líkindum hvorki sjávarpláss eða glamúrvilla þó þú hugsanlega búir í öðru hvoru) til að fylla upp í götin. Ef þú neitar þér um ímyndunarafl þá lýgurðu bara sálarlausu fólki að okkur.
Jæja, bókahornið snýr aftur. Sökum þess að ég byrjaði ekki á þessu fyrr en mánuði eftir að ég kom hingað er ég eðlilega nokkuð á eftir en það er í góðu lagi þar sem ég er að lesa stóra skruddu núna og þó ég sé hálfnaður er dálítið í að ég verði búinn með hana. Það má kannski minnast á það að í þessari afbragðsskruddu – Miðnæturbörn Salmans Rushdies – er fín ádeila á áðurnefnt raunsæi. Það er verið að tala um eina raunsæiskvikmyndagerðarmanninn í Bombay sem óvart spáði fyrir af ótrúlegri nákvæmni um seinni tíma samskipti fjölskyldunnar sinnar – í einni af þeim myndum sem hann gerði áður en hann helgaði sig raunsæinu.
Enda er þetta kannski spurning um orð. Raunsæi er ekki merkilegur dómur um bók. Að hún lýsi einhverju sannfærandi, að það sé sannleikur í henni, að henni tekist að koma manni inní hugarheim fiskvinnslukonu / uppvaskara / stjórnmálamanns – það er allt saman jákvætt – raunsæið aftur á móti getur verið svo mikið fangelsi. Líklega hefur engin verið jafn trúr raunsæinu og höfundur sem ég man ekki lengur hvað hét sem var að skrifa ævisöguna sína og var meira en ár að skrifa niður hvern dag – það er raunsæi. Á meðan eru flest þau verk sem auglýsa sig sem raunsæisleg venjulega mestanpartinn að ljúga að manni. Sýna manni ævinlega myndir sem svartsýnt fólk, gerilsneytt ímyndunarafli dregur af heiminum. Einstaka sinnum tekst þetta, til dæmis í fyrstu bók Auðar Jóns og þeirri einu sem ég hef lesið, einhvernveginn nær hún lýríkinni í þessu. Svo tekst það líka í Íslenska draumnum – sem er einmitt ástæða þess að mér finnst Íslenski draumurinn ömurleg bíómynd. Sem er kannski ástæðan að ég er að þvælast í útlöndum nú eins og endranær?

