mánudagur, október 10, 2005

Flutningar

Ég er ekki fæddur á ári vatnsberans. Ég á hvorki mussu né útvíðar gallabuxur. Ég hef ekki þolinmæði til að safna almennilega síðu hári. Ég er engann veginn nógu virkur í því að faðma tré. Ég er of nískur til þess að tíma að reykja gras. Ég hef aldrei fattað hvað er svona frábærlega æðislegt við Bítlana þó þeir séu ágætir. En þó er löngu tímabært að gera eitthvað fyrir sinn innri hippa og því hef ég ákveðið að ganga í Kommúnu. Það verður að duga þangað til ég kem áætlunum mínum um heimsfrið í framkvæmd – eða þangað til ég rek rakarann minn.

Þannig að Gambrinn flytur hér með lögheimili sitt frá www.asgeirhi.blogspot.com yfir á www.kommunan.is/asgeir þar sem ég mun halda áfram sömu vafasömu skrifum þangað til internetið kemst úr tísku. Já, þetta var hótun.

Þannig að uppfærið linkana, breytið bókamerkjunum og kíkiði í heimsókn.

Ég vil að lokum þakka Herra Blogspot fyrir samstarfið, þetta var ekki þér að kenna heldur þurfti ég bara að prófa eitthvað annað sko ... Hann hefur samt lofað að passa upp á allar gömlu arkívurnar mínar áfram sem verða linkaðar af nýju síðunni. Fortíðin verður ennþá hér þó framtíðin verði annars staðar.

fimmtudagur, október 06, 2005

Hvað getum við gert fyrir heiminn?

Ég er víst duglegri þessa dagana að skrifa alls staðar annars staðar en hér. Þannig að í stað þess að sakna mín óhóflega mikið getið þið lesið þetta rant hér. Þetta venjulega diss á viðskiptafræði, Íslendinga og Runnasleikjur og smá vemmilegheit um það að bjarga heiminum náttúrulega, enda bölvaður óþarfi að hamra á lyklaborð fyrir eitthvað minna ...

mánudagur, október 03, 2005

Þessi yfirmáta hallærislega stúdentapólitík

... er titilinn á grein sem villtist hingað inn. Enjoy.

laugardagur, október 01, 2005

Ísbar

Af hverju fer fólk ekki bara til Moskvu í janúar og gerir þetta almennilega? Þá slyppi maður líka við uppalýðinn sem er líklegur til að fara á svona stað ...

miðvikudagur, september 28, 2005

Pivo

Það var verið að hringja í mig frá New York í þeim tilgangi einum að spyrja mikilvægrar spurningar um tékkneskan bjór. Nú get ég loksins litið á mig sem alþjóðlegan sérfræðing um eitthvað ...

mánudagur, september 26, 2005

Pönnukökur

Ég var að eyða heilli færslu áðan áður en hún fór út á netið því mér fannst hún leiðinleg. Ég hafði sagt þetta allt áður. Í staðinn er ég byrjaður á ennþá leiðinlegri færslu, bara til að halda einhverju lífi í þessari síðu. Vandræði þegar maður er búin að eyða allri andagiftinni í heimaverkefni ... en áður en þetta koðnar allt niður í andleysi kemur zebrinn minn og spyr hinnar frumspekilegu spurningar: "hvort er ég með fleiri svartar eða hvítar rendur?" Ég svara og sendi hann svo í 10-11 í Lágmúla sem er opið allan sólarhringinn til að kaupa það sem vantar upp á til að hann geti bakað pönnukökur fyrir morgundaginn. Vonandi eiga þeir líka til pönnukökupönnu. Annars er zebri í stuttri heimsókn, hann bjó á svölunum hjá mér á Eggertsgötunni á sínum tíma en helst styttra við á Öldugötunni því hann snobbar svo mikið fyrir íbúðum með aðgang að svölum. Þess vegna er pönnukökuneysla mín undanfarið langt undir ráðlögðum ársskammti. Mig dauðlangar náttúrulega til Afríku með zebra þegar hann fer en hann losnar bara ekki við litla svarta Sambó úr gestaherberginu ... ég vil ekki taka sénsinn á að bráðna niðrí smjörlíki ...

föstudagur, september 23, 2005

Gambískir snillingar

Óskarsval

Ég held það væri best fyrir íslenska kvikmyndagerð að sleppa þessu bara í ár - óþarfi að bjóða saklausum útlendingum upp á þetta. Stundum er sársaukaminnst fyrir alla aðila að vera bara ekkert með.

fimmtudagur, september 22, 2005

Klukk fimm

* Mig dauðlangar að fá mér kött aftur en mér finnst það eiginlega of mikil skuldbinding.

* Ég hef hitt músuna mína skelfilega sjaldan undanfarin tvö ár eða svo og er farinn að sakna hennar skelfilega núna. Raunar skelfilega sjaldan síðan kötturinn minn dó sem gæti máski þýtt eitthvað ... en ég veit ég þarf að fara að leita ...

* Undanfarið og algjörlega án nokkurar lógískrar ástæðu finn ég fyrir þörf fyrir að kalla ólíklegasta fólk snúð þessa vikuna. Ég vona að þessu linni áður en ég segi eitthvað sem ég sé eftir ...

* Ég sá tvo uppáhaldsrithöfundana mína í síðustu viku. Því miður var ég oftast of þreyttur til að hugsa í síðustu viku.

* Mér er meinilla við flest orðtök og málshætti enda oftast eitthvað sem fólk notar sem afsakanir fyrir að hugsa ekki raunverulegar hugsanir eða nota raunveruleg rök. Helsta undantekningin er þó sá enski um að velja orusturnar sínar vandlega. Ég fann skyndilega að ég hafði hugsunarlaust valið vitlausa orustu í síðustu viku og hjartað sökk. En ég vann hana þó að minnsta kosti á endanum, ég sé bara svo eftir að hafa ekki þreytt hina ...

Þar sem ég var víst klukkaður af einum mesta aumingjabloggara norðan alpafjalla þá er viðeigandi að klukka Jakob, Auði, Jóa og Ingu sem hafa verið hvort öðru latara við að blogga ... já og Láru líka þó hún hafi reynt að bjarga sér fyrir horn í dag ...
Er nokkur knattspyrnumaður með jafn glæsilegt nafn og Jean-Paul Kamudimba Kalala? Ég efast.

Uppskrift af góðu hjónabandi?

Ég mundi ekki vita það en þetta hljómar betur en aðrar uppskriftir sem ég hef heyrt ...

You find somebody that you would want to be in the foxholes with you and when you're outside the foxhole you keep your dick in your pants.

Dan Foreman (Dennis Quaid) í In Good Company - sem er lunknari satíra á innantóma viðskiptafræði en ýmsar ræmur sem taka sig munar alvarlegar auk þess að vera ágætlega skemmtileg þroskasaga um leið.

Það er Topher Grace sem er að hlusta á Quaid. Miðað við hvað mér fannst sá gaur þreytandi í That 70’s Show þá er merkilegt hvað hann hefur verið fjandi magnaður í þessum tveim bíómyndum sem ég hef séð hann í, þessari og P.S. Á meðan ónefndir samleikarar hans hafa helst náð að sýna sæmileg leiktilþrif í einrúmi með Demi Moore ...

þriðjudagur, september 20, 2005

Pylsa pöntuð á ensku

Lenti á enskumælandi starfsmanni í sjoppu í gærkvöldi. Sem væri ekki í frásögur færandi ef ég hefði ekki áttað mig á því hvað það að panta pylsu er séríslenskt fyrirbæri - pylsur af þýska skólanum í mið-Evrópu eru allt annað fyrirbæri. Þannig að ég þurfti að hugsa mig lengi um áður en ég gat stunið því upp hvað ég vildi á hana, því þó ég viti vel hvernig tómatsósa, sinnep og steiktur leikur er á ensku þá er maður löngu farin að líta á tómatsinnepsteiktur sem sérstakt orð og skrítið að þurfa allt í einu að fara að búta það svona niður.

Fór svo í Laugarásbíó á Wedding Crashers (sem er ennþá betri en allir hafa verið að segja) og labbaði eftir það fram hjá Veitingastaðnum Laugaás sem er skemmtilega fastur í fortíðinni. Í glugganum er límmiðar að halda upp á fimmtán ára afmæli staðarins árið 1994 og 40 ára afmæli Sambands veitinga- og gistihúsa árið 1984.

mánudagur, september 19, 2005

Mánudagsmorgun

Þið vitið öll hvernig þetta er. Mánudagsmorgun. Þú vaknar, finnur fyrir samþjöppuðum massa vinnuvikunnar bíða eftir þér við rúmstokkinn. Þú snýrð þér á hliðina og semur um fimm mínútna vopnahlé.

En þetta hefur ekkert með vesalings mánudagana að gera. Veðrið er jafnmisgott á þeim og alla aðra daga. En við erum einfaldlega búin að semja um að þeir séu ömurlegir. Þessi samningur um hefðbundna vinnuviku og fúnkerandi samfélag sem ekkert okkar beinlínis skrifaði undir er um leið samningur um hvenær okkur líður vel og hvenær illa. Ef þú brýtur þennan samning er voðinn vís – það eru aldrei fleiri sjálfsmorð en á nýársnótt.

En hvað gerist ef þú stígur út fyrir þetta samfélag? Ferð annað þar sem þú ert samningslaus, þekkir ekki smáa letrið? Þar sem dagarnir renna saman því ánauð mánudagsins og frelsun föstudagsins vantar? Ferð hugsanlega eitthvert þar sem helgin er ennþá raunverulega helg? Þar sem allt gengur miklu hægar og flest er lokað þessa daga sem venjulega eru í uppáhaldi. Þá ferðu að þrá mánudagana. Dagana sem strætóarnir byrja loksins að ganga aftur. Dagana þegar heimurinn vaknar. Af þeirri einföldu ástæðu að þú þarft ekki nauðsynlega að vakna með honum.

Þá veltir maður vissulega fyrir sér hvort ekki væri hægt að semja upp á nýtt. Hætta að búa til stundaskrá fyrir skapið í sér. Leyfa sér að hlæja á mánudagsmorgni og gráta að loknum vinnudegi á föstudegi. Gera uppreisn gegn tímanum og finna sér sinn eigin takt í lífið.
Þar sem mér dettur ekkert skárra í hug er ég að hugsa um að henda eins og heimaverkefni hérna inn, ég lofa samt að kvelja ykkur ekki með neinum verkefnum úr hagfræði- og lögfræðikúrsinum sem ég tók síðustu önn ...

laugardagur, september 17, 2005

Hljómsveit kvöldsins

Fjandakornið, nýr íslenskur þáttur í RÚV sem er að virka. Þetta þarf ekkert að vera flókið, bara ekki yfirmáta pínlegt þannig að gestirnir fái að njóta sín án þess að skammast sín.

Auðvitað komu líka stundum fín bönd í Gísla Martein. En aumingjahrollurinn sem fylgdi litla borgarstjórawannabe dvergnum varpaði alltaf skugga á mómentið. Ég man til dæmis ekki hvar ég sá Hljóma fyrst, kannski var það í þættinum hans sem er þá skiljanlega bælt djúpt í undirmeðvitundinni.

En ef það kemur eitthvað nýtt og ferkst band í þáttinn hennar Möggu Stínu sem maður hefur ekki séð áður gæti það orðið eitthvað til að minnast. Maður getur jafnvel plöggað bandið meðal fólks án þess að þurfa að viðurkenna að hafa átt nógu sorglegt laugardagskvöld til að horfa á GM.

Ógæfuvöllur

Laugardalsvöllurinn er ekki alveg að blífa þessa dagana, Þróttur, Fram og íslenska landsliðið geta vitnað um það. Getur verið að stærra er betra mottóið sem íslendingar eru svo hrifnir af sé ekki alveg að virka? Virkar kannski betur fyrir fallbaráttulið og landslið smáþjóða að spila á velli sem er ekki tómlegur á að litast nema á allra stærstu leikjunum? KA byrjaði til dæmis ekki að geta neitt að ráði í handbolta fyrr en þeir fluttu sig úr þessari risastóru íþróttahöll sem var sjaldnast full í litla notalega KA - húsið sem var lengi alltaf fullt.

föstudagur, september 16, 2005

Orð vikunnar

Orð mánudagsins var pakki – enda fékk ég loksins pakkann sem ég sendi sjálfum mér frá Búdapest. Jakkinn minn er annars fjandi krumpaður – getur einhver lánað mér straujárn?

Orð þriðjudagsins var klink – enda uppgötvaði ég þegar ég vaknaði að ég hafði sofið á samanlagt 145 krónum. Svefnráðningar óskað.

Orð miðvikudagsins voru blogg sunnudagsins sinnum tíu.

Orð gærdagsins var antíklæmax (or “my script but without the special effects” for you foreign readers). Nei, ég trúi ekki á bókstafsþýðingar.

Orð dagsins í dag er ófundið enn. Er að fara í æsispennandi tíma rétt bráðum, aðallega æsispennandi því við bíðum spennt eftir að sjá hvort kennarinn lætur loksins sjá sig.

Svo vil ég að vinir mínir fari að hundskast í Bóksöluna að kaupa bækur af mér (a very special price for you my friend), ég er orðinn hundleiður á að afgreiða ókunnugt fólk endalaust. Verð hér frá eitt að fráskildu eftirmiðdegisspjalli sem ég þarf að kíkja á með Paul Auster. Hann sagði vel að merkja þennan líka fína prumbrandara í gær.

Pikköpplína

Áralangri leit af verstu pikköpplínunni er formlega lokið – þessi var notuð á heimildarkonu mína á ónefndum bar um síðustu helgi:

"I’ve been flyfishing with Halldór Ásgrímsson, you know."

mánudagur, september 12, 2005

Davíð, New Orleans, Baugur ... mér er eitthvað svo innilega sama þessa dagana. Þjáist af því að meika alls ekki fréttirnar, óttalega fáfengilegar og ómerkilegar flestar. New Orleans að vísu ekki en einhvern veginn rennur það samt saman við hitt. Og ég er víst að hefja nýja önn í Blaða- og fréttamennsku. Oh well. Hugurinn er svo sem ekki ennþá úti en hann er samt ekki beint kominn heim ennþá, eintóm vinna og kvöldin fara í aukaverkefni eða að hugsa um öll verkefnin sem ég ætti að vera að klára. Orkan eftir einn bóksölutarnardag er mjög mismikil, sérstaklega þegar ég þarf oft að eyða hádegi og kaffitímum í að taka viðtöl eða redda einhverju. Og þessi tímapunktur sem ég get farið að eiga líf aftur frestast alltaf ...

föstudagur, september 09, 2005

By the Power of Greyskull

Fyrsta H-listadjamm vetrarins var fínt og Hraunarar fá tonn af rokkprikum fyrir að taka He-Man lagið. Nú þurfa þeir bara að semja lag um öryggismyndavélar ...

fimmtudagur, september 08, 2005

Kæri Viktor ...

... svona fyrst þú ert byrjaður á þessu, geturðu ekki rekið nokkra sendiráðsstarfsmenn fyrir mig í leiðinni?

Fyrirmyndarríkið Byelorussia

Lestirnar í Hvíta-Rússlandi eru margfalt fljótari en nokkrar aðrar í Austur-Evrópu og þar að auki hreinni og nútímalegri að öllu leyti. Ég meina ekki getur verið að sviðsmennirnir í Alias hafi ekki unnið nákvæma rannsóknarvinnu fyrir þáttinn í kvöld?

mánudagur, september 05, 2005

Kennir eggið hænunum?

Fyrsti tíminn á morgun og engar upplýsingar ennþá neins staðar hver kennir viðkomandi kúrs, þetta verður æsispennandi, jafnvel nógu spennandi til þess að ég fari að vakna fyrir átta til þess að komast að þessu. Grunar helst að einhver ofvirkur fyrsta árs nemi hafi ákveðið að taka aukakúrs og sökum þess að ekkert okkar þekkir greyið verður hann gerður að kennara fyrir misskilning.

Annars vil ég bara taka það fram að ég hef fengið það staðfest hjá sérfræðingi að súkkulaðikaka er holl.

laugardagur, september 03, 2005

Ég vil bara votta borðtennisliði Víkings samúð mína eftir þessar hrakningar. Spurning um að stofna stuðningshóp ...

miðvikudagur, ágúst 31, 2005

what goes around comes around

Litlu yndin mín héðan eru að verða fullorðin og fara í Háskóla og kaupa skólabækur af gamla kennaranum sínum. Og gott ef sú fyrsta sem ég afgreiddi þaðan hafi ekki verið sú eftirminnilegasta. Bækurnar voru Psychology eftir Gleitman plús vinnubók og Gagnfræðakver og mér heyrist að minnsta kosti ein í viðbót vera að fara í sama fag. Þannig að það verður fróðlegt þegar ég leggst í sófann eftir tuttugu ár ... raddirnar í hausnum á mér segja mér að það sé óþarfi að finna mér sála strax ...

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Kominn heim og orðin hefðbundinn vinnuþræll

Annars er það helst að frétta að ef ég er ekki sofandi þá eru allar líkur á að ég sé að vinna hérna, endilega kíkið og fáið ykkur bók, nú eða bara yddara.

Frammistaðan á menningarnótt var fyrir neðan allar hellur, ég meikaði það ekki einu sinni fram að miðnætti og var sofnaður fyrir tólf. Sem var synd því Geirfuglaballið í Iðnó er alltaf skemmtilegt.
DV náði nýjum lægðum í gær. Fyrirsögn á forsíðu var:

Tónlistarmaðurinn Jón Ólafsson: Stórkostlegur maki og ástmaður

Ókei, ef Hildur Vala eða fyrrverandi eiginkona hans hefðu sagt þetta mætti sjálfsagt kalla þetta frétt á einhver slísí slúðurfréttamælikvarða. En nei, þetta er stjörnuspáin hans.

Annars vil ég lýsa því yfir að það er algjör skandall að South Park er hvergi sýnt í íslensku sjónvarpi ...

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Reykjavík

Það er mismikið að marka fyrstu kynni en hitt er ljóst að sú tilfinning sem maður fær í magann fyrst þegar maður kemur á nýjan stað situr ótrúlega lengi í manni, ef maður losnar þá nokkurn tímann við hana. Ímyndum okkur að ég hefði aldrei komið til Reykjavíkur áður en ég mætti á BSÍ um tvö á föstudagsnóttu eftir 40 tíma þvæling.

Það er niðamyrkur, rok og rigning. BSÍ er lokað og ekki annað hús sjáanlegt neins staðar. Ef ég væri ekki með bókaða gistingu þá er engin upplýsingaþjónusta neins staðar. Jafnvel ef ég vissi hvert ég þyrfti að fara þá er ekki einn leigubíll sjáanlegur og sjaldgæft að maður hafi númerin á leigubílastöðum í ókunnum borgum á hreinu, fyrir utan það að ef íslendingar eru undanskildir þá er alls óvíst með farsímaeign - og ekki er tíkallasími nálægur.

Líklega er ferðamaðurinn á þessum tímapunkti búin að átta sig á sannleikanum, þeim sannleika að þegar allt kemur til alls er Reykjavík ekkert annað en ofvaxið sveitaþorp.

Varsjá

Mætti á lestarstöðina illa sofinn í morgunsárið og fór að leyta mér ætis. Fann gyrossjoppu og eftir að hafa ummað og bent heilan helling þá spurði afgreiðslumaðurinn hvort ég talaði máski ensku? Ég er búin að vera of lengi í Rúmeníu og Úkraínu ... svo lengi að Pólland er menningarsjokk í vestrænu áttina ...

Téður afgreiðslumaður hafði annars áður unnið á Ítalíu við að pakka íslenskum hákarli. Veit samt ekki alveg hvort ég eigi að taka hann trúanlegan þar sem hann heldur því fram að hákarl sé góður á bragðið.

Þvælist svo aðeins um bæinn og enda í gamla bænum. Það fer ekkert á milli mála þegar maður kemur þangað. Þetta er hreinlega eins og lítill miðaldabær í eyðimörkinni, þó tæknilega sé hann náttúrulega ekki (endur)byggður fyrr en eftir stríð. Varsjá virkar annars ágætis borg, hrein og bein, þó vissulega hafi hún aðeins örlítið borgarbrot sem jafnast á við Kraká og Prag.

Allir morgunverðir sem ég borða héreftir verða hins vegar bornir saman við þann á Hotel Design. Þrjú steikt egg og beikonið einhvernveginn bakað inní þau, algjört listaverk og ólíkt mörgum listaverkamat góður á bragðið líka.

En samt grátlegt að mæta til Varsjár í fyrsta skipti og hitta ekki Piotr sem deildi með mér herbergi í götu vindanna hér í den. Fékk svo meil rétt eftir að ég kom heim þar sem ég frétti að litli Piotrek hefði fæðst fyrr í ágúst.

Leiðin til Varsjár 2

Í lest sem leggur af stað um hádegi og kemur til Varsjár um hálfsjö að morgni næsta dags þá væri væntanlega tilvalið að leggja sig upp úr ellefu. En auðvitað þá koma landamæraverðirnir í veg fyrir það. Frá hálftólf til hálffjögur þá er í gangi fjögurra tíma seremónía landamæravarða.

Fyrst eru það þeir úkraínsku. Þeim finnst aðallega svo gaman að skrifa. Taka öll vegabréfin og fara með þau í klefa þar sem þeir handskrifa allar upplýsinganar í öllum vegabréfunum í fimmriti á milli þess sem þeir segja brandara um skrítna íslendinga. Farangrinum sýna þeir hins vegar lítinn áhuga, bakpokinn minn var í hálfa sekúndu í vasaljósi tollarans og búið.

Svo koma þeir pólsku. Þeim er mest sama um vegabréfin – en þeir gera hins vegar sitt besta við að rífa lestina í sundur. Rífa öll þil burt og setja aftur til að finna alla hveitiframleiðsluna, taka loftið úr og grandskoða efra farangursrýmið. Greinilega mjög vinsælt hjá úkraínskum að fela sig í loftinu eða veggjunum, eitthvað sem ég verð að prófa næst.

En líklega verður það þreytandi til lengdar að vera endalaust meðhöndlaður sem glæpamaður, hvert sem maður fer. Líklega ekki nema von að þeir meðhöndli okkur sem slíka. Við erum öll jafn vitlaus á endanum.

Lestin til Varsjár 1

Lestin fór upp úr tólf og ég ætlaði að gera ýmislegt í Kiev um morgunin. En auðvitað þurfti að handskrifa ritgerð í fimmriti um vegabréfið mitt og ferðir mínar í miðasölu lestarstöðvarinnar og þar af leiðandi gerði ég lítið meira en að fá mér smámat áður en ég hljóp í lestina. Búlgakov-safnið og markaðurinn verður að bíða betri tíma.

Úkraínski bóndinn sem er með mér í klefa er gjörsamlega að þröngva landbúnaðarvörunum ofan í mig. Eplið er gott þó það líti út eins og pera og brauðið væri alveg að gera sig ef það væri ekki fyrir sultuna – en mjólkin er náttúrulega skelfileg eins og alltaf í Austur-Evrópu. En éta skal ég, í hvert skipti sem ég hægi grunsamlega á átu og drykkju þá bendir bóndinn á brauðið og mjólkurglasið og klappar svo stoltur á vömbina. Ef ég verð duglegri að innbyrða landamæravörur þá fæ ég kannski einhverntímann svona stóra og fallega vömb.

Þessu til viðbótar er rétt að geta að ég og fleiri bókmenntafræðinörrar hafa verið ráðnir á samyrkjubú kallsins næstu fimmtán árin við að afbyggja landbúnaðarvörur. Að því loknu ættum við að vera kominn með góðan vísi að Framsóknarflokki Úkraínu sem þýðir að við ráðum allaf sama hversu óvinsæl við verðum – en þar sem við erum bókmenntafræðingar þá fáum við náttúrulega ávallt hreinan meirihluta.

Kænugarðsblús

Síðasta kvöldið er alltaf verst. Manni finnst maður vera á nákvæmlega sama stað og maður byrjaði á, þetta sem maður leitar að og veit ekki alveg hvað er er enn fjarlægara og óljósara en venjulega og maður þarfnast þess meira en nokkurn tímann. Maður er ennþá fjær því að skilja þennan fjandans heim og að finna sér einhvern stað í honum, eitthvert hlutverk, einhvern tilgang. Og maður finnur betur en nokkru sinni hversu gjörsamlega einn maður er í veröldinni.

Síðan fer maður heim. Hvað í fjandanum sem það nú er.

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Kyiv 1

Þökk sé vegabréfsáritanaævintýrum þá rétt náði ég að segja hæ og bless við Kænugarð og Varsjá, lítið meira.

Það fyrsta sem gerist í Kyiv er að manni verður fjandi illa við Cyril bölvaðan. Er eitt stafróf ekki fjandans nóg í Evrópu? Og af hverju er bara venjulegir stafir á öllum kortunum sem ég finn þegar það eru kýrilískir á götunum sjálfum? Finn netkaffi og panta flugmiða, kíki svo á Chernobyl-safnið. Þetta er innblásin lítil sýning, firrt tragedía með englum með gasgrímur, herbílum og gömlum dagblöðum.

Finn næst eitt stykki bókabúðarkaffi sem mér skyldist að væri með “clued-in english language selection.” Fann eina bók á ensku, “How to do business in Russia.” Frekar clueless raunar, enda viðskiptafræði. En það er hægt að borða þarna, gengilbeinan hérna endurtekur allt sem ég segi á úkraínsku og ég kinka bara kolli. Virkar ágætlega, kjúklingasalatið, kókið og bjórinn skila sér, en chocolate shake verður einhvern veginn hot chocolate, sem er svo sem ekkert verri hugmynd.

Skrepp svo á annan stað og fæ mér annan bjór. Ekki í frásögur færandi nema að matseðillinn er sem heil Guðbrandsbiblía, er með bölvaðan móral yfir að vera ekki að panta eitthvað flóknara. Kem svo aðeins við á hostelinu, við virðumst vera tveir gestirnir í því. Allir hinir líklega fastir einhversstaðar að berjast við að redda vegabréfsáritun.

mánudagur, ágúst 22, 2005

Leiðin til Úkraínu – önnur tilraun

Mánudagsmorgun, loksins á konsúlatið að vera opið. Er mættur klukkan 10.20, á að vera opið til 12. En auðvitað er löng röð fyrir framan konsúlatið og ég kemst loks inn kl. 11.05 – og þá segir skúnkurinn Mykhaili í afgreiðslunni að eftir klukkan ellefu séu aðeins afgreiddir íbúar Suceava. Rétt eins og á föstudeginum hugleiði ég að fara bara til Búdapest eða Prag og fljúga þaðan en sökum þess að ég er þrjóskari en andskotinn þá varð lítið úr því. Ég hefði líka væntanlega þurft að fara fyrst alla leið aftur til Búkarest sem var borg sem ég var búin að fá meira en nóg af í bili.

Mæti svo aftur á þriðjudegi klukkan hálfníu. Ennþá lengri röð þá náttúrulega og er loks kominn inn um tíuleytið. Það að fylla inn blessaða umsóknina var svo minnsta málið – en þá þurfti ég að fara í banka í bænum, fyrst til að fá stimpil á efri hæðinni og svo til að greiða fyrir áritunina á neðri hæðinni. 40 dollarar, bölvaðir Rúmenarnir sleppa með 5. Svo á næstu ljósritunarsjoppu til að ljósrita vegabréfið og fleiri gögn, konsúlatið hefur náttúrulega ómögulega efni á ljósritunarvél né peningakassa ...

Mæti svo aftur með þetta klukkan ellefu – og er þá sagt að þetta verði ekki tilbúið fyrr en fjögur – og rútan sem ég ætlaði að taka er klukkan eitt. Ef einhver hryðjuverkamaður þarna úti finnur sterka þörf hjá sér fyrir að gera óskunda í Rúmeníu þá get ég skaffað viðkomandi adressuna í þessu helvítis konsúlati ... spyrjið eftir Mykhaili ...

Mæti svo fjögur en auðvitað þýddi fjögur fimm. Maður ætti að vera búin að læra þetta. Var búin að tékka á lestunum og skyldist að það væri lest til Chernivtsi klukkan sex. Tek leigubíl á lestarstöðina en þá kemur í ljós að það er eftir allt saman rúta sem fer klukkan sex. Aftur í miðbæinn þar sem rútustöðin er – og þá kemur í ljós að rútan er í rauninni bara einn fólksbíll að ferma mig og tvær úkraínskar kellur. Hvort hann var actually eitthvað á vegum rútubílastöðvarinnar mun ég aldrei vita, svona lagað er allt afskaplega loðið í Rúmeníu.

Kem svo til Chernivtsi, þar á að vera rúta klukkan tíu til Kiev. Fæ fyrst að vísu ekki betur skilið á stelpunni í afgreiðslunni en að hún ætli bara að skutla mér sjálft klukkan hálftíu þar sem ég sé búin að missa af lestinni – en þá er málið bara að hún getur ekki selt mér miðann fyrr en þá. Don’t ask – I’ve learned not to. Bölvað svekkelsi samt að þurfa að nota rútu, maður var orðinn svo vanur fólksbílaskutli og stelpan var alveg ágætlega sæt.