Ásgeir sem þykist vera í Tékklandi en er samkvæmt öruggum heimildum að vinna undercover í fiski í Þorlákshöfn á meðan hann undirbýr stóru íslensku raunsæisskáldsöguna – vinnutitill „Slor“. Hugmyndin er að skylda alla útlendinga sem koma til landsins í fisk til að lesa bókina sem hluta af íslenskunámi. Spurning hvort einhver svindli og horfi bara á Hafið í staðinn?
Var að lesa annars ágæta grein eftir Úlfhildi Dags um Stefán Mána, ég hef aldrei nennt að lesa Stefán eftir að Nanna sannfærði mig um hve Hótel Kalifornía væri vond bók, en seinna í greininni kemur þessi stórfurðulega setning: „Því hefur verið haldið fram að skáldsögur yngstu kynslóðar íslenskra rithöfunda einkennist af einhverskonar afturhvarfi til raunsæis, og hefur orðið ný-raunsæi jafnvel verið nefnt í þessu sambandi. Er þá væntanlega verið að vísa í skáldsögur Auðar Jónsdóttur, Gerðar Kristnýjar, Guðrúnar Evu Mínervudóttur og Mikaels Torfasonar.“ Auður Jóns og Gerður Kristný (fyrst hún er að fara skrifa um þjóðhátíð í eyjum), jú jú, kannski ekki fjarri lagi. En Mikki og Guðrún Eva raunsæisskáld???? Allt í lagi, hún segist ekki fyllilega sannfærð um þessa skilgreiningu sjálf – en eignar hana vissulega engum öðrum – en hugmyndin að þessi tvö séu raunsæisskáld er einfaldlega út í hött. Mikki alltaf með annað fótinn, stundum báða, í brjálæðinu og martröðinni og Guðrún Eva ævinlega með annan fótinn í ævintýrunum. Enda er það einmitt þeirra helsti styrkleiki, brjálæðið í Mikka (sem getur kannski sjálfum sér um kennt um raunsæisstimpilinn, hann seldi Falskan fugl sem slíkan þó hún hafi lítið með raunsæi að gera – fín og kraftmikil bók engu að síður þegar maður var hættur að pirra sig á paranojsku auglýsingadellunni um að svona væri hið raunverulega Ísland) og ævintýramennskan í Guðrúnu Evu. Það er ýmislegt satt í þessum bókum. Raunsætt? Varla. Sem er náttúrulega hið besta mál, raunsæisstefnan var eitthvert það sorglegasta sem komið hefur fyrir bókmenntirnar, það var eitthvað svo lítill sannleikur í þeim mörgum. Þó vissulega sé til hellingur af heiðarlegum undantekningum frá þessu eins og öðru.
Heyrðu nú mig, ekki nóg með að RÚV sé að sýna Bogart þá er Nick Cave líka að koma. Var landinn endalaust að bíða eftir að ég gerði eitthvað ógurlega menningarlegt og er loksins núna að stuðla að einhverri menningu sjálfur eftir að ég fór? Hinn möguleikinn er náttúrulega sá að ég hafi verið svona ómenningarlegur og þar af leiðandi staðið menningunni fyrir þrifum en við hlustum náttúrulega ekki á svoleiðis vitleysu. Hmm, ég er farinn að tala um sjálfan mig í fleirtölu. Þá er náttúrulega tilvalið að fara að hella sér í smá bókmenntaumræðu. Smá nöldur fyrst og svo hið sívinsæla bókahorn Gambrans – sem var vissulega stofnað til að fá útrás þeim óeðlilegu tilhneigingum sem alin er í okkar bókmenntafræðinemum um að þurfa endalaust að vera tjá okkur um allar skruddur sem við lesum.
Trefill frændi kom út úr skápnum í gær. Djöfuls vitleysa að fara ekki bara til Spánar eins og allir aðrir fyrst maður er að þvælast þetta á annað borð.
Starrinn á afmæli í dag – hann er jafngamall og Gambrinn frá og með deginum í dag. Þetta er vissulega einn af þeim dogum sem madur vildi vera heima ... En til hamingju með daginn gamli!

miðvikudagur, nóvember 06, 2002

Fékk póst um daginn frá kettinum mínum og núna í dag frá Franz Kafka. Ég vissi alltaf að kötturinn minn væri með skáldlegt blóð í æðum en miðað við hve skriftin hjá kisu og Kafka er lík þá held ég að það sé engum vafa undirorpið að þeir séu náskyldir. Sem þýðir sem sagt að Kafka er köttur. Eða var köttur sem lenti svo í Hamskiptum sem þar af leiðandi eru bara dulbúin ævisaga. Ætli Ástráður viti af þessu?
Það er stórmerkilegt raunar að hugsa til þess að Zlín sé í sama landi og Prag, ég er alveg eins og algjör geimvera hérna – ég hef ekki séð svo mikið sem einn annan ekki-tékka hérna síðan ég kom.
Pozor psa!

Göngutúr um úthverfi

Želechovice er úthverfi Zlín, á Akureysku mætti segja að þetta sé eins og Hlíðarfjall væri sett út í Hrafnagil og væri í sæmilegri byggð. Já, nú skilja náttúrulega allir hvað ég er að fara! Það þykir ekki siðlegt að ljósastaurar séu of nálægt hvorir öðrum hér í bæ og ljós í gluggum heyra til undantekninga þannig að maður veldir sér stundum fyrir ef maður labbar hérna á kvöldin hvort maður ætti að kaupa sér vasaljós. Þarf samt ekki að vera kvöld, eftir að þessi asnalegi vetrartími gekk í garð þá er orðið dimmt klukkan fimm. Það hefði alveg mátt færa klukkuna – í hina áttina. Að vísu græddi ég klukkutíma sem er alltaf gott en hvað eru Evrópubúar samt að pæla, bjart klukkan sjö á morgnanna og dimmt klukkan fimm? Væri ekki skemmtilegra að hafa smá birtu eftir að þú kemur heim úr vinnunni? Fólk sem vinnur 9 til 5 fær ekki mikla birtu nema það sé því morgunhressara – en kannski eru allir syngjandi hérna á milli 7 og 9 á morgnana? I wouldn’t know.
Svo er náttúrelega bölvaðir hundarnir, hvað er að fólki sem kaupir sér hund bara til að láta hann gelta að fólki sem dirfist að labba fram hjá húsinu þeirra? Eða öllu heldur girðingunni að húsinu þeirra, húsið er nokkuð langt í burtu. Og hvernig fær þetta fólk heimsóknir? Annars er þetta frekar klassíkst úthverfi, maður verður aðallega var við atvinnuhúsmæður á labbinu hérna. Þær gelta að minnsta kosti ekki eins og hundarnir.