Hitti svo Igor í rútunni og algjörlega af fyrra bragði kynnir hann sig og gefur mér tvær brauðsneiðar. Já, gefur. Er ekki að biðja um neitt klink í staðinn. Það er algjörlega ómögulegt að útksýra menningarsjokkið sem þessu fylgdi fyrir þeim sem ekki hafa verið tíu daga samfleytt í Rúmeníu þar sem allt kostar. Samt er Úkraína á pappírnum jafnvel fátækari en Rúmenía – en það er hægt að vera fátækur með reisn og án reisnar. Þessi tvö lönd eru sjálfsagt ágætt dæmi um sitt hvort. Úkraína væri raunar bara almennt frekar kúl land ef það væri ekki fyrir þessa eilífu skriffinnsku þeirra. Mæti svo undir morgun til Kiev, tékka inn á hostelið klukkan átta um morgunin og legg mig til hádegis.

laugardagur, ágúst 20, 2005

Afmæli

Kom heim síðustu nótt. Á víst afmæli í dag og í tilefni af því er partí í gervöllum miðbæ Reykjavíkur, þér er boðið og dagskráin er hér. Ef þú kemst ekki í Reykjavík þá eru sígaunarnir í Budapest líka með sérstakt afmælispartí í gettóinu og vinir mínir í Belgrad ákváðu að það dygði ekkert minna en nokkurra daga bjórhátíð til að fagna tímamótunum. Allt að gerast sem sagt. Klára ferðasöguna svo fljótlega þó ég sé náttúrulega búin að kjafta frá endanum núna ...

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Suceava

Suceava er næsti bær við Úkraínsku landamærin. Það var það eina sem ég vissi þegar ég kom hingað, það og sú staðreynd að hér þyrfti ég að húka alla helgina. En viti menn, þetta krummaskuð (álíka fjölmennt og Reykjavík semsagt) er bara alveg að gera sig. Er alveg við aðaltorgið þar sem eru hringekjur, klessubílar og um það bil skrilljón staðir að selja allar mögulegar tegundir af grillmat, bjór og gosi. Líklega aðeins of margir miðað við reykjarmökkinn, en það er heilmikið líf hérna. Þessu til viðbótar heitir aðaltorgið Gata 22 desember, vafalaust sökum þess að þá fæddist langbesti pabbi í heimi :)

Já, og gott ef þvotturinn minn er ekki orðinn þurr. Lyktar að vísu af óhóflegri notkun Debbie á hreinsiefni en það lagast þegar hann kemst aftur í þvottavélina í Öldugötunni von bráðar. Jú, og svo voru mishreinar lestarsnúrurnar ekki að gera hvítu bolunum mínum neina stóra greiða. Jú, svo er sjónvarp á hostelinu – og eftir mánaðarsjónvarpsleysi hékk ég fyrir framan kassann í þrjá tíma að horfa á gamla Cheersþætti (Where everybody knows your name er algjör draumsýn þegar maður er staddur þar sem fæstir geta einu sinni borið það fram) og A Bright Shining Lie, ekkert svo óvitlausa Víetnamræmu.

Leiðin til Úkraínu - fyrsta tilraun

Nokkrum dögum fyrir brottför var ég búinn að heimsækja Úkraínska sendiráðið í Búkarest. Var búin að heyra ýmsar hryllingssögur um vesen við vegabréfsáritanir - en viti menn, starfsmaðurinn þar fullyrti að ég þyrfti enga áritun – eitthvað sem ég komst seinna að að væri Ruslönu að þakka, því þegar Eurovision var haldin þar í vor þá ákváðu þeir að fella niður vegabréfsáritanir út sumarið fyrir íbúa Evrópusambandsins og Schengen.

Mæti svo í lestina hálfátta með blautan þvott sem ég hengi upp í lestarklefanum, það var vissulega sjón að sjá svipinn á lestarverðinum. En allavega, læt fara vel um mig i lestinni þangað til að ég kem til Focsani (borið fram Fokksjani sem er viðeigandi) þar sem kemur í ljós að ég þarf að fara út – og finna einhverja leið til þess að ná næstu lest til Pascani. Ástæðan? Lestarteinarnir eru ónýtir þarna á löngum kafla, út af flóðunum fyrir mánuði síðan, eitthvað sem hvorki konan sem seldi mér miðann né lestarvörðurinn voru neitt að segja mér. Best að selja bara miða fyrir lest sem er ekki einu sinni almennilega til. Þannig að ég enda á að borga leigubílstjóra ca. 4000 kall fyrir að keyra mig 200 km. leið til Pascani, blóðugt en bílstjórinn mátti þó eiga það að miðað við vegalengdina – og hann þurfti jú að komast aftur til baka – var verðið mjög sanngjarnt.

Kem svo til Pascani – og öfugt við það sem kellan í Focsani hélt er lestin sem betur fer í dag en ekki á morgun. Bið þarna í einhvern tíma og borða einhvern vafasamasta hamborgara og pylsu sem ég hef augum litið, svona til að fá eitthvað í magann. Hengi þvínæst þvottinn minn upp í lestinni, orðnir fastir liðir. Kem svo til Suceava þar sem ég bíð eftir lestinni til Úkraínu. Hún kemur loksins, svefnvagn og alles – en eftir stuttan rúnt komum við að landamærunum. Þar eru allir passarnir teknir og grandskoðaðir, einhverjum tímum seinna koma þeir og kvarta yfir að ég sé ekki með vegabréfsáritun. Ég útskýri fyrir vegabréfsverðinum – og yfirmanni hans í síma – hvað starfsmaðurinn í Búkarest hafi sagt við mig, auk þess sem ég reyni að útskýra það furðulega fyrirbæri sem EES er – getur þessi helvítis ríkisstjórn okkar ekki ákveðið hvort hún vill eða vill ekki vera í ESB í eitt skipti fyrir öll?

En auðvitað endar þetta á því að ég er sendur aftur til Rúmeníu. Það er engin lest fyrr en daginn eftir þannig að tollarinn biðst til að skutla mér. Mér skyldist að það væri i næsta bæ en auðvitað var það bara að landamærunum, bensín er ansi dýrt í Úkraínu ef það var tíu Evra virði. Það var byrjað að rigna lítillega, það góða við þetta allt saman var að ég fékk tækifæri til þess að labba frá Úkraínu til Rúmeníu. Rúmenski tollarinn segir mér að ég þurfi að taka taxa til Suceava - 40 km. - og bendir þangað sem þeir eiga að vera. En auðvitað eru engir leigubílar þarna, bara hópur af hvítu hyski að sumbla eitthvað, þau bjóðast til að skutla mér fyrir 25 evrur. Sem er rán - sérstaklega þar sem þau eru hvort eð er að fara heim sjálf, en þar sem ég á engra kosta völ þá neyðist ég til þess að borga og sitja í bíl með ljótum og leiðinlegum kellingum i hálftíma. Í Suceava finn ég hótel og sofna fljótlega, í borginni sem ég tarf að húka a.m.k. fram a mánudag (frá fostudagskvöldi) því konsúlatið Úkraínska er ekki opið um helgar.

Búkarest 9

Svona ef Búkarest var ekki nógu ljót fyrir þá var borgarstjórinn að fá hugmynd til þess að gera hana ennþá ljótari.

Það sorglega er að einu sinni var Búkarest falleg borg. Skoðaði nokkrar myndabækur frá því fyrir stríð á hostelinu og Búkarest virðist alveg hafa verið á pari með Prag og París. En á meðan aðrir kommúnistaleiðtogar létu sér mestmegnis nægja að byggja ljóta steinkubbalda í úthverfum og leyfa gömlu borgunum að liggja í niðurníslu þá var Nicolae Ceausescu duglegur við að rústa heilu borgarhlutunum til þess að leyfa eigin skelfilega smekk að njóta sín.

Við þetta bætist að niðurníslan hefur haldið áfram eftir að valdatíma hans lauk. Það vantar allt stolt í íbúana, það þarf að borga fyrir allt smáræði - borgunin að vísu smáræði líka en það er siðurinn sem er plagandi, á meðan betlararnir eru miklu agressivari en nokkurs staðar annars staðar sem ég hef komið þá eru í raun nær allir sem maður hittir að betla af manni, fyrir að benda til vegar eða eitthvað álíka smáræði - eða jafnvel fyrir ekki neitt.

Gekk út af hostelinu í morgunsárið með blautan þvott í bakpokanum, hundur gelti að mér og hermaðurinn hló, skelfilega viðeigandi eitthvað. Enda segja skapillir hundar hvað mest um eigendurna - og það er meira af löggum og hermönnum hérna en nokkur ástæða er til, ekki að þeir geri neitt svosem.

laugardagur, ágúst 13, 2005

Búkarest 8

Það er lélegur djókur að ég hafi þurft að hanga í Búkarest í sex nætur en bara náð einni í Brasov, borg sem hefur um það bil allt fram yfir Búkarest. Ástæðan var túlkavandræði. Túlkurinn minn í Búdapest var búinn að benda mér á stelpu hér sem ég hringdi í frá Pest en náði svo ómögulega í þegar ég kom til Rúmeníu. Þá bauðst Stefan, eiginmaður hosteleigandans, til að fara með mér - en hann hafði unnið sem túlkur í Kanada. Hann komst samt ekki í þetta fyrr en á þriðjudeginum. Við náðum ágætum viðtölum á caravansvæði rétt utan við Búkarest, á grænmetismarkaði í borginni og í gettói hinum megin við járnbrautarstöðina. Gallin var að viðtölin voru mestöll á rúmensku (ekki þýdd jafnóðum semsagt eins og í Búdapest) - þannig að í raun var ljóst að það þyrfti að transcriba viðtölin líka. Ég talaði við hann á miðvikudeginum um hvenær hann kæmist í það, hann bjóst við að geta klárað það fyrir morgundaginn þannig að ég ákvað að skreppa í dagsferð til Brasov á meðan frekar en að húka í Búkarest og læt þvottinn minn í hendur Debbie á meðan.

Síðan kem ég aftur til Búkarest á fimmtudagskvöldið, hvorki Stefan né Debbie heima, þannig að ég bý mig undir að þurfa að redda öllu saman snemma um morguninn, vona að Stepan se búinn að skrifa þetta upp og Debbie sé búin með þvottinn minn. Þau koma svo heim þegar ég er um það bil að sofna, um eittleitið – og í ljós kemur að Stepan er búin að eiga vonlausan dag og komst ekki í þetta. Ég að fara til Úkraínu í fyrramálið þannig að við semjum um að hann sendi mér þetta annað hvort í pósti eða ímeili og í staðinn fyrir greiðslu þá gefi ég honum upptokutækið mitt. Þessu öllu til viðbótar var þvotturinn auðvitað ekki til, átti eftir að þurka hann. Hann fékk að vera útá snúrum í fimm klukkutíma – en svo var lestin til Úkraínu strax kl. hálfátta um morguninn.

Brankastali

Klukkutímarútuferð frá Brasov, frægasti kastali Rúmeníu. Vlad Tepes var að vísu væntanlega aldrei þar, en ég var þar, þannig að hverjum er ekki sama um afdankaðar blóðsugur?

Brasov 2

Transylvanía er allt annað en Búkarest. Bjórinn er betri, stelpurnar sætari og maturinn betri. Svo ekki sé minnst á húsin og göturnar, þessi borg er jafn falleg og Búkarest er ljót.

Brasov 1

Fólkið fyrir framan mig í strætónum veifar kunningjum sínum í bíl sem ekur fram hjá og ég hugsa með mér hvað það sé nú notalegt að vera kominn í svona lítinn og sætan bæ. Man svo að það búa tvöfalt fleiri hér en á höfuðborgarsvæðinu - sem segir okkur hvað um Reykjavík?

Rant

Rúmenar eru fégráðugir eigingjarnir fávitar, Úkraínumenn smámunasamir hálfvitar og Íslendingar aular að kjósa sér nærsýna ríkisstjórn með hausinn uppí afturendanum á sér.

Nei, ég er ekki í góðu skapi.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Búkarest 7

Villtist inná lítin alrúmenskan pöbb og fékk mér að borða. Afgreiðslustúlkunni tókst að láta tungumálaörðugleikana verða skondna, trust me, það eru nógu margir sem halda að þeir geri þá fyndna.

Þetta er ósköp hversdagslegur pobb. Það er einmitt þetta sem þú getur aldrei snert, þjóðina sjálfa, hversdagsleg en samt með eitthvað gloppótt minni um sjálfa sig og sína sögu og samkennd sem þú færð aldrei að fullu skilið. Allt þetta á litlum hverfispöbb í Búkarest þar sem maður þarf að bíða of lengi eftir reikningnum.

Búkarest 6

Aðalbjórinn hér heitir Ursus, veit Hjalti af þessu?

Búkarest 5

Líkneski Nicolae

Það eru bráðum sextán ár síðan stóra blóðsugan dó. Blóðsugan sem mergsaug landið svo rækilega að því er enn að blæða, gervöll þjóðin virðist máttfarin. Sérstaklega af því að þeir sem nú ráða virðast hafa lært ansi mikið um spillingu og vanhæfni frá félaga Nicolae. Afleiðingin meðal annars allur þessi fjöldi betlara sem er miklu aðgangsharðari en nokkurs staðar annarsstaðar.

Síðustu æviár Ceausescu fór til dæmis 70 % efnahags Rúmeníu í að byggja höllina hans, afsakið, Höll fólksins. Næststærsta bygging i veröldinni, aðeins Pentagon er stærri. Merkilegt að tvær stærstu byggingar mannkyns standi aðallega fyrir vanhæfni, spillingu og á köflum hreina illsku. Kíkti í höllina á sunnudaginn. Bíósalurinn nokkuð flottur en auðvitað gleymdu þeir glasahöldurunum. Annars er höllin vissulega glæsileg, en ég get eiginlega ekki sagt að hún sé falleg. Til þess er hún alltof köld, karakterlaus. Nicolae var þegar allt kom til alls sveitadurgur, þetta er meira kits en alvöru klassi þó dýrt sé þetta vissulega. Væri samt alveg hægt að gera fína hluti með þetta.

Það er þó ennþá meira niðurdrepandi að kíkja á Unirii buluvard. Það var byggt til höfuðs Champ Elysee, viljandi einhverjum sex metrum lengra. En það er steindautt. Vissulega óvenjuhreint og smekklegt fyrir Búkarest, en það er ekkert líf þarna. Einhverjir bílar og búið. Sýnist vera aðallega stjórnarráðsbyggingar við þessa breiðgötu. Fyrir allt þetta voru rifin niður stór hverfi af gömlu Búkarest þannig að sjöþúsund manns fóru á götuna – þar sem sumir eru enn, allt fyrir gosbrunna sem enginn sér.

Búkarest 4

Það þarf stundum að borga fyrir að fá að fara inná lestarstöðina í Búkarest, jafnvel þó þú sért bara að kíkja á upplýsingar eða að skreppa í e-a sjoppuna þar. Einhvernveginn grunar mig að það sé mjög gott dæmi um hvernig Rúmenar eru að klúðra sínum málum rækilegar en flest önnur Austur-Evrópulönd.

Búkarest 3

Vila 11

Hostelið sem ég er á er sjarmerandi. Fjölskyldurekið, kanadísk fjölskylda sem á rætur í Búkarest frá því fyrir kommúnismann fékk húsið aftur eftir að honum lauk, eftir 7 ára málaferli auðvitað.

Eini gallinn er að framan af voru tómir frakkar hérna. Sökudólgurinn er víst einhver fræg frönsk guidebook sem mælir sérstaklega með pleisinu. Frakkar eru auðvitað fínir en það ætti að vera kvóti a einstökum þjóðernum á hostelum, enda hostelin venjulega staðirnir sem maður getur treyst á enskuna. Eða kannski ætti ég bara að andskotast til að fara að læra frönsku?

Búkarest 2

Busl

Rigningin elti mig til Búkarest. Það var gott veður til að byrja með, á meðan ég kom mér fyrir á hostelinu og þvældist niðrí bæ. Kom síðan heim á hostel og blundaði í þrjá tíma til að ná næturlestinni úr mér og öllu miðaleysisstressinu. Svaf held ég miklu betur út af því regnið byrjaði að lemja gluggana. Komin ausandi rigning þegar ég vaknaði og ansi langt í matsölustaði frá hostelinu. Ég og frönsk freelance blaðakona (sem var að vinna að grein um flóðin hér i byrjun júlí) ákváðum samt að láta okkur hafa það, löbbuðum heillengi en vorum svo heppin að rigningin var í rólegri kantinum þá. Fundum loks veitingastað, frekar fancy en alltaf gaman að því. Á meðan við vorum að borða bætti heldur betur í rigninguna og eldingarnar lýstu staðinn mjög reglulega upp. Þegar við vorum búin að borga reikninginn hafði hins vegar stytt upp. En þegar út var komið var nærri hnéhátt fljót sem umkringdi staðinn. Þannig að það var bara að fara úr skónum og toga buxurnar eins hátt upp og þær kæmust.

föstudagur, ágúst 05, 2005

Búkarest 1

Ég var búin að vera kortér í Búkarest þegar ég var orðinn milljónamæringur. Leu er mjög fyndin mynt. Svo eru þeir að breyta um mynt þannig að 10.000 lei er nákvamlega jafnmikið og 1 leu (leu er et. og lei ft.). Það er samt ekki eins og það sé e-ð smávegis eftir af gömlu myntinni, nei, það er frekar eitthvað örlítið komið í umferð af nýju myntinni. Allgjört kaos, eitthvað sem mér sýnist þeir hafa hæfileika til hérna. Fyrsta sem ég keypti var svo kort, næst var það bjór til að losna við gamla kallinn sem hafði sýnt mér hvar kortin fengjust. Hann var búinn að bjóðast til að sýna mér höll Ceausescu, taka mig í bíltúr og redda mér kvenmanni á 40 evrur. Frekar óljóst samt, ég veit ekki hvort kvenmaðurinn fylgdi með höllinni, spurning hvort ég hafi klúðrað tækifærinu á að gerast einræðisherra yfir Rúmeníu fyrir þrjúþúsundkall?

Miðalaus til Búkarest

Var mjög tímanlega í því að koma mér á lestarstöðina hélt ég. Fór á hostelið og náði í bakpokann rúmum klukkutíma fyrir brottför og sökum þess að það var hellidemba auk þess sem metróinn var mestmegnis i lamasessi bað ég strákinn í afgreiðslunni að hringja á taxa. Við vorum tvö að fara á Keleti stöðina þannig að það var ekki svo dýrt. En auðvitað leið heil eilífð áður en við náðum loksins sambandi, önnur eilífð í að bíða eftir bílnum og þriðju eilífðinni síðar, sökum umferðarteppna, komum við loksins a lestarstöðina. Virtist samt ætla að sleppa en síðan kemur í ljós að miðasalan á þessari lestarstöð er sú hægvirkasta sem ég hef kynnst. Þegar bara stelpurnar fyrir framan mig eru eftir sýnist mér þetta ætla að sleppa en þá barasta hverfur afgreiðslustúlkan heillengi og þegar ég lít á klukkuna og sé að ég hef 3 mínútur þá ákveð ég að taka bara sénsinn og skella mér miðalaus í lestina frekar en að vera strand í Búdapest næsta sólarhringinn. Frekar pirraður enda þó maður fyrirgefi A-Evrópu venjulega svona hluti þá er Búdapest bara sú borg þeim megin járntjalds sem er með langmestu heimsborgarakomplexana þannig að ég ætla bara að vera fúll.

Kem svo í lestina, asnast nattúrulega í - algjörlega ómerkt - koju lestarvarðarins, en hann samþykkir að selja mér miða til landamæranna. Er svo vonlaust stressaður hvað gerist hinum megin við landamærin enda fékk ég hvorki kvittun né miða. Það gengur samt allt, enginn miði né kvittun Rúmeníu megin svosem en þeir mega alveg stinga þessu í eigin vasa mín vegna svo framarlega sem mér er ekki hent út á einhverri vafasamri landamærastöð. Lestin siglir svo inní Rúmeníu átta um morgunin, blessunarlega þrem tímum of sein, 5 að morgni er nefnilega ekki spennandi tími til að koma i ókunna borg.

fimmtudagur, ágúst 04, 2005

Póstkort

Skrifaði nokkur póstkort í ferjunni. Heyrist samt að slóvakíska póstþjónustan sé alveg að bregðast mér því póstkortin sem ég sendi frá Bratislava fyrir tæpum tveim vikum eru enn ekki kominn heyrist mér. Samt voru tvö frímerki á þeim vegna þess að ég keypti þau í Tékklandi en komst ekki í að skrifa á þau fyrr en á leiðinni inní Slóvakíu. Þannig að líklega þýðir tékkneskt og slóvakískt frímerki að þau hafa verið send í langa heimsreisu fyrst. Eða bara til Írlands eins og venjulega.

Búdapest 4

Fór í gærmorgun með pakka a pósthúsið, dót sem ég þarf ekki lengur og dót sem ég þurfti eftir á að hyggja aldrei að nota. Þar á meðal var jakki og ein langerma skyrta - en þegar hver einasti dagur er vel yfir 30 þá er slíkt mesti óþarfi. Auðvitað er veðrið búið að vera ömurlegt síðan og allt í einu er ég farinn að sakna jakkans.

Rölti i Gerland, eitt af baðhúsunum, og akkúrat þegar ég var kominn nógu nálægt til að sjá það fann ég regndropa og sá að skýin voru að hrannast upp. Lét mig samt hafa það og baðið var ágætt þó það hafi alveg eyðilaggt þetta fallega sigg sem ég var kominn með á fótana eftir að hafa verið endalaust berfættur i skónum sökum hita.

Um kvöldið hafði planið raunar verið að kíkja á útipöbb í Búda en sökum veðurs var sú hugmynd ekki alveg að gera sig. Við ákváðum samt að hanga ekki bara á hostelpöbbnum og röltum aðeins til að finna pöbb með Ungverjum í. Það var þurrt á leiðinni en eftir einn bjór þá röltum við heim og þá byrjaði fyrst að rigna, hellidemba og mættum rennblautir á hostelið aftur.

Kikti svo í Dónársiglingu í morgun, núna er sem sagt orðið kalt til viðbótar við rigninguna, lítið spennandi að kíkja á Margrétareyju úr þessu - frábær staður en ég efast um að eyjan sé jafnfrábær i þessu veðri.

Búdapest 3

Kíkti á hostelbarinn um kvöldið. Umræðurnar fóru fljótlega að snúast um hvort svín sem borðuðu mannaskít væru betri en önnur svín á bragðið. En Ástralinn sem er með mér á herbergi kenndi sem sagt ensku í Kóreu í sex ár og hitti einn annan fyrrum Kóreuexpat.

Búdapest 2

Fyrstu tveir dagarnir i Búdapest fóru nær eingöngu í viðtöl og heimsóknir. Daniel túlkur og ég kíktum fyrri daginn út fyrir borgina til Czobanka, lítið en fjandi líflegt úthverfi, hittum Guðföður sígaunanna í bænum, eina húsmóður og einn votta Jehóva. Við Daniel náðum vel saman en það er óneitanlega verra að þurfa að taka viðtöl i gegnum túlk. Umhverfi þorpsins er heillandi, skógivaxinn klettur gnæfir yfir öllu, vinsæll til klifurs - en mér heyrðist að það væri ekkert alltof algengt að menn kæmust i heilu lagi niður.

Seinni daginn fórum við i gettóið, ekki svo langt frá miðborginni í metrum en samt furðu fjarlægt. Allt mun niðurníddara en í Czobanka þó að þetta sé liklega skárra en í Lunik IX. Enduðum hjá þekktum músíkant sem var sérlegur vinur núverandi konungs Habsborgara - þ.e.a.s. ef Habsborgararnir væru ennþá kóngar.

Búdapest 1

Lestin til Búdapest var troðfull, framan af var helmingurinn af farþegunum, ég meðtalinn, sitjandi á ganginum. Náði þó sæti fyrir rest og kom til borgarinnar um tíuleytið. Var samferða á hostelið áströlskum mæðgum, mamman hafði flúið héðan 56 og dóttirin var að sjá borgina í fyrsta skipti. Hálfsvekktur að rekast ekkert á þær aftur, stemning í því að vera að snúa aftur heim.

Zagreb

Fótanudd

Rútan til Zagreb var ótrúlega snögg, ég var rétt byrjaður að koma mér fyrir og bjóst við 3 tímum í viðbót þegar hún renndi í hlað. Líklega orðinn of vanur seinum lestum. Leitaði að einhverju smálegu að eta og fann bara vondan hamborgara sem gerði ekkert annað en að minna mig á hvað gyrosstaðurinn fyrir utan hostelið í Belgrad var góður, besti gyros í gervallri Evrópu so far. Ísinnn í Zagreb er hins vegar sá allra besti.

Rölti um bæinn um kvöldið og þegar ég var að labba heim þá fékk ég skyndilega þá hugmynd að prófa hvernig væri að ganga berfættur þarna. Og auðvitað voru göturnar í miðbænum akkúrat passlega hrjúfar, að labba berfættur þarna í kvöldhitanum var eitthvert besta fótanudd sem hægt var að hugsa sér.

Banja Luka 2

Markaðurinn í Banja Luka er frábær, ég keypti samt ekkert því það er svo lítið pláss eftir í töskunni. Sé samt mikið eftir að hafa ekki keypt Sin City sjóræningja dvd-diskinn.

Fyrst þegar ég kíkti á aðaltorgið var hópur af köllum að tefla á risaútitafli þar sem taflmennirnir náðu þeim upp að mitti. Svo kíkti ég á torgið aðeins seinna og þá var brúðkaup í gangi og auðvitað fékk allur bærinn að taka þátt í því.

Belgrad 7

Big in Belgrad

Ég hreinlega gleymdi að taka fram að undir popular music í plötubúðinni í Belgrad rakst ég á disk með Selmu. Sem var nota bene gefin út rétt eftir að hún varð í 2 sæti, ekki 22 sæti eða hvað það var síðast.

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Banja Luka

Leigubilstjórinn og dóttir hans

Þegar ég skipti um vagn og fer frá Króatíu til Bosníu þá breytist allt. Flugurnar breytast í ryk og rykið í flugur, því hér eiga draugarnir ennþá heima.

Svo stoppum við. Einhverjar lagfæringar á teinunum og lestarvörðurinn segir við mig autobus. Téð rúta reyndist svo vera tveir pínulitlir og drullugir Jugo og farþegunum er skipt niður á þá og keyra í þeim til Banja Luka, mestan partinn í svartaþoku. Þegar þangað kemur þá sé ég engan hraðbanka nálægt lestarstöðinni en sé eitt stykki leigubíl sem ég rölti að og sé þá að bílstjórinn situr við kaffihúsið að innbyrða einhverskonar einkennilega pylsusúpu og hann bíður mér upp a kókglas á meðan ég bíð. Á veitingastaðnum eru tveir stráklingar að slást og heimilislaus kona gengur í hringi í kringum okkur.

Síðan höldum við af stað, finnum hraðbanka en áður en við finnum hótel er leigubílstjórinn búin að bjóða mér að gista frekar hjá honum fyrir sanngjarnt verð. Án þess að hafa hugmynd um hvort hótelið yrði ódýrara samþykki ég enda getur maður alltaf gist á hótelum en sjaldnast hjá ókunnugum leigubílstjórum. Rétt áður en við komum heim til hans hringir hann í dóttur sína sem talar ensku, ég tala örstutt við hana en við virðumst bæði álíka ringluð af ólikindaháttum föðursins. Ég fer inní íbúðina, lítil aukaíbúð tengd við aðalíbúðina. Það er ekkert að drekka nema vatn og enginn matur. Ég er í miðju hæðóttu íbúðarhverfi, ofarlega, og engir ljósastaurar sjáanlegir, aðeins kolniðamyrkur. Ég ákveð samt að labba örstutt, ekki nógu langt til að villast sem virðist nógu auðvelt þarna - og athuga hvort ég finn sjoppu til að kaupa samloku og kók.

Gefst fljótlega upp en þegar ég er við það að komast aftur upp í íbúðina þá sé ég að það er mótorhjól að koma upp götuna. Ég er endurskinsmerkjalaus og þar sem það sést varla spönn frá rassi þá er það visst áhyggjuefni þannig að ég fer eins langt út í kannt og ég kemst. En mótorhjólið stoppar og dóttir leigubílstjórans spyr hvort við höfum nokkuð talað saman í síma nokkrum mínútum fyrr.

Við Ivana stöndum þarna í korter, hún á vespunni og ég í stuttbuxunum, og eigum eitthvað undirfurðulegt og gullfallegt móment. Hún er falleg og virðist eldri en átján - en hun á í ástar/haturs sambandi við foreldrana og Banja Luka sem er ótrúlega keimlíkt því sem ég átti við Akureyri og mína fjölskyldu þegar ég var átján. Ég hugsaði þetta allt en ég man ekki hvort ég hafði einhverntímann þá einlægni sem hún hafði að bera að segja þetta. Þegar maður var átján og allt var hratt og maður var ekki orðinn svona fjandi cynískur.

Lest til Banja Luka

Á leiðinni til Króatíu - en þar skiptist lestin í tvo hluta og ég þarf að skipta um vagn – er ég að spjalla við Króata sem flakkar á milli Serbíu og Króatíu út af vinnu og fjölskyldu. Það sem var samt merkilegast voru hæfileikar hans til að grípa flugur og henda þeim út um gluggann. Það voru endalaust moskítóflugur og ættingjar þeirra að heimsækja okkur og alltaf náði hann að góma þær og henda þeim út.

Belgrad 6

Þegar ég yfirgef litla hostelið í Hvítu borg þá er farinn að koma virkilegur fjölskyldufílingur í hópinn á hostelinu þannig að maður verður eiginlega alveg ónýtur að vera að fara þetta. Við erum síðasti hópurinn þarna, þau eru að flytja hostelið í annað húsnæði – að mér heyrist af því að löggan komst á snoðir um þau. Alltaf gaman að styrkja svarta hugsjónastarfsemi.

föstudagur, júlí 29, 2005

Belgrad 5

Ef Serbnesk tvíburasystir Angelinu Jolie gefur manni þrisvar undir fótinn sama kvöldið þá ætti maður kannski að gera eitthvað í því? Fjandinn, er eitthvað námskeið fyrir svona aula eins og mig? og það er enginn afsökun að vera með stelpu í öðru landi á heilanum.