þriðjudagur, nóvember 05, 2002

Meyjastríðin og fólk að selja djöflinum sálu sína

Bókahorn Gambrans

Næsta lesefni sem var innbyrt hér í afdölum var Pragversk ævintýri – það fór að verða þreytandi þegar annað hvert ævintýri endaði á því að einhver seldi djöflinum sálu sína. Engum tókst að snúa á hann sem var sömuleiðis galli (gerir sögurnar ólíkt fyrirsjáanlegri). En frásögnin af meyjastríðunum bjargaði annars klunnalega skrifaðri bók. Borgarastríð á milli kynja einhverntímann á snemmmiðöldum? Þetta er afar fróðlegur tékkneskur femínismi.

föstudagur, nóvember 01, 2002

Tékknesk fótboltamannaklipping og kúluvarparar

Varð fyrir lífsreynslu þegar ég var að bíða eftir lestinni í gær. Gengur hann ekki inn, Tékkneski fótboltamaðurinn. Hávaxinn, brjóstkassinn belgdur, heimasaumuð prjónapeysa og samlitar buxur – og svo auðvitað þetta hár. Dökkskollitað og liðað, einhver mundi reyna að kalla það sítt að aftan, en þessi liðaði makki var að sjálfsögðu ekkert annað hin rómaða czech footballers haircut. Nú eru vissulega allir kvenkyns lesendur farnir að kikna all verulega í hnjánum þannig að ég læt þessa lýsingu duga, ég hafði því miður ekki manndóm í mér til þess að biðja þennan ólympíska hálfguð um eiginhandaráritun. Ekki versnaði það þegar í lestina sjálfa kom, kemur ticket inspectorinn, hingað til hef ég lent á karlmönnum sem eru 1,50 að bæði hæð og ummáli og svo einum David Arquette lookalike sem var massífur töffari. Hinn David Arquette lookalike-in sem ég þekki er náttúrulega alger snillingur – af hverju er þá David Arquette sjálfur svona vonlaus? “Mr. Arquette, we’re sorry to inform you both your next movie projects were snapped up by your clones. But we have this role for you in an Icelandic movie about a guy who gets lonely and entertains himself in interesting ways. The original choice for the role hit his head on a submarine in Russia.” En já, ég var að tala um lestarvörðin. Heldurðu að það sé ekki afrekskona mikil frá Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980. Já, ég hugsa að ég hefði fengið að flúgja ansi langt ef ég hefði verið miðalaus. En gott ef hún blikkaði mig ekki bara. Nema það hafi verið stubburinn bak við mig, líklega æfingafélagi. Enda dvergakast að verða vinsælla en kringlukast á þessum síðustu og verstu.
“You must choose a road for yourself.”