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Belgrad 4

Við þvælumst um Kalemegdan-hallargarðana, risastórt og gullfallegt svæði. Þangað til við finnum stríðsminjasafnið. Á þeim tímapunkti er ég alveg að þorna upp þannig að ég næ ómögulega að einbeita mér að manndrápstækjunum, öll þessi stríð renna saman í hausnum á mér á meðan ég ráfa þarna um hálf slojaður. Sest svo niður í smástund í andyrinu á meðan umsjónarmaðurinn ferjar fleiri og fleiri vopn inn.

Belgrad 3

Það er ennþá væg lykt af stríði herna. Svo eru náttúrulega nokkrar áberandi byggingar merktar fingraförum NATO. Davíð og Halldór yrðu örugglega stoltir ef þeir sæu þetta. En það er fyrst og fremst hrikalega heitt. Spánverjanum Pablo og Nikolaj fra e-m fronskum Karabíueyjum, sem þvældust með mér fyrri partinn, var hrikalega heitt þannig að þetta er ekki bara eitthvað Íslendingahitaóþol. Flestir kælar eru orðnir heitir þannig að flestir drykkir eru kaldir í svona tvo sopa.

Belgrad 2

Three Black Catz

Hvað gerir ungt par ef það finnur frábæra risíbúð í miðri Belgrad sem það hefur ómögulega efni á? Opnar hostel þar auðvitað. Mörkin a milli heimilis og hostels eru yndislega óljós þarna, þetta er basically heimili með tveim herbergjum fullum af rúmum í sitt hvorum endanum. Og við notum einfaldlega heimilisgræjurnar, ísskápinn, baðið og þvottavélina á milli þess sem við klöppum heimiliskettinum og horfum a vídeó með familíunni.

Að vísu einhver padda sem ég þurfti að henda af rúminu mínu og stíga ofan á svona svo hún myndi ekki stíga ofan á mig um nóttina - en maður kemur ekki til Belgrad til að leyta ad sterilíseringu vestursins. Svo var svo heitt að ég held ég hafi notað sængina í svona tíu mínútur alla nóttina.

Belgrad 1

Lestin siglir loks inní járnbrautarstöðina í Belgrad, tveim tímum of sein. Sem sagt á eðlilegum tíma. Leiðin á hostelið virkaði ekki löng á pappírnum en hún er öll upp á móti, svona eins og göturnar á Akureyri. En þar fæ ég venjulega einhvern til að sækja mig ef ég er með farangur. Hitti svo Milan sem vísar mér síðasta spölinn, við ákveðum að túra borgina á morgun, hann dauðfeginn að hitta einhvern sem talar ensku skikkanlega - er víst útskrifaður enskustúdent sjálfur en fær fá tækifæri til að tjá sig. En audvitað klúðrum vid símamálunum, löng saga, þannig að líklega verðum við bara að chilla saman í næstu ferð.

Uppgötvaður

Fyrir utan eitt og eitt bit þá hafa moskítóflugurnar verið frekar fálátar í minn garð. Líklega gabbað þær með þessum fola hörundslit. En það er víst kominn einhver litur loksins og í lestinni var sú merka uppgötvun gerð að það var nóg blóð í aftanverðum lærunum á mér. Var. Nú eru þrjár rauðleitar eyjur sitt hvorum megin.

Lest til Belgrad 3

Wrong side of the tracks

Við erum að sigla inn í borgina, Felix er að horfa út um gluggann hjá ganginum, ég er að horfa út um gluggann inní klefa. Við köllum: Sjáðu! á nákvæmlega sama tíma. En ástæðan fyrir því að ég kalla upp eru hreysin og braggarnir mín megin, ástæðan fyrir að hann kallar upp er risabrúin, ljósum böðuð. Ég skiptist á gluggum, ödrum megin er ljósadýrð og ríkidæmi, hinum megin örbirgð og varla ljósastaur til að lýsa upp. Öðrum megin er fólk líklega óðfluga að gleyma ...

Lest til Belgrad 2

Felix og Benjamin eru bara með skilríki, engan passa. Þeir fullyrða að einhver á ferðaskrifstofunni hafi sagt að það þyrfti ekki hér, Schengen og svona. Ég hef mínar efasemdir, og mikið rétt – landamæravörðurinn í Serbíu er í frekar góðu skapi en þeir þurfa samt að borga 105 evrur hver fyrir bráðabirgðapassa. Spurning hvernig gengur í Sofiu og Istanbúl. Ég vorkenni þeim líklega minna en hinir eftir að hafa lent í því í gamla daga að vera rekinn öfugur út þó ég væri með vegabréf því ég var ekki með vegabréfsáritun. Áttaþúsundkall þá borgaður á staðnum hefði óneitanlega verið meira spennandi kostur heldur en að fara alla leið aftur niður Grikkland og upp Ítalíu og þangað til Prag.

Lest til Belgrad 1

Er með 4 Þjóðverjum í klefa, einn þeirra, Felix, er algjör Íslandsnötter, með þýskan Íslandsguide og er eiginlega niðursokknari í ferðina sem hann ætlar að fara í á klakann næsta sumar en ferðina sem hann er í núna. To paraphrase Obelix: Þjóðverjar eru klikk :)

Vegabref

Kem í lestina í Kosice, sæmilega sveittur eftir að hafa labbað með allt draslið tuttugu mínútna spöl. Um leið og ég legg töskurnar frá mér fer ég að hugsa um passann minn, hvar setti ég hann? Ég tékka á líklegu stöðunum en síðan er ekki um neitt annað að ræða en að rífa allt upp úr töskunum. Konugreyið á móti líklega farinn ad hafa áhyggjur af þessum brjálæðing, ætlaði hann að tjalda þarna? Fann ekkert og hefði fyrir löngu verið búin að fá taugaáfall ef þetta hefði ekki verið svona kunnuglegt en mundi svo skyndilega eftir örlitlu hólfi á minni töskunni sem ég nota nær aldrei - taugaáfalli og heilmiklu röfli við landamæraverði (sem mættu hálftíma síðar) þar með aflýst.

Kosice 3

Seinni dagurinn í Lunik IX, skógarþykkni, hvítvín og gítar og Fram á nótt sungið, sígaunaútgáfan.

þriðjudagur, júlí 26, 2005

Kosice 2

Tungl 9

Sígaunabörn eru frábærar fyrirsætur. Óstýrilát vissulega og slást um að taka mynd af sér, en það er ekkert gaman að myndum þar sem fólki leiðist að láta taka mynd af sér. Hverfið sjálft vissulega í niðurníslu og enginn talaði almennilega ensku, einstaka eitthvað hrafl í þýsku. Hélt aftur til miðborgarinnar, þreyttur en þó aðallega óguðlega sveittur, meira en hundrað myndir af óstýrilátum sígaunabörnum á tunglinu inná myndavélinni minni - og já, svo datt ég ofan í holu. Semsagt bara þetta venjulega.

Kosice 1

Kem til Kosice og leyta að þessa bæjar Hotel Europa. En nú bregður svo við að hótelið finnst hvergi. Er búinn að sjá nákvæmlega út hvar það ætti að vera miðað við kortið en þar er bara banki. Getur virkilega verið að eitthvað hafi breyst á fimm árum? Fjandinn. Prófa þess í stað að rölta aðeins lengra og finn þar Hotel Metropol. Ekki nóg með að það sé ennþá ódýrara en Europa, 750 kall nóttin, heldur er þetta upprunalega einhvers konar ólympíuhótel, veitingahús fyrir utan og kaffihús í garðinum, allt ótrúlega notalegt. Þvælist aðeins, tek strætó út í sveit - að e-i stálverksmiðju - og til baka.

Ósmekkleg sms-samskipti

Ég: Það er skelfilega ljótt fólk að kela í básnum á móti mér. Eru engin lög yfir svona lagað?

Eddie: Jú, væmin ástarlög um að ástin sé blind.

Poprad 2

Götuskilti: Original Second Hand. Jamm, hver hefur ekki pirrað sig á öllum þriðju og fjórðu handar búðunum sem þykjast vera second hand.

Hotel Europa

Miðað við Lonely Planet átti þetta að vera smáspölur en það stóð þarna beint fyrir framan lestarstöðina. Ég gekk inn og Jack Torrance tók á móti mér, ég get svarið að þetta hótel var nákvæmlega staðurinn sem þeir hefðu tekið Shining upp ef hún hefði verið gerð í Slóvakíu. Ekki alveg sami glansinn og í Kubrick en alveg sama stemning. Lýsing LP á hótelinu var rundown - það átti svo sannarlega við. Þetta var örugglega glæsilegasta hótel í landinu 1930. Hafði ekkert breyst síðan nema rykið sem hafði safnast saman ofan á fataskápnum. Hræódýrt vissulega, 800 íslenskar nóttin, hostelverð. En einhvernveginn er hótel sem einu sinni var glæsilegt og er núna niðurnýtt forvitnilegra en hótel sem er og verður ókei. Þá eru einhverjir gamlir draugar á sveimi sem löngu hafa gleymt hversdagslegu hótelunum.

Poprad 1

Fór útaf hótelinu að leyta mér að æti, að því loknu fór ég svo niðrí bæ, skoðaði mig um og furðaði mig á því að aðalgatan var nákvæmlega eins og á Lonely Planet (5 ára gömul bók) kortinu nema að nafninu til. Var hugsanlega búið að skipta um nafn? Ég hélt sá siður hefði dáið með kommúnismanum. Finn svo verslunarmiðstöð og ákveð að kaupa nýtt kort. Sé hvergi kort með Kosice. Samt eru þeir með kort af e-u sem kallast Poprad. Hmm. Skoða málið aðeins betur, jú, fjandakornið, einhvernveginn hafði mér tekist að fara úr lestinni í Poprad. Eins og Kosice var hérna Hotel Europa, aðaltorgið var nokkurn veginn eins í laginu - og ég gat svarið að ég hafði séð nafnið Kosice út um gluggann á lestinni. Fannst við kominn furðu snemma að vísu en við þetta bættist að allir fóru út þarna - og Kosice eini stóri bærinn á leiðinni. En Poprad er víst skiptistöð, allir sem voru að fara til Varsjár eða til fleiri skemmtilegra staða skiptu hér um lest. Samt var þetta ekki svo slæmt, gat alveg notað smá tíma til að safna kröftum þar sem ekkert var að gera, undirbúa mig almennilega og svona ...

mánudagur, júlí 25, 2005

Lest frá Bratislava til Poprad

Slóvakíska stelpan við gluggann er að leysa krossgátur á meðan áströlsku stelpurnar tvær á móti mér skiptast á að lesa Harry Potter og á meðan fær hin að hafa iPodinn. Svona er Evrópa í dag.

Sjálfur klára ég Kveðjuvals Kundera, líklega sú slappasta sem ég hef lesið eftir kallinn enda aðeins i 5 hlutum en ekki 7 eins og allar hinar. Aldrei að klikka á hjátrúnni. Eða kannski fer hann bara aðeins yfir strikið í karlrembunni hér?

Bratislava 3

Hvar eru allir landafræði- og sagnfræðigúrúarnir sem lesa þessa síðu? Bratislava er auðvitað höfuðborg Slóvakíu en var í einhverjar aldir höfuðborg Ungverjalands á meðan Tyrkirnir rændu Búdapest.

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Getraun vikunnar

Í hvaða löndum hefur Bratislava verið höfuðborg?

Bratislava 2

Söngkonan í djassbandinu sem lék á kaffihúsinu í Laurovski ulica tók sig mjög vel út í appelsínugulu pilsi og þvi til viðbótar var gengilbeinan i appelsínugulum buxum. Ekki má gleyma því að farsímafyrirtækið sem birtist á skjánum mínum núna heitir Orange þannig að það er alveg augljóst að Bratislavabúar eru æstir stuðningsmenn H-listans. Elli var strax settur í það að redda þeim öllum skólavist fyrir næsta skólaár.

Bratislava 1

Það eru beljur út um allt hérna. Skýringin er hér.

Brno

Átti eitt aðalerindi í Brno í Bratislavska og þaðan tók ég næstu lest til Bratislava. Hjátrúin í götunöfnum alveg að fara með mig. Gerðist líklega fleira merkilegt í þessari Brunnárferd eins og til dæmis þetta.

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Praha 5

Svarið við getraun helgarinnar var auðvitað sígauninn sem vann nýjasta tékkneska idolið, Eddie fann mynd af honum til að setja í kommentin fyrir neðan síðustu færslu. Ég hef staðfestar heimildir fyrir því að allar tólf ára stelpur hérna séu ástfangnar af honum. En idoldiskurinn var semsagt númer tíu á topp tíu listanum hérna, ég ákvað að hlusta eitthvað á allar tíu í plötubúð hérna rétt hjá og velja eina - og það eina sem virkaði spennandi var þessi diskur með Ivu Fruhlingovu. Tékknesk stelpa sem syngur aðallega á frönsku en þó e-r lög á tékknesku og ensku. Ég skil vel fólk sem getur ekki ákveðið sig í svona hlutum. Og eitt af því fáa sem er meira sexí en falleg tékknesk stelpa er falleg tékknesk stelpa að syngja á frönsku.

Annars eru þetta síðustu klukkutímarnir í Prag í bili, örstutt stopp i Brno næst og svo Slóvakía.

laugardagur, júlí 16, 2005

Getraun helgarinnar

Hver er Vlastimil Horváth? Googlun leyfileg.

Praha 4

Það besta vid hostelið sem ég gisti á er orðað svona í bæklingnum þeirra: Two friendly cats to cuddle. Að vísu var annar frekar hvumpinn í dag en hver er það ekki á laugardsmorgnum?

Praha 3

Ég hélt að uppáhaldstékkinn minn væri löngu farin heim til sín í Oxford. En fæ svo auðvitað skilaboð um kveðjupartí Ilonu fyrsta daginn minn i Prag. Að vísu finn ég ekki götuna á kortinu enda kom í ljós að hún er ekkert til, frekar en barinn sem var talað um í sms-inu - en samt fundu allir staðinn. Ég aðallega út af því ég rakst óvænt á Ilonu og Kostas á KFC þar sem ég ætlaði að fá mér snöggan snarl fyrir partíið. Staðurinn var svo alveg brilljant, útikaffihús sem hefði verið með frábæru útsýni ef það væri ekki fyrir öll þessi 40 metra háu tré sem gnæfðu yfir okkur. Tóndæmi:

Þegar Tékkar eru óvirkir alkóhólistar þá vilja þeir ekki hafa það of áberandi þannig að þeir panta 5 alkóhólfría bjóra og klára 2 af þeim á meðan ég er að ná í minn. Eða kannski var Eugen bara á bíl?

Leos flutti einþáttungin "Tékkneski barþjónninn" við mikinn fögnuð viðstaddra. Method acting at its finest. But you had to be there.

Jana sýndi fyrirmyndartækni í því að fá mig til að kaupa handa henni bjór. "Hmm, must taste it first." Klárar úr glasinu mínu. "Very good, should we get some more?" Ilona stakk upp á því að við giftumst þegar ég kom með nýjan umgang, við lofuðum að íhuga málið. Jana fær tveggja daga frí í vinnunni ef hún giftir sig, veit ekki alveg hvað ég græði á því.

Sannaðist enn og aftur að Tékkar eru frábærir fyrrverandi. Ilona var þarna með Kostas sínum og báðir fyrrverandi hennar, Leos og Karel, komu báðir með nýjar kærustur - og þetta var aldrei nokkurn tímann þvingað.

Ég sannfærði Ilonu um að hún væri nítján ára svo hún fengist með á annan bar. Sem gerir hana sjálfsagt að einhverjum yngsta doktorsnema í heimi.

Við pöntuðum Nachos á Radost. Síðan kom heilt fjall af öllum mögulegum og ómögulegum tegundum af grænmeti, kjöti og öðru gumsi - og jú, það voru nokkrar nachos undir. Fyrirtaks matur á fimmta bjór.

Praha 2

hezky holka

Mætti stelpu a Starometska í bol med árituninni "Most Beautiful Woman in the World". Stuttu seinna sá ég ennþá fallegri stelpu. Stelpur. Þessu til viðbótar er gott veður, þannig að það er engin ástæða til að kvarta.

Praha 1

Ósýnilega hostelið

Sms fyrsta kvöldsins i Prag var: Dæmigert að sálin í manni búi a stað þar sem maður skilur ekki neitt og gerir fátt annað en að villast. Sjálfur á ég að vísu eftir að villast alvarlega ennþá, leigubílstjórinn sem keyrði mig á hostelið daginn eftir sá alveg um það. Ég hef aldrei verið meira en klukkutíma í leigubíl áður, enda vorum við búnir að keyra marga hringi um hverfið sem hostelið átti að vera í. Brjálæðislega brattar götur sem maður fékk nærri því lofthræðslu við að vera í bíl í. En eftir að hafa grafið upp símanúmerið fannst hostelið loksins, leigubílstjóranum var vissulega vorkunn enda var það umkringt trjám sem gerði það ósýnilegt frá götunni, en helst leit út fyrir að það væru alls engin hús við þessa götu. Skrýtið annars að vera í Prag 4, eina hverfið af 1-7 sem ég kannast nær ekkert við.

Leifsstöð, Stansted og dauði Schengen

Note to self: aldrei borða mat á flugvöllum aftur. Er bannað ad ráða fólk a flugvelli sem getur eldað mat? Það eina sem var verra en maturinn á Stansted var maturinn í Leifsstöð. Já, og hvað varð svo um Schengen? Aðalpointið í því var jú að maður þyrfti ekki að sýna vegabréf, samt gerði ég lítið annað á leiðinni frá Íslandi til Englands. Svo er starfsfólkið þarna með sína vélrænu stofnanaensku þannig að ég skil það ómögulega - eða öllu heldur held ég skilji það ekki fyrr en það kemur að pointinu i setningu nr. tíu. Eftir að hafa farið með rulluna: To ensure safety aboard the aircraft in accordance to the pact of Genieva, confirmed at the second international meeting in Basel and reviewed at the summit of Brussel by the leaders of twelve international leaders ... could you please put your jacket in the overhead compartment?

miðvikudagur, júlí 13, 2005

Au revoir, Na shledanou og Bless

Flugrúta eftir fjóra tíma, spurning um smá svefn? Tókst að framleigja kotið á allra síðustu stundu, skondin saga það, en sannar bara að stundum er eitthvað gagn að þessu interneti. Annars kveð ég ykkur bara lömbin mín, lít samt sjálfsagt við í einhverjum sjúskuðum vafasömum netkaffihúsum í Slavalandi einstöku sinnum og læt vita af mér. Ef söknuðurinn verður orðinn óbærilegur getið þið sent sms í 690 1827 (ekki hringja nema allt sé að fara til andskotans nema þið viljið setja mig endanlega á hausinn, hmm, ætli ég sé að gefa einhverjum hugmyndir?), sent ímeil á asgeiri@hi.is eða bara notað kommentakerfið. Svo getið þið notað áðurnefnda staði til að leggja inn pöntun á póstkortum. Með heimilisfangi því ég man ekki svoleiðis þegar ég er í útlöndum. Og ef einhvern langar að spila sjóorustu á Stansteadflugvelli á milli ellefu og sjö á morgun þá verð ég á staðnum.

sunnudagur, júlí 10, 2005

Shooting Hoops in the Rain ...

Hver þarf gott veður? Fór sem sagt í körfu áðan með Baunverjanum og bræðrum / frændum hans. Eyþór gerði sitt til þess að koma í veg fyrir aukna fjölgun í Breiðholtinu.

fimmtudagur, júlí 07, 2005

Samanburður á gildi mannslífa

7. júní: 45 manns drepnir í Írak

7. júlí: 38 manns drepnir í London

Það sem er ólíkt: Júnídagurinn var hversdagslegur, júlídagurinn ekki.

Það sem er eins: Árásarmennirnir voru aldir upp af George W. í samvinnu við Tony með stuðningi Davíðs og Halldórs.

Niðurstaðan gæti orðið sú að við höldum áfram að framleiða hryðjuverkamenn sem gera fátt annað en að styrkja ógnarstjórnir og/eða valdníðslustjórnir á Vesturlöndum sem og í Austurlöndum. Sem á endanum gæti þess vegna orðið til þess að þessir atburðir í London verði jafn hversdagslegir og í Írak.

Svo getum við líka horfst í augu við ástæðurnar og gert eitthvað í hlutunum annað en að drepa fleiri.

miðvikudagur, júlí 06, 2005

Flug bókað

Sem þýðir víst að ég yfirgef skerið eftir viku. Tékkland, Slóvakía, Ungverjaland og vonandi Rúmenía eru á dagskrá - svo eru Balkanlöndin, Búlgaría og Úkraína til skoðunar líka - það gengur ekki að vera alltof skipulagður. Enda borgar það sig náttúrulega ekki, þá fokkast allt upp um leið og þú missir af einni lest. Og ef maður missir ekki af neinni lest telst þetta náttúrulega ekki alvöru ferðalag, það væri alltof þægilegt.

þriðjudagur, júlí 05, 2005

RunnaKarma

Þá hafa gömlu kúgararnir okkar loksins fengið makleg málagjöld. Getum við ekki sent þeim Halldór líka?

Hamingja

Hitti einstaklega hamingjusaman kisa sem lá í sólbaði á grasbletti rétt hjá KR-vellinum. Malaði eins og jarðýta, hærra en nokkur köttur sem ég hef hitt síðan Loppa kisi fékk sér lokablundinn.

mánudagur, júlí 04, 2005

Gerið bíómynd með Dolph Lundgren!

Hvern hefur ekki dreymt um að gera bíómynd með Dolph Lundgren? Hér er tækifærið, nákvæmar leiðbeiningar um hvernig á að fara að – ég kynni hér með fyrir ykkur The Dolph Lundgren Movie Making Menu.

Til varnar Tom Cruise

Það virðist mjög í tísku að tala illa um Krúsa gamla þessa dagana, ekki að það hafi ekki alltaf verið vinsælt. Sannar líklega bara það að ískyggilega margir Íslendingar eru dyggir áhorfendur af Opruh þó allir segist „bara hafa horft á þennan eina þátt af því allir voru að tala um hann sko.“ Það má vel vera að hann hafi verið ömurlegur í þessum þætti, kannski var hann bara svona upptjúnaður af ást og kannski var hann bara að leika svona illa. Mér er nokk sama, ef menn ætla að leika illa þá er fínt að þeir geri það í þætti sem ég sé aldrei. En hversu heimskulegur sem Cruise kann að hafa verið þá segir þetta eiginlega meira um samfélagið en hann. Leikarar eru dæmdir fyrir hvernig þeir standa sig í spjallþáttum eða slúðursíðum eða hvaða heimskulegu trúarbrögð þeir ástunda, ekki hvernig þeir standa sig uppi á tjaldinu. Persónulega er mér sama ef hann hoppar uppá stóla, rústar hótelherbergjum eða borgar tvítugum stelpum fyrir að deita sig ef hann leikur skikkanlega.

Framan af gerði hann það vissulega ekki. Ég man vel að ég þoldi Tom Cruise ekki enda Top Gun viðurstyggilega leiðinleg bíómynd sem og flest annað sem hann gerði framan af ferlinum – og oftast voru aðrir leikarar en hann það skásta við myndirnar. Síðan gerðist eitthvað. Eftir að einstaka góð frammistaða (t.d. Rain Man) og hellingur af rusli hafði gert hann að einhverri stærstu stjörnu Hollywood þá virtist hann skyndilega taka þá ákvörðun að fara að leika í almennilegum bíómyndum og reyna að leika almennilega líka.

Af síðustu ellefu myndum sem hann hefur gert höfum við sjö - Collateral, Minority Report, Jerry Maguire, Magnolia, Interview With the Vampire, Vanilla Sky og Eyes Wide Shut – sem eru afbragðsmyndir þó flestir eigi ennþá eftir að fatta tvær þær síðastnefndu. Svo eru fjórar til viðbótar (War of the Worlds, The Last Samurai og Mission: Impossible myndirnar tvær) góðra gjalda verðar, stórmyndir sem virka ágætlega með poppkorninu þó þær hafi kannski ekki verið merkilegar. Þó vissulega hafi öll close-upin af Thandie Newton í M:I 2 gert myndina rúmlega bíómiðans virði. Það er sko manneskja til að hoppa uppá stóla út af.

Nornin Indira

Af hverju í ósköpunum eru skyndilega allir fjölmiðlar að æsa sig yfir því að Nixon og Kissinger hafi kallað Indiru Gandhi norn? Í hinni svokölluðu neyðarstjórn hennar 1975-7 (sem var tilkomin sökum þess að dómstólar höfðu dæmt hana fyrir kosningasvindl) voru milljón karlmenn (aðallega fátæklingar og múslimar) geldir án þeirra samþykkis, hundrað þúsund manns voru handteknir án dóms og laga og þar að auki stóð hún fyrir svokölluðu fegrunarátaki. Það átak lýsti sér sem svo að stórborgir Indlands skyldu hreinsaðar af öllum fátækrahverfum svo góðborgarar þyrftu ekki að horfa uppá eymdina. Ekkert var hins vegar gert til þess að hjálpa fátæklingunum að koma sér fyrir annars staðar eða á einhvern hátt brjótast út úr fátæktinni. Líklega hefur norn verið alltof jákvætt orð fyrir hana.

laugardagur, júlí 02, 2005

Árni Bergmann, Gneistinn og staffið á Bláa kaffinu

Hrós dagsins fá Árni Bergmann fyrir frábæra grein í Lesbókinni sem segir í raun allt sem segja þarf um stríð á tveim blaðsíðum, Gneistinn og aðrir sem eyða deginum í að bjarga heiminum og staffið á Bláa kaffinu í Kringlunni sem óumbeðið elti börn gesta út um alla Kringlu.

War of the Worlds

Þegar allt er hægt er nauðsynlegt að passa sig á að gera ekki of mikið. Ógnin læðist, vofir yfir. Það var langt liðið á Jurassic Park þegar risaeðlurnar fóru að æsa sig, sama gilti um hákarlinn í Jaws. En hér vantaði að byggja upp, allt í einu mæta geimverur og við vorum ekki búin að koma okkur almennilega fyrir í sætinu.

En hvað hefur breyst frá upphaflegu sögunni?

Geimverurnar hafa lítið breyst, þá voru þær frá Mars en nú eru þær frá „somewhere in space”.

En mennirnir?

Mórallinn í upphaflegu sögunni mátti útleggja sem svo; þegar í harðbakkann slær eru allir menn bræður. Núna? Krúsa er vissulega nógu annt um börnin sín en hún er á móti öllum öðrum, eigingirnin gildir þegar þú ert að flýja. Í mesta lagi að þú takir börnin þín fram yfir sjálfan þig. Flestar línur sem koma best úr upprunalegu sögunni eru sagðar af persónu Tim Robbins. Auðvitað kemur í ljós að sá er heimsklassa nötter.

Semsagt, fyrir öld var einhver von til staðar – við erum öll bræður og systur þegar á reynir. Í lokin á þessari er stemmningin frekar sú að við munum á endanum klára verkið sem kvefuðu geimverurnar náðu ekki að ljúka.

Ég kaupi þó engan veginn að þetta sé óvart hjá Spielberg, frekar að hann sé, skiljanlega, orðinn svona fjandi svartsýnn á viðbrögðum landa sinna við mótlæti.

Crash

Við rekumst öll á. Líkingarlega og bókstaflega. Í snilldarmynd Paul Haggis, Crash, er niðurstaðan rasismi. Í öðrum kringumstæðum hefði hún getað orðið kynjamisrétti, stéttarfordómar eða eitthvað annað. Er auðveldara að hata hóp manna en einstakling? Er auðveldara að hata einhvern sem þú getur á einhvern hátt framandgert – sem surt, konu eða yfirmann? Til þess að blinda þig fyrir því sem þið eigið sameiginlegt.

Líklega er lykillinn að geta dregið skynsamlega ályktun af heimsku annarra – en venjulega leiða heimskulegar gjörðir að heimskulegum ályktunum.

Napoleon Dynamite

Ótrúlega var Napoleon Dynamite vond bíómynd. Ókei, fyrst við erum að tala um nördamyndir þá er hægt að minnast á snilld á borð við Rushmore en það er í rauninni nóg að minnast á Revenge of the Nerds. Mynd sem er tæknilega séð ótvírætt vond en engu að síður skemmtileg. Ef þú ert með ofurnörda í bíómynd þá á einfaldlega ekki að vera hægt að klúðra því jafnvel þó þú dettir í allar klisjusúpurnar. Gallinn við Napoleon Dynamite er hins vegar sá að þú skilur alltof vel af hverju Napoleon er barinn – og maður er sjálfur miklu líklegri til þess að berja hann heldur en nokkurn tímann að hlæja að honum.

Byrjun

And so it is ...

þriðjudagur, júní 28, 2005

Kvöldið hans Eiríks

Eiríkur Jónsson fékk að njóta sín í báðum eftirfréttaþáttum kvöldsins.

Eiríkur Jónsson vinnur við fjölmiðla sem eru bestir af því þeir tala til fólksins. Hvaða óskilgreinda massa af fólki hann er að tala um veit ég ekki, ég veit bara að það lesa færri DV en nokkuð annað dagblað landsins.

Hins vegar gerir það hluti ekkert betri þó það sé talað við fólkið. Nasistarnir töluðu við fólkið. Ólíkt Eiríki Jónssyni voru þeir góðir í því. Því miður.

Það var heldur ekki fólkið sem ákvað að gefa út Hér og nú heldur fjölmiðlamógúlar í Skaftahlíð.

Sú staðreynd að til séu blöð úti sem eru jafn vond er engin afsökun fyrir að gefa út vond blöð hér. Í það minnsta eru þau blöð ekki svo illa haldin að afsaka sig með því að svona geri menn jú á Íslandi.

Eiríkur reynir að halda því fram að fréttamennskan sem blaðið stundi sé óhefðbundin. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta er afskaplega hefðbundinn plebbaskapur. Rétt eins og karlaklúbbarnir og fermingarveislurnar sem Eiríkur sækir – nema ef vera skyldi að eingöngu þeir plebbalegustu nenni að tala við hann þar.