Já, og næst í nýstofnuðu bókahorni Gambrans er teiknisagan Road to Perdition eftir Max Allen Collins og Richard Piers Rayner. Ég er ekki enn búinn að sjá myndina og kannski er Tom Hanks fínn – en það var fyrst og fremst einn maður sem ég sá fyrir mér sem O’Sullivan – og það var Paul Newman á sínum yngri árum. Gamli Newman passar svo vissulega fullkomlega við Rooney – sem heitir Looney í bókinni sem og raunveruleikanum og mikil synd að myndin hafi sleppt því viðeigandi nafni. Ekki það að gamli Looney sé neitt ógurlega klikk, en sonur hans er stórkostlega krípí frík. Svo kannast ég ekkert við þennan dúd sem Jude Law á að leika úr bókinni – en Law er snillingur – þó ég eigi ennþá eftir að sjá hvort hann geti leikið likeable karakter en það kemur ekki í ljós hérna. Hann er einhvernveginn alltaf gaurinn sem fær allt upp í hendurnar, er endalaust neikvæður en kemst samt upp með það því hann getur gjörsamlega leikið sér með fólk eins og honum sýnist. Hefðu þeir eitthvað getað gert Talented Mr. Ripley án hans? Svo var ég að hugsa um út frá karakternum hans í Gattaca (sem heitir Eugene) að myndin virðist mjög innblásin af Long Days Journey Into Night – besta leikrit sem ég hef lesið hvað sem öllum móðurelskandi dönskum prinsum líður. En já, ég er mjög duglegur í útúrdúrunum í dag, ég var að tala um Road to Perdition. Endirinn – sem er líklega öðruvísi í myndinni – gefur nafninu nýja og mjög skemmtilega vídd. En það sem er fyrst og fremst að virka eru myndirnar, andlitið á O’Sullivan er síbreytilegt, einföld en útpæld trix. Já, og hún er blóðug. John Woo er tilgreindur í formálanum sem áhrifavaldur og það sést.
Arftaki minn í bókaburðinum, nýútskrifaði sagnfræðingurinn Steini, er vissulega mesta ljúfmenni og drengur góður. En ég veit samt ekki hvort ég mundi hleypa manninum inná vídeóleigu. Ekki nóg með að við Eiríkur höfum eitt sinn staðið hann af því að tala illa um Jimmy Stewart, nú er hann eitthvað að setja út á Bogart! Það vantar bara að hann tali illa um Paul Newman og það verða hengdar upp mug-shots af honum á öllum betri vídeóleigum landsins til viðvörunnar. En ef ég man rétt hafði BA-ritgerðin hans eitthvað með íslenskar kvikmyndir að gera þannig að líklega hefur hann misst allt skynbragð á góðan leik við það. Annars bölvaður skandall að loksins þegar ég er kominn eitthvað út í rassgat fari RÚV að gera eitthvað til að uppfylla þetta margumtalaða menningarhlutverk sitt með Bogartsyrpu. Jamm, svo er ég líka að missa af popppunkti og Survivor, það getur verið erfitt að vera í útlöndum – ég minni á póstkortin!
Þar sem ég mætti nýrakaður og almennt óvenju fínn í gær þá var ástæða til að hressa aðeins upp á útlitið á þessari síðu. Fá jarðlitina inn, voru ekki allir orðnir þunglyndir af þessum svarta bakgrunni? Mér fannst hann svosem alltílagi, það var aðallega diskókúlan bak við sem fór í taugarnar á mér þó hún sæist ekkert mjög vel. Svo var undirfyrirsögnin asnalega falinn langt niðri, ég samdi nýja sem á öllu betur við the present situation en hún virðist týnd. Auðvitað þýddi þetta allt að kommentakerfið fór í klessu, sem var synd út af því það var nokkuð líflegt þar í gær. Eygló fletti ofan af mér – en nú hef ég náttúrulega snúið á hana á móti – og við Kollý vorum komin langt með að fletta ofan af póstkortamorðingjanum ógurlega. En hann var þó eftir allt saman aðeins leiksoppur Bill Gates eins og vænta mátti sem við rétt náðum að stoppa frá því að ná algjörum heimsyfirráðum. Svo var Starri svo elskulegur að bjóðast til að senda mér öll póstkortin sem allir vinir hans hafa verið að senda honum – Búnaðarbankinn, Skattstjórinn, Stúdentagarðar, Lífeyrissjóðirnir, Hagkaup og hvað þeir heita nú allir þessir félagar hans. Ég verð nú samt að afþakka, ég veit hvað honum þykir vænt um þetta. Það er samt eins gott fyrir hann að senda kort – annars borða ég bara súkkulaðið sjálfur!
Jibbi, það er komið tívolí í bæinn! Frá og með núna er ég oficially 10 ára og á leiðinni í hringekju, best að blogga samt smá fyrir helgina fyrst