Eiríkur Jónsson fullyrðir að meintur viðmælandi hans – sem hafði gagnrýnt vinnubrögð hans við meint viðtal – sé einfaldlega rugluð og geri fátt annað en að ljúga. Teljast það sem sagt marktækir heimildamenn sem eru ruglaðir og gera fátt annað en að ljúga? Nógu marktækir til að byggja heila forsíðufrétt á?

Eiríkur talar fjálglega um það ábyrgðarlausa fólk sem hleypur frá börnum með allt niðrum sig - en á þó aðeins við fólk sem er fráskilið, alveg óháð því hvernig það sinnir börnunum sínum. Eiríkur Jónsson er fráskilinn.

Umræður spinnast um það í Íslandi í dag hvort þetta sé innanhúsmál 365 eða mál sem varði alla fjölmiðla. Eiríki finnst þetta prívatmál sem á að ræða í reykpásum hjá 365 - hins vegar er það forsíðufrétt þegar Bubbi kveikir sér í rettu.

Eiríkur fullyrðir að málið virðist ekki varða alla fjölmiðla enda sé aðeins talað um þetta hér innanhúss (á fjölmiðlum 365). Korteri seinna er hann mættur í Kastljós Ríkissjónvarpsins að ræða sömu hluti.

Eiríkur afrekar það í Kastljósinu að misnota fleiri spakmæli á um hálftíma en áður var talið mögulegt.

„Þú ert fulltrúi hræsninnar“ – segir holdgervingur hræsninnar.

Símon Birgisson er einhver vandaðasti maður sem Eiríkur Jónsson hefur kynnst. Menn sem Eiríkur Jónsson hefur kynnst íhuga meiðyrðamál.

Helga Vala fékk helling af rokkprikum fyrir að jarða Eirík Jónsson með aðra hendi aftan við bak.

Eiríki Jónssyni tókst að láta Kristján Jóhannsson líta vel út.

föstudagur, júní 24, 2005

Spegillinn

Mér datt aldrei í hug að ég myndi segja þetta en pistill Bloggþórsins í Speglinum var bara reglulega góður. Hann hefur líklega fyllst svona mikilli andagift við það að vera á eftir systur minni í útsendingu. Þið getið hlustað hér.
Kastljósið í kvöld fannst mér sorglegt. Þrír viðmælendur, allt vel skarpir einstaklingar og allir tengdir listum – en umræðan er öll á markaðsnótunum. Eru viðskiptafræðingarnir búnir að selja bóhemunum sína orðræðu? Hvað varð um byltingarnar, hugsjónirnar og rokkið? Vissulega er þetta ennþá til staðar en þetta virðist vera orðið óttalegt feimnismál.

Opið bréf til Svíakonungs

Kæri Karl Gustav,

Ég veit þú lest þetta reglulega, værirðu nokkuð til í að splæsa á mig sænskum ríkisborgararétti í eins og eina kvöldstund? Ég lofa að skila honum aftur á morgun.

Hvernig sér maður að stúlka sem gengur inní strætó sé útlensk?

Hún byrjar á að spjalla grunsamlega lengi við bílstjórann. Síðan gengur hún inní vagninn, nóg af lausum sætum, en samt sest hún beint á móti gömlu konunni sem er í tvöfalda sætinu. Gamla konan er alveg sjokkeruð á þessari innrás í hennar persónulega strætórými og færir sig um eitt sæti.

Gíslataka

Dreymdi að ég væri staddur á hóteli sem var búið að taka í gíslingu. Michael Stipe var einn af gíslatökumönnunum. Var orðinn nett pirraður á kallinum og var að spá hvort ég ætti að gefa honum einn á lúðurinn eða fara niðrí herbergi og brenna alla REM diskana mína. Ákvað að líklega væri betra að gefa honum einn á lúðurinn. Er svo að frétta að síðasta færsla, sem var skrifuð undir lögum REM, hafi birst í DV. Einhver fjölmiðlaglöggur draumráðandi þarna úti?

fimmtudagur, júní 23, 2005

At My Most Beautiful

Er að taka til þessa dagana, tek stuttar tarnir í einu. Þarf nefnilega alltaf að skoða svo mikið í leiðinni, rifja upp. Núna eru það minnisbækurnar. Þær eru eitthvað takmarkað skipulagðar þannig að maður veit aldrei hvaða ár er fyrr en eftir að hafa lesið eitthvað smáræði. Oftast er maður þó úti, hérna heima eru minnisbækurnar alltof fastar í vasanum.

Michael Stipe hummar undir At My Most Beautiful. Hvenær var ég mest ég? Eða öllu heldur; hvenær náði ég sjálfum mér best í minnisbækur? Og er ég að leita að sjálfum mér eða einhverjum sem ég þykist vera eða vil vera? Samkvæmt minnisbókunum eru helstu einkennin blankheit, þessi útlenski einmanaleiki og biðin eftir að lífið byrji. Svo eru náttúrulega góður skammtur af aulabröndurum, heimilisföngum sem ég þurfti eitt sinn að finna og lestaráætlanir svo ég gæti nú örugglega rétt misst af lestunum. Það er algjör óþarfi að vera hálftíma of seinn þegar maður getur verið mínútu of seinn.

Nightswimming tekur við. Það er einmitt það sem vantar í þetta sumar. Að nóttin verði óútreiknanleg.

mánudagur, júní 20, 2005

Elísabet Bretadrottning er búin að kaupa sér ipod. Það merkilegasta við fréttina er þó samt sú staðreynd að þetta er undir liðnum "unga fólkið" á vef rúv.

fimmtudagur, júní 16, 2005

Það stendur Red Barnet: Save the Children Denmark á pennanum mínum. Hef ekki hugmynd um hvar ég fékk þennan penna, en Starra er a.m.k. bjargað frá Baunverjalandi í bili. Stefnan er því á bolta á lördag, veðrinu er skipað að vera gott. Ég meina, rigningin getur fengið næga útrás á morgun enda lögbundinn rigningardagur. Ekki það að ég mótmæli því neitt að veðrið sem er núna haldi sér, rosalega var ljúft að þvælast niðrí bæ áðan að gera akkúrat ekki neitt.

Missing people

Blogg um ímeil

Það er fátt ömurlegra heldur en þegar maður týnir ímeilum útlendinganna sinna eða þau hætta að virka (Það er alltaf hægt að finna Íslendinga í símaskránni). Nema ef vera skyldi allir þeir sem maður hafði ekki vit á að fá ímeil hjá. Brassinn Casio sem ég flakkaði um Berlín með (var búin að fá nóg af honum eftir stanslausar þriggja daga samvistir en saknaði hans náttúrulega eftir klukkutíma), Slóvenarnir Natalije og Sasja, Anka pólska, Kanadísk-tékkneska parið sem ég bjó með í Zizkov, Vera í Prag, þýðverja/belgagengið þar, Bodil og Amalia ...

en allavega, dreif mig í að meila útlendingunum mínum öllum fyrir stuttu. Meilaði líka þeim sem voru orðnir óvirkir, svona af gömlum vana. Og viti menn, haldiði ekki að ég hafi fundið Charlie og Valentinu aftur. Netfangið Valentinu hafði verið óvirkt en var skyndilega orðið virkt aftur, stelpan orðin mamma og allt í lukkunar velstandi í Udine, enda sér Vale um að redda innflytjendum húsnæði. Gott að vera ekki búin að týna síðustu manneskjunni sem ég fór til Auschwitz með og spáði fyrir mér undir súð í Kraká með Wyborova vodka og Prins Póló í maganum.

Charlie vissi ég að var komin með nýtt meil en sú adressa var grafin í tölvu sem crashaði á Króknum. En fann svo adressuna nýju eftir krókaleiðum og gamli brúarsmiðurinn er núna í Leicester á milli þess sem hann flýgur til Asíu fyrir háskólann sem hann vinnur hjá að reyna að telja þarlendum trú um hvað breska menntakerfið sé æðislegt. Í gamla daga vorum við Charlie í tékkneskutímum saman (ehemm, hóst, stun) og kíktum venjulega á Radegast á eftir – og horfðum á Spörtu Prag taka Barcelona í kennslustund í Meistaradeildinni. Verst að þeir töpuðu.

Svo kom meil frá Piotr, herbergisfélaga mínum á Vétrník, götu vindanna, sem var auðvitað ánægður með landa sinn Dudek. Annars er Pési mest upptekin við það að kenna útlendingum pólsku og lesa pólskar hip-hop vísindaskáldsögur. Jack sendi póst frá Egyptalandi þar sem hann var að þykjast vinna eitthvað. Fyrir þá sem ekki vita er Jack þekktari undir nafninu Volcano Ernie og var annar helmingur merkasta brandaratvíeykis sem nokkurn tímann hefur búið á Gamla garði. Fyrir utan að búa til helvíti góðar chips klukkan fjögur á föstudagsnóttum. Ofurhetjunafn hins helmings tvíeykisins var Crazy Icelandic Person.

Þá má ekki gleyma sjálfskipuðum sálfræðingnum mínum í Oxford. Ilona sér náttúrulega um dramatíkina eins og venjulega. Ennþá afskaplega ástfanginn af Kýpverska stjörnufræðingnum Kostas og staurblönk í Oxford. Sem sleppur alveg því hún borðar eins og kanína.

Tékknesk-Ástralska kengúran Elka skrifaði óvenju stutt bréf (by her standards) og var ennþá að vinna í Radio Australia og nudda fólk í hjáverkum. Jim er í Þýskalandi að klára skáldsögu og kenna ensku. Þau voru einmitt bæði gjörn á að villast með okkur Charlie á Radegast eftir, ehemm, tékkneskutíma.

Svo reikna ég með árlega tölvupóstinum frá Carsten bráðlega, síðast þegar ég vissi var hann að vinna í súkkulaðiverksmiðju eða að þvælast um S-Afríku. Man ekki hvort var á undan ... Jamie var einmitt einhversstaðar þar síðast þegar ég vissi. Þeir voru náttúrulega sidekickin okkar Jacks á Gamla garði. Svo var Karl heima í Ástralíu að surfa, Leos hálfónýtur í Prag og Manuel í ástarsorg á Spáni. Karl vann með mér í Sölden við að bera matarbakka í burtu frá fullum Austurríkismönnum – sömu matarbakka og við renndum okkur svo niður alpana á seint um kvöldið til þess að komast í fótbolta eða á pöbb, svona eftir atvikum. Leos er fyrrverandi Ilonu og besti sénsinn minn á frírri gistingu í Prag. Tékkar eru frábærir fyrrverandi. Manuel var á Gamla garði, solid spánverji sem ég komst að löngu seinna að allar stelpurnar voru brjálaðar í. Ég sem hélt við Cesar værum með það coverað. Cesar var einmitt síðast þegar ég vissi í Finnlandi, meilið hans er löngu dautt. Sarah kann ekki á tölvupóst en Karl ætti að geta komið mér í samband við hana við tækifæri. Mathias geymi ég ennþá sjóarahandklæði fyrir, Jesse er væntanlega í New York sem fyrr og Lúkas er væntanlega á skíðum í Póllandi – það kæmi á óvart ef ég heyri nokkurn tímann í þessum þrem snillingum aftur. En samt ekki nærri jafn mikill missir og ef ég hefði týnt Charlie eða Valentinu.

Gróf svo nú í gær upp meilið hans Padraic sem er í Dyflinni að klippa stuttmyndir. Á heimboð þar.

afskaplega samhengislaus færsla, ég veit, en það er einmitt málið, maður er svo dreifður eitthvað. Allir að fara eitthvað annað, nema ég sé sjálfur að fara. Hef aldrei fattað almennilega hugtakið vinahópa, mínir eru út um allt og ansi langt frá því að vera einhver hópur. Ótrúlegasta fólk sem hefur aldrei séð hvort annað.

miðvikudagur, júní 15, 2005

Alvöru mótmæli

Ég skil ekkert í því hvernig fjölmiðlar landsins halda ekki vatni yfir þessari saklausu skyrslettu. Ekki vakti neinn því athygli seint á síðustu öld þegar við í Garðræktinni fórum í heilagt stríð við óaldalýðinn sem vann á Leikskólunum. Þá var skyr nú með saklausari vopnum, mygluð mysa, eldgömul tabascosósa og annað miður girnilegt og löngu útrunnið sem við fundum aftast í ísskáp foreldra okkar voru helstu vopnin. Og við létum ekki eina auma slettu duga enda þurftum við að mótmæli óréttlæti gervallrar heimsbyggðarinnar. Eða að minnsta kosti þangað til einhver ábyrgur góðborgari hringdi niðreftir að kvarta yfir okkur.

þriðjudagur, júní 14, 2005

Útsmogið markaðsbragð

Maður hefur líklega séð frétt um meint samband Angelinu Jolie og Brad Pitt á hverjum degi síðasta árið eða svo. Fréttirnar eru alltaf eins. Slúðurblöðin (og með slúðurblöðunum á ég vitanlega við Fréttablaðið og Moggann enda fæ ég mest mitt slúður þaðan) eru algerlega sannfærð um að þau séu saman þrátt fyrir að þau bæði sem og allir þeim nátengdir þræti eilíflega fyrir það - ef þeir á annað borð tjá sig um málið. En nú er skyndilega fullyrt að þau séu ekkert saman heldur hafi þetta allt saman verið markaðsbrella af þeirra hálfu. Að segjast ekki hafa verið saman til þess að láta líta út fyrir að þau séu saman til að ... Já, ég held að slúðurfréttamennskan hafi náð nýjum hæðum með þessari grein Fréttablaðsins í dag.

Að lokum er rétt að taka fram að við Angelina Jolie erum ekki saman.

Tiltekt og rán

Hérna er frétt um þjóf sem ógnaði fólki með skrúfjárni. Hvað sagði maðurinn eiginlega þegar hann gekk inn? Réttu mér alla peningana eða ég skrúfa þig í sundur?

Annars er ég að þykjast taka til - sem gengur hægt af því ég er alltaf að finna einhverja skondna hluti. Nú síðast rakst ég á bréf, 4 síður, skrifað á pappír, handskrifað. Í alvöru, ég lýg þessu ekki, svona lagað gerði fólk í gamla daga.

fimmtudagur, júní 09, 2005

Pabbi gamli er í heimsókn, gistir hérna þangað til hann fer til Kanada á morgun. Þegar ég var að rjúka út í morgun áttaði ég mig á því þegar ég var að beygja út úr Öldugötunni að ég hafði tekið vitlausan jakka. Það er vissulega áhyggjuefni hvað jakkinn hans pabba er líkur mínum - þannig að spurningin er einfaldlega: er ég svona mikill lúði eða á ég bara svona svalan pabba?

Byrjun

Mikið af fölskum byrjunum þessar vikurnar, blábyrjunum. Kannski sumar þeirra séu ekta, ég er bara svo vanur þeim fölsku að ég reikna með þeim. Dugar kannski að ein eða tvær séu ekta ef það eru þær réttu. Enda er vor ennþá, sumarið á eftir áætlun þrátt fyrir helgarferð síðustu helgi, enn ein fölsk byrjun eða verður þetta alvöru núna?

miðvikudagur, júní 08, 2005

And here's to you Mrs. Robinson.

Dustin Hoffman valdi augljóslega vitlaust í lokin ...

þriðjudagur, júní 07, 2005

Járnfrúr og ofsatrúarklappstýrur

Í morgun mætti ég ungri stúlku sem signdi sig í gríð og erg og kastaði höfðinu dramatískt aftur í hvert skipti, hún leit út eins og ofsatrúarklappstýra. Síðan var ég áðan á Kaffi Vín þar sem öll goth-wannabe landsins undir tvítugu virtust hafa safnast saman og þau virtust öll vera að taka upp pakka. Fannst þetta allt saman mjög dularfullt en áttaði mig svo á því að jólin hjá þeim eru náttúrulega núna enda Iron Maiden tónleikar í kvöld. Mig grunar að það útskýri líka ofsatrúarklappstýruna.

mánudagur, júní 06, 2005

Ljóð frá síðustu öld

af gefnu tilefni var ég að rifja þetta upp, rúm tíu ár síðan þetta var skrifað en þessi síða hefur nú aldrei snúist um það að vera up to date. Þá var líklega Ráðhústorgið góða nafli alheimsins. Skrítið hvernig tíminn líður. Akureyri er samt ennþá staðurinn, vissulega, bara meira í þátíð eins og er.

Föstudagsnótt

Það er föstudagsnótt
himininn er blár
þó að það sé vetur
og ég sé fólk,
pylsuvagna,
bíla,
fugla
og ljósastaura

Það er öruglega einmanalegt að vera ljósastaur
þeir eru aðeins nokkrum metrum frá næsta ljósastaur
en þeir geta aldrei snert hann,
faðmað hann

eða þá að vera pylsa
einn blautur koss,
svo allt búið

Ég fer að hugsa málið...
ég er líklega einhvorskonar blanda
af ljósastaur og pylsu,
ljósastaur í pylsubrauði

eða kannski er ég fugl,
fugl sem getur ekki flogið
af því að hann er með brotna vængi

Já,
ég er líklega bara vængbrotinn fugl,
sem líður eins og ljósastaur
í pylsubrauði

...eða kannski er ég bara búinn að drekka of mikið?

sunnudagur, júní 05, 2005

Sleepless in Reykjavík

Rosalega gengur eitthvað takmarkað að sofa þessa helgi, næ ekki fjórum tímum í einu. Ég meina, hvað á maður eiginlega að gera klukkan tíu á sunnudagsmorgni annað en að sofa? En helgin hefur verið ágætlega góð. Nokkur tóndæmi:

Kíkti til Ella þar sem við og fleiri reyndum að hjálpa Arndísi að finna ástina með sms-skeytum. Tæknin maður, tæknin.

Hvað sem hægt er að segja um Sylvíu Nótt (og það er líklega flest slæmt) er þátturinn hennar kjörinn fyrir drykkjuleiki.

Það er erfitt að vera andpólitískur á bar. Ef maður talar hlutlaust um einhvern flokk er reiknað með að maður styðji hann. Held samt að það hafi komist á hreint að mér er illa við viðkomandi flokk, enda er mér almennt illa við flesta flokka. Nema þá sem hafa ekki verið stofnaðir ennþá. Og þá sem heita eftir mér.

Varð hugsanlega óvart valdur að stofnun Forleiksflokksins. Pre-Ásterisma flokkurinn var ekki að virka jafn vel.

Maturinn á Caruso er allsvakalega góður. Svo veit ég núna hvar víngeymslan þeirra er.

Maður þarf bara að vera í tvær mínútur inni á Ara í Ögri til að týna öllum.

Maður finnur annað fólk á Grand Rokk.

Maður týnir því líka seinna.

Trabant eru góðir á sviði en ég náði bara endanum.

Þýskukennarar eru skyndilega byrjaðir að þamba kók.

Umsjónarmenn Stundarinnar okkar drekka líka. Sakleysið er týndur gripur ...

Ég kom því aftur í tísku að sitja úti á Kaffibarnum. Næsta sem maður kemst útlöndum án þess að fara.

Ég var þrisvar minntur á borgina mína. Ég er búin að vera of lengi í burtu.

Svo er allt hitt sem gerðist kannski bara í hausnum á mér.

fimmtudagur, júní 02, 2005

Háspekileg blótsyrði

Ísfirski næturvörðurinn er ritskoðaður í nýjasta Grapevine, ekkert alvarlega, bara það að fuck verður að f%&$. Áttaði mig svo skyndilega á því að þessi útgáfa fokksins er í raun háspekileg myndagáta, prósentur og dollarar hverfast gildishlaðið utan um blótsyrðið þannig að það fær alveg nýja vídd. Við erum öll hórur á prósentum hjá Kananum þar sem ástarlífið er orðin af ofnotuðu ofskilgeindu blótsyrði. Annars er ég að hugsa um að hringja í Kolbein kaftein og biðja hann að útskýra þetta betur fyrir mér.

Annars er rétt að benda öllum á, nei, skipa öllum að lesa leiðarann í Grapevine, þar sem hinir svokölluðu fjölmiðlar Íslands fá rækilega og verðskuldað á baukinn.

Hungry Hippos

Mig langar í flóðhest. Það væri afskaplega fallegt að sjá stöku flóðhest á beit umkringdan rollum þegar maður æki eftir þjóðvegum landsins. Annars gleyma þeir samt alveg að taka fram í svarinu á vísindavefnum að flóðhestar eru mannskæðustu skepnur Afríku.

mánudagur, maí 30, 2005

Þrælakistur Íslendinga

Þegar ég var í unglingavinnunni fyrir fimmtán árum þá fékk ég 7 eða 8 þúsundkall á tveggja vikna fresti fyrir það að reita arfa (eða þykjast reita ímyndaðan arfa) og gera fleira skemmtilegt í 3 tíma á dag. Mér fannst það ekki mikið þá og mér finnst það óskiljanlega lítið núna. En það er eitthvað svipað og fullorðin Kínverji fær á mánuði fyrir að vinna sextíu tíma vinnuviku fyrir alla góðu Íslensku auðjöfrana í Qingdao nú fimmtán árum af verðbólgu síðar.

Formúlan fyrir því að nýta sér alþjóðavæðinguna til að græða pening er einföld. Annað hvort að flytja inn ódýrt vinnuafl frá fátækari löndum sem um leið þýðir að innlendir verkamenn hafa ekki tök á að semja um jafn há laun og annars. Eða hreinlega fara þangað sem þetta ódýra erlenda vinnuafl er og vinna vöruna þar, til þess að bregðast við því þá þurfa væntanlega innlendu verkamennirnir að lækka við sig í launum til þess að vera samkeppnishæfir. Og tryggja að þrátt fyrir allt vinnuaflið í milljarðaríkjunum ríku þá haldist meirihluti fjármagnsins sem fyrr í heimi númer eitt.

Kynþáttafordómar eru almennt taldir mestir meðal lægst launuðu stéttanna. Það eru engir alþingismenn í félagi þjóðernissinna. En í raun er þetta aðeins sýnilegast þarna, rasistar í verkalýðsstétt smellpassa í ímynd okkar af rasistum, þeir básúna um ágæti eigin kynþáttar og tala illa um hina, beita þá jafnvel ofbeldi. En í raun eru þeir aðeins að enduróma raunverulegt álit framámanna þjóðfélagsins. Kynþáttafordómar eru ósköp eðlileg niðurstaða þegar þeir sem hafa völdin sjá útlendinga fyrst og fremst sem markaðstækifæri, ekki sem fólk með sögu og menningu sem mætti læra af. Það sorglega er að sjálfur forseti landsins virðist hafa slegist í lið með þeim.

Alþjóðavæðingin er í raun sem slík mjög jákvætt fyrirbæri, enda eru landamæri einhver ömurlegasta uppfinning mannskepnunar. En það eru ennþá leikreglur til staðar í alþjóðavæddum heimi og það vantar ansi mikið uppá að þær séu sanngjarnar.

Mæli svo með fínni grein Guðna Elíssonar um þetta í síðustu Lesbók (síða 2) sem var vissulega kveikjan af þessu ranti öllu.
Stundum getur tölfræði í fótbolta verið ótrúlega skemmtileg. Dæmi:

Wayne Rooney, Alan Smith, Ruud van Niestelrooij og Louis Saha voru keyptir til Manchester United fyrir um 65 milljónir punda. Þeir skoruðu samtals 24 mörk í vetur. Diego Forlan var seldur frá Manchester United fyrir 2,5 milljónir punda. Hann er búin að skora 24 mörk í vetur.

laugardagur, maí 28, 2005

Note to Self

Passa að lið sem kemur í heimsókn fari ekki að fikta í msn-inu. Annars er hætt við að aldraðir foreldrar hringi í öngum sínum og haldi að ég hafi komið út úr skápnum alveg án þess að láta þau vita. Annars var þetta náttúrulega ekkert annað en óskhyggja í Eddie.

föstudagur, maí 27, 2005

Tímabelti

Grafarvogsbúinn Eddie Spænski ætlaði að kíkja hingað klukkan hálf í bjór. Tekur sérstaklega fram að hann sé venjulega fashionably early. Hringir svo auðvitað klukkan hálf og segist hafa verið að klára að borða og sé á leiðinni. Sem sannar náttúrulega bara að 101 er í allt öðru tímabelti.

Sálgreining og býflugur

Er að spá í leiðbeinendum fyrir MA - verkefnið. MA - verkefnið í minni grein er í eðli sínu þverfaglegt og það er vesen þegar maður ber ábyrgð á því að velja leiðbeinandann sjálfur. Þetta var miklu einfaldara með BA - ritgerðina þegar ég var búin að sálgreina alla sem komu til greina. Fólkið sem ég er að spá í núna hef ég í mesta lagi talað við í tíu mínútur, þá sem ég hef hitt.

En það er náttúrulega bara meira challenge fyrir sálgreiningarhæfileikana ... annars gleymdi ég að segja ykkur að ég drap býflugu í morgun sem villtist hingað inn og vakti mig. Sumarið komið? Hún má þó eiga það að það voru minni læti í henni en nágrönnunum í kjallaranum þegar þeir vekja mig. Enda myndi ég berja þá með Mogganum líka ef þeir laumuðust hingað inn.
Ég var búin að gleyma hvað Sopranos er ótrúlega slappur þáttur. Af hverju halda allir að ódýrar stereotýpur séu djúpar um leið og umfjöllunarefnið er mafían? Það versta var að þátturinn í kvöld var ágætur framan af þangað til að honum var slaufað á ótrúlega billegan hátt.

þriðjudagur, maí 24, 2005

Mig langar að vera borgarstjóraefni

Er maður nokkuð maður með mönnum þessa dagana nema maður lýsi þessu yfir opinberlega?

mánudagur, maí 23, 2005

Helgin

Besta Star Wars-mynd frá upphafi vega, Arsenal bikarmeistari, gervallt uppalið Íslands í sárum eftir Júró og Gísli Marteinn lýsir keppninni aldrei aftur. Svona eiga helgar að vera. Svo fór ég náttúrulega á Krókinn á föstudag, búinn að vera á leiðinni í allan vetur. Þetta var bara mjög fínt þangað til þau byrjuðu að syngja, þökk sé Júdas. En náði að bjarga því fyrir horn með hvítrússnesku bolsévíka rödduninni sem ég uppgötvaði um kvöldið. Því miður var það ekki nóg til að þagga niðrí þessum elskum, en allavega ... Já, og svo benti þýskukennarinn mér á að ég væri að syngja síðasta sigurlag þeirra í Evróvisjón sem "örlítill friður, örlítið sæði" sem mér finnst nú bara fallegt og viðeigandi þegar maður hugsar útí það. Síðan hafa þau öll elst allsvakalega á einu ári, eftir grillveisluna í Fljótunum þá var ég eini maðurinn sem hafði orku í að fara á Kaffi Krók. Lét því miður ekki verða af því að skreppa einn, þó ekki væri nema til þess eins að banka svo uppá hjá vistarverðinum klukkan sex að morgni.

föstudagur, maí 20, 2005

Sauðárkrókur, Akureyri

You want to begin again.
Pretend you're innocent.
If you believe,
you can convince yourself.
I'm sure you can convince yourself.

This town never gave you much back.
Just rumors and a whispering attack.
This town is not your friend.
Never mind the loose ends.

Take me with you when you go now.
Don't leave me alone.


- Morphine

Fer á Krókinn í fyrramálið, hef ekki kíkt í heimsókn síðan síðasta vetri lauk. Vantar örfáa daga uppá árið. Síðan heim til Akureyrar, þaðan hef ég ekki komið síðan um jól. Er sem sagt búin að eyða alltof löngum tíma í þessari ekkisens borg sem sumarið þykist stundum ætla að heimsækja.

Annars ýmislegt forvitnilegt í farvatninu. Er hins vegar alltof hjátrúarfullur til að greina frá því, vil ekki grugga farvatnið með sviknum loforðum. Þangað til, Stjörnustríð, Eurovision og Drangey. "Anakin, I'm your father." Það má alltaf vona. Já, og Kaffi Krókur auðvitað. Það verður dansað en vonandi ekki sungið.

Íslendingar

Íslendingar þegar þeir vinna ekki eitthvað:

Við skiljum bara ekkert í þessu, af hverju elska ekki allir okkur? Af hverju eru Austur-Evrópa full af öllu þessu vonda fólki sem kýs okkur aldrei heldur kjósa bara hvort annað? Ekki gera Norðurlöndin svona ... Já, og svo er þetta bara helvítis sirkus. Nema að í sirkus er hellingur af ljónum og fleiri skynsömum skepnum sem bíta hausinn af þér ef þú stendur þig ekki eða ert í asnalegum fötum.

Fyrir utan það að fáir hafa jafnmikinn áhuga á þessum sirkus og einmitt Íslendingar.

Sem dæmi:

Hvað eru margir fjölmiðlamenn héðan á Eurovision?

og hvað eru margir fjölmiðlamenn héðan á Cannes?

Og hvort mun fólk frekar muna eftir Selmu eða Degi Kára eftir hundrað ár? Æ, ég veit það ekki. Eins og stemningin á þessu skeri er stundum þá hef ég mestar áhyggjur af því að við eigum bara eftir að muna eftir Gísla Marteini.

miðvikudagur, maí 18, 2005

Star Wars í réttri röð

Starf á videoleigum er væntanlega ekkert brjálæðislega vel borgað þannig að það er líklega óþarfi að gera óþarflega miklar kröfur til starfsmanna, til dæmis er ekki óalgengt að þurfa að stafa nöfn mynda ofan í starfsmennina. En þegar viðkomandi starfsmaður er ekki alveg að átta sig á hvaða mynd þessi Phantom Menace er þá er fokið í flest skjól. En myndin fannst þó þannig að nú er kominn tími á að horfa á Stjörnustríð loksins í réttri röð. Þá er bara að vona að 3 kafli verði jafn góður og af er látið. Núna er ég hins vegar að vona að ég hafi misskilið Krukku Krukku á sínum tíma